Leita í fréttum mbl.is

Jarðskjálftaspá fyrir 27. júlí 2009 - Framkvæmið einfalt áhættumat

Þekktur sjáandi hefur spáð að kl. 23:15 mánudaginn 27. júlí nk. muni harður jarðskjálfti ríða yfir á Krísuvíkursvæðinu.  Ég ætla hvorki að efast um hæfileika eða áreiðanleika sjáandans eða ýta á nokkurn hátt undir spánna.  Hitt vil ég gera, sem sérfræðingur í áhættumati og áhættustjórnun, en það er að hvetja fólk til að passa ávallt upp á það hvernig það gengur frá þungum hlutum og hlutum sem eru að miklu verðmæti, hvort fjárhagslegu eða tilfinningalegu.

Í Suðurlandsskjálftanum á síðasta ári kom í ljós að fjölmargir íbúar á Suðurlandi höfðu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þungri hlutir gætu fallið yfir sitjandi eða sofandi fólk.  Stórar hillusamstæður féllu yfir rúm og þungir hlutir hrundu yfir stofusófa eða skrifborð.  Burtséð frá spá sjáandans, þá er það heilbrigð skynsemi hjá þeim sem búa eða vinna á jarðskjálftasvæði að skipuleggja heimilið eða vinnustaðinn með það í huga.  Bókaskápar eiga ekki heima við rúmstæði.  Fína postulínið á ekki heima í opnum hillum.  Sjónvörp og tölvuskjáir verður að staðsetja þannig að falli þetta af þeim stað sem það er staðsett, þá lendi það á gólfinu en ekki sofandi fólki.  Þungu skjalamöppurnar eiga að vera í neðstu hillunum og skjalaskápar festir við veggi eða upp í loft.  Auðvitað er margt annað sem þarf að hafa í huga, en til að greina það, þarf að framkvæma áhættumat.

Hver og einn getur framkvæmt einfalt áhættumat í umhverfi sínu og fundið út hvað getur valdið mestu tjóni færist það úr stað.  Einbeitið ykkur fyrst að þeim stöðum sem fólk getur orðið undir hlutum.  Skoðið síðar aðra áhættuþætti.  Hafið í huga að mest hætta á líkamstjóni er á þeim tíma þegar fólk er sofandi.  Vakandi einstaklingur getur mjög oft varið sig, þó það sé ekki algilt.

Jarðskjálftafræðingar eru ekki trúaðir á að það geti orðið öflugur skjálfti á þeim stað sem sjáandinn spáir fyrir.  Það breytir ekki þeirri staðreynd að allur er varinn góður.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Ég vil alveg eindregið taka undir þessi varnaðarorð hjá þér!  Þó ég búi ekki lengur á Íslandi þá bý ég núna á svæði sem getur orðið fyrir mjög stórum jarðskjálftum, svokölluðum Cascadia jarðskjálftum.  Sá síðasti varð árið 1700 og var milli 8.7 og 9.2

Þessir Cascadia jarðskjálftar geta valdið miklum flóðbylgjum (tsunami) sem árið 1700 voru mjög vel merkjanlegar í Japan og voru kallaðar "flóðbylgjurnar sem komu án jarðskjálfta"  Sem betur fer er stutt í hæðir og fjöll þar sem við búum svo við ættum ekki að vera í hættu.  Afrit af öllum tölvugögn hjá okkur eru á utanáliggjandi diskum sem við skiptum út reglulega á geymum í bankahólfi, svo það á að vera  auðvelt fyrir okkur að grípa þetta ef illa fer.  Eitt skilyrðið fyrir húsinu sem við eigum eftir að kaupa hérna er að það sé í a.m.k. 75 metra yfir sjávarmáli en flóðbylgjurnar hérna eru taldar geta náð allt að 200 feta hæð eða um 66 metrum og ég vil hafa nokkra metra til vara;) 

(http://en.wikipedia.org/wiki/1700_Cascadia_earthquake)  Við höfum bókahillur á aðeins einum vegg í húsinu sem er þannig staðsettur að það er enginn stóll eða borð nálægt þannig að það er mjög ólíklegt að neinn yrði fyrir þeim ef þær féllu um koll. 

Kveðja frá Port Angeles,

Arnór Baldvinsson, 24.7.2009 kl. 00:59

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er að hugsa um að vera útivið á mánudaginn kemur milli 23.00 og miðnættis.  Mitt heimili er næstum því öruggt.  Öll rúmin eru örugg, en uppáhalds sætið mitt í stofunni er við hliðina á skáp, þar uppá eru þungur leirpottur og leir styttur.  Sem gætu farið af stað ef stóran jarðskjálfta gerði.  Svo er skápurinn sjálfur frístandandi.  Ég ætla að sitja annarsstaðar næstu vikuna

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.7.2009 kl. 01:15

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ef ég sofna ekki fyrir fjárhasörðugleikum og framundan áhyggjur af framgangi stjórnvalda gangvart fjárhag heimilann, á ég þá að fara að hafa áhyggjur af áhyggjum?

Haraldur Haraldsson, 24.7.2009 kl. 02:15

4 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Ég spái líka jarðskjálftum þarna næstu árin.gæti verið frá 1/1 til 31/12, ár hvert, á hvað tíma sólahringsins sem er.Þannig að ég bið fólk að hafa varan á sér

Konráð Ragnarsson, 24.7.2009 kl. 11:35

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í síðustu viku varð M7.8 jarðskjálfti við suðureyju Nýja-Sjálands þess valdandi að landið færðist heilum 30cm nær Ástralíu, í einum rykk!

Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2009 kl. 12:10

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, ég heyrði einmitt af þessu.  30 cm eru kannski ekki mikið á löngum tíma, en í einu stökki er það svakalegt.  Það sem meira er, þetta þarf að leiðrétta á öðrum stað.

Jón Frímann, það er mjög áhugavert að skoða jarðskjálftakort Veðurstofunnar.  Síðustu vikur hafa verið alveg stöðugir jarðskjálftar á flekamótunum, þ.e. á mótum Evró-Asíuflekans, eins og það sé eitthvað í aðsigi.  Fjögur af stærslu eldstöðvakerfum landsins virðast vera að undirbúa sig, þó þetta geti vissulega verið bara kvikuinnskot.  En kvikuinnskot gefa til kynna gliðnun jarðskorpunnar og þörf er fyrir "fylliefni".  Ísland er á sífelldri hreyfingu.  Á árunum 1993 - 2004 þá sýna GPS mælingar að fjarlægðin milli Reykjavíkur og Selfoss jókst um 16-20 mm.  Frá því fyrir Suðurlandsskjálftann 2008 hefur fjarlægðin milli Reykjavíkur og Vestmannaeyjar aukist um 22-25 mm.  (Upplýsingar af vef Veðurstofunnar.)  Í þeim sjálfta myndaðist sprunga í svæðinu fyrir ofan Hveragerði sem er allt að 2 m breið.  Nú frá Kröflueldum1978-87 eru dæmi um 8 m gliðnun lands.

Einar, síðustu jarðeldar á Reykjanesskaga voru 1224-42.  Sú hryna hófst líklegast með gosum á Hellisheiði um árið 1000 (Kristnitökuhraun) og færði sig sífellt vestar á skaganum uns hún gekk út í sjó og myndaði Eldey og fleiri eyjar á svæðinu.  Hvað síðan gerðist á hafsbotni vitum við ekki.  Eitt er víst, að þar sem hraun hefur runnið getur hraun aftur runnið.  Varðandi Hengilinn, þá er hann vissulega megineldstöð sem á líklegast eftir að gjósa aftur, en það væri algjör tilviljun að það gerðist meðan Ísland er í byggð.

Konráð, það er gert ráð fyrir því að einhvern tímann í framtíðinni muni Reykjanesskaginn brotna frá Íslandi og mynda eyju.  Af hverju gæti það ekki gerst á mánudag, eins og einhvern annan dag lengst inn í framtíðinni.  Við getum ekkert útilokað, þó líkurnar séu kannski ekki miklar.

Marinó G. Njálsson, 24.7.2009 kl. 14:36

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, í jarðskjálftum á Þingvöllum 1789, þá sigu vellirnir um 60 cm og túngarðar sem voru ofan vatnsborðs fyrir þá skjálfta eru núna á 2,8 metra dýpi. Þetta segir okkur að Þingvellir litu eitthvað öðru vísi út, þegar Alþingi var stofnað þar árið 930.

Landsigið við Almannagjá er um 40 m og gliðnunin milli Almannagjár og Hrafnagjár er um 70 m eða 10 m á hvern kílómetra.  Þetta hefur átt sér stað á um 9.000 árum frá því að Þingvallahraunið rann.

Marinó G. Njálsson, 24.7.2009 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 223
  • Frá upphafi: 1679918

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband