Leita í fréttum mbl.is

Aðför í boði Alþingis og félagsmálaráðherra heldur áfram

23. október voru samþykkt frá Alþingi lög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns.  Lögin skiptast í snögga eignaupptöku eða hægfara.  Það er sama hvor leiðin er farin, markmiðið er að tryggja fjármálafyrirtækjum eins mikla endurgreiðslu og hægt er og oftast fá þau meira, ef fólk fellur fyrir freistingum greiðslujöfnunar eða skuldaaðlögunar.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa reynt að vekja athygli á þessu.  Ingólfur Ingólfsson í Spara hefur reynt að vekja athygli á þessu.  Íbúðalánasjóður hefur reynt að vekja athygli á þessu.  En hvað gerist?  Fjármálafyrirtæki hella milljónum á milljónir ofan til að kynna lántökum úrræði sem gera ekkert annað en að tryggja, að lánastofnanirnar fái meira greitt til baka, en ef ekki gengið í gildru þeirra.  Svona í anda þess að Þjóðfundurinn taldi að HEIÐARLEIKI væri mikilvægast alls, þá finnst mér að lánastofnanir eigi að kynna fólki allt sem skiptir máli.

Ég hef reiknað út nokkur dæmi í greiðslujöfnuninni, bæði vegna verðtryggðra lána og gengistryggðra lána.  Ég hef skoðað ýmsa möguleika í þróun verðlags, launa, gengis og vaxta og allt kemur fyrir ekki.  Í hverju einasta dæmi fær lánastofnunin meira greitt frá lántakanum, þegar valin er leið greiðslujöfnunar, en ef haldið er áfram að greiða samkvæmt upprunalega lánssamningnum.  Vissulega fær lántakinn í einhverjum tilfellum afskrift í lok lánstímans, en heildargreiðslan verður ALLTAF hærri.  Galdurinn felst í vöxtunum.  Það sem hugsanlega er gefið eftir í lok lánstímans, næst til baka og gott betur í vaxtagreiðslunni.

Sértæka skuldaaðlögunin er svo annað mál.  Hana ber að forðast eins kostur er.  Hlaupa eins hratt frá henni og fætur geta frekast borið mann.  Ég veit ekki hvort þingmenn átti sig á þeim óskapnaði sem þeir voru að samþykkja.  Jæja, kannski voru þeir ekki að samþykkja þann óskapnað sem fellst í samkomulagi fjármálafyrirtækja um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, en ég skora á þingmenn að lesa reglurnar.  Hagsmunasamtök heimilanna sendu þeim, fjölmiðlum og fjármálafyrirtækjum umsögn samtakanna um samkomulagið fyrir helgi.  Ekki einn einasti fjölmiðill tók við sér.  Ekki einn.  Mig langar að vitna í samantekt um samkomulagið:

Það er álit Hagsmunasamtaka heimilanna, að í samkomulaginu felist ákvæði um stórkostlega upptöku á eignum heimila landsins, en það mun hægja á hraða endurreisnar íslensks efnahagslífs og vinna gegn markmiðum laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, sem samkomulagið sækir lagastoð í. 

Hagsmunasamtök heimilanna fagna hugmynd um aukið svigrúm fjármálafyrirtækja til að mæta breytingum á högum viðskiptavina sinna, en hafna alfarið því samkomulagi sem fjármálafyrirtæki hafa gert um verklagsreglur vegna sértækrar skuldaaðlögunar.  Fyrir utan, að samkomulagið brýtur í nokkrum atriðum gegn lögum nr. 107/2009, sem eru þó lagagrunnur samkomulagsins.  Verklagsreglurnar eru greinilega samdar með það að markmiði, að tryggja fjármálafyrirtækjum hámarks endurheimtur óréttlátra krafna.  Krafna, sem hvorki eru byggðar á lagalegum né siðferðislegum grunni.  Krafna, sem blásnar voru út með markaðsmisnotkun, brellubrögðum og fleiri, að því virðist, óheiðarlegum viðskiptaháttum, sem höfðu það eitt að markmiði, að auka virði krafnanna í bókum fjármálafyrirtækjanna svo uppgjör þeirra litu betur út.

Verklagsreglur samkomulagsins munu dýpka kreppuna og þar með hægja á endurreisninni.  Reglurnar munu, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna, verka sem hlekkir á samfélagið í stað þess að koma hjólum þeirra aftur af stað.  Það er í hæsta máta einkennilegt, að fulltrúar neytenda skuli ekki hafa haft neina aðkomu að gerð samkomulagsins.  Samkomulagið er enn eitt dæmið um skjaldborg um fjármálafyrirtækin, en ekki heimilin. 

 

Já, haldi einhver, að fjármálafyrirtækjum detti eitthvað jákvætt í hug fyrir heimilin, viðskiptavini sína, þá er endanlega búið að afsanna það.  En ég vil vitna frekar í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna en hana er að finna á heimasíðu samtakanna, sjá Greinargerð um sértæka skuldaaðlögun.

  • Samkomulagið brýtur í nokkrum atriðum gegn lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns.  Grófasta brotið er líklegast það að miða við framfærslutölu Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna við mat á framfærslukostnaði þeirra fjölskyldna sem kjósa/neyðast til að fara í gegn um sértæka skuldaaðlögun.  Samkvæmt 2. gr. laganna segir að taka skuli tillit til eðlilegrar framfærslu, en viðmið Ráðgjafastofunnar á ekkert skylt við eðlilega framfærslu.  Nær væri að tala um naumhyggju- eða neyðarframfærslu.  Ekki einu sinni námsmönnum er ætluð sú smánarlega framfærsla sem Ráðgjafastofan gerir ráð fyrir.
  • Verklagsreglurnar munu að mati samtakanna hægja á hraða endurreisnar íslensks efnahagslífs og vinna þær því gegn markmiðum laganna.
  • Mjög víða í reglunum vantar skýrleika og hvergi er gerð minnsta tilraun til að leysa úr ágreiningi um réttmæti krafna kröfueigenda.  Hlutlægni vantar einnig mjög víða í skjalinu.  Er þetta þrennt í andstöðu við 2. gr. laganna töluliði 5 og 6.
  • Samtökin gagnrýna, að hvergi í skjalinu er gerð minnsta tilraun til að draga úr áhrifum fjárglæfra tiltekinna fjármálastofnana sem unnu spellvirki á íslensku samfélagi, m.a. undir verndarvæng og með dyggum stuðningi Samtaka fjármálafyrirtækja.  Í 4. gr. er talað um óuppgerðar skuldir einstaklinga, eins og það sé sjálfsagður hlutur að fjármálafyrirtæki geti lagt fjárhag fólks í rúst og síðan ætlast til að lántakar gangist við skuldum sem af því hlaust.
  • Verði heimilum, sem fara í sértæka skuldaaðlögun, skömmtuð sú framfærsla, sem getið er í 7. gr. samkomulagsins, þá mun það sjálfkrafa valda að minnsta kosti 10% samdrætti í neyslu heimilanna, en líklegast verður sá samdráttur mun meiri.  Það mun hafa afdrifarík áhrif á þjóðfélagið í heild.
  • Ákvæði 10. gr. um 110% greiðslugetu, þ.e. greiðslugeta skuli miða við 110% af verðmæti eigna, sem lántaki heldur, mun sjálfkrafa koma í veg fyrir að stærstur hluti heimila geti nýtt sér þetta úrræði.  Það brýtur gegn öllum viðmiðum um hlutfall greiðslulána af ráðstöfunartekjum.  110% greiðslubyrði af 50 m.kr. eign nemur um 330 þús.kr. á mánuði miðað við að greiða þurfi 6.000 kr. á mánuði af hverri milljón.  Verður leitun af þeim sem munu geta staðið undir kröfum samkomulagsins um greiðslugetu.
  • Þar sem fólk mun ekki standa undir greiðslubyrðinni, verður það tilneytt að selja eignir sínar og minnka við sig.  Það mun valda hruni á verði dýrari eigna og umtalsvert auknum afskriftum lánveitenda.  Er það í samræmi við spá Seðlabanka Íslands um mikla raunlækkun húsnæðisverðs.  Samtökin sjá það fyrir sér, að verð sérbýlis mun nálgast mjög mikið verð eigna í fjölbýli og endurskapa því það ástand sem var á fasteignamarkaði fyrstu ár þessarar aldar.
  • Samkomulagið virðist leggja það í hendur kröfuhafa hvort kröfur þeirra falla undir sértæka skuldaaðlögun eða ekki.  Ekki er ljóst hvort kröfur utan skuldaaðlögunarinnar teljist til skulda sem falla niður að aðlögunartíma liðnum.  Auðvelt virðist, að mati samtakanna, vera fyrir kröfuhafa, að skuldbreyta lánum og þannig smygla þeim með lágri greiðslubyrði inn í skuldaaðlögunina, þó svo að framtíðargreiðslubyrði verði líklegast langt umfram greiðslubyrði á aðlögunartímanum.

 

Í samkomulagið vantar að mati Hagsmunasamtaka heimilanna að tekið sé á fjölmörgum atriðum.  Vilja samtökin vekja athygli á eftirfarandi:

 

  • Ítrekað eru vafaatriði leyst með hagsmuni kröfuhafa í huga.  T.d. er hægt að efast um verðmæti eigna, en ekki er gefinn kostur á að efast um réttmæti krafna.
  • Hvergi er í samkomulaginu lýst meðferð lausafjár né að tekið sé á sparnaði á einu formi eða öðru.
  • Staða einstaklinga með sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni hangir í lausu lofti.
  • Sneitt er gjörsamlega framhjá viðurkenningu á hugsanlega betri rétti neytenda.

Loks vil ég nefna, að fulltrúar félagsmálaráðuneytisins hafa ítrekað farið með rangt mál i fjölmiðlum upp á síðkastið, þegar talað er um að ekkert svigrúm sé til höfuðstólslækkana vegna varúðarniðurfærslu sem gera á þegar lánasöfn eru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Haft hefur verið eftir þeim, að lánasöfnin hafi verið metin lán fyrir lán og eingöngu það fært niður, sem er sannanlega tapað.  Þetta er rangt.  Í tilfelli verðtryggðra lána, þá voru þau færð niður um 20% á línuna og gengistryggð um 50% á línuna.  Síðan var farið í að meta hvað var líklegast tapað eftir að þessi varúðarfærsla hafði verið framkvæmd.  20% niðurfærsla verðtryggðra lána og 50% niðurfærsla gengistryggðra lána nemur nefnilega að jafnaði 25% niðurfærslu, en hvorki 35% né 44%.  Ég segi að jafnaði, þar sem samsetning lánanna er misjöfn eftir bönkum.  Til þess að niðurfærslan hefði náð 35%, þá þarf hlutfall verðtryggðra lána að vera 50% á móti gengistryggðum lánum.  Ekkert bendir til þess að staðan hafi verið sú, en vissulega urðu 40% af húsnæðislánum Kaupþings og Glitnis eftir í gömlu bönkunum, þannig að ekkert er útilokað.  Það breytir samt ekki þeirri staðreynd, að bankarnir framkvæmdu flata niðurfærslu á lánin.  Þess vegna eiga viðskiptavinir þeirra rétt á sömu flötu niðurfærslunni.  Vilji bankarnir halda einhverju öðru fram um yfirfærslu lánanna, þá skora ég á þá að leggja spilin á borðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og þú sérð af fjölda athugasemda Marínó, þá er fólk meira og minna orðlaust. Við þetta er einfaldlega ekki miklu að bæta.

Stjórnvöld ætla að taka þetta á þögninni og vona bara að fólk gleymi þessu máli.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 19:25

2 identicon

Ég er sammál Benna, ég er alveg orðlaus yfir þessu.  Eru stjórnvöld virkilega svona illkvittinn.

Takk Marínó fyrir mjög svo málefnalega baráttu.

Jónas (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 21:55

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Eins og hinir setur mann hljóðan. Við vitum ekki lengur í hvort fótin við eigum að stíga. Vonandi áttum við okkur fljótlega. Æpandi þögn fjölmiðla er eftirtektarverð.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 16.11.2009 kl. 22:52

4 identicon

Já, fólk er hljótt núna enda niður-lamið í skatta- og skuldaþrælkun.  Næst kemur Icesave og þarnæst fólksflótti.  Kannski eru allir að pakka ofan í töskur???

ElleE (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 23:11

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ef þið lesið umsögnina á vef samtakanna, þá fáið þið betri rökstuðning.  Hryllingurinn er jafnvel verri en þar er lýst, þar sem að einhverju leiti var dregið úr.  Það var bara ekki hægt að segja allt.

Marinó G. Njálsson, 16.11.2009 kl. 23:14

6 Smámynd: Sveinbjörn Ragnar Árnason

15.11.2009

Mótmæli: Samstöðu fundur kl 12:00 þriðjudag...

Nýtt  Ísland boðar til mótmæla og samstöðu fundar kl 12:00 n.k. þriðjudag fyrir framan Félagsmálaráðuneytið Tryggvagötu.


 Sveinbjörn Ragnar ÁrnasonVið mótmælum vilja og aðgerðarleysi ríkisstjórnar í garð heimilanna í landinu sem eru að verða fyrir þeirri mestu kjaraskerðingu sem um getur.  Kjaraskerðing í formi hækkunar lána og eignabruna.

Bankarnir taka yfir  húsnæðislán með 44% afföllum, en ekkert er í boði fyrir hinn almenna nema að lengja í lánum.

Verðtrygging  afnumin strax.  Það tók ríkisstjórnina ekki nema 15 mínútur  að tryggja fjármagnseigendur í bankahruninu og því er krafan sú sama hjá heimilunum í landinu,  að þeim verði bjargað strax.

Við krefjumst þess að öll húsnæðislán verði færð til ármóta 2007-2008.  


Lántakendur nú stöndum við saman, þannig náum við réttlætinu fram. Mætum og stöndum saman.

Sveinbjörn Ragnar Árnason, 16.11.2009 kl. 23:58

7 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Hyskið á þinginu kann að klúðra því hægt er að klúðra...Sí..bankar og stjórnvöld standa saman um að veikja gjaldmiðill okkar.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 16.11.2009 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 216
  • Frá upphafi: 1679949

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 197
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband