Leita í fréttum mbl.is

Góður fundur í Iðnó

Ég er mjög ánægður með fund Hagsmunasamtaka heimilanna í Iðnó í gærkvöldi.  Glæsileg mæting og greinilegt að við hefðum þurft stærra húsnæði.

Ég verð að hrósa Árna Páli Árnasyni og hinum stjórnmálamönnunum fyrir að koma og sitja þarna uppi á sviði.  Það er ekki auðvelt í óvinveittum sal.  Ég var svo sem ekki sáttur við allt sem þau sögðu, en þau höfðu þó þann kjark og þor að segja hluti sem vita mátti fyrirfram að félli ekki í kramið.

Mér fannst það skína í gegn um málflutning ráðherra og sumra þingmanna, að málin höfðu ekki verið rædd nægilega mikið áður en aðgerðir voru ákveðnar og lögin samþykkt.  Það kom greinilega fram þessi misskilningur, að nóg sé að tala við kröfuhafana og lántakendur hafi engan rétt.  Neytendavernd er mjög veik hér á landi, svo mikið er víst.  Við hjá HH erum búin að vara við því í marga mánuði, að það verði engin sátt án aðkomu hagsmunasamtaka neytenda.  Af hverju stjórnvöld og fjármálafyrirtækin átta sig ekki á því, skil ég ekki.

Sjónvarpið (RÚV) tók við mig viðtal að erindi mínu loknu og vil ég klykkja út með því sem ég sagði þar, en ekki var birt:

Fjármálafyrirtækin verða að átta sig á því, að við erum viðskiptavinir þeirra, ekki mjólkurkýr.

Glærurnar mínar frá því á fundinum fylgja með sem pdf-skjal.
mbl.is Aðgerðir stjórnvalda sagðar bjarnargreiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marínó.

Mér finnst það vera samtökum ykkar til vansa að baula á félagsmálaráðherra sem kemur til fundar við ykkur til að útskýra sín mál. Það getur vel verið að þið séuð ekki sammála og viljið meira en hann telur sig geta boðið en það eigið þið að láta í ljós með málefnalegum hætti. 

Ég er að mörgu leiti ósammála ykkar málflutningi þar sem ég tel að meirihluti þjóðarinnar hafi ekki farið á lánafyllerí eins og félagsmenn ykkar. Og nú komið þið fram með kröfur um að færa greiðslubyrði af lánum fram fyrir 2008. Að mínu mati eru þið að biðja um að þeir aðilar sem tóku lán umfram framtíðar greiðslugetu þurfið ekki lengur að standa við lán ykkar. Það á sem sagt að verðlauna þá sem fóru langt fram úr sér í lántöku sem hefur leitt þjóðina á þann stað sem hún er í dag. Það getur vel verið að í einstaka tilfellum sé réttlætanlegt að taka á vanda fólks með greiðsluaðlögun og niðurfellingu og það sýnist mér félagsmálaráðherran vera að reyna að gera.  Og gengur lengra en ég hefi mælt með.

Ólafur (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 11:30

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólafur, þú ert fullyrðingaglaður:

1.  Þetta var opinn borgarafundur.  Þó samtökin hafi staðið fyrir honum, þá var hann opinn öllum.  Við stjórnum ekki viðbrögðum fólks.

2.  Það er ekkert til í þeim orðum þínum að félagsmenn okkar hafi farið á neyslufyllerí.  Þetta eru staðlausir stafir.  Okkar málflutningur hefur einmitt beinst að því að verja venjulega lántakendur sem voru ábyrgir í því sem þeir gerðu.

3.  Við höfum aldrei krafist þess að "færa greiðslubyrði af lánum fyrir fyrir 2008".

4.  Gagnrýni okkar á aðgerðir stjórnvalda um sértæka skuldaaðlögun hefur einmitt beinst að því, að verið sé að bjarga þeim sem fóru of geyst og skuldsettu sig langt umfram greiðslugetu, en hinir sem fóru varlega eru skyldir eftir á köldum klaka.

Mér sýnist þú snúa öllu á hvolf í gagnrýni þinni og miðað við það, þá hljótum við að vera að gera eitthvað rétt, þar sem þú tekur í reynd undir alla gagnrýni okkar á framsettar aðgerðir.

Marinó G. Njálsson, 3.11.2009 kl. 11:54

3 identicon

Ég var á fundinum og ein manneskja hafði frammi hróp og köll og meirihluti fundarmanna sussaði á hana. Flestir fundarmanna sem þarna voru vildu eiga uppbyggilegar samræður og málefnalegar.

Þetta var í heildina séð fínn fundur, ýmislegt kom þar fram sem ég vissi ekki en hef þó reynt að fylgjast með. Kom t.d. á óvart að læra að greiðslujöfnun er í raun úlfur í sauðagæru.

Enn hafa stjórnvöld og fjármálafyrirtæki ekki rétt almenningi hjálparhönd vegna forsendubrests lána, talsmaður neytenda er hundsaður sem og sanngjarnar kröfur Hagsmunasamtaka Heimilanna. 

Og til að toppa ósómann eru fjármálafyrirtækin - lánveitendur - eingöngu fengnir til að koma að borðinu að þessu frumvarpi Árna Páls en ekki lántakendur. Er það furða að skuldarar sem gerðu ekki annað af sér en að þiggja "ráðgjöf" og nýta sér þá valkosti sem buðust í húsnæðislánum sé stórlega misboðið?

Hafi HH þökk fyrir óeigingjarnt starf og mikla vinnu. 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 11:54

4 identicon

Ólafur! Ég get ekki orða bundist. Þú talar eins og flestir hafa tekið lán umfram framtíðar greiðslugetu og meirihluta þjóðarinnar hafi farið á lánafyllerí! Á hvaða plánetu býrð þú eiginlega? Þeir sem keyptu sér húsnæði á undanförnum árum hafa velflestir farið í greiðslumat fyrir lántöku og fengið lán vegna þess að greiðslugeta var í lagi. Enginn hafði hugmynd um hvers konar óráðsía var í gangi hjá bönkunum og varð til þess að allt fór úr böndunum hér á landi. Ef lántakendur hefðu haft hugmynd um hvað væri í gangi hefði fólk að sjálfsögðu ekki tekið sér lán í þessum glæpastofnunum. Almenningur var ekki á lánafylleríi eins og þú orðar það og hafði ekki hugmynd um annað en að allt væri í stakasta lagi hér á landi, enda var fólk blekkt um gang mála hjá bönkunum alveg fram á síðasta dag fyrir fall bankanna. Fólk hefur selt og keypt húsnæði í áratugi að sjálfsögðu en aldrei hefur ástandið verið eins og nú þar sem lán hafa hækkað langt umfram það sem um var samið við lántöku og er þess vegna brýn þörf á leiðréttingu.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 12:00

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Takk fyrir góðan fund. Þetta er einmitt vettvangurinn til að fá pólitíkusa til að skýra út gjörðir sínar. Ég er mun betur inni í málinu eftir að hafa mætt þarna og hlustað á umræðurnar. Vonandi standa menn við það að sem þarna var sagt um að hafa fulltrúa frá HH og annarra neytenda, í þessum nefndum sem til stendur að stofna í kjölfarið á þessari lagasetningu.

Og takk fyrir glærurnar - þá getur maður pælt aðeins betur í þessu.

Lánafylliraftur

Haraldur Rafn Ingvason, 3.11.2009 kl. 12:11

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Komst ekki á fundinn var annarstaðar.

Þakka fundinn ´alaugardag, upplýsandi en lágstemmd og ekkert af digurbarkalegum upphrópunum.

Árni spegill hefur varla brugðist ykkur um langa ræðu um EKKERT:  Hann kann það hérum bil jafn vel og Dagur B.

Haldiðótrauðir áfram, ykkar er þörf og nauðsyn venjulegum brauðatritandi heimilisfeður og mæður.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 3.11.2009 kl. 12:27

7 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Sæll Marinó. Það eru engin, nei engin samtök eða einstaklingar sem berjast jafn mikið fyrir réttlæti skuldara á Íslandi í dag eins og HH og aðilar þess. Ég er orðin svo ofboðslega þreyttur að hlusta á svona tal eða skrif eins og hann Ólafur hér á undan. Það eru alltaf einhverjir sem maður heyrir segja svona hluti eins hann skrifar hér. Þetta er bara svo langt frá sannleikanum. Ég er að upplifa þetta óréttlæti og ég veit hverskonar misrétti fólki er beitt bara fyrir það eitt að hafa keypt sér heimilli og bíl fyrir fjölskylduna. Ég bara skil ekki hvað fólki gengur til með því að tala svona og úthúða fólk sem er að berjast fyrir tilveru sinni. Venjulegt fjölskyldufólk. Ég ætla ekki að sökkva niður á þeirra plan, en vorkenni þeim fyrir að hafa ekki meiri samkennd með náunga sínum. Maríno ég þakka þér og HH fyrir frábært starf sem ætti eiginlega að kallast mannúðarstarf. Skrif þín á blogginu er ómetanlegt fyrir þá sem þurfa að upplifa það á hverjum degi hvernig fjármálastofnanir nauðga heimilum landsins. Óska þér, HH og öllum fjölskyldum og einstaklingum sem berjast í bökkum þessa dagana allt gott. Ekki gefast upp !!!

Jón Svan Sigurðsson, 3.11.2009 kl. 13:44

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir þetta Marínó. Þú hjápar mér að taka ákvörðun. Ég ætla ekki að þiggja þessa ölmusu og hengingaról.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 3.11.2009 kl. 20:49

9 identicon

Ég tek undir orð Jóns Svans.  Ég hef grun um að Ólafur þessi IP-tala sé útrásarvíkingur.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 22:06

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég er ekki sátt við aðgerðir stjórnvalda. 

Ef við tökum bara venjuleg íslensk húsnæðislán:

Hvernig á maður að upplifa réttlæti þegar sum lán eru leiðrétt en önnur ekki ?  Því meira sem stjórnvöld aðhafast í greiðsluvanda ákveðinna aðila (en ekki heildarinnar), því erfiðara verður að leiðrétta á þann eina sanngjarna hátt sem til er;  að leiðrétta vísitöluna til baka.

Með því að bakfæra vísitöluna, t.d. til sept. 2008,  á öllum húsnæðislánum, eru lántakendur fyrst með þau lán í höndunum sem þeir tóku á sínum tíma.

Það er eina réttláta leiðin að mínu mati.

Maður er næstum því farinn að sjá eftir að hafa ekki fengið sér nýja eldhúsinnréttingu, arinn í stofuna o.s.frv. 

Ég sagði næstum því.

Anna Einarsdóttir, 4.11.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband