Leita í fréttum mbl.is

Lögbundinn sparnaður tapast - valfrjáls ekki

Mikið er ég ánægður að sjá gagnrýni Kára Arnórs Kárasonar í þessari frétt Morgunblaðsins.  Ég hef verið eins og biluð plata að benda á þá mismunun sparnaðarforma sem fólst í setningu neyðarlaganna.  Með þeim var sá valfrjálsa sparnaðarins, sem fór inn á bankabækur, tryggður upp í topp, en allur annar sparnaður skilinn eftir óvarinn.  Þar með hluti lögbundins lífeyrissparnaðar.  Ég segi "hluti" vegna þess að sumir lífeyrissjóðir eru tryggðir í bak og fyrir með ríkisábyrgð, meðan aðrir verða að treysta á góðan rekstur og góða ávöxtun.

Ég efast um að þessi mismunun sparnaðarforma standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og tek heilshugar undir með Kára Arnóri um rétt gæti verið að reyna á réttmæti laganna.  Getur það staðist að valfrjáls sparnaður á einu formi megi njóta meiri verndar en valfrjáls sparnaður á öðru formi.  Hver er munurinn að leggja séreignasparnað inn í banka og leggja pening inn á bankabók.  Sama aðilanum er falin varsla fjárins, en lögin mismuna sparifjáreigandanum.  Síðan má ekki gleyma því, að settir voru yfir 200 milljarðar inn í peningasjóði þessara sömu banka, aftur virðist það gert í þeim tilgangi að mismuna sparifjáreigendum.

Á blaðamannafundum á fyrstu dögum eftir bankahrunið í haust komu þáverandi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra fram og fullyrtu að lífeyrir landsmanna yrði varinn.  Það sem komið hefur á daginn, er að lífeyrir þingmanna og ráðherra var varinn!  Lífeyrissjóðir þeirra eru nefnilega tryggðir í bak og fyrir af ríkissjóði.  Það skiptir engu máli hver staða þessara sjóða er, ríkið bætir það sem upp á vantar.  Sama gildir um aðra opinbera sjóði.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki þurfa að skerða greiðslur til sjóðfélaga, þar sem ríkið bætir honum tap sitt.  Þetta á EKKI við um almenna lífeyrissjóði, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og séreignasjóði.  Hjá þessum sjóðum þurfa sjóðfélagar að bera tapið.

Fleiri sparnaðarform njóta heldur ekki verndar.  Mér hefur verið tíðrætt um þann sparnað sem fór í að koma sér þaki yfir höfuðið eða myndast í fasteignum landsmanna.  Ég hef lagt milljónir á milljónir ofan við það að búa fjölskyldu minni heimili, en það þykir besta mál að þessar milljónir tapist.  Eins á við um hlutafé.  Fjölmargir einstaklingar settu sparnað sinn í hlutafé í fyrirtækjum.  Ekki endilega til að græða einhver ósköp á því, heldur til að taka þátt í atvinnuuppbyggingu.  Stór hluti af þessum sparnaði er tapaður. 

Við skulum ekki gleyma því, að öll þessi sparnaðarform fólu í sér áhættu, en öll þóttu traust upp að vissu marki.  Við það að taka eitt þeirra út og verja það í topp, var einum fámennum hópi (samkvæmt orðum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í Silfri Egils) ofurríkra sparifjáreigenda afhentir hundruð milljarða á silfurfati.  Almenningur í landinu þarf aftur að sjá lögbundinn sparnað sinn brenna upp.  Furðuleg er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Ég hef heyrt þau rök, að það hafi verið nauðsynlegt að verja innistæðurnar, því annars myndi fólk aldrei treysta bönkunum aftur.  Ég held að það sé bara góð ástæða fyrir því, að fólk treysti bönkunum ekki.  Að minnsta kosti ekki strax.  Bankarnir þurfa að ávinna sér traust aftur.  Þeir eiga ekki mitt traust og hafa ekkert sýnt til að ávinna sér það traust.  Aðeins einn banki hefur komið með einhverja hugmyndir að lausn greiðsluvanda húsnæðislántakenda.  Ég veit ekki hvað hinir hafa verið að gera síðustu mánuði.  Ég hef ekki séð nein úrræði.  Ég hef ekki séð neinn vilja til annars en að sjúga til sín hverja einustu krónu sem er á sveimi.

Og hvað viðkemur stjórnvöldum, þá er furða mín ennþá meiri.  Geir og Björgvin sögðu í október að verja þyrfti heimilin.  Jóhanna og Steingrímur töluðu um að slá skjaldborg um heimilin.  Það eina sem ég hef séð, er að ég á sífellt minna eftir til að mæta útgjöldum heimilisins, þegar bankarnir eru búnir að fá sitt.  Heimilin hafa ekki verið varin.  Um þau hefur engin skjaldborg verið slegin.  Varnir felast í því að fólk sé öruggt með húsnæðið sitt og afkomu. Stjórnvöld hafa stuðlað að hvorugu.


mbl.is Lífeyrisréttindi skerðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Minn lögbundni sparnaðar var í Íslenska lífeyrissjóðnum.  Ávaxtaður í LÍF VI þar sem einungis áttu að vera ríkisskuldabréf og aðrir skotheldir pappírar.  Þessi LÍF VI leið var ætluð fyrir 65 og þá sem ekki vilja taka áhættu enda ávöxtunin lág og örugg nánast verðtryggð.   Breytti yfir í þessa leið 2006 þegar ég taldi að ávöxtuni á hlutabréfamarkaðnum myndi enda með ósköpum. 

Ég fékk bréf frá ÍL í desember s.l. þá var tilkynnt um 21% tap á LÍF VI sem er öruggasta leiðin, ríkisskuldabréf og verðtrygging.  Í bréfinu sagði að ótrúleg atburðarás í kjölfar setningar neyðarlaganna 6. október hefði orsakað tapið (sem er nú reyndar nær 30% í raun).  Þeir höfðu gert þau mannlegu mistök að fjárfest í skuldabréfum bankanna og smávegis í Samson og Baugi.

Minn frjálsa sparnað hafði ég frá 2004 talið best varðveittan á gjaldeyrissreikningum, ég hafði ekki það fjármálavit að hefja stórtækar lántökur í þeim tilgangi að taka stöðu með krónunni á sama tíma og ég taldi að sparnaðurinn yrði best geymdur í erlendri mynt.  Því fór sem fór raun ávöxtunin á minn litla frálsa sparnað varð 60-70%.  Ég hef alltaf verið á því að ég eigi að fá að ávaxta sjálfur  þessi 12% sem lög skylda mig til að láta renna til lífeyrisjóðs.

Magnús Sigurðsson, 26.3.2009 kl. 10:21

2 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Góð grein hjá þér eins og oftast.

Ég hef haldið því fram að þessi mismunun standist ekki lög, þrátt fyrir mitt litla vit á lögum.

Þar sem 10 lögfræðingar koma saman og leggja mat á sama mál fást stundum 10 mismunandi niðurstöður. 

Ég tek undir með Magnúsi Sig., ég vil fá að ávaxta sjálfur mín 12% og standa og falla með því, aðrir geta svo haft sinn valmöguleika.

Páll A. Þorgeirsson, 26.3.2009 kl. 10:48

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Friðrik, í Bandaríkjunum er þegar komin af stað umræða um að bæta almennum hlutabréfaeigendum tap sitt.  Ég vil gera greinarmun á þeim og fagfjárfestum.  Vissulega er oft lítill munur þar á, en við megum samt ekki gleyma því að það er munur.

Annars er ég samt fyrst og fremst að tala um að gæta eigi jafnræðis.  Annað hvort tapa allir eða allir eru varðir.

Marinó G. Njálsson, 26.3.2009 kl. 10:54

4 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Góður pistill sem vekur upp spurningar um frelsi í séreignarsparnaði.  Fólk segist vilja ráða ávöxtun sinni sjálft.  Þessu er ég sammála að ákveðnu marki. 

Vandamálið er að þegar að kemur að langtímaávöxtun þá tekur fólk sem hefur allt annað að hugsa um en slíka hluti rangar ákvarðanir og verstu tímunum; þetta þekki ég af margra ára reynslu við vinnu í fjármálageiranum. 

Auk þess hafa margar leiðir verið í boði þannig að töluvert val hefur verið í boði.  Kynningin á þeim hefur hins vegar verið slök, afar slök.

Oftast er talað um að hlutabréf veiti bestu ávöxtunina fyrir þolinmóða fjárfesta - aldrei er talað um að ávöxtun hlutabréfa einskorðast að mestu við ákveðin tímabil.  Það hefur gerst að hlutabréf hafi veitt afleitta ávöxtun í mörg ár.  Því miður er það að upphaf slíkra tímabila er einmitt þegar að almenn "viska" um ávöxtun hlutabréfa nær toppi.

Bendi á þennan hlekk máli mínu til stuðnings:  http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2001/03/22/godsognin_um_hlutabref/

Már Wolfgang Mixa, 26.3.2009 kl. 11:02

5 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég er sammála því að stjórnmálamenn og ríkisstarfsmenn eigi ekki að njóta neinna sérréttinda. Sérstaklega ekki stjórnmálamennirnir. Hugsunin á bak við ábyrgð ríkisins á lífeyri ríkistarfssmanna, er byggð á þeirri gömlu hugmynd að ríkisstarfsmenn væru svo illa launaðir að það þyrfti að bæta þeim það upp með tryggari vinnu og öruggum lífeyri. Nú eru ríkisstarfsmenn hins vegar ekkert ver launaðir en aðrir , svo þessi ábyrgð ætti að falla niður.

Sigurjón Jónsson, 26.3.2009 kl. 11:04

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það sparnaðarform að leggja fyrir í lífeyrissjóði sem eru með samtryggingarformi, ætti að vera jafngilt sparnaðarform og að eiga á reikningi á eigin nafni. Gott að KAK skuli vekja athygli á málinu og þar með víkka út hugtakið sparnaður.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.3.2009 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband