Leita í fréttum mbl.is

Traustið hvarf og það þarf að endurreisa

Ekki það að ég sé að mæla með aðferð húseigandans á Álftanesi, en í baráttu minni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, þá finnur maður fyrir vaxandi gremju hjá fólki yfir úrræðaleysi stjórnvalda og bankanna.  Mér finnst t.d. merkilegt að setjast niður með þjónustufulltrúum eða útibússtjórum hjá hamskiptingum gömlu bankanna og eiga að geta treyst þeim.  Bara sorry Stína, þetta virkar ekki þannig. 

Nýju bankarnir eiga alveg eftir að ávinna sér traust fólks og meðan það er ekki gert, þá verða svona uppákomur eins og í dag.  Frjálsi fjárfestingabankinn var svo sem ekki stór þátttakandi í hruni efnahagskerfisins og því er ég ekki að beina orðum mínum til þeirra.  Raunar varð FF fyrstur til að bjóða lántakendum upp á alvöru úrræði í fyrra haust, úrræði sem litu ekki dagsins ljós hjá stóru bönkunum fyrr en í byrjun apríl.  En fyrir marga komu þessi úrræði of seint, eins og svo margt annað í tengslum við efnahagshrunið.  Ég auglýsti eftir úrræðum í maí í fyrra og aftur í júní, en það tóku fáir mark á þessu kvabbi.

Eigendur og stjórnendur Glitnis, Landsbanka og Kaupþings glötuðu trausti landsmanna í kjölfar hrunsins í október, þegar ljóst var hvers konar sirkus hafði verið í gangi varðandi ýmis mál hjá bönkunum.  Nýju bankarnir, þ.e. Íslandbanki, NBI og Nýja Kaupþing, erfðu þetta vantraust og þurfa því að hrista það af sér.  Það er ekki gert með því að ganga fram af hörku gegn skuldurum.  Það er gert með því að sýna auðmýkt og skilning.  Þetta virðist mér full oft skorta miðað við þær sögur sem ég heyri frá því fólki sem ég á í samskiptum við eða les innlegg frá á blogginu eða Eyjunni.

En það eru svo sem ekki bara eigendur og stjórnendur bankanna sem misstu tiltrúa almennings.  Það gerðu einnig stjórnmálamenn og embættismenn.  Einhverjir stjórnmálamenn hafa vikið sætum til að hleypa nýjum andlitum að, en líkt og með bankanna, þá erfa þessir nýju aðilar vantraustið frá hinum fyrri.  Síðan koma þeir sem höfðu þó traust, eins og Steingrímur og Jóhanna, og glata því á hraða ljóssins með því að treysta þjóðinni ekki fyrir vitneskjunni, sannleikanum.

Endurreisn samfélagsins byggist ekki á því að endurreisa banka eða semja um Icesave. Hún byggir á því að endurreisa traust.


mbl.is Bankinn fékk ekki lyklana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó .

Traust þarf, en því miður er það hroki sem mætir þér!

JR (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 20:25

2 Smámynd: Offari

Það tekur yfirleitt lengri tíma að byggja upp traust en að brjóta það niður.

Offari, 17.6.2009 kl. 20:37

3 identicon

skil þetta ekki alveg, það var bara eitthvað einkahlutafélag sem átti þessa húseign

Rikki (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 20:56

4 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Ég TREYSTI þér til að láta RÖDD okkar heyrast - sá tími "mun koma að þessi vita gagnlausa ríkisstjórn mun þurfa að hlusta......"  Ég spái því í haust þegar fólk fer út í það að "kveikja í bílum & húsnæði sýnu" frekar en afhenda það í hendur á sama fólkinu og NARAÐI  það með sinni siðblindu ráðgjöf - það er nefnilega TAKMÖRK fyrir hversu "illa er hægt að fara með fólk...!"

Ég VONA innilega að þessari ríkisstjórn takist að vakna til lífs og hlusta á RÁÐGJÖF frá þér, okkar samtökum og öllum þeim sem vilja láta gott af sér leiða - við þurfum svo sannarlaga að byggja hér upp nýtt & betra samfélag og það gerir maður ekki með því að berja á þjóð sinni...!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 17.6.2009 kl. 21:11

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég var að bíða eftir að Marinó mundi tjá sig og er mikill þungi í orðum hans. Marinó kvartar um að sama fólkið sé í nýju bönkunum. Þá dettur mér í hug atvik frá 2001.

Málavextir voru þeir helstir að Íbúðalánasjóður krafðist nauðungarsölu á íbúð. Einnig krafðist Frjálsi fjárfestingarbankinn nauðungarsölu á íbúðinni vegna vanskila á 620 þúsund króna láni frá árinu 1999. Uppboðskrafa Íbúðalánasjóðs var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 11. janúar 2001. Íbúðareigendurnir mættu ekki og var málinu frestað til 19. febrúar. Eigendurnir mættu ekki heldur þá og ákvað sýslumaður að uppboð færi fram 13. mars. Þá mætti annar eigandinn og fékk samþykkt að sýslumaður tæki sér 8 vikna frest til að samþykkja boð í eignina. Hæsta boð kom frá Frjálsa fjárfestingarbankanum, 4,3 milljónir króna, en á markaði var söluverðið metið á um 7 milljónir. Hafði bankinn frest til kl. 11.30 9. maí að skila inn greiðslu fyrir helmingi kaupverðsins. Bankinn skilaði inn 1 milljón króna, eða fjórðungi söluverðs, til sýslumanns kl. 16.08 þennan dag.

Málið fór fyrir dóm. Fram kom í dómsurskurðinum að lögmaður eigendanna hafi farið þess á leit að faðir annars þeirra fengi framselt boð bankans í íbúðina gegn greiðslu kröfu bankans, sem komin var í um 850 þúsund krónur. Framkvæmdastjóri bankans, að sögn lögmannsins, vildi ekki taka við greiðslunni heldur halda sig við niðurstöðu uppboðsins.

Í dómsúrskurðinum sagði Skúli J. Pálmason héraðsdómari m.a.:

"Það er mat dómsins, þrátt fyrir þessi málalok, að afstaða og framkoma varnaraðila [Frjálsa fjárfestingarbankans] gagnvart sóknaraðilum [íbúðareigendunum] verði að teljast fáheyrð og raunar einstæð. Hér er um það að ræða, að varnaraðili hefur með afstöðu sinni bætt rekstrarstöðu sína, þótt í litlu sé, miðað við fjárstyrk sinn, á kostnað sóknaraðila, sem sýnt þykir, að verði fyrir umtalsverðu fjártjóni frá þeirra augum séð við það að fá ekki að greiða skuld sína við varnaraðila með þeim hætti, sem fyrr er lýst. Dómari málsins vill í þessu sambandi láta þess getið, að hann gætti hagsmuna banka um áratuga skeið og gjörþekkir því til mála af þessu tagi."

Það er þetta hugarfar sem fluttist inn í "nýju"!!! bankana með gamlabankafólkinu, því verður að moka út með skurðgröfu.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.6.2009 kl. 22:55

6 identicon

Fólk er löngu orðið brotið og ég skil manninn vel.  Hann braut ólög blessaður maðurinn.  Ólög studd af yfirvöldum Okurlands.  Hann stóð upp, eða öllu heldur jarð-ýtti gegn, endalausum mannréttindabrotum og niðingsskap á almennum borgurum landsins.  Við eigum ekkert að borga skuldir glæpabankanna og tapa húsum okkar ef við getum það ekki.

Almennur borgari (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 22:56

7 identicon

Öllu heldur eigum við ekkert að borga okur og rán glæpabankanna.  Það virkar ekki þannig að glæpabankar og ólög geti endalaust haldið fólki í skefjum.  Það virkar öfugt því mannlegt eðli þolir ekki bælingu og óréttlæti og glæponar og yfirvöld skilja það ekki.

Almennur borgari (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:06

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að fá lánaða athugasemd frá öðru innleggi.  Þar segir Steinar Immanúel Sörensen:

Að mínu mati eru allir lánasamningar í þessu landi í raun brostnir, og ég hvet hiklaust þá sem standa í svipaðri stöðu til að grípa til einhvera álíkra aðgerða, það myndi kannski ýta undir mannlega þáttinn hjá lánastofnunum.

Það er fyrst og fremst þetta með að lánasamningar séu brostnir.   Lánveitendur verða að fara að átta sig á slíku.  Ekki bara þeir sem veittu fólki og fyrirtækjum lán, heldur líka þeir sem keyptu skuldabréf (húsbréf) eða veittu lánastofunum lán.  Kerfið er hrunið og það verður ekki endurreist nema með mikilli eftirgjöf á ávöxtunarkröfu.  Lausnin felst ekki lengur í leiðréttingu verðbótarþáttar og gengisbreytinga á takmörkuðum lánaflokkum.  Þetta þarf að ganga yfir allar fjármálaskuldbindingar sem eru með slíkar tengingar.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2009 kl. 23:10

9 Smámynd: Dexter Morgan

Ég er með tillögu.

Landsmenn ættu að fjölmenna við eignir sökudólganna, bæði við sumarhúsin, einbýlishúsin, íbúðirnar, bíla og aðrar eigur þessara manna og eyðileggja þær. Það væri réttlæti í því. Og margur fengi útrás fyrir réttláta reiði sína í leiðinni.

Svona mætti skipuleggja og senda svo skilaboð í SMS eða tölvupósti, svo enginn viti fyrirfram hvert á að halda, nema þeir sem ætla og vilja vera með.  Ég hef grun um að það séu margir.

Dexter Morgan, 17.6.2009 kl. 23:33

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hagsmunasamtök heimilanna verða með fundi víða um land á laugardaginn, þar sem rætt verður um boðun greiðsluverkfalls.  Síðan verður gengið til atkvæða um verkfallsboðun meðal félagsmanna.  Samtökin vonast eftir góðri þátttöku og undirtektum.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2009 kl. 23:39

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars var ég að frétta að eigendur húsins á Álftanesi fluttu til Noregs í vor og búa núna þar.  Þetta var sameiginleg ákvörðun þeirra hjóna til að mótmæla vaxtaokrinu og hækkun lánanna.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2009 kl. 23:41

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Varðandi orð þín "Dexter Morgan", þá held ég að við verðum að fara varlega í að eyðileggja eigur annarra.  Þrátt fyrir allt sem yfir okkur hefur gengið, þá verðum við að virða að þetta fólk á maka og börn sem hafa ekkert sér til sakar unnið.  Munum bara gullnu regluna: 

Það sem þér viljið að mennirnir gjörið yður, skulið þér og þeim gjöra.

Þetta er ekki reglan "það sem aðrir gerðu þér áttu að gera öðrum" (þ.e. auga fyrir auga, tönn fyrir tönn).  Þetta þýðir að glata ekki eigin siðgæðisvitund, þó aðrir hafi glatað sinni.  Stöðvum endilega Icesave ránið með því að hafna samningnum.  Komum í veg fyrir að bankar og fjármálastofnanir gangi harkalega fram með því að hætta viðskiptum við þá sem ekki fallast á okkar kröfur.  Eigum ekki viðskipti við aðila, sem við teljum bera ábyrgð, en látum einkaheimili fólks í friði.  Virðum friðhelgi einkalífsins.

Marinó G. Njálsson, 17.6.2009 kl. 23:49

13 Smámynd: Offari

Það er aftur farið að krauma í pottinum. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinar er bara olía á eldinn.  Icesave og Esb eru núna sökudólgar fyrir ófriðnum þannig að það er í raun verið að ráðast ó þjóð okkar utanfrá.

Offari, 18.6.2009 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband