6.4.2009 | 01:46
John Perkins: Efnahagsböðlar
Ég var að hlusta á John Perkins í Silfrinu hjá Agli. Hann talaði um efnahagsböðla sem fara til landa sem búa yfir miklum auðlindum. Þar selja þeir ráðamönnum þá hugmynd að fara út í miklar framkvæmdir við t.d. virkjanir eða vegakerfi. Málið er að íbúar landsins njóta ekki þessara framkvæmda heldur erlendir auðhringar sem byggja stóriðjuver eða nýta vegina til að flytja góðmála frá námum til hafnar.
Mér hryllti nokkuð við þessi orð Perkins, þar sem ég fæ ekki betur séð en að Kárahnjúkastíflan og Fljótsdalsvirkjun séu nákvæmlega dæmi um slíka framkvæmd. Þjóðin er skuldsett upp á meira en 100 milljarða fyrir einn aðila, sem þannig hefur í reynd fjöregg þjóðarinnar í höndum sér. Afrakstur þjóðarinnar er lítill sem enginn.
Ekki það, að þetta komi mér á óvart, þar sem þetta var niðurstaða lokaverkefnis míns við Stanford háskóla árið 1988. Bara það hve rétt niðurstaða mín var og að heyra mann, eins og John Perkins, taka svona gjörsamlega undir niðurstöðu mína 21 ári síðar, var það sem gaf mér þennan hroll.
Hér er stubbur úr grein sem ég skrifaði árið 2000 til að mótmæla Fljótsdalsvirkjun hinni fyrri:
Ekki eru allir sammála því að hagnaður verði af þessu brölti. Nýlega birtist í Frjálsri verslun grein eftir Sigurð Jóhannesson, hagfræðing, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að 13 milljarða króna tap verði af Fljótsdalsvirkjun. Í útreikningum sínum notar Sigurður tölur úr ársreikningum Landsvirkjunar og setur sér ákveðnar arðsemiskröfur og gengur út frá tilteknu raforkuverði til stóriðju. Líkt og Landsvirkjun tekur hann ekki inn í útreikninga sína kostnað eða tekjutap vegna landsgæða sem tapast. Landsvirkjun hefur mótmælt niðurstöðum Sigurðar. Forstjóri Landsvirkjunar þorir að vísu ekki að segja annað en að Sigurður reikni rétt en noti bara vitlausar forsendur.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur kemst að líkri niðurstöðu í útreikningum sem hann birtir á heimasíðu sinni. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið 16. desember að hann hafi byrjað útreikninga sína með það í huga að Fljótsdalsvirkjun væri arðbær, en honum til mikillar furðu varð niðurstaðan á allt annan veg.
Ég var mjög glaður að sjá skrif Sigurðar og Guðmundar vegna þess að fyrir 12 árum komst ég að sambærilegri niðurstöðu, þ.e. að raforkusala frá Fljótsdalsvirkjun til stóriðju borgar sig ekki. Á þeim árum var ég við nám við Stanford háskóla í Kaliforníu í fræðum sem heita aðgerðarannsóknir (operations reserach). Lokaverkefni mitt var reiknilíkan sem var ætlað að líkja eftir virkjanakerfi landsins. Líkanið tók á samspili framboðs og eftirspurnar á raforku og áhrif þess á raforkuverð. Í heilt ár velti ég fyrir mér öllu mögulegu og ómögulegu varðandi áform Landsvirkjunar. Á þeim árum var verið að virkja Blöndu og hafði hún verið tekin fram yfir Fljótsdalsvirkjun í mikilli óþökk við Austfirðinga. Búið var að fullhanna virkjanir kenndar við Sultartanga, Fljótsdal, Vatnsfell og Villingarnes, stækkun á Búrfellsvirkjun og fimm stig Kvíslaveitna. Einnig voru vangaveltur um útflutning á raforku um sæstreng og umfangsmikla uppbyggingu orkufreksiðnaðar. Allar upplýsingar um stofnkostnað, rekstrarkostnað, raforkuverð, rennsli fallvatna, burðargetu raforkukerfisins og spár um raforkunotkun voru fengnar frá Landsvirkjun og Orkustofnun. Ég gat því tekið inn í líkanið allar helstu stærðir sem þurfti til að reikna út hagkvæmni og arðsemi virkjananna, þó svo að það hafi ekki verið aðalmarkmiðið heldur að finna út hagkvæmustu virkjunarröð. Ég hafði mér til ráðgjafar prófessor Allan Manne við Stanford háskóla, sem hefur meðal annars verið ráðgjafi Alþjóðabankans í orkumálum sem og ríkisstjórna víða um heim.
Meginforsendur líkans míns, fyrir utan ofangreindar tölulegar upplýsingar og spár, voru að raforkuverð ákvarðaðist af langtímajaðarkostnaði afls (MW) og orku (GW stundir) og að það verð sem kaupendur voru tilbúnir greiða liti sambærilegri verðteygni og viðgekkst í Noregi á þessum árum. Verðteygni lýsir vilja orkukaupandans að greiða uppsett verð þó forsendur breytast hjá honum. Þannig er í flestum samningum við stóriðju sett inn ákvæði um að raforkuverð breytist með heimsmarkaðsverði á afurðum. Út úr þessu öllu kom það sem heitir ólínulegt bestunarlíkan sem túlkaði tengsl framboðs og eftirspurnar á þremur tímapunktum, þ.e. 1995, 2005 og 2015, miðað við ólíkar spár um orkueftirspurn og röð virkjana.
Niðurstöður útreikninga minna komu mér virkilega á óvart. Mér hafði alltaf fundist sjálfgefið að virkjanir væru með því hagkvæmasta sem við Íslendingar leggðum fyrir okkur. Líkan mitt sýndi því miður að ýmsar nýjar virkjanir reyndust vera á mörkunum að borga sig. Kvað svo rammt við, að oft sýndi líkanið að eini hagur ríkisins af virkjunum og stóriðjuverum tengdum þeim væru skattar starfsmanna og uppsöfnunaráhrif vegna launa þeirra. Tekið skal fram að líkan mitt reyndi ekki að taka á uppsöfnunaráhrifum vegna þjónustu við stóriðjuverin. Ein af þeim virkjunum sem fékk falleinkunn var Fljótsdalsvirkjun.
Ég hef svo sem oft birt þessa tilvitun, en ekki datt mér í hug að það myndi taka yfir 20 ár að heyra annan aðila viðra sömu skoðun. Ekki það að ég er vanur því að fólk taki smá tíma að skilja mig, en það hefst að lokum.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 1680019
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þessar virkjanir sem selja álverunum rafmagn á tombóluprís geta örugglega aldrei borgað sig. Hvað ætli við Íslendingar sem borgum niður rafmagnið til álveranna þurfum að borga auka bara fyrir niðurgreiðsluna? Rafmagnsverðið til álveranna er náttúrulega algjört leyndarmál.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.4.2009 kl. 01:51
þetta er mjög áhugavert hjá þér Marinó. Sú hugsun hefur oft sótt á mig að arðurinn væri lítill og helst fólgin í atvinnusköpun.
Eva joly lýsti því í Silfri Egils um daginn hvernig alþjóðleg fyrirtæki kæmust yfir hráefni í löndum afríku. keyptu á slikk í gegnum félög skráð á aflandeyjum og seldu síðan þaðan á margföldu verði til evrópu eða einhvert annað.
Einhvern veginn fannst mér við vera í svipuðum sporum. Raforkuverðið hangir saman við álverð á einhverjum hráefnismarkaði með ál, en væri síðan selt í heild- eða smásölu á margföldu verði af sama aðila og kaupir af okkur orkuna.
Það er kannski óljóst hvað ég er að fara en þetta er meira eins og hugboð sem maður skyndilega fær þegar maður heyrir eitthvað sem passar saman við eitthvað annað sem maður heyrði að las um jafnvel mörgum árum áður.
Toni (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 02:47
Ég þakka þþér góðan pistil
Það hafa margir verið sömu skoðunar á hagkvæmni þessara virkjanna og Marinó. Mér detta í hug þrír aðilar strax. Sigurður Jóhannesson, Jónas Haralz og Indriði Þorláksson. Það vekur eftirtekt að tveir af þessum þremur eru menn á eftirlaunum.
Getur verið að ungir menn þori ekki vegna eigin hagsmuna og eða hagsmuna eigin fjölskyldu að skýra frá eigin skoðunum á þessum virkjunarmálum?
Kristbjörn Árnason, 6.4.2009 kl. 06:45
Það er líka nöturleg staðreynd, að tilgangurinn með Fjarðaráli var að skapa störf á austurlandi. Ef við tökum bara kostnað Landsvirkjunar og deilum í hann með starfsmannafjölda Fjarðaráls. Þá kostar hvert starf 750 milljónir. Það er nokkuð miklu til kostað fyrir starf í skítugu álveri.
Sigurjón Jónsson, 6.4.2009 kl. 09:15
Þakka fyrir þennan pistil, víst er að hrollur læddist að flestum sem hlustuðu á "útlendingana" í Silfrinu í gær.
Þessi endalausa viðskiptaleynd sem hvílt hefur yfir orkuverði til erlendra stórfyrirtækja, sem hafa böðlast hér við að framleiða ál, er grunsamleg í besta falli og glæpsamleg í versta falli.
Það er heimóttarlegt að þegar sannleikurinn birtist á útlendu máli þá opnist augu flestra, en þegar maður eins þú birtir hann á tærri tungu fyrir næstum aldarfjórðung, er hann dæmdur sem röfl með vafasaman tilgang.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.4.2009 kl. 09:35
Ég var hlyntur þessari virkjun enda hagnaðist ég á því að byggja hana. Ég fussaði yfir útreikningum umhverfissinna sem reiknuðu tapið út frá tapi á langæðum sem örfáir höfðu séð og gátu nýtt sér.
Mér þótti líka undarlög rökin fyrir því að samdrátturinn þegar verkinu lyki myndi fara illa með þjóðfélagið. Það átti einmitt að nota góðærið til að borga niður skuldir eins og ég og ríkissjóður gerði. En ég held að enginn hafi átt von á því að við þyrftum að borga skuldir annara.
Álverið hefur verið mikil lyftistöng fyrir austfirði. Það var alltaf gert ráð fyrir að fljótsdalsvirkjun yrði marga áratugi að borga sig niður enda framkvæmd sem dugar sirka í heila öld svo afskriftirnar eru litlar.
Ég tel að þjóðin hefði þolað nokkra ára tap á Fljótsdalsvirkjum ef hún hefði ekki þurft að borga aðrar skuldir líka. Því vill ég ekki viðurkenna að ég sé sökudólgurinn þótt ég hafi bæði verið henni fylgjandi og tekið þátt í að reisa þessa virkjun. Því mun ég sitja sem fastast og neita að segja af mér.
Offari, 6.4.2009 kl. 09:57
Sæll Marinó.
Satt er sem komið hefur fram að einstaka orkusamningar við stóriðju eru trúnaðarmál. Engu að síður er nokkuð auðvelt að ná fram úr opinberum gögnum meðalverði á kílóvattstund fyrir lengri tíma. Eins má rekja þróun tekna t.d. Landsvirkjunar, útfrá framleiðslugetu og sölu í gegnum ársreikninga. Sú slóð gefur góðar vísbendingar um tengingu orkuverðs við álverð í heiminum.
Eins og staðan er í dag þá sýnist mér að álver hafi verið að borga u.þ.b 1.8 krónur á hverja kvst, miðað við að meðalverð á áli sé 1500 dollarar tonnið. Nú hefur verðið verið í kringum 1300 dollara í nokkra mánuði og ljóst að tekjur orkufyrirtækja eru því töluvert minni. Eitthvert lágmarksverð er þó innbyggt í samningana svo ekki er ljóst hver hin endanlega tala er.
Samkvæmt útreikningum mínum þarf orkuverð til virkjana sem fjármagnaðar eru á lánum með 2-4% vöxtum að vera að lágmarki 2.4-2.8 krónur á kvst. til að einhver raunverulegur hagnaður geti orðið af starfseminni. Almenningur á Íslandi þarf að borga í dag að meðaltali 3.6 krá kvst plús flutning og dreifingu, eða gróft reiknað í kringum 7.2 kr. á kvst. sjá t.d. Raforkureiknir .
Staðreyndin er sú að almenningur á Íslandi niðurgreiðir orku til álvera. Þetta gerist með fernum hætti:
1. Almenningur greiðir hærra orkuverð
2. Almenningur greiðir fyrir flutningsmannvirki
3. Álver njóta sérkjara m.a. í formi skatta
4. Fljótandi króna er há á byggingatíma virkjana álvera (mikill kaupmáttur) en hrapar þegar tekjur fyrir orkusölu fara að skila sér (margar krónur inn fyrir hvern dollar).
Í lið 4, peningar verða ekki til af sjálfu sér, hátt gengi kemur til af lántöku, lágt gengi þurrkar svo út ávinning af fleiri krónum inn sökum þess að höfuðstóllin hækkar í krónum talið, orkufyrirtækin okkar eu jú íslensk.
Ef álver og virkjanir væru jafn góður "business" og af er látið, af hverju þurfa orkufyrirtæki þá að vera að endurfjármagna sig á fárra ára fresti? Virkjun sem mala á gull í 30-50 ár, af hverju fær hún ekki lánafyrirgreiðslu til lengri tíma?
"Lélegir" viðskiptavinir orkufyrirtækja þ.e. almenningur sem borgar margfalt orkuverð fær hiklaust lán til 30-50 ára.
Er þetta ekki eitthvað klikkað?
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 10:33
Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki á móti stóriðjuframkvæmdum og virkjunum. Vil bara að hófs sé gætt. Ég er lika þeirrar skoðunar að fjölbreytileikinn sem fylgir stóriðju getur orðið gríðarleg lyftistöng fyrir byggðir og landsvæði þar sem stóriðja kemur. Ég átti alls ekki von á þessari niðurstöðu minni og var þess síður að leita eftir henni. En hún kom fram og sló mig. Mér fannst það vera skylda mín að láta Landsvirkjun vita, en þar voru útreikningar mínir ekki einu sinni taldir þess virði að fá mig á fund! Samt voru ýmsar nýjungar i líkani mínu, sem ekki höfðu áður verið notaðir til að skoða íslenska raforkukerfið!
Nú hafi á undanförnum vikum komið hingað færir erlendir sérfræðingar og lýst miklum efasemdum yfir stóriðjustefnuna. Einnig hafa íslenski hagfræðingar litið í baksýnisspegilinn og kennt Kárahnjúkastíflunni og Fljótsdalsvirkjun um fall hagkerfisins. (Þeir eiga að vísu eftir að sannfæra mig um það ennþá, þar sem mér finnst menn vera að leita að blóraböggli en ekki raunverulegri orsök.) Hvort einhver annar er að taka undir eða ekki, þá er niðurstaða verkefnisins míns að koma fram. Arður Landsvirkjunar af bröltinu er ekki nægur. Svo einfalt er það. Niðurstaðan er að áhættan sem tekin var með Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjun gæti hugsanlega orðið of stór biti fyrir Landsvirkjun og þjóðfélagið. Ég vona að svo verði og að framtíðin eigi eftir að leiða í ljós að ég hafði rangt fyrir mér. Því miður bendir ekkert til þess í bili.
Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 10:40
Marinó.
Áttu þetta módel til á aðgengilegu formi, eða geturðu vísað forvitnum á forsendurnar?
Væri gaman ef fleiri gætu sett inn tölur í módelið til að sannreyna dæmið.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 10:58
Jóhann, þetta var unnið í kerfi sem ýmist ég hannaði eða útfærði í pakkalausn sem keyrð var á miðtölvu skólans. Ég efast um að það sé hægt að keyra það á einhverjum tölvubúnaði hér á landi í dag. Því miður. Gögn og líkan eru geymd annars vegar á segulbandsspólu og hins vegar 5 1/4 tommu disklingum. Einnig er eitthvað á 8 tommu disklingum. Þannig að mér finnst harla ólíklegt að þetta sé hægt. Það sem væri aftur hægt að gera, er að setja líkanið inn í nýtt forrit og keyra það þar. Það skal þó tekið fram að líkanið náði til Eyjabakkalóns og Fljótsdalsvirkjunar hinnar eldri.
Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 11:06
Áhugavert Marínó. Ástæða til að þú leitir þér liðsinnis til að útfæra líkanið upp á nýtt miðað við tækni dagsins . . .
. . . getur örugglega orðið til gagns fyrir jákvæða orðræðu og undirbúning ákvarðana.
Benedikt Sigurðarson, 6.4.2009 kl. 11:20
Auðvitað verður að gæta hófs í tengslum við virkjanir og í tengslum við uppsetningum á álverum. Hérlendis er t.d. komið alveg nóg af álverum. Síðan verða okkar stjórnvöld að hafa bein í nefinu til að þora að selja raforkuna á miklu hærra verði okkar verð er ca. en 150% lægra en það verð sem álver greiða í Noregi. Þessi alþjóða fyrirtæki sem eiga þessi álver hafa spilað með RÁNFUGLINN út & suður, þjóðin greiðir svo brúsann eins og ávalt! Við erum & höfum verið ARÐRÆND í langan tíma af "Economic hitman..."
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 11:21
Þessi umræða um að Íslendingar ættu ekki að borga af lánum er nokkuð hættuleg.
Þetta þýðir að:
1) Íslendingar fá ekki lán til að fjármagna fjárlagahallann sem þýðir að fjárlög 2009 standast ekki og það þarf að skera eins og skot. við fáum ekki lán fyrir 200+ miljarða halla. Umræða um þessi mál er einnig hættuleg og mun enn frekar rýra okkar lántraust og valda enn hærri vöxtum og jafnvel hindra að við fáum erlend lán. Þetta þýðir gríðarlegan samdrátt í opinberri þjónustu, væntanlega lækkun á atvinnuleysisbótum ef atvinnuleysi verður um 15%-20% mun það þýða um 5 miljarða á ári og atvinnuleysistryggingasjóður verður tómur í sumar það gerir 50-60 miljarða á ári sem er allt of hátt fyrir fátæka Ísland. Þegar tekjur ríkiissins verða varla um 400 miljarðar.
2) það að við höfum ekki nægilegan gjaldeyrisvarasjóð verður til að við þurfum að senda krónuna á flot eins og skot og gjaldeyrisskortur mun leiða til innflutningstakmarkanna. Það er eitt að búa í fjölmennu og stóru ríki eins og Argentínu en litla Ísland ætti mun verra að vera einangrað enda erum við miklu mun háðari innflutningi.
3) Þetta mun endanlega jarða alla umræðu um Evrópubandalagsaðild og gjörsamlega hindra alla uppbyggingu og í raun valda stórfelldum atgervisflótta þar sem sprotafyrirtæki flýja viðskiptahömlur, gjaldeyrishömlur sem í raun mun valda algjörum fjárhagsþurki.
Í raun er þetta hræðileg staða sem við erum komin í það að borga ekki mun leiða til að það kemur gríðarlegt högg bæði á opinberri þjónustu og hjá einstaklingum hitt er einnig slæmt að við skulum vera að fara vonlausa leið. Þetta er eins og velja um að verða hengdur eða skotinn.
Því má bæta við hversu óskaplega fallvaltir þessir bankar eru að Kaupþing getur ekki selt SPRON vegna þess að þeir eiga ekki fyrir innistæðum. Hagstjórnin byggist á að ganga á eggjaskurn enda er spilaborgin reist á sandi enda hefur ekki tekist að fjármagna íslenska fjármálakerfið. Ekki skortir á ráð efnahagslegra töframanna þeir sem mærðu útrásina og gáfu út heilbrigðisvottorð fyrir bankanna áður en þeir hrundu. Þeir sem voru duglegastir að búa til fjármagn með efnahagslegum töfrabrögðum um eigið fé og lán eru núna að segja okkur hvernig skuldirnar hverfa.....
Gunnr (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 12:48
Annars er þetta flókið mál með álið vegna þess að maður getur ekki einhliða litið á raforkusöluna það þarf einnig að athuga með útflutningstekjur og gjaldeyristekjur af álsölu einnig störf og afleidd störf. En eins og þú rettilega bendir á verður að sýna varúð að skuldsetning kostar og auðvitað verður að passa sig á að ganga ekki of langt.
Gunnr (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 12:52
Gunnr, það var einmitt inntakið í málflutningi Perkins, að þjóðunum var talið trú um að þetta væri leiðin. Við skulum hafa í huga, að Austfirðingar hafa beðið eftir stóriðju frá því í lok 8. áratugar síðustu aldar. Alcoa var bara síðasti aðilinn af óteljandi sem rætt var við. Það var raunar með ólíkindum, að menn skyldu ekki leysa atvinnuvanda Austfirðinga fyrir löngu með öðrum úrræðum. Nú eru rúmlega 300 milljarðar búnir að fara í byggja upp þessa starfsemi. Ég er alveg viss um að hefðu þó ekki nema 3 milljarðar farið í atvinnusköpun frá 1980, þá væru komin minnst 10 þúsund ný störf. Menn voru bara svo fastir í stóriðjuhugsuninni. Þeir biðu eftir því að útlendingar björguðu þeim.
13. desember 1992 birtist í Velvakanda Morgunblaðsins greinarstúfur sem bar yfirskriftina Hagfræði fórnarlambsins. Hún fjallar um þetta og á vel við í dag. Ég hef bætt henni við greinina að ofan sem hlekk neðst í greininni. Ég held að allt sem ég segi þar eigi mjög vel við í dag, sem sýnir að einhvern veginn fer þetta allt í hring.
Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 14:16
Þeir biðu eftir því að útlendingar björguðu þeim. Við erum enn að bíða eftir að útlendingar bjargi okkur. Jafnvel þótt við séum full fær um að bjarga okkur sjálf.
Offari, 6.4.2009 kl. 14:22
Ath.semd Kristbjörns að ofan segir kannski ýmislegt um fólk við stjórnun í landinu. Og Gunnar, já, umræðan um að borga ekki er kannski nokkuð nauðslynleg þó hún virðist nokkuð hættuleg. Eins og Michael Hudson lýsti, munum við heldur ekki fá nein lán ef við borgum og borgum. Við getum borgað okkur inn í bláfátækt og kannski í hel, og hvaða lán fáum við þá? Peningagróðamenn geta borgað fyrir sig og sínar virkjanir sjálfir. Og þurfa að skila landinu öllu tapi. Litli maðurinn getur ekki borgað milljarða á milljarða ofan. Og Bjarni Ben getur þagað um sitt ÁL. Við verðum að stoppa þessa níðslu.
EE elle (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 14:53
sæll Marínó. Það var skelfilegt að horfa á manninn setja þetta fram með svo skýrum hætti. Ég verð að viðurkenna að ég horfði á framkvæmdirnar fyrir austan ekki með þessu sjónarhorni. Og nú á að skella niður enn einni skessunni í Helguvík og Össur er búinn að veita þeim sem þar fara einhver vilyrði sem ég man nú ekki hver eru? Svo geta þessir andskotar, ef þeim sýnist svo, lokað þessu álverum sínum og við sitjum uppi með virkjanirnar.
Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 15:37
Það má nú redda ýmsu, reikna með að módelið þitt hafi verið skrifað Fortran?
Annars ættu orkufyrirtækin bara að gera útreikninga sína opinbera. Varla geta þessi Excel módel þeirra verið svona gríðarlegur leyndardómur. Það er engin raunveruleg samkeppni á Íslandi í orkuframleiðslu og 90% af öllum auðlindum eru annað hvort í eigu ríkisins eða annarra opinberra aðila. Svo, leyndin er algjör óþarfi.
Auðvitað eiga Íslendingar að virkja, en lágmarks krafan eru sú að slíkar virkjanir séu raunverulega arðbærar, standi sjálfar og óstuddar og greiði t.d. sanngjarnt verð fyrir land og réttindi. Auk þess þarf arðurinn að vera nægur til þess að virkjanaaðilar þurfi ekki að velja ódýrustu og verstu leiðir við framkvæmdina á kostnað náttúru og mannlífs.
Orka mun bara verða dýrari og dýrari, Íslendingar eiga ekki að bjóða orku á spottprís. Tvö til þrefalt núverandi orkuverð til stóriðju ætti að vera krafa okkar í dag. Ef menn vilja ekki borga slíkt, þá geta þeir hinir sömu bara byggt kjarnorkuver í eigin landi (sem verður ekki gert)! Í stað þess að skríða eins og hræddir rakkar eigum við að bera höfuð hátt. Við eigum eftirsóttan auð og hann mun kosta. Setji menn gæði á útsölu eru góðar líkur á að kaupendur telji viðkomandi kjána sem auðvelt sé að féfletta. Það er þvi miður Ísland í dag.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 16:03
Jóhann, ég notaði forrit sem hét GAMS/MINOS. Það var skrifað af tveimur aðstoðarprófessorum við Stanford háskóla og hafði að mestu verið notað á VAX-tölvum, en hafði þá nýlega verið portað yfir á DOS/Intel - 8086 umhverfið. Hver keyrsla tók á þeim tíma um 10 klst.! Það sem gerði þetta líkan frábrugðið þeim sem notuð voru af Landsvirkjun á þeim tíma, var að það var ólínulegt og notaði verðteygni, þ.e. það tók tillit til breytilegra tekna í samræmi við breytingar á álverði, sem ráðandi þátt.
Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 16:23
GAMS er til fyrir flest stýrikerfi í dag sjá http://www.gams.com/download/ .Lítið mál að koma því í gagnið. Eins eru komnir módúlar til að flytja gögn inn og út úr Excel sem auðveldar t.d. grafíska framsetningu. Keyrslutími á svona módelum ætti að vera kominn niður í nokkra tugi mínútna með nútíma vélbúnaði. Hugsanlega er einnig hægt að ná gögnum af þessum segulböndum eða 5-1/4 disklingum.
Ef þú vilt skoða þetta eitthvað nánar þá er tölvupósturinn hjá mér johann.f.kristjansson@orkugardur.is
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 19:05
Ég fylgdi slóðinni þinni og skoðaði GAMS. Vandinn er kannski að það kostar 3.200 USD auk þess sem MINOS solver kostar 3.200 USD til viðbótar. Nema ég þykist vera akademik, þá er heildarverð 1.280 USD.
Ég er svo sem alveg til í að skoða þetta nánar, en hef ekki efni á að borga 6.400 USD fyrir þessi forrit.
Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.