Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn í afneitun

Hún er frábær afneitun Guðlaugs Þórs:

"ástæðan fyrir því að vinstri flokkarnir boðuðu til kosninga á þessum tíma væri að þannig gætu þeir valdið Sjálfstæðisflokknum mestum skaða.
Það eina sem sameinaði vinstri flokkana væri andstaða við sjálfstæðismenn."


Nei, Guðlaugur Þór.  Ástæðan fyrir því að boðað er til kosninga núna er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur VALDIÐ ÞJÓÐINNI svo miklum SKAÐA að það varð að gefa ÞJÓÐINNI færi á að SEGJA HUG SINN.  Sjálfstæðisflokkurinn er einfær um að valda sjálfum sér skaða með einkavinastjórnun og að því virðist múturþægni. 

Hvað er búið að vera stærsta mál Sjálfstæðisflokksins síðan að bankarnir hrundu?  Koma í veg fyrir breytingar stjórnarskránni!!! Hvar eru tillögur til uppbyggingar?  Það mátti ekki koma með neina tillögu um endurreisn atvinnulífsins eða heimilanna fyrstu fjóra mánuðina eftir bankahrunið vegna þess að það átti að bíða eftir landsfundi í lok janúar.  Hvers konar bull er þetta? Og upplýsingum um slæma stöðu bankanna var haldið LEYNDUM fyrir ÞJÓÐINNI svo hún GAT EKKI VARIÐ SIG.  Voru þetta verk VG?

Flokkurinn var í 17 ár samfleytt í ríkisstjórn og vissulega kom tímabil hagsældar.  Málið er að þá var bara verið að safna eldiviði á bálköstinn sem brennur ennþá glatt 13 og hálfum mánuði eftir að kveikt var í honum.  Ég held að það sé kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn SKAMMIST SÍN fyrir frammistöðu sína undanfarin ár, frekar en að vera að skammast út í aðra.  Flokkurinn hefur ekki ennþá beðið ÞJÓÐINA AFSÖKUNAR á einu eða neinu, þó Geir hafi beðið landsfundinn afsökunar.

Það er um tvennt að velja fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Að koma fram og viðurkenna og axla ábyrgð sína á því sem gerðist eða skríða aftur ofan í afneitunarholuna og láta ekki sjá sig næstu árin.  Það er ömurlegt að heyra fyrrverandi ráðherra væla yfir því að aðrir séu að benda honum á að HANN var FANTURINN Á SKÓLALÓÐINNI.  Það var hann sem leyfði hinum FÖNTUNUM (þ.e. fjármálalífinu) að NÍÐAST Á ÞJÓÐINNI.  Og það er Sjálfstæðisflokknum að kenna að þjóðin stefnir í GJALDÞROT.

Innan Sjálfstæðisflokksins er margt hið mætasta fólk.  Ekki er vafi um það.  En á listum flokksins er líka fólk sem er atað upp fyrir haus í aur eftir atgang síðustu ára.  Ekki vegna þess að aurnum hafi verið kastað í það, heldur vegna þess að það óð hann sjálfviljugt.  Guðlaugur Þór hefur mátt sæta mikilli gagnrýni út af styrkjamálinu.  60 milljónir fóru í sjóði flokksins.  En hvað með milljarða tugina sem fóru í Sjóð 9 þar sem Illugi Gunnarsson stýrði málum!  Eru búið að þagga það hneyksli niður.  Mér er tjáð að talan sé komin í 24,5 milljarða, sem farið hafa í að bjarga andliti hans.  Svo er verið að elta Guðlaug út af 60 milljónum.  Hvernig stendur á því að hópur stjórnenda hjá Kaupþingi og nokkrir vinir þeirra völdu að færa allar eignir og skuldir yfir í einkahlutafélög í febrúar og mars á síðasta ári um svipað leiti og Seðlabankamenn fóru til London? Sjálfstæðisflokkurinn verður bara að sætta sig við, að hann er á kafi í skítnum og þar til að hann gerir hreint fyrir sínum dyrum, þá nýtur hann ekki trausts þjóðarinnar.  Það er ekki nóg að Geir H. Haarde taki á sig einhverja sök eða Guðlaugi Þór verði fórnað.  Flokkurinn þarf að viðra allan sinn óhreina þvott.  (Sem á náttúrulega við um aðra flokka líka og fyrrverandi stjórnendur og eigendur bankanna.)


mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Góð færsla. Svona er þetta nú bara. Því miður.

Björn Birgisson, 18.4.2009 kl. 13:49

2 identicon

Sjálfstæðismennhafa alltaf ætlað að segja söguna á sinn hátt og allir eiga svo að éta hana upp eftir !

Hvíta lygin er ekkert nýtt fyrirbæri.  Svona hefur sjálfstæðisflokkurinn stjórnað söguburðinum í gegnum fjölmiðla !

Hvar værum við stödd núna ef netið væri ekki þessa uppspretta frétta og frásagna , eins og þú hefur gert á þessum vef þínum ?

Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekkert ætla að læra, sami skítahaugurinn !

Þú átt miklar þakkir fyrir þitt framlag !

JR (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 14:35

3 identicon

Þessi grein er sannleikanum samkvæmt. Það sem er hins vegar grátlegt við ástandið er að einn fimmti hluti þjóðarinnar er í afneitun með Sjálfstæðisflokknum. Það virðist einnig vera alveg sama hversu galnar skoðanir forystan hefur, alltaf skulu undirlægjur flokksins taka upp skoðanir forystunnar. Sjálfsgagnrýni er ekki til, hvorki hjá þingmönnum flokksins né skósveinum hans. Ég auglýsti eftir einum Sjálfstæðismanni sem einhvern tíman hefði verið á öndverðum meiði en Sjálfstæðisflokkurinn, en ekki haft erindi sem erfiði. og þó, einn sem kom fram og sagðist ekki ætla að kjósa flokkinn út af auðlindamálinu og stjórnarskránni, en sá hinn sami ætlaði að starfa á fullu í flokknum þrátt fyrir það. það er hreint út sagt eitthvað mikið að fyrst fólk er svona fast í viðjum þessa mafíflokks. Ég lenti t.d. í því að asnast til að segja við iðnaðarmann sem ætlaði að vinna fyrir mig smávægilegt verkefni, að ég vildi að Ísland færi í ESB, ég vissi ekki hvert hann ætlaði, hann fór með sömu tugguna og Davíð í sambandi við ESB og hætti svo við að vinna hjá mér verkið. Þetta er ótrúlegt, þetta er svona svipað og maður færi til biskups Íslands og segði við hann að kóraninn væri réttur en ekki biblían, biskup myndi aldrei samþykkja það þó svo ég myndi færa sönnur á mitt mál. Undirlægjuhátturinn og tryggðin við trúnna og flokkinn er sjúklegt fyribrygði.

Valsól (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 14:46

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vel orðað og athugað.

Hrannar Baldursson, 18.4.2009 kl. 14:47

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég verð bara að viðurkenna að stjórnmálamenn þjóðarinnar eru farnir að fara verulega í taugarnar á mér.  Þeir verða eitthvað svo heilagir rétt fyrir kosningar og halda að nú sé tími fyrirgefningarinnar kominn.  Í þetta sinn verður sumum fyrirgefið en öðrum ekki. Sjálfstæðismenn eru búnir að átta sig á því, að þeim verður ekki fyrirgefið í sama mæli og áður.  Þá breytast þeir í sært veiðidýr sem beitir öllum klækjum til að sleppa.

Ég veit bara að atburðir síðustu mánaða og skíturinn sem komið hefur upp á yfirborðið um það sem gekk á undan, hefur gróflega misboðið siðferðis- og réttlætiskennd minni.  Mér er skapi næst að gefs skít í þetta allt og flytja úr landi, en málið er að ég verð ekkert laus allra mála við það.  Annað sem mér dettur í hug, er að stofna nýtt lýðveldi á Íslandi.  Við getum byrjað á því að einn hreppur á landsbyggðinni lýsi yfir sjálfstæði og síðan sameinist aðrir hreppar og sveitafélögum honum smátt og smátt með samþykki þeirra sem fyrir eru.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 15:16

6 identicon

Vel mælt Marinó. Takk fyrir.

Vonandi lesa sem flestir þessa skörpu og hnitmiðuðu færslu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 15:30

7 Smámynd: Offari

Ég styð þá hugmynd að landsbyggið lýsi yfir eigin sjálfstæði. Sjálfstæðisflokkurinn virðist einfaldlega  ekki skilja það að að hvorki er hægt að endurreisa bankana né fyritækin án þes að hafa til þess fólk.

Offari, 18.4.2009 kl. 15:51

8 identicon

ótrúlega veruleikafyrrt lið í þessum flokki. Neita að horfast í augu við eigin verknað undanfarin 18 ár, neita að horfast í augu við þá spillingu sem grasserar þarna innandyra, neitar að líta fram á veginn go spá í framtíðina, neita þjóðinni um að tjá sig í þjóðaratkvæðakosningum, neitar þjóðinni að eignast aftur með afgerandi hætti auðlindirnar sínar, vilja ekki stjórnlagaþing, má ekki breyta gersamlega úreltri stjórnarskrá sama hvað á dynur, heimta stöðugt einhliða upptöku hins og þessa gjaldmiðils en nenna ekki að leggja neitt á sig til að eiga hann svo skilið.

Það á að leggja þennan flokk niður - hvet alla til að gera það þann 25. apríl n.k.

Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 16:19

9 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Ef ég hefði skoðanir á pólitík myndi ég taka undir með þér.

Þórður Björn Sigurðsson, 18.4.2009 kl. 16:22

10 Smámynd: Hlédís

FLokkurinn Eini er ótrúlegur!

Nú segir "miðbæjaríhaldið okkur "að inn í Landsfundarályktanir(FLokksins) var sett ákvæði um, að Auðlindir allar yrðu þjóðareign og það,--ævarandi" - Sægreifa-umboðsmennirnir voru sem sagt í 3 vikna málþófi, til að hindra, m a, að ályktun þeirra eigin flokks kæmist í stjórnarskrána!

Hlédís, 18.4.2009 kl. 16:35

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góður, Þórður.  Það er hægt lýsa skoðunum yfir á margan hátt.

Ægir, ég er ekkert viss um að önnur framboð séu neitt betri.  Lestur bara það sem Samfylking og VG eru að stæra sig á að hafa gert fyrir heimilin.  VG áttar sig t.d. ekki á því að vaxtabætur voru hækkaðar um 30%.  Þeir auglýsa 25%!  Síðan nefna þeir ekki að þessi hækkun er fengin með því að taka skatt af útleystum séreignarsparnaði.  Það hefði verið mun betra að gera séreignarsparnaðinn skattfrjálsan og sleppa þessari lúsar hækkun á vaxtabótum.

Annars snýst þetta um að þeir sem eru auri ataðir eiga að víkja, sama í hvaða flokki þeir eru.  Það yrði að vísu nokkuð tómlegt um að líta á listum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en hvað með það.  Framsókn er búin að endurnýja að mestu, en VG halda að þeir séu stikkfrí þó þeir hafi verið í stjórnarandstöðu mest allan tímann sem er hinn mesti misskilningur.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 16:36

12 identicon

Mér er oftast meinilla við þrumuræður, finnst verið að spila með mig, en þessi ...

Bravó.

Kristleifur Daðason (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 16:41

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hlédís, hjá Sjálfstæðisflokknum snerist þetta ekki um neitt annað en að sýna vald sitt.  Þeir létu eins og fantar í fýlu.  Þar sem þeir fengu ekki nammi, þá átti að refsa þjóðinni fyrir það.  Aumkunnarverð framkoma manna sem þola ekki að missa völdin.

Annars hafa fleiri flokksfundaályktanir ekki drifið út fyrir veggi flokksfundanna.  Þannig samþykktu flokksfundir bæði Samfylkingar og VG ályktarnir til stuðnings heimilunum í formi leiðréttingu á ósanngjörnum hækkunum höfuðstóla.  Þetta var gert í andstöðu við bæði Steingrím og Jóhönnu og hefur af þeim sökum verið þaggað niður.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 16:45

14 Smámynd: Sturla Snorrason

Sammála þér Marinó, stjórnmálamenn eru einnig farnir að fara verulega í taugarnar á mér.

En kosningarblogg Gylfa Gylfasonar í dag fannst mér vel skrifað.

Sturla Snorrason, 18.4.2009 kl. 16:56

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég setti þessa athugasemd inn á bloggið hans Gylfa:

Þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur!  Sorgleg staðreynd en satt.  Það er að sjálfsögðu ekkert í boði fyrir þá sem vilja ekki breyta til.  Ég hef verið fastur stuðningsmaður eins ákveðins flokks.  Ég er búinn að ákveða að kjósa hann ekki núna og færa mig yfir á Borgarahreyfinguna af þeirri einni ástæðu að þeir eru hluti af grasrót þeirra sem stóðu fyrir búsáhaldabyltingunni.  Ef fólk vildi virkilega byltingu, þá verður það að sýna það 25. apríl að það meini það.  Það getur vel verið að margt í "sjálfstæðisstefnunni" (sem ég veit ekki hver er, þar sem veit ekki til að hún sé til) geti hjálpað þjóðinni í uppbyggingunni, en hverju hefur hún skilað okkur hingað til.  ÞJÓÐARGJALDÞROTI.  Er ekki tími til að fara í burt frá kvalaranum og prófa eitthvað nýtt.  Það getur ekki orðið verra.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 17:10

16 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Tek heilshugar undir hvert einasta orð sem þú segir Maríno. Þessi stjórnmálaflokkur er einhver almesta skömm íslandssögunar. Í raun sorglegt hvað afneitunin er orðin mikin hjá þeim. Menn eins og guðlaugur minna á fársjúkan alkahólista sem kennir alltaf öllum öðrum en sjálfum sér um ófarir sínar. Ég hef aldrei skilið afhverju hann hefur fengið að vaða uppi í hroka sínum og bulla svona þvælur. Það er komin tími til að svar svona mönnum fullum hálsi við hvert einasta tækifæri og uppræta rangfærslur sem hann segir.

Við megum ekki sofna á verðinum.... ellega kemur þessi spilling aftur..  

Brynjar Jóhannsson, 18.4.2009 kl. 17:27

17 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég vil að kosningarnar 25. apríl verði þjóðaratkvæða greiðsla um aðildarviðræður. Kjósið Samfylkinguna. Eini flokkurinn sem þorir.

Gísli Ingvarsson, 18.4.2009 kl. 17:38

18 identicon

Það er rétt að forysta Sjálfstæðisflokksins og stór hluti af fastafylgi hans er í bullandi afneitun. Forystan hefur líka sýnt óvenjulegt getuleysi undanfarið, bæði í ríkisstjórninni með Samfylkingunni og síðan í stjórnarandstöðu. Ofuráherslan á andstöðuna við stjórnarskrárbreytingarnar og önnu aulamál sem tóku alla orku hefur leitt til þess að kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er nánast autt blað. Leiftursóknin með einhliða Evrupputöku, sem birtist í dag, er í besta falli ámátleg, enda margbúið að afgreiða Evruupptöku án ESB aðildar út af borðinu af hálfu ESB.

Það eru hinsvegar margir sjálfstæðismenn í vanda þessa dagana, þ.e. þeir sem ekki eru meðvirkir og eru mjög ósáttir við flokkinn. Afgreiðsla DO og félaga á endurreisnarnefnd flokksins á landsfundi hefur skilið eftir sig djúp sár. Svo eru fjölmargir sjálfstæðismenn sem framarlega standa í fylkingu mjög ósáttir við völtun afturhaldssinna yfir Evrópuumræðuna og þá bóndabeygju sem flokkkurinn var tekinn í í málinu. Það munu margir sjálfstæðismenn setja x við D með óbragð í munni í þessum kosningum.

Jóhannes (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 17:51

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísli, ég held að svona blindur trúnaður á að ESB sé allra meina bót sé ákaflega hættulegur.  Ég vil, að sama hvað gert sé, sé það gert að undangenginni ýtarlegri greiningu á kostum og göllum.  Ég vil að beitt sé aðferðum ákvörðunargreiningar til að komast að niðurstöðu, en ekki bara reka fingurinn upp í loftið eða gera það sem pólitísk sannfæring segir til um.  Beita á faglegum aðferðum, ekki pólitískum.  Ég menntaði mig í svona aðferðu og er með tvær háskólagráður í aðgerðarannsóknum með aðaláherslu á ákvörðunargreiningu, þannig að ég veit hvað ég er að tala um.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 18:43

20 identicon

Marínó, það eru flestir sammála því að nota faglegar aðferðir við að meta samningsmarkmið og síðan meta kosti og galla ESB aðildar og upptöku Evru á grundvelli samninga sem nást. Ekki ætla ég að ef að sú aðferðafræði sem þú ferð eftir sé góð og geti komist að rökrænni niðurstöðu.

Vandamálið er hinsvegar það að við komumst ekki í alvöru viðræður við ESB! Landsfundur Sjálfstæðisflokksins keflaði forystu hans þannig að Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega hindra aðildarviðræður eins og hann hindraði einfaldar breytingar á stjórnarskránni á nýliðnu þingi. VG er á móti aðild en reyndar sammála því að fara í viðræður. Það verður í þeirra hendi hvort farið verði í þetta ferli.

Þetta er líklega mikilvægasta efnahagslega og pólitíska mál sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir á næstu árum. Hnípin þjóð í skuldafjötrum með ónýtan gjaldmiðil á að skoða allar leiðir til að vinna sig hratt og vel út úr erfiðri stöðu. Andstæðingar aðildarviðræðna eru óvinir þjóðarinnar.

Jóhannes (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 19:13

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhannes, getum við ekki alveg eins sagt, að andstæðingar faglegra vinnubragða séu óvinir þjóðarinnar?  Þau ófagleg vinnubrögð að henda sér beint í fang ESB, eða hvað það nú er sem menn gera, sem eitthvert fórnarlamb eða skipbrotsmaður sem þarfnast neyðaraðstoðar, er það hættulegasta sem við gerum.  Það eru fleiri möguleika fyrir hendi og þá ber að skoða.  Inngöngu fylgir kostnaður og fórnir.  Við þurfum að vita hvað felst í slíku.

Ég tek það fram, að ég hef ekki tekið afstöðu til ESB aðildar vegna þess að ég hef ekki nægar upplýsingar til að taka ákvörðun.  Þetta er ekki eins og að kaupa bíl.  "Ég vil þennan af því að mér finnst rauður litur fallegur."  Fáum allt upp á borðið, greinum gögnin og skiljum niðurstöðuna.  Annað bið ég ekki um.  Mér finnst "ESB er allra meina bót" mantra Samfylkingarinnar vera stórhættuleg vegna þess að engin tilraun er gerð til að skýra út hvað felst í ESB inngöngu.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 19:26

22 identicon

Marínó, það er auðvitað sjálfsögð krafa að menn ástundi fagleg vinnubrögð og ófagleg vinnubrögð geta verið á kostnað þjóðarinnar eins og dæmi eru um.  

En minn punktur er einfaldari. Ef við komumst aldrei að samningaborðinu við ESB munum við aldrei vita hvað var um að semja og því síður hvaða kostir voru í boði. 

Það stefnir í þessa niðurstöðu. Það er vel hugsanlegt að ekki muni reyna á fagleg vinnubrögð við mat á ESB aðild og upptöku Evru. Við munum aldrei fá að vita raunverulega kosti og galla. Þetta er amk stefna stórs hluta Sjálfstæðisflokks og stórs hluta VG. Síðan er annað mál að taka afstöðu til þess/.þeirra samninga sem munu liggja fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við komumst ekki í viðræður við ESB munum við aldrei fá að vita hvað í boði var, með kostum og göllum.  

Jóhannes (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:40

23 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Eitt er að hafa einn flokk í afneitun annað að hafa heila þjóð.  Hér fljóta allir sofandi að feigðarósi IMF.  Við erum að falla á tíma, við verðum að fara að velja og hafna. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.4.2009 kl. 20:52

24 identicon

Það er enginn að tala um að henda sér í fang ESB heldur eigum við rétt á því að vita hvað kæmi út úr slíkum viðræðum. Síðan kýs þjóðin um inngöngu. Það er lýðræði í raun. Vonandi verðum við ekki svo seinheppin að við missum af þessu tækifæri. Mér finnst ótrúlega margir "tréhausar" á Íslandi sem neita að ræða málið vegna hræðsluáróðurs einangrunarsinna og nenna ekki einu sinni að kynna sér málin og lesa sér til. En samt erum við æst í að heimsækja ESB borgir á borð við Köben,London og Berlín, finnst æðislegt að vera þar. Mér finnst ansi klikkað að hugsa til þess að Íslendingar virðast halda að þessar þjóðir séu ekki fullvalda!

Erum við virkilega svona heimsk?

Ína (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 21:09

25 identicon

,, Við erum að falla á tíma, við verðum að fara að velja og hafna. "

Vonandi er þjóðin það gáfuð að hún hafnar sjálfstæðisflokknum, þá er tímanum vel varið !

Það er raunverlega það sem þjóðin þarf að gera !

JR (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 21:11

26 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Greinin þín er mjög góð eins og þín er von og vísa. Þar er farið vel í saumana á ferli Íhaldsins og hvernig þeir hafa hagað sér undanfarið. Varðandi orð þín að henda sér í ESB fangið, þá tel ég að ESB sinnar séu ekki að tala um slíkt. Fyrsta skrefið er að setja niður samningsmarkmið, sækja um og leita samninga sem síðan verður kynntur þjóðinni og lagður undir dóm hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mantra Samfylkingarinnar sem þú kallar svo er fyrsta og fremst sú að það sé skoðun flokksins að flokksmenn TELJI að hagsmunum þjóðarinnar best borgið innan ESB. Svarið við spurningum okkar fæst aðeins með því að sækja um og leita samninga. Þá fyrst kemur í ljós hvort þetta álit samfylkingarfólks er rétt eða ekki.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.4.2009 kl. 21:26

27 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þessi þráður er farinn að snúast all mikið um allt annað en hann byrjaði á.

Ína, mér finnst líka æðislegt að koma til San Fransisco og Hawaii, en samt dettur mér ekki í hug að Ísland gangi í ríkjasamband við Bandaríkin.  Minn punktur er að gera hlutina faglega, en ekki í einhverju stundarbrjálæði eða vegna þess við vonumst til þess að það bjargi landinu.  Ýmis lönd eru í miklum vanda og eru samt í ESB.

Andri, við verðum að fara að velja um hvað og hafna hverju.  Ef þú ert að tala um ESB, þá veit varla nokkur maður hér á landi hvað það þýðir að vera í ESB.  Hvernig getur þá þetta sama fólk valið og hafnað?  Þú varst í bestu viðskiptaháskóla Bandaríkjanna (Stanford Business School) og þó ég hafi ekki haft háar hugmyndir um kúrsinn í ákvörðunartöku (Decision Making) sem ég tók í skólanum, þá var okkur samt kennt að greina málin áður en hrapað væri að ályktun.  Ég vil því fá að vita um hvað málin snúast áður en ég segi af eða á.

Annars væri gott, ef menn bara skiptu liði.  Hluti færi í það að greina hvað felst í ESB veru og annar hluti hvað við þurfum að gera til að koma okkur upp úr pyttinum sem ríkisstjórnir undanfarinna ára, Seðlabankinn, FME og fjármálafyrirtæki þjóðarinnar hafa komið okkur í.  Ef við verðum mikið lengur í þessum pytti, þá verður þetta ekki spurning um að gang í ESB, heldur vera yfirtekið af t.d. Noregi, Kanada, Bandaríkjunum eða Danmörku.  Við verðum búin að steypa okkur í þjóðargjaldþrot og glata sjálfstæði okkar.

JR, ég held að við þurfum ekki endilega að hafna einstökum flokkum heldur getur fólk valið að styðja "flokkinn" sinn og bara vera duglegt við að strika út, þá sem stóðu að sóðaskapnum.  Mín vegna má hafna Sjálfstæðiflokknum, en mér þætti betra ef kjósendur flokksins höfnuðu þeim frambjóðendum sem tóku þátt í að nauðga þjóðinni.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 21:31

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmfríður, það hljómar þannig.  Það getur enginn frambjóðandi Samfylkingarinnar opnað munninn án þess að segja "Lausnin er ESB".  Þetta er farið að minna á möntruna sem farið var með á Austurlandi í 25 ár eða svo. "Allt kemst í lag þegar við fáum stóriðju" mantran.  Meðan var beðið og engin alvöru atvinnuuppbygging átti sér stað.  Fólksflótti var mikill úr fjórðungnum og ástandið versnaði og versnaði.

Ef Samfylkingin myndi nú segja "..en á meðan við bíðum, þá ætlum við að gera þetta, þetta og þetta", þá væri þetta allt í lagi.  Nei, það koma engar hugmyndir um atvinnusköpun bara "þetta lagast með ESB aðild".  Það skiptir engum hvort við erum innan eða utan ESB, við þurfum að fara að gera eitthvað róttækt í atvinnumálum þjóðarinnar.  Eini frambjóðandinn í kosningasjónvarpi fyrir Reykjavík norður, sem kom með alvöru hugmyndir sem hægt er að hrinda í framkvæmd strax var Ástþór Magnússon.  Helgi Hjörvar kom ekki með eina einustu tillögu, ekki eina.  Illugi Gunnarsson talaði um álver sem lausn vandans.  Var það ekki einmitt álver sem kom okkur að hluta til í þennan vanda?  Framsókn vísaði í 2 mánaða gamalt skjal, sem ekki hefur fengist rætt vegna þess að einn liður þess var 20% leiðrétting skulda.  (Ég hef lesið það skjal og það er margfalt heilstaðara en hugmyndir hinna flokkanna á þingi til samans.)  Þráinn talaði líka af skynsemi um að um leið og veltan færi í gang kæmu störfin.  Frjálslyndir kunna bara "meiri kvóta" möntruna.  Hvað er að VG, S og D? Ef þá vantar hugmyndir þá eru til feykigóðar færslur eftir mig og Kjartan Pétur Sigurðsson um atvinnuuppbyggingu.  Hún getur átt sér stað bæði utan og innan ESB.  Eitt er þó alveg víst:  ESB aðild leysir ekki kreppuna á Íslandi.  Við þurfum að gera það sjálf!

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 21:48

29 Smámynd: Hlédís

"Þetta lagast þegar hún Agla kemur heim af spítalanum" er haft eftir heimilisföður í miklu basli. Setningunni a tarna var slegið fram í gríni í minni fjölskyldu í svipuðu samhengi og þú lýsir hér fyrir ofan, Marínó!

Hlédís, 18.4.2009 kl. 22:11

30 Smámynd: Jens Guð

  Virkilega góð greining.

Jens Guð, 18.4.2009 kl. 22:59

31 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég veit mætavel að við verðum að leysa kreppuna sjálf og það gera ekki aðrir fyrir okkur. Ég er hinsvegar viss um að þegar það liggur fyrir að við hyggjumst sækja um aðild að ESB þá muni létta á þeirri óvissu sem er nú um stefnuna í peninga og um leið atvinnumálum þjóðarinnar. Þá er framundan mikil vinna við að aðlaga okkur svo við verðum tekin gild inn í Evrópusamfélagið og þá sérstaklega myntbandalagið. Ég hef frá upphafi verið inn á þeirri leið að niðurfærsla skulda verði að koma til svo hagkerfið fari aftur í gang og þar er ég ekki sammála Samfylkingunni. Það eitt og sér er þó ekki nægilegt til að ég fari að leita annarra kosta í kjörklefanum. Ég tel einfaldlega að þessi skynsamlega leið verði fyrir valinu með einum eða öðrum hætti, áður en langt um líður.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.4.2009 kl. 23:09

32 Smámynd: Hlédís

Sammála þér, Hólmfríður, um þörf á niðurfærslu skulda. Er gáttuð á SF að viðurkenna það ekki á neinn hátt. 

Hlédís, 18.4.2009 kl. 23:13

33 identicon

Bara sorglegt að nokkrir mætir menn skuli vera í þeim flokki. 

EE elle (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 23:40

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmfríður og Hlédís, ég fékk þennan póst um daginn:

Sæl öll,
þetta er hægt að sjá hér undir afgreiðslu mála 2 og 3 http://www.samfylkingin.is/Fr%C3%A9ttirnar/VEFTV/ Mín tillaga er tekin fyrir eftir ca; 12 mín inn í myndskeið afgreiðsla mála 2 [(sjá
Afgreiðslur mála 2)] og síðan framhald á afgreiðsl mála 3 [(sjá Afgreiðslur mála 3)]
Það getur verið gaman fyrir þig að byrja við 8. mínútu [10:21] og sjá hvernig hinar tillögurnar voru afgreiddar frá Ingólfi og Sigrúnu Elsu.
 

Kv. Hólmsteinn 

Efni í hornklofum er frá mér komið.

Á þessu sést að flokksþing Samfylkingarinnar samþykkti niðurfærslu eða leiðréttingu skulda í því formi að "leitað verði sanngjarnra leiða til að skipta ófyrirséðu tjóni vegna efnahagshrunsins milli lántakenda og lánveitenda".  Málið er að formaðurinn er á móti tillögunni og þar með fær hún ekki brautargengi innan flokksins.

Marinó G. Njálsson, 18.4.2009 kl. 23:54

35 Smámynd: Hlédís

Ég fer að halda að sá, annars góði og gegni formaður, sé ekki sleipur í reikningi - með skýrari orðum: Kunni ekki að reikna! Það á því miður við um allt of marga stjórnmálamenn og er alvarleg fötlun í því starfi.

Hlédís, 19.4.2009 kl. 00:08

36 identicon

Já, held akkúrat að þeir skilji oft ekki hvað lærðir menn eru að meina og segja og hef sagt það fyrr.

EE elle (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 00:43

37 Smámynd: Offari

Sárast þykir mér ef að aðieins einn formann nægi til að komi í veg fyrir björgunaraðgerðir. Er formansvaldið virkilega svo mikið að farmaðurinn geti tekið ákvörðum fyrir flokkinn þótt flokksmenn séu ekki þeirri ákvörðun fylgjandi?

Offari, 19.4.2009 kl. 11:53

38 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Fullkomlega sammála þér Marino. Sérstaklega með styrk til  flokksins og aðkomu Guðlaugs þórs. Það má benda á að Guðlaugur þór hafði einkahlutafélag, leynifélag bæði 2002 og 2006 við prófkjör sitt. Þetta félag er ekki framtalsskilt og undanþegið skilum á ársreikningi. Á ekki að krefja mannin um að birta bókhaldið eða eigum við bara að trúa að maðurinn sé saklaus eins og jesu.

Hörður Valdimarsson, 19.4.2009 kl. 12:08

39 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Gott að hittast aftur hér á blogginu.  Eftir Kaliforníu hef ég að mestu búið í ESB löndum aðallega Bretlandi .  Ekkert ESB land hefði samþykkt EES samninginn.  Að þurfa að taka upp ESB lög án þess að hafa atkvæðarétt  í Evrópuþinginu er ekki talið lýðræðislegt í þessum löndum ólíkt Íslandi.  Ísland hefur allt aðrar skilgreiningar og skoðanir á lýðræði en flestar aðrar Evrópuþjóðir. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 19.4.2009 kl. 21:33

40 Smámynd: ThoR-E

Ég er sammála þér með Sjálfstæðisflokkinn.

En eftir búsáhaldabyltinguna frægu var Sjálfstæðisflokknum komið frá og minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar komið á.

Það lá gífurlega mikið á að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum.. það var gert og norskur maður settur í hans stað.

Síðan sá gjörningur var gjörður, hefur krónan fallið.

Bara dæmi um afleiðingar þess ... eldsneytisverð hér á landi hefur hækkað um 10 krónur í þessum mánuði, hvernig kemur það sér fyrir heimilin í landinu? matarverð og vöruverð mun hækka líka.

Hvar eru lausnir VG og Samfylkingarinnar?? hvað hafa þessir flokkar gert? jú.. komið með lausnir þar sem heimilin geta skuldbreytt og greiðslubyrðin lækkar jafnvel.

En þeir hafa samt tekið stöðu gegn heimilunum í landinu, með lánveitendum og kröfuhöfum.

Afhverju á hrunið bara að lenda á heimilunum. Það er búið að fella niður skuldir fyrirtækja hér á landi í milljarðavís. Afhverju er ekki hægt að hjálpa einstaklingum?

Bara nokkrar pælingar.

Setjum x við F ...

ThoR-E, 19.4.2009 kl. 21:56

41 identicon

Ég er svo sammála þér, og ef ekkert gengur með að byggja upp landið á gildum réttlætis og virðingu fyrir lýðræði strax eftir kosningar, ef flokkarnir standa í vegi fyrir stjórnlagaþingi setjum við það bara sjálf.

Ef við hugsum málið þá er það ekki ríkisins eða stjórnmálamanna að ákveða stjórnlagaþing heldur okkar. Við útdeilum valdinu, það kemur frá okkur.

Og eftir það sem undan er gengið væri það full mikill undirlægjuháttur að býða eftir samþykki alþingis í þessu máli.

Þjóðin á að semja nýja stjórnarskrá og leggja hana í dóm kjósenda.

Toni (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 00:28

42 identicon

Þetta er hreint út sagt alveg frábær og raunsönn grein hjá þér Marinó. Og þetta með þennan auma fjórðung þjóðarinnar sem er í bullandi afneitun eins og virkir alkar sko. Sumir bloggarar á mbl flokkast nú undir þennan bullandi afneitunarflokk, nefni eftirfarandi afneitunarbloggara sérstaklega: Stefán Friðrik Stefánsson, Páll Vilhjálmsson, Baldur Hermannsson og Jón Magnússon flokkaflakkari.

Stefán (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 10:15

43 identicon

Stefán, allavega einn af þeim sem þú nefnir að ofan skrifar líka neikvæða hluti um Sjálfstæðisflokkinn:

http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/851708/

http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/852711

EE elle (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 1681218

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband