Leita í fréttum mbl.is

Gylfi vill ekki kaupa skuldir með afslætti

Stundum skil ég ekki Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra.  Hann gefur alls konar yfirlýsingar um að þetta sé ekki hægt og hitt ekki hægt, en kemur sjaldnast með skýringu á því af hverju svo sé.  Nýjasta yfirlýsing hans er að ekki sé skynsamlegt "að ríkið kaupi skuldabréf gömlu bankanna með afslætti" eins og haft er eftir honum á visir.is í dag.  Hann gefur þau rök, að hann eigi "mjög erfitt með að sjá að íslenska ríkið gæti réttlætt það að hætta sé á þennan hátt."  En er þetta ekki einmitt sú áhætta sem gæti borgað sig?

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans námu erlendar skuldir innlánasstofnana 9.682 milljörðum í lok september 2008.  Á móti námu erlendar eignir alls 7.923 milljörðum.  Skipting þessara erlendu skulda var sem hér segir í milljörðum króna:

Innlánsstofnanir

9.681

    Skammtímaskuldir

4.098

        Peningabréf

44

        Stutt lán

2.397

        Innstæður

1.656

    Langtímaskuldir

5.583

        Skuldabréf

4.367

        Löng lán

1.216

Þarna sjáum við að innlán eru 1.656 milljarðar og skiptast þau á milli Icesave, KaupthingEdge og Save&Save hjá Glitni. Icesave var líklegast með um eða yfir 1.400 milljarða af þessari tölu. Aðrar skuldir nema því rétt rúmlega 8.000 milljörðum.  Nú veit ég ekki hvort alla þessa 8.000 milljarða er hægt að kaupa með afföllum, en að lágmarki virðast skuldabréfsöfn upp á tæplega 4.400 milljarða ganga kaupum og sölu.  Ég hefði haldið að það væri vel þess virði fyrir þjóðarbúið að kaupa þessi söfn á 5 - 10% af nafnvirði.  Með því væri búið að lækka skuldir þjóðarbúsins í kringum 4.700 milljarða með tveimur aðgerðum, þ.e. 650 milljarða með Icesave samningnum og 4.000 - 4.200 milljarða, ef öll skuldabréfin eru föl á 5 - 10% af nafnverði.

Ef þetta gengi upp, þá myndu erlendar skuldir innlánastofnana lækka úr tæplega 9.700 milljörðum niður í 5.000 milljarða.  Á móti þeim kæmu eignir upp á tæpa 8.000 milljarða (sem að vísu á eftir að afskrifa eitthvað).  Lykillinn í þessu er þó að laga jafnvægið og lækka upphæðina sem er í skuld við útlönd.  Það er nefnilega þannig, að skuldarstaðan mun vera óbreytt, þó svo að einhverjir erlendir aðilar eignist skuldabréfin, en hún batnar við að innlendir aðilar eignist þau.  Það sem eftir stendur er hvort einhverjir innlendir aðilar eru nægilega fjársterkir til að fara í þessa fjárfestingu.  Tveir aðilar eru það:  Ríkið og lífeyrissjóðirnir.  Síðan gætu nýju bankarnir líka tekið þátt í þessu að einhverju leiti.

Nú hváir einhver og efast um styrk ríkisins.  Þarna þarf að koma smá flétta.  Ríkið þarf að leggja nýju bönkunum til eigið fé og nýju bankarnir þurfa að gefa út skuldabréf til gömlu bankanna.  Hvað ef þetta er gert í einni og sömu aðgerðinni?  Þ.e. ríkið kaupir skuldabréf gömlu bankanna á niðursettu verði, lætur þau inn í nýju bankana sem eiginfjárframlag og þeir nota skuldabréfin (á niðursettu verði) til að gera upp við gömlu bankana.  Niðurstaðan verður að nýju bankarnir munu skulda minna, en eiginfjárstaða þeirra verður samt sem áður sterk, og gömlu bankarnir munu laga skuldastöðu sína.  Eini vandinn er að útvega erlendan gjaldeyri til að kaupa söfnin, en þar mætti þá nýta erlendu lánin sem ríkissjóður er ýmist búinn að taka eða ætlar að taka. 

Það sem fæst út úr þessu til viðbótar, er að gömlu bankarnir verða allt í einu með jákvætt eigið fé eða að dregist hefur verulega saman milli eigna og skulda.  Þannig yrðu þeir allt í einu mun fýsilegri kostur til yfirtöku fyrir erlenda kröfuhafa eða jafnvel væri hægt að endurreisa þá í einni eða annarri mynd (hvort sem það telst fýsilegur kostur eða ekki).

Vel getur verið að þetta sé allt bull og vitleysa hjá mér og gjörsamlega fráleitt að þetta gangi upp.  Þetta er bara búið að velkjast svo lengi í kollinum á mér, að ég varð bara að koma þessu frá mér. Ummæli Gylfa voru svona viss áskorun til að koma þessari pælingu niður á blað.  Ég sé nefnilega ekki sömu áhættu í þessu og Gylfi, ef þetta gengur upp eins og ég lýsi.  Ég veit náttúrulega ekki hvort þetta er framkvæmanlegt, enda er ég bara hluti af sveppasamfélaginu á Íslandi sem fær ekkert að vita nema einhverja vitleysu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband