Leita í fréttum mbl.is

Hugmyndafæð ríkisstjórnarinnar æpandi

Ég veit ekki hvort menn eru búnir að reikna það út, að það hækki vísitölu neysluverðs minna að hækka álögur á bifreiðaeigendur, en að hækka einhverja aðra þætti.  A.m.k. er það stórfurðulegt að þegar hækkun bensínverð var stór áhrifavaldur við hækkun vísitölu neysluverðs núna í maí, þá sé gripið til þess að hækka það enn frekar.

Ég verð einnig að gera athugasemd við hækkun bifreiðagjalda.  Undanfarið ár hefur verið nær engin sala á nýjum bifreiðum.  Með hækkun bifreiðagjalda hækkar verð bifreiða sem dregur ennþá frekar úr eftirspurn.  Þessi 10% hækkun mun því ekki rata í ríkissjóð.  Nær hefði verið að lækka gjöldin og reyna þannig að örva eftirspurn.  Ég er alveg handviss um að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri með því að örva eftirspurnina, en með aðferð ríkisstjórnarinnar.

Dökka hliðin á aðgerðum ríkisstjórnarinnar er náttúrulega áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs.  Tryggva Þór Herbertssyni reiknast það til, að aðgerðin hækki lán landsmanna um 8 milljarða.  Það er fjórföld sú tala sem fór í hækkun vaxtabóta í vetur.  Já, FJÓRFÖLD hækkun vaxtabótanna.  Það hefði verið nær að afturkalla þessa hækkun vaxtabótanna!  Nú þetta er nokkurn vegin sama tala og komið hefur inn vegna tekjuskatta af innlausn séreignalífeyrissparnaðar.  Merkilegt hvað endalaust er hægt að níðast á heimilunum.

Vilji ríkisstjórnin auka tekjur sínar, þá verður að auka veltuna í þjóðfélaginu.  T.d. með því að leyfa frjálsa innlausn séreignalífeyrissparnaðar (og skatt frjálsa) væri ekki ólíklegt að landsmenn myndu taka út 80 - 120 milljarða, ef ekki meira af séreignalífeyrissparnaði.  Stór hluti af þessari tölu færi í neyslu, sem aftur færi inn í veltu fyrirtækjanna og sem veltuskattar til ríkissjóðs.  Vissulega fengi ríkissjóður ekki tekjuskattinn, en veltuskattarnir myndu gera meira en að vega það upp.  Ég held nefnilega að ástæðan fyrir því að fólk hefur ekki tekið meira út af séreignalífeyrissparnaði er vegna þess að því finnst blóðugt að missa 37% af upphæðinni í skatta.  Viðhorf fólks gagnvart veltusköllum er allt annað.  Flestum finnst í lagi að greiða 24,5% virðisaukaskatt af sjónvarpi, en ekki 37% tekjuskatt og útsvar.  Lykillinn er þó, að 80% af upphæðinni fer inn í veltu fyrirtækisins sem varan er keypt hjá.  (Ég segi 80% vegna þess að19,6% er virðisaukaskattur sem rennur til ríkisins mínus innskattur rekstrarvöru.)  Þessi 80% fara í að greiða innkaupsverð vörunnar og upp í rekstrarkostnað fyrirtækisins.  Með þessu dregur úr líkum á uppsögnum og þar með sparast atvinnuleysisbætur.  Það á alls ekki að fara þá leið, sem nefnd hefur verið, að skylda fólk til að greiða niður lán sín.  Bankarnir eru, að því mér skilst, yfirfullir af peningum sem enginn vill taka að láni vegna hárra vaxta og þess að fólk treystir ekki bönkunum sem lánveitendum.

Ég get skilið að ríkissjóður þurfi að auka tekjur sínar og/eða draga úr útgjöldum.  Besta leiðin til þess að auka tekjur ríkissjóðs er að auka neyslu heimilanna og veltuna í þjóðfélaginu.  Það er sem sagt ekki gert með skattahækkunum, heldur með skattalækkunum!  Það er gert með því að veita skattfrjálsu fé út í þjóðfélagið í þeirri von að það verði notað í neyslu.  Slík aðgerð mun virka sem bremsa á aukningu atvinnuleysis og loksins verða atvinnuaukandi.  Ég hélt að þetta væri algild hagfræði.  Það sem ríkissjóður þarf núna eru fleiri skattgreiðendur, en ekki færri.  Það þarf fleiri sem geta tekið á sig byrðarnar af bankahruninu og best væri að hver um sig bæri léttari byrðar.  Hin leiðin mun enda með miklu landflótta og mun meira atvinnuleysi en nokkur gerir sér í hugarlund. 

Höfum það á hreinu að á morgun gætum við fengið fregnir af umfangsmiklum uppsögnum sem taka gildi eftir þrjá mánuði.  Gerist þetta ekki á morgun, þá tefst þetta í mesta lagi um einn mánuð.  Auk þess hafa bankarnir þrír ekki þörf fyrir allt það starfsfólk sem þar er.  Gefum okkur að helmingur núverandi starfsmanna bankanna verði sagt upp það sem eftirlifir árs, þá erum við að tala um nokkur þúsund manns ofan á að minnsta kosta annað eins sem fá uppsagnabréf á næstu 4-5 vikum.  Þessu til viðbótar eru allir þeir nemendur framhaldsskóla og háskóla sem ekki munu fá vinnu í sumar eða fá bara hlutastörf.  Hafa stjórnvöld velt því fyrir sér hvaða áhrif það mun hafa á þarfir LÍN fyrir lánsfé á næsta skólaári.  Auðvitað hafa þau gert það. Eða það vona ég.


mbl.is Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Sæll Marinó.

Sagan endurtekur sig, þetta gerðist 1983-85. Laun lækkuð, gengið lækkað, verðbólgan fór í 100% og lánskjaravísitalan sá til að lán hækkuð í samræmi. Sigtúnshópurinn sem þá varð til skapaði núverandi Heilbrigðisráðherra pólitíska framtíð.

Þetta virðist vera í blóði vinstri manna eins og þá, að segja eitt en gera annað. Nú bíðum við og sjáum hvar ríkisstjórnin ætlar að bera niður næst, það vantar ekki nema 17,3 milljarða uppí 20 milljarða hallann á þessu ári. Hvað skyldi það kosta í hækkun lána almennings?

Sigurbjörn Svavarsson, 28.5.2009 kl. 23:40

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Þetta er blóðugt!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.5.2009 kl. 01:04

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég náði í bensín á gamlaverðinu núna rétt áðan í Búðakóri.  Munar um minna minnst 13 kr. hækkun.  Já, álögur ríkisins voru ekki að hækka um kr. 10,44 heldur 13 kr. þar sem virðisaukaskatturinn kemur ofan á 10,44.

Sigurbjörn, ég skil ekki af hverju menn geta ekki lært af reynslunni.  Og skil heldur ekki af hverju engin markmiðssetning er í gangi.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2009 kl. 08:32

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er hrollvekjandi að hugsa til þess að meira en helmingur þingmanna á íslandi hafi ekki grænan grun um hvernig íslenska hagkerfið virkar.

Guðmundur Jónsson, 29.5.2009 kl. 08:32

5 identicon

Sæll,

Veltu öllu þessu sama fyrir mér, og sérstaklega af hverju fólk nýtir sér ekki að taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn. Og held ég sé komin að niðurstöðu af hverju fólk tekur þetta ekki út í meira mæli.

Ég hef spurt marga í kringum mig, fólk í öllum launaflokkum, hvort það ætli sér að nýta þetta. Þeir sem eru í lægri launaflokkunum voru aldrei með viðbótarlífeyrissparnað vegna þess að þeir höfðu aldrei efni á því að fjárfesta í slíku vegna þess að það hafði ekki efni á því. Þetta fólk hins vegar er það fólk sem þarf mestu hjálpina í dag en hefur engan viðbótarlífeyrissparnað að ganga að. Ef þau eiga slikt þá eiga  þau ekki næga innistæðu til að nýta sér þetta þannig að það taki sig.

Hinn hópurinn, sá efnameiri, voru flestir að fjárfesta í viðbótarlífeyrissparnað. En þau eiga í ekki vandræðum í dag, ekki á þann hátt að það skiptir máli að taka þessa smáu fjárhæð út.

Ég segi fyrir sjálfa mig, þá er ég í millilaunaflokki. Er á allt í lagi launum. Næ endum saman en á ekki krónu til viðbótar til að kaupa aukahluti. Þarf að safna mér fyrir strigaskóm á börnin eða amk velja og hafna í neyslu áður en ég ákveð að kaupa þá. Ég tók út viðbótarsparnað minn sem var ekki mikill en næ 70 þús á mán en mun ekki eiga neitt inni að lokum. Er hætt að borga iðgjöldin í hann. Allt þetta vegna þess að ég hef ekki trú á þetta kerfi og vegna þess að ég þarf að nýta þennan pening í annað.

Dísa (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 09:43

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Er ekki kominn tími til að "venjulegt" fólk viðurkenni þær staðreyndir sem blasa við.  Íslensk stjórnvöld stýra skipulagðri aðför að eigum og framtíðarmöguleikum landsmanna.  Þetta er gert í gegnum bankakerfið, ýmsar stjórnvaldsaðgerðir og síðan með inngöngu í ESB.

Umræðan um sérstakar öryggissveitir með þúsundir manna innanborðs t.d. hjálparsveitarmenn kom upp fyrir nokkrum árum.  Björn Bjarnason ræddi þetta víða og við marga.  Hvaða framtíð sá hann fyrir sér sem kallaði á fjölskipaðar óeirðarsveitir? Kannski skattauppreisn eða pottaglamrara við Alþingishúsið.

En hvaðan hafði Björn þessar upplýsingar um framtíðina.  Dreymdi honum þetta eða er hann virkilega svona framsýnn.  Ég held að einhver hafi bara sent honum tölvupóst frá útlöndum og varað hann við því sem koma skyldi.  T.d hafa skýrslur á vegum Nató fjallað um að ein af ógnum við bandalagsríki í framtíðinni séu innanlandsátök!

Eitt gott dæmi um hugsunarhátt stjórnmálamanna er að finna í ræðu sem Björgvin bankaráðherra flutti nokkrum dögum fyrir bankahrunið.  Þar sagði hann eitthvað á þá leið að framtíð Íslands væri björt vegna íslensku "fjárfestasjóðanna".  Á þeim hvíldu styrkar stoðir landsins til framtíðar.  Var hann illa upplýstur eða bara að ljúga?  Kappinn segir síðan af sér og Samfylkingin þakkar honum fyrir virkilega vel unninn störf og þjóðin kýs hann aftur á þing.

Núna á síðan að koma okkur í ESB með loforði um bjartari framtíð í kjölfarið.  Fleiri loforð og stærri lygar.  

Björn Heiðdal, 29.5.2009 kl. 09:48

7 identicon

Það virðast líka fáir (ef einhverjir) spá í hvað hækkun þessarra gjalda hefur á sölu.  Ef sala á eldsneyti og áfengi dregst saman, þá minnka líka tekjur ríkisins.  Hver er þá ágóðinn af þessum hækkunum?

Sverrir Hákonar (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:46

8 identicon

Sæll,

Hef fylgst með skrifum þínum síðustu mánuði og er oftast nær sammála þér. Hins vegar grunar mig að þú hafir misskilið "bifreiðagjöld". Ég held að þarna sé átt við skattinn sem bifreiðaeigendur greiða tvisvar á ári en ekki þau gjöld sem lögð eru á nýjar bifreiðar við innflutning. Get samt ekki fullyrt þetta, enda ekki skoðað nýju lögin síðan í gærkvöldi.

Annað atriði sem þú nefnir og ég skil alls ekki af hverju fjölmiðlar fjalla ekki um (en kannski ekki mikils að vænta af þeim!). Það er hættan sem skapast ef veltan í þjóðfélaginu minnkar meira en þegar hefur orðið. Það er óumflýjanlegt ef sífellt eru lagðar þyngri byrðar á herðar þeirra sem þó eru í þokkalegri stöðu ennþá.

Ef þessi hópur heldur fastar í ráðstöfunartekjur sínar dregur úr umfangi viðskipta og fólk freistast jafnvel einnig til "svartra" viðskipta. Fyrirtæki neyðast til að segja upp fólki og jafnvel leggja niður starfsemi. Tekjur ríkisins af veltu- (og öðrum) sköttum minnka, atvinnuleysi eykst og "gatið" stækkar.

Varðandi stöðu hins almenna Íslendings þá er ég þeirrar skoðunar að vísitölu verðtryggingar og gengisviðmið lána verði að leiðrétta. Hækkun sú sem orðið hefur síðan í byrjun síðasta árs er fyrst og fremst vegna KERFISVILLU annars vegar og árásar á íslenska þjóð hins vegar.

Verðtryggingin var á sínum tíma sett á til að vinna gegn óðaverðbólgu; þrýstingur var settur á ríkið um að stuðla að lækkun verðbólgu með skynsamlegri og ábyrgri efnahagsstjórn. Þegar ríkissjóður varð nánast skuldlaus (með því að færa erlendar skuldir til í þjóðfélaginu) hvarf sá þrýstingur nánast.

Lánveitendur voru allt í einu í þeirri stöðu að þeir högnuðust á því að verðlag hækkaði, þannig hækkaði "eign" þeirra í verðtryggðum útlánum. Skítt með lántakendur, þeir gátu bara sjálfum sér um kennt að taka of há lán.

Í þessu felst kerfisVILLAN, ríkið fjarlægði eina af meginforsendum verðtryggingarkerfisins. Þar að auki er mælingin gerð á snarvitlausum forsendum þar sem breytingar á neysluvenjum hafa gerst miklu hraðar en gert er ráð fyrir við útreikninginn. Ekkert hefur samt verið gert til að tryggja hagsmuni lántakenda.

Varðandi gengisþróun krónunnar síðustu ár þá hefur verið fjallað um það út í ystu æsar. Krónan var óeðlilega sterk í nokkur ár en í byrjun síðasta árs gripu bankarnir til örþrifaráða til að bjarga eigin skinni. Þeir gáfu enn og aftur skít í viðskiptavini sína sem þeir höfðu þó sannfært um að taka lán með gengisviðmiði þar sem þau væru svo hagstæð. Þeir gleymdu bara að taka það fram að það væri bara til skemmri tíma.

Ég er sannfærður um að bankarnir áttuðu sig á því löngu áður en þeir vilja viðurkenna að allt væri á leiðinni til fjandans. Það var hins vegar ekki fyrr en á fyrsta ársfjórðungi 2008 sem örvæntingin varð sjálfstraustinu yfirsterkari og atlagan að íslenskri þjóð hófst fyrir alvöru. Þetta sést mjög vel ef gengisþróun ársins 2008 er skoðuð, auðvelt er að ná í þessar upplýsingar á vef Seðlabankans. (Hef ekki geð í mér til að lýsa skoðun minni á "stjórnun" hans síðust ár!)

Öll mannanna verk eru fallvölt og það sem einu sinni var ákveðið eða búið til verðum við að hafa kjark til að breyta eða lagfæra. Verðtrygging er ekki náttúrulögmál og gengisviðmið ekki heldur. Þetta eru einfaldlega tæki sem notuð voru í ákveðnum tilgangi en núna eru þessi tæki biluð og þá á auðvitað að gera við þau.

Maður heldur ekki áfram að aka úrbræddum bíl og maður notar ekki tölvuna áfram eftir að hún smitast af vírus (eða það ætti maður a.m.k. ekki að gera!).

Maður níðist heldur ekki á þjóð sinni með því að fleygja henni fyrir borð úti á rúmsjó með blöðru í stað björgunarvestis. Segja henni svo að synda bara heim þótt hvergi sjáist til lands, jafnvel þótt synda verði út yfir gröf og dauða. Og fyrst menn eru hvort sem er að busla þetta, að grípa með sér stóra ferðatösku fyrir þá sem höfðu ekki pláss fyrir hana um borð í snekkjuna sinni.

Fullyrt hefur verið að það sé of dýrt að leiðrétta verðtryggð og gengismiðuð lán en hvergi hef ég þó séð útreikninga um slíkt. Hversu dýrt halda menn að það verði ef þetta er ekki gert? Efnahagur lánveitenda er álíka falsaður núna og efnahagur spilaborganna var fyrir hrun, fyrir utan það að VIÐ, íslenska þjóðin eigum líklega flesta stærstu lánveitendurna.

Bankarnir á brauðfótum, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir, við eigum þessar stofnanir, við ERUM þessar stofnanir. Til hvers að fegra stöðu þessara stofnana á kostnað þjóðarinnar? Við gætum bara allt eins farið núna og skellt í lás á eftir okkur. Þessi samfélagskerfi öll sem við höfum búið til eiga að þjóna okkur, við erum ekki hérna fyrir þau - þótt sumir virðist engu að síður halda það.

Við höfum spilað (fjárhættu)spilið með því að svindla og svíkja (vonandi aðallega í óeiginlegri merkingu) í pókernum síðustu ár og nú er kominn tími til að standa upp frá þeirri hringavitleysu. Því miður sýnist mér þeir sem eiga að teljast "leiðtogar" okkar bara vilja færa okkur yfir að rúllettuborðinu, þótt sumir þeirra hafi þó áður sagst vera alfarið á móti fjárhættuspilinu.

Að lokum verð ég að segja að fylgjendur aðildar að ES hafa nokkurn veginn sannfært mig um að það er tóm þvæla. Það hefur enginn getað skýrt það hvernig sú aðild á að bjarga íslensku þjóðinni, það á bara að gerast af sjálfu sér þegar við leggjumst flöt undir skrifræðið. Ég er smeykur um að við verðum lítið annað en lítil gólfmotta í Brussel.

TJ (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:55

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

TJ, sé ég að misskilja þetta með bifreiðagjöld, þá er ekkert mál að viðurkenna slíkan misskilning.  Ég heyrði aftur í fréttum í morgun að þetta væri gjaldið sem lagt væri á nýjar bifreiðar og færi eftir þyngd þeirra.  En ég viðurkenni alveg að ég áttaði mig ekki á út frá fréttaflutningi nákvæmlega hvaða gjald væri átt við og fann ekkert haldbært, þegar ég var að leita upplýsinga um það í gærkvöldi.

Þú segir:

Fullyrt hefur verið að það sé of dýrt að leiðrétta verðtryggð og gengismiðuð lán en hvergi hef ég þó séð útreikninga um slíkt. Hversu dýrt halda menn að það verði ef þetta er ekki gert? Efnahagur lánveitenda er álíka falsaður núna og efnahagur spilaborganna var fyrir hrun, fyrir utan það að VIÐ, íslenska þjóðin eigum líklega flesta stærstu lánveitendurna.

Þetta er nákvæmlega það sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sagt.  Við höfum beðið menn um að líta á ávinninginn af því að fara leiðréttingarleiðina, ekki kostnaðinn, vegna þess að við teljum víst að önnur leiðin endi með fjöldagjaldþrotum og stöðvun fjárfestinga hjá 30 - 40% landsmanna með ógnvænlegum afleiðingum.

Varðandi Brussel og ESB, þá held ég að við verðum að sýna fyrst einhvern lit við að reyna að leysa okkar vanda áður en við förum að sækja um aðild.  Mér finnst við vera eins og aðili sem er að selja hús.  Hvort er sölulegra að sýna húsið vel til haft og snyrtilegt eða með allt á rú og stúi?  Það mun taka minnst 5 ár að uppfylla mörg af skilyrðum til inngöngu, hvað þá um upptöku evrunnar.  Hvernig væri bara að undirbúa sig vel með því að koma öllu í skikk innanlands.  Síðan verður bara að koma í ljós hvort það ég nóg eða hvort aðildar sé þörf til að koma hér á varanlegum stöðugleika.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2009 kl. 15:52

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

hhhummmm...mér líður eins og ég hafi verið höfð að fífli

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.5.2009 kl. 16:09

11 identicon

Þetta með bifreiðagjaldið var alls ekki meint sem meinfýsin gagnrýni heldur frekar í ætt við vangaveltur. Annars er það alveg með ólíkindum að þetta sé ekki skýrt betur og kannski vísbending um vanmátt fjölmiðla (og jafnvel fljótfærni stjórnvalda?) að geta ekki greint betur frá.

Ég leitaði að upplýsingum um "bifreiðagjald" og komst að því að þær liggja ekki beinlínis á lausu. Sá hins vegar orðskýringar á vefnum "rikiskassinn.is" þar sem þetta stendur um bifreiðagjald:

"Bifreiðagjald leggst á öll vélknúin ökutæki sem skráð eru hér á landi. Ekki skiptir máli hvort um bensín-, dísel- eða rafmagnsknúin ökutæki er að ræða. Fjárhæð bifreiðagjalds er ákveðin með lögum og fer eftir þyngd ökutækjanna"

Þetta er álíka gagnlegt og algengt er með handbækur með hugbúnaði. Í þeim er gjarnan staðfest það sem maður vissi fyrir en oft er ekki varpað frekara ljósi á notkun eða tilgang. Í þessu tilfelli hefði t.d. mátt taka fram hvenær og/eða hversu oft þetta gjald er lagt á.

Um "vörugjald" stendur þetta:

"Vörugjald er gjald sem leggst á vörur við innflutning eða innanlandsframleiðslu. Annars vegar er lagt á svokallað magngjald sem er þá í samræmi við það magn af vöru sem er framleitt eða flutt inn. Hins vegar er til svokallað verðgjald sem er þá í réttu hlutfalli við verðmæti vörunnar."

Ég hélt í einfeldni minni að þetta væri það sem lagt er á bifreiðar við innflutning en ekki "bifreiðagjald". A.m.k. rámar mig í að á sínum tíma hafi lækkun vörugjalds af tilteknum flokki bifreiða orðið til mikillar fjölgunar stórra (og óhagkvæmra í rekstri) bandarískra "vinnutækja" í umferðinni.

Hitt er nokkuð víst að ríkissjóður gildnar tæplega af aukinni skattlagningu bifreiðainnflutnings á næstunni.

Varðandi aðild að ESB þá hugsaði ég það reyndar við "núverandi aðstæður" þótt það hafi alls ekki komið fram. Ég get alveg fallist á að þetta megi skoða með tíð og tíma en þetta er áreiðanlega ekki sá "lífsins elexír" sem margir virðast trúa á í blindni. Við yrðum a.m.k. í mun sterkari stöðu við aðildarumsókn ef við sigrumst fyrst á núverandi aðstæðum með sómasamlegum hætti.

TJ (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 16:53

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

TJ, ég tók ábendingu þinni alls ekki sem einhverju neikvæðu.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2009 kl. 17:18

13 identicon

Sæll Marinó.

Er til einhver góð leið? Mér finnst gæta of mikillar svartsýni varðandi þær aðgerðir sem þú ræðir um.

Stundum er í umræðunni talað um "okkur-við" og svo "þeir-það" sem almenning og ríkisvald.

Þú og fleiri tala um að nauðsynlegt sé að auka hér neyslu og þú nefnir losun á viðbótarlífeyrissparnaði.

Er það virkilega þín skoðun að fólk eigi að taka út ævisparnað (margir hafa safnað fé þó það sé ekki s.k. viðbótarlífeyrissparnaður) og hafa það svo skítt í ellinni?

Mér hefur ekki sýnst að við - almenningur getum státað okkur neitt sérstaklega þegar kemur að aðbúnaði aldraðra.

Var ekki komið nóg af neyslufyllerínu? Flettu aftar í þitt eigið blogg og skoðaðu þegar þú ræðir um neyslufylleríið.

Vítt samhengi vantar og mér finnst með ólíkindum að lesa fréttir, viðtöl og blogg þar sem einstaklingar eru í raun að segja það sama og Ingibjörg Sólrún sagði í Háskólabíói; "Þið eruð ekki þjóðin".

Ef einstaklingar ætla að ganga í orðræðu fram með sundrungu þá var til lítils barist s.l. vetur.

Að fólk skuli æsa sig hást vegna þess að rauðvínsflaska hækkar um 200 kall eða að tóbak hækki um 100 kall er furðulegt. Hvort er mikilvægara að þjóðin komist úr vandræðunum eða að þeir sem drekka og/eða reykja fái sitt óhreyft?

Ég reyki og hef í raun ekki efni á því. Það er mitt mál. En ef hækkun á tóbaki getur stuðlað að lausn á þeim vanda sem þjóðin er í þá er ég fullkomlega sáttur við það.

Varðandi vísitöluhækkanir og áhrif þeirra á lán vil ég segja að "búsáhaldabyltingin" hefði gjarnan mátt vera fyrr á ferðinni því það eru 30 ár síðan verðtryggingu var komið á.

Samt sem áður hefur fólk tekið verðtryggð lán vitandi vits, ekki andmælt þegar verðtrygging launa var tekin úr sambandi og engar kröfugöngur hafa verið gengnar til að krefjast þeirrar leiðréttingar.

Hvers vegna að fárast yfir því þegar allt er í kaldakoli?

Við sem erum hér að skrifa erum ekki bara einstaklingar. Við erum hluti af stærri heild sem kallast þjóð.

Við viljum Nýtt Ísland en samt ekki. Rökræðan gengur miskunnarlaust í þá átt að lagfæra það sem nú er að í þá átt sem áður var.

Öðruvísi mér áður brá. Var þá til einhvers barist?

p.s. annars ágæt grein hjá þér útaf fyrir sig.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 17:42

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hafþór, ég er alls ekki að tala fyrir "neyslufylleríi".  Ég er að tala fyrir því að koma neyslunni af stað aftur.  Ríkisstjórnin gerði ráð fyrir að um 80 milljarðar yrðu teknir út af séreignarsparnaði og bjóst við að fólk myndi nota upphæðina í neyslu.  17 milljarðar hafa verið teknir út.  Líklegast er það vegna þess að fólki fannst það of blóðugt að greiða rúmlega þriðjung í skatt.

Ég hef fullan skilning á því að ríkissjóður þurfi að skera niður eða auka tekjur.  Það verður bæði að gera af óvægni og skynsemi.  Vegna þess hvernig verðtryggingarkerfi er byggt upp, þá koma sumar hækkanir verr út en aðrar.  Best væri að það væru ekki þessi tengsl á milli verðlagsbreytinga og höfuðstóls lána.  Kannski hefði það verið gott fyrsta skref að ráðast að þeim vanda áður en gripið var til hækkana á opinberum álögum.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til 4% þak á verðbætur, Borgarahreyfingin hefur stutt þá tillögu og nú hefur Framsóknarflokkurinn tekið undir hana líka.

Já, við viljum öll nýtt Ísland, en hvar stendur sú vinna?  Hafa verið sett markmið eða mótuð stefna?  Vitum við hvernig hið nýja Ísland á að vera?  Vitum við hvernig hið gamla Ísland er?  Hvað er í skúmaskotum og leynihólfum gamla Íslands?  Við erum eins og Lísa í Undralandi: Vitum ekki hvaðan við komum eða hvert við ætlum.  Nú eins og kötturinn benti Lísu á, þá skiptir náttúrulega engu máli hvaða leið við veljum.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2009 kl. 18:03

15 identicon

Marinó, neysla ein sér hefur lítið gildi í þjóðarbúskapnum. Þá erum við að skiptast á krónum en eyða gjaldeyri svona klippt og skorið.

Það vantar tekjur í þjóðarbúið og þær verða ekki til innanlands nema um útflutning sé að ræða. Þess vegna er í sjálfu sér aukin skattheimta einungis til að bæta stöðu ríkissjóðs. Það bætir að sjálfsögðu lánshæfi ríkissjóðs en bætir engum tekjum við í þjóðarbúskapinn. Lán eru ekki tekjur.

Þú nefnir 4% þak á verðbætur. Þar með ertu að viðurkenna að verðbætur á lán eigi rétt á sér en ekki verðbætur á laun.

Ég hefði talið eðlilegra að Samtök heimilanna (krefjist), óski eftir því að í nýjum "stöðugleikasáttmála" yrðu laun verðtryggð og settur yrði einhver viðunandi núllpunktur varðandi lán og laun.

Útflutingstekjur þurfa að aukast og það gerist ekki nema með aukinni framleiðni. Gjaldeyrishöft verður að afnema í áföngum.

Nýtt Ísland er ekki útreikningur heldur hugmyndafræði. Þegar við höfum hafið áfanga í átt að nýrri hugmyndafræði getum við metið það gamla og það nýja.

Við getum ekki þvargað um tölur þegar við vitum ekkert hvert við ætlum að stefna. Siðfræði, siðareglur, almennar leikreglur sem byggjast á jafnræði þegnanna og.sv.frv. þarf að endurmeta og við þurfum ný grunngildi.

Þar geta Samtök heimilanna átt stóran þátt þar sem þar er hægt að fara af stað með frjóa umræðu og jafnvel geta þau komið af stað þeirri umræðu í ákveðinn jarðveg.

Þann jarðveg er ekki að finna á Alþingi heldur í þjóðinni allri.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 14:50

16 identicon

Sæll Marinó og takk einu sinni enn:

Það liggur við maður gráti yfir ´ruddaskap´yfiivalda gegn öllum þeim landsmönnum sem skulduðu eðlilegar upphæðir, sem nú hefur verið viljandi ýtt upp í himinhæðir um milljónir á milljónir ofan, af yfirvöldum og án þess að fólk geti nokkuð gert til að stoppa það og alveg gegn vilja fólksins, sem verður sam pínt til að borga skuldirnar með góðu eða illu til dauðadags.  Og fortölufólk:  Þarna á ég EKKI við fólk sem eyddi eins og vitleysingar, heldur venjulegt fólk.  Þetta er orðið grafalvarlegt mannréttindamál og finnst ólíklegt að erlendir dómstólar myndu dæma gegn skuldurum og með yfirvöldum.  Þessi orð að ofan finnst mér lýsandi um ruddaskap yfirvalda gegn skuldurum: 

Björn Heiðdal:

 " Íslensk stjórnvöld stýra skipulagðri aðför að eigum og framtíðarmöguleikum landsmanna. " 

Guðmundur Jónsson:

"Það er hrollvekjandi að hugsa til þess að meira en helmingur þingmanna á íslandi hafi ekki grænan grun um hvernig íslenska hagkerfið virkar."

TJ:

"Öll mannanna verk eru fallvölt og það sem einu sinni var ákveðið eða búið til verðum við að hafa kjark til að breyta eða lagfæra. Verðtrygging er ekki náttúrulögmál og gengisviðmið ekki heldur. Þetta eru einfaldlega tæki sem notuð voru í ákveðnum tilgangi en núna eru þessi tæki biluð og þá á auðvitað að gera við þau.

Maður heldur ekki áfram að aka úrbræddum bíl og maður notar ekki tölvuna áfram eftir að hún smitast af vírus (eða það ætti maður a.m.k. ekki að gera!).

Maður níðist heldur ekki á þjóð sinni með því að fleygja henni fyrir borð úti á rúmsjó með blöðru í stað björgunarvestis. Segja henni svo að synda bara heim þótt hvergi sjáist til lands, jafnvel þótt synda verði út yfir gröf og dauða." 

EE elle (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband