Leita í fréttum mbl.is

Árni Páll ekki með staðreyndir á hreinu

Ég náði að hlusta á hluta af viðtalinu við Árna Pál Árnason, félagsmálaráðherra, á Bylgjunni áðan.  Þar kom hann upp um þekkingarleysi sitt og ótrúlega lélega stærðfræðikunnáttu.  Á þeim stutta tíma sem ég hlustaði fullyrti ráðherra m.a. spurður af hverju megi ekki lækka höfuðstól lánanna (gróf endursögn):

Ef við förum í höfuðstólslækkun og við lendum í nýju áfalli, nýrri lækkun krónunnar, þá stendur fólk í sömu sporum og áður.

Þetta var það sama og Magnús Orri Schram hélt fram í Kastljósi í gærkvöld.  Ég spyr bara:  Hvaða snillingur fann upp þessa skýringu?

Skoðum dæmi: 

Höfuðstóll verðtryggðs láns stendur í 10 m.kr.  Nú er ákveðið að lækka höfuðstólinn um 15%, þá lækkar hann strax í 8,5 m.kr.  Nýtt verðbólguskot skellur á og ársverðbólga fer í 15%.  Höfuðstóllinn hækkar þá um 15% eða í 9,8 m.kr.  Ef höfuðstóllinn hefði ekki verið leiðréttur, þá færi hann úr 10 m.kr. í 11,5 m.kr.  Fólk er sem sagt 15% betur sett.

Tökum síðan gengistryggt lán: 

Raunar gilda alveg sömu rök.  Höfuðstóllinn er lækkaður, en núna um 40%.  10 m.kr. höfuðstóllinn lækkar því í 6 m.kr.  Gjaldeyrishöftin eru afnumin og krónan fellur um 20% sem þýðir að erlendir gjaldmiðlar hækka um 25%.  6 m.kr. höfuðstóllinn hækkar í 7,5 m.kr., en óbreyttur höfuðstóll færi í 12,5 m.kr.  Fólk er eftir sem áður 40% betur sett.

Hvernig getur nokkur maður sagt að lántakandinn sé í sömu sporum og áður?  Samfylkingin á aðgang að einum mesta stærðfræðisnillingi þjóðarinnar í formi Þorkels Helgasonar.  Ég mæli með því, að menn fái fræðslu hjá honum áður en menn láta svona bull út úr sér og afhjúpi þannig eigin vanþekkingu.

Auðvitað er fólk betur sett, ef það fær lækkun á höfuðstóli, þó svo að gengi hrapi aftur eða verðbólgan fari af stað.  Ekki bjóða fólki upp á svona málflutning.  Ekki opinbera vankunnáttu ykkar svona svakalega.

Annað sem ráðherra sagði, var að dagsetningin 2. maí hafi verið ákveðin fyrir löngu, áður en hann kom að verkinu.  Ég hélt að þetta væru HANS tillögur, en ekki tillögur fjármálafyrirtækja!  En það var ekki það versta.  Í umræðunni sem fylgdi, þá spurði hún Kolla af hverju ekki önnur dagsetning.  Þá kom tungubrjótur stjórnmálamannsins:

Við verðum að hafa í huga að gengið var í sögulegu LÁGMARKI í janúar 2008.

Vafalaust á hann við að gengisvísitalan hafi verið í sögulegu lágmarki í janúar 2008 og túlka ég orð hans þannig.  Hér er ráðherra greinilega mjög illa upplýstur, er að misskilja eitthvað eða vill nýta sér vankunnáttu fólks á gengisþróun.  Ég veit eiginlega ekki hvað af þessu er verst.  En, staðreyndin er sú, að krónan var í sögulegu HÁMARKI í janúar 2006.  Þá var gengisvísitalan rétt rúmlega 100 stig.  31. desember 2007 stóð gengisvísitalan í 120,5 eða 20% hærri (sem þýðir að krónan var veikari) en þegar þessi vísitala var sterkust.

Hélt ráðherra virkilega að hann gætti sett fram svona vitleysu og hann kæmist upp með það?  Málið er að líklegast gerir hann það, þar sem stór hluti þjóðarinnar er ekki að fylgjast með þróun gengisvísitölunnar, en þá er komið að fjölmiðlum.  Nú þurfa fréttamenn Stöðvar 2 eða RÚV að stökkva á ráðherrann og spyrja hann út í bullið, því það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað, og birta svör hans á besta útsendingartíma.  Það á ekki að láta ráðamenn komast upp með að bera svona rugl á borð fyrir þjóðina.

Af hverju vil ég ekki að hann komist upp með þetta?  Vegna þess að þetta er kjarninn í rökstuðningi ráðherra fyrir því að ekki er hægt að fara í leiðréttingar/niðurfærslu á höfuðstóli lána heimilanna.

Nú viðurkenni ég, að morgunverk heimilisins komu í veg fyrir að heyrði allt viðtalið.  Hafi restin verið eins og fyrstu 5 mínúturnar, þá boðar það ekki gott.  Ég vona innilega, ráðherrans vegna, að hann hafi farið betur með tölur og staðreyndir í þeim hluta, sem ég heyrði ekki.  Það var virkilega vandræðalegt að hlusta á villurnar sem frá honum komu.  Ef hann er ekki betur að sér en þetta, hvað segir það um skilning hans á eigin tillögum?  Ef grunnurinn er ónýtur, þá hrynur allt sem á honum er byggt.

----

Ég hlustaði á síðari hluta viðtalsins og verð að viðurkenna, að ég hef ekki geð í mér, að minnsta kosti í bili, að leiðrétta hinar vitleysurnar sem komu frá ráðherra.  Trúir hann virkilega því sem hann segir?  Er verið að semja við fjármálafyrirtæki um þessa vitleysu ÁN AÐKOMU NEYTENDA?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Marinó, þú segir; "Hélt ráðherra virkilega að hann gætti sett fram svona vitleysu og hann kæmist upp með það?  Málið er að líklegast gerir hann það, þar sem stór hluti þjóðarinnar er ekki að fylgjast með þróun gengisvísitölunnar, en þá er komið að fjölmiðlum."

Miðað við fréttaflutning síðustu vikna er ekki von á mikilli upplýsingu, nema efir forskrift stjórnvalda, að vænta frá fjölmiðlunum.  Þessar lausnir sem verið er að bjóða upp á eru sveipaðr vísitöltrixum og takmarkalausri framtíðartrausti á stjórnmálamenn og banka.

Það dylst samt ekki neium hugsandi manni að þarna er verið að tjóðra skuldara við stökkbreyttan höfuðstól og staðfesta rústir fasteignamarkaðarins til áratuga. 

Hvernig eiga fasteignaviðskipta að fara fram í framtíðinni? 

Magnús Sigurðsson, 9.10.2009 kl. 09:22

2 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

Það er alveg hreint svakalegur sómi að því að vera yfirlætis- og hrokafullur út í strámann. Þú stendur þig vel.

Það er verið að benda á að ef greiðslur eru tengdar launaþróun í stað verðbólgu, þá þarf fólk ekki að hafa áhyggjur af því að greiðslubyrði lána sveiflist um tugi prósenta með skömmum eða engum fyrirvara vegna gengisbreytinga. Til dæmis ef við lendum í nýju áfalli. Ef höfuðstóll er lækkaður, þá eru greiðslur jafn háðar gengi og verðbólgu og áður. Með aðferð Árna Páls er svo ekki.

En það er náttúrulega miklu auðveldara að tala um þekkingarleysi, vankunnáttu og "ótrúlega lélega stærðfræðikunnáttu" annarra en að taka afstöðu til þess sem viðkomandi segir. Auðveldara en þó kannski fyrst og fremst sjálfum þér til minnkunnar.

Halldór Bjarki Christensen, 9.10.2009 kl. 10:12

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góðan pistil Marínó.

Því miður er sorglega staðreynd málsins sú að það eru vanhæfir menn sem stjórna landinu.  

Þess vegna heldur ástandið að versna með hverjum deginum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.10.2009 kl. 10:12

4 identicon

Sæll Marinó.

Það er með Árna Pál eins og Magnús Orra, þetta eru fyrst og fremst gasprarar. Kannski væri hægt að líta framhjá þessari augljósu staðreynd á öðrum tímum en á þeim hörmungartímum sem nú ríkja valda slíkir menn gríðarlegum skaða.

Magnús Orri  Schram vissi augljóslega ekkert um hvað hann var að tala. Það er mikill ábyrgðarhlutur að þingmaður skuli afhjúpa svo algjöran skilningsskort á eðli máls í sjónvarpi landsmanna.

Árni Páll Árnason býr greinilega ekki yfir barnaskólakunnáttu í stærðfræði. Ráðherra í ríkisstjórn Íslands ræður ekki við einfaldan prósentureikning.

Hvernig getur það gerst að svo óhæft og illa menntað fólk veljist til forustustarfa á þessum hörmungartímum í sögu þjóðarinnar.

Ég lýsi yfir vonbrigðum með að almenningur á Íslandi, í þessu tilfelli stuðningsmenn Samfylkingarinnar, skuli hafa sameinast um að tryggja þessum tveimur mönnum sæti á Alþingi og í ríkisstjórn.

Þetta er til skammar og óviðunandi með öllu.

Kv.

Karl

Karl (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 10:28

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Marinó, þú setur málið fram á afar skýrann hátt og það verður að viðurkennast að röksemdafærsla flokksbræðra minna er götótt sem er mjög miður. Ég vænti þess að þessi rökvilla gangi til baka hið fyrsta og verði leiðrétt. Hagsmunasamtök heimilanna er sá aðili í samfélaginu sem helst getur skapað þann þrýstin sem þarf til að breyta þessum röngu áherslum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.10.2009 kl. 11:43

6 identicon

Svo var svo ansi skemmtilegt að heyra viðtalið við Magnús Orra í gær þegar hann sagði að þessi greiðslujöfnunar aðferð sé bara ansi góð sérstaklega ef ástandið verði viðvarandi. Er hann að tala um að ef kreppan yrði viðvarandi í 30-40 ár, sem er þá gott fyrir okkur með löngu lánin?

Eitt annað sem ég er að velta fyrir mér og vantar svör við. Nú hef ég heyrt því fleygt að ef aðilar selja / skipta á fasteignum með hagnaði þá eigi að skipta þeim hagnaði með ríkinu upp í þennan biðreikning. Hvað ef aðili nær að safna sér kapítal á annan hátt og þar með útborgun í stærri eign, verður kanski aðilinn þá að taka helminginn af þessum pening inná biðreikninginn?

Hvernig í ósköpunum geta stjórnvöld litið framhjá þeim tekjum sem koma í ríkisskassan óbeint með því að koma hjólum af stað og með því t.d að afskrifa hluta lána hjá fólki?

Svo eru eins og bæði Magnús og Árni Páll einblýni alltof mikið á hvað aðilar með erlendu lánin geta grætt mikið á þessu ef gengið styrkist. En hvað með verðtryggðu lánin? Af hverju er ekki í sömu andrá sett þak á verðtrygginguna?

Dísa (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:29

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Halldór, ég er búinn að taka afstöðu til tillagnanna og ásamt félögum mínum í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.  Við sendum frá okkur 12 síðna greinargerð um tillögur ráðherra og má finna hana hengda við eftirfarandi færslu Tillögur um að innheimta í botn ásamt öðrum gögn.  Nú er ráðherra og fylgisveinar hans byrjaðir að verja ófullnægjandi tillögurnar með dæmum, frösum og möntrum sem gera ekkert til að skýra út tillögurnar eða styrkja þær, en í staðinn sýna að þeir annað hvort skilja ekki tillögurnar sjálfir eða eru gjörsamlega úti á þekju í hlutfallareikningi og rökfræði.

Dísa, það er ekki vitað hvað á að gera, ef eign er seld.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa stungið upp á 4% þaki á verðtryggingu.  Við fáum hugmyndina ekki einu sinni rædda!

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 13:11

8 Smámynd: Benedikta E

Ég  tek fúslega undir þau sjónarmið að Árni Páll ráðherra er ekki sleipur í reikningi og reiknisfræðilegum hugtökum og það er Orri Schram ekki heldur.............!

En það sem mér hefur fundist al verst í þessu máli ráðherrans/Samfylkingarinnar er blygðunarlaus blekkingin sem gerir fólk ösku reitt - en blekkingin er í þeirri "trú" gerð að fólk sé svo vitlaust að það átti sig ekki á blekkingunni - líti á hana sem hjálplega leiðréttingu Árna Páls "bjargvættar"!........................Glætan!

Benedikta E, 9.10.2009 kl. 13:15

9 identicon

Ég verð að segja, mér finnst Árni Páll ekki hæfur í ráðherrastól. 

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 13:27

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við lifum í skáldheimi Orwells og veruleika Salvador Dali.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2009 kl. 14:42

11 Smámynd: Maelstrom

Ég held að þeir sem eru með íbúðalán í erlendri mynt séu einfaldlega ekki búnir að átta sig á því hvað þetta verður vont.  Málið er að frá maí 2008 hafa myntkörfulán í JPY og CHF hækkað um u.þ.b. 100%.  Á sama tíma hafa vextir í þessum tveimur myntum lækkað gríðarlega sem viðbrögð við kreppunni.

Greiðslubyrði á þessum íbúðalánum hefur því ekki hækkar sem neinu nemur (greiðslubyrði bílalána hefur hækkað mikið, en lengri íbúðalán eru nokkuð svipuð).  Það er eina ástæðan fyrir því að ekki er allt orðið brjálað.

Þegar erlendir vextir fara að hækka aftur fer þetta aftur á móti að svíða og þá held ég að sá hluti almennings sem er með erlend íbúðalán verði brjálaður.

Stjórnmálamenn halda kannski að þessar aðgerðir dugi því almenningur hafi ekki kvartað sérlega mikið hingað til.  Það mun breytast þegar erlendir vextir hækka aftur.  Þá verður allt brjálað. 

Maelstrom, 9.10.2009 kl. 16:49

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maelstrom, þetta er eitt af því sem við hjá HH bendum á í greinargerð okkar, þ.e. vaxtabreytingin.  Hvernig á að búast við því að fólk skilji alla þessar flækjur?  Ég varð einmitt var við að það voru vaxtabreytingarnar sem breyttu mestu hjá mér.  2% hækkun vaxta á 10 m.kr. láni eru 200.000 kr. á ári.  Munar um minna.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1679966

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband