Leita í fréttum mbl.is

Rétt innleidd stjórnun rekstrarsamfellu hefði breytt miklu

Á vef Viðskiptablaðsins er birt viðtal við Valgerði Sverrisdóttur.  Ber það yfirskriftina Valgerður Sverrisdóttir: Ekki hægt að stoppa útrásarþenslu bankanna vegna EES reglugerða.  Mér finnast þessi ummæli fyrrverandi viðskiptaráðherra heldur aum.  Vissulega er rétt að ýmsar tilskipanir ESB sem  teknar voru upp í EES samninginn opnuðu fyrir frjálst flæði fjármagns á milli landa.  Eins er líklegt að hægt hefi verið að virkja ýmsar undanþágur í regluverkinu til að setja eðlilegar takmarkanir á útrásaræðið.  Þá er líka ljóst, að Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld ýttu frekar undir útþenslu bankanna en hitt.  Langar mig að nefna nokkur atriði:

  1. Lækkun bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003
  2. Lækkun árið 2003 á áhættustuðli vegna veðlána við útreikning eiginfjárkröfu úr 100% í 50%  (Þetta er að sem vísað er til sem BASEL II)
  3. Að nýta ekki heimildir í tilskipun um tryggingarsjóð innistæðueigenda til að takmarka ábyrgð á innistæðum við einstaklinga.
  4. Lækkun 2. mars 2007 á áhættustuðlinum í atriði úr 50% í 35%, þrátt fyrir bullandi þenslu og verðbólgu og beint ofan í tilraunir ríkisstjórnarinnar til að draga úr verðbólgu.
  5. Linkindarlegt eftirlit með bönkunum, þar sem ekki var látið reyna á öll þau úrræði sem voru fyrir hendi.  Fjármálaeftirlitið naut ekki þess fjárhagslegs stuðnings sem nauðsynlegt var til að halda í við stækkun bankakerfisins.
  6. Engin takmörkun á eignarhaldi í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði
  7. Leyfð var allt of mikil samþjöppun í eignarhaldi
  8. Ekkert var gert til að stöðva krosseignartengsl í fjármálafyrirtækjum
  9. Engin takmörk hafa verið sett á eignarhlut sama aðila í bönkum og öðrum fyrirtækjum á markaði
  10. Ekki voru gerðar nægilega strangar kröfur um aukinn fjárhagslegan styrk kjölfestu fjárfesta eftir því sem umfang og velta bankanna jókst
  11. Að fylgja ekki betur eftir kröfum um nægilegt lausafé, tilurð viðlagaáætlana til að bregðast við áföllum og stjórnunar rekstrarsamfellu

Ég gæti svo sem haldið áfram, en það er þetta síðasta sem mig langar til að skoða betur.

Í mörgum pappírum, sem ég hef skoðað (starfs míns vegna) varðandi regluverk og eftirlit með fjármálastarfsemi, hefur ég rekist á ákvæði um áhættustýringu og stjórnun rekstrarsamfellu.  Það er ekki sjéns að margt það hefði gerst, sem við höfum orðið vitni að, ef þetta tvennt hefði verið í lagi. 

Ekki það að þetta sé eitthvað einskorðað við Ísland, því allt fjármálakerfi Vesturlanda virðist hafa smitast af þeim þeim sama sjúkdómi drambsemi og sjálfsdýrkunar, að halda að áhættustýring væri ein og sér nóg til að reikna úr þol banka fyrir öllum áföllum.  Þar liggur nefnilega misskilningurinn.  Til þess að átta sig á þessu þoli þurfa menn að gera ráð fyrir hinu ómögulega.  Í þessu tilfelli að saman fór lausafjárþurrð bankans, aðaleigenda og þrautarvaralánveitanda.  Ef mönnum hefði dottið í hug slík uppákoma, þá hefðu menn líklegast byggt bankana upp á annan hátt. Vissulega sáu menn fyrir sér að Seðlabankinn væri ekki nógu sterkur.  Hvað gerðu menn við því?  Drógu þeir úr vexti bankanna sinna? Nei.  Styrktu þeir eiginfjárstöðu bankanna með því að draga úr vexti útlána? Nei.  Breyttu þeir viðskiptalíkani sínu og fjarlægðust áhættufjárfesta? Nei. Dreifðu þeir áhættunni með því að minnka útlán til stórra viðskiptavina? Nei.  Hvað gerðu menn þá?  Þeir bentu á Seðlabankann og sögðu "Þú ert ekki að standa þig".  Þeir juku á áhættu útlána með því að lána meira til þeirra höfðu þegar fengið meira en nóg.  Þeir sóttu innlán frá öðrum löndum og juku áhættu okkar hinna.  Vafalaust snilld í öðru ástandi, en reyndist ekki bara banabiti Landsbankans heldur líka myllusteinn þjóðarinnar, sem hún þarf að bera um hálsinn í langan tíma.

Ég er sannfærður um að rétt innleitt stjórnkerfi rekstrarsamfellu fyrir hvern um sig af íslensku bönkunum hefði komið í veg fyrir þá kollsteypu sem hér varð í byrjun október sl.  En það hefði ekki verið nóg að byrja að sinna stjórnun rekstrarsamfellunnar síðla árs 2007 og líklegast ekki heldur um mitt ár 2006.  Þetta var eitthvað sem menn hefðu átt að vera byrjaðir að sinni fyrir langa löngu, en að lágmarki í kringum einkavæðingu bankanna, þegar viðskiptalíkani þeirra var breytt frá því að vera heimakærir ríkisbankar í það að vera víðförulir heimsborgarar.  Málið er að stjórnun rekstrarsamfellu (e. business continuity management) er bara eitthvað sem hafa engar áhyggjur af.  Þetta hefur alltaf reddast og menn treystu því að sama gerðist núna.

Nú þarf að byggja allt  fjármálakerfi landsins upp frá grunni.  Í þeirri vegferð verða margar hindranir á leiðinni. Allsendis er óvíst að mönnum takist að sigrast á þeim, nema þeir séu undirbúnir.  Því vil ég skora á stjórnir allra fjármálafyrirtækja að huga að mikilvægi stjórnunar rekstrarsamfellu.  Það er kannski ekki mikið ráðrúm núna að fara á kaf í slíka vinnu, en að lágmarki þarf að skjalfesta upplýsingar um þær hremmingar sem fjármálafyrirtækin eru að ganga í gegnum og það þarf strax að huga að því sem gæti gerst næst.  Það þarf að fá einhvern virkilega tortrygginn til að hugsa upp allt sem gæti farið úrskeiðis á næstu vikum, mánuðum og árum.  Það er nefnilega gott að vera tortrygginn og fullur efasemda, þegar maður er að vinna í stjórnun rekstrarsamfellu og neyðarstjórnun.

Raunar þarf slík vinna alls ekki að takmarkast við fjármálafyrirtæki.  Við höfum orðið vitni af falli hvers fjárfestingarfyrirtækisins á fætur öðru.  Eimskip tapaði 95 milljörðum á síðasta ári.  Kaupfélag Héraðsbúa fór yfir móðuna miklu í dag.  Meira að segja Morgunblaðið, merkisberi sjálfstæðisstefnunnar, er í raun gjaldþrota.

Skoðum í lokin tvö af þeim fyrirtækjum, sem reyndi mikið á og stóðust ágjöfina.  Þá er ég að tala um Reiknistofu bankanna og Valitor (VISA).  Það er ekki hægt líkja því við neitt annað en kraftaverk, að greiðslukerfi landsins stóð af sér hrun bankanna 7. - 9. október, en það var ekki algjör tilviljun.  Þessi tvö fyrirtæki, sem mæddi hvað mest á, eru bæði með skjalfest stjórnkerfi rekstrarsamfellu.  Bæði hafa skjalfestar viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til.  Og þó líklegast hafi engin áætlun nákvæmlega dekkað það sem gerðist þessa daga í október, þá voru til sambærilegar áætlanir hjá báðum aðilum og með hjálp þeirra fóru fyrirtækin í gegnum þann brimsjó sem á þeim skall.   Það vill svo til að RB hafði stuttu áður en bankarnir hrundu, farið í gegnum prófun á viðbrögðum við kerfishruni eins banka!  Menn voru viðbúnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Fróðlegur pistill að vanda. Takk fyrir hann

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2009 kl. 23:52

2 Smámynd: Gísli Reynisson

fínn pistilll.

www.aflafrettir.com

Gísli Reynisson, 7.2.2009 kl. 02:49

3 identicon

Sæll

Var að lesa í gegnum bloggið þitt í fyrsta skipti. Mjög áhugavert og fróðlegt. Reynsla og dýpt. Varðandi þennan pistil um mögulegar aðgerðir Seðlabanka, þá eru allar þessar aðgerðir mögulegar í teoríunni.

Hinsvegar þá eru margir orðnir ótrúlega gleymnir á tíðarandann sem tröllreið landinu frá 2003-2004 of fram að hruni. Krafa auðmanna / eigenda bankanna / stjórnenda bankanna / stjórnmálamanna var sú að hér yrði sambærilegt rekstrarumhverfi fjármálaumsýslu og í þeim löndum sem þeir voru að keppa í. Lækkun bindiskyldu, áhættustuðla og fleiri atriða kom til vegna þeirra krafna og tilvísana í umhverfi annara þjóða. Allir lögðust á eitt í þeirri kröfugerð s.s. lífeyrissjóðir, fjölmiðlar og stjórnmálamenn.

Að verða ekki við þeim kröfum kallaði á fárviðri þar sem handbendi bankanna meðal þingmanna og innan stjórnsýslunnar fór hamförum í ásökunum. Þetta var tíðarandinn. Hugsandi aðilar sem höfðu áhyggjur áttu ekki sjens. Nú er ég engin sérstakur stuðningsaðili Valgerðar Sverrisdóttur...  en þetta verður að hafa í huga þegar hún segir að EES reglugerðir hafi hindrað því að ekki væri hægt að bregðast við. EES opnaði brautina og við höfðum ekki innri styrk sjálfir. Hér má fjalla um fjölmiðlalög og margt fleira. Norðmenn höfðu þennan innri stryk enda vanir því að fást við hópa sem vilja opna allt og leggja allt undir í tengslum við olíusjóðinn.

Lúðvík Börkur Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 11:05

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Lúðvík Börkur, ég tek heilshugar undir með þér að stjórnvöld voru undir þrýstingi að jafna rekstrar- og samkeppnisupmhverfi íslenskra fjámálafyrirtækja og hef ég nefnt það oftar en einu sinni í færslum mínum.  En þú þarft að fara nokkuð langt til baka til að finna þær færslur.  Málið er að í þessari upptalningu er ég að mótmæla því, að stjórnvöld hafi bara verið fylgja EES reglum.  En skoðun þetta betur:

  • Lækkun bindiskyldu kemur EES ekkert við og það sem meira er, að Kaupþing (af öllum) varaði við þessari lækkun bindiskyldu strax 2003.  En ég er meðvitaður um að þetta var krafan og Seðlabankinn gaf eftir.
  • Basel II kemur EES ekkert við og það sem meira er að þegar Basel II var breytt, þá er klausa sem segir að lækkun áhættustuðuls úr 50% í 35% skuli metast af hverju landi fyrir sig!  Þessari breytingu var hrint í framkvæmd hér 2. mars 2007 í bullandi verðbólga og þenslu, en samt var ákveðið að bæta á!  Þetta atriði snertir þó samkeppnisumhverfi, en það virðist vera sem menn hafi eitthvað farið frjálst með mat á áhættu, þar sem aðrir bankar á EES-svæðinu vildu ekki taka þessa áhættu.  Ég myndi því telja, að túlkun íslensku bankanna á Basel II reglunum sé vert rannsóknar fyrir alla þá sem eru að skoða aðdraganda bankahrunsins.
  • Að ekki hafi verið notuð undanþágan í tryggingarsjóðs tilskipuninni kemur EES samningnum ekkert við.  Menn voru bara að verja heimamarkaðinn og datt bara ekki í hug árið 1999 að bankarnir færu í útrás.  Síðan þegar þeir fóru í útrás þá vantaði hugsun.  Og það sem meira er að lögunum var breytt eftir saminginn við Færeyjar án þess að takmarka ábyrgðina, eins og heimild var til í Annex I í tilskipuninni.
  • Að hér hafi verið linkind í eftirliti kom EES reglum ekkert við.  Ég hef sjálfur orðið vitni af eftirliti FME, þar sem fyrirtæki fá senda gátlista, já GÁTLISTA, sem þau eiga að haka við já eða nei.  Listarnir eru sendir inn rafrænt og svo koma bréf, já BRÉF, nokkrum mánuðum síðar, þar sem sagt er að allt sé í lagi.  Þegar einn af þessum gátlistum kom, þá sendi ég FME boð um að aðstoða þá við eftirfylgni vegna GÁTLISTANS, þar sem ég taldi augljóst að FME ætlaði að mæta í dagstund hjá hverjum og einum og sannreyna svörin.  Það tók mig 8 vikur, já 8 vikur, að fá svar og þá var ekki talin þörf á því.  Ég hafði svo sem ekkert við það að athuga fyrr en bréfið kom til viðskiptavinar míns, þar sem sagt var að allt væri í lagi.  Það var vissulega allt í lagi, en eftirlitsaðili verður að sannreyna það með því að taka stikkprufu hjá hverjum og einum.  Annars er þetta ekki eftirlit heldur sjálfsmat.  Sjálfmat er EKKI eftirlit.
  • Liðir 6 - 10 eru allt atriði sem er algengt að finna í löggjöf annarra landa og koma því EES reglum ekkert við.
  • Áhættustýring og stjórnun rekstrarsamfellu koma augljóslega hvorki EES reglum né samkeppnishömlum neitt við.  Þetta eru hvoru tveggja atriði sem leiða til sterkari samkeppnisstöðu séu þau rétt innleidd og auk þess er krafa um þetta út um allt í EES reglum.
Annars er ég þeirrar skoðunar, og hef haldið því oft fram, að Basel II reglurnar séu einn stærsti áhrifavaldur í þeirri atburðarrás sem leiddi til í lausafjárkreppunnar og endaði síðan í alheimskreppunni.  Með Basel II opnaðist leið fyrir undirmálslán, stór veðlán á efri veðréttum með sama áhættumat og lán á fyrsta veðrétti (bæði fyrir heimilin og fyrirtæki), lán til aflandsskúffufyrirtækja eins og þau væru þau traustustu í heimi og svona mætti lengi telja.  Ég hef sagt:  Blame it on Basel og stend við það sterkar en nokkru sinni fyrr.



Annars er hér tengill í síðum með skrifum mínum um þessi mál frá apríl 2007 til október 2008: "Efnahagsráðgjafi" Egils vísar í mín skrif.  Síðan hefur lítið bæst við á þessum nótum.

Marinó G. Njálsson, 7.2.2009 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 217
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 492
  • Frá upphafi: 1680780

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband