5.10.2009 | 12:57
Tillögur um að innheimta í botn
Hagsmunasamtök heimilanna hafa undanfarna daga legið yfir tillögum félagsmálaráðherra um aðgerðir til lausna á greiðsluvanda og skuldum heimilanna. Afrakstur vinnunnar varð 12 síðna greinargerð sem send var ásamt fréttatilkynningu og ítarefni til fjölmiðla, stjórnvalda og þingmanna núna í morgun. Niðurstaða samtakanna er skýr:
Tillögur ráðherra eru ófullnægjandi og eru lymskulegt bragð til að tryggja að stökkbreytt lán verði innheimt í botn.
Ekki stendur til að gefa neitt eftir. Þessu hafa t.d. Landsamtök lífeyrissjóðanna áttað sig á, enda styðja þau tillögur ráðherra. Þau hafa áttað sig á því að það fé sem heimtist ekki strax af fjalli komi í betri holdum síðar!
Hér fyrir neðan eru nokkrar tilvitnanir í greinargerð HH:
- Hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið tillögur félagsmálaráðherra til ítarlegrar skoðunar. Samtökin telja að margt sé vel gert í þessum tillögum en annað missi gjörsamlega marks, hafi ætlunin verið að leiðrétta þann órétt sem heimilin hafa verið beitt undanfarin ár.
- Líkja má aðgerðum fjármálafyrirtækjanna við að þau hafi spilað rússneska rúllettu með fjöregg þjóðarinnar.
- Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert þá kröfu að leiðrétt verði sú hækkun á höfuðstóli húsnæðislána sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna orsökuðu. Samtökin telja furðulegt, að lántakendur skuli eiga að bera tjón sitt að fullu, eins og ráðherra gerir ráð fyrir í tillögum sínum.
- Með tillögum félagsmálaráðherra, sem birtar voru 30. september 2009, er ráðherra að staðfesta þessa eignarupptöku hjá öllum þeim heimilum sem geta eingöngu nýtt sér þær almennu aðgerðir sem boðaðar eru í tillögunum. Hagsmunasamtök heimilanna geta alls ekki fallist á slíka staðfestingu og munu berjast gegn fyrirhugaðri eignaupptöku með öllum tiltækum ráðum.
- Með því að viðurkenna þessa eignaupptöku, er félagsmálaráðherra að binda fjölmarga átthaga- og íbúðafjötrum. Fólk mun ekki geta fært sig til, hvorki farið í stærra húsnæði né minnkað við sig um ókomna framtíð.
- Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að fara eigi í leiðréttingu á greiðslubyrði húsnæðislána. Samtökin telja þó að sú útfærsla sem felst í tillögum félagsmálaráðherra bæði ganga of stutt og vera of flókin.
- Gagnrýni samtakanna á þessa aðferð er því tvíþætt. Samtökin telja aðferðina allt of flókna til að bjóða fólki upp á hana og að tilgangur hennar sé að tryggja að engin leiðrétting skulda heimilanna komi til.
- Samtökin sjá alveg þann kost við tillögu ráðherra, að greiðslubyrðin mun léttast strax 1. nóvember samkvæmt þessari leið, en sjá það fyrir að þetta sé svikalogn og stormurinn sem fylgir gæti orðið mörgum erfiðari en hamfarir undanfarinna mánaða.
- Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka kröfu samtakanna um að sett verði afturvirkt 4% þak á hækkanir höfuðstóls verðtryggðra lána. Við teljum að það sé sanngjörn og réttlát leið til að leiðrétta þann misrétt sem heimilin voru beitt í aðdraganda kreppunnar og þau hafa þurft að súpa seyðið af síðast liðið ár eða svo.
- Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki fallist á að greiðslujöfnunarvísitala verði notuð til að ákvarða greiðslubyrði verðtryggðra eða gengistryggðra lána til langframa. Samkvæmt útreikningum samtakanna felst í þessu gildra, þar sem telja á fólki trú um að verið sé að slaka eitthvað á innheimtuklónni, þegar ekkert slíkt er í gangi.
- Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka þá skoðun, að ekki verði nein sátt í samfélaginu, nema fólk fái fjárhagstjón sitt bætt. Samtökin skilja ekki þau rök, að sjálfsagt mál sé að verja sparnað fólks í peningainnistæðum, en gjörsamlega ómögulegt að verja sparnaðinn ef hann er í fasteignum fólks.
- Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna, að í tillögum ráðherra felist mikilsverð viðurkenning á þeirri kröfu að samtakanna, að þörf sé fyrir almennar aðgerðir til að leiðrétta stöðu heimilanna. Tillögurnar veita vissulega ákveðið skjól til skamms tíma, en allt bendir til að heimilin verði gerð brottræk úr skjólinu innan fárra ára.
- Ráðherra hefur sagt að tillögurnar leggi vissan þrýsting á lánastofnanir að halda verðlagi stöðugu og verðlagsbreytingum í lágmarki. Með því hámarka þær væntanlega endurgreiðslu af lánunum. En eins og oft, þá eru fleiri en ein leið að hverju marki. Lánastofnanir geta einnig hámarkað væntanlega endurgreiðslu með því að stuðla að því, að verðlagsbreytingar verði alltaf minni en launabreytingar, þó svo að verðlagsbreytingarnar séu miklar. Lykillinn að hámarks endurheimtum lánveitenda felst því í kaupmáttaraukningu, ekki tiltekinni þróun verðlags.
- Ráðherra hefur sagt fleira sem vekur upp ýmsar spurningar. Svo sem að hans fólk hafi verið að vinna í þessum tillögum frá því í sumar. Sé það rétt, þá telja samtökin að tími sé til kominn að skipta um mannskap í verkinu. Að það hafi tekið tvo eða þrjá mánuði að breyta fyrri greiðslujöfnunarúrræðum úr því að vera ekki með neitt þak á framlengingu lánstíma í að vera með 3 ára hámark á framlenginguna, er ekki góður vitnisburður um afköst starfsmanna vinnuhópsins.
- Heimilin hafa þurft og eiga á næstu árum að bera fullan kostnað af hruninu. Ef það er ekki stökkbreyttur höfuðstóll lána og gríðarleg hækkuð greiðslubyrði til langframa, þá eiga þau á meðan dregið er aðeins úr greiðslubyrðinni að bera 30-40% hærri skatta, ef eitthvað er að marka ný fram lagt fjárlagafrumvarp.
- Og sé það ekki nóg, þá á að egna þjóðfélagshópum saman á næstu árum, þar sem hækkun launa, t.d. kennara, verkafólks eða bankamanna, mun leiða til hækkaðrar greiðslubyrði lána.
- Meðan ekkert er gert til að rétta af efnahagsreikning heimilanna, þá eru þessar tillögur ófullnægjandi, þó vissulega sé eitthvað jákvætt í þeim.
- Það sem meira er, með tillögunum er heimilunum enn einu sinni sýnd langatöng og staðfestur sá grunur samtakanna, að það sé ætlun og eindreginn vilji stjórnvalda að heimilin í landinu eigi að fjármagna kennitöluflakkarabankana með fasteignum sínum. Þjóðnýta á heimili landsmanna og kóróna þannig getuleysi þriggja ríkisstjórna á einu ári til að gera eitthvað sem mark er á takandi fyrir heimilin í landinu.
- Ef þetta er réttlæti ríkisstjórnarinnar, biðja samtökin allar góðar vættir að forða okkur frá ranglæti hennar.
- Tillögur ráðherra eru ekkert annað en stríðsyfirlýsing.
Segja tillögur ráðherra stríðsyfirlýsingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 1680019
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ítarleg og mjög upplýsandi færsla.
Hafa Hagsmunasamtök Heimilanna óskað eftir því að eiga fulltrúa í málefnahópi ráðherra sem unnið hefur tillögur til lausnar skuldavanda heimilanna í landinu, og ef svo er, hver hafa viðbrögðin verið.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.10.2009 kl. 16:09
O já, Hólmfríður, við höfum óskað eftir því beint við ráðherra og í tölvupósti til ráðuneytis félagsmála og hópsins. Við höfum líka eftir slíku samstarfi við bankana og Samtök fjármálafyrirtækja. Auk þess hefur talsmaður neytenda boðið fram aðstoð.
Mig langar að taka eitt dæmi. Fyrir 364 dögum sendi talsmaður neytenda erindi til félagsmálaráðuneytisins. Í því erindi voru tillögur um aðferðir við að mæta skuldavanda heimilanna. Ein þessara tillagna var frá mér komin. Talsmaður neytenda var svo viss um að brugðist yrði hratt og vel við erindinu og bað mig um að vera tilbúinn til að fara með sér á fund þáverandi félagsmálaráðherra með mjög stuttum fyrirvara. EKKERT GERÐIST. Var þetta forsmekkurinn að því varð. Það liðu rúmir 11 mánuðir, þar til tókst að fá alvöru fund með ráðherra!!! Lítið hafðist upp úr þeim fundi.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2009 kl. 16:18
Einhverra hluta vegna hef ég meiri trú á því sem HH eru að gera en stjórnvöld.
Afar merkileg þessi tregða stjórnmálamanna við að tala við fólk. Svo blaðra þeir um samráð við hagsmunaaðila, almenning ofl.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 5.10.2009 kl. 17:17
Ég kemst ekki hjá því að finnast það stefna í verulegan ófrið. Skuldarar eru bæði hlunnfarnir og hundsaðir í kreppunni í krafti þess að þeir eigi bara að skammast sín fyrir það að hafa skuldað.
Það virðist ennþá langt í land að sá almenni skilningur sé í landinu að skuldarar eru eiginlega fórnarlömb að stærstum hluta en ekki óráðsíupésar eins og allt of of er látíð í verði vaka.
Takk fyrir vinnuna sem þú leggur á þig í þessu efni Marinó.
Haukur Nikulásson, 5.10.2009 kl. 17:36
Sæll Marinó,
mikið er ég stoltur af ykkur í HH. Hugsaðu þér ef þið væruð ekki til og ASÍ ætti að standa í stappi við samflokksmenn sína og sjálfan sig.
Ég sagði strax að nauðsynjalaust væri að lesa hugmyndir Árna Páls. Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn myndi leyfa honum að leggja eitthvað fram þá væru um gagnlausar tillögur að ræða.
AGS hefur bannað að hjálpa skuldsettum heimilum landsmanna. Því Marinó þarftu bara að senda AGS heim og þá er von.
Þið getið verið mjög sátt við starf ykkar og eigið hrós skilið. Ég segi takk fyrir mig.
Gunnar Skúli Ármannsson, 5.10.2009 kl. 17:42
Sæll Marinó,
Þið hjá Hagsmunasamtökum heimilanna standið svo sannalega undir nafni. Það er því miður ekki hægt að segja það sama um ríkisstjórnina.
Jón Baldur Lorange, 5.10.2009 kl. 17:51
Gunnar Skúli, ég þakka það traust sem þú hefur á mér, en ekki er ég svo máttugur að geta sent AGS heim .
Vandinn er gríðarlegur, en skilningsleysið sem stjórnvalda sýna er líklegast meira. Ég býst samt við, að stjórnvöld séu ekki að segja okkur allt. Ég neita að trúa því, að þau átti sig ekki á hvað er við að etja eða að til séu lausnir sem létt geta miklu af heimilunum.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2009 kl. 17:53
Sæll
Já og tek undir takk fyrir mig. Það er nokkuð ljóst að næsti vetur verður ekki auðveldari en sá fyrri, og nokkuð víst að Þorrin verður mörgum ansi erfiður. Maður hefur lengi beðið eftir ljósglætu í myrkrinu en þegar maður heldur að núna sé eitthvað að gerast þá er bara ennþá myrkur. Þetta eru óraunverulegir tímar að manni fynnst. Ég hef ekki verið talsmaður þess að ganga í ESB fram til þessa en ef kosið yrði á morgun þá myndi ég sennilega segja JÁ því svo virðist getuleysið - viljaleysið og skilningsleysið vera að maður trystir frekar þeim í Brussel fyrir málunum.
En HH eiga miklar þakkir skildar fyrir að vera öflugur málsvari okkar og haldið þessu góða og þarfa starfi áfram.
Kveðja
Bjössi
Þorbjörn Ólafsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 18:08
Sæll Marinó,
hér fyrir neðan er 16 greinin úr viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til AGS. Ég túlka hana þannig að Ríkisstjórninni sé fyrirmunað að ganga að óskum okkar.
16. Hið opinbera mun ekki taka á sig frekari skuldbindingar vegna bankakreppunnar.
Því miður munu lífeyrissjóðirnir, innlendir peningamarkaðssjóðir, ýmsir erlendir lánardrottnar
og fleiri aðilar verða fyrir umtalsverðu tapi í kjölfar hruns viðskiptabankanna.
Þar sem skuldir hins opinbera eru þegar miklar er mikilvægt að leggja ekki frekari
byrðar á hið opinbera með því að það taki slík töp á sínar herðar.
Þetta er tappinn í flöskunni.
Gunnar Skúli Ármannsson, 5.10.2009 kl. 20:23
Takk fyrir alla þína vinnu Marinó, þið eigið heiður skilið stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna!
Það er sorglegt, já grátlegt að við sem skuldum þessi íbúðalán skulum alltaf standa alein gegn samtökum eins og ASÍ sem því miður sjá bara eina hlið, þá hlið sem snýr að fjármagnseigendum. Sem betur fer eru þó til þessi samtök, HH, sem er okkar talsmaður.
Því miður er þessi tillaga félagsmálaráðherra einskis virði ef við eigum að fá tímabundna lækkun á greiðslubyrði sem síðan stórhækkar þegar hún er búin að hlaða enn meiri verðtryggingu utan á sig. Hvað á fólk eins og við hjónin á sextugsaldri að gera? Okkar íbúðalán hefur hækkað um margar milljónir. Ég hafði hugsað mér að minnka vinnu eftir nokkur ár. Ekki sýnist mér það lengur vera kostur á næstu árum.
Höfuðstóllinn verður líklega leiðréttur þegar ég er búin að vera 10 ár í gröfinni!! Hvernig dirfist þetta fólk að segja að það sé verið að hjálpa fólki. Jú jú, hjálpa fólki með því að borga minna á mánuði í einhvern óákveðinn tíma en hvað svo? Nei ég er orðin ofboðslega reið! Dóttir mín og tengdasonur búa í Svíþjóð. Ég vildi að ég væri helmingi yngri, þá færi ég burt héðan frá þessu okurvaxtaþjóðfélagi. Í fjöldamörg ár hafa stýrivextir og aðrir vextir verið himinháir. Allt gert fyrir fjármagnseigendur en skuldarar píndir til síðasta blóðdropa. Ég hef skömm á þessu.
Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 20:48
Þ.e. sennilega betra, að leiðrétta höfuðstól strax, þ.s. að ef sú leiðrétting er látin hanga yfir, þangað til eiinhverntíma seinna, þá hafi það of marga galla í för með sér, sem dæmi vanda við að selja húsnæði - þ.s. virði lánsins er óvíst - og einnig vanda fyrir bankana, þ.s. virði lánasafna verður óvisst.
þ.e. einnig augljósir gallar á, að tekjutengja greiðslur, en í formi til er það enn einn jaðarskatturinn á þá sem hafa hærri laun, en lægstu laun.
Í reynd, hef ég verulegar áhyggjur af millistéttinni, sem öll högg ríða á af tvöföldum þunga, þ.e. meiri skattheimta en á aðra, aukin jaðarskattáhrif - missir vaxtabóta, barnabóta. Með öðrum orðum, þegar hefur verið höggið í þann knérunn þrisvar. Síðan, ofan á allt það, bætast við hærri greiðslur af lánum, en hjá öðrum.
Það má vera, að jaðarskatta-áhrifin, ásamt frekari skattheimtu, og hærri aborgunum; lagt saman, geti haft þau áhrif, að fjöldi fólks með "góðar tekjur" lendi í því, að eiga ekki fyrir mat, eins og þeir sem eru í lægstu launaflokkunum.
Minn ótti er sá, að þessir hópar, finnist svo að sér vegið, að þeir muni upplifa ríkisvaldið sem þeim fjandsamt, og því fari sá hópur í auknum mæli að beita ólöglegum aðferðum, til að sleppa betur. Með öðrum orðum, að skapist einhvers konar, uppreisn hjá þessum hópi.
Marínó, er þessi ótti á rökum reistur?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 5.10.2009 kl. 21:46
Skuldavandinn er tvíþættur
Annars vegar að kaupmáttur hefur dregist meira saman en nokkru sinni í langan tíma, sem veldur því að getan til að greiða mánaðarlegar afborganir minnkar. Sérlega harkaleg er þó minnkun greiðslugetunnar þegar horft er á hin svokölluðu gjaldeyrislán.
Hins vegar hefur einnig orðið áður fáséð verðlækkun á fasteignum, sem veldur því að höfuðstóll lána er nú hærri en markaðsverð þeirra hjá mörgum þeirra sem keypt hafa fasteignir á undanförnum árum og lagt fram lítið eigið fé.
Reynslan kennir að þetta er tímabundið ástand. Kaupmáttarrýrnunin mun snúast við. Verði hagvöxtur munu laun að jafnaði vaxa í takt við hann og umfram verðbólgu. Til lengri tíma litið fer greiðslugetan því vaxandi. Um fasteignirnar eru hins vegar ekki jafn góðar horfur, einkum vegna þess hversu mikið offramboð er á íbúðum hér á suðvesturhorninu.
Þegar litið er á þessi tvö vandamál, þá er ljóst að greiðslugetuvandinn er brýnni. Það er því eðlilegt að ráðast á hann. Það er ekki frágangssök þótt mínus verði á höfuðstólnum í einhvern tíma. Það má bíða með leiðréttingu á þessu misræmi telji menn því þörf (hvernig á að leysa sama vandamál gagnvart íbúum landsbyggðarinnar sem hafa búið við neikvæðan höfuðstól svo lengi sem elstu menn muna er svo annað skylt mál).
Það er hins vegar alveg sjálfsagt að menn borgi skuldir sínar í botn. Verðbólgan hefur áður verið mun hærri en 10% og verðtrygging eftir því. Þá var þungt en ekki forsendubrestur. Það hjálpaði að á þeim tíma hækkuðu launin jafnan í við meir en lánin. Nú bregst ríkisstjórnin við þegar launin fara í hina áttina.
Þess vegna finnst mér óskiljanlegur þessi neikvæði tónn í hinum svokölluðum Hagsmunasamtökum heimilanna. Tenging við greiðsluvísitölu er nákvæmlega það sem leysir helsta vanda heimilanna í bráð. Hitt má bíða betri tíma, kannski hækkar fasteignaverðið fyrr en síðar.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 22:08
Ómar Harðarson,
Hvernig stendur á því að fólki hér á landi finnst alveg sjálfsagt að borga 25% vexti af húsnæðisláni? Það eru þeir vextir sem ég og aðrir sem eru með verðtryggt lán borguðum á síðastliðnu ári. Það eru hvergi svona okurvextir, meira að segja mafían tekur ekki svona háa vexti því þeir vilja halda mjólkurkúnni gangandi en ekki gera hana gjaldþrota. Verðtrygging er EKKERT annað en vextir. Þið getið bullað eins og þið viljið, fjármagnseigendur, en þetta er mesta eignaupptaka sem til er á byggðu bóli. Ég hef búið erlendis, trúið mér það er hægt að lifa af án verðtryggingar.
Þvílíkt bull að halda það að verðtrygging sé eitthvað lögmál, komið frá guði kannski? Þetta er sko bananalýðveldi, því miður. Sumir menn eru jafnari en aðrir, "survival of the fittest".
Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 23:24
Ég fékk það á hreint í kvöld að greiðsluaðlögun gengistryggðra lána gerir ráð fyrir að LIBORv extir verði þeir sömu og 2. maí 2008. Það er 200 punktum hærri vextir en eru í dag. Fyrir þannn sem skuldar 10 m.kr., þá munar þetta 200.000 kr. á ári. Vissulega eiga vextir eftir að hækka og eftir einhver ár verður þessu hugsanlega öfugt farið.
Einar, ég óttast að fólk fari að hunsa norm þjóðfélagsins. Því verði alveg sama og svartar tekjur verði sífellt algengari fyrir þá sem það geta. Ég er ekki í þeirri stöðu og því verður mér og öðrum í mínum sporum mismunað enn frekar.
Ég var annars á fundi hjá Samfylkingarfélagi Kópavogs að kynna samtökin og afstöðu okkar ásamt tveimur öðrum úr stjórninni. Þar var líka Kristrún Heimisdóttir og áttum við gagnlegar viðræður við hana. Vonandi verður það til þess að alvöru viðræður fara í gang, þar sem byrjað er með hreint borð og síðan ráðist á viðfangsefnið.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2009 kl. 23:29
Tek undir þakkir til þín og HH fyrir óeigingjarnt starf ykkar Marinó.
Ég tel að það muni ekki boða neina gæfu fyrir lántaka landsins að búa til enn eina vísitöluna til þess að miða greiðslubyrði við.
Það verður ekki endurtekið nógu oft að við þurfum að komast út úr verðtryggingunni og eilífum tengingum við breytur í hagkerfinu sem eignast síðan sitt eigið líf og verða að náttúrulögmálum sem enginn vilji verður til að aftengja síðar meir. Er þetta eitthvað sem við viljum sitja uppi með fyrir komandi kynslóðir?
Síðustu ár hefur mikið verið rætt um að ekki hafi verið rétt að hafa húsnæðisverð inni í vísitölu neysluverðs. Hefði það ekki verið inni á síðustu árum fram til 2008, hefðu lán okkar ekki hækkað eins mikið og þau þó gerðu á tímabili þar sem almenn verðbólga var með því lægsta sem við höfum kynnst síðustu áratugi. Eftir hrun hefðu lán okkar hins vegar hækkað enn meira en raunin hefur orðið hefði húsnæðisverð ekki verið inni í vísitölunni. Þannig að hvernig sem menn reyna að velta fyrir sér betrumbótum verðtryggingarkerfisins þá verður niðurstaðan alltaf sú sama. Lántakinn er 'screwed' vegna þess að það verða alltaf þær aðstæður í hagkerfinu (ekki síst vegna verðtryggingarinnar sjálfrar) að einhver breytistærð 'skekkir' heildarmyndina.
Og nú á að miða greiðslubyrði okkar við launavísitölu. Ég hjó eftir þessum punkti hjá þér:
"Og sé það ekki nóg, þá á að egna þjóðfélagshópum saman á næstu árum, þar sem hækkun launa, t.d. kennara, verkafólks eða bankamanna, mun leiða til hækkaðrar greiðslubyrði lána."
En þetta er eiginlega enn verra en hér kemur fram. Svo við höldum áfram á svipuðum nótum og með pælingunum með húsnæðisverðið; hvað hefði gerst hér síðustu ár ef slík launavísitölutenging hefði verið fyrir hendi? Hvaða stétt manna lifði við mestu kjarabæturnar? Bankamenn, eða ? Ég held því fram að launaþróun bankastarfsmanna hefði skrúfað upp launavísitöluna og þar með greiðslubyrði allra síðust árin, hefði þetta fáranlega kerfi verið fundið upp fyrir einhverjum árum. Þannig að fyrir utan að stéttum sé hér att saman þá getur annað bólufyrirbrigði eins og bankabólan í framtíðinni haft þessi sömu áhrif að greiðslubyrði eykst hjá stéttum sem ekki njóta launaskriðs bólufyrirtækjanna.
Hvernig dettur mönnum í hug að þetta leiði af sér félagslega réttlátt kerfi?
Karl Ólafsson, 5.10.2009 kl. 23:29
Það er líka annað varðandi yfirveðsetningu eigna þar sem lánin hafa hækkað um tugi prósenta þrátt fyrir fullar afborganir. Fólk í slíkum eignum er í átthagafjötrum. Frosinn fasteignamarkaður vegna okurlánanna gerir það að verkum að eldra fólk situr fast í sínum íbúðum og getur ekki minnkað við sig og unga fólkið er hrætt við að taka þessi lán með þessum hræðilegu kjörum.
Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 23:34
Góð ábending, Karl, varðandi VNV með og án húsnæðis. Með húsnæði hefur hún hækkað um 23,8% frá 1. jan. 2008, en 31,0% ef mælt er án húsnæðis.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2009 kl. 23:40
Er einhver grundvallar munur á því sem er að gerast hér og því sem er að gerast þarna?:
http://www.amnesty.is/frettir/nr/1710
Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 23:41
Margrét, líklegast er best að halda verðtryggingunni með þaki á verðbætur og vexti. Núverandi kerfi er a.m.k. stórgallað fyrir lántakendur, þó fjármagnseigendur geti varla hætt að brosa.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2009 kl. 23:42
Þurfa Hagsmunasamtök Heimilanna ekki bara að fara í framboð og breyta lögunum til betri vegar?
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.10.2009 kl. 00:41
Ert þú sjálfur í greiðsluverkfalli, Marinó?
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2009 kl. 02:29
Gunnar Th., já, ég hef valið tvö af þeim atriðum sem eru á lista samtakana yfir leiðir til að taka þátt í greiðsluverkfalli.
Marinó G. Njálsson, 6.10.2009 kl. 07:54
sæll Marinó, hversu margir í þessum samtökum, styðja Samfylkinguna? sjáið þið ekki að það er þeir sem standa í vegi fyrir höfuðstóls leiðréttingu........af því að AGS vill það ekki. eina færa leiðin til að fá sanngjarna höfuðstólslækkun er að þið hættið að styðja þennan ESB,AGS , evrópu flokk, þið hljótið að vera farin að sjá það. þeir eru enn að mælast rétt undir 30%!!!!!!!
siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 08:15
Siguróli, við könnum ekki stjórnmálaskoðanir fólks. Ég veit hins vegar að innan samtakanna er stuðningsfólk allra stjórnmálaflokka bara af persónulegum kynnum mínum við félagsmenn.
Marinó G. Njálsson, 6.10.2009 kl. 09:03
Sæll Marinó!
Bankar og lánastofnanir hafa aldrei verið og verða aldrei "félagslegt úrræði". Þetta þurfa HH að gera sér grein fyrir.
Leiðrétting skuldara í dag þýðir leiðrétting banka á morgun með enn hærri vöxtum.
Þannig virkar hagkerfið og bankakerfið einfaldlega og það er sorglegt að horfa á Árna Pál félags halda öðru fram.
En það gerir hann til að slá ryki í augu fólks.
Allir útreikningar eru ávallt fjármagnseigendum í hag og verða alltaf.
Jóhanna nefndi í gær að 1% ríkustu fjölskyldna ætti nú orðið 20% af landsframleiðslu. Hvernig skyldi standa á því?
Halda menn að þetta 1% vilji missa sinn hlut?
En hvað er til ráða? Greiðsluverkfall? Nei það skilar engu. Ég held að eina ráðið sé að allir segi upp sínu starfi sem skilar þeim sterku skilaboðum til ríkisstjórnar, alþingis og umheimsins að hér verði ekki almenningur tiltækur í aðgerðir AGS, Icesave, fyrir þessi 1% stóreignafólks.
Allir þessir aðilar vilja þeir eiga von á endurgreiðslu en þegar fólk er orðið launalaust fá þeir ekkert. Þetta er einfalt svar en því miður eina svarið. Allt annað eru málamiðlanir og þá skiptir máli að HH og forsvarsmenn þess láti ekki kynni sín af stjórnmálamönnum hvort sem þeir eru á þingi, sveitastjórnum eða á "miðilsfundum" út í bæ hafa áhrif á sig.
Sem málamiðlun gæti ég nefnt margt. T.d. mætti vel hugsa sér að allur höfuðstóll lána verði felldur niður og samið verði um vexti og þeim breytt í höfuðstól. Fáránleg hugmynd?
Sá höfuðstóll sem landsmenn eru að greiða af myndaðist í bólu sem nú er sprungin. Afskrifaðar skuldir banka erlendis vegna íslensku bankanna nema hundruðum milljarða. Við komum ekki til með að greiða þær skuldir.
Þess vegna er hægt að afskrifa höfuðstól lánanna. Kaupþing eitt sér var með 14 falda landsframleiðslu landins "milli handanna" og mér vitanlega er ekki verið að krefjast þess að landsmenn séu krafðir um þá upphæð.
Því er vel hægt að afskrifa þetta rétt eins og Sigmundur Davíð nefndi fljótlega eftir hrun. Þá hlógu allir en er ekki kominn tími til að tengja?
Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 10:31
Ég held að það sé gott að rifja upp þennan pistil sem ég tók saman fyrir hálfu ári síðan.
Marinó, Þú komentar þarna um að lausnin sem ég bendi á sé algjör skamtíma lausn. Ertu enn jafn viss um það. ?
Vandamálið og lausnin
Guðmundur Jónsson, 6.10.2009 kl. 11:42
"líklegast er best að halda verðtryggingunni með þaki á verðbætur og vexti. Núverandi kerfi er a.m.k. stórgallað fyrir lántakendur, þó fjármagnseigendur geti varla hætt að brosa"
Marínó, Þetta er það sem Ögmundur Jónasson VG lagði til fyrir hrun þegar verðbólgan var að þjóta upp og kom hann á Sprengisand Til Sigurjóns M. og fl staði og messaði um þetta og sagði ef hann kæmist í stjórn yrði þetta hans fyrsta verk, bjarga heimilum! Enn ekkert gerðist og hann farinn úr stjórn ;( Það þarf því miður að koma annari byltingu af stað!
Friðrik Gestsson (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 11:46
Þú stendur vaktina fyrir þjóðina Marinó og sérð í gegnum þessar endarlausu "blekkingar XS" - þessi klækjastjórnmál XS eru bara ekki að ganga upp. Það var í mínum huga augljóst að enginn áhugi var hjá Samspillingunni að gera "eytt eða neytt" fyrir skuldara eftir hrun - því ég stakk nefnilega upp á strax í byrjun að allir þeir "ábyrgðarmenn sem þurfa að borga skuldir annara" myndu fá 20-25% afslátt ef þeir gætu greitt burt skuldir sem á þeim lenda. Slík lausn gagnast ábyrgðarmanni & skuldara sem þarf að endurgreiða þá minna tilbaka til ábyrðgarmanns. Slík lausn hjálpar einnig bankakerfinu, en það var enginn áhugi á að gera eitt eða neytt...! Eina sem þeir koma fram með er að "lengja í lánum...lol.." og svo kannski verður eitthvað afskrifa síðar ....! Þessi ríkisstjórn er ekki bara viðbjóður, hún er stórhættuleg "land & þjóð". Verkstjórn Jóhönnu er í molum og þau hafa lítið vit á efnahagsmálum. Þessari ríkisstjórn þarf að koma frá..!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 6.10.2009 kl. 11:47
AGS er það versta sem hefur komið fyrir landið síðan bankarnir féllu. En nokkrir að ofan skrifuðu um AGS.
Einar bendir á hættu sem millistéttin er í. Það er akkúrat það sem gerist um leið og AGS gjöreyðingarvaldið kemst inn í lönd með sínar handrukkanir fyrir auðvald heimsins. Og lætur ríkisstjórnir landanna halda að þeir séu að hjálpa. Það sem Einar segir um millistéttina, hefur komið fram hjá þeim fjölda lærðra manna sem gagnrýna AGS harðlega.
Karl bendir á fáránleika tengingu skulda við launavísitölu og hefur lög að mæla. Það gæti aldrei gengið og væri ótrúlegt ranglæti ef skuldir almennings hækkuðu í hvert sinn sem auðmenn fá bónusa og hækkanir.
Læt þetta inn og losum okkur við AGS (IMF):
MICHAEL HUDSON:
http://www.counterpunch.org/hudson08182009.html
NATHAN LEWIS:
The IMF destroys Iceland and Latvia:
"The International Monetary Fund operates primarily as a banker bailout machine. They cajole and tempt and confuse and threaten the leaders of governments worldwide to pay off the failed bets of the big bankers using the taxpayer funds of their countries. This has been going on a long time, at least since the early 1980s.
Thus, I am not in the teeniest bit surprised that the same thing is happening today in Iceland and Latvia.
The IMF should be abolished."
ElleE (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 11:52
Ég sagði að ofan: "Það sem Einar segir um millistéttina, hefur komið fram hjá þeim fjölda lærðra manna sem gagnrýna AGS harðlega." Nákmæmari lýsingar þeirra eru að millistéttin eyðist upp í þeim löndum sem AGS kemur inni í.
Líka þurfum við að losa okkur við Evru-flokkinn/Icesave-flokkinn stór-hættulega.
ElleE (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 12:00
Annars óttast ég einnig, Marinó, að hávaxtastefna Seðlabankans, geti keyrt bankana á dúndrandi hausinn, í annað sinn, einmitt vegna þess að lán eru of dýr.
Það hafa komið fréttir við og við, um það að innlánsreikningar bankanna séu fullir af peningum. Þeim fréttum, hafa ekki fylgt neinar nánari skýringar, en mig grunar að viðkomandi fréttamenn geti hafa verið það miklir kjánar, að átta sig ekki á, að þeir voru að flytja slæmar en ekki góðar fréttir, þ.e. innlán eru eftir allt saman, skuldameginn.
Bankar ættu að hafa efni á umtalsverður afskriftum, eins og við vitum, en spurningin er enn á ný, akkúrat á hvaða formi var fjármagnsinnspýting ríkisstjórnarinnar. Ef hún fólst fyrst og fremst í lánapakkanum sjálfum, þ.e. að afhenda hann þeim á þeim kjörum, sem pakkinn fékkst á, þá er mismunurinn á því verði og því verði sem þeir skrá hann á, í sínu bókhaldi að stærstum hluta eigið fé bankanna. Mér finnst ég ekki enn hafa fengið staðfestingu á því, að um raunverulega hlutafjáraukningu hafi verið að ræða.
Þannig, að ef þetta er rétt, þá er tregðan til afskrifta útskýrt. Síðan, kemur sá vandi, að þeir eru að reka fullt af Zombí fyrirtækjum, sem kostar þá mikið fé, hvern mánuð.
Síðan, að auki, er það tap vegna misgengis verðgildis innlendra vs. erlendra eigna, út af viðvarandi gengishrapi krónu. En, mín skoðun er að það sé, í raun og veru að stórum hluta, sjálf hávaxta stefnan, sem sé að framkalla þetta gengishrap.
Þegar þetta fer allt saman, óttast ég, hrun bankanna, á fyrri hluta næsta árs, jafnvel.
--------------
Marínó - hef ég rangt fyrir mér?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 6.10.2009 kl. 12:01
Hafþór, hvaðan hefur þú þetta með "félagslegt úrræði". Hafi ég sagt það einhvers staðar, þá hefur samhengið verið annað. Ég hef aftur talað um "félagsleg rök" og beint þeim gegn stjórnvöldum.
Guðmundur, það sem ég vísa til sem "skammtímalausn" er tengingin við fasteignavísitölu, þar sem fasteignaverð mun taka við sér. Og ég stend við það.
Friðrik, já, kannski þarf nýja byltingu, en við þurfum fyrst og fremst fólk sem þorir.
Marinó G. Njálsson, 6.10.2009 kl. 15:23
""það sem ég vísa til sem "skammtímalausn" er tengingin við fasteignavísitölu, þar sem fasteignaverð mun taka við sér.""
Tenging við fasteignavísitölu í fyrirfram ákveðin tíma er lykillinn í þessu. Þannig er hægt að láta raunvirði veðanna fylgja lánunum á meðan það versta gengur yfir í efnahskreppunni, en auðvitað gengur það ekki sem grunn trygging til langframa af svipuðum ástæðum og tenging við launavísitölu er fáránleg.
Guðmundur Jónsson, 6.10.2009 kl. 15:51
Hæ hæ, hvet ykkur til að fara inn á www.sp.is , þar er rætt um þessa greiðsluaðlögun, nema eftirstöðvar láns verða ekki afskrifaðar í lokin. Ef það eru eftirstöðvar í lok tímabils, er annað hvort hægt að skila inn bílnum eða greiða upp eftirstöðvarnar. Ekkert er rætt um þessa blessuðu afskrift.
Inga (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 23:42
Takk fyrir þetta, Inga. Við höfðum heyrt af þessu. Ég verð að viðurkenna, að mér finnst þetta vera hátt leigugjald, en við ætlum náttúrulega að vinna málið fyrir dómi. Fyrsta málið sem er í gangi er gegn SP, ef mig misminnir ekki.
Marinó G. Njálsson, 6.10.2009 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.