19.6.2009 | 22:15
Bandormurinn er ómerkileg árás á þá sem minnst mega sín
Hún er sérkennileg forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að niðurskurði ríkisútgjalda. Fyrsti hópurinn sem ráðist er á með niðurskurðarhnífnum er gamla fólkið og öryrkjarnir. Sá skattur sem þessir hópar þurfa að sitja uppi með er ekki 8%, eins og þeir tekjuháu þurfa að bera. Nei, hann mælist í tugum prósenta. Já, þau eru lítilmannleg ráðin sem jafnmenn og félagshyggjuöflin búa yfir.
Frítekjumark ellilífeyrisþegar er skert um 60%! Já, 60% og ekki er lengur hægt að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar". Þessi 60% eiga nú að skerða tekjutryggingu sem nemur 38,35% og það er ekki gert eftir skatta, heldur áður en skattar eru reiknaðir. Sá sem hefur nýtt sér upphæðina að fullu, þ.e. jafngildi 100.000 á mánuði, er skattlagður sem nemur 38.35% af 60.000 kr. eða sem nemur 23.010 kr. á mánuði. Þessi einstaklingur fær því 23% "ellilífeyrisþegaskatt" á 100.000 kr. tekjur. Já, þau eru breið bökin sem ellilífeyrisþegarnir hafa. Hver áhrifin verða af því að afnema möguleikann á því að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar" er óljós í krónum talið en "lífeyrisþegaskatturinn" er 23%.
Og eins og þessu sé þá lokið. Nei, aldeilis ekki. Greiðslur úr "skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum" undir 300.000 kr. skertu ekki tekjutryggingu áður, en nú á að lækka þessa upphæð um 60%! Aftur er skellt 23% "lífeyrisþegaskatti" á tekjur þeirra sem hafa minnst milli handanna.
Úps! Í bráðabirgðaákvæði V. við bandorminn er lætt inn nýrri skerðingu. Skerðing vegna tekna er hækkuð úr 38,35% í 45%, þannig að skatturinn er ekki 23% heldur er "lífeyrisþegaskatturinn" 27%. Er ekki í lagi hjá félagsmálaráðherra? Á það að vera réttlæting að þetta var svona 2007. Hættið þessu bulli og takið ykkur saman í andlitinu. Kannski væri rétt að skikka þá sem samþykkja þessa vitleysu til að lifa á þeim tekjum það ætlar öðrum.
Nú aldurtengd örorka á að skerðast. Höfum í huga að sá hluti hópsins, sem kemur verst út úr þessu, eru þeir sem greindust fyrst með örorku og hafa því lengst verið öryrkjar. Þetta er fólkið sem á minnst réttindi í lífeyrissjóðum og fá minnstar greiðslur vegna örorku sinnar. Furðuleg er forgangsröðunin.
Ég veit ekki alveg hvað félagsmálaráðherra gengur til með þessu, en Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur að svíða að sjá sína fyrrverandi skjólstæðinga eiga að borga brúsann. Samkvæmt öllum gögnum er þetta sá tekjuhópur sem stendur verst. Í nýlegum tölum Seðlabankans, þá er þetta sá hópur sem er með hæstu greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum. Að öllum líkindum er þetta sá hópur, sem varla getur séð sér farborða. Ég spyr bara: Er það markmið ríkisstjórnarinnar að auka á örbirgðina meðal þessa hóps?
Gleyma menn því, að á annan tug þúsunda ellilífeyrisþega tapaði stórum hluta að ævisparnaði sínum við fall bankanna. Fólk sem hafði safnað af eljusemi og fylgt góðum ráðum um að leggja sparnaðinn í "trygg" hlutabréf bankanna. Fyrst er það svipt eigum sínum og síðan eru tekjurnar skornar niður fyrir hungurmörk.
En hvað þýða þessar skerðingar hjá lífeyrisþegum í krónum og aurum? Ríkissjóður ætlar að spara sér 1.830 milljónir á þessu ári og 3.650 milljónir á næsta ári eða alls 5.480 milljarða á tveimur árum. Auk þess á að spara 1.000 milljónir í barnabætur og 3.040 milljónir í sjúkratryggingar, þó ekki sé skýrt út í lögunum hvernig þær tölur eru fengnar! Til samanburðar er áætlað að hátekjuskattur hafi svipuð áhrif og "lífeyrisþegaskatturinn". Fólkið sem minnst má sín á að bera jafnmiklar byrðar og það sem hæstar tekjurnar hefur. Hún er stórmerkileg þessi jafnaðarmennska Samfylkingarinnar!
Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki hverju ríkisstjórnin ætlar að áorka með sumum af þessum skerðingum hjá lífeyrisþegum. Margir þeirra standa verulega höllum fæti í samfélaginu og með þessu aðgerðum er staða þeirra gerð ennþá verri. Það eru takmörk fyrir því hversu oft er hægt að hafa núðlur og spagettí í matinn, en fyrir mörgum liggur ekki annað fyrir. Greiðslubyrði lána hefur hækkað mikið og það hefur flest allt annað gert líka. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum greiða tekjulægstu hóparnir í þjóðfélaginu hlutfallslega mest af tekjum sínum í afborganir af föstum lánum. Einstaklingur sem er með 150 þúsund í ráðstöfunartekjur og greiðir 30% í fastar greiðslur lána má ekki við því að tekjurnar skerðist nokkurn skapaðan hlut. Hjón (t.d. ellilífeyrisþegar) með 250 þúsund í ráðstöfunartekjur og 30% greiðslubyrði mega heldur ekki við skerðingu. Samt gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að þetta fólk eigi að lifa á lægri tekjum en áður.
Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands eru um 50% þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur á bilinu 150 - 250 þúsund á mánuði að greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í fastar afborganir lána. Ekki er vitað hver staðan er hjá þeim allra tekjulægstu, þar sem Seðlabankinn birti ekki þær tölur! Nú segir einhver að ekki séu það mörg heimili með undir 250 þúsund í ráðstöfunartekjur, en það er rangt. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands voru 49% heimila í úttekt Seðlabankans um stöðu heimilanna með 250 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur á mánuði í febrúar 2009. Já, 49% heimila voru í tveimur lægstu tekjuhópum þjóðfélagsins. Önnur 17% voru með ráðstöfunartekjur á bilinu 250 - 350 þúsund. Það virðast helst vera hjón með börn sem ná því að vera með 500 þúsund eða meira í ráðstöfunartekjur, en helmingur þeirra ná þeim tekjum.
Úrræði ríkisstjórnarinnar er alvarlega aðför að velferðarkerfinu. Úrræðin leggja fjölmargar nýjar fátæktargildrur í leið þeirra sem eru á fullu að forðast þær sem fyrir eru. Ég skil vel að loka þurfi fjárlagagati þessa árs og næstu ára, en í þetta sinn helgar tilgangurinn ekki meðalið. Það hljóta að vera aðrar leiðir til að ná í þessa 5,4 milljarða en að níðast á þeim sem minnst mega sín.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ef þetta verður að veruleika, þá mun ég aldrei aftur kjósa Samfylkinguna, aldrei!
Valsól (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 23:32
Allt sem að þessi ríkisstjórn gerir virðist mér vera ótrúlega ógeðfellt. Allar ákvarðanir sem að þeir taka virðast mér vera rangar. Hversu hratt er hægt að koma þeim frá völdum?
Anna Margrét Bjarnadóttir, 20.6.2009 kl. 02:15
Þessi bandormur er röð ógeðfelldra aðgerða, aðför að heimilum landsins.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.6.2009 kl. 03:09
SF veit greinilega hvar peningarnir liggja. Stuðningur VG við þetta er sem af öðrum heimi.
Arinbjörn Kúld, 20.6.2009 kl. 06:32
Grunnmistökin eru að halda að við getum staðið undir skuldum þeim sem bankahrunið lagði á samfélagið. Slíkar skuldir verða aldrei endurgreiddar enda ráðum við ekki einusinni við vaxtabyrgðinni. Lánin munu því hækka og hækka þangað til við fáum samfélag og stjórn sem er tilbúin að horfast í augu við gjaldþrotið og segja frá því heiðarlega.
Ég held í sjálfu sér sé ekki óskinsamlgt að reyna að hvetja lífeyrisþega til minni vinnu á tímum mikils atvinnuleysis, á sama hátt og ég held að 6 tíma vinnudagur ætti að duga okkur ágætlega. Við erum fátæk þjóð sem verður að læra að búa við hrikalegt fall í tekjum og lífsgæðum og persónulega vil ég reyna í fremstu lög að verja heilsugæsluna og aðstoð við fatlaða og geðsjúka frekar en ráðstöfunartekjurnar. Að því sögðu eru einhver neðri mörk í ráðstövunartekjum sem við þurfum að skilgreina sem enginn má falla niður fyrir.
Hvað varðar hátekjufólkið að þá ætti það skera mest hjá þeim ef allir eru settir undir forsætisráðherralaun, þar með talið öll fyrirtæki sem bankarnir eignast á komandi mánuðum, sem væntanlega verða öll fyrirtæki sem einhverju skipta. Með því að koma á þaki á launagreiðslur til hæsta lagsins í samfélaginu sem ekki mun hækka í takt við komandi óðaverðbólgu jöfnum við kjörin í samfélaginu meira en með skattlagningu og spörum talsverðan gjaldeyri.
Það sem svo vanntar er beinni árás á þá sem mest eiga hér í samfélaginu og þó vaxtaskatturinn sé hækkaður fyrir fjármagnseigendur sem mun hafa talsverð áhrif á komandi verðbólguskeiði þá tekur hann ekki á þeim sem eiga miklar eignir en hafa af þeim takmarkaðar tekjur fram yfir kreppu. Þannig held ég að það þurfi að fara í það beinskeitt að ná miðbænum úr klónum á eignarhaldsfélögum sem eru að gera útaf við hann. Einnig ætti að leggja á 95% skatta á tekjur af stöðutöku gegn krónunni eins og Andrés Magnússon hefur stungið upp á og skattleggja vaxtagreiðslur úr landi eins og Lilja Mósesdóttir hefur stungið upp á.
Að lokum er ekki hægt að komast há því að nefna húsnæðismálin, en það eru ekki síst þau sem koma í veg fyrir að vel sé hægt að lifa mannsæmandi lífi af 250 þúsund króna ráðstövunartekjum. Ef við gætum fengið í gegn að afborgnir á húsnæði geti aldrei verið yfir 34% af ráðstövunartekjum væru tvær flugur slegnar í einu höggi í og með að hægt væri að koma í veg fyrir fátækt meðal skuldara og koma í veg fyrir að húnæðiskerfi framtíðarinnar láni fólki of mikið.
Héðinn Björnsson, 20.6.2009 kl. 08:39
Þetta er rétt, Valsól. Lífeyrisþegar höfðu svigrúm til tekjuöflunar, en nú er þetta sviigrúm skert með þessum hætti. Það sem var utan svigrúmsins er eftir sem áður með sömu jaðarskattana. Ef við reiknum út frá tölum í greingargerðinni með bandorminum þá á þessi 27% jaðarskattur á lífeyrisþega að skaffa 1.830 milljónir á þessu ári og 3.650 milljónir á hinu næsta. það þýðir að þessi hópur hefur verið að taka inn 13,5 milljarða í tekjur á ári sem falla annað hvort undir þau 40% eða þessar kr. 720.000 sem ekki hafa núna áhrif á tekjutenginguna, en munu gera það samkvæmt bandorminum.
Héðinn, sé hugmyndin að letja fólk til atvinnuþátttöku, þá hefur aðgerðin bæði áhrif til útgjaldaauka og tekjuskerðingar fyrir ríkið. Varðandi útgjaldaaukann, þá gæti minni atvinnuþátttaka orðið til þess að fleiri einstaklingar fari undir 180.000 kr. framfærslumörkin sem þeim, sem búa einum, eru þó tryggð eða 153.000 kr. mörkin einstaklingi í sambúð eru tryggð. Varðandi tekjuskerðinguna, þá hefur ríkið og sveitarfélög þó skatttekjur af þessum tekjum lífeyrisþega. 13,5 milljarðar gefa, miðað við 37,2% skattprósentu, þessum aðilum tekjur upp á rúmlega 5 milljarða. Nettó áhrifin af þessari aðgerð fyrir ríkið eru því líklegast neikvæð og alveg örugglega neikvæð fyrir sveitarfélögin. Flestir lífeyrisþegar eru að afla aukatekna vegna þess að það sem þeir hafa úr að moða er ekki nóg. Það breytist ekki við þessa aðgerð. Það sem breytist er að fólk þarf meiri tekjur en áður og mun þess vegna verða til þess að atvinnuþátttaka þess eykst og hugsanlega mun það sækja í svartavinnu. Ef tekjur manns skerðast um 27.000 kr. á mánuði en útgjöldin haldast óbreytt eða hækka, þá er eina leiðin til að eiga fyrir útgjöldunum að afla meiri tekna. Margir lífeyrisþegar eru þegar búnir að skera niður útgjöld sín eins og þeir mest mega. Ástandið hjá þessu hópi er hræðilegt og nú á að bæta um betur.
Mér finnst þessi aðgerð með öllu óskiljanleg, sama hvernig ég horfi á hana.
Marinó G. Njálsson, 20.6.2009 kl. 12:02
Marinó. Það er langur vegur frá því að allir lífeyrisþegar séu meðal þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Stór hluti þeirra hefur það ágætt fjárhagslega og eru með nokkuð góðar tekjur. Stór hluti þeirra hefur hærri tekjur en meirihluti þjóðarinnar. Það er því út í hött að tala alltaf um það, sem árás á þá, sem minnst mega sín þegar réttindi eru skert í almannatryggingakerfinu. Það fer allt eftir því hvernig það er gert.
Það þarf að stoppa í 170 milljarða fjárlagagat. Þeir, sem halda að hægt sé að gera það án þess að láta það að einhverju leyti bitna á jafn stórum útgjaldalið og almannatryggingakerfinu eru einfaldlega ekki í jarðsambandi.
Þessir útreikningar þínir eru svolítið skrítnir svo ekki sé meira sagt. Einnig er þarna hrein rangfærsla. Það hefur ekkert frítekjumark á tekjutryggingu verið lækkað gagnvart lífeyrissjóðstekjum. Örorkulífeyrisþegar voru með rúmlega 300 þúsund kr. frítekjumark og er ekki hreyft við því. Ellilífeyrisþegar voru ekki með neitt slíkt frítekjumark en fá 120 þúsund kr. frítekjumark samkvæmt þessum lögum. Það var því ekki verið að lækka neitt frítekjumark á tekjutryggingu gagnvart lífeyrissjóðstekjum heldur öfugt. Það var búið til slíkt frítekjumark fyrir ellilífeyrisþega, sem var ekki til áður.
Hvað varðar þá 60% reglu, sem var lögð niður þá gagnaðist hún aðeins þeim, sem voru með yfir 274 þúsund kr. í launatekjur á mánuði til viðbótar við bætur almannatrygginga. Hvort þeir teljist meðal þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu ætla ég ekki að dæma um hér en þú virðist telja að svo sé. Reyndar hefði þessi regla gagnast ellilífeyrisþegum með meira en 100 þúsund kr. á mánuði í laun til viðbótar við bætur almannatrygginga eftir að búið var að lækka frítekjumarkið niður í 40 þúsund kr. á mánuði ef 60% reglan hefði fengið að halda sér. Það hefðu því verið þeir, sem best hafa það meðal lífeyrisþega, sem heðfu haft hag af því að þessi regla hefði fengið að halda sér en ekki þeir verst settu eins og þú ert að halda fram.
Sem dæmi um lækkun bóta til ellilífeyrisþega á vinnumarkaði má nefna að ellilífeyrisþegi, sem býr einn og hefur samanlagt 200.000 kr. í laun og bætur frá TR mun fá bótalækkun upp á tæplega 6.500 kr. Þegar búið er að taka tillit til skatta er um að ræða lækkun upp á 4.000 kr.
Sé þessi ellilífeyrisþegi hins vegar með samanlagt 300 þúsund kr. á mánuði í launatekjur og bætur frá TR þá lækka bætur hans um tæplega 48 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt eða tæplega 30 þúsund kr. á mánuði eftir skatt.
Það er því klárlega verið að beina sparnaðinum að þeim, sem hafa mestu tekjurnar meðal lífeyrisþega. Hins vegar munu örorkulífeyrisþegar í þessari stöðu aðeins lækka um örfáar þúsundir kr. á mánuði vegna þess að frítekjumark þeirra gagnvart tekjum af atvinnu var ekki lækkað.
Ef við gefum okkur að það þurfi að lækka kostnað í almannatryggingakerfinu, hvar vilt þú þá láta það koma niður? Það eru aðeins þrír möguleikar til að gera það. Lækka grunnupphæð bóta, auka tekjuskerðingar eða fækka þeim einstaklingum, sem eiga rétt á bótunum. Hvern af þessum möguleikum myndir þú velja? Félagsmálaráðherra valdi þá leið að auka tekjuskerðingar. Ég hefði líka valið þá leið í hans sporum.
Auðvita er engin sáttur við að þurfa að draga saman í útgjöldum ríkisins eins mikið og raunin er. Það munu aldrei allir verða sáttir við neina af þeim leiðum, sem eru valdar. Að sjálfsögðu væri æskilegra að hægt væri að bæta réttindi í almannatryggingakerfinu í stað þess að þurfa að minnka þau. Lykilatriðið er hins vegar að láta slíkan niðurskurð koma eins lítið og hægt er við þá lakast settu. Það að auka tekjuskerðingar er eina raunhæfa leiðin til þess.
Sigurður M Grétarsson, 20.6.2009 kl. 18:51
Sigurður, það er ýmistlegt missagt hjá þér en annað alveg satt. Rétt er það að sumir lífeyrisþegar hafa það gott. Það breytir samt ekki því að á þá er settur 27% jaðartekjuskattur hafi þeir meira en 40 þúsund í atvinnutekjur á mánuði. Það sama gildir um áhrif tekna frá lífeyrissjóðum, þær bera núna 27% jaðarskatt upp að vissu marki.
Þú ferð með rangt mál á nokkrum stöðum í málflutningi þínum:
1. Ellilífeyrisþegar eru með 1.200.000 kr. í frítekjumörk.
2. Ellilífeyrisþegar geta í dag raunar valið að milli 1.200 þús. kr. og þess að undanþiggja 40% af tekjum til lækkunar á tekjutryggingunni.
3. Örorkulífeyrisþegar geta valið á milli 300 þúsund kr. frítekjumarksins og þess að undanþiggja 40% af tekjum til lækkunar á tekjutryggingunni.
4. Ellilífeyrisþegar fá 480 þús. kr. frítekjumark ekki 120 þúsund eins og þú segir (var 1.200 þúsund, þannig að það er skert um 60%).
Ég held að þú ættir að lesa 16. og 22. gr. almannatryggingalaga og skoða bandormsfrumvarpið.
Mér finnst dæmið þitt alveg dásamlegt. Það er í lagi að lækka manns með 200.000 kr. í tekjur ef hann er lífeyrisþegi, en sé hann ekki lífeyrisþegi, þá má hann halda tekjunum sínum. Eða það er í lagi að lækka tekjur þess sem hefur 300.000 kr. í tekjur um 48.000 kr. eða 16% ef viðkomandi er lífeyrisþegi, en aðili með sömu tekjur og er ekki lífeyrisþegi hann á að halda tekjum sínum. Skýrðu fyrir mér af hverju það er í lagi að lífeyrisþegi með 300.000 kr. á mánuði fái á sig 16% skatt, en einstaklingur með yfir 700.000 kr. á mánuði fær bara 8% skatt og allir undir með 700.000 kr. sem eru ekki lífeyrisþegar fá engan skatt á sig. Af hverju að mismuna fólki vegna þess að það er lífeyrisþegar?
Þú spyrð hvar ég hefði lækkað kostnaðinn í almannatryggingakerfinu. Ég bendi á fyrir ofan að hér er ekki endilega um lækkun á kostnaði í almannatryggingakerfinu að ræða. Auk þess finnst mér réttlátara að láta ALLA landsmenn bera byrðarnar en ekki bara LÍFEYRISÞEGA. Ég hefði því hækkað tekjuskattsprósentuna um 1, 2 eða 3% og náð þessu þannig inn. Mér telst til að heildarlaunagreiðslur í landinu séu um 750 milljarðar á ári. Gefum okkur að 450 milljarðar af þessu beri skatta, þ.e. er umfram persónuafslátt og greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Ef þessir 450 milljarðar bera 1,5% aukaskatt, þá gerir það 6,75 milljarða á ári sem dreifast á alla skattgreiðendur í landinu. Þannig færi ég að því, ef nauðsynlegt er að ná í þessar tekjur. Síðan hef ég bent á aðra leið sem væri fær. Ég mynd að minnsta kosti ekki láta LÍFEYRISÞEGA eina bera byrðarnar.
Marinó G. Njálsson, 20.6.2009 kl. 19:57
Marinó. Ég hef aldrei sagt að þessar breytingar væru eitthvað góðar. Hvað um það þá eru nánast allir töluliðirnir, sem þú nefnir hér rangir. Þú ert í mörgum tilfellum að rugla saman tekjuskerðingaráhrifum launatekna og lífeyrissjóðstekna. Þú ert einnig mað gamlar tölur í mörgum tilfellum.
Tökum lið 1. Í dag er frítekjumark ellilífeyrisþega gagnvart tekjum af atvinnu 1.315.000 kr. og það lækkar niður í 480.000 kr. Þetta frítekjumark var 1.200.000 kr. á síðasta ári en er það ekki lengur.
Töluliður 2. Ellilífeyrisþegar geta valið milli þess að draga 1.315.000 kr. frá tekjum af atvinnu eða undanþiggja 40% teknanna. Þeir einir hagnast á því að undanþiggja 40% teknanna, sem eru með meira en 274 þúsund kr. á mánuði í tekjur af atvinnu.
Töluliður 3. Það gilda sömu reglur um elli- og örorkulífeyrisþega í dag varðandi tekjur af atvinnu. Örorkulífeyrisþegar geta líka valið milli þess að draga 1.315.000 kr. eða 40% frá tekjum af atvinnu. Eftir breytinguna geta þeir bara dregið 1.315.000 kr. frá tekjum af atvinnu en hafa ekki lengur kost á að draga 40% frá. Þeir einir meðal örorkulífeyrisþega, sem eru með meira en 274 þúsund kr. á mánuði í tekjur af atvinnu til viðbótar við greiðalur frá TR tapa á þessari breytingu.
Töluliður 3. Ellilífeyrisþegar verða eftir breytinguna með 480 þúsund kr. frítekjumark gagnvart tekjum af atvinnu í stað 1.315 þúsund. Hvað lífeyrissjóðstekjur varðar þá fá þeir ekkert frítekjumark í dag en fá 120 þúsund eftir breytinguna.
Með öðrum orðum. Allir fjórir töluliðirnir, sem þú telur hér upp eru rangir hjá þér.
Það er rétt að það er talsverður galli á þessum breytingum hvað ellilífeyrisþegar með tiltölulega góðar tekjur af atvinnu lækka mikið í bótum. Þarna er væntanlega verið að draga úr mismunun hjá ellilífeyrisþegum eftir því hvort þeir hafa tekjur af atvinnu eða úr lífeyrissjóðum. Tökum dæmi um ellilífeyrisþega með samtals 300 þúsund kr. á mánuði í tekjur af atvinnu og bótum frá TR. Hann er með 191.870 kr. í tekjur af atvinnu og fær 108.130 kr. frá TR. Eftir breytingu fær hann 60.497 kr. á mánui frá TR og eru tekjur hans því samtals 252.368 kr. á mánuði.
Skoðum svo ellilífeyrisþega með sömu tekjur út lífeyrissjóði, það er 191.870 kr. á mánuði. Hann fær í dag 53.714 kr. eða 54.416 kr. lægri greiðslu en ellilífeyrisþegi með sömu tekjur af atvinnu. Eftir breytinguna fær hann 43.020 kr. og lækkar þar með um 10.694 kr. á mánuði. Þar með er munurin á honum og ellilífeyrisþegans með sömu tekjur af atvinnu farin úr 54.416 kr. á mánuði í 17.477 kr. á mánuði.
Meginhluti ellilífeyrisþega hefur fyrst og fremst tekjur úr lífeyrissjóði fyrir utan greiðslur frá TR. Það er því ekki stór hópur, sem fær þessa miklu lækkun á bótum, sem ellilifeyrisþegar með sæmilegar tekjur af atvinnu fá.
Verkefnið, sem félagsmálaráðherra stóð frammi fyrir var að spara nokkra milljarða í almannatryggingakerfinu. Þú hefur ekki enn svarað því hvernig þú hefðir gert það. Það er út í hött þegar þú segir að verið sé að láta lífeyriþega eina bera byrgðarnar. Það er verið að hækka skatta, lækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofi og stendur til að lækka laun um helmings ríkisstarfsmanna.
Það er svolítið skondið þegar þú gagnrýnir harkalega að verið sé að níðast á lífeyrisþegum en kemur svo með hugmynd á móti, sem snýst um það að lækka greiðslur inn í lífeyrissjóði án þess að það komi til kostnaðarlækkunar hjá launþegum eða atvinnurekendum. Þetta mun þar með leiða til lægri tekna lífeyrisþega úr lífeyrissjóðum í framtíðinni. Hað er það annað en tekjulækkun seinni tíma lífeyrisþega? Lausnin þín felst sem sagt ekki í því að dreifa byrgðunum eins og hægt er til þeirra, sem geta borið það bæði lífeyrisþega og aðra heldur eiga allar byrðarnar að koma á sinni tíma lífeyrisþega.
Sigurður M Grétarsson, 20.6.2009 kl. 21:14
Marinó. Bara svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki að segja að hugmyndin þín sé slæm þó ég bendi á að hún muni lækka þær greiðslur, sem lífeyrisþegar framtíðarinnar fái úr lífeyrissjóðum sínum. Ef maður, sem leggur talsvert fyrir á mánuði til efri ára lendir í fjárhagsvændærðum þá er það væntanlega eitt af því, sem skysamlegt væri fyrir hann að gera að minnka tímabundið fjársöfnunina til efri áranna. Ég tel þetta því vera hugmynd, sem væri vel athugandi.
Annað varðandi yfirskriftina á þessum þræði. Hvernig skilgreinir þú þá, sem minnst mega sín? Eru það einstaklingar með undir 200 þúsund kr. á mánuði í tekjur? Eða kanski 250 þúsund kr. á mánuði? Eða miðar þú við 300 þúsund kr. á mánuði?
Staðreyndin er sú varðandi þær breytingar, sem nú er verið að framkvæma í almannatryggingakerfinu miðast að því að þeir, sem minnst mega sín meðal lífeyrisþega séu undanþegnir skerðingu að mestu eða öllu leyti. Eins og ég sagði áðan þá eru þeir ekki í jarðsambandi, sem halda að hægt sé að stoppa í 170 milljarða gat á fjárlögum án þess að ganga á jafn stóran kostnaðarlið og almannatryggingakerfið er.
Hvað það varðar að hækka skatta um 1,5% í viðbót við það, sem nú er þá mun það bitna á mun fleirum af þeim, sem verst hafa það fjárhagslega í landinu heldur en sú breyting gerir, sem nú er verið að gera á almannatryggingakerfinu. Þeir úr hópi lífeyrisþega, sem flokkast geta meðal þeirra, sem verst hafa það í landinu er aðeins lítið brot af þeim hópi. Ungt fjölskyldufólk með lágar tekjur og miklar húsnæðisskuldir hefur í almennt mun þrengri fjárhag en meirihluti ellilífeyrisþega gerir og á það þá sérstaklega við þá ellilífeyrisþega, sem hafa það háar tekjur annars staðar frá að fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu skerði greiðslur til þeirra, svo einhverju nemi.
Ég hef ekki í langan tíma séð fáránlegri útreikning en þessa 27% framsetningu þína. Staðreyndin er þessi varðandi ellilífeyrisþega með tekjur af atvinnu. Þeir, sem eru með tekjur milli 40.000 og 109.600 kr. á mánuði fara úr 0% jaðarskerðingu tekjutryggingar í 45%. Á tekjubilinu 109.600 í 274.000 kr. fer jaðarskerðing tekjutryggingar úr 38,35% í 45%. Þegar tekjurnar fara yfir 274.000 kr. fer jaðarskerðingin úr 23,01% í 45%.
Það má alltaf deila um það hversu mikil jaðaráhrif tekna eiga að vera í almannatryggingakerfi. Staðreyndin er hins vegar sú að þeim mun hærri, sem þau eru þeim mun meira er hægt að greiða til þeirra, sem eru með minnstar tekjur annars staðar frá miðað við sömu útgjöld. Þegar vel árar höfum við efni á að setja meiri pening inn í kerfið til að lækka þessi jaðarárhif án þess að skerða bætur til þeirra tekjulægstu. Þá getur það einnig verið skynsamlegt að minnka jaðaráhrif tekna af atvinnu þegar skortur er á vinnuafli.
Þegar hins vegar þarf að draga saman seglin í kreppu er einfaldlega allt annað uppi á teningnum. Þá er ekki þörf á sértækum aðgerðum í almannatryggingakerfinu til að hvetja ellilifeyrisþega til að vinna, sem mest. Þá eykst hins vegar þörfin til að spara en samhliða að verja stöðu þeirra, sem verst hafa það meðal þessa hóps. Skynsamlegasta leiðin til þess er að auka jaðaráhrif tekna að mínu mati en halda grunnupphæðum óbreyttum.
Sigurður M Grétarsson, 20.6.2009 kl. 22:06
Sigurður, förum yfir þetta nánar.
MGN:
SMG:
Í 16. gr. almannatryggingalaga b-liður:
Í bandorminum segir í VII. kafla, 14. gr.:
Ég veit ekki í hvaða tölur þú ert að vitna, en sé upphæðin 1.315.000 kr. þá vernar skerðingin bara og jaðarskatturinn hækkar.
MGN:
SMG:
Ég vísa aftur í 16. gr. b-lið í almannatryggingalögum og 14. gr. í bandorminum. Ég sé ekki villuna hjá mér. Auk þess skiptir það ekki máli hvað fólk er með í tekjur, heldur að það sé verið að mismuna fólki eftir því hvort það er lífeyrisþegi eða ekki.
MGN:
SMG:
Samkvæmt 16. gr. b-lið, þá geta "[ö]rorkulífeyrisþegi .. valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar." Þarna er ekki minnst á 1.315.000 kr., en rétt er að upphæðin breytist ekki. Það sem aftur gerist er að þeir geta ekki lengur valið um að draga 40% af tekjum. Ég skil aftur ekki hvað tekjuupphæðin skiptir máli, þar sem ég er að benda á því að þjóðfélagsþegnum er mismunað eftir því hvort þeir eru lífeyrisþegar eða ekki.
MGN:
SMG:
Þarna erum við upphaflega að benda á sitthvorn liðinn, þannig að báðar tölur eru réttar.
Miðað við þessar tilvísanir mínar í lög og frumvarp, segðu mér nú hverjar villurnar eru. Hugsanlega kom einhver verðbreytingahækkun á 1.200.000 kr. upphæðina um áramót, en það gerir ekkert annað en að hækka jaðarskattaáhrifin sem ellilífeyrisþegar verða fyrir einir þjóðfélagsþegna.
SMG:
Lestu það sem þú skrifar áður en þú sendir það? Ég efast um það. Hefur þú lesið tillögu mína um færslu 2-3% af mótframlagi atvinnurekenda inn í tryggingagjald? Þú segir að hugmynd mín snúist um "að lækka greiðslur inn í lífeyrissjóði án þess að það komi til kostnaðarlækkunar hjá launþegum eða atvinnurekendum". Ef 2-3% af mótframlagi er fært tímabundið yfir í tryggingagjald, þá er ég einmitt að leggja til að kostnaður launagreiðenda standi í stað og að þetta hafi óveruleg áhrif á launþega til langframa. Já, þetta mun leiða til 2% lægri tekna lífeyrisþega í framtíðinni að því gefnu að ekki takist að vinna það upp síðar með góðri ávöxtun sjóðanna. Já, ég er að gera ráð fyrir að seinni tíma lífeyrisþegar beri byrðarnar og að þeir sem þegar eru búnir að ljúka sinni starfsævi og hafa byggt upp þjóðfélagið sé ekki refsað fyrir afglöp fjárglæframanna sem flestir eru 45 ára eða yngri.
Annars benti ég líka á að betra væri að hækka skattprósentu um 1 - 3%, en að fara í þessa skattheimtu og skerðingar hjá LÍFEYRISÞEGUM. Ef þér finnst meiri sanngirni í því að lífeyrisþegar borgi brúsann, þá þú um það. Mér finnst óréttlátt!
Marinó G. Njálsson, 20.6.2009 kl. 22:28
Sigurður, það er gott að heyra að þér finnst hugmynd mín ekki slæm. Hún hefur almennt fengið góðar undirtektir og þykir ákaflega sanngjörn. Við erum jú að leita að sanngjarnri niðurstöðu fyrst við þurfum á annað borð að fara í aðgerðir til að brúa fjárlagagatið.
Þeir sem minna mega sín eru í mínum huga lífeyrisþegar sem hafa getað aukið tekjur sínar með vinnu og þurfa að taka á sig byrðar sem einstaklingar með sömu tekjur þurfa ekki að taka á sig. Mér finnst það óréttlátt að vinnandi fólk með allt að 700.000 kr. í mánaðarlaun taki ekki á sig sömu byrðar og lífeyrisþegar.
Ég átta mig á því að 1,5% hækkun tekjuskatts mun bitna á stærri hóp, en byrðin leggst þó hlutfallslega jafnt á alla. Sumir mega ekki við því, en eiga þá lífeyrisþegar að fá 27% jaðarskatt í staðinn. Eiga lífeyrisþegar að missa 48.000 kr. af 300.000 kr. tekjum sínum svo einstaklingurinn með 200.000 kr. á mánuði þurfi ekki að missa 3.000 kr.? Fyrir utan að hægt er að hækka persónuafsláttinn til að skattahækkunin bitni ekki á lægstu tekjuhópunum.
Það eru líka örorkulífeyrisþegar meðal þeirra sem eru ungt fólk með "miklar húsnæðisskuldir".
Varðandi þetta að einhver hluti ellilífeyrisþega hafi miklar tekjur, þá er sá hópur að verða fyrir skerðingu, ef tekjur þeirra eru yfir ákveðinni upphæð. Það breytist ekkert.
Útreikningur minn á 27%: Ég sagði í textanum allt að 27% jaðarskattur og fæ hann út með því að taka 60.000 af 100.000 og margfalda með 0,45 = 27.000. Nú 27.000 er 27% af 100.000, ekki satt og 27.000 er sú tala sem tekjutryggingin skerðist um hjá þeim ellilífeyrisþega sem er með 100.000 kr. í atvinnutekjur á mánuði. Kallaðu þetta fáránlegt, en komdu með betri útreikning. Ég bíð spenntur.
Ég er sammála að grípa þarf til aðgerða í kreppu, en finnst fáránlegt að velja úr hóp lífeyrisþega og láta þá taka á sig þyngri byrðar en meira að segja hátekjufólkið þarf að bera. Ég vil frekar að við sem eru vinnandi og aflandi tekna tökum á okkur örlítið þyngri byrðar.
Marinó G. Njálsson, 20.6.2009 kl. 23:01
Marinó. Í tilvitnunum þínum í lagatexta eru tölurnar eins og þær voru þegar lögin voru sett. Síðan þá hafa tölurnar tekið breytingum. Hér er tilvísun í heimastíðu TR, sem sýnir þessar tölur eins og þær eru í dag:
http://www.tr.is/media/gjaldskrar/greidslur_skerdingar1.pdf
Eins og sést í skýringarlið 3 þá er frádrátturinn frá tekjum af atvinnu 1.315.200 kr. og gildir það bæði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.
Svo við förum yfir þróun þessa frádráttarliðar þá kom hann fyrst til í janúar 2007 og var þá 300.000 kr. Hann hækkaði síðan upp í 327.000 kr. í janúar 2008. Í júlí 2008 var hann hækkaður í 1.200.000 kr. og var síðan hækkaður í 1.315.200 kr. í janúar 2009. Þó þessi frádráttarliður verði lækkaður í 480.000 kr. hjá ellilífeyrisþegum þá er hann samt 47% hærri en hann var í júní 2008 eða fyrir aðeins ári síðan. Þessi mikla hækkun, sem var ákvkeðin í góðærinu þegar mikill skortur var á fólki á vinnumarkaði er einfaldlega lúxus, sem menn telja sig ekki lengur hafa efni á nema gagnvart örorkulífeyrisþegum.
Ástæða þess að þú sérð ekki 1.200.000 krónurnar gagnvart örorkulífeyrisþegum er sú að í lagabreytingunum í mars 2008 var einungis ákveðið að hækka þetta frítekjumark hjá ellilífeyrisþegum en ekki örorkulífeyrisþegum frá 1. júlí. Þessu var mótmælt og áður en 1. júlí gekk í garð var sett inn bráðabyrgðaákvæði í löin um að þetta skyldi líka gilda um örorkulífeyrisþega mánuðina júlí til desember 2008. Í bandorminum í desember 2008 var þetta ákvæði framlengt enn gagnvart örorkulífeyrisþegum.
Hvað varða tölulið 4. þar, sem þú talar um að við höfum verið að tala um sitthvorn liðin þá er ég þarna að svar því að þú sagðir mig fara með rangt mál þegar ég sagði að frítekjumark ellilífeyrisþega gagnvart lífeyrissjóðsstekjum yrði 120.000 kr. og sagðir að það yrði 480.000 kr. Ég var því einmitt að benda á að þarna værir þú að rugla saman atvinnutekjum og lífeyrissjóðstekjum og það var rétt gagnrýni hjá mér.
Hvað varðar tillöguna þína þá lækkar hún ekki lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar um 2% eins og þú segir. Þetta er lækkun á framlögum til lífeyrissjóða um 1/6 eða 16,67% og munu lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar verða lægri, sem því nemur gagnvart þeim framlögum, sem koma inn í lífeyrissjóðina meðan sú regla er við lýði. Í því efni skiptir engu máli hver framtíðarávöxtunin er því réttindin verða allta lægri, sem þessu nemur nema þessi tiltekna aðgerð hækki ávöxtunina frá því, sem annars hefði orðið. Ég hef lesið þessa hugmynd þína og setnd við þessar tölur hvað það varðar. Hins vegar er ég samt á því að þetta geti verið skynsamlegt einfaldlega vegna þess að þegar menn eru í fjárhagserfiðleikum þá er það oft það skynsamlegasta, sem menn gera að hægja á söfnun til efri áranna tímabundið.
Reyndar er það enn meiri árás á tekjur lífeyrisþega ef men fara út í flatan niðurskurð lána til dæmis með því að skrúaf vístöluna aftur til janúar 2008 eins og þú hefur talað fyrir. Það mun bitna mun verr á lífeyrisþegum heldur en þær aðgerðir, sem felast í bandorminum því lífeyrissjóirnir munu tapa milli 10% og 14% af eignum sínum við það og þurf þá að lækka útgreiðslur, sem því nemur.
Þú ert greinilega ekki að skilja orðið jaðaráhrif tekna. Svo ég útskýri það fyrir þér þá eru það áhrifin af því að tekjurnar hækka um eina krónu. Reyndar eru bætur rúnnaðar af í heilum krónum þannig að eðlilegra er að taka stærra bil en það breytir því ekki að þar með eru 27% jaðarháhrif hvergi í kerfinu. Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að gagnvart ellilífeyrisþega, sem hefur akkúrat 100.000 kr. á mánuði í laun þá lækkar tekjutrygging hans um 27% af tekjum hans. Það hlutall er hins vegar allt annað hjá lífeyrisþegum með 99.000 kr. í tekjur eða 101.000 kr. í tekjur. Þessi fullyrðing þín um 27% jaðaráhrif er því bull.
Tölum síðan um þetta með að ráðast að þeim lakast settu í þjóðfélaginu. Í dag er miðgildi tekna einstaklinga hér á landi um 200.000 kr. á mánuði. Það var um 220.000 kr. á mánuði á miðju síðasta ári. Það merkir að helmingur fullorðinna einstaklinga á Íslandi er með minna en 200.000 kr. í tekjur á mánuði og helmingur þeirra er með meira en 200.000 kr. á mánuði. Þar með eru þeir, sem hafa meira en 200.000 kr. í tekjur á mánuði í efri helmingi einstaklinga hér á landi hvað tekjur varðar. Þeir geta því ekki talist til þeirra sem minnst megs sín því slíkt orð í efsta falli hlýtur að takmarkast við minnihlutahóp með lægstu tekjurnar.
Þar af leiðandi stenst engan vegin sú fullyrðing að það að lækka tekjur fólks, sem hefur meira en 200.000 kr. í tekjur á mánuði sé árás á þá, sem minnst mega sín. Þessar breytingar, sem á að gera á almannatryggingalögum miða einmitt að því að lækka ekki greiðslur til þeirra úr hópi lífeyrisþega, sem talist geta til þeirra lakast settu í íslensku þjóðfélagi. Aðrir þurfa að taka á sig byrgðar og á það jafnt við lífeyrisþega, sem ekki eru í hópi hinna lakast settu eins og aðra, sem eru í efti helmingi þjóðarinnar hvað tekjur varðar.
Að sjálfsögðu væri það betra ef ekki þyrfti að skerða lífskjör neins hér á landi. Þessi djúpa kreppa, sem við erum í gerir það hins vegar útilokað. Við verðum hins vegar að hlífa þeim lakast settu og getum ekki leyft okkur þann lúxus að taka einhverja hópa út úr eins og lífeyrisþega og hlíft þeim alveg án tillits til þess hvort þeir hafa lágar eða háar tekjur. Það getur heldur ekki talist sanngjarnt gagnvart öðrum með lægri tekjur en þeir, sem þurfa að taka í sig byrgðar.
Ég geru mér fyllilega grein fyrir því að örorkulífeyrisþegar eru líka ungt fólk með "miklar húsnæðisskuldir". Það eru líka margir í þeim hópi meðal ríkisstarfsmanna, sem á að lækka launin hjá. Höfum líka í huga að örorkulífeyrisþegar með börn á framfæri fá rúmlega 21 þúsund kr. á mánuði í skattfrálsa greiðslu með hverju barni umfram lífeyrsibætur sínar. Barnafólk á vinnumarkaði þarf því að hafa nokkuð góðar tekjur bara til að ná sömu nettó tekjum og örorkulífeyrisþegar með börn. Til dæmis þurfa foreldrar með þrjú börn á framfæri að hafa 274 þúsund kr. í laun á mánuði bara til að hafa sömu nettótekjur og örorkulífeyrisþegar með þrjú börn, sem hafa engar aðrar tekjur en bætur frá TR. Ef um einstæða foreldra er að ræða fer þessi upphæð yfir 300 þúsund kr. á mánuði. Þá er ekki búið að taka tillit til kostnaðarins við að sækja vinnu frá þemur börnum.
Verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir að loka 170 milljarða gati en verja samt þá lakast settu getur ekki einskorðast við það að setja ákveðna hópa eins og lífeyrisþega í einn hatt og meðhöndla þá alla eins hvað þetta varðar því þeir eru mjög misjafn hópur hvað tekjur og aðrar aðstæður varðar. Við verðum því að horfa á tekjur og framfærsluþörf óháð því hvort um lífeyrisþega er að ræða eða ekki.
Það eru margir í hópi lífeyrsþega með góðar tekjur og þeir geta alveg tekið á sig byrgðar hvað þetta varðar eins og aðrir. Ef við erum ekki tilbúin að spara í almannatryggingakerfinu þurfum við að spara meira annars staðar og það mun þá í mörgum tilfellum bitna á öðrum, sem jafnvel eru enn verr staddir en þeir lífeyriseþgar, sem fá með þessum bandormi einverja kjararýrnun, sem heitið getur. Kjararýrnun til lífeyriseþga með lágar tekjur er lítil, sem engin í þessum bandormi. Það eru aðeins þeir betur settu úr þessum hópi, sem fá einhverja kjararýrnun að ráði. Flestir launþegar hafa eð munu fá kjararýrnun og þessi hópur lífeyrisþega er ekkert verr staddur en margir þeirra.
Ég stend því við þá fullyrðingu mína að þær aðgerðir, sem þarna á að fara út í getur ekki talist til árásar á þá lakast settu í þjóðfélaginu.
Sigurður M Grétarsson, 22.6.2009 kl. 12:05
Sigurður, þetta er langur texti hjá þér og ég ætla ekki að svara honum öllum.
1. Hafi tölurnar hækkað vegna verðbreytinga, þá er skerðingin bara meiri.
2. Sé upphæðin hjá örorkulífeyrisþegum núna 327.000 þá á greinilega að koma skerðingin hjá þeim líka, því eftir eiga að standa 300.000.
3. Ég er ekki með alla bandorma á hrein heldur var ég með samanburð á milli lagatexta sem var verið að breyta. Sé reyndin að örorkulifeyrisþegar eru í reynd með kr. 1.200.000 frítekjumark, þá er verið að skerða um 75% hjá þeim samanborðið við 60% hjá ellilífeyrisþegum.
4. Ef þú lest tillögu mína um 2% tilfærsluna, þá sér þú að ég reikna áhrifin miðað við að safnað sé í lífeyrissjóð alla starfsævi, þá verði skerðingin 2%.
5. Varðandi það að tillögur mínar um LEIÐRÉTTINGU lána kosti lífeyrisþega meira en tillögur ríkisstjórnarinnar, þá held ég að þú ættir að skoða rök mín fyrir því betur. Stór hluti þessara eigna er þegar tapaður, þökk sé fjárglæframönnum landsins. Verði kröfum haldið til streitu mun tapið bara aukast.
6. Ég skil vel hugtakið "jaðaráhrif". Hef skrifað lokaritgerð á háskólastigi, þar sem það var eitt af helstu atriðum sem var skoðað.
7. Ég lít svo á að þeir sem eru með innan við 250 þúsund í ráðstöfunartekjur séu í hópi þeirra sem minna mega sín. Þú mátt hafa þá skilgreiningu sem þú vilt.
8. Ég er ekki sannfærður um að þessi aðgerð skili því sem ætlað er, þar sem dragi lífeyrisþegar úr vinnu sinni, þá fylgir því líklegast útgjaldaauki fyrir ríkissjóð. Auk þess hættir ríkið að fá skatttekjur af þeim launum sem þar hverfa. Loks má gera ráð fyrir að svört vinna aukist.
9. Hugtakið "lakast settu" er ekki það sama og "þeir sem minna mega sín".
Sigurður, þú hefur ekkert sagt til að breyta skoðun minni á þessu máli. Frekar styrkt hana. Skerðing sem ég mældi 720.000 kr. reynist 835.000 og atriði sem ég taldi ekki skerðast fá á sig 1.015.000 skerðingu.
Ég hef fulla samúð með ríkisstarfsmönnum sem ætlunin er að skerða tekjur hjá. Ég raunar skil ekki hvers vegna það á að fara þessa leið. Ef tekjur eru skertar um 100.000 kr. hjá einstaklingi með tekjur yfir skattleysismörkum, þá tapast tekjuskattur og útsvar upp á 37.200. Síðan tapast veltuskattar. Loks minnkar sú upphæð sem fer í neyslu og þar með inn í veltu fyrirtækjanna. Slíkt getur leitt til meira atvinnuleysis o.s.frv. Spírallinn niður á við eykst og kreppan dýpkar. Þessu þurfum við að snúa við, þ.e. hækka þá fjárhæð sem fer í neyslu og auka þannig tekjur fyrirtækja og hins opinbera. Gatið verður fljótar brúað á þann hátt en með því að drepa allt niður. Vandinn er að þrjár ríkisstjórnir hafa nákvæmlega ekkert gert til að örva neyslu og auka veltu. Þær hafa ekkert gert til að verja störfin. Þess vegna versnar ástandið stöðugt.
Marinó G. Njálsson, 22.6.2009 kl. 12:38
Svo ég fari yfir þessa töluliði.
1. Lækkunin er nákvæmlega sú, sem ég sagði. Athugaðu það að það er aðeins lítill hluti ellilífeyriseþga með meira en 40.000 kr. á mánuði í tekjur af atvifnnu og næt þetta því aðeins til lítils hóps. Þessi hópur er ekki að lepja dauðann úr skel og ef við spörum ekki í almannatryggingakerfinu þá þurfum við að spara meira annars staðar og það mun þá í mörgum tilfellum lenda á aðilum í verri stöðou en ellilífeyrisþegum með sæmilegar tekjur af atvinnu.
2. Frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna tekna af atvinnu er 1.315.200 kr. og það stendur ekki til að breyta því.
3. Þarna er greinilea sami misskilningur há þér og varðandi lið 2.
4. Það má vel vera að miðað við að þessi lækkun sé aðeins í stuttan tíma verði skerðingin aðeins 2% en það breytir því ekki að hún verður 16,67% miðað við söfnun á því tímabili, sem þessi aðgerð varir.
5. Ég hef skoðað rök þín fyrir hinni svokölluðu "leiðréttingu" lána og veit allt um það að hluti af þessu er hvort eð er tapað fé. Það breytir því ekki að lækkun eða "leiðrétting" lána þeirra, sem eru borgunarmenn fyrir sínum lánum kostar ríkissjóð og lífeyrissjóðina hundruði milljarða króna og aukast skuldir ríkissins, sem því nemur og einnig minnka eignir lífeyrissjóðanna, sem því nemur. Hvað lífeyrissjóðina varðar þá eru þeirra lán nánast í öllum tilfellum með veði í íbúðahúsnæði og þeir fóru aldrei upp fyrir 65% af verðmæti íbúðarinnar. Það er því lítil hætta á að þeir tapi miklu af lánum sínum til sjóðsfélaga. Því er er nánast öll lækkun á lánasafni þeirra bein lækkun á því, sem þeir annars myndu ná inn.
6. Þínir fullyrðing um að jaðaráhrif tekna hækki um 27% hjá ellilífeyrisþegum segir annað en að þú skiljir hugtakið jaðarháhrif.
7. Það að miðgildi tekna er 200 þúsund kr. á mánuði segir það að umtalsverður meirihluti þjóðarinnar er með minna en 250 þúsund kr. á mánuði í tekjur. Það að telja umtalsverðan meirihluta þjóðarinnar til þeirra, sem minna mega sín er vægast sagt skrítin skilgreining. Staðreyndin er einfaldlea sú að ekki er hægt að stoppa upp í 170 milljarða gat á fjárlögum öðruvísi en að einhverjir með minna en 250 þúsund kr. á tekjur á mánuði taki einhverjar byrgðar.
8. Þegar atvinnuleysi er mikið þá verða stjórnvöld ekki af skatttekjum þó einhver hætti að vinna vegna þess að þá fær einfaldlega einhver annar vinnuna hans.
9. Jú mikið rétt en það breytir því ekki að það er skrítin framsetning að skilgreina umtalsverðan meirihluta þjóðarinnar, sem þá, sem minna mega sín.
Jú það er mikið rétt hjá þér að lækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega er 835 þúsund kr. á ári en það er bull hjá þér að það sé verið að lækka frítekjumark hjá örorkulífeyrisþegum um 1.015 þúsund kr. Það er ekki verði að lækka frítekjumark hjá þeim. Hins vegar er þetta frítekjumar ellilífeyrisþega 153 þúsund kr. hærra en það var fyrir ári síðan.
Það er alveg rétt hjá þér að þegar útgjöld ríkisins eru dregin saman með því að lækka millifærslur eins og til almannatrygginga eða með því að lækka laun ríkisstarfsmanna þá lækka skatttekjur á móti. Sú tekjulækkun er hins vega aðeins hluti af upphæð sparnaðarins. Vissulega er hægt að draga úr atvinnuleysi með því að reka ríkissjóð með miklum halla en sú skuldaaukning, sem það veldur gerir mönnum erfiðara fyrir síðar að reka velfeerðar, heilbrigðis og menntakerfi. Þegar við bætist að lánstraust ríkissjóðs er mjög takmarkað þá er það ekki valkostur svo ekki sé talað um það að þetta er skilyrði frá þeim aðilum, sem þó eru tilbúnir til að lána okkur pening. Þeir vita það að án þess að okkur takist að snúa við hallarekstri á ríkissjóði þá getum við ekki greitt lánin til baka. Það gildir sama lögmál með ríkissjóð og einstaklinga að til að geta greitt til baka lán þurfa útgjöld að vera minni en tekjurnar.
Sigurður M Grétarsson, 22.6.2009 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.