Leita í fréttum mbl.is

Ofurhagfræðingur sammála Hagsmunasamtökum heimilanna

Mig langar að fá lánað hér efni frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.  Hann skrifar á eyju-blogginu í færslunni Ofurhagfræðingur sammála Framsókn að "ofurhagfræðingurinn" Nouriel Roubini telji að eina skynsamlega sem hægt er að gera í húsnæðislánavandanum sé flöt niðurfærsla höfuðstóls lánanna.  Roubini var uppnefndur "doktor dómsdagur", þegar hann kom ítrekað fram og varaði við fyrirsjáanlegu hruni bankakerfisins meðan allir aðrir voru uppveðraðir af "efnahagsundrinu".

So what can the government do? The easy part is lowering interest rates and buying toxic assets. The hard part, he says, will be tackling housing. Roubini says that the housing market, like a company restructuring in bankruptcy, needs to have “face value reduction of the debt.” Rather than go through mortgages one by one, he says reduction has to be “across the board…break every mortgage contract.”
 
Hvað getur þá ríkisstjórnin gert? Auðveldi hlutinn er sá að lækka vexti og kaupa eitraðar (óseljanlegar) eignir. Það erfiða, segir hann, er að fást við húsnæðismálin. Roubini segir að húsnæðismarkaðurinn, rétt eins og fyrirtæki sem endurskipulagt er við gjaldþrot, þurfi „nafnverðslækkun skulda” Fremur en að skoða húsnæðislán hvert fyrir sig þarf ,,flata niðurfellingu…rjúfið hvern einasta húsnæðislánasamning.”

Hagsmunasamtök heimilanna, og áður mörg okkar sem eru þar í forsvari, hafa krafist leiðréttingu á höfuðstóli húsnæðislána. Það sé ekki um annað að ræða, ef koma á í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna sem muni síðan hafa í för með sér víðtæk áhrif fyrir fyrirtæki og samfélagið í formi minnkandi samneyslu, snertrar opinberar þjónustu og flutnings fólks úr landi í stórum stíl.

Sjálfur hef ég skrifað óteljandi færslur og athugasemdir um nauðsyn þess að koma til móts við húsnæðiseigendur vegna mikillar hækkunar höfuðsstóls lána og aukinnar greiðslubyrði.  Fyrsta færsla um þetta mál á þessum nótum er frá 28.9.2008.  Þar segi ég:

[R]íkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.  Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega.  Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna.

Síðan hafa komið alls konar tillögur, en markmið þeirra allra er að færa höfuðstól og greiðslubyrði lána niður svo fólk geti staðið í skilum, bankarnir fengið peninga inn í veltuna og komið verði í veg fyrir fjöldagjaldþrot og brunaútsölur.

Hér fyrir neðan eru nokkrar krækjur frá mér:

Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning

Tillögur talsmanns neytenda

Hinn almenni borgari á að blæða

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

Nú hef ég sem sagt fengið stuðning (samkvæmt færslu Sigmundar Davíðs) frá ekki ómerkari manni en "doktor dómsdegi" Nouriel Roubini.  Sýnist mér það vera til merkis um að vert sé að gera meira en að hugsa um þessa leið.  Það þarf að útfæra hana og hrinda í framkvæmd.

Nú áður en einhver fer að tala um að greiða skuldir óreiðumanna, þá snýst þetta ekki um það.  "Óreiðumenn" eru um allt í samfélaginu (samkvæmt skilgreiningu ömmu Davíðs Oddssonar) og þeim verður ekki "bjargað" með svona aðgerð.  Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir að veltan í samfélaginu dragist saman niður í ekki neitt.  Þetta er spurningin um að öll sparnaðarform séu meðhöndluð á sama hátt.  Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir mestu fjöldagjaldþrot sem þjóðin hefur upplifað.

Tekið skal fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei nefnt flata 20% niðurfærslu heldur viljum við:

  • að sett verði afturvirkt þak á verðbætur, þannig að þær geti hæst verið 4% á ári frá 1. janúar 2008. 
  • að öllum verðtryggðum húsnæðislánasamningum verði breytt þannig að þetta þak verði sett inn í þá. 
  • að sett verði þak á vexti, þannig að ekki verði hægt að sækja bætur fyrir verðbólguna með hærri vöxtum. 
  • að boðið verði upp á að breyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán miðað við upphæð höfuðstóls á útgáfudegi.  Verðbætur fram til 1. janúar 2008 fylgi verðbólgu, en eftir það komi 4% verðbótaþakið. 
  • að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði (og skiptir þá ekki máli hver eignin er)
  • samfélagslega ábyrgð lánveitenda 
  • að ekki sé hægt að elta fólk ævilangt vegna skulda heldur virki fyrningarfrestur þannig að skuld fyrnist við lok hans.  Það er út í hött, að hægt sé að rjúfa fyrninguna endalaust og halda fólki þannig í ævilöngu skuldafangelsi.

Við teljum að ávinningur af þessum aðgerðum verði:

  • Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta er afstýrt
  • Unnið er gegn frekara hruni efnahagskerfisins
  • Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
  • Líkurnar á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast aukast, þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
  • Þjóðarsátt skapast um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
  • Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný
Við teljum að ofangreindur ávinningur skili mun meira í þjóðarbúið og til fjármálafyrirtækja, en hin leiðin.  Ástæðan er einföld:  Vegna lækkandi húsnæðisverðs munu lánveitendur hvort eð er þurfa að afskrifa háar upphæðir.  (Raunar er þegar farið að reikna slíkt inn í virði lánasafna nýju bankanna.) Við sjáum ekki muninn á því að núverandi eigendur, sem margir hafa verið tryggir viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna (og forvera þeirra) í áratugi, njóti þessara afskrifta eða að einhverjir aðrir njóti þeirra.  Við teljum að það sé mikilvægara fyrir viðskiptabankana og sparisjóðina að halda viðskiptavinum sínum með því að koma til móts við þá, en að hrekja þá í burtu, þess vegna úr landi.  Það er nefnilega það sem gerist, ef gjaldþrotaleiðin verður farin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Marinó!  Ég átti íbúð (eða 30 til 40% í henni fyrir 6 okt 2008)...nú á ég 5-8 milljóna skuld?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.3.2009 kl. 22:59

2 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Þú ert náttúrulega ofurbloggari ;)

Þórður Björn Sigurðsson, 15.3.2009 kl. 01:56

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Roubini Segir alls ekki það sama og framsókn. Þessi samlíking Sigmundar er villandi og svo lokar hann fyrir komment. Ekki sérlega fagmannlegt.

Roubini er eingöngu að tala um húsnæðisskuldir en ekki aðrar skuldir. Hann er ekki að tala um verðtryggingu heldur leiðréttingu á misgengi sem orðið hefur á milli verðmæta húsnæðis og þeirra skulda sem á þeim hvíla.

Marínó mér finnst ekki sæmandi að þú takir undir bullið í Sigmundi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.3.2009 kl. 02:52

4 Smámynd: Offari

Þótt Sigmundur sé framsóknarmaður er ekki þar með sagt að hann bulli. Þessi flati niðurskurður kemur flestum vel. Skuldsett atvinnulífið getur mögulega tórað, Stór hluti skuldsettra heimila bjargast frá gjaldþroti. Við þessir skuldlausu getum þá kannski eignast þak yfir höfuðið því fasteignaverðið lækkað þegar ákvílandi skuldir minnka.

Hugsanlega tapa skuldlausir húseigendur á lækkun fasteinaverðs en þeir munu samt áfram eiga hús þótt verðmætið sé annað. Það tel ég varla skipta máli hvers virði húsið er ef það er notað sem íverustaður.

Húsaleiga mun þá líklega líka lækka því flestir miða leiguna við afborganir á lánum þú nú þurfi margir leigusalar að borga með húsnæðinu. Mér er sama hvaðan gott kemur og þigg það góða sem er í boði.

Vissulega má setja þak eins og Marinó hefur nefnt. Það gæti frekar sætt þjóðina því einhvernveginn er mér og eflaust fleirum ekkert vel við að afskrifa skuldir þeirra sem maður telur vera valdir að hruninu.

Að afneita góðri hugmynd vegna þess að hún kom ekki frá rétta flokknum finnst mér vera fáránlegt. Ætlum við virkilega að láta pólitíkískar deilr koma í veg fyririr framfarir hér á landi?

Ég met alla þá sem eyða kröftum sínum í að leita að lausnum en er lítið hrifinn af þeim sem eyða kröftum sínum í að niðurlægja góðar hugmyndir á þeim forsemdum að þær komi ekki frá rétta flokknum.

Marínó þú hefur verið duglegur að leita að lausnum og ég vona að þér takist að koma þeim á framfæri. Ég þakka þér fyrir það sem þú hefur reynt og hvet þig til að halda áfram.

Offari, 15.3.2009 kl. 09:15

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Við þær aðstæður sem nú hafa skapast  er mikill grundvallarmunur á því að afnema verðtryggingu með 4% þaki og tillögum framsóknar um að  færa niður höfuðstól lána og halda þá í fulla í verð tryggingu til að byrja með eins og framsókn vill.

Munurinn liggur í því að á næstu misserum mun hagkerfið þurfa mikið af nýju fé sem mun að líkindum valda verðbólguskoti, það gæti verið 10% eða jafnvel 50% verðbólga undirliggjandi út af þessu. Ef ekki verður hægt að lána peninga nema með max 8% vöxtum eins og tilögur HH gera ráð fyrir mun einfaldlega eingin lána peninga fyrr en verðbólguskotið er yfirstaðið sem er tveimur til þremur árum eftir að nýju peningarnir eru settir í umferð. Þetta er stór hluti vandans sem Gordon Brown og fleiri eru að glíma við núna. Það er að segja, búið að búa til peninga en það þorir eingin að lána þá.

Með öðrum orðum þá megum við ekki henda verðtryggingunni núna þegar hún gæti verið lausnin á vandanum þó hún vissulega hafi verið hluti að því sem bjó til vandan í fortíðinni. þegar verðbólguskotið er búð eftir 3 ár eða svo má fara að huga að afnámi verðtryggingar.

Ég er því samt sammála að 20% lækun höfuðstóshúsnæðislána er miklu gáfulegar en að fara í að deila út bótum eins og VG og SF stefna orði í að gera. Það hjálpar að vísu þeim sem minst meiga sín sem er vel en það lagar ekki ónýtan fasteignamarkað nema á mjög löngum tíma.

Guðmundur Jónsson, 15.3.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Hjalti Tómasson

Mætti ekki taka verðtrygginguna út úr greiðsluskyldu tímabundið, reikna hana til hliðar við lánið og safna henni upp meðan verið er að finna lausn sem kemur sem flestum best ?

Ef ég skil rétt þá er engin verðmætaaukning bak við verðtrygginguna, aðeins bókhaldsleg skilgreining á virði peninganna sjálfra ( ég vona ég skilji þetta rétt ) og hún var sett á tímabundið á tímum óðaverðbólgu sem ekkert réðist við um leið og verðtrygging var sett á laun.

Verðtrygging launa var svo tekin af ( mig vantar útskýringu á því þrátt fyrir leit,um það virðast menn ekki á eitt sáttir ) Helst er að skilja að með því hafi átt að ná verðbólgunni niður eða hvað ?

Á sama hátt og bankar gátu framreiknað hagnað, m.o.ö viðskiptavild ( bókhaldslegt trikk ) sem bankarnir notuðu hiklaust til að gera áætlanir sínar og var ekki til staðar þegar átti að nota hann, er þá ekki hægt að framreikna verðtrygginguna og gera áætlanir út frá því en láta fólk borga af því sem það tók að láni en ekki viðbótaláni sem bankarnir ákváðu einhliða að fólk skyldi bera, með stuðningi stjórnvalda. Bankar og stjórnvöld þurfa að leysa það dæmi en ekki láta fólk bera kostnaðinn af getruleysi stjórnvalda við að hafa stjórn á fjármálakefinu íslenska.

Ef til vill er þetta út í hött en nér verður vonandi fyrirgefið, ég er varla vitlausari en þeir sem settu þetta kerfi á.

Hjalti Tómasson, 15.3.2009 kl. 10:51

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jakobína, ég er ekkert að fjalla um hugmyndir Framsóknarmanna.  Ég er að fá lánaða tilvitun Sigmundar Davíðs í Roubini, tilvitnun sem tekur undir hugmyndir okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Bentu mér á hvar ég minnist á tillögur Framsóknar.

Mergur málsins er að hér er allt að fara til andskotans.  Fólk er að missa heimilin sín.  Bankarnir eru farnir að bjóða fólki að leigja aftur, en það er ætlast til þess að leigan jafngildi ÖLLUM kostnaði af húsnæðinu, þ.e. opinberu gjöldum, tryggingum og afborgunum af öllum áhvílandi lánum.  Þetta sáum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir og sendur því eftirfarandi umsögn um frumvarp sem er til meðhöndlunar hjá Alþingi:

Í 6. gr. segir: „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 87. gr. getur skiptastjóri með samþykki veðhafa heimilað skuldara að búa áfram í húsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði. Fyrir þau afnot skal hann greiða leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni, en það sem umfram er gengur til greiðslu krafna sem tryggðar eru með veði í eigninni. Heimild þessi fellur niður 1. mars 2010, en ákvörðun sem skiptastjóri hefur tekið fyrir þann dag stendur til loka þess tíma sem ákveðinn var“.  Hagsmunasamtök heimilanna telja óraunhæft að miða húsaleigu við þann ,,kostnað sem er af eigninni“, því viðkomandi hefur að öllum líkindum misst heimili sitt vegna þess að viðkomandi hafði ekki tök á að greiða þann kostnað „sem er af eigninni“.  Réttara væri að miða fjárhæð húsaleigu við það sem almennt tíðkast á leigumarkaði hverju sinni.  Einnig er vert að hafa greiðslugetu leigutaka í huga.  Eins hlýtur að teljast líklegt að kröfuhafi reyni frekar samningaleiðina við úrlausn mála liggi á annað borð fyrir að eingöngu sé hægt að vænast markaðsverðs fyrir leigu húsnæðis í kjölfar nauðungarsölu.  Ennfremur leggja Hagsmunasamtök heimilanna það til að skiptastjóri þurfi ekki samþykki veðhafa til að heimila skuldara að búa áfram í húsnæðinu. Sé ágreiningur um hvort skuldari búi áfram í húsnæði og / eða fjárhæð húsaleigu geti skiptastjóri eða skuldari skotið málinu til dómara. 

Okkar skilningur á orðunum "kostnað sem er af eigninni" innifelur vexti af því fé sem lagt hefur verið út vegna eignarinnar.

Marinó G. Njálsson, 15.3.2009 kl. 11:30

8 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Það er búið að verðbæta nóg Guðmundur.  Nú er komið að því að samningsaðilar deili áhættunni.

Þórður Björn Sigurðsson, 15.3.2009 kl. 11:57

9 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Umræðan á undanförnu hefur fyrst og fremst snúist um lækkun höfuðstóls á fasteignalánum almennings.  Ástæðan fyrir því er að skv. þeim upplýsingum sem ég hef þá stefnir í stórfellda niðurfellingu skulda fyrirtækja hvort sem er. 

Hins vegar virðist ríkisstjórnin og AGS hafa lítinn sem engan áhuga á að lækka höfuðstól fasteignalána almennings.  Þrátt fyrir að á síðasta ári hafi verðmæti lánanna aukist um 20-30% á meðan verðmæti fasteignanna hefur lækkað um 20%. Og bara eftir að versna á þessu ári. Allt út af verðtryggingunni og hrun krónunnar.

Við framsóknarmenn lögðum fram tillögur og líkt og SDG sagði í pistli sínum erum fyllilega tilbúin að ræða útfærslur á þeim.  En til að ræða þær þurfa menn að vera sammála um að fara þurfi í lækkun á höfuðstólnum, líkt og dr. Roubini segir.

Það hafa menn ekki enn þá verið tilbúnir að ræða, heldur aðeins greiðsludreifingu, frystingu, lengingu í lánum, hækkun vaxtabóta, og greiðsluaðlögun þar sem fólk fær að búa í hóflegu húsnæði (að mati ríkisins).

Bara endalaus lenging í hengingarólinni...

Eygló Þóra Harðardóttir, 15.3.2009 kl. 11:57

10 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég má til með að vekja athygli á frumvarpi um greiðsluaðlögun sem nú liggur fyrir Alþingi. En þar eiga menn kost á greiðsluaðlögun ef þeir eru Búskmenn fæddir á Íslandi og eru skuldlausir þegar þeir sækja um greiðsluaðlögun samkvæmt frumvarpinu. Þetta er mikil réttarbót amk. fyrir nefnda Búksmenn. Mér finnst að lögin hefðu líka átt að ná til þeirra Búskmanna sem látist hafa á Íslandi eftir 2050.

Eygló Þóra Harðardóttir hefur í málflutningi sínum á Alþingi viljað að ákvæðið næði einnig ti Íslendinga sem hafa stundað atvinnurekstur, en aðeins í málflutningi eftir er að greiða atkvæði um frumvarpið og koma verk hennar þá í ljós.

Samkvæmt skoðun meirihluta Alþingis eru þeir sem stundað hafa atvinnurekstur glæpamenn. Þetta er sérstök gæluskoðun forsetisráðherra.

Það eru fjöldi manna sem eru í enn fastir í kreppunni sem var í byrjun síðasta áratugar 20. aldar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 15.3.2009 kl. 12:24

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristján, Hagsmunasamtök heimilanna lögðu mikla áherslu á tvennt varðandi greiðsluaðlögunarfrumvarpið: 

1.  Allir ættu kost á greiðsluaðlögun

2.  Allar skuldir ættu að fara í greiðsluaðlögun en ekki bara skuldir utan veðraða.

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að verða við lið 2, en við eigum eftir að sjá hvað verður um lið 1.

Marinó G. Njálsson, 15.3.2009 kl. 13:33

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars er ég að horfa á Silfrið og ég verð bara að viðurkenna að ég óttast afleiðingarnar fyrir heimilin í landinu, ef málflutningur Árna Páls Árnasonar verður ofan á þegar kemur að aðgerðum fyrir heimilin.  Hann snýr út úr öllu sem sagt er og ber fyrir sig mismunun gagnvart erlendum kröfuhöfum.  Ég hef marg oft sýnt fram á að það er hægt að gera þetta allt innan þeirra afskrifta sem erlendir kröfuhafar hafa samþykkt.  Það sem meira er, það er líklegt að erlendir kröfuhafar fái meira í sinn hlut með því að afskrifa skuldir heimilanna, þannig að veltan í samfélaginu komist aftur af stað.  Þannig eiga fyrirtæki meiri möguleika á að greiða sínar skuldir og halda fólki í vinnu.

Marinó G. Njálsson, 15.3.2009 kl. 13:37

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Er Árni Páll bara ekki einn þeirra sem ekki sér stóru myndina, og því er ekki raunhæft að ætlast til að hann fjalli um málið af miklu innsæi.  Það dapurlega við þetta er að þetta virðist geta á við um vel flesta frambjóðendur allra stjórnmálaflokkanna.

Guðmundur Jónsson, 15.3.2009 kl. 13:56

14 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ágæti Marinó. Ég hef sérstaka aðdáun á þér og ber til þín sérstakt traust og þakklæti. Ert þú búinn að lesa nefndarálitið um greiðsluaðlögunina. Frumvarpið og þá einkum og sérilagi nefndarálitið ber þess óræk merki að það er samið sérstaklega fyrir kröfuhafa hvort það eru bankar eða hið opinbera. Nefndarmenn eru á glóðum af hræðslu við embættismenn hjá skattinum og ráðaneytunum.

Í nefndarálitinu er imprað á því að menn neyðist til að fara út í "svarta atvinnustarfsemi" og talið slæmt. Nefndarmenn eru þó sammála um að gera allt til að viðhalda þessu ástandi. Nefndarmenn eru fífl, sá er fífl sem er leiksoppur annara.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 15.3.2009 kl. 14:09

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristján, nei, ég hef ekki lesið nefndarálitið.  Sé þetta niðurstaðan, þá er hún sorgleg, þar sem stór hluti landsmanna eru í þeirri stöðu að vera með lítið fyrirtæki eða tekjuöflun meðfram starfi sínu.

Marinó G. Njálsson, 15.3.2009 kl. 15:18

16 identicon

Ítreka að ég styð tillögur ykkar í Hagsmunasamtökum Heimilanna. Hlustaði líka á SILFUR EGILS og fannst Árni Páll Árnason óttalega lokaður og þvergirðingslegur.  Og óttast líka útkomuna fyrir heimilin í landinu ef hann hefur e-ð með e-ð að gera þarna!  Óttast að ekkert verði gert í að bæta fólki gengistap og vísitölutap í gengis- og vísitölutryggðum skuldum.  Nema kannski fólki sem er nánast gjaldþrota.  Og það er óásættanlegt og bara óþolandi.  Fyrir utan það var nánast ekki hægt að hlusta á nokkurn mann þarna í SILFRINU af neinu viti, því sumt fólk talaði on´í alla  og yfir alla hina.  Merkilegt, um leið og pólitíkusarnir komu í SILFRIÐ fór öll hlustunin og eðlilega umræðan, sem hefur verið þar við lýði með lærðum sérfræðingum upp á síðkastið, norður og niður.  Maður tapar áttum þegar fólk talar ofan í alla og yfir alla eins og þarna. 

EE elle (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 17:29

17 identicon

EE elle (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 197
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband