29.11.2008 | 19:04
Lífseigur misskilningur að allt sé bankamönnum að kenna
Hún er alveg furðulegur þessi söguskýring forsætisráðherra, að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar sé íslenskum bankamönnum einum að kenna. Efnahagsvandi þjóðarinnar er meira og minna stöðu krónunnar og háu stýrivaxtarstigi að kenna. Nýlega sett gjaldeyrishöft koma t.d. íslenskum bankamönnum lítið við. Háir stýrivextir og sterk króna drógu hingað til lands erlenda fjárfesta sem efndu til vaxtaskiptasamninga. Alls flæddu hátt í 1.000 milljarðar inn í hagkerfið vegna þessa í formi jöklabréfa og kaupa á ríkisskuldabréfum. Hvernig ætlar Geir að klína þessu öllu á íslenska bankamenn, nema hann sé náttúrulega að tala um seðlabankamenn líka? Seðlabankinn opnaði fyrir þetta innflæði með peningamálastefnu sinni.
Vandi almennings í dag er ekki fall bankanna. Vandi almennings er fall krónunnar og háir vextir. Þessi vandi er búinn að vera viðvarandi allt þetta ár og raunar mun lengur. Stýrivaxtastefna Seðlabankans hefur alltaf gengið út á að viðhalda vaxtamun milli Íslands og annarra landa. Menn hafa verið að rembast eins og rjúpan við staur að halda stýrivöxtum háum, þegar stærsti hluti vaxta í landinu er óháður stýrivöxtum. Það er þessi stefna og verðtryggingarkerfið sem er allt lifandi að drepa. Fall bankanna er fyrst og fremst að bitna á fjármagnseigendum, sem hingað til hafa verið varðir með belti og axlaböndum. Vandi almennings er hækkun skulda vegna hárra vaxta og falls krónunnar. Vissulega eru þeir sem áttu pening í banka að tapa miklu, en það erum við líka að gera sem eigum peningana okkar í steinsteypu. Hver er munurinn að tapa 10 milljónum á sparireikningi í banka og tapa 10 milljónum af eigin fé í fasteign vegna hækkandi lána eða lækkandi fasteignaverðs? Ég sé ekki muninn. En það þykir sjálfsagt að leggja 200 milljarða í peningasjóði bankanna og innistæður í bönkum. Hvar eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja eigið fé almennings í húsnæði þess? Og hvað með lífeyrissparnað, að maður tali nú ekki um séreignalífeyrir? Viðskiptaráðherra lofaði því á sínum tíma að lífeyrissparnaður landsmanna verði varinn. En þetta er bara eins og með loforð hans um að enginn bankamaður myndi missa vinnuna. Hann lofar upp í ermina á sér við öll tækifæri.
Það tapa allir í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu. Sumir tapa út af falli bankanna, aðrir vegna verðbólgunnar eða falli krónunnar, einhver hópur tapar vegna lækkunar húsnæðisverðs, margir lækka í launum eða missa vinnuna. Það sem þarf að gera er að meta möguleika fólks og fyrirtækja til að vinna upp tap sitt. Eru einhverjir sem ekki geta unnið upp tap sitt? Hvað tekur það aðra langan tíma að vinna upp tap sitt? Hve mikið af þessu tapi er pappírstap á pappírsgróða? Hugsanlega þarf að bæta einhverjum tjónið með endurgreiðslu skatta sem þeir voru búnir að greiða af pappírshagnaðinum.
Þar sem allir eru meira og minna að tapa einhverju, þá er það sanngjarnt að björgunaraðgerðir nái til allra. Ég vil gjarnan sjá 200 milljarða, ef ekki meira í að lækka skuldabyrði lántakenda og þá er ég ekki bara að tala um þá sem tóku húsnæðislán. Sá sem tók bílalán fyrir tveimur árum er alveg jafnmikið fórnarlamb aðstæðna og sá sem tók íbúðarlán á sama tíma. En fólk og fyrirtæki þurfa samt að bera hluta tapsins í bili. Vonandi verður þetta bara tímabundið tap, en hvort það taki eitt ár, 5 eða 10 að vinnu tapið upp, það verður bara að fá að koma í ljós.
Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þú mátt alveg eigna þér það sem þú vilt, Steingrímur.
Ég er bara orðinn þreyttur á þessum fréttaflutningi að fólkið sem átti peninginn í bönkunum sé búið að tapa svo og svo miklu. Ég var að tala við mann um daginn sem hafði "tapað" peningi. Hann var búinn að vera með aurinn inni í einhverjum sjóðinum í einhver ár. Upphæðin hafði vaxið á hverju ári um 15 - 20%. Nú fékk hann 85% út og það var lagt inn á reikning sem gefur 17,5% ársávöxtun. Hann vinnur því upp "tapið" sitt á innan við 15 mánuðum! Og þegar "tapið" er skoðað betur, þá er það bakslag í ávöxtun. Ég er hræddur um að þetta sé staðan hjá mjög mörgum.
Auðvitað má segja það sama um þá sem eru með gjaldeyrislán eða með eignir sem eru að lækka í verði. Krónan á eftir að styrkjast og því mun greiðslubyrðin lækka, en það sem fólk þarf að greiða þar til að krónan styrkist má að einhverju leiti líta á sem tapaðan pening. Og varðandi húsnæðisverðið, þá er hækkun liðinna ár að ganga til baka. Spurningarnar sem við þurfum að velta fyrir okkur eru: hve mikið gengur hækkunin til baka, hvenær byrjar húsnæðisverð að hækka aftur, hve langan tíma tekur að ná fyrra gildi, munu húsnæðiseigendur þola þessar sveiflur og hvernig munu lánadrottnar okkar bregðast við?
Marinó G. Njálsson, 29.11.2008 kl. 22:06
Þettta: "Efnahagsvandi þjóðarinnar er meira og minna stöðu krónunnar og háu stýrivaxtarstigi að kenna." er stofnmergurinn. Heimili landsins verða ekki varin nema krónunni verði fundið nýtt gildi í öðrum gjaldmiðli. Að maður tali nú ekki um fyrirtækin. Svo verður að hugsa heimilin og fyrirtækin sem eina heild.
Ég efast ekki um að menn eru að reyna sitt bezta. En, þegar það er ekki nógu gott verður að gera innáskiptingar.
Það er talað um kreppu. En, því miður: we aint seen nothing yet
Kveðja,´
-þ
Þorsteinn Egilson, 29.11.2008 kl. 22:27
Steingrímur, það er þess vegna sem ég segi að við verðum að finna þá sem raunverulega eru að tapa. Þá á ég líka við þá sem keyptu hlutabréf í bönkunum og hafa kannski tapað öllu sínu. Ég lít ekki á tap vegna stundargróða sem raunverulegt tap. Ég lít ekki á það sem tap að missa hluta af ávöxtun. Aftur á móti, þegar fólk er að missa höfuðstólinn af sparnaði sínum, þá lít ég á það sem tap. Ávöxtun er fallvölt, en þegar fók leggur pening inn á reikning sem á að vera 100%, þá á það að geta fengið höfuðstólinn til baka. Skítt með einhverja vexti.
Marinó G. Njálsson, 29.11.2008 kl. 22:47
Það er svo margskonar rangtúlkanir í gangi núna, tröllasögur og fordómar að það er með ólíkindum. Það er mér fagnaðarefni þegar ég finn færslu eins og þessa sem túlkar málin á þann hátt sem mér virðist vera raunhæft.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.11.2008 kl. 00:04
Góð færsla Marínó, þú ert nálægt rótum vandans, öfugt við marga sem einblína á einkennin en ekki sjúkdóminn, hvað þá vírusinn (sem er annars vegar krónan og hins vegar ófagleg stjórnvöld).
Vilhjálmur Þorsteinsson, 30.11.2008 kl. 10:51
Virkilega góð samantekt og sýnir í senn hvað Geir Haarde er bæði ódómbær og blindur á atburðarásina. Og ef maður sem gengt hefur starfi fjármála-og forsætisráðherra í ríkisstjórn síðastliðin 10 ár og er þátttakandi í öllum meiriháttar ákvörðunum er varðað hefur veginn til glötunar, finnur ekki til persónulegrar ábyrgðar - þá ætla ég að vona að landsfundarmenn komi auga á það sem hann finnur ekki.. og setji manninn af.
Atli Hermannsson., 30.11.2008 kl. 12:17
Mig langar bara að benda á, að ég benta á þennan vanda áður en bankarnir hrundu í nokkrum færslum:
Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
Ábyrgð Seðlabanka Íslands
Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
Ó, vakna þú mín Þyrnirós
Hækkun gengisvísitölu er 50% það sem af er ári
Þetta eru færslur frá því í september fram til 6. október. Ég gæti farið lengra aftur, en læt þetta duga.
Marinó G. Njálsson, 30.11.2008 kl. 14:13
Ég er sammála því að það sé mikil einföldun að kenna bankamönnum um kreppuna. Þó er ljóst að þeir hafa telft mjög glæfralega undanfarið og jafnvel brotið lög samanber Stím.
Einhver hlýtur líka ábyrgð löggiltra endurskoðenda að vera sem skrifa upp á allt ruglið. Ef hún er ekki til staðar er það eintóm peningasóun að láta þá fara yfir reikninga og skrifa upp þá.
Fullljóst verður að teljast núna að krónan er ekki nothæfur gjaldmiðill eins og alþjóðleg viðskipti hafa þróast undanfarin ár. Þar liggur ábyrgðin hjá okkur kjósendum að hafa ekki borið gæfu til að kjósa stjórnmálamenn til valda sem vildu gera það sem til þarf að taka upp nýjan gjaldmiðil. Við getum ekki skammast út í þá stjórnmálamenn sem sögðust vilja hafa krónuna áfram þó að þeir hafi staðið við þá skoðun sína.
Ég næ þó ekki alveg að skilja þátt hárra stýrivaxta sem sökudólg í kreppunni. Stærsti hluti vaxta í landinu er hvort eð er óháður stýrivöxtum. Einungis yfirdráttarlán bankanna hjá Seðlabanka. Hæfustu hagfræðingar landsins telja hagfræðiþekkingu hjá IMF með því besta sem gerist í heimunum. IMF hefur einmitt lagt blessun sína ítrekað yfir háa stýrivexti Seðlabankans.
Það er góður punktur að minna á að tap fasteignaeigenda er ekkert síður raunverulegt en tap þeirra sem áttu í peningamarkaðssjóðum. Samt er það svo að fólk gerir almennt ráð fyrir því að fasteignaverð geti sveiflast upp og niður um jafnvel tugi prósenta. Peningamarkaðssjóðirnir sumir hverjir a.m.k. áttu að samanstanda af pappírum sem áttu að vera mjög tryggir. Þegar fólk kemst að því að þessir sjóðir voru notaðir í gælu- og áhættuverkefni bankanna er skiljanlegt að fólk sé reitt.
Talandi um landsfundinn. Er það ekki alveg með ólíkindum að ekki skuli vera byrjuð nein umræða um arftaka Geirs Haarde? Halda Sjálfstæðismenn virkilega að hægt sé að tefla honum fram sem leiðtoga flokksins? Ljóst er að leiðtoga flokksins bíða mörg mjög erfið verkefni á næstunni. Verkefni sem eru óleysanleg fyrir mann sem hefur ekki traust meðal almennings.
Finnur Hrafn Jónsson, 30.11.2008 kl. 14:56
Finnur, þáttur hárra stýrivaxta er að þeir hafa dregið hingað aðila sem eru að stunda vaxtamunaviðskipti. Þannig eru jöklabréfin tilkomin vegna þeirra. Menn tóku lán í Japan á 0,3% vöxtum og lánuðu þá út á 12 - 15% vöxtum á Íslandi. Með tímanum gerðist það, að þessi vaxtamunaviðskipti urðu hátt í 1.000 milljarðar í jöklabréfum og kaupum á ríkisskuldabréfum. Þetta hélt genginu háu þar til að fjármagnið vildi út landi. Þá varð mikil eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Vandamálið var að við vorum búin að eyða stórum hluta af gjaldeyrinum, sem kom inn með jöklabréfunum, í halla á vöruskiptum. Það var því ekki til nægur gjaldeyrir til að mæta eftirspurn. Það varð síðan til þess að gengið féll. Fáránleikinn í þessu, er að þetta var allt fyrirséð og búið að vara við þessu aftur og aftur.
Það er þetta sem að talsverðu leiti skapaði góðærið og er nú að valda verðbólgu og gjaldeyriskreppu.
Marinó G. Njálsson, 30.11.2008 kl. 15:12
Ég er sammála því að það er ámælisvert hjá Seðlabanka að horfa aðgerðarlaus upp á þetta vandamál safnast upp.
Er þó ekki endilega sannfærður um að lækkun stýrivaxta hefði breytt miklu vegna þess að menn hér voru tilbúnir að borga háa vexti fyrir lán, óháð stýrivöxtum Seðlabanka.
Ég verð þá að viðurkenna að ég átta mig ekki á því fyllilega hvernig þessi krónubréf virka. Bankarnir þræta fyrir að hafa staðið í þessum viðskiptum, segjast eingöngu hafa haft milligöngu. Hvaða aðilar eru þá hér í þjóðfélaginu sem eru með skammtímalán upp á 400-1000 miljarða? Þar fyrir utan virðist mjög á reiki hve upphæðin er há. Bara í dag hef ég heyrt tölur frá 400 upp í 1000 miljarða.
Ef málið er eins og Seðlabankamenn segja að þeir hafa ekki haft nothæf stjórntæki til að slá á þensluna áttu þeir að láta það koma fram með skýrum hætti. Í raun eru þeir að segja með þessu að krónan í opnu hagkerfi geti ekki gengið upp.
Það er kannski til of mikils ætlast að tillögur að því að taka upp annan gjaldmiðil komi úr Seðlabankanum en það var í raun eina mögulega niðurstaðan.
Finnur Hrafn Jónsson, 30.11.2008 kl. 15:32
Finnur, miðað við það sem hefur komið fram, þá munu liggja um 400 milljarðar í jöklabréfum og 250 milljarðar í ríkisskuldabréfum sem erlendir fjárfestar eiga. Ef við bætum síðan við það sem hefur verið á gjalddaga í ár og í fyrra, þá fer upphæðin langleiðina í 1.000 milljarða, ef ekki meira.
Vissulega er það rétt, að bankarnir voru milliliðir, en þeir voru aðeins meira. Bent hefur verið á að það sem í raun gerðist voru "lánaskipti", þ.e. erlendir bankar gáfu út jöklabréf, en íslenskir tóku lán erlendis. Síðan tóku íslensku bankarnir að sér að greiða af jöklabréfunum, meðan útgefandi þeirra tók að sér að borga af erlenda láninu. Þannig lágmarkaði hvor um sig gengisáhættu sína. Íslenski bankinn fékk að sjálfsögðu vaxtamuninn greiddan. Það getur verið að ég sé að misskilja þetta ferli, en ég sá þetta útskýrt einhvern tímann á þennan hátt.
Marinó G. Njálsson, 30.11.2008 kl. 15:48
Steingrímur, ég held að þa sé nefnilega mergur málsins. Menn nota svo vitlaus meðul að þau ganga að sjúklingnum dauðum.
Marinó G. Njálsson, 30.11.2008 kl. 21:13
Sæll Marinó,
Alltaf gaman að lesa pistlana hjá þér og umræðuna sem kemur í kjölfarið:)
Í framhaldi af því sem Steingrímur sagði um góða hagfræðinga, þá datt mér í hug þessi linkur sem góður kunningi minn sendi mér fyrir um mánuði síðan þegar efnahagsmál, þ.á.m. á Íslandi, bar á góma. Þetta myndband var tekið upp 2007. "How the markets really work"
http://www.brasschecktv.com/page/187.html
Þessi kunningi minn er verðbréfamiðlari og rekur eigið verðbréfafyrirtæki sem sér eingöngu um sölu á kirkjuverðbréfum (church bonds) - með forriti sem við hönnuðum fyrir hann:)
Kveðja frá Port Angeles:)
Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 00:52
Varðandi hæfustu hagfræðinga landsins. Þeim ber ekki alltaf saman um t.d. ágæti hárra stýrivaxta t.d.
Þorvaldur Gylfason hafði stór orð uppi um hæfni IMF hagfræðinganna nýlega í sjónvarpi. Einnig einn eða tveir af þeim hagfræðingum sem mikið hafa verið áberandi undanfarið þó ég muni ekki nöfnin.
Að minnsta kosti er IMF sú stofnun í heiminum sem hefur á að skipa mestum fjölda doktorsmenntaðra hagfræðinga.
Ljóst er þó að sífellt erfiðara er að finna hagfræðinga sem halda upp vörnum fyrir því að reka gjaldmiðil eins lítinn og krónan er í þessum alþjóðavædda heimi sem við lifum í.
Finnur Hrafn Jónsson, 1.12.2008 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.