Leita í fréttum mbl.is

Furðuheimar bílalánasamninga

Ég get ekki annað en furðað mig á þessum sögum sem flæða yfir okkur um uppgjör bílalánasamninga.  Ef bílum er skilað, þá er verð bílsins fyrst lækkað í samræmi við markaðsverð og síðan er það lækkað vegna viðgerðarkostnaðar, ástandsskoðunar, þrifa, affalla, sölulauna, kostnað við uppgjör og geymslukostnað.  Hugmyndaflugi bílalánafyrirtækjanna er greinilega engin takmörk sett.

Skoðum aðeins þessa frádrættarliði:

Markaðsverð:  Það er sjálfsagt og eðlilegt að afföll verði á verði bifreiðarinnar og það ætti að endurspegla ástand bifreiðarinnar.  Besta mál

Viðgerðarkostnaður:  Bílar eru í ábyrgð í allt að 3 ár og sumir jafnvel lengur.  Hafi bíllinn ekki lent í tjóni, þá á mest allur, ef ekki allur, viðgerðarkostnaður að falla undir ábyrgð.  Sé rukkað fyrir slíkan kostnað er í mínum huga verið að svína á fyrri eiganda.  Einnig er gert ráð fyrir í markaðsverði bifreiðarinnar að hann hafi verið notaður.  Allt annað er ósanngjarnir viðskiptahættir og samningar því hugsanlega riftanlegir án þess að lánþegi beri nokkuð tjón af.  Rukkun fyrir þennan lið er því í mínum huga ekkert annað en svik.

Ástandsskoðun:  Almenna reglan í bílaviðskiptum er að sá sem biður um ástandsskoðunina greiði fyrir hana.  Ef ekki er getið um það í samningnum að lántaki greiði, þá á þessi kostnaður að falla á lánafyrirtækið.

Þrif:  Sé bíll gerður upptækur og eiganda ekki gefið færi á að þrífa bílinn, þá getur lánafyrirtækið varla staðið á því að rukka fyrir þrif.

Afföll:  Þessi liður er djók.  Það er búið að taka tillit til affalla í markaðsverði. Hvernig er hægt að reikna þau aftur inn í þessum lið?

Sölulaun:  Annar liður sem er gjörsamlega óskiljanlegur.  Bifreiðin er tekinn af eigandanum vegna vanskila.  Það var ekki verið að kaupa hann eða selja.  Hann var ekki boðinn upp.  Hér er í mínum huga annar liður sem er ekkert annað en tilraun til að búa til kostnað.

Kostnaður við uppgjör:  Hvernig getur kostnaður við uppgjör numið tugum þúsunda, þegar það er bara prentað út úr tölvu af starfsmanni sem er með 2.500 kr. á tímann.  Það er ljóst að bílalánafyrirtækin kannast ekki við nýleg innheimtulög.  Aðeins má rukka fyrir sannanlega útlagðan kostnað.

Geymslukostnaður: Hugsanlega sanngjarn kostnaður, ef hann er raunverulegur.

Mér sýnist margt í furðuheimum bílalána benda til þess að bílana megi ekki nota.  Þá eigi að geyma undir dúk inni í bílskúr sem enginn gengur um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Sæll Marinó.

Já þetta er vægast sagt skrautleg vinnubrögð.

Ég var að skoða minn bílasamning fyrir nokkru vegna vaxtanna.

Ég tók erlent lán sem nú hefur hækkað um heilan helling. Fyrsta greiðslan haust 2007 var 39 þús en nú í jan var hún komin í 104 þús. Ég valdi auðvitað að taka erlent og vissi vel af gengisáhættunni, og borgaði því bara og brosti beisklega. EN ég hélt að ég hefði verið að taka erlent lán (JPY+CHF) til að vera laus við íslenska okurvexti. En það er nú öðru nær.

 Meðan LIBOR lækkuðu og lækkuðu og líka vextir í Japan og Sviss, þá hækkuðu mínir. Hæst fóru þeir í 8,87% sem er helmingi hærra en talað er um á samningnum mínum (4,27%)

Ég tek alla áhættuna af gengisbreytingum og svo hafa þeir líka leyfi til að taka þá vexti sem þeim sýnist.

 Og ein viðbót í skilmálasafnið. Á bakhliðinni á samningnum mínum er líka ákvæði þar sem segir að þeir mega rukka mig um sölulaunin þegar þeir selja bílinn frá sér, eftir að hafa tekið hann af mér.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 27.2.2009 kl. 21:01

2 identicon

Í mínum huga er búið að vera "augljóst" í fjölda ára að þessir aðilar "fjármögnunnarleigur" eru bara "atvinnuglæpamenn" sem ítrekað stunda þau vinnubrögð að villa um fyrir fólki og hvetja það til að kaupa "hluti" sem það í 75% tilfella ætti ekki að kaupa!  Þessar "okurbúlur" hljóta að hlægja sig mátlausa í hvert skipti sem einhver "bjáni" stígur þarna inn til þeirra og gerir við þá samning!  Hvað er fólk að bæla þegar það fer út í að kaupa bíl sem kostar meira en 1,5-5 milljónir????  Þessi 4 barna móðir ákveður að kaupa "nýjan bíl" sem kostar 3 milljónir - ekki heil brú í slíkum kaupum!

Ég staðgreiddi minn bíl á kr. 100.000 og hann dugði vel í 5 ár, en mér finnst eins og samfélagið hafi "leikið á fólk" með því að gefa í skyn að þeir sem keyrðu ekki um á flottum nýjum bílum væru "lúserar" - eftir þetta hrun hlýtur það að gerast að íslenski "sauðurinn" fari að hugsa áður en hann kaupir endalaust hluti út á lán!  Ég lærði & vann í Noregi, þar þekkist varla að fólk kaupi hluti út á kredit, og ef það vantar upp á greiðslu þá erum við að tala um 1-3 mánuði í lán.  Ég er ekki að verja þessa "bílasölur, fjármagnsleigur, bankanna eða fasteignasölur" - mér finnst allir þeir aðilar sem starfa innan þessara ólíku geira hafa veit "skelfilega villandi ráðgjöf" og auðvitað þarf ríkið að grípa inn í þetta bull.  Sé að Umboðsmaður neytenda ætlar að taka á þessu, enda eru þessi vinnubrögð "hrein viðbjóður".  Það er hlutverk ríkissins að koma okkur sauðunum til bjargar, þegar úlfurinn ætlar að éta okkur með "húð & hár".

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 21:15

3 identicon

Ég tók bílalán á sínum tíma, 1,5 millur á 50% myntkörfu og 50% verðtryggðu.  Upphaflegar greiðslur voru 24.000 kr/mán, nú eru þær um 35.000kr/mán, eða hækkun upp á 11.000kr/mán.

Mér finnst það nú ekkert rosalegt og borga það bara þar sem að ég vissi að ég væri að taka áhættu þegar ég tók þetta lán, enda dreifði ég henni á sínum tíma.

Nú hefur höfuðstóllinn hækkað eitthvað, þannig að ég hef borgað mínar mánaðargreiðslur út í loftið, en ég lít á bíl sem neyslu hvort eð er.

Sá sem tók 100% myntkörfulán á bílinn sinn og skuldsetti sig upp í topp getur sjálfum sér um kennt að vera að missa frá sér bílinn í dag.  Svoleiðis fólk má alveg fá högg til þess að það læri.

Hinsvegar kemur þú þarna með mjög góð rök fyrir þeirri ósanngirni sem fjármögnunarfyrirtæki beita sínum viðskiptavinum og hljóta nú margir að sjá þarna tækifæri til lögsókna.

Björn I (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 21:19

4 Smámynd: Offari

Þetta eru blóðugar sögur sem maður heyrir. Að miða við markaðsverð í ísleskum krónum að bílum með erlendu láni tel ég vera óraunhæft. Það á að selja þessa bíla út þar sem fæst erlendur gjaldeyrir fyrir þá og virðið þar mun nær höfuðstól lánsins.

Ég kalla þetta ekkert annað en okurlánastarfsemi sem mig minnir að hafi sett nokkra í fangelsi hér á árum áður. Gallinn er víst sá að það er ekki hægt að fangelsa lánastofnanir svo þeir sleppa með skrekkinn.

Afföll og viðgerðakostnaður eiga ekki alltaf samleið. Afföll stafa af því að bíllinn slitnar með árunum. Því ætti endurnýjun á sumun hlutum að minka afföllin á móti. Ég leyfi mér að stórefast um að sá viðgerðarkostnaður sem settur er á bílana sé nauðsynlegur og tel víst að ekki verði gert við þá áður en að þeir verði seldir aftur.

Offari, 27.2.2009 kl. 21:29

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að það hafi verið alls konar furðulegir skilmálar í gangi með þessa samninga.  Ég er með samning og þori hreinlega ekki að skoða hann. Ég hef svo sem ekki lent í neinu furðulegu, en engin veit sína ævi fyrr en öll er.

Marinó G. Njálsson, 27.2.2009 kl. 21:39

6 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Ég bendi þeim sem telja á sér brotið í þessum bílalánasamningum að snúa sér til Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), Borgartúni 33.

Þórður Björn Sigurðsson, 27.2.2009 kl. 21:58

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Bílasamningar, falla þeir ekki undur hagsmuni heimilanna og er ekki nauðsynlegt að Hagsmunasamtök heimilanna reyni með öllum ráðum að finna leiðir til hjálpar/bjargar. Góð ábending að leita til FÍB. HH þarf líka helst að vera farvegur til að vísa fólki á bestu leiðirnar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.2.2009 kl. 23:08

8 identicon

Mér findist eðlilegt að ef bíllinn er tekinn af einhverjum áður en samningurinn er að fullu uppgreiddur, sé skuldin úr sögunni - lánið var hvort eð er miðað við markaðsvirði bílsins á þeim tíma sem hann var keyptur og ætti því með réttu að fylgja markaðsvirð hans áfram.

Eyþór Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 23:38

9 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Ég er sammála Eyþóri í þessu.  Almennt séð finnst mér að allar eignir sem lánað er fyrir með veði í þeim eigi að duga fyrir skuldinni.  Það stuðlar að efnahagslegu jafnvægi og ábyrgri lánapólitík.

Mér finnst þetta aftur á móti hættulegur málflutningur:

,,Sá sem tók 100% myntkörfulán á bílinn sinn og skuldsetti sig upp í topp getur sjálfum sér um kennt að vera að missa frá sér bílinn í dag.  Svoleiðis fólk má alveg fá högg til þess að það læri."

Það er ekki almenningur sem ber ábyrgð á því að krónan hrundi.

Þórður Björn Sigurðsson, 27.2.2009 kl. 23:51

10 identicon

bílasamningar á íslandi eru furðulegt fyrirbæri,þú kaupir bíl með samning við mafíu(sama hvað hún heitir)og ert þarmeð búinn að selja kennitölu þína glæpamönnum sem svífast einskis,ég fyrir mitt leiti keypti mér bíl fyrir 2árum og lagði 8ára gamlan bíl og 1200 þúsund uppí 4milljón kr bíl,í dag er staðan svoleiðis að ég er búin að tapa öllu sem ég hafði greitt og skulda 5,6 milljónir í bílnum,og get ekki fengið upp hver er í forsvari fyrir lánafyrirbærinu sem rukkar mig,svo bíllinn verður málaður mosagrænn fljótlega og úðaður bleikur að innan,svo sanngirnis sé gætt þegar ég fæ reikninginn fyrir þrifin þegar bílnum verður STOLIÐ af mér.

árni aðals (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 01:15

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars er ég með tvo bíla á samningi.  Annar er á venjulegum okursamningi, en hinn á kraftaverkasamningi, þ.e. vaxtalaus í íslenskum krónum!  Að jafnaði er ég líklega á núlli.

Nú má fara að búast við því að vaxtalausir samningar fari að sjást aftur af þeirri einföldu ástæðu að einhvern veginn verða menn að losna við alla bíla sem búið er að kalla inn.

Marinó G. Njálsson, 28.2.2009 kl. 01:27

12 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Dóttir mín sem missti íbúðina sína í Október í fyrra keypti bíl á 3.000.000 í fyrravor.  Hún missti bílinn eftir tvo mánuði og skuldar í dag á sjöttu milljón.  Þetta eru ekki eðlileg viðskipti. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.2.2009 kl. 01:35

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég held það hljóti að teljast vera hagsmunamál heimilanna ef fjölskyldubílar eru allt í einu orðnir mínus X miljónkróna virði í heimils bókhaldinu. Það er fullt af fólki sem ekki kemst af á bíls sérstaklega úti á landi. Mín skoðun hefur alla tíð verið sú að ekki eigi leifa lánastarfsemi nema gegn fyrifram skilgreindum veðum og ekki leifa eigendum skulda að ganga lengra en það nema gegn trausti. Ég hef aldrei keypt nokkur skapaðan hlut með svona samningum hvorki vegna rekstrar eða heimilisins, af þeirri einföldu ástæðu að ég hef litið á þessa starfsemi sem hálfgerða glæpastarfsemi vegna einhliða skilmála í samningum.

Guðmundur Jónsson, 28.2.2009 kl. 14:39

14 identicon

Sæll Marínó.

Þetta mál með kaupleigu er annars ekkert öðruvísi á Íslandi en í öðrum löndum.  Kaupverð er metið og kostnaður dreginn frá.  Slit á dekkjum etc. etc.  alls staðar eins með svona mál. Bæði í USA og norðurlöndum.

Hvaða blábjánar eru þetta eiginlega á Íslandi?  Náttúrulega glórulaust að einstæðar mæður á lágum launum hafa verið að kaupa bíla á 3. miljón. Sjálfur er ég ennþá að hökta á minúm 20 ára gamla Saab.

Dæmigerður flottræfilsháttur sem kostar... Hvað las þetta fólk ekki samninginn áður en það skrifaði undir.

Já á ekki að eyða peningum skattborgara til að styrkja svona fíflagang.  Núna lærir fólk lexíu sem það mun ekki gleyma svo brátt.  Betra að keyra gamla druslu og eiga hana.

Gunnr (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 16:09

15 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Gunnar !

Ég held að það sé einmitt þessi hugsunargangur sem hefur komið öllum þessum löndum sem þú nefnir í þessa stöðu(  Kreppu). Það er, að það sé alt í lagi að lána peninga hvað hálfvita sem er svo fremi að hægt sé að ganga að afa hans og ömmu ef hann getur ekki borgað.

Guðmundur Jónsson, 28.2.2009 kl. 18:45

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott úttekt á kostnaðarliðunum sem bílalánafyrirtækin hafa búið til og komast upp með að innheimta! Mér sýnist borðleggjandi að margir kostnaðarliðirnir standast ekki nánari skoðun! Hins vegar er spurning hve margir verða búnir að blæða áður en þau verða stöðvuð!

Ótrúlegt ef þessi bílalánafyrirtæki eiga að komast upp með að græða svo svívirðilega á neyð fólks sem í bjartsýniskasti reisti sér hurðarás um öxl. Mér er alveg sama þó ég hafi alltaf verið varkárari en kötturinn í bílaviðskiptum og aldrei keypt bíl á lánum. Ég sé enga sanngirni í því að þeir sem voru of bjartsýnir og sumir hverjir nær því fífldjarfir séu blóðmjólkaðir fyrir það nú!

Það verður að stöðva þessi rán ekki síður en önnur sem almenningur í landinu má þola!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.2.2009 kl. 23:33

17 identicon

Ég kemst eiginlega ekki yfir ótrúlegan barnaskap fólks.  Þessi fjármögnunar og kaupleigufyrirtæki eru náttúrulega alls staðar ekki bara á Íslandi eins og sníkjudýr og lifa á því að "sjúga blóð" úr "hýslinum".  Engin útborgun! Bílinn, flatskjáinn, heimsferðin strax! Er framhliðin en bakhliðinni er fólk er að kynnast núna.

Þegar "hýsilinn" er orðinn aðframkomin eru síðustu blóðdroparnir sognir út úr honum.  Þeir sem ekki lásu smáa letrið í samningnum og keyptu alltof dýrt farartæki verða að þeir fá núna dýrkeypta lexíu. 

Auðvitað á fólk að huga að réttarstöðu sinni en grundvallaratriðið er að þeir blæða sem hafa verið að eyða um efni fram. Krítarkortarlöndin og krítarkortarkynslóðin sem þarf að fá allt strax munu lenda í miklum erfiðleikum enda sér maður að skuldsettustu löndin og skuldsettasta einstaklingarnir muni lenda í  dýpstu kreppunni.  Það bitnar á einstaklingum en einnig á þjóðríkjum og þau lönd sem þurfa að fjármagna sitt velferðarkerfi í gegnum lán.  Núna erum við að koma inn í alþjóðlegt kreppuástand sem gæti í versta falli tekið 5-10 ár.  Þegar kreppan mikla kom um 1930 var fólk að mestu leiti skuldlaust núna er fólk að mæta kreppuástandi með gríðarlegar skuldir á bakinu.

Núna þarf að skera niður opinbera kerfið og huga að framtíðinni það þýðir ekki að hugsa um hvernig ástandið var það þarf að huga að framtíðinni strax.  Eins og ég hef skrifað margoft í bloggið hjá þér Marínó.  Það mun enginn björgunarbátur koma.  Þeir sem eru búnir að offjárfesta og  oflána verða bara að skera við sig. Skipta út jeppanum fyrir gamlan ódýran bíl.  Athuga með strætó/hjól eða ganga í vinnuna.  Smyrja sér nesti osfrv.  Það kemur enginn björgunarbátur eða björgunarhringur frá himni ofan sem veitir "skuldaamnesi" eða skuldaniðurfellingu.  Þeir sem komu sér í mestu skuldirnar voru oftast þeir með mestu tekjurnar og á síðan að gefa/niðurfella mest skuldir þeirra?  Hmmmm.. Í raun bitnar þetta að endingu með beinum eða óbeinum hætti á skattborgurum.

Þú sérð að IMF og aðrar þjóðir í gegnum þróunaraðstoð til annara landa eru að hjálpa þjóðum þar sem er ólæsi, sjúkdómar og hungur. Íslendingar hafa verið sérlega lélegir í því í genum árin enda fáar þjóðir sem gefa eða hjálpa öðrum eins lítið eins og Ísland.

Það hefur enginn samúð með einhverjum Íslendingum sem hafa farið offari í eyðslu og lánabrjálaði.  Það er hlegið að "Range Rover" eyjunni  eða eyjarskeggjum sem héldu að þeir gætu keypt allan heiminn ... á lánum.  Því miður þurfa væntanlega flestir einstaklingar að borga fyrir þetta dýrum dómum.  Því fyrr sem fólk uppgötvar þetta því betra.

Gunnr (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 11:08

18 identicon

Ég þarf að taka undir með Þórði um stórhættulegan málflutning í Birni.  Og óskiljanleg rök.  Það var ekki fólkinu að kenna að gengið kolféll.  Og það var heldur ekki fólkinu að kenna að rotin bílalánafyrirtæki gáfu ófullnægjandi og rangar og villandi upplýsingar og villtu þannig um fyrir fólki.  Bílalán (gengislán) sem voru tekin um mitt ár 07 hafa líka hækkað miklu meira en hann lýsir, yfir 100%.  Íslenska ríkið hlýtur að þurfa að standa með almenningi/neytendum þarna, ef lögin sem eru fyrir duga ekki.

EE elle (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 11:59

19 identicon

Og ég er ekki að tala um fólk sem eyddi eins og vitleysingar.  Heldur venjulegt fólk sem keypti venjulegan fólksbíl.  Ég ók alltaf notuðum bíl þangað til í júní, 07.  En tók 75% lán fyrir fólksbíl vegna þess að villandi uppl. voru gefnar um lánið og ég hélt það væri hagstætt.  Það var síðan tóm lýgi.

EE elle (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 13:26

20 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Langar til að bæta því við að þeir sem voru að kaupa bíla skömmu fyrir hrun áttu tæpast möguleika á öðru en kaupa bíla nema með bílalánum. Ef einhver vildi kaupa notaðan bíl var nær vonlaust að fá slíkan öðru vísi en honum fylgdi gamalt bílalán.

Margir vildu ekki sjá slíkt og til að komast hjá því að taka við afborgunum á gömlum lánum sem voru í langflestum tilfellum rokin margfalt upp yfir raunvirði bílsins. Flestir ákváðu samt að eignast bíl og til að komast hjá því að taka við gömlum lánum en eignast samt nýlegan bíl sem uppfyllti þeirra kröfur um stærð og eiginleika þá fundu þeir sig tilneyddan til að kaupa nýjan bíl... með nýju láni.

Ég stóð sjálf frammi fyrir þessu í des. 2007. Þá var keyrt aftan á bílinn minn en tryggingarfélagið vildi bara borga mér einhverja hundraðkalla fyrir hann vegna þess að hann er 10 ára og bara rusl að þeirra mati. „Ruslið“ mitt sem er módel '98 stenst mínar kröfur! Er sparneytinn, rúmgóður, lipur og með lága bilanatíðni. Auk þess sem varahlutirnir í hann eru ódýrir.

Þegar ég hafði áttað mig á stöðunni á bílamarkaðinum og því hve ég myndi tapa djöfullega á því að verða mér út um sambærilegan bíl, jafnvel þó hann væri orðinn 10 ára gamall, þá linnti ég ekki nöldrinu fyrr en ég fékk tryggingarfélgagið til að hækka sig svolítið. Ég kom nánast út á sléttu... Einn tíuþúsundkall til viðbótar úr mínu veski til að mæta viðgerðarkostnaðinum er ekkert á við það stórfellda tap sem ég hefði orðið fyrir hefði ég neyðst út í bílaviðskipti á þessum tíma.

Dæmisagan er fyrst og fremst sögð til að benda á að við erum ekkert endilega að tala um stóra jeppa, fellihýsi eða eitthvað stórkostlegt eða syndsamlegt bruðl þegar talað er um bílalán. Við erum líka að tala um fólk sem taldi sig verða að eiga bíl til að komast á milli staða og átti engra kosta völ en taka við - eða kaupa bíl á lánum. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.3.2009 kl. 19:18

21 identicon

Sæll Marinó,

Ambagan í þessu er að ég sem tók bílalán, á árinu 2007 hafði þá ekki þær upplýsingar sem Lýsing hafði, þegar ég tók lánið. Í boði var að taka myntkörfulán CHF+JPY. Maður borgaði sína útborgun og átti sæmilegan bíl til að fara sinna ferða.

Á sama tíma voru eigendur Lýsingar (Exista) að gera massíva samninga til að fella gengi krónunnar og búa til loftbólur til að halda gengi Exista uppi og Kaupþings.   Með sinni árás á íslenskt efnahagslíf hafa þeir valdið óstöðugleika sem og líka fengið erlent ríki til að beita landið hryðjuverkalögum á okkar ástsæla og annars friðsæla land.   Með hegðan sinni hafa þeir í raun brotið allar eðilegar viðskiptaforsendur fyrir samningum sem ég gerði og kvittaði upp á 30 þús króna afborgun af sem hefur n.b. nær aldrei haldið !

Það súra í þessu er svo að ég er látinn borga brúsann upp í topp og sá sem veitti mér lán þarf enga áhættu að taka s.b.r. öll dæmin sem hafa komið fram.  Ég sá fram á að geta borgað allt að 40 þúsund kr. á mánuði af bílnum en gerði mér aldrei í hugarlund að greiðslurnar gætu farið upp í 75 þúsund þegar mest var. 

M.ö.o. réttarstaða fjármögnunarfyrirtækjana er veik og það þarf að fara að skoða alvarlega þetta viðskiptaósiðferði þeirra.  Ég myndi vilja að þið hjá Hagsmunasamtökunum tækju málið upp og ég skal hjálpa til við það.   Það væri gaman að heyra hvort fleiri væru sömu skoðunar og ég. 

Árni (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 21:41

22 identicon

Já, akkúrat, meðfylgjandi okurlán af notuðum bílum.  Ég þurfti líka bíl vegna þess að keyrt var aftan á minn gamla og hann gereyðilagður.  Og þó mest vegna þess að tryggingafélag hins, V'IS, borgaði hlægilega upphæð fyrir bílinn, sem dugði fyrir hjólbörum.  Kannski ættu þeir að vera ábyrgir fyrir hinu djöfullega láni?

EE elle (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 21:44

23 identicon

Jú, örugglega Árni.  Þinn pistill var bara ekki kominn þegar minn síðasti fór út.  Ég er allavega sömu skoðunar og þú og hef barist í 1 + 1/2 ár gegn Avant vegna slíks gengisláns, sem ég kalla svik, og ekkert enn gengið.

EE elle (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 22:24

24 identicon

potta og pönnu spil fyrir utan hjá þektum fjórglæframönnum

bpm (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 14:05

25 identicon

potta og pönnu spil fyrir utanhjá þektum útrásar mönnum

bpm (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 223
  • Frá upphafi: 1679918

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband