Leita í fréttum mbl.is

Niðurfærsla lána er nauðsynleg

Það er búin að vera mikil umræða á blogginu og í fjölmiðlum um hvort eigi að færa niður höfuðstól lána.  Þeir sem eru á móti því telja óforsvaranlegt að færa niður skuldir stóreignamanna eða stórfyrirtækja.  Ég spyr bara:  Er umræðan virkilega ekki þroskaðri en svo, að það kemur í veg fyrir að við leysum vanda 40- 60% heimila vegna þess að einhverjir eiga það ekki skilið?  Er ekki tími til kominn að hætta sandkassaleiknum og hefja björgunaraðgerðir, þar sem ekki er farið í mannamun.

Gagnvart niðurfærslu lána, þá finnst mér fólk horfa kolvitlaust á þetta.  Þar sem að ég setti nú þessa hugmynd fyrst fram 28. sept. 2008 á blogginu mínu (sjá Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum), þá veit ég nokk út á hvað þetta gengur.  Þetta er mjög einfalt.  Stór hluti útlána er í reynd tapaður.  Kröfuhafar geta farið tvær leiðir:

A.  Gert lántakandann gjaldþrota, keypt eigina á uppboð og selt hana aftur á niðursettu verði.  Kröfuhafinn mun líklegast tapa 30 - 50% af höfuðstól lánsins vegna hins mikla kostnaðar sem bætist við, en getur elt lántakandann um aldur ævi án þess að fá neitt meira upp í skuldina.  Skuldarinn getur ekkert eignast og leggur því takmarkað til veltu í þjóðfélaginu, verður jafnvel bótaþegi eða flýr land.   Veltan í samfélaginu dregst saman og fleiri missa vinnuna.  Skatttekjur ríkisins minnka og skera verður niður í velferðarkerfinu.

B.  Ákveðið að færa lánið niður þannig að greiðslubyrði lánanna verði þolanleg fyrir lántakandann.  Bankinn takmarkar tjón sitt hugsanlega við 20-30%, heldur góðu viðskiptasambandi við lántakandann, sem stendur í skilum, tekur fullan þátt í veltunni í samfélaginu og verður áfram góður og gildur skattþegi.  Atvinna er varðveitt, velferðarkerfið er varðveitt.

Í mínum huga þá fer ekkert á milli mála að allir græða á niðurfærsluleiðinni, þ.e. lántakendur, lánveitendur og loks lánadrottnar lánveitenda.

Ég setti þessa hugmynd fram áður en Glitnir var þjóðnýttur, þannig að það sem á eftir fór var ekki inni í myndinni.  Hugmyndin er því óháð falli bankanna.  Það sem gerðist við fall bankanna, var að lánasöfn bankanna er færð yfir í nýju bankana með miklum afslætti.  Þannig stefnir í að lánasöfn svikamyllubankanna verði færð yfir til nýju bankanna með 3.000 milljarða afslætti.  Nú er SPRON farið og Sparisjóðabankinn og því bætast einhverjir tugir milljaðar í púkkið.  Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að skuldunautar nýju bankanna njóti afsláttarins frá þrotabúum svikamyllubankanna.  Það var jú svikamylla gömlu bankanna sem kom okkur í þá stöðu sem við erum í.  Svo einfalt er það.  Mér finnst út í hött að ég beri tjón mitt óbætt, þegar ég er ekki valdur af því.  Svikamyllubankarnir eyðilögðu fjármálakerfi landsins og stuðluðu að falli krónunnar með dyggri aðstoð frá peningastefnu Seðlabankans.  Ríkið ætlar að leggja meira en 500 milljarða inn í endurreisn óráðsíumanna, þ.e. endurbættar útgáfur svikamyllubankanna og Seðlabankann, sem beitti ekki síðri svikamyllu við að blekkja smærri fjármálafyrirtæki til að taka lán upp á 345 milljarða til að freista þess að bjarga svikamyllubönkunum frá falli.  Það er besta mál að bjarga Seðlabankanum sem kunni ekki grundvallaratriði í áhættustjórnun, en það má ekki bjarga undirstöðustofnun samfélagsins, sem heimilið.

Ef heimilunum verður ekki bjargað, þá verður ekkert þjóðskipulag.  Fólk er að missa þolinmæðina.  Núna eru tæpir 13 mánuðir síðan að krónan féll með skell.  Vissulega byrjaði að halla undan fæti í júlí 2007, en það var hægfara aðlögun.  Hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki gerðu nokkuð til að spyrna við fæti.  Það var talað og hlustað, en ákvörðunarfælnin var æpandi, ömurleg.  Síðan koma Leppir, Skreppir og Leiðindaskjóður þessa lands og berja sér á brjósti fyrir að hafa varað við eða það hafi ekki verið þeim að kenna.  Mér er alveg sama hver varaði við eða hverjum það var að kenna.  Komið ykkur að verki og stöðvið brunann. Ef þið hafið getu, vilja og þor, þá er best að hisja upp um sig buxurnar og koma sér að verki, annars að víkja og hleypa öðrum að. 

Eitt í viðbót.  Mér finnst það ótrúlegt að stór hópur þeirra sem komu þjóðinni í þá stöðu sem hún er í, telji sig besta til að koma henni út úr vandanum.  Mér finnst að þetta fólk eigi að skammast sín og víkja fyrir nýju fólki.  Það er staðreynd að nýir vendir sópa best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er sérstaklega hrifin af niðurlaginu hjá þér!

Er ég farin að lesa óþarflega á milli línanna hjá þér eða er það rétt hjá mér að þér er farið að hitna í hamsi? Hef reyndar stundum undrast jafnaðargeð þitt miðað við það hvað mér virðist þú sjá efnahagsveruleikann í skíru ljósu. Nú þykist ég hins vegar sjá nýjan og beittari tón í síðustu skrifum þínum. Mér finnst það ekki verra enda full ástæða til!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 01:23

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Rakel, mér er farið að hitna í hamsi.  Ég hef verið að fylgjast með ruglinu sem birst hefur á tveimur þráðum um hana Ólínu.  Þar hefur verið vegið á allar hliðar að Gunnlaugi M. Sigmundssyni og Sigmundi D. Gunnlaugssyni vegna ómerkilegs slúðurs konu sem gengur með þingmanninn í maganum.  Guð hjálpi okkur að hún verði ekki ráðandi í þessu þjóðfélagi.  Ég segi ekki annað.

Á þessum þráðum, þá hefur misviturt fólk komið með alls konar yfirlýsingar um niðurfærsluleiðina og almennt ekki komið hugsuninni lengra en að einhverjir sem eiga ekki rétt á því gætu fengið hjálp.  Það á sem sagt að hætta við að hjálpa fjöldanum vegna þess að kannski 100 manns fá hjálp án þess að "eiga það skilið".  Hvaða bull er þetta?

Hluti af beittari tón er líka að það er farið að nálgast kosningar.  Nú dugar engin lognmolla lengur.  Hagsmunasamtök heimilanna eru líka að skipta um gír og þá þarf að gera það á öllum vígstöðvum.

Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 01:34

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Baldur, en hver er þá afstaða þín gagnvart 200 milljörðunum sem notaðir voru til að rétt við suma peningasjóði eða 600 milljörðunum sem fóru í bjarga áhættuinnistæðum í bönkunum?

Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 01:56

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég hef frá upphafi verið hliðholl þeirri hugmynd að færa niður lán um það hlutfall sem þau hafa hækkað í hruninu (eða á tilteknum tíma). Sé ekki þá miklu eignatilfærslu sem flokkssystkyni mín í Samfylkingunni tala svo mikið um. Mér finnst þetta einfalt reikningsdæmi, í raun svo einfalt að hvert barn sem komið er með sæmilegann talaskilning, ætti að sjá.

Á eftir að horfa á Silfrið.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.4.2009 kl. 06:19

5 Smámynd: Offari

Ég er á því að betra sé að afskrifa strax fyrirsjáanleg afföll en að bíða eftir að afföllin komi í ljós.   Það verður mun erfiðara að moka okkur upp úr skítnum ef búið er að brjóta niður stóran hluta skítmokarana.

Offari, 6.4.2009 kl. 09:23

6 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það ætti líka að skoða erlendu lánin sérstaklega.

Bankarnir lánuðu svokölluð erlend lán til íbúðakaupa o.fl. Fólk fékk íslenskar krónur inn á reikninginn sinn og fær rukkun í íslenskum krónum. Sem sagt bankinn þurfti aldrei að kaupa erlendan gjaldeyri til að lána þessa peninga. Svo ræðst bankinn á krónuna svo að hún fellur eins og steinn. Hvað gerist bankinn, hagnast gríðarlega á íslensku krónunum sem hann lagði inn á reikninginn þinn. Þetta er markaðsmisnotkun af versta tagi.

Sigurjón Jónsson, 6.4.2009 kl. 10:03

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er tvennt sem skiptir máli í þessu:

A.  Ávinningurinn

B.  Við skulum hætta að hugsa í "þetta er ekki hægt" heldur hugsa í "hvernig getum við gert þetta"

Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 10:49

8 identicon

Marinó - viltu ekkert gefa út á þá hugmynd að þeir sem græddu á hlutabréfum í uppganginum (sem nú er almennt viðurkennt að átti ekkert skylt við raunverulegan vöxt) fái minni afslátt af lánaskuldum sínum en 20%?

Er ekki svolítið óréttlátt, að sumir græði á bólunni, og svo aftur þegar bólan springur. Ég sé enga ástæðu til þess að vera með almennar aðgerir til þess að vernda þá sem græddu, þegar vel er hægt aðkomast hjá því. Ég er annars frekar hrifinn af þessari 20% hugmynd, en með "smá leiðréttingum".

ragnar (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 14:23

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ragnar, svo ég endurtaki það enn og aftur.  Ég er fyrst og fremst að fókusa á húsnæðislánin.  Ég vil að auki verja almennan sparnað fólks á hvaða formi sem er.  Þeir sem voru í fjárfestingum verða að bera sína klafa sjálfir.

Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband