Leita í fréttum mbl.is

Hvar standa samtök launafólks í baráttu heimilanna og atvinnulífsins? Áskorun til verkalýðshreyfingarinnar

Í næstu viku eru sjö mánuðir frá því að ríkið tók yfir Landsbankann, Glitni og Kaupþing.  Á þessum tíma hefur grátlega lítið gerst hvort heldur til bjargar heimilunum eða atvinnulífinu.  Fátt snertir launafólk meira en þetta tvennt.  Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna samtök launafólks hafa verið jafn óvirk og raunber vitni á þessum umbrotatímum.  Raunar finnst mér sem samtök atvinnurekenda hafi ekkert staðið sig betur.  Langar mig að vita hvernig stendur á því og hvar samtök launafólks standa í baráttu heimilanna og atvinnulífsins fyrir tilveru sinni?

Ég skil raunar ekki, að á þessum krepputíma sem við erum að fara í gegnum, þá hefur verkalýðshreyfingin nokkurn veginn í heild staðið á hliðarlínunni.  Undantekning á þessu er Verkalýðsfélag Akraness, en það er eina félagið sem ég man eftir að hafa risið upp og lagst á sveif með heimilunum í landinu.  Á þessu þarf að verða breyting.

Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis í gær.  Þar máluðum við upp tvær myndir.  Önnur var spírall niður á við.  Hin spírall upp á við.  Það sem skilur á milli þessara tveggja mynda er hvort heimilin hafi eitthvað eftir til að setja í annað en brýnustu nauðsynjar.  Um leið og við komum neyslunni í gang, þá munu hjól atvinnulífsins fara að snúast.  Ég sé það gerast með tvennu móti:  A.  Greiðslubyrði lána og þar með höfuðstóll lánanna, verði lækkað þannig að saman fari greiðslugeta og greiðslubyrði.  B.  Greiðsluverkfall.  Fólk einfaldlega hættir að greiða af lánum sínum og notar peninginn frekar í neyslu.  Ég ætla ekki að mæla með leið B, en hún verður sjálfkrafa farin verði ekki gengið hratt eftir leið A.

Um leið og neysla heimilanna kemst í gang, þá aukast tekjur fyrirtækjanna.  Með auknum tekjum fjölgar störfum.  Aukin velta skilar sér í meiri tekjum ríkissjóðs í veltusköttum og tekjuskatti og hjá sveitarfélögunum í útsvari.  Við náum þjóðfélaginu ekki út úr kreppunni með því að fækka þeim sem bera byrðarnar.  Ég hélt að þetta væri öllum ljóst.  Því get ég ekki annað en furðað mig á því að tvær ríkisstjórnir hafa ekkert gert sem heitið getur til að styðja við heimilin og atvinnulífið.  Mér liggur við að segja, að það hafi meiri áhersla verið lögð á að koma fólki á atvinnuleysisbætur en að vernda störfin.  Við megum ekki gleyma því, að eftir því sem fleiri fara á atvinnuleysisbætur fjölgar þeim sem lenda í greiðsluvanda.  Ekki bara einstaklingar heldur líka fyrirtæki.  Dæmi eru um að fyrirtæki sem stóðu alveg ágætlega sl. haust er að komast á vonarvöl, ef þau eru ekki þegar komin þangað.  Ég er viss um að stjórnmálamenn kenna bankahruninu um, en þá verða þeir líka að endurskoða tímasetningu sína á því hvenær það átti sér stað.  Það byrjaði nefnilega að halla mun fyrr undan fæti.

Hér fyrir neðan er síðan áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna og Húseigendafélagsins til verkalýðshreyfingarinnar, en hún var send út fyrir stundu:

Hagsmunasamtök  heimilanna og Húseigendafélagið

skora á

verkalýðshreyfinguna

___________________________

 

Ofangreind hagsmunasamtök, skora á launþegasamtök og verkalýðsfélög landsins að taka afgerandi stöðu með heimilunum í landinu vegna gríðarlegs og hratt vaxandi fjárhagsvanda þeirra, sem er m.a. afleiðing ófyrirsjáanlegra, óeðlilegra og jafnvel ólöglegra hækkana á gengis- og verðtryggðum veðlánum heimilanna í kjölfar efnahagshrunsins.

Um 42% heimila eru með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu skv. gögnum Seðlabanka Íslands frá síðustu áramótum.  Allt bendir til að efnahagur þeirra hafi versnað enn frekar frá áramótum og muni halda áfram á þeirri voðabraut, nema gripið verði inn í með almennri leiðréttingu lánanna.  Um 25% heimila landsins eru með gengistryggð veðlán og um 90% þeirra eru í tímabundinni frystingu.  Umsóknum Íbúðarlánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika hefur fjölgað um 900% á milli ára.

Forsendur verð- og gengistryggðra lána eru brostnar og þeim heimilum fjölgar ískyggilega hratt sem geta ekki staðið í skilum eða sjá hvorki  tilgang né skynsemi í að greiða af lánum sem hækka stjórnlaust úr öllu valdi .  Kaupmáttur rýrnar óðum og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum, sem leiðir til samdráttar í einkaneyslu, sem eykur svo atvinnuleysið enn frekar.

Með samhentu átaki má rjúfa þennan vítahring og snúa þessari óheillaþróun við.  Aukið fjárhagslegt svigrúm heimilanna mun fljótt efla atvinnulífið, draga  úr atvinnuleysi og styrkja afkomu fjármálakerfis, sveitarfélaga og ríkissjóðs.

Undirrituð samtök skora á launþegahreyfingar landsins að knýja á stjórnvöld og kalla eftir tafarlausum almennum leiðréttingum á gengis-og verðtryggðum lánum heimilanna.  Í þessu samhengi er vert að benda á nýlega kynnta sáttartillögu talsmanns neytenda vegna sama vanda.

Skráðir félagar í ofangreindum samtökum eru samtals um 11.000.

________________________________________

 

Reykjavík, 30.apríl 2009

Virðingarfyllst,

       f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

       Þórður B. Sigurðsson formaður.

f.h. Húseigendafélagsins

     Sigurður Helgi Guðjónsson formaður.

 


mbl.is Stóra krafan er félagslegt réttlæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Hvernig væri að hvetja alla til að koma með kröfuspjöld í 1. maí gönguna þar sem skorað er á stjórnvöld að mæta þessum kröfum um leiðréttingu á skuldum? Spjöld þar sem hvatt er til að hlusta á Hagsmunasamtök Heimilanna og talsmann neytenda.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 30.4.2009 kl. 16:38

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Marinó

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.4.2009 kl. 19:43

3 identicon

Sæll

Gylfi Arnbjörnsson hefur sagt að hann hafi það bara fínt. Hann afþakkar alla hjálp. Það er allt að því óhuggulegt að hugsa út í að hann skuli vera tiltölulega nýr í forustu fyrir verkalýð landsins, talar með hroka og niður allar hugmyndir.

VJ (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 20:27

4 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Já Gylfi er einn af ESB elítunni sem vill í ESB og þar muni allt bjarga okkur,þar sérðu hvar verkalýðshreifingin stendur:)

Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 20:44

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það athugist að það er hægt að komast til æðstu áhrifa í verkalýðshreifingunni án þess að hafa nokurntíman átt viðtal við venjulegan launþega. Sama getur átt við stjórnmálamann sem er ráðherra, hann getur orðið Alþingismaður og ráðherra án þess að hafa séð venjulegan kjósanda.

Það er ósannað mál að Ásmundur Stefánsson hafi varpað orðum á venjulegan launþega sama á við núverandi forseta ASÍ.

Það að hefði hjálpað þessum mönnum að slást í för með Kínaforseta hér um árið en ósk hans var að að fá að skoða venjulegt heimili í heimsókn hans til Íslands.

Ég legg til að Hagsmunasamtök Heimilanna bjóði forseta ASÍ að ræða við venjulega fjölskyldu undir lögregluvernd, Geir Jón væri örugglega til í að hrinda þó ekki væri nema einum fréttamanni í tilefni dagsins. Ef að vantar fréttamann skal ég taka það að mér ég þekki nebblilega góðan myndatökumann sem ekki er hræddur við að hrasa.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 30.4.2009 kl. 21:03

6 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Er það þetta sem Gylfi og kompaní vill suðla að ég spyr bara????

Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Ég fékk þetta af bloggsíðu Halldóru Hjaltadóttir

Heillar mig Eistland?

Eistland er lítið land í N-Evrópu sem margir kannast eflaust við úr umræðunni um Evrópumál. Mikill fjöldi Íslendinga hefur einnig sótt landið heim, jafnvel í árshátíðarferðum.

Þá er förinni yfirleitt heitið til Tallinn höfuðborgar Eistlands, gist á fínum hótelum, farið í skoðunar og verslunarferðir og almennt njóta Íslendingar þess að skoða athyglisverðar byggingar í fallegu veðri.

Aðal atvinnugrein Eista er einmitt ferðaþjónusta en fast á hæla hennar koma vændi og dópsala. Landbúnaðurinn á undir högg að sækja.

Eistland gekk í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið árið 2004 og höfðu íbúar landsins ákveðnar væntingar og vissu um jákvæðar breytingar í kjölfar aðildar. Menn bundu vonir sínar á að skipaflotinn myndi endurnýjast og fiskveiðar aukast.

Mörgum manninum var brugðið þegar ekkert gerðist, engin endurnýjun varð í skipaflotanum og fiskveiðar lögðust að mestu af.

Atvinnuleysi jókst í kjölfarið, vændi varð umfangsmeira, fíkniefnasala blómstraði og svartamarkaðsbrask er mjög algengt. 

Sumir hverjir sem ekki njóta þess að vera á meðal 40% þjóðarinnar sem rétt hefur ofan í sig og á, ganga svo langt að óska þess að vera ennþá undir oki Sovétríkjanna sálugu en Þá gátu Eistar selt sinn fisk til Rússlands og haft út úr því a.m.k. einhverjar tekjur.

Atvinnuleysi í Eistlandi var 9% árið 2004, en sú prósenta hefur undið upp á sig á síðustu misserum og þrátt fyrir alla uppsveifluna í efnahag þjóðanna.

Hagstofa Evrópu EUROSTAT getur birt tölur um atvinnuleysi sem ekki standast ,til að mynda mældist atvinnuleysi í Eistlandi 5,9% árið 2006 og 4,7% árið 2007.

Nú er atvinnuleysi komið upp í 15 % og er mikið áhyggjuefni af þróun atvinnumála.

Það má með sanni taka það skýrt fram að þessar tölur eru langt frá raunveruleikanum, þar sem kerfið er meingallað. Maður sem missir vinnuna sína getur farið á atvinnuleysisbætur sem eru yfirleitt 50% af fyrri launum í 6 mánuði, en eftir þann tíma dettur sá hinn sami maður af bótum og af skrá. Raunverulegt atvinnuleysi gæti því verið nærri 30% í Eistlandi.

Skólakerfið er einnig gallað, þar sem 70 % nema þurfa að greiða að fullu sinn námskostnað, en um 30 % fær fullan styrk frá ríkinu. Unga fólkið leggur mikið að sjálfsögðu mikið á sig til þess að vera hluti af þeim sem fá nám sitt ríkisstyrkt.

Unga fólkið sem nær ekki settu marki varðandi námið, nýtur ekki tækifæris til þess að mennta sig, fær ekki vinnu og hefur ekki hug á að selja líkama sinn eða fíkniefni flyst úr landi.

Ungur maður býr hér á Íslandi. Hann telur að Íslendingar hafi ekki hugmynd um hvernig ástandið er almennt í Eystrasalts löndunum.

Að hans sögn er gott að búa á Íslandi, þrátt fyrir mikla erfiðleika sem fylgja hruni bankanna.

Hann getur núna kostað mjólkina sem amma hans vill fá á hjúkrunarheimilinu í Eistlandi, en öll umfram mjólk getur kostað aukalega þar í landi.

Hann elskar landið sitt og óskar þess að geta búið þar, en hann hefur enga vinnu og engin tækifæri.

,,Þið vitið ekki hvað þið hafið það gott " Sagði hann af mikilli einlægni.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 21:50

7 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Gott framlag Marinó og takk fyrir greinina

Bestu kveðjur,

Tómas Ibsen Halldórsson, 1.5.2009 kl. 18:20

8 identicon

Sæll

Gangi þér vel á morgun í silfrinu. Það er eins og það sé í loftinu að taka stærri skref. Við munum standa saman. Það er fullt af fólki á bak við þig Marinó.

VJ (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 22:48

9 identicon

Góður í Silfrinu í dag :)

Kveðja Snorri leiðsögumaður

Snorri Bjarnvin Jónsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 14:49

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta.  Ég var utan netsambands frá því á fimmtudag og gat ekki tekið þátt í umræðunni.

Marinó G. Njálsson, 3.5.2009 kl. 16:07

11 identicon

Vill að fólkið borgi fyrir glæpabanka og kæruleysi yfirvalda:

http://maggib.blog.is/blog/maggib/entry/869498/

EE elle

. (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 1679976

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband