10.2.2009 | 16:23
Taka á sig tapið hjá þeim stóru, en hvað með litlu aðilana?
Á næstu mánuðum mun það verða algeng sjón að sjá fréttir um að stór þekkt fyrirtæki séu tekið yfir af lánadrottnum sínum. Líklegast hafa hvorki stjórnarmenn né stjórnendur í fyrirtækinu þurft að gangast í persónulegar ábyrgðir og því mun enginn missa húsnæðið sitt eða vera settur í gjaldþrot fyrir vikið. Er það mikill léttir fyrir þá sem töpuðu fjármunum sínum í formi hlutafjár, að tap þeirra einskorðast við hlutabréfin. Einhverjir hafa líklegast sett bréfin að veði fyrir lánum, en standa ekki í sjálfskuldarábyrgð. Heimili þeirra er á meðan örugg fyrir ágengni rukkara og aðför í formi fjárnáms og nauðungarsölu.
Þessu snýr öðru vísi við, þegar kemur að minni atvinnurekstri. Lítil fyrirtæki geta almennt ekki fengið lán nema eigendur þeirra gangast í persónulegar ábyrgðir. Oft þurfa þeir að leggja til veð í íbúðarhúsnæði sínu. Þegar illa gengur hjá þeim, þá hika kröfuhafar ekki við að ganga að heimilum þeirra og krefjast fjárnáms og nauðungarsölu. Þá er engin miskunn hjá Magnúsi. (Skondið að stjórnarformaður Nýja Kaupþings skuli einmitt heita Magnús, en þetta er samt bara vísun í fornan frasa.) Gengið er fram af fullri hörku og nýta menn sér óspart að þessir aðilar geta ekki ráðið sér til aðstoðar slynga lögmenn til að verja sig. Eigin skal hirt, þó skuldin sem um ræðir sé óverulegur hluti af skuldum viðkomandi.
Nú stefnir sem sagt í gósentíð aðfararmanna. Þetta er svona eins og á Sturlungaöld eða í Njálssögu, þegar sótt var að mönnum úr launsátri og helst þegar menn voru fáliðaðir. Ef mig rekur minni til, þá þótti höfundum Njálssögu og Sturlungu lítt til slíkra bleyða komið, sem þorðu ekki að berjast nema mjög ójafnt væri í liði þeim í hag. Þannig er sífellt sótt að Gunnari Hámundasyni, þegar hann er einn eða í besta falli með bræður sína með sér. Fór svo að lokum, að bleyðurnar höfðu hann undir, en eingöngu eftir að hann hafði verið vélaður til verka sem hann hafði sóst eftir. Væru menn aftur nægilega vinamargir, þá reyndu menn að sættast með því að mægjast. Þótti heppilegt, ef höfðingjar ættu gjafvaxta dætur sem hægt væri að gifta syni eða náfrænda andstæðingsins.
Spurningin er hvort valdaklíkur Íslands nútímans séu eitthvað meiri menn gagnvart friðsömum "almúganum" menn voru á tímum Njáls, Gunnars, Grettis og Snorra. Mér virðist ekki svo vera, en á móti sýnist mér þeir vera fljótir að ganga til samninga við "höfðingjana". Mér virðist sem riddaralið bankanna finni blóðbragð í munni í hvert sinn sem þeir sjá einhvern minnimáttar til að níðast á, en séu bljúgir og auðmjúkir þegar þeir mæta höfðingjunum. Hægt er að semja við höfðingjana, en hinir lægra settir eru teknir í nösina.
Ég hef áður rakið mál, þar sem ég lýst óbilgirni eins banka gagnvart skuldunautum sínum, þegar aðrir bankar með stærstan hluta krafnanna voru tilbúnir að semja. Frá því að ég birti þann pistil hafa mér og einnig Hagsmunasamtökum heimilanna borist fleiri ábendingar. Það er ótrúlegt hvað margar af þessum sögum eiga sammerkt. Það liggur við að maður sjái samráð milli kröfuhafa um að sá með minnstu hagsmunina (lægstu kröfuna) eigi að neita um samninga meðan hinir fallist glaðir á slíka málaleitan. Aftur og aftur kemur að upp úr dúrnum, að þeir sem standa bak við 70 - 80% af kröfunum eru tilbúnir til samninga, en þá kemur einn með 10 - 15% krafna og segist vilja fá sitt. Þar með bresta forsendur fyrir samningum við hina og öllu er stefnt til sýslumanns. Þetta minnir mig aftur á Íslendingasögurnar, þar sem flestir héldu sátt en síðan voru slefberar og óvandaðir menn sem gerðu allt til að rjúfa sáttina. Njálssaga er liggur við undirlögð af slíkum óheilindum. Þar morar allt í mönnum sem voru tilbúnir að ráða mönnum ill ráð út af engu öðru en eigin vanlíðan. Síðan hafa menn verið staðnir af hinum illu ráðum og þurft að greiða hinum aðila málsins háar málsbætur.
Nú efast ég stórlega um að menn gangi svona langt í nafni kröfuhafa, en ljóst er þó að samningsviljann vantar. Stóru bankarnir þrír munu fá ríkulegan heimanmund frá kröfuhöfum gömlu bankanna. Raunar svo ríkulegan, að ef ég væri í sporum þessara kröfuhafa, þá myndi ég hafna þessu "höfðinglega" boði. Þá á ég við hinum himinháu afskriftum á lánum bankanna til viðskiptavina á Íslandi.
Í tilfelli Nýja Kaupþings er um að ræða 954 milljarðar. 19 milljarðar voru áður komnir inn á afskriftarreikning, þannig að 935 milljarðar hafa bæst við frá því að gamli bankinn féll. Alls gerir þetta 67,7% af þeim 1.410 milljörðum sem Nýja Kaupþing á í útlánum til innlendra viðskiptamanna. Þó svo að Nýja Kaupþing myndi niðurfæra öll verðtryggð húsnæðislán um verðbólgu síðasta árs og öll gengistryggð húsnæðislán niður í gengi sem var áður en krónan féll í mars í fyrra, þá væru líklegast ennþá 850 milljarðar eftir. Tæki nú bankinn sig til og gerði góða samninga við alla atvinnurekendur með færri en 10 manns í starfi. Þá lækkaði upphæði varla um nema 50 - 70 milljarða í viðbót. Eftir stæðu þá 780 - 800 milljarðar, sem hægt væri að nota til að afskrifa lán til starfsmanna og tengdra aðila sem samkvæmt uppgjöri 30.06.2008 námu á annað hundrað milljörðum á þeim tíma. En væru 680 milljarðar eftir. Mér þykir mjög ólíklegt að skuldir þeirra sem eftir eru nái einu sinni 680 milljörðum, þannig að þó þær verði afskrifaðar í topp, þá mun bankinn líklega eiga eftir 100 milljarða eða svo. Þessir 100 milljarðar eru þar með "heimanmundur" kröfuhafa gamla bankans. En þar sem ekki hefur verið birt sundurliðun á útlánum bankans milli geira, þá er ómögulegt að segja hver þessi skipting er. Hvort þessar tölur mínar eru réttar, skiptir ekki megin máli, það eru stærðirnar sem skipta öllu. Það á að gera Nýja Kaupþingi kleift að afskrifa 2/3 hluta af öllum útlánum til viðskiptavina hér á landi. Það sem innheimtist umfarm það 1/3 sem eftir er mun annað hvort nýtast við að styrkja eiginfjárstöðu bankans eða þurfa að greiðast til gamla bankans (ég átta mig ekki alveg á því hvort verður). Það er gott og blessað, að eiginfjárstaðan styrkist, en verði þetta til þess að það sem umfram er rennur til erlendra kröfuhafa, þá er líklegast alveg jafn gott að láta innlenda viðskiptavini njóta þess í niðurfærslu skulda. Hvað sem verður gert, þá þarf að standa af sanngirni að þessu afskriftum, þannig að allir njóti þeirra, en ekki bara einhver þröngur hópur einkavina, eins og gjarna hefur verið í þjóðfélaginu undanfarin ár.
Kaupþing hefur tekið yfir rekstur Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Já, Nýja Njála! Það er svolítil hætta á að þetta verði einhvernvegin svona, eins og þú lýsir. Það ku víst lítið hafa breyst innan bankanna.
Ég sá einu sinni lélega USA bíómynd sem fjallaði um hjón. Hann var flugmaður á áburðardreifingar flugvél og hafði léleg laun. Hún var mikil babúska og eyddi allt of miklu.
Þetta gekk auðvitað ekki upp því skuldin í bankanum bara óx og óx. En hún tók fjármálin í sínar hendur og lifði svo bara enn hærra.
Hún komst nefnilega að sannleika allífsins. Ef þú skuldar 1 milljón í bankanum, þá er það þitt vandamál en ef þú skuldar 100 milljónir er það vandamál bankans.
Flóknara er það ekki.
Jóhannes Snævar Haraldsson, 10.2.2009 kl. 18:13
Þú skuldar bankanum milljón og bankinn á þig en ef þú skuldar bankanum 100 milljónir (svo ekki sé talað um meira) átt þú bankann, segir einhversstaðar.....
Snorri Magnússon, 11.2.2009 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.