Leita í fréttum mbl.is

Ávinningurinn skiptir máli, ekki kostnaðurinn

Mark Flanagan heldur áfram með þessa klisju.  Ekki er rétt að fara í 20% niðurfærslu íbúðalána, þar sem "[m]argir fengju aðstoð, sem ekki þurfa á henni að halda, og hún yrði afar kostnaðarsöm fyrir ríkið", eins og segir í frétt mbl.is.

Ég hef ítrekað bent á nokkur atriði í tengslum við þetta:

1.  Það var ekki spurt um það, þegar allar innistæður á innistæðureikningum voru tryggðar í topp, hvort þar ættu einhverjir innistæður sem ekki þyrftu á björguninni að halda.  Auk þess var það þessi aðgerð sem er aðalástæðan fyrir icesave deilunni.

2.  Þessi aðgerð þarf ekki að kosta ríkið neitt.  Kröfuhöfum gömlu bankanna er ætlað að gefa nýju bönkunum ríflegan afslátt innlendum lánasöfnum.  Mér telst til að þessi afsláttur sé eitthvað í námundann við 2.800 milljarða.  Íbúðalán landsmanna eru á bilinu 1.350 - 1.500 milljarðar og því eru 20% af þeirri tölu 270 - 300 milljarðar eða 9,5 - 11% af eftirgjöf erlendu kröfuhafanna.

3.  Það er lífsspursmál fyrir íslenskt efnahagslíf að veltan í þjóðfélaginu komist á meiri skrið.  Samkvæmt frétt í hádegisfréttum Bylgjunnar, þá dróst velta í ýmsum greinum smásöluverslunar saman um ríflega 50% í febrúar. Haldi þetta áfram verða afleiðingarnar ógnvænlegar í formi atvinnuleysis og fjöldagjaldþrota.  Síðan má ekki gleyma áhrifum þessa á tekjur ríkissjóðs í formi veltuskatta.

Það er mín skoðun, að rangt sé að horfa til kostnaðarins af því að færa niður íbúðalán.  Horfa þarf til ávinningsins af aðgerðinni.


mbl.is Svigrúm til stýrivaxtalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmar Örn Finnsson

Sæll Marinó.

 Ég er sammála þér um að umræða um tillögur Framsóknarflokksins hafa ekki orðið nægar og ekki sanngjarnar. Stundum þarf að eyða til að spara, hefur stundum verið sagt og ég held að það gæti verið tilfellið nú. Það sem gæti áunnist með því að fara í þessa framkvæmd virðist alveg gleymast og þegar upp væri staðið gæti þessi leið skilað okkur miklu meiru en það að gera ekkert nema lengja í lánum og frysta afborganir í einhvern tíma.

Skrifaði færslu um tillögurnar á bloggið mitt og vonast til að fá þar umræður á vitrænum nótum.

 Kv. Hólmar Örn Finnsson

Hólmar Örn Finnsson, 13.3.2009 kl. 12:57

2 identicon

Sæll Marínó.

Tökum punktana þína þrjá fyrir í röð.

1. Epli og appelsínur.

Trygging á innistæðum tryggði lánveitendur (almenning) gagnvart skuldurum (bönkum) sem voru á leiðinni á hausinn (og fóru á hausinn flestir). Almennt hefur innlán til banka verið álitin 100% örugg fjárfesting. Afleiðingar þess að almenningur hafi ekki lengur trú á slíkum innlánum myndi þýða að íslenska bankakerfið væri búið. Bara BÚÍÐ. Sjoppunni lokið, debit og kreditkort óvirk og greiða þarf öll laun í bein hörðum peningum. Ekkert lánsfé væri heldur að fá, innlán standa undir útlánum! Ríkið átti engra kosta völ um þessa björgun.

En það er ekki þar með sagt að ríkið muni á endanum bera þennan kostnað. Ríkið tók nokkrar eignir út úr gömlu bönkunum einnig (lán til innlendra aðila) og eignaðist þá jafnframt banka sem má síðar selja. Það er möguleiki að ríkið - á endanum - beri lítinn skaða af tryggingu innstæðna.

Hugmyndir Framsóknarmanna eru af öðru sauðahúsi. Nú á að gefa skuldurum eftir sínar skuldir. Hér er hreinlega verið að moka út peningum. Lánveitandinn er íslenskur almenningur, ýmist sem skattgreiðandi eða lífeyrissjóðsgreiðandi. Um er að ræða verulega tilfærslu á fjármunum.

2. Rangt.

Hvernig sem dæmið er reiknað þá endar íslenskur almenningur með því að borga þetta. Hvernig svo sem það er gert.

Ekki eru öll lán frá gömlu bönkunum og 'eftirgjöf' erlendra kröfuhafa hefur bara áhrif á þau. Sú eftirgjöf mun hinsvegar rýra verðmæti nýju ríkisbankanna sem ellegar ættu þessa 'eftirgjöf'. Reyndar virkar þetta þannig að ríkið þarf að setja meiri peninga inn í bankanna til að þeir séu starfhæfir. Já, ríkið borgar.

Ég set 'eftirgjöf' inn í gæsalappir þar sem þær tölur sem þú ert með eru afskriftir erlendra lánveitenda til gömlu bankanna. Megnið af þeim fjármunum sem þeir eru að 'gefa eftir' eru löngu glataðir og fóru ekki til nýju bankanna.

Íbúðarlánasjóður hefur svo lánið mikið undanfarin ár, svo og lífeyrissjóðir. Ertu með útlendinga sem vilja gefa peninga í þá niðurgreiðslu? Lendir þetta ekki alfarið á ríkinu?

Það er alveg sama hvernig á þetta er litið, hvernig sem menn rembast við að reikna annað, kostnaðurinn við þessa eftirgjöf fellur á ríkið (og mögulega lífeyrissjóði). Við borgum þetta. Það er engin leið til þess að láta þessar skuldir bara hverfa.

3. Rétt.

En hvorki þú né aðrir hafa komið fram með sannfærandi rök fyrir því að þessi aðgerð sé vænlegasta leiðin til að vinna bug á ástandinu. Þetta mun ekki koma í veg fyrir gjaldþrot margra einstaklinga og fyrirtækja en hinsvegar sliga ríkið það mikið að sértækar aðgerðir verða ófærar. Þá mun þetta kalla á verulega hækkun skatta sem takmarkar ábatann af þessari aðgerð fyrir marga.

Auðvitað eru ákveðnir aðilar í þeirri stöðu að þetta myndi breyta öllu. En þetta bjargar ekki öllum.



Mér í raun meinilla við að vera sammála núverandi ríkisstjórn um nokkurn hlut, en ég verð að taka undir afstöðu þeirra að sértækar aðgerðir til handa þeim sem mesta hafa þörfina sé rétta leiðin.


Þér er svo frjálst að vera ósammála.

- Ósammála

Ósammála (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 13:26

3 identicon

Jæja Ósammála og hver á svo að meta það hverjir hafa mesta þörfina? Og hvernig er þá þörfin metin?  Reikna með að í ansi mörgum tilfellum eru þetta ekki bara skuldir vegna íbúðakaupa.

mbk  

Viðar (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 13:44

4 Smámynd: Offari

Ég er að hugsa um að vera ósammála Ósammála. Nýju bankarnir kaupa skuldakröfur gömlu bankana með 50% afföllum. Þessi afföll gefa svigrúm til afskrifta. Með því að afskrifa strax er meiri möguleiki á að skuldarar geti staðið við skuldbyndingar sínar.

Nýju bankarnir þurfa fjárflæði til að geta gengið. Ef ekkert er að gert er hætt við því að fjárflæðið stöðvist því skuldarar geta ekki borgað sínar skuldir. Ef fjárflæðið stöðvast fara Nýju bankarnir á hausinn og þá fellur öllu súpan á ríkið.

Mér er skítt sama þótt ég komi til með að þurfa að borga hærri skatta því ég hef vel efni á því. Skuldarar hafa hinsvegar ekkert svigrúm til skattahækkana. Afskriftir skulda gefur skuldurum svigrúm sem þeir þurfa á að halda til að geta lifað. 20% sé ekki nóg en allt er betra en ekkert.

Offari, 13.3.2009 kl. 13:44

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Herra eða frú eða fröken Ósammála

Mikið er nú gott að ekki eru allir sammála.  Svo ég fari jafn skipulega í gegnum hlutina og þú, þá ætla ég að taka athugasemdir þínar líka í röð.  Ég skil að vísu ekki af hverju þú kemur ekki fram undir nafni, en það er annað mál.

1.  Trygging á innstæðum náði bara upp að EUR 20.887 eða sem svarar kr. 3.000.000.  Allt umfram það var áhættufé.  Þetta fé var því álíka öruggt, ef ekki óöruggara (miðað við aðstæður á fjármálamörkuðum) og eigið fé fólks í húsnæði sínu.  En gott og blessað að tryggja það að einhverju leiti, en af hverju að tryggja það upp í topp?  Af hverju var ekki sett þak, þannig að eingöngu var tryggt upp að GBP 50.000 eins og í Bretlandi?  Það hefði sparað ríkið háar upphæðir.

2.  Þessi aðgerð þarf ekki að kosta ríkið neitt.  Ég hef ítrekað bent á leiðir sem meira segja bæta stöðu ríkisins.  Það er rétt að ríkið ætlar að setja meiri peninga inn í bankana, en það kemur þessu máli ekkert við, nema ætlunin sé að nota "eftirgjöf" erlendu kröfuhafanna til að greiða hlut ríkisins. 

Það er ekki rétt hjá þér að "eftirgjöfin" hafi ekki farið til nýju bankanna.  Samkvæmt skýrslu Ólafs Garðarssonar, skiptastjóra (eða hvað á að kalla hann) Kaupþings, þá var andvirði lánasafns innlendra lán sem fært er yfir í Nýja Kaupþing kr. 1.410 milljarðar.  Síðan kemur afskriftarfærsla upp á kr. 934 milljarða og fyrir á afskriftarreikningi eru 19 milljarðar.  Ég fær ekki betur séð en þessi "eftirgjöf" fari til Nýja Kaupþings.  Sumt af þessu eru "afskriftir" vegna lána til starfsmanna Kaupþings, annað til félaga eigenda Kaupþings og eigenda eigendanna.  Hvernig væri bara að ganga aðeins harðar fram í þeirri innheimtu og þá er nóg eftir til að afskrifa lán heimilanna.

Varðandi Íbúðalánasjóð, þá eiga bankarnir íbúðabréf að verðmæti 135 milljarðar.  Þeir geta auðveldlega sett þessa 135 milljarða í afskriftahauginn og þá hefur Íbúðalánasjóður svigrúm til afskrifta hjá sér.

Varðandi lífeyrissjóðina, þá eru sjóðfélagalán um 10% af eignum, þannig að 20% afskrift væri 2% af eignum sjóðanna.  Sér ekki högg á vatni, þo þeir afskrifi þessa tölu.

Ríkið ætlar að leggja bönkunum til 385 milljarða.  Hvernig væri að bankarnir framselji ríkissjóði hluta af "afskrifuðu"útlánunum á móti þessu framlagi?  Þannig gæti ríkissjóður mögulega náð hluta af peningunum til baka.

3.  Fyrirgefðu, hvaða rök vantar.  Velta dróst saman um hátt í 60% í sumum  geirum smásölu í síðasta mánuði.  Ég legg mál mitt í dóm.

Því hefur aldrei verið haldið fram að niðurfærsla lána (20% eða eitthvað annað) bjargi öllum.  Þetta verður, á sama hátt og björgun innistæðna, til þess að færri þurfa sérmeðferð.

Ég hef líka bent á að hið mikla tap fólks í hlutabréfum þurfi að bæta upp að ákveðnu marki.  Mér finnst t.d. alveg jafnsanngjarnt að þeir sem áttu allt að sjö milljónum í hlutabréfum í bönkunum fái sömu björgun og þeir sem áttu á bilinu 3 til 10 milljónir í sparifé á einum reikningi.  Það er enginn munur á þessu tvennu.  Báðir hópar tóku þá kjánalegu áhættu að halda að bankarnir væru traustir og stæðust allar raunir.  Báðum skjátlaðist, en aðeins öðrum var bjargað.  Þetta er það sem heitir mismunun og ekkert annað.  Ég tek það fram að ég hvorki átti innistæður né skuldabréf og þó eigið fé mitt hafi lækkað mikið, þá sé ég fram á bjartari tíð og blóm í haga.

Marinó G. Njálsson, 13.3.2009 kl. 13:59

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það sem þarf að gera er að flytja öll lánin í Íbúðarlánasjóð, afnema verðtrygginguna og láta svo verðbólguna um að éta upp lánin þar til aftur kemst jafnvægi á þjóðarbúskapinn. Sú leið kemur í veg fyrir að það sé stjórnvaldsákvörðun að afskrifa lánin en hefur í raun sömu afleiðingu auk þess sem komið verður í veg fyrir að nýjir einkavæddir bankar geti startað svona lánabólu aftur þar sem ÍLS situr einn að íbúðarlánamarkaðnum. Þeir sem samt sem áður ráða ekki við að greiða af húsi sínu (það er ákveðinn hópur sem ekki er hægt að bjarga) missa þá heldur ekki meira heldur en húsnæði sitt þar sem Íbúðarlánasjóður tekur aldrei meira en húsnæðið, keyrir engan í gjaldþrot og býður fólki að leigja húsnæðið áfram. Þetta væri góð lending fyrir heimilin sem hægt væri að ná fram betri sátt um en tillögum Framsóknar.

Héðinn Björnsson, 13.3.2009 kl. 14:17

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

 Marinó, þetta endar alltaf með því að verða spurning hver á að taka á sig tapið. Og niðurstaðan virðist alltaf vera sú í hagkerfi vesturlanda að fjármagn/peningar séu svo heilagir að þá verði alltaf að verja með kjafti og klóm.

 Eitt besta merkið um þá hugsun eru stýrivextirnir á Íslandi sem verða að vera í okurhæðum til að sjá til þess að fjármunir innistæðueigenda rýrni ekki.

 Svo verður gaman að sjá hvort allar afskriftirnar, 50%in, skili sér þá til þeirra sem þurfa á því að halda, víst ekki má láta það renna til fólks sem hugsanlega þarf ekki á því að halda.

 Ég hef verið að reyna að koma fram þeirri hugsun að neytandinn sé endurreisn hagkerfisins mun mikilvægari en peningar. Þ.e að því fleiri neitendum sem við náum að bjarga frá því að verða skuldaþrælar næstu áratugina, því fyrr náum við hagkerfinu í gang.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 13.3.2009 kl. 19:13

8 Smámynd: Nonni

Héðinn hvernig mun verðbólgan éta upp lánin, hvað þarf að gerast?

Nonni, 13.3.2009 kl. 19:16

9 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Áfram Marínó.

Ef gripið hefði verið til þess strax í október að frysta vísitöluna við gildi fyrir hrun - þá hefði ekki þurft að grípa til leiðréttingarfærslu með því að færa niður höfuðstól verðtryggðra lána . .  sem nemur yfirskoti vísitölunnar.

Við erum ekki enn farnir að tala um að niðurfæra nafnvirði höfuðstóls lánanna eins og menn eru að gera í USA . . . þar sem engin verðtrygging er . .  að tvöfalda vandamálið . . . . .

Málið snýst um það að skapa forsendur fyrir því að neytendahagkerfið og framleiðsluhagkerfið geti farið í gang að nýju - og einungis fáar fjölskyldur og nokkur fyrirtæki þurfi sérmeðferð . . . .

Jafnræði verður virt og allir hagnast - - með því að markaðsvirkni leysi fólk frá ofþungri greiðslubyrði . . . . og komist verið hjá allsherjar hruni og greiðslufalli í kerfinu . . . .

. . . .  ef greiðslufall verður vegna þess að ekki er gripið til almennra aðgerða  með niðurfærslu þá mun ekki fást meira en 20% upp i kröfur og efnahagsveltan verður ekki svipur hjá sjón í 2-4 ár . . . . og fátæktargildra blasir við þjóðinni . .

Kannski þarf að lágmarki 30% niðurfærslu ef núverandi ríkisstjórn sinnir ekki þessu verkefni . . . og bíður fram yfir kosningar . .

Verði ekkert að gert fram á sumar þá er hrunið líklegasta niðurstaðan . . . . .

Benedikt Sigurðarson, 13.3.2009 kl. 22:50

10 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Er með eina nýrri frá Jóhönnu Sigurðardóttur (1. september 2004)

"Óréttlætið í verðtryggingunni - Með verðtryggingu er verulegum hluta áhættu vegna veðskulda og lánasamninga komið yfir á skuldara. Sömuleiðis kemur misvægi í þróun launa og verðlags illa við fjárhag skuldara, skekkir allar fjárhagsáætlanir heimilanna og hækkar oft verulega með sjálfvirkum hætti höfuðstól lána. Þekkt er líka að ýmsir þættir sem við höfum engin áhrif á eins og verðhækkanir erlendis, get keyrt upp vísitöluna. Verðtrygging er einnig oft tortryggileg í augum erlendra fjárfesta og getur því torveldað og jafnvel komið í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila hér á landi."

 

http://www.althingi.is/johanna/pistlar/safn/001334.shtml

Þórður Björn Sigurðsson, 14.3.2009 kl. 00:06

11 identicon

Sæll Marínó. Í raun eru og ætti ég frekar að segja voru óraunhæfar tillögur og nú hefur þeim endanlega verið kastað fyrir borð. Það er náttúrulega hægt að blogga sig í hel yfir þessu en staðreyndin er sú að: Íslendingar hafa misst forræðið yfir stjórn efnahagsmála. Eiginlega grátbroslegt að stjórnmálaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn sé ekki ennþá búinn að uppgötva það.  Í raun held ég að kjósendur séu búnir að átta sig á þessu enda virðist fylgi flokksins ekki hafa aukist.  Held raunar að þessar tillögur voru aldrei neitt alvöru tillögur þetta átti einungis að blekkja skuldsetta kjósendur. Enn eitt villuljósið.
IMF hefur kastað til okkar björgunarhring og það er ekkert um annað að velja.  Án gjaldeyrisvarasjóðs myndum við sökkva og þá færi allt yfirum og stór hluti þjóðarinnar gæti nánast farið á vergang.  Þetta eru afarkostir.  IMF ákveður stýrivexti á Íslandi. Grunar reyndar að þeir gætu hafa haft hönd í bagga með val á nýjum Seðlabankastjóra. Það kom mér á óvart að þeir vilja halda áfram með gjaldeyrishöftin og það bendir í raun til að þetta ástand sé í raun verra en það sem verið er að telja okkur trú um.  IMF hefur venjulega ekki leyft slíkt. 

Minni á að krónugengið utan við höftin er allt öðruvísi.  Á heimasíðu stærsta banka Sviss UBS getur maður séð krónugengið erlendis utan við hindrunina http://www.ubs.com/1/e/index/bcqv/calculator.html þar er krónugenið nú er 1€ 240,3 Íkr, 1$ 185,9 Íkr, 1 GBP = 260,3 Íkr 1 Nkr = 27,3 Íkr, 1 DKr = 32,2 Íkr.

Tel raunar að IMF áliti þessa hjálp með gengishöftunum sé mesta hjálpin fyrir skuldsett heimili.  Aðrar aðgerðir verði sértækar og beinist að þröngum hóp enda svigrúmið lítið.
Minni á að Ísland er agnarlítið hagkerfi og það er náttúrulega okkar stærsti kostur.  Erfiða atriðið verður að skera ríkisútgjöldin um 1/3 enda virðist lítið vera talað um það fyrir kosningar enda ekki til atkvæða fallið.

Gunnr (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 06:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 197
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband