Leita í fréttum mbl.is

Á að lúffa eða standa keikur?

Íslensk stjórnvöld mótuðu stefnu varðandi auðlindaskatt vegna olíuvinnslu á Drekasvæðinu.  Nú hafa tvö fyrirtæki, sem sótt höfðu um sérleyfi til leitar, ákveðið að hætta við og bera fyrir sig íþyngjandi skatta.  Ég er nokkuð viss um að það hefði engu máli skipt hvert skatthlutfallið hefði orðið, fyrirtækin hefðu kvartað.  Í mínum huga er spurningin einföld:  Er ákvörðun um skattana tekin af íslenskum stjórnvöldum eða erlendum fyrirtækjum?  Ætla íslensk stjórnvöld að standa keik eða lúffa?  Eru innan þeirra menn eða mýs?

Mér sýnist sem hin erlendu fyrirtæki vilji láta reyna á hversu slæm staða íslenska þjóðarbúsins er.   Ég veit að hún er slæm en hún batnar ekki við það að gefa eftir í þessu máli.  Hagnaður, ef nokkur, af olíuvinnslu verður ekki fyrr löngu eftir að við höfum lagt núverandi kreppu að baki.  Það er því alveg óþarfi að verða óstöðugur í hnjánum, þó þessi tvö fyrirtæki hætti við.  Bíðum í tvö ár og auglýsum þá aftur.  Ef við breytum stefnunni, þá sýnum við umheiminum að auðvelt er að beygja litla Ísland.  Er það virkilega skilaboðin sem við viljum senda út núna?

Eitt er alveg víst.  Sé vinnanlegt magn olíu á Drekasvæðinu, þá breytist það ekkert þó beðið sé.  Líklegra er að verðmæti svæðisins geri ekkert annað en að aukast.  Nú hafa Norðmenn ákveðið að Jan Mayen svæðið sé þess virði að skoða og það segir mér að fleiri eigi eftir að fá áhuga.  Eru sinna skipti Sagex Petroleum og Lindir Exploration miklu frekar til komin vegna þess, að þau sjá fram á að norsk stjórnvöld greiði kostnað vegna óvissunnar á svæði, en um leið og búið verður að staðfesta að olía er norðan landhelgislínunnar, þá verði áhættan minni vegna leitar sunnan hennar.  Og á sama hátt, ef ekkert finnst norðan línunnar, þá verður það ekki áhættunnar virði að leita sunnan hennar.  Eins og ég sé þetta, þá er þetta með skattana bara léleg átilla.


mbl.is Skattarnir afar íþyngjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála!

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 15:19

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ósammála!

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.9.2009 kl. 15:40

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sammála!

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.9.2009 kl. 15:47

4 identicon

Þetta minnir á margt varðandi einkavæðingu Símans. Ef því hefði verið þrýst í gegn .. 2001 minnir mig, þá hefði fengist mun minna verð heldur en að bíða til 2005 eins og var gert.

Þolinmæði er dyggð og nú þurfum við að vera hörð á þessu því eins og þú segir þá er þetta ekkert að fara að minnka í verði þó markaður með olíu sé sveiflukenndur í dag.

Framtíðin liggur í "FEW" (Food, Energy, Water)! Allt þetta þurfum við að vernda eins og dreki á gulli frekar en að ná í skammgóðan vermi með þvagi í skóinn.

Örn Ingvar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 15:51

5 identicon

Sammála, engin ástæða að selja þetta fyrir slikk í dag þó ílla ári.

Toni (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 17:53

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Eins og ég sé þetta, þá er þetta með skattana bara léleg átilla"

Við þessar aðstæður BORGAR sig ekki að vinna olíu á drekasvæðinu. Olíufyrirtæki eru ekki góðgerðarsamtök. Þau eru að þessu til að græða peninga.

Hörður Þórðarson, 23.9.2009 kl. 20:16

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að það sé bara besta mál, þó ekki verði farið í olíuvinnslu á Drekasvæðinu núna.  Hver veit hvað gerist á næsta ári, eftir 5 ár eða jafnvel 25 ár.  Olíugróðinn fer ekkert nema við spilum honum úr höndunum á okkur.  Svo einfalt er það.

Marinó G. Njálsson, 23.9.2009 kl. 21:16

8 Smámynd: Billi bilaði

Ef ég skil þetta rétt, þá vill Marínó standa keikur, og því virðist GThG vilja lúffa?

Billi bilaði, 23.9.2009 kl. 22:59

9 identicon

Ef ég misskil ekki Billa virðist GThG vilja lúffa en ekki Marinó. 

ElleE (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 23:32

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil að við látum reyna lengur á þá skattastefnu sem var mörkuð.  Ef við tökum U-beygju við fyrstu hindrun, þá sýnir það ístöðuleysi og veiklyndi.

Marinó G. Njálsson, 23.9.2009 kl. 23:40

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ósammála! - Þessar skattareglur voru klúður frá upphafi. Þær voru/eru með allt öðrum hætti en t.d. Norðmenn hafa haft þar sem okkar reglur eru mjög íþyngjandi strax við leit þó enginn gróði sé, þegar aftur aðrir leggja á gróðann sem verður eftir leitina.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.9.2009 kl. 23:56

12 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góð umfjöllun Marinó, en tek undir með Helga. Það verður að ver hvati til að fara af stað, en skattleggja svo ávinninginn.

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.9.2009 kl. 00:04

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála um að gera að hafa skattinn nógu háan til að enginn komi og skoði þetta.  Frjálshyggjumenn vilja 0% skatt kerfismenn vilja 100% skatt á gróða. þeir eru á  sama stað í hringnum því hvorugt skilar ríkinu tekjum.

Sigurður Þórðarson, 24.9.2009 kl. 00:48

14 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Ég þekki ekki til þessarar skattlagningar, en olíuverðmætin standa eftir sem áður og eiga eftir að aukast með hækkun olíuverðs á komandi áratugum.  Engin ástæða fyrir íslendinga að spila botninn úr þeim buxunum en því miður ég hef litla trú á öðru en að það verði lúffað í þessu máli eins og öðrum:(

Kveðja

Arnór Baldvinsson, 24.9.2009 kl. 00:49

15 identicon

Hraðaupphlaup norðmanna í kjölfar íslensku leitarheimildanna sýnir okkur eitt; sá aðili sem fer fyrst í gang með olíuvinnslu á þessu svæði fer með stærsta vinninginn. Hugsanlega er hægt að pumpa mest allri olíunni hvorum megin línunnar sem er. Þannig að ekki er hægt að reikna með því að sé olía þarna muni hún liggja í friði um allan aldur. Første mann til mølla får melet malt eins og það heitir á norsku.

Jón (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 10:50

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Íslendingar munu sennilega standa keikir og fá enga olíu. Þá þarf ekki að rífast um það.

Sigurður Þórðarson, 24.9.2009 kl. 14:43

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eitt af því mörgu sem ég hef stúderað á minni lífsleið er orkumál.  T.d. þegar ég var við Stanford háskóla 1986-88, þá sótti ég alla kúrsa sem ég fann um orkumál.  Þar kynntist ég t.d. þeim sjónarmiðum að olíubirgðir heimsins myndu verða uppurnar á árunum 2030-50.  Vissulega hafa þær breyst talsvert, en boðskapurinn er að á einhverjum tímapunkti mun þörf heimsins fyrir olíu verða það mikil, að olíulindir sem þykja ekki hagkvæmar í dag til vinnslu munu verða hagkvæmar síðar.  Haldi menn að olíuverð sé hátt núna eða hafi verið hátt fyrir ári eða tveimur, þá geta menn alveg búist við því að verðið tvöfaldist, fjórfaldist eða jafnvel áttfaldist á næstu árum og áratugum, nema eitthvað mjög óvænt gerist.  Þegar ég var í námi var olíutunnan á bilinu 16-20 USD.  Tíu árum síðar var hún komin í 36-40 USD og núna (aftur um 10 árum síðar) er hún að dansa í kringum 72 USD.  Þ.e. tvöföldun á hverjum 10 árum.  Vissulega hefur verðið sveiflast upp og niður í millitíðinni, en þróunin er augljós.  Olíuverð hækkar um 7% á ári sem þýðir tvöföldun á 10 árum.  Þess vegna þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af því að missa af lestinni.  Þess vegna þurfum við ekki að flýta okkur að byggja vatnsafls- og gufuaflsvirkjanir fyrir erlenda stóriðju og selja þeim raforkuna fyrir brot úr centi.

Marinó G. Njálsson, 24.9.2009 kl. 15:00

18 identicon

Það hjálpar íslendingum lítið að olían á drekasvæðinu sé 10 sinnum verðmætari árið 2040 ef norðmenn eru búnir að pumpa henni upp. Ég vil benda á þessa frétt um viðbrögð norðmanna við íslensku leitaeheimildunum;

http://www.dagbladet.no/2009/09/24/nyheter/innenriks/olje/jan_mayen/miljo/8262032/

Jón (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 18:26

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón, án þess að þekkja samninginn um svæði út í hörgul, þá held ég að inni í honum sé 75/25 regla, sem þýðir að Ísland á 75% nýtingarétt sunnan miðlínunnar og 25% norðan hennar.  Norðmenn geta því ekki nýtt svæðið 100% á norðursvæðinu.  Kannski er ég að misskilja hlutina.

Marinó G. Njálsson, 24.9.2009 kl. 18:56

20 identicon

Nei ég þekki helur ekki samninginn í smáatriðum en les eftirfarandi athugasemd frá fjölmiðlastönti norska orkumálaráðherrans á Jan Mayen í gær;

Klarer ikke Norge å henge med i kartlegging av oljeressursene, frykter både oljenæringen og staten at reservoarer kan tømmes før Norge kommer i gang med utvinning i sin sektor.

Þetta finnst mér benda til þess að norðmenn viti að hér sé um að gera að vera á staðnum á réttum tíma svo ekki sé allt tæmt. Á sama tíma virðast þeir ekki trúa því að það sé tímabært að vinna þessa olíu, vegna þess að það sé svo krefjandi og kostnaðarsamt.

Jón (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 20:04

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

7% hækkun á ári sem þú nefnir Marinó, er ekki raunhækkun. Auk þess hefur olíverð alltaf sveiflast mikið og OPEC ríkin reyna að halda verðinu uppi með því að stýra framboðinu.

Olíukreppan svokallaða í kringum 1976 var bara blekking, segja sumir. Enda kom fáum árum síðar í ljós að um all svakalegt vanmat var að ræða á magni vinnanlegrar olíu í heiminum. Enn finnast nýjar olíulindir, nýlega í S-Ameríku en þar mun vera gríðarlegt magn fundið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2009 kl. 01:37

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, hvaða máli skiptir hvort hækkunin er raunhækkun eða ekki?  Hækkunin er 7% að jafnaði á ári síðustu 20 ár eða svo.  Það þýðir tvöföldun verðs á hverjum 10 árum að jafnaði.

Olíukreppan í kringum 1976?  Mig minnti að hún hefði verið í upphafi 8. áratugarins.  Nær allar "kreppur" sem hafa komið undanfarin 30 ár eða svo hefur verið meira og minna "leikstýrt" af peningamönnum og ríkisstjórnum.  Mér fannst hún kómísk athugasemdin hans Gadaffis um fiskiflensuna.  Írónía.  Vesturveldin eru nefnilega alltaf að telja okkur trú um að eitthvað sé að óttast.  Kjarnorkuvopn Norður-Kóreumanna, gereyðingavopn Íraka, kjarnorkuógn frá Íran, eldflaugar frá Norður-Kóreu, eldflaugar frá Íran, Al-Kaieda, fuglaflensa, svínaflensa, matarskortur, olíuskortur.  Hvað þetta var miklu einfaldara meðan Sovétríkin voru og hétu.  Þá þurftum við ekki óttast nein önnur ríki.  Ég held að við þurfum ekki að óttast nema tvö ríki.  Þetta eru einu ríkin sem geta sett af stað gereyðingastríð:  Bandaríkin og ...  Ég ætla ekki að nefna seinna landið á nafn því þá koma ... og saka mig um kynþáttahatur.

Marinó G. Njálsson, 26.9.2009 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 1679974

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband