3.9.2009 | 20:29
"Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum"
Þetta voru orð Þórólfs Matthíassonar í Kastljósinu áðan. Hann var að setja ofan í við Tryggva Þór Herbertsson, þegar Tryggvi talaði um að skuldirnar myndu tikka á 15% vöxtum. Þetta væru sko ekki raunvextir, þeir væru lægri. Tryggvi brást við og sagði það alveg rétt og þá kom þetta kostulega andsvar Þórólfs "Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum". Svei mér, ef það rigndi ekki upp í nefið á honum, þegar hann sagði þetta, svo hátt reigði hann hausinn.
Þórólfur, þegar þú mátt vera að því að koma niður úr fílabeinsturni hagfræðikenninganna, þá kemstu líklegast að því að vextir eru vextir hvaða nafni þeir heita. Fyrir allan almenning, kannski ekki þá sem búa í fílabeinsturni háskólasamfélagsins, en fyrir okkur hin, þá er okkur nákvæmlega sama hvort vextirnir heita nafnvextir, raunvextir, vextir eða verðbætur. Allt eru þetta útgjöld sem ráðast af óvægni á budduna. Og við borgum líka vextina sem halda raunvöxtunum ofan verðbólgunnar.
Annars á ég ofsalega erfitt með að skilja Þórólf. Hann virðist fastur í einhverjum hagfræðikenningum og gleyma alveg að tengja þær við raunveruleikann. Nú setur hann fram tillögu um tekjutengingu afborgana húsnæðislána. Þessi hugmynd er hugsanlega flott í útópíu hagfræðinnar, þar sem gert er ráð fyrir hagvexti, tekjuaukningu, kaupmáttaraukningu og síðan stöðugleika. Tekjutengingar í íslensku samfélagi hafa alltaf orðið til að skapa óréttlæti vegna þeirra jaðaráhrifa sem kemur út úr tekjutengingunni. Ef einstaklingur eykur tekjur sínar um 100.000 kr. með aukinni vinnu, þá fara 41% í skatta og lífeyrissjóðsiðgjald, 4% í námslán og síðan kannski 15% - 20% í afborganir lána (miðað við tillögu Þórólfs). Við þetta bætist lækkun vaxtabóta og barnabóta og hugsanlega hátekjuskattur. Eftir standa innan við þriðjungur af 100.000 krónunum. Hvað gerir þá viðkomandi? Hann leitar frekar eftir svörtum tekjum, vegna þess að þá heldur hann öllum 100 þúsund kallinum.
Í Kastljósinu í kvöld talaði Þórólfur einu sinni sem oftar um kostnaðinn af leiðréttingu lána heimilanna. Honum er ótrúlega tíðrætt um þetta og fékk liðsmann í formi Jóns Steinssonar sem var með grein í Mogganum í dag. Þeir tala um að leiðrétting núna kosti skattgreiðendur svo mikið. Þetta er algjört bull. Við höfum val. Hægt er að fara í leiðréttinguna núna eða afskriftir síðar. Ég hef skrifað grein um þetta, sem mun birtast í Morgunblaðinu á næstu dögum á sama stað og grein Jóns. Þar færi ég rök fyrir því að líklegast er ódýrara að fara núna í leiðréttingar, heldur en að stefna stórum hluta þjóðarinnar í gjaldþrot. Auk þess liggja fyrir því viðskiptaleg rök, lögfræðileg rök og siðferðileg rök. En tvö þau síðari mælast náttúrulega ekki í útópískum hagfræðiformúlum Þórólfs Matthíassonar. Með fullri virðingu fyrir hagfræðiformúlum, þá eru niðurstöður þeirra engu betri en tölurnar sem settar eru inn í þær. Séu forsendurnar rangar, þá verða niðurstöðurnar bara bull. Rubbish in, rubbish out. Hafi eitthvað sannast undanfarin ár, þá er það nákvæmlega þetta.
(Ég mun birta greinina sem fór í Moggann um leið og hún verður birt þar. Þó verður það talsvert lengri útgáfa.)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 1679976
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó,
þessi hugmynd Þórólfs er alls ekki ný. Þegar ég var virkur félagsmaður í ASÍ tók þátt í að móta hugmyndavinnu sem var nánast alveg eins og hugmynd Þórólfs (árið 1983) Þessi hugmynd gékk mjög vel upp og er mjög sanngjörn. Ekki bara það, hún var fjármagns-léttari fyrir hinn opinbera íbúðarlánasjóð sem þá var starfandi en aðrar hugmyndir.
Þessi hugmynd er mjög réttlát, en fólk í hærri launaflokkum og hálaunamenn hafa ekki áhuga á hugmyndum sem þessum. Þessi hugmynd leysir ekki þann bráðavanda sem nú er uppi hjá þessu sama fólki.
Til að leysa hann verður annað að koma til. Bara að halda því til haga, að gengur að skjóta þessar hugmyndir út af borðinu enn einu sinni bara vegna þess, að þær koma ekki beint að vanda þess fólks sem ái vandanum nú.
Marinó, það er býsna merkilegt í þessum húsnæðislánavandamálum, það er nákvæmlega sami þjóðfélagshópurinn sem á í vanda nú og átti í alveg eins vanda 1983.
Kristbjörn Árnason, 3.9.2009 kl. 20:49
Þú segir það sem segja þarf.
Hlakka til að lesa greinina þína í Mogganum.
Hef lesið skrif þín reglulega til að átta mig á allri þvælunni sem maður les og heyrir um skuldavanda heimilanna og mögulegar lausnir.
En ég, eins og þúsundir annarra, er orðin dauðleið á hártogunum. Nú verður að finna leiðir og AÐGERÐIR.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 20:54
Þessi hugmynd er afleit í þeirri mynd sem Þórólfur setur hana fram. Eina leiðin til að gera hana góða er að setja takmarkanir á lengd lánstímans. Eigi fólk að greiða af lánunum í 50-70 ár í stað 40 ára, eins og upphaflega lánið segir til um, þá er verið að draga úr neyslu þess um aldur og ævi og skerða lífsgæði. Hvað svo þegar næsta kollsteypa kemur og þar næsta? Þær koma aftur og aftur, ef fjármálakerfið þarf ekki að taka neina ábyrgð á gjörðum sínum. Ég vil réttláta lausn og hún snýst ekki um að ég verði að borga af lánum sem ég tók ekki. Þórólfur talaði um að peningar yrðu ekki teknir úr tómi loftinu, en sættir sig við að skuldir verði til úr tómu loftinu.
Marinó G. Njálsson, 3.9.2009 kl. 21:04
Alveg rétt, það er út í bláinn að tala um raunvexti í þessu samhengi. Allavega á meðan raunlaun hafa lækkað um tugi prósenta frá því eftir hrun, meðan raunvextir hafa hækkað.
Það er rétt að tala um raunvexti að einu leyti. Vextir á lánum til heimilanna eru alger þrekraun fyrir þau.
Theódór Norðkvist, 3.9.2009 kl. 21:43
Ég skil ekki umræðuna hérna á Íslandi hjá mörgum. Menn eins og Þórólfur, Jón Steinsson, Gylfi Á. hjá ASÍ og margir aðrir gleyma viljandi kjarna málsins. Hann er að sá að allir hópar í þjóðfélaginu sem skulda.....ríkir, millistétt, fátækir og allir sem falla inná milli, hafa orðið fyrir forsendubresti vegna aðstæðna sem það skapaði ekki. Þetta snýst ekki um hvort einhver getur borgað eða ekki. Þetta snýst um réttlæti. Við sem fólk í þessu landi eigum ekki að sitja undir því að vera þvínguð af okkar eigin ríkisstjórn að borga fyrir eitthvað sem ALDREI var samið um. Ég sá Þórólf í Kastljósi og mér brá hvað maðurinn er blindur á raunveruleika íslenskra skuldara. Hrokinn í honum og hvernig hann var viss um að engin vissi betur, og að flest erum við nú óreiðufólk var með hreinum ólíkindum. Vá !!! Honum finnst ekkert sjálfsagðra en að við borgum allt uppí topp. Bara finna leið sem gerir okkur kleift að geta borgað og helst þar til við drepumst. Flott leið Þórólfur.....en ég ætla ekki að bjóða mínum börnum upp á þetta. Best er að koma sér úr landi. Mig hlakkar ekki til að búa í landi þar sem 30 þús mans er ekki þáttakendur í efnahagskerfi landsins því það er gjaldþrota. Og gjaldþrota einstaklingur á sér enga viðreisnarvon á Íslandi vegna þess að hér voru gjaldþrotalög einstaklinga og fyrirnigarfrestur krafna búnin til af kröfuhöfum og ekki snefill af manngæsku í þeim. Bara að kröfuhafar og fjármagnseigendur fái allt sitt og meira.....það er það eina sem skiptir máli. Ekki Jón og Gunna og börnin þeirra né framtíð fjölskyldunar. Siðleysið hérna er ótrúlegt.
Jón Svan Sigurðsson, 3.9.2009 kl. 21:57
" Þórólfur talaði um að peningar yrðu ekki teknir úr tómi loftinu, en sættir sig við að skuldir verði til úr tómu loftinu."
Þetta er góð athugasemd og á við okkur mörg.
Samningur var gerður, greiðsluáætlun sömuleiðis og allt átti að geta gengið eftir.
Tekjur og útgjöld tekin inn í dæmið og ekkert vanreiknað. Við viljum allflest standa við okkar skuldbindingar.
Hvernig í ósköpunum átti ég að vita að lán sem ég tók að ráði bankamannsins/sérfræðingsins yrði að myllusteini.
Upphæð orðin langt frá því sem um var samið. Já skuldin verður til úr tómu lofti, spilaborgum, sem við íslenskur almenningur tókum ekki þátt i að byggja.
Auður Matthíasdóttir, 3.9.2009 kl. 21:57
Þórólfur er því miður maður með langa skólagöngu og mörg próf og titla en algjörlega ómenntaður og hann er ekki sá eini sem svo er ástatt um.
Einar Þór Strand, 3.9.2009 kl. 22:12
Fyrirgefðu Marinó
ég flýtti mér svo við færsluna áðan að allt var morandi í ásláttarvillum. Þegar ég og Ásmundarnir í ASÍ skoðuðum þetta 1983 voru lánin að vísu mun lægra hlutfall af íbúðarverði en nú hefur verið mörg ár.
Við skoðuðum þetta miðað ákveðna greiðslubyrði húsnæðislána. Líklega að þau væru um 30% af brúttótekjum fjölskyldna (að mig minnir) og vextir 3,5%
· Staðan varð sú að ófaglært fólk myndi greiða upp á 40 árum að meðaltali ca.
· Forstjóri SÍS sem þá var, myndi greiða upp á 18 mánuðum
· forstjóri álversins sem þá var, myndi greiða upp á 54 mánuðum.
Á þessum tíma hefðu lánin í heildina greiðst upp á verulega skemmri tíma en á 40 árum. Einnig að hægt hefði verið að leggja af félagslega kerfið. Þá hefur þessi hugmynd þann kost, að ef eitthvað kæmi fyrir fjölskylduna s.s. veikindi eða atvinnuleysi myndi kerfið bregðast við sjálft. En auðvitað væri þá nauðsynlegt skoða hag fjölskyldunnar.
Þetta að lánstíminn lengist að meðaltali er óvitað nema að það sé skoðað eftir einhverjum líkönum.
VSÍ stöðvaði þessar hugmyndir.
Út úr þessum umræðum kom svo „1983 kerfið“ er var lagt niður og óhræsis húsbréfin komu. Mesti ófögnuðurinn sem um getur þegar rætt er um húsnæðislán
Þessar hugmyndir byggðust upp á því að húsnæðisstofnun sæu um slík húsnæðislán.
Hvað sem gert verður í þessari neyð sem nú er í gangi , verður eitthvert slíkt kerfi að taka við. En það þarf að þróa hugmyndir um það. Þær hugmyndir verða að taka mið af lífi fjölskyldu-fólks. Ef við viljum hafa almennt eignakerfi áfram. En ég hef lengi efast um, að það dugi eins og nú hefur verið lengi vegna þess hvernig verðmæti íbúða hefur þróast.
Marinó, þetta er þriðja húsnæðiskollsteypan sem ég hef orðið fyrir. Alltaf hefur verð á fasteignum hrunið.
Kristbjörn Árnason, 3.9.2009 kl. 22:34
Kristbjörn, ég er ekki að efast um það sem þú ert að segja, en eins og þú bendir á er skuldastaðan ólík núna því sem þá var.
Ég ætla ekki að útiloka einhverja svona leið, en sú útfærsla sem Þórólfur nefnir ófullburða. Auk þess eru fjölmörg rök fyrir því að leiðrétta lánin fyrst og innleiða síðan þessa aðferð. Ekki láta fólk bera skaðann sem fjárglæframenn ollu okkur með vanvisku sinni.
Marinó G. Njálsson, 3.9.2009 kl. 22:42
Þú talar um siðferðileg rök fyrir skuldaniðurfellingum...
Mörg okkar sem komin eru yfir fimmtugt keyptum okkar fyrstu íbúð um og upp úr 1980 og lentum í svipuðum aðstæðum og nú eru uppi, misvægi á milli lánskjaravísitölu, launa og íbúðaverðs. Við byrjuðum smátt, unnum eins og skepnur, neituðum okkur um bíl (eða keyrðum einhverjar druslur) og utanlandsferðir voru bara fjarlægur draumur. Og þetta hafðist. Í góðærinu reyndu mörg okkar, vegna biturrar reynslu, að greiða niður skuldir okkar í stað þess að stækka við okkur, endurnýja bílaflotann og hendast í frí til útlanda tvisvar á ári.
Almenn skuldaniðurfelling hefur fyrst og fremst tvennt í för með sér: Gríðarlegar skattahækkanir vegna útlánatapa Íbúðalánasjóðs og ríkisbankanna, og skertar lífeyrisgreiðslur vegna útlánatapa lífeyrissjóðanna.
Hvaða siðferðilegu rök eru fyrir því að við sem höfum puðað við það mest allt lífið að hafa allt okkar á hreinu borgum skuldir fólks sem setti sig í fáránlega miklar skuldir og neitar svo að breyta lífsstíl sínum til að bjarga sér sjálft?
Þú þarft endilega að rökstyðja það betur.
Miðaldra kall (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 23:07
Þessa leið eins og aðrar verður nauðsynlega að skoða. Við auðvitað finnum einhverja leið sem farin verður. Hvort sú leið er sanngjörn og eða réttlát fyrir alla efast ég um.
Bankarnir eru búnir að fara hrikalega með þjóðina, árum saman. Lánavextirnir, verðtryggingin, launin fryst, verðmætafall á íbúðarhúsnæði og hækkandi lán og ekki í neinu samræmi við verðmætaþróun íbúðanna.
Íslenska þjóðin verður að finna eitthvert nýtt verðmætamat varðandi íbúðir. Þær eru í raun hýbýli en ekki kapital. En kosta fjármagn en gefa ekki af sér arð í formi fjármagns nema fyrir stundarheppni.
Kristbjörn Árnason, 3.9.2009 kl. 23:16
Miðaldra kall, eru það skilaboðin þín, að fyrst þú fékkst ekki réttláta niðurstöðu, þá má enginn annar fá réttláta niðurstöðu?
Það eru engar sannanir fyrir því að skattar hækki. Útlánatöpin verða hvort sem og það hefur ekki verið reiknað út hvort þau verða meiri með eða án leiðréttinga. Auk þess fær ríkið heilmiklar skatttekjur, ef heimilin hafa meiri pening til að setja í neyslu.
Sem betur fer eru lögin betri en þau voru 1983, en það er einn gríðarlegur munur. Erlendir lánadrottnar bankanna hafa ákveðið að gefa eftir 2.800 milljarða af verðmæti lánasafnanna sem flutt verða frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Það er í besta falli ósvífni, ef bankarnir ætla að rukka sína lántakendur að fullu þegar þeir hafa sjálfir fengið tugi prósenta í afslátt.
Eitt í viðbót, miðaldra kall. Lentu börnin þín í vanda vegna stökkbreytinga á höfuðstólum lánanna? Þú þarft ekki að svara, en ég er bara að benda á að, ef maður sjálfur situr ekki í súpunni, þá situr einhver nákominn manni þar.
Marinó G. Njálsson, 3.9.2009 kl. 23:23
Kristbjörn, ég er sammála því að við þurfum nýtt kerfi. Og það kerfi verður að vera án verðtryggingar. Það kerfi verður fela í sér ábyrgð lánveitenda, ekki bara lántakenda.
Marinó G. Njálsson, 3.9.2009 kl. 23:28
Jaðaráhrif þessarar leiðar og annarra svipaðra eru vinnuletjandi og þess vegna gengur þetta ekki upp. Við núverandi aðstæður þurfum við aðferðir sem hvetja fólk til vinnu í stað vinnuletjandi. Ef fara á þessa leið þá verður að eyða jaðaráhrifum með afnámi tekjutengingar vaxta- og barnabóta, en ég sé það ekki gerast því fólki finnst óréttlátt að fólk með háar tekjur sem hefur vel efni á að fæða og klæða börnin sín fái bætur.
Staðan sem upp er komin varðandi skuldir heimilanna er sú að fljótlega eignast ríkið, í gegnum Íbúðalánasjóð eða bankana, flest heimili í landinu því þessir aðilar eiga all flest lánin. Í stað þess að það gerist þá er hægt að fella niður (afskrifa) hluta þessara lána og koma greiðslustöðunni í viðráðanlegt horf og halda húsnæði landsmanna í einkaeigu enda held ég að það sé engum í hag að ríkið eignist húsnæði landsmanna.
Vegna þess að við skattgreiðendur (í gegnum Íbúðalánasjóð og bankana), eigum lánin þá er þetta okkur í sjálfsvald sett. Með þessu myndum við jafnframt spara stórar upphæðir sem annars fara í lögfræðikostnað og innheimtu hjá fólki sem er í vandræðum.
Spörum með því að taka á vandanum núna strax. Fellum niður hluta lánanna á alla línuna því ef við einbeitum okkur einungis að þeim sem eru í vandræðum þá má færa rök fyrir því að við séum að verðlauna skussana og hegna duglega og heiðarlega fólkinu, eitthvað sem ég held að allir séu sammála um að sé ekki til eftirbreitni.
Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 23:49
Nei, Marinó, þú misskilur alveg skilaboðin frá mér. Þótt ég hafi þurft að basla í tuttugu ár þá get vel ég unnt öðrum þess að hafa það gott. Ég vil bara ekki þurfa að borga fyrir það.
Mín skilaboð eru þau að ég sé ekkert réttlæti í því að þeir sem sýndu ráðdeild í góðærinu borgi skuldir þeirra sem spenntu bogann hæst og sýndu af sér algert ábyrgðarleysi í sínum peningamálum. Það máttu allir vita að góðærinu myndi ljúka (þótt ég viðurkenni að engum hafi sennilega dottið í hug að það gerðist með þvílíkum ósköpum). En, semsagt, ég sé ekkert réttlæti í því að ég þurfi að borga fyrir dýran lífsstíl þessa fólks.
Og auðvitað munu skattar hækka. Það er alltaf einhver sem verður að borga fyrir svona fimleika. Og það sem mér er kannski sárast um eru lífeyrisgreiðslurnar sem að sjálfsögðu munu lækka.
Ég hef ekkert á móti því að fólki sem á í greiðsluerfiðleikum verði hjálpað, en flöt skuldaniðurfelling sem bitnar á öllum almenningi kemur ekki til greina að mínu mati.
Miðaldra kall (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 23:56
Sæll Marínó.
Ef satt skal segja þá setur mann hljóðan. Ég hef á tilfinningunni að þarna sé verið að hlera hvað alþjóð segir um þessa hugmynd. Ég sé líka á hinum ýmsu bloggum að fólk er orðið ráðvillt og dofið. Það eru undarlega lítil viðbrögð fólks við flestu sem ber á góma varðandi skuldir, skatta og verðhækkanir þessa dagana. Það virðist að gjaldþrot sé bara kannski ekki versti kosturinn. Ég fullyrði samt ekkert um það því ég ásamt flestum öðrum veit ekki vel hvað það felur í sér. En þegar ekki er hægt að sjá glufu í gegnum skuldirnar um betri tíð seinna þá fer greiðsluviljinn, fólki fer að verða alveg sama, því að greiða er hvort sem er óviðráðanlegt. Baráttuþrekið fer sem sagt. Eða eins og sagt er því sem þú getur ekki breytt, reyndu ekki að breyta því. Það eru mannleg viðbrögð að draga þá bara andann léttar, sætta sig við það sem þú getur ekk breytt og taka síðan því sem að höndum ber. En varðandi þetta nýjasta útspil þá dettur manni helst í hug að þetta sé í fyrsta lagi vinnuletjandi því ef tekjur aukast borgarðu bara meira þótt þú getir varla borgað það sem fyrir er, í öðru lagi að þetta sé enn eitt báknið sem þarf að greiða fyrir vegna allrar vinnunnar við útreikninga, í þriðja lagi kemur ekki nógu skýrt fram hvort eigi að greiða afborgun fullum fetum og síðan einu sinni á ári að fá endurgreitt, í fjórða lagi sér maður fyrir sér ævilangt skuldafangelsi......
Ég renndi augum yfir áður skrifaða samantekt þína og rak þá augun í þá hugmynd að nota lífeyrissjóðina til að kaupa jöklabréfin. Af hverju er það ekki gert?
Mér er alveg fyrirmunað að skilja af hverju lífeyrissjóðirnir eru ekki notaðir til að kaupa þessi jöklabréf út og eins til að losna við Icesave fyrir fullt og allt. Það kom fram hugmynd fyrir nokkru að láta Breta og Hollendinga fá allt lánasafn Landsbankans og reiða fram til þeirra 250 milljarða í vexti strax og vera svo bara laus við þá fyrir fullt og allt. Þetta myndi létta þrýstinginn af genginu. Það verður almenningur sem þarf að blæða fyrir þetta allt hvort sem er og af hverju þá ekki að gera allt sem við getum til að ná genginu niður og vöxtum og byrja síðan á nýjan leik og greiða þá nokkru hærra til lífeyrissjóðanna en verið hefur. Það myndi vera góð ávöxtun fyrir sjóðina.
En nei eins og nú stefnir verður hálf þjóðin komin í fang ríkisins áður en við vitum af.
Svanborg (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 00:00
Áhugaverðar umræður, en ég er ekki eins ánægður með þetta blogg þitt Marinó, eins og oft áður. Mér fannst Þórólfur Matthíasson vera hreint afleitur í þessum þætti. Ekki vegna þess að hann sagði að þeir væru hagfræðingar, heldur vegna þess að hugsunin hjá honum í þættinum var afar þröng. Afskriftir skulda sem Framsóknarflokkurinn kom fyrst fram með var afar áhugaverð tillaga. Undir þá tillögu hafa bæði Tryggvi Herbertsson og Lilja Mósesdóttir tekið. Þessi tillaga hefur ekki fengið neina faglega umræðu. Það stefnir í að öll úrvinnsla í þessari stöðu verði gerð ómöguleg ef bankarnir verða seldir erlendum kröfuhöfum. Mér finnst Marinó koma hjá þér ákveðinn hroki gagnvart hagfræðinni. Þetta er jú fræðigrein rétt eins og verkfræði. Þó einvhverjir verkfræðingar hafi gert mistök í gegnum árin, afskrifar það ekki verkfræðina sem fræðigrein.
Sigurður Þorsteinsson, 4.9.2009 kl. 00:26
Í umræddri Morgunblaðsgrein Jóns Steinssonar gagnrýnir hann málflutning um bakfærslu verðbótafjár vegna hrunsins á lánum.
Jón bendir m.a. á að með t.d. bakfærslu verðtryggingar, þ.e. með "afturvirku afnámi verðtryggingar" eins og hann kallar það, væri verið að framkvæma tekjutilfærslu frá þeim sem lítið skulda til þeirra sem skulda mikið. Það finnst Jóni óréttlátt, enda lái ég honum það ekki út af fyrir sig. Hann er ekki hlynntur ráðum sem hafa þetta í för með sér og leggur til önnur og strammari ráð.
Hann minnist hins vegar ekki á forsöguna fyrir þessu ástandi og hvað er búið að gerast varðandi eignatilfærslur hingað til. Eftir að verðbólgan fór á flug snemma árs 2008 og sérstaklega við verðbólgustökkið við bankahrunið s.l. haust áttu gífurlegar eignatilfærslur sér stað frá lántakendum til lánveitenda, reyndar á pappírnum og í tölum í tölvum Það var hvorki réttlátt né sanngjarnt og án þess að lántakendur gætu hönd við reist. Það var forsendubrestur á lánakjörum. Það er þessi eignatilfærsla og tilsvarandi lánahækkun sem veldur heimilum og lántakendum almennt erfiðleikum nú.
Það er þetta óréttlæti sem þessi ráð, sem Jón S. virðist kalla "vúdú"-hagfræði, eru hugsuð til að leiðrétta. Með afturvirku afnámi verðtryggingar væru lánveitendur að skila ofteknu bókfærðu fé vegna áfallinna verðtrygginga sökum hrunsins aftur til baka til lántakenda, en þetta verðbótafé fengu lánveitendur fært sér til eignar "ókeypis" í formi hækkana á höfuðstóli lána án þess að þeir væru að veita viðkomandi lántakendum meiri lán í formi peninga né annarra raunverulegra eigna.
Lánveitendur eru ekki endilega sömu persónur og hópurinn sem Jón flokkar sem "þeir sem skulda lítið" og sem hann vill af sanngirni verja og bara gott um það að segja, en hann virðist ekki gera greinarmun þar á. Það er mikilvægt að halda þessum hópum aðgreindum þegar rætt er um réttlæti í þessu sambandi. Ofangreind bakfærsla snertir fyrst og fremst lánveitendur (og lántakendur) með beinum hætti, en aðra með óbeinum hætti. (Sbr. pistil minn allan um þetta)
Kristinn Snævar Jónsson, 4.9.2009 kl. 00:47
Sigurður, ég verð bara að segja, að hafi einhver stétt brugðist í undanfara heimskreppunnar, þá eru það hagfræðingar. Hann fyllti mig gremju þessi yfirlætistónn í Þórólfi og hvernig hann með honum talaði niður til allra annarra. Vissulega veit ég að ekki eru allir hagfræðingar eins, enda talaði ég um hagfræðilíkönin hans Þórólfs, ekki Tryggva en ég hefði svo sem getað gert það.
Kristinn, hann Jón er alveg jafn fastur í hagfræðinni eins og Þórólfur. Þetta snýst um réttlæti, þ.e. að tjón verði bætt sem fólki var valdið. það var enginn vandi að verja 1.170 milljarða í innistæðum í bönkunum þremur sem afturvirkri aðgerð. Af hverju eru bara sumar afturvirkar aðgerðir í lagi en ekki aðrar? Hefur verið sýnt fram á að þessi aðgerð valdi meiri útgjöldum en sú að sigla áfram að feigðarósi, þá leið sem við erum að fara núna. Ég er menntaður í grein sem heitir aðgerðarannsóknir, sem er svona hagfræðileg, hagnýt stærðfræði, þar sem við erum stöðugt að leita að bestu lausn á því viðfangsefni sem verið er að fást við. Hér erum við með viðfangsefni smeð fjölbreytt lausnamengi og öllum lausnunum fylgir mishár kostnaður. Auk þess fylgja alls konar aukaverkanir. Við verðum að skoða allt þetta, þegar við leggjum til lausnina og bera hagkvæmni hverrar lausnar fyrir sig saman við hagkvæmni annarra kosta. Það hef ég gert, þó það sé að frumstæðan hátt, og komist að því að leiðrétting núna er illskásti kosturinn, þegar allt er tekið með. Þar til einhver afsannar það með tölulegum upplýsingum, þá lít ég að það sem bestu lausnina. Komi sönnun fyrir hinu gagnstæða, þá skal ég vera fyrstur manna til að endurskoða röksemdafærslu mína og þá hugsanlega skipta um skoðun.
Marinó G. Njálsson, 4.9.2009 kl. 07:55
Sæll Marinó.
Það bera að þakka þau málefnalegu skrif þín um ískaldan veruleikan um brýnustu hagsmuna mál heimilana frá stofnum lýðveldissins,og þann tíma og áræðni sem þú leggur í skrif þín.
"Við erum hagfræðingar við tölum í raunvöxtum" sagði blessaður kallinn, hagfræðingurinn Þórólfur Matthíason, orð hans glimja í höfði mínu ennþá, bara ef ég hefði verið nógu fljótur að slökka á sjónvarpinu áður en þessi settning vall út úr honum, þú fyrirgefur Marinó; mér finnst hann ekki lifa í fílabeinsturni heldur í einhverskonar "economics-space-ship" í öðru sólkerfi. Hlakka til að lesa grein þína sem þú hefur áform um að senda MBL
Kristinn M Jonsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 09:57
Marínó (Upp með aðgerðarannsóknir, ég hef fengist nokkuð við slíkar aðferðir og undirstrika fyrir öðrum þýðinguna af því sjónarhorni til að greina málin, og ekki síst þá aðferðafræði og hugsunarhát sem beiting slíkra aðferða felur í sér).
Eftir því sem ég hugleiði það meir hallast ég að því að þessi umrædda grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu í gær hafi hreinlega verið pólitískur pistill en ekki hlutlaus umfjöllun fræðimanns, eins og hann leit út fyrir að vera í ljósi fyrri greina Jóns.
Þessi misvísandi framsetning hans um að að afturvirkt afnám verðtryggingar fram fyrir hrun sé árás á "þá sem skulda lítið" er fræðimanni ekki sæmandi nema honum hafi yfirsést svona hrapalega eða að hér sé um vísvitandi misvísun að ræða til að framkalla samúð með "egginu" en ekki "hænunni", þ.e. þeim sem verða fyrir óbeinum áhrifum en ekki þeim sem urðu strax fyrir beinum áhrifum, lántakendum.
Eins og ég bendi á ofar var skuldaklafa í formi "handrukkaðra" verðbóta skellt á varnarlausa lántakendur og eignasafn lánveitenda hækkað sem því svarar; á pappírnum og með tölum í tölvum samkvæmt snarvitlausri og brostinni vísitölu. Jón horfir alveg framhjá þessu atriði og því réttlæti sem um er að ræða við að bakfæra þetta óréttlæti með því að fjarlægja hruns-verðbæturnar af baki viðkomandi lántakenda.
Þá má velta fyrir sér hvers vegna fræðimaðurinn, þ.e. í hlutverki hins pólitíska skríbents í þessu tilviki, skautar svo áberandi fram hjá þessu grundvallaratriði. Er það vegna þess að bakfærsla á umræddum verðbótum myndi afhjúpa með greinilegri hætti slæma stöðu bankanna (og þar með ríkisins) og lífeyrissjóðanna? Jón hrósar aðgerðum ríkisstjórnarinnar hingað til í hástert, þegar ýmir aðrir virðulegir fræðimenn gera það ekki, þannig að deildar fræðilegar meiningar eru nú um ágæti þeirra. Þetta bendir því miður til þess að grein Jóns sé of lituð pólitískum skoðunum og virðist það hafa afhjúpast í þessari grein. - Líklega má segja hið sama um fræðimennina í umræddu Kastljlós-viðtali í gærkveldi.
Lífeyrissjóðirnir hafa tapað óhemju fé á falli bankanna, t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna á Kaupþingi og Existu, svo eitt dæmi sé nefnt, eins og Ragnar Þór Ingófsson rekur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag 4. sept., "Brennt barn forðast eldinn", á s. 26. Það er hryllileg saga sem hann rekur þar um krosstengsl sjóðsins, banka og fyrirtækja og persónana og fjölskyldna þar að baki. Það er ekki furða að Evu Joly skuli hafa blöskrað persónu- og hagsmunatengslin í íslenska fjármálakerfinu.
Afleiðingar af glötuðum fjárfestingum og vafasamri stjórn þeirra mála kæmu betur í ljós ef lífeyrissjóðir myndu neyðast til að horfa á eftir of-bókfærðum verðbótum á lánum heimilanna í ofanálag, eins og hér er til umræðu. Það er því ekki furða að andstaðan sé mikil við þessum hugmyndum.
Vonandi tekst ekki að viðhalda blekkingum gagnvart almenningi um vankanta á bakfærslu oftekinna verðbóta með því að færa misvísandi rök í fræðilegan búning virðulegra fræðimanna í háskólum hérlendis og erlendis sem almenningur kann ekki svör við.
Kristinn Snævar Jónsson, 4.9.2009 kl. 11:39
Sæll Marinó
Takk fyrir skrifin, ég les reglulega bloggið þitt.
Það er ekki laust við að maður fái kjánahroll við að lesa um að það eigi að skipa nýja nefnd! til að fara yfir.. og leggja fram tillögur..
Það er smá saman að renna upp fyrir mér að sjórnvöld er okkar fyrirstaða til réttlætis gagnvart hamförum sem þau lýsa þó í gríð og erg að hafi átt sér stað. Jafnt innan lands sem utan.
Það mun ekkert gerast í náinni framtíð til að verja okkur frá hendi stjórnvalda. Það á að stofna nýja banka með verðbólguhagnaði skuldara, við höfum bara ekki efni á öðru, er það ekki það sem okkur er sagt?
Þá er líka orðið ljóst að það mun ríða yfir annað hrun, varla hægt að segja að við höfum ekki séð það fyrir.
Þeir sem geta hlaupið hraðar til að borga af stökkbreyttum lánum gera það, en það eru til úrræði til að bera burt líkin.
Á teikinborðinu er efnahagsreikningur nýju bankastofnanna.
Þar er okkur ætlað stórt hlutverk í nútíð og framtíð.
Það er því orðið ljóst að e.t.v er betra að það verði annað hrun og skuldarar fáið sín mál metin án afskipta ríkisins. Hvernig er máltækið, Sá er hlífa skildi..
VJ (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 14:08
Þetta er nú orðið ansi langt, en skemmtileg umræða.
Ég er nú svo heppin að þó að ég sé 36 ára er í þeirri óvenjulegu stöðu að skulda ekki krónu. Það er þægilegt líf. Þrátt fyrir það skil ég ekki rök eins og Þórólfs. En hann á það sameiginlegt með flestum í Samfylkingunni að þeim finst ekki að það eigi að aðstoða þá sem skulda mikið, vegna þess að þau eru líka langflest með háar tekjur. ..Þess vegna hafa þau fengið mikið að láni hjá bönkunum, sem þrátt fyrir allt hafa nú líklega viljað fá reikninginn endurgreiddan.
Þetta er bara algerlega siðlaus þankagangur. Og vitlaus. Því þeir sem skulda mest vinna þá líklega mest líka og skapa mestar tekjur fyrir þjóðarskútuna. En það er einmitt það sem vantar núna.
Það verður að koma þessu fólki til aðstoðar með einfaldri niðurfellingu skulda, því það hljómar einfaldlega hagfræðilega skynsamlega. Bæði fyrir þá með háar tekjur, svartar tekjur og lágar tekjur.
Það er ekki hægt að tala um raunvexti í þessu samhengi. Ísland er auðvitað eina landið í heiminum þar sem lántakandi tekur á sig alla áhættu í formi verðbóta. Og eftir atburði sem hafa gerst nú er hvorki hagkvæmt né siðferðilega mögulegt að það sé látið viðgangast.
En undirrituðum þætti eðlilegt að lántakandi skrifaði undir að hann myndi ekki flytja úr landi í nokkur ár eftir niðurfellingu skulda.
Takk fyrir umræðuna! :)
Jón á skeri (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 14:18
Ég var sammála Þórólfi. Ég tók ekki þátt í neyslunni hér á Íslandi. Ég skil ekki afhverju fólk sem skuldar á að fá aðstoð til að greiða af "fyrirfram" neyslunni sinni. Ég vil frekar fá ávísun frá ríkinu svo ég geti keypt mér íbúð á góðu verði og lifað vel. Hvenær fáum við séns sem ekki eyddum umfram það sem við gátum? Hvenær verður tekið tillit til okkar? Hugsiði aðeins um það?
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 14:52
Eitt verður að hafa í huga að það er viss hópur í þessu landi sem verður að fara í þrot og það er sá hópur sem spennti bogann of hátt. Og skuldaleiðrétting mun hvort eð er ekki hjálpa þessum hópi.
En nauðsynlegt er að fara í skuldaleiðrettingu sem allra allra fyrst því sá hópur stækkar ört sem fellur undir þann hatt að skuldaleiðrettingin mun ekki hjálpa. Og þá er verið að tala um þessa millistétt sem var að koma sér upp og fór sér EKKI of geist. Því verðbætur halda áfram að hlaðst upp á höfustol um hver mánaðarmót og verðlag fer snarhækkandi.
Einnig, því lengur sem við bíðum með að fara út í einhvers konar leiðréttingu því stærri verður sú prósenta sem þarf að leiðrétta til þess að hún komi að gagni. það er augljóst að undir 20% leiðrétting er ekki að fleyta stórum hópi hér í þessu landi. Og í þessum hópi er ekki bara þeir sem foru sér of geyst. En þeir sem fóru sér of geyst er eflaust ekki viðbjargandi hvort eð er því ætla má að þeirra skuldir séu mun hærri en bara verðtryggðar skuldir. Og því miður er það bara fórnarkostnaðurinn í þessu hruni, en ég tel að hrun hefði ekki komið þessu fólki í þrot hvort eð er - það var bara tímaspursmál.
Dísa (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 16:29
Stefán, ég samgleðst þér með að hafa ekki lenti í stökkbreytingu höfuðstóls lánanna. Hugsanlega varstu einn af þeim sem fékk fulla vernd á innistæðuna þína, ég veit ekki. Af hverju ættir þú að fá ávísun frá ríkinu? Ekki erum við að biðja um það sem viljum réttlæti út af lánunum okkar. Ef þú skilur málflutning minn þannig, þá er tími til kominn að lesa betur. Það sem fólk er að fara fram á, er að ránsfengnum sé skilað.
Ég kannast ekkert við að hafa eytt umfram það sem ég gat. Ég raunar þekki mjög fáa, ef nokkurn, sem er í slíkri stöðu. Þeir sem ég þekki eru venjulegt fjölskyldufólk, sem hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið. Flestir gerðu það af mikilli varkárni og stóðust greiðslumat bankans síns. Svona ávirðingar um að allir hafi verið í ofneyslu eru orðnar ákaflega þreytandi og eru álíka heimskulegar og segja að konur kunni ekki að aka vegna þess að ein eða tvær séu slæmir bílstjórar.
Dísa, þú segir að viss hópur verði að fara í þrot, þ.e. þeir sem spenntu bogann of hátt. Málið er að þau úrræði sem eru í boði henta þessum hópi einmitt best. Svo furðulegt er það nú. Hafi maður farið nógu illa, þá er hægt að koma til bjargar, en þeir sem ennþá ná að halda höfði upp úr vatninu, þeir skulu fá að taka skellinn.
Marinó G. Njálsson, 4.9.2009 kl. 16:40
Sæll Marinó, þú sagðir þetta betur en ég :) Akkúrat það sem ég meina, ef að skuldaleiðrétting ásamt þeim sértækum úrræðum sem eru í boði duga ekki fyrir einhverja þá er það í raun sá hópur sem er fórnarkostnaðurinn. Enda eitt úrræðið sama sem og að fara í þrot.
Dísa (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 16:47
Sæll Marinó, hagfræðingarnir gera sér fæstir grein fyrir því að kenningar þeirra eru gjaldþrota, og spekin einskis virði. En við þessa hagfræði hafa stjórnvöld stuðst við, því fór sem fór.
Það sem verra er að þau ætla að halda áfram að styðjast við þetta bull því á almenningur ekki aðra kosti en að draga sig út úr samfélaginu að hætti Vítis engla eða yfirgefa landið.
Magnús Sigurðsson, 4.9.2009 kl. 17:11
Marinó, nú hefur þú haldið þessu fram í tvígang. Ertu til í að færa nánari rök fyrir þessu. Jafnvel í sér bloggfærslu.
Matthías Ásgeirsson, 4.9.2009 kl. 17:27
Matthías, ég skal með glöðu geði gera það. Ég hef hengt skjal við færsluna. Það heitir Skuldaaðlögun2907-2009.doc. Í skjalinu sem er tekið saman af stjórnarmanni í HH, Arneyju Einarsdóttur, stillir hún upp tveimur dæmum af lántakendum sem tóku jafnhátt lán eða 16 milljónir vegna húsnæðiskaupa. Annar átti 24 m í eigið fé og keypti 40 m eign, en hinn 4 m og keypti 20 m eign. Síðan hækkar lánið í 37,5 m og eignirnar lækka um 20% (bara dæmi). Fyrri aðilinn fer í neikvætt eigið fé upp á rúmar 5 m en hinn upp á rúma 21 m. Báðir fara í skuldajöfnun. Til að gera langa sögu stutta tapar annar 17,6 m af eigin fé sínu, en hinn 0,8 m. Sá sem tók meiri áhættu með því að taka 80% lán tapar 0,8 m, en hinn sem tók litla áhættu með 40% láni tapar 17,6 m. Ef eigin er að verðmæti 60 m, þá hefði eigið féð í upphafi verið 44 m, eigin lækkað í 48 m vegna verðlækkunarinnar. Lánið stæði í 37,5 m sem er undir 80% af niðurfærðu markaðsverði. Þessi aðili gæti því ekki einu sinni nýtt sér skuldaaðlögun. Yrði bara að kyngja því að hafa tapað 33,5 m af eigin fé.
Svo gætum við stillt upp þeim sem tók 100% lán, þ.e. átti ekkert við íbúðakaupin. Segjum að viðkomandi kaupi íbúð að verðmæti 16 m, íbúðin lækkar í 12,8 og lánið er fært niður í 80% af því eða um 10,2 m. Sá hagnast um tæpar 2,6 m við skuldajöfnunina, þ.e. stendur eftir með eigið fé upp á 2,6 m.
Málið er að því meiri áhættu sem fólk tók, því betur kemur það út úr þessum úrræðum.
Marinó G. Njálsson, 4.9.2009 kl. 22:11
Ég verð að taka upp hanskann fyrir Þórólf, skildi vel pirring hans út í Tryggva Þór fyrir orðavalið, þeir sem hafa lært eitthvað í hagfræði eru bara í vanda við að skilja þegar Tryggvi er að tala "til almennings".
Sérgrein Þórólfs eru fjármál hins opinber.
Mér finnst þú vega ómaklega að honum, alveg eins og hnútan sem þú sendir Stefáni hér ofar, þú ætlar honum eitthvað sem þú veist ekkert um. Þetta hef ég ekki séð til þín áður, ertu orðinn eitthvað pirraður ?
Stefanía (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 23:09
Stefanía, ég hef lengi haft þá skoðun á málflutningi Þórólfs, að það sé ekki heil brú í honum. Það er fullt af fólki sammála mér með það. Einu sinni veltum við því alvarlega fyrir okkur hvort hann væri nokkurs konar leigupenni eða málaliði. Séu menn að afgreiða tillögur annarra sem bull án þess að koma með rök, eins og Þórólfur hefur ítrekað gert í fjölmiðlum, þá hljótum við sem verðum fyrir slíkum afgreiðslum að mega benda á veikleikana í hans rökum. Ég hef virkilega setið á mér gagnvart honum, en nú bara gat ég ekki þagað. Þessi orð hans "Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum." voru bara svo vitlaus og full hroka, að það varð að vekja athygli á þessu.
Varðandi Stefán, þá sendi ég honum minni hnút en hann sendi þeim sem að ósekju hafa dregist inn í stærsta fjársvikamál mannkynssögunnar. Ég kalla framkomu og aðgerðir bankanna fjársvik, vegna þess að allt bendir til þess að fylgt hafi verið ófullgerðu handriti. En ólíkt Stefáni, Stefanía, þá byrjaði ég á að samgleðjast honum með að hafa sloppið vel frá fjársvikum bankanna. Hver er hnúturinn í því?
Er ég pirraður? Nei, en mér leiðist þegar menn koma fram með staðlausa stafi. Þórólfur gerði það ítrekað í Kastljóssviðtalinu. Hann skellti fram fullyrðingum án raka og greip aftur og aftur frammí fyrir Tryggva þegar hann var ræða sínar hugmyndir. Það er þörf ábending að benda á að sérgrein Þórólfs er fjármál hins opinbera. Það er sem sagt ekki fjármálakreppur, hvað þá lausnir á þeim. Þó ég segi sjálfur frá, þá tel ég mig alveg jafnhæfan og flestir aðrir sem komið hafa fram með hugmyndir að lausnum á vanda heimilanna. Ekki bara það. Það vorum við Haraldur Líndal Haraldsson, sem bentum fjárlaganefnd á yfirgengilegar skuldir þjóðarbúsins þegar nefndin var rétt byrjuð að fjalla um Icesave. Það var ekki Þórólfur Matthíasson eða Gylfi Magnússon eða hvað það heitir nú allt þetta lið sem talað hefur niður til okkar almennra borgara síðustu vikur og mánuði. Og það var ekki fyrr en eftir að við Haraldur mættum á fund fjárlaganefndarinnar sem Seðlabankinn var beðinn um að skoða betur greiðslugetu þjóðarbúsins. Já, það þurfti tvo fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna til að vekja athygli á þessu, vegna þess að við höfðum áhyggjur af því að heimilunum yrði sendur reikningurinn. Þannig að efnahagslegu fyrirvararnir sem settir voru við Icesave eru þar vegna þess að Hagsmunasamtök heimilanna gátu ekki orða bundist. Og það er ég sem er búinn að vera að tala um hættuna á þjóðargjaldþroti vegna hárra erlendra skulda og hef ítrekað bent á að gjaldeyristekjur okkar duga ekki fyrir vöxtum og afborgunum skulda. Þetta hefur ekki verið að koma frá hámenntuðu hagfræðingunum (fyrir utan Harald Líndal). Jú, kannski er ég pirraður á hugmyndasnauð og getuleysi þeirra sem eiga að vera að leysa málin. En að ég sé pirraður út í Þórólf, nei, það er ég ekki.
Marinó G. Njálsson, 4.9.2009 kl. 23:53
Tek undir það að Tryggvi Þór fékk ekki frið til að klára sínar setningar fyrir viðmælandanum og var það mjög bagalegt þar sem hann var í miðjum klíðum að útskýra málin fyrir ekki síst almenningi á skiljanlegu máli.
Varðandi umræddan "raunvaxtahroka" þá er það einmitt hroki að tala á máli í sjónvarpsþætti fyrir almenning sem almenningur skilur ekki vel. Það lyktar dálítið af "fílabeinsturnamáli" og misskilingi á hvers vegna viðkomandi er kallaður í sjónvarpsþátt fyrir alla þjóðina. Þar á að skýra málin út fyrir almenningi á máli sem hann skilur. Fræðimanni sem tekst það ekki þarf að gefa frí til að æfa sig á því utan bókar.
Áfram með raunvaxtaumræðuna: Hins vegar er það heildarvextir, nafnvextir plús verðbætur, sem lántakendur eru að borga í hverri afborgun en ekki "raunvextir"; það er hugtak sem á við um nettóstærðir yfir lengri tíma að teknu tilliti til m.a. verðbólguþróunar. (Launalækkanir og rýrnandi kaupmáttur launa gera reyndar gapið þar á milli enn stærra þegar rætt er um "vaxtagreiðslumátt" fólks, ef taka má svo til orða).
Þó að raunvextir séu lægri yfir tiltekið tímabil en nafnvextir plús vísitöluverðbætur þá eru það brúttóvextirnir (vextir + verðbætur) sem reiða þarf af hendi við hverja afborgun láns (auk afborgunar af höfuðstóli), ekki hinir lægri raunvextir tímabils.
Núna hefur margt fólk ekki peninga handbæra fyrir brúttóvöxtum og afborgunum lána. Það gagnast lítið fyrir greiðendur að segja við gjaldkera bankanna að raunvextirnir séu nú lægri en það sem greiðsluseðillinn kveður á um.
Þessu atriði skautaði Þórólfur framhjá í hasarnum í Kastljósþættinum og Tryggvi Þór náði ekki að henda reiður á þessu atriði og andmæla á þeim nótum, þ.e. að greiðslubyrði lántakenda vegna greiddra brúttóvaxta er mun hærri en raunvaxtastig segir til um. Það kórónar vanda lántakenda. Það dugir því ekki fyrir stjórnvöld að líta bara á raunvaxtastigið og halda því fram að vaxtabyrðin sé ekki þyngri en því nemur til skamms tíma litið.
Kristinn Snævar Jónsson, 5.9.2009 kl. 00:44
Ein hugmynd. Hvað um að leiðrétta verðtrygginguna?
Það er út í hött að tengja hana við neysluvísitölu, frekar að tengja hana við miðgildi launa. Ef við segjum að miðgildi launa hafi hækkað um 5% á milli ára, þá myndu lánin hækka um 5%.
Að sama skapi, í núverandi árferði, þá myndu lánin lækka um einhver prósent.
Þetta væri hægt að gera afturvirkt.
Kannski er ekkert til sem heitir miðgildi launa. Þá væri hægt að fara eftir vísitölu launatengdra gjalda. Ég er ekki með menntun til þess að útfæra þetta vel, en grunnhugmyndin stendur.
Fjármagnseigendur munu fá einhvern skell því innistaða verðtryggðu reikninganna mun rýrna. Samt sem áður er þetta mun réttlátari aðferð til að reikna út verðbólgu. Það er nefnilega ekkert vit í að þegar vörur hækka vegna veikrar krónu þá stighækki lánin.
Binni (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 02:56
Mér finnst að einhverjir séu að misskilja þessar hugmyndir Þórólfs.
Kristbjörn Árnason, 7.9.2009 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.