Leita í fréttum mbl.is

Auglýst eftir raunverulegum úrræðum í stað sjónhverfinga

Heimilunum í landinu er ætlað að taka á sig óbætt alla hækkun á höfuðstóli lána sinna, þó öllum nema stjórnvöldum, örfáum aðilum innan fjármálafyrirtækjanna og einhverju Samfylkingarfólki sé ljóst, að það sé út í hött.  Hinn gallharði stuðningur Árna Páls Árnasonar og hans fólks við fjármálafyrirtækin og afstaða þeirra gegn fólkinu í landinu er stór furðuleg í ljósi þess, að á fundi 16. september kynnti ráðherra fyrir fólki í svo kölluðum Ákallshópi, þ.e. fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna, Búseta á Norðurlandi, Húseigendafélaginu (hafa síðan dregið sig út úr hópnum), Félagi fasteignasala, talsmanns neytenda og lögmönnum Laugardal, tillögur sem voru mun hagstæðari heimilum landsins.  Þær tillögur fólu í sér að flytja öll fasteignalán til Íbúðalánasjóðs og meðhöndla þau þar með niðurfærslu höfuðstóls lánanna í huga.  Þetta var greinilega áður en fjármálafyrirtækin fengu að tjá skoðun sína.

Heimilin í landinu vilja sjá úrræði sem duga.  Úrræði sem virka strax og lækka greiðslubyrði til langframa.  Úrræði sem létta frostinu á fasteignamarkaðnum.  Úrræði sem viðurkenna að haft hafi verið rangt við.  Úrræði sem taka á forsendubrestinum sem varð vegna fjárglæfra fjármálastofnana og eigenda þeirra.  Það var brotist inn til okkar og við viljum að þýfinu sé skilað.  Við viljum ekki sjónhverfingar heldur raunveruleg og varanleg úrræði.


mbl.is Ráðherra telur úræðið gott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Fyrst rætt er um frost á fasteignamarkaði mæli ég með þessu: Iceland: Real estate market November 20 2009

Þarf að skrá sig inn en með þessu móti geta áhugasamir fylgst með stöðunni eins og hún breytist. Þetta eru 3, 6, 9, og 12 mánaða meðaltalsbreytingar á veltu:

  • samtals
  • á höfuðborgarsvæðinu
  • Akureyri
  • Árborg
  • á Suðurnesjum

Vara við að útlestur á þessum tölum þarfnast aðgátar þar sem sumar innihalda sjálft hrunið. 3. mánaða meðaltal er þó á stöðugri uppleið. Þegar við förum að sjá 6 og 9 mánaða meðaltölin hreyfast upp er fasteignamarkaðurinn líklega að lifna eitthvað við (og hér þarf aðgát þar sem lítið þarf til að staðan fyrir desember 2009 sé betri en desember 2008 þegar allt fór í hundana).

Snorri Hrafn Guðmundsson, 20.11.2009 kl. 16:05

2 identicon

Já og þegar maður hugsar út í það sé félagsmálaráðherra
sem er varðhundur þess að ekki megi leiðrétta forsendubrest lána vegna bankahrunsins og í ríkistjórn sem ætlar að kenna sig við jöfnuð og norrænt velferðarsamfélag! af hverju er ekki fjármálaráðherra að verja þessar gerðir ríkistjórnarinnar og þá staðreynd að banka brjálæðið á að leysa á okkar kostnað?

VJ (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 16:35

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Marínó G. Njálsson. Mér hefur oft blöskrað málflutningur þinn varðandi "vanda heimilanna" en þú hefur fyrir löngu kjörið sjálfan þig, og eflaust fengið stuðning margra, til að fara fyrir flokki sem ætlar að hjálpa þeim sem í vanda eru staddir. En flest af því sem ég heyri frá þér er pólitík, þú ert fyrst og fremst í pólitísku stríði við núverandi Ríkisstjórn, virðist vera einn af þeim sem notar ástandið til að skriða upp eftir baki óánægjunnar.

Ég er orðinn nokkuð aldraður og hef marga fjöruna sopið, sat við hlið fógetans þegar hamar hans skall á stofuborðinu heima hjá mér og þar með missti ég húsið sem ég hafðu unnið hörðum höndum við að koma upp. Síðan eru liðin 25 ár. Ég neitaði að fara gjaldþrotaleiðina, við hjónin börðumst við að greiða okkar skuldir og það tókst, þó lengi væru skuldir hærri en eignir, en svo er ekki í dag. 

Ég er með lán í Íslandsbanka, helmigur ísl. kr. og helmingur myntkarfa. Ársfjórðungs afborgun var komin upp í 255.000 kr. á sl. vetri. Þá fékk ég skuldbreytingu hjá bankanum, afborgunin er nú um 185.000 og okkur viðráðanleg.

Svo segir þú og fleiri að ekkert sé gert til að hjálpa fólki.

Það er verið að gera svo margt í þá áttina. En við skulum ekki gleyma því að sumir höfðu farið svo óvarlega með peningaglýju í augum að þeir hefðu farið yfirum þó ekkert hrun hefði orðið.

Það verður ekki öllum bjargað.

Ég ber litla virðingu fyrir "lukkuriddurum" eins og þér sem eru fyrst og fremst að vekja eftirtekt á sjálfum sér og reka óvandaða pólitík undir huliðshjálmi.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 20.11.2009 kl. 17:15

4 identicon

Sigurður Grétar það ágætt að þú hefur komist að samkomulagi við bankann þinn og getur staðið ágætlega í skilum, að þú hafir rifið þig upp úr erfiðum fjárhagslegum vandræðum hér áður. En ég sé bara ekki að það komi málinu nokkurn skapaðan hlut við.

Þessi ágæti banki sem þú komst að samkomulagi við hefur hagað sér með óábyrgum hætti á undanförnum árum og á stóran þátt í því ófremdarástandi sem nú ríkir og ég sé ekkert sérstaklega frómt né manneskjulegt við það þó að hann lækki hjá þér greiðslubyrðina. En auðvitað hefði hann á að viðurkenna ábyrð sína á því að greiðslubyrðin hjá þér var þér um megn og lækka höfuðstólinn.

Þú hamast hér á ágætum manni sem hefur verið óþreytandi við að benda á óþægilegar staðreyndir um þá skjaldborg sem okkur var lofað í febrúar á þessu ári. Er það  semsagt bannað að hafa aðra skoðun en félagsmálaráðherra á skuldavanda heimilanna og hvaða leiðir séu færar til að leysa hann.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 17:29

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður Grétar, ekki er ég í þessu af pólískum ástæðum.  Þær eru efnahagslegar og til varnar lífsgæðum mínum og barnanna minna.  Þannig að ég hafna þessum hluta málflutnings þíns. 

Ekki kaus ég sjálfan mig til verksins, heldur sit í stjórn samtaka sem standa í baráttunni.  Vissulega tala ég í mínu nafni hér á bloggsíðunni.  Nú ég hef fengið mikinn stuðning og hvatningu frá lesendum hér í gegn um tíðina og líklegast ert þú númer 10 sem talar á þessum nótum. 

Málið er að þú hefur val.  Þú getur valið, að lesa ekki það sem ég hef að segja eða lesa það ekki.  Fari það í taugarnar á þér, þá er bara að líta framhjá því.  Það er fullt af bloggsíðum, sem ég fer aldrei inn á, af þeirri einföldu ástæðu að ég er almennt ekki sammála síðueiganda.

Varðandi lánið þitt í Íslandsbanka, þá er gott að þú fékkst létt greiðslubyrðinni og hef ég verð ötull talsmaður þess að fólk geri það, hafi það ekki aðra kosti.  En þessi aðgerð mun hækka heildargreiðsluna.  Íslandsbanki er ekki að gefa þér neitt eftir eða hvað?  Hann vill fá stökkbreyttan höfuðstól lánsins þíns greiddan upp í topp.  Hann viðurkennir ekki að þú eigir rétt á leiðréttingu.  Hann hefur ekki, mér vitanlega, svo mikið sem beðist afsökunar á framferði starfsmanna sinna þegar þeir störfuðu fyrir gömlu kennitölu bankans. 

Það sem er verið að gera til "hjálpa" fólki er að lengja í snörunni, svo hún herpist ekki eins snögglega að.  Nei, í staðinn er blóðflæðið minnkað smátt og smátt, þar til fólk verður dofið og kemst í andleysisástand.  Því líður til að byrja með skömminni skárr en áður, en það er það er bara verið að lengja þann tíma sem fólk býr við skert lífsgæði. Hjá sumum er verið að lengja dauðastríðið.

Ég reikna með, að þú hafir gert ráð fyrir, þegar þú tókst lánið, sem þú nefnir, að um þetta leiti værir þú að greiða, segjum, 150 þús.kr. ársfjórðungslega eða 50 þús.kr. á mánuði.   Eða var það kannski minna.  Upphæðin átti að vera tiltekið hlutfall af tekjum ykkar hjóna.  Svo fór bankinn þinn að vinna gegn þér.  Hlutfallið sem var áður, segjum, 15% á mánuði fór upp í 25,5% og núna er það komið niður í 18,5%.  Hvort þessi munur, þ.e. á 15% og 18,5%, skiptir máli, en það sem mun líklega skipta máli, er að lánið lengist um allt að 3 ár.  Það þýðir að í allt að þrjú ár til viðbótar eru 18,5% af tekjum þínum að fara í greiðslur lánsins.  Þetta skerðir lífsgæði þín sem þessu nemur.  Ekki segja mér að þetta skipti engu máli.

Það er rétt, Sigurður Grétar, að margir fóru óvarlega og ekki dettur mér í huga að bera hönd fyrir höfuð slíkra einstaklinga og hef aldrei gert.  Þess vegna höfum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna alltaf mótmælt því að eingöngu eigi að rétta þeim verst settu hjálparhönd, en í þeim er stór hópur þeirra sem fengu "peningaglýju í augun".  Við höfum stutt tillögu talsmanns neytenda um gerðardóm, en gerðardómurinn gæti einmitt greint á milli þeirra með "peningaglýjuna" og hinna sem soguðust inn í svelginn sem fallbankarnir bjuggu til.

Ekki kannast ég við að vera að vekja athygli á sjálfum mér.  Hvað varðar pólitík, þá afþakkaði ég þrjú boð um sæti á framboðslista sl. vor.

Það góða er samt, Sigurður Grétar, að öll höfum við val.  Sumum finnst gott að liggja á nagla, aðrir sækja eins og klárinn þangað sem þeir eru kvaldastir, ég kýs að vekja athygli á því sem ég tel vera óréttlæti og hef valið að berjast fyrir rétti heimilanna.  Þú hefur þitt val og þitt frelsi til að túlka mína baráttu og Hagsmunasamtaka heimilanna á þann hátt sem þú vilt.  Ég er ekki að sækjast eftir virðingu eins eða neins, enda kemur virðing mín innan frá og ég er fyrir löngu búinn að losa mig við þörf fyrir viðurkenningu annarra, þó alltaf sé gaman að heyra að aðrir kunni að meta það sem ég er að gera.

Marinó G. Njálsson, 20.11.2009 kl. 18:54

6 identicon

Ég þurfti að lesa innleggið þitt nokkrum sinnum yfir Sigurður Grétar til þess að fá einhvern botn í þetta.

Þú ert sem sagt að segja okkur að þú hafir setið við hliðina á fógetanum meðan það var verið að bjóða upp húsið þitt, sem var afrakstur af þínu striti og þú barðist fyrir að halda. Síðan kanntu bankanum þínum ekkert nema þakkir fyrir að ýta greiðslubyrðinni þinni til í tíma og lengja í lánunum þínum, hvers höfuðstóll hefur tvöfaldast m.a. vegna rekstraróreiðu þessa sama banka.

Mér sýnist að niðurstaðan sé sú að þú náir að greiða af húsnæði alla þína ævi án þess að eignast í því eina krónu. Og með þessa forsögu velur þú að ráðast að þeim manni sem hefur barist hvað ötullegast og málefnalegast fyrir bættum hag íslenskra heimila.

Ja hérna segi ég nú bara.

Ég hef lesið allt mögulegt á bloggsíðum eftir þetta hrun en þetta innlegg frá þér hlýtur að vera sorglegasta dæmið sem ég man eftir um meðvirkni í því ástandi sem hefur tekist að skapa á Íslandi. Það þarf enginn að óttast að hægt verði að losa okkur við verðtryggingu eða ná niður vaxtabyrði íslenskra heimila nokkurn tímann meðan það er til fólk með svona viðhorf.

Þetta er auðvitað dálítið dapurlegt og manni má svo sem vera alveg sama, en það eru skilaboðin sem í þessu felast sem mér þykja óhugguleg. Þetta endurspeglar einhvers konar gagnrýnilausa ofsatrú á stjórnmálaöfl handan allrar skynsemi með tilheyrandi fórn persónulegra hagsmuna. Við höfum dæmi um heil ríki sem reist voru á slíkri hugmyndafræði sem síðar þurfti að stöðva með hervaldi og tilheyrandi mannfórnum.

Það hefur aldrei verið krafan að sú stjórn sem situr við völd eigi endilega að víkja eða hafi eitthvað minni rétt til þess að halda um stjórnartaumana en einhver önnur stjórn. En sú lágmarks krafa er gerð til þeirra sem fara með völd á Íslandi að þeir standi ekki fyrir eða taki ekki þátt í grímulausri aðför að íslenskum heimilum.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 20:39

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Svar þitt til Sigurðar Grétars er afar gott og sérstaklega þetta:

"Ég er ekki að sækjast eftir virðingu eins eða neins, enda kemur virðing mín innan frá og ég er fyrir löngu búinn að losa mig við þörf fyrir viðurkenningu annarra, þó alltaf sé gaman að heyra að aðrir kunni að meta það sem ég er að gera."

Ég kann að meta það sem þú hefur verið að gera. Bara svo það komi fram, enn einu sinni. Það er hægt að gagnrýna þig fyrir að berjast fyrir réttlætinu, rétt eins og flest réttsýnt fólk hefur lent í að vera gagnrýnt á ósanngjarnan hátt. Þannig virðist lífið vera.

Þessi greiðslujöfnun er náttúrulega ekkert annað en fangelsisdómur yfir fólki sem hefur gerst sekt um að vera til og þurft að borga fyrir helstu nauðsynjar.

Mig grunar að réttlætishugtakið hafi því miður skolast til víða og sé orðið eitthvað gruggugt í huga fólks sem þekkir ekkert annað.

"Lífið er ekki sanngjarnt," segja sumir og yppta öxlum. Því miður gleyma margir að hlutverk okkar á þessari jörð felst einmitt í því að "gera lífið eins sanngjarnt og við getum". Eða hvað?

Hrannar Baldursson, 20.11.2009 kl. 20:57

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég finn til með SG hér að ofan, hvar er réttlætiskennd hans? Ég vil jafnframt spyrja hann hvort hann hafi fengið í sinn vasa og ráðstafað þeim hækkunum sem hafa orðið á lánum hans eftir 1. jan 2008? Ef svarið er nei þá er hækkunin á lánum hans siðlaus og óréttlát og hann á ekki að þurfa borga til baka fé sem hann fékk aldrei að láni.

Marínó, þú heldur vonandi þinn baráttu áfram.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 21.11.2009 kl. 17:09

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Það er ekki neitt nýtt að fólk verði gjaldþrota. Það er heldur ekki neitt nýtt að fólk berjist fyrir að halda nafni sínu í lengstu lög. Sveiflur eru ekki nýjar af nálinni í íslensku þjóðlífi hvorki gengissveiflur né atvinnu-eða  tekjusveiflur. Það er hinsvegar nýtt fyrir mér að einhver sé ánægður með þær aðgerðir sem boðið hefur verið upp af ríkisstjórninni. Afar ánægjulegt og vonandi eru fleiri sælir með sitt. Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2009 kl. 22:31

10 identicon

ÓSTJÓRN  YFIRVALDA  ER  SKAÐVALDURINN

Óstjórnin í landinu hefur valdið óeðlilegum sveiflum og verðbólgu.  Endalaus eyðsla og gegndarlausar erlendar lántökur stjórnvalda í fokdýrar byggingar, nýjar brýr, ný göng, ný hringtorg og nýja vegi sem ekkert þurfti.  Svo nota þeir handónýtt malbik á göturnar sem endalaust þarf að endurbæta og laga og laga aftur.  Rífa og tæta upp heilu göturnar og fjöllin og vegina.  Og eyða skattpeningum fólksins eins og það væri rennandi vatn í enalausa spillingu og vitleysu.  Og í ICESAVE af því við erum svo rík. 

STJÓRNVÖLD hafa valdið endalausri og óeðlilegri verðbólgu og óðaverðbólgu í minnst 70 ár og fara þau með HEIMSMET.  Það eru yfirvöld sem við þurfum að stoppa.  Það þarf að taka af þeim eyðslu-lyklana, herða lögin, minnka völd einstakra embættismanna, pólitíkusa og umfram allt eyða flokkavaldi.   Burt með eyðsluna, spillinguna og Samfylkinguna.   Ekkert Icesave.  Við heitum vestrænt ríki en stjórnvöld haga sér eins og villimenn í 3 heims óþróuðu ríki.     

ElleE (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 00:31

11 Smámynd: Offari

Ég get vel skilið óánægju Sigurðar Grétars. Sjálfur hef ég lennt í skuldasúpu og þurft að borga hana upp. Munurinn var hinsvegar sá að þá var hægt að selja eignir því markaðsverðið var hærra en skuldirnar. Staðan í dag er allt öðrvísi. Skuldarar geta ekki selt eignir ef þeir geta ekki borgað með þeim.

Skjaldborgin þótti mér sanngjörn leið því þar átti ekki að afskifa fyrr en lúxusinn væri tekinn af þeim sem skulda. Þar af leiðir átti Jón Ásgeir að halda einum bíl og hæfilegu húsnæði áður en afskrifaðar væru hans skuldir. Kennitölubullið ruglar hinsvegar réttlætið.

Flöt afskrift er því sanngjarnasta leiðin. Flestir hagnast á þeirri leið. Örfár tapa en það er líka spurning hvort þeir hefðu hvort eð er ekki tapað. Því ljóst er að fasteignamarkaðurinn mun hrynja en spurningin er bar hvort ekki sé hægt að stýra hruninu með afskriftum. Hratt fasteignaverðshrun getur verið illstöðvandi því það kaupir enginn fasteignir með fallandi verði.

Offari, 24.11.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband