Leita í fréttum mbl.is

Afleiðing af reglubreytingu 30. júní 2003 - Blame it on Basel, taka tvö

Ég hef nokkrum sinnum bent á að þensluna í þjóðfélaginu sem síðan varð að útrásinni megi (meðal annars) rekja til reglubreytinga sem komu í framkvæmd 1. júlí 2003.  Daginn áður gaf FME í samráði við Seðlabankann út nýjar reglur nr. 530/2003 um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.  Reglurnar eru byggðar á svo kölluðum BASEL II reglum (The New Basel Capital Accord) Alþjóðagreiðslubankans (Bank of international settlements) frá 2001.  Ég hafði svo sem aldrei svart á hvítu staðfestingu á þessari tilgátu minni, en nú sýnist mér sem ríkisskattstjóri hafi komið með þessa staðfestingu.

Ég skýrði þessa tilgátu mína í færslunni Blame it on Basel frá 15.4.2008, en þar segi ég m.a.:

Árið 2001 var gefin út endurskoðuð og mun ítarlegri útgáfa [reglum um eiginfjárstýringu] sem gengur undir heitinu The New Basel Capital Accord eða Basel II.  Í þessari nýju útgáfu voru gerðar ýmsar breytingar á kröfum til áhættustjórnunar og ætla ég ekki að þykjast þekkja þær allar.  Þó veit ég af tveimur mikilvægum breytingum.  Önnur snertir störf mín sem ráðgjafa, en hún snýst um rekstraráhættu, og hin snýr að kröfu um eiginfjárhlutfall útlánastofnana og er líklegast völd af öllum þeim vandræðum sem hafa verið að hellast yfir fjármálakerfi Vesturlanda undanfarið ár eða svo.

Bæði í útgáfunni frá 1988 og þeirri nýju er notast við áhættustuðul til að draga úr eða auka eiginfjárkröfur.  Í 1988 reglunum giltu mun strangari reglur um t.d. hvaða veðlán gátu verið með "afslætti" en í nýju reglunum.  Þannig voru það fyrst og fremst lán á fyrsta veðrétti sem gátu veitt slíkan "afslátt", en í reglunum frá 2001, þá fá öll lán til einstaklinga með veði í íbúðarhúsnæði 50% afslátt frá kröfum um eiginfjárhlutfall.  Auk þess lækkuðu kröfur vegna útlána til "traustra" fyrirtækja úr 100% niður í 50%.  Þessum reglum var hrint í framkvæmd hér á landi með reglum Seðlabankans um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja nr. 530/2003 frá 30. júní 2003.  Með reglunum var útlánageta fjármálafyrirtækja nokkurn veginn tvöfölduð á einni nóttu.  Bankar sem áður gátu lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigin fé, gátu nú lánað 200 kr. gegn þessum 8 kr. til "traustra" fyrirtækja eða gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði.  Á móti var gerð stífari krafa til greiðsluhæfi lántakenda.

Hér á landi gerðist það til að byrja með að útlán til fyrirtækja jukust, sem m.a. dró vagninn í landvinningum fyrirtækja erlendis og viðskipti í Kauphöllinni urðu líflegri.

Nú hefur ríkisskattstjóri sem sagt staðfest að bankarnir juku gríðarlega strax árið 2003 útlán sín "til "traustra" fyrirtækja".  Síðan má ekki gleyma því að lán á milli banka voru einnig auðvelduð, sem þýddi betra aðgengi fjármálafyrirtækja að lánsfé.

Tilgáta mín á sínum var að það hefðu verið breytingar á regluverki vegna eiginfjárkröfu sem hafi verið valdar að hinni miklu þenslu sem hér varð frá árinu 2003 og endurspeglaðist m.a. í húsnæðislánunum árið 2004.  Mér sýnist sem tölur ríkisskattstjóra bakka þá tilgátu mína.  Því segi ég enn og aftur:  Blame it on Basel.

Mér finnst vera kominn tími til, að menn fari að skoða gaumgæfulega hlut Basel-nefndar Alþjóðagreiðslubankans í aðdraganda fjármálakreppunnar.  Ég tek það fram að Basel II regluverkið er í flesta staði til mikilla bóta, sé rétt eftir því farið.  Í mínum huga var tvennt í Basel II sem klikkaði.  Fyrra atriðið er að of skarpt var farið í að lækka áhættustuðul útlána.  Hann var lækkaður úr 1,0 vegna lána til "traustra" fyrirtækja og gegn veð í húsnæði niður í 0,5 með einu pennastriki árið 2001 (kom í framkvæmd hér 2003) og síðan niður í 0,35 árið 2005 (kom til framkvæmda hér 2. mars 2007).  Þarna hefði verið betra að taka mörg lítil skref á 10 - 15 árum, ef ekki lengri tíma.  Þar með hefði orðið hægfara aðlögun í staðinn fyrir að allt í einu jókst peningamagn í umferð í stóru stökki.  Síðara atriðið er hve háður útreikningur á eiginfjárkröfum í Basel II er mati matsfyrirtækjanna á fyrirtækjum og verðbréfum.  Matsfyrirtækjunum var annars vegar falið allt of mikið vald, sem þau stóðu alls ekki undir, og þeim var gefinn allt of stuttur tími.  Því varð niðurstaðan eins og oft áður: "rubbish in, rubbish out". 

En ekki bara það.  Eins og sagði, þá er rétt útfærsla á Basel II reglunum til mikilla úrbóta, en það kostar vinnu og frjálsræðið var ekki eins mikið og áður.  Því fóru fjármálafyrirtæki þá leið að búa til pappíra sem hægt var að versla með framhjá Basel II reglunum.  Áður en Basel II reglurnar komu til, þá var vottur af slíkum pappírum, en það breyttist svo um munaði.  Markaður sem varla mældist árið 1999 er í dag talin nema 516 þúsund milljörðum dollara! (Heimsframleiðslan er talin 56 þúsund dollarar.)  Þetta er markaður með kaup og sölu á alls konar afleiðum, skuldatryggingum og hvað þetta nú það heitir og allt framhjá öllu eftirliti.  Vissulega er það ekki Basel II að kenna að þetta gerðist, þar sem það var hverju landi í sjálfsvald sett að hindra myndun þessa "hliðarmarkaðar", en menn fóru þessa leið til að komast hjá eftirlitinu og hömlunum sem reglurnar settu.

Það er kaldhæðni að reglurnar sem áttu að bæta regluverk fjármálakerfisins eiga líklegast stærstan þátt í því að setja fjármálakerfið á hliðina.  Ekki vegna þess að regluverkið hafi ekki verið nógu gott.  Heldur vegna þess að fjölmargir stórir aðilar töldu sig ekki þurfa að vinna eftir því.


mbl.is 15.685 milljarða skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það er nefnilega svo stuttur þráðurinn að siðleysinu í viðskiptaheiminum. Siðleysið er keyrt áfram að græðgi eða til eigin framdráttar í velgengi að öflun fjármuna, hvað sem það kostar. Skynsamir en samvikslausir einstaklingar hafa ekkert gert annað en kollvarpa öllu sínu umhverfi fyrir rest. En það er kaldhæðnislegt að allir hagfræðingar háskólans sem nú mótmæla niðurskurði lána láti það í friði og fræða okkur frekar um þetta BASEL kerfi.

Haraldur Haraldsson, 18.3.2009 kl. 14:35

2 identicon

Hver heimilaði þessa reglubreytingu, hvaðan eru þær, innan úr hvaða holu? Maður á ekki orð að gera þetta svona á einni nóttu. Vissi Davíð af þessu og Sjálfstæðisflokkurinn? Var Birgir Ísleifur gunnarsson að vinna verkin fyrir Samtök atvinnulífsins og frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins? Þessar upplýsingar þurfa liggja á lausu fyrir kosningar svo heilaþvegna liðið geti breytt um skoðun á því hvað það á að kjósa.

Valsól (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 20:08

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ef við getum fengið staðfestingu frá ríkisskattstjóra við þessari tilgátu er ég sammála því að þarna er nokkuð augljós skýring á þessu aukna fjármagni sem fór í gang.

Haraldur Haraldsson, 18.3.2009 kl. 21:03

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Valsól, Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) og ýmsar "undirstofnanir" hans gegna eiginlega því hlutverki að vera banka seðlabankanna eða eins og segir á heimasíðu bankans: 

The Bank for International Settlements (BIS) is an international organisation which fosters international monetary and financial cooperation and serves as a bank for central banks.

The BIS fulfils this mandate by acting as:

  • a forum to promote discussion and policy analysis among central banks and within the international financial community
  • a centre for economic and monetary research
  • a prime counterparty for central banks in their financial transactions
  • agent or trustee in connection with international financial operations

The head office is in Basel, Switzerland and there are two representative offices: in the Hong Kong Special Administrative Region of the People's Republic of China and in Mexico City.

Established on 17 May 1930, the BIS is the world's oldest international financial organisation.

As its customers are central banks and international organisations, the BIS does not accept deposits from, or provide financial services to, private individuals or corporate entities.

Seðlabanki Íslands er aðili að BIS fyrir hönd Íslands.  Þar á sér stað nær öll stefnumótun varðandi regluverk fjármálageirans og reglur sem þar eru samþykktar er ætlast til að aðildarlöndin innleiði.

Verkefni Basel nefndarinnar er fjármálaeftirlit.  Markmið reglna frá nefndinni er að stuðla að "monetary and finacial stability" eins og segir á síðu nefndarinnar.  Dæmi svo hver fyrir sig um hvernig til tókst.

Marinó G. Njálsson, 18.3.2009 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband