Leita í fréttum mbl.is

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ofsóknaræðið er orðið svo mikið í þjóðfélaginu að menn sjá skrattann í öllum hornum.  Fólk skýtur út í loftið án þess að vita af hverju eða á hvern, vegna þess að það er hrætt og reitt.  Upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum er í dropatali, þegar það á að vera stöðugt flæði, eins og í fallegri á og eykur það frekar á fárið.  Þeir sem eiga að vera í því leiðrétta söguburð eða staðfesta fréttir, eru ekki að sinna hlutverki sínu.  Fólk smjattar á fáránlegum orðrómi, eins og um heilagan sannleika sé að ræða.  Ekki misskilja mig.  Ég vil sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, eins og frasinn er frá Ameríku.  Ég vil að okkur sé treyst fyrir upplýsingum, en ekki haldið frá okkur, því það gefur sögusögunum undir fótinn.

Hægt er að telja upp ótal "fréttir" á blogg-síðum, spjallrásum og vefsíðum, þar sem lekið er "staðreyndum" sem eiga svo ekki við rök að styðjast eða eru færðar verulega í stílinn.  Síðan fer í gang umræða, þar sem skórinn er níddur af nafngreindum einstaklingum, sem hafa ekkert gert sér til sakar annað en að hafa lent í hamfaraflóðinu með okkur hinum.  Nafnabirtingar á einhverjum undirsátum í bankakerfinu eru gjörsamlega út í hött.  Fæst af því fólki, sem stjórn Kaupþings ákvað að losa undan persónulegum ábyrgðum, bað um það eða kom á nokkurn hátt nálægt þeirri ákvörðun.  Það var bara haft með.

Við verðum að fara að passa okkur á því hvað við segjum.  Ég er alls ekki að biðja fólk um að vera meðvirkt.  Það er eins fjarri mér og hugsast getur.  En það segir einhvers staðar:  Við eigum að hugsa allt sem við segjum og ekki segja allt sem við hugsum.

Ég hitti mann í gær, sem er þekkt nafn í atvinnulífinu.  Hann sagði mér, að erlendir fjölmiðlar hefðu hringt talsvert í hann, en hann hafi ákveðið að ræða ekki við þá.  Ástæðan væri, að hann væri svo reiður að það sem hann segði yrði líklegast út í hött.  Hans fyrirtæki sér fram á að fara úr nokkur hundruð starfsmönnum niður í 30 á næstu mánuðum!  Hann hefur því fullan rétt á því að vera reiður, en hann vill ekki tjá sig við erlenda miðla, vegna þess að hann er hræddur um að segja eitthvað sem hann sér eftir síðar.   Ég held að margir gætu tekið þennan mann sér til fyrirmyndar. 

Það sem við þurfum núna eru lausnir.  Við þurfum að leggjast á skóflurnar og grafa okkur út úr skaflinum.  Við getum ekki beðið eftir því að það hætti að snjóa og byrjað að moka þá. Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að skilja ástandið.  Við þurfum að hjálpa hvert öðru og hvetja til dáða.  Við eigum að nota reiði okkar til að vinna okkur út úr vandanum, en ekki grafa okkur dýpra niður.  Það eiga eftir að koma upp fáránlega vitlaus mál, sem ofgera siðferðisvitund okkar, en höldum haus. Sýnum öðrum virðingu.  Munum að gullna reglan er: 

Það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra. 

Hún er ekki: 

Það sem mennirnir gjörðu yður, skulið þér og þeim gjöra.

Við skulum muna að allt sem við setjum niður hér á internetinu verður á netinu um aldur og ævi.  

Hvað svo sem gerist, pössum okkur á því að missa ekki okkar eigin virðingu.  Styrkjum siðferðisvitund okkar, en veikjum hana ekki.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þörf ábending. Ég vil þó vekja athygli á því að orðrómurinn um niðurfellingu spilaskulda bankastarfsmanna var á rökum reistur.

Ef þessum orðrómi hefði ekki verið komið af stað á netinu hefðu þessi menn að öllum líkindum komist upp með að gera þetta á bak við tjöldin.

Theódór Norðkvist, 7.11.2008 kl. 10:36

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mikið er ég sammála þér Marinó og það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir okkur. 

Við búum við tjáningafrelsi og bjuggum við frjálst fjárstreymi. Frelsi fylgir ábyrgð og töluð orð verða ekki aftur tekin.

Ég er eða var sjálf nokkuð skaprík og þekki það vel hvað orðin er  fljót að streyma fram í hita leiksins.

Við verðum að gæta tungu okkar og snúa höfðinu fram en ekki aftur, byggja hvert annað upp í stað þess að rífa niður. Fortíðin er þarna og fer ekki neitt, hun verður rannsökuð af fagaðilum en ekki dómstóli götunnar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.11.2008 kl. 10:52

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Theódór, það er rétt að þessi frétt reyndist rétt að því sem viðkom niðurfellingunni, en ekki að hinir og þessir hefðu óskað eftir því, tekið þátt í því, stungið undan með því að setja í ehf, o.s.frv.

En þetta mál er bara eitt af fjölmörgum.  Sum hafa átt fullan rétt á sér, en önnur hafa verið byggð á sandi.

Marinó G. Njálsson, 7.11.2008 kl. 12:07

4 identicon

Vil bara taka undir með þér og sé ekki ástæðu til að gera athugasemd við neitt. Jú, reyndar eitt: Hefði betur kunnð við "nærveru" í fyrirsögninni, eins og Einar Ben hafði það (ef minnið bregst mér ekki):

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt

sem dropi breytir veig heillar skálar

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Gestur H (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 13:07

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir ábendinguna, Gestur.  Breytti fyrirsögninni úr Aðgát skal höfð í návist sálar í Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Úr Einræðum Starkaðar

Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.  

Einar Benediktsson (Vogar, 1921)

Annars er forvitnilegt að sjá að í erindið sem er tveimur framar endar svona:

Landhlaupi var hann og lá upp við stein.

Hann leit á mig snöggt. – Ég ber það í minni.

Einn geisli brauzt fram, og gullið skein,

gnótt í hans hönd, en aska í minni.

 

Það er eins og Einar sé að lýsa stöðu okkar í dag.  Fullt af mönnum sönkuðu gullinu til sín, en skyldu okkur eftir með öskuna.

Marinó G. Njálsson, 7.11.2008 kl. 13:45

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef menn stofna einkahlutafélag til þess eins að versla með hlutabréf er yfirleitt skýringin sú að ef allt fer á versta veg getur eigandinn keyrt félagið í þrot og sloppið sjálfur.

Það er ekki mikill munur á þeim sem stofnuðu eignarhaldsfélögin sín ári eða árum fyrir hrunið, rétt fyrir eða rétt eftir, hvað það varðar að allir sleppa þeir við að standa skil á skuldum sínum ef að líkindum lætur.

Þess vegna er nauðsynlegt að breyta lögum um einkahlutafélög þannig að ábyrgðir á skuldbindingum, bæði vegna áþreifanlegra verðmæta og hlutabréfa, verði ótvírætt á eigendunum. Annað er brot á jafnræðisreglunni.

Theódór Norðkvist, 7.11.2008 kl. 13:59

7 identicon

Sæll Marinó,

Þörf orð í tíma töluð.  Mannorðsmorð eru lítið betri en hin tegundin.  Góð tilvitnun í Einar, en við megum ekki gleyma að Einar var mikill athafnamaður og hefði án efa átt stóran hlut í öllum bönkunum og verið í framvarðarsveit "útrásarinnar" ef hann hefði verið uppi núna!  Mál hefðu þó e.t.v. þróast á annan veg undir hans handleiðslu, hver veit;)

Kveðja frá Port Angeles:)  (PS: Hérna eru nokkrar myndir sem ég tók um daginn upp á Hurricane Ridge: http://www.itakefotos.com/gallery/thumbnails.php?album=4&page=1)

Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 16:26

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég er sammála þér í þessu máli að valdalausir undirsátar eiga ekki að verða hengdir fyrir yfirmenn sína.  Þeir eiga heldur ekki að fara með í gröfina eins og þjónar til forna.  En í dag virðist ekki nokkur maður eiga að bera ábyrgð á þessu.  Svo skiljanlega beinist reiði almennings að öllum sem stinga höfðinu upp úr sandkassanum.

Horfur í atvinnumálum Íslendinga eru sennilega miklu verri en yfirvöld gefa í skyn.  Ráðamenn nota stóryrði eins og móðurharðindi og þjóðargjaldþrot en í sömu setningu er talað um 10% atvinnuleysi og 20% verðbólguskot.  Síðan segir Björn Bjarnason að auknar heimildar lögreglu til valdbeitingar á saklausum borgurum og heimild til að ráða fleiri hundruð lögreglumenn með engum fyrirvara tengist ástandinu ekkert sérstaklega.  Þetta sé búið að vera lengi í undirbúningi!?!

Ég hef líka frétt af því að fyrirtæki eins og Myllan og Ikea séu hætt að ráða til sín fólk/útlendinga.  Í fyrra var næga vinnu að fá hjá þessum fyrirtækjum og endalaus yfirvinna.  Í dag er bara sagt nei, við þurfum ekki að ráða og dregið úr yfirvinnu.  Ég finn það líka bara hjá sjálfum mér að fólk og fyrirtæki eru byrjuð að spara.  Snjóboltinn sem íslenskir ráðamenn komu af stað er efst í hlíðinni og á bara eftir að auka hraðan og lenda á steini.

Þegar Ögmundur VG er farinn að hljóma eins og sá með vitið í fjármálum fyrirtækja og ríkis er ástandið verulega slæmt. 

Björn Heiðdal, 7.11.2008 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband