Leita í fréttum mbl.is

Það er verðbólgan að baki sem er mesta vandamálið

Við síðustu mælingu á vísitölu neysluverð, þá reyndist 12 mánaða verðbólga vera komin yfir 17%.  Miðað við hvað fleyting krónunnar hefur heppnast vel, þá má búast við að næsta verðbólgumæling verði ekki eins slæm og menn sáu fyrir.  Sjálfur hef ég spáð allt að 22 - 24% verðbólgu í janúar miðað við að gengisvísitalan toppaði í nóvember í 250 stigum.  Nú gekk það nokkurn veginn eftir að gengisvísitala hafi toppað í 250 stigum, þó svo að alltaf sé varasamt að spá í framtíðina hér á landi og nýr toppur gæti komið síðar.  Ég reiknaði með því að gengisvísitalan héldi toppnum í nokkurn tíma, þannig að þessi staða krónunnar (gvt. 250) kæmi fram í næstu vísitölumælingu.  Nú hefur krónan styrkst mikið á tveimur dögum og átti ræfillinn það alveg inni.  Það hljóta því að vakna spurningar hvort ekki dragi strax talsvert úr verðbólguhraðanum. 

Hækkun vísitölu milli október og nóvember var 1,74%.  Erfitt er að henda reiður á hver vísitöluhækkun milli nóvember og desember verður, en margt bendir til að hún verði talsvert minni, en milli október og nóvember.  Þar kemur til veruleg lækkun eldsneytisverðs og síðan líkleg lækkun húsnæðisverð.  Á móti kemur að fjölmargt hækkar vegna veikingar krónunnar í nóvember.  Hafi kaupmenn haldið að sér höndum með hækkanir, þá er gengið núna (6.12.) nokkurn veginn það sama og það var í upphafi nóvember og einnig í upphafi október.  Það eru sveiflurnar á milli sem gætu orsakað neikvæða mælingu.  (Þá á ég við til hækkunar á vísitölu.)  En bara til að færa það til bókar, þá reikna ég með að vísitöluhækkun milli nóvember og desember verði ekki hærri en á bilinu 1,1-1,4%.

Stóra málið er hvernig vísitala mun haga sér næstu mánuði upp á verðbótaþáttinn.  Þó svo að verðbólga færi í 22% í janúar eða febrúar, þá er það ekki mælingin sem mun skipta máli upp á verðbætur.  Það er hækkunin frá janúar mælingunni í ár sem skiptir öllu.  Samkvæmt mínum útreikningum var verðbólga frá janúar til nóvember 16,15%.  Þetta eru þær verðbætur sem lagst hafa á lánin frá 1. febrúar til dagsins í dag.  Gangi spár greiningardeildanna eftir um innan við 7% verðbólgu á næsta ári, þá eru það verðbæturnar sem leggjast á lánin allt það ár.  Það hlýtur því hver maður að sjá, að mikilvægara er að taka á þeim verðbótum sem þegar hafa lagst á, en þeim sem eru framundan.  Best væri að taka bæði á hækkun þessa árs og þess næsta, en ef ég mætti velja, þá vil ég frekar losna við verðbætur ársins 2008.  Þó ótrúlegt sé, þá er það kúfurinn sem þarf að komast yfir, ekki verðbólga næsta árs.

Ég hef lagt það til að verðbætur þessa árs verið teknar til hliðar og lagðar á nokkurs konar afskriftarreikning.  Það er tvennt sem vinnst með því.  Annað er að lántakendur þurfa ekki að taka á sig hækkun ársins og hitt, sem er ekki síður mikilvægt, er að verðbætur framtíðarinnar leggjast ekki á verðbætur þessa árs.  Ég tel svo sem alveg efni til að setja lög um að verðbætur á húsnæðislán megi ekki vera hærri á hverju ári, en sem nemur efri vikmörkum verðbólgumarkmiða Seðlabankans.  Með því er ekki verið að afnema verðtrygginguna, heldur setja þak á það hve mikið lántakandinn getur tekið á sig.  Þetta er í anda þeirra reglna sem mér skilst að gildi í Danmörku, en þar er vaxtaþak á húsnæðislánum.  Til að koma í veg fyrir að nafnvextir hækki upp úr öllu valdi, þá yrði líka sett þak á þá.  Auðvitað væri bara best að afnema verðtrygginguna og mun ég fjalla um það í annarri færslu á næstunni.

En svona vegna orða Gylfa Magnússonar, þá eru það verðbætur þessa árs, sem lántakendur þurfa að losna við.  Ekki verðbætur næsta árs.  Ég geri þá ráð fyrir að það versta sé yfirstaðið og ekki verið fleiri efnahagslegar kollsteypur á næstu mánuðum.


mbl.is Frysting jafnvel óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Góður punktur hjá þér Marinó, en nú hlakka ég til að lesa frá þér færsluna um afnám verðtryggingarinnar. Ég hef verið að skrifa nokkrar slíkar upp á síðkastið, en ég hef virkilega saknað fleiri slíkra frá mönnum sem hafa meira vit á þessu en ég.

Ísland verður ekki lífvænlegt fyrir næstu kynslóðir án afnáms verðtryggingar og skynsamlegs vaxtastigs og húsnæðiskerfis, það er í mínum huga dagljóst.

Karl Ólafsson, 6.12.2008 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 1680811

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband