Leita í fréttum mbl.is

Aukalán LÍN greidd út á næsta ári!

Það er kominn inn frétt á vef LÍN um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð skólaárið 2008-09.  Þar segir:

Ef námsmaður er í sárri neyð vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu hans og högum frá því nám hófst í haust, getur hann sótt um sérstakt aukalán, sbr. heimild í gr. 4.9 í úthlutunarreglum sjóðsins. Umsækjanda ber að fylla út sérstakt umsóknareyðublað og senda til sjóðsins ásamt skýringum og fylgiskjölum sem sýna breytta stöðu umsækjanda.  Hvert tilvik verður svo metið af stjórn sjóðsins. Ef slíkt aukalán verður samþykkt, þá verður það greitt út með framfærsluláni.

Ég veit ekki hvort ég eigi að taka þetta alvarlega.  Námsmenn eru margir í alvarlegum og brýnum fjárhagsvanda, en það á að leysa hann á næsta ári!  Það á að bíða þar til það kemur í ljós hver árangur námsmanna er úr prófum, sem þeir hugsanlega geta ekki farið í vegna fjárhagsvandræða, með að ákveða hvort námsmenn fá aukalánið og þá hve hátt lán.

Skilja menn ekki að neyðin er núna og úrræðin þurfa að koma strax.  Aðstandendur námsmannanna hafa ekki sömu úrræði til að hjálpa þeim og áður vegna efnahagskreppunnar.  Ég átti von á meiri skilningi.  Ég get bara ekki sagt annað.  Ég efast um að þetta hafi verið það sem ríkisstjórnin hafði í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Meinhornið

Skriffinnurinn hlýtur að vera einhver sérstök undirtýpa af Homo Sapiens með lygilega þykkar höfuðskeljar. Ég get ekki ímyndað mér að þessar lífverur séu alveg mennskar - sama hvar þú fyrirhittir þær.

Meinhornið, 11.11.2008 kl. 07:22

2 identicon

Sæll Marínó

Eg er námsmaður erlendis, ég veit nákvæmlega hvað þú ert að tala um.

Þegar ég var að skipuleggja það að fara í nám fyrir rétt tæpu ári var danska krónan í 11 kr íslenskar en núna er hún á rétt um 23 kr

Allur kostnaður er því gjörsamlega farinn úr böndunumÍslenska upphæðin sem ég (og fjölskylda mín) ætlaði að nota til að lifa á þar til námslánin kæmu er löngu búin og nú reynum við að fá lán hjá hinum ýmsu aðilum og erum að verða mjög blönk, eins og er sjáum við enda ekki ná saman þar til við fáum námslán þ.e. við eigum ekki fyrir leigu eða mat.

Ég hef einmitt reynt að tala við LÍN og fengið algera synjun um aðstoð þ.e. ekkert hefur verið hægt að gera fyrir mig.

Þar sem ég var með námslán úr fyrra námi hef ég verið að borga af þeim þegar ég hafði samband við sjóðinn í haust og sagði að allar mínar áætlanir væru í uppnami og hvort ekki væri hægt að sleppa við haustafborgunina eða amk fresta henni var svarið "Nei það er ekki hægt og ef ekki verður borgað þá sendum við þetta í innheimtu"

Ég er búinn að hafa samband við fjöldan allan að stofnunum innan ríkiskerfisins og ég kem alls staðar að veggjum, enginn hefur neinar lausnir, það vísa allir hver á annan.

Það er nánast orðið ljóst að ég verð að hætta í námi og fara að vinna hér. Sem betur fer get ég það, ég vorkenni þeim sem hugsanlega eru með skerta starfsorku og því allar bjargir bannaðar.

Ég kenni Sjálfstæðisflokknum og gjörsamlega óhæfu fólki þar innan dyra um ástandið en þó sérstaklega hvernig unnið er úr ástandinu. Ég hef verið kjósandi flokksins en það verð ég aldrei aftur, einmitt nú hafa þau sýnt að þau taka hagsmuni flokksins fram yfir hagsmuni kjósenda sinna.

Jón (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 09:42

3 identicon

Ég er í sömu stöðu og Jón hér að ofan. Er í námi í Danmörku með konu og þrjú börn, og endar ná engan veginn saman.

Það gleymist oft að námsmenn hér úti fengu fyrstir að finna vel fyrir efnahagslægðinni, því námslánin sem við fengum útborguð í febrúar rýrnuðu um 40% í marsmánuði þegar gengið féll. Við vorum svo óheppin að vera ekki búin að færa öll námslánin hingað yfir, og því höfum við búið við þessa kjaraskerðingu síðan í vor 2008.

Svo kviknaði hjá manni vonarglæta um að úr myndi rætast þegar fréttir bárust af neyðarláni, en þær slokknuðu um leið og maður las lánaskilmálana. Menn hljóta hreinlega að vera að grínast, að ætla að afgreiða þetta hugsanlega og kannski og eftir dúk og disk. Okkur vantar hjálp fyrir mánaðamótin ef ekki á að fara illa - og ég þori ekki einu sinni að hugsa til jólanna.

Ekki hélt ég nú að það ætti fyrir mér að liggja að skrifa þau orð sem hér fara á eftir, en það er engin hætta á að nokkur maður á mínu heimili kjósi Sjálfstæðisflokkinn nokkurn tíma aftur. Sem ég hef annars gert eins og foreldrar mínir og afar og ömmur. Var meir að segja í SUS á árum áður. Maður fyrirgefur ekki svona framkomu ef maður hefur snefil af virðingu fyrir sjálfum sér.

Bara í minni nánustu fjölskyldu getur flokkurinn afskrifað 7 atkvæði, sem hann annars hefur getað reiknað með. Og félagar mínir hér úti eru flestir sama sinnis. Við getum ekki hugsað okkur að þakka mönnum fyrir svona stuðning þegar á reynir, með því að kjósa þá til áframhaldandi þæginda.

Dani (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 13:56

4 identicon

Sæll Marinó.

Ég leyfi mér að linka á þetta blogg hjá þér á facebook prófílnum mínum. Skil ekkert í því að ekki skuli heyrast meira um þetta.

Kveðja frá Danmörku

VE.

Vigfús Eiríksson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 13:40

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vigfús, besta mál að dreifa þessu sem víðast.  Ég verð að viðurkenna, að ég hélt að LÍN myndi strax afgreiða 2 mánaða lán og leit á slíkt sem neyðaraðgerð.  En að námsmenn þurfi að leggjast á hnén og skila inn ótilgreindum gögnum til þess eins að fá ekkert nema stjórn lánasjóðsins þóknist að veita þeim lán samkvæmt reglum með svo smátt nálarauga að varla nokkur sleppi í  gegn.  Ég hafði ekki hugmyndaflug til að sjá það gerast.  Gaman væri að vita hvort fulltrúar námsmanna í stjórn LÍN hafi samþykkt þetta.

Bara svo stjórn LÍN viti það, þá borðar enginn í dag fyrir pening sem hann fær kannski eftir áramót.

Marinó G. Njálsson, 12.11.2008 kl. 14:00

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir LÍN. Var námsmaður þegar þessar „elskur“, (Sjálfstæðisflokkurinn) tóku við Menntamálaráðuneytinu á eftir Svavari Gestsyni og byrjuðu á því að lækka námslánin og gefa bönkunum aðgang að því að græða á námsmönnum með því móti sem enn er.

Menntamálaráðuneytið er búið að vera alltof lengi í höndum Sjálfstæðismanna. Það er líka orðið mjög brýnt að frelsa það úr klóm þeirra. Námsmenn sem eru núna í útlöndum geta auðvitað ekki beðið eftir því og því getum við ekkert gert nema lýst yfir vanlætingu okkar á þeirri meðferð sem þeir eru látnir sæta og vakið athygli á henni um leið.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.11.2008 kl. 02:45

7 identicon

Við þetta má bæta að stjórn LÍN hefur ákveðið að skila þurfi inn formlegum umsóknum.

Þetta þýðir, að maður getur ekki sent þeim tölvupóst með nauðsynlegum gögnum, eða skrifað þeim bréf í word og póstsent, ásamt því sem með þarf.

Nei, maður þarf að prenta út sjálft umsóknareyðublaðið sem er pdf skrá í lit, fylla það út og senda ásamt rökstuðningi og fylgigögnum.

Þannig að þeir sem eiga litaprentara sem virka ekki ef einn lit vantar, þurfa annaðhvort að kaupa litahylki til að prenta út, eða fara á fjölritunarstofu til að láta gera það fyrir sig, og póstsenda svo allt heila klabbið (sem er ekki ókeypis).

Allt þetta fyrir lán, sem verður hugsanlega afgreitt á næsta ári. Og enginn veit að hvaða leyti það verður skilyrt við námsframvindu - t.d. hvort þeir sem hafa fulla námsframvindu fá þetta lán aukalega.

Á ýmsu á maður svosem von þegar LÍN er annars vegar, en ekki þessu

Ég er mjög forvitinn að vita hvað fulltrúum námsmanna í stjórn finnst um þetta, og sakna þess að þeir skuli ekki láta í sér heyra.

Vigfús Eiríksson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband