31.10.2008 | 01:14
Vogunarsjóðurinn Ísland og aðrir sjóðir - 100% öryggi er ekki til
Menn keppast hver við annan þveran að gagnrýna alla sem hægt er fyrir vafasamar fjárfestingar, svindl með peningasjóði, svindl með bótasjóði, áhættusækni og skort á framsýni. Ég hef svo sem ekki gert neina fræðilega úttekt á bótasjóðum, fjárfestingum lífeyrissjóða, fjárfestingum peningasjóða eða hvað það nú er annað sem virðist hafa mistekist á undanförnum mánuðum og árum. Í einhverjum tilfellum hafa orðið alvarleg mistök, í öðrum er um afleiðingu þess hruns sem enginn gerði ráð fyrir og í enn öðrum (ef marka má "orðið á götunni", samt ekki það á eyjan.is) þá hafa menn verið að misnota sjóðina til að útvega bönkunum og vildarviðskiptavinum þeirra fjármagn. Ég ætla hvorki að fjalla um mistök eða svik, en ég vona að hvort um sig séu sjaldgæfar undantekningar og enginn sjóðsstjóri hafi látið misnota sig á þann hátt.
Mér vitanlega þá gilda strangar reglur um fjárfestingar bótasjóða og peningasjóða. Ég hef fulla trú á því að menn hafi a.m.k. framan af verið að vanda sig virkilega vel. Þar sem ég þekkti til bótasjóðs hjá einu tryggingarfélagi, þá hélt þar algjör snillingur utan um sjóðinn. Þetta var maður sem tókst að gera gull úr öllu. Ég hef því enga trú á öðru, sjái þessi einstaklingur enn um stjórn sjóðsins, en að þar sé fylgt ströngum faglegum reglum. Málið er að landslag fjárfestinga hefur breyst gjörsamlega síðustu 10 mánuði eða svo. Fjárfestingar, sem taldar voru gulltryggðar um síðustu áramót eru ónýtar í dag. Af hverju ættu bótasjóðir og peningasjóðir ekki að hafa tapað eins og UBS bankinn í Sviss, Royal Bank of Scotland eða Lehman Brothers?
Ég skil alveg að fólk sé reitt, en 100 ára stormurinn gekk yfir hagkerfi heimsins og fæstir voru með flóðavarnir til að verjast hamfarabylgjunni sem fylgdi. Fólk verður að átta sig á því að allar fjárfestingar, sama hvaða nafni þær nefnast, eru áhættusamar? Og ekki bara fjárfestingar. Það að lifa á Íslandi er áhættusamt fjárhagslega vegna óstöðugs efnahagsástands. Getur einhver hérna nefnt mér eina einustu ríkisstjórn þessa lýðveldis sem hefur tekið af ábyrgð á ríkisfjármálum, haldið gengi í jafnvægi, verðbólgunni í skefjum, atvinnustigi háu og hagvexti jöfnum, stöðugum og skynsömum. Það er alltaf verið að tala um að bankarnir og Seðlabanki hafi gert Ísland að einum stórum vogunarsjóði. Ja, hér eru fréttir: Ísland hefur alla tíð verið einn stór vogunarsjóður og það löngu áður en vogunarsjóðirnir urðu til. Að búa í landi, þar sem maður getur aldrei treyst á að verðbólgu verði haldið í skefjum, að krónan haldist stöðug eða vaxtastig sé viðunandi er ekkert annað en óvissureið á borð við vogunarsjóð.
En aftur að sjóðunum. Peningasjóðir eiga að vera alveg gulltryggðir. Ég man þegar ég lagði pening í slíka sjóði fyrir 10 árum eða svo (peningamarkaðsbréf hjá Landsbréfum), þá var markmiðið að vera með óbundna reikninga, sem gáfu betri ávöxtun en almennar bankabækur og voru traustir. Ég gat vegna þeirrar upphæðar sem ég var með (2 - 3 milljónir) líka fengið að kaupa víxla. Peningamarkaðsbréfin gáfu 5 - 8% ársávöxtun, en víxlarnir allt að 15%. Munurinn var að peningamarkaðsbréfin voru laus með dags fyrirvara, en víxlarnir voru bundnir í 30, 60 eða 90 daga. Við skulum alveg hafa eitt á hreinu. Áhættan af víxlunum var margfalt meiri en af peningamarkaðsbréfunum. Það var m.a. þess vegna sem ég fékk meiri ávöxtun af þeim. Ég veit ekki hvað þjónustufulltrúar bankanna sögðu við fólk, þegar það féllst á að flytja innistæður sínar af almennum reikningum (eða þess vegna verðtryggðum) yfir í peningasjóði. Eitt hefði þó átt að fylgja: Hærri vextir bera meiri áhættu. Þetta er einfaldasta regla áhættustýringar. Hafi einhverjum dottið í hug að 5% hærri ávöxtun yki á engan hátt áhættuna, þá lifði sá hinn sami í blekkingu.
Þetta er eins og keyra bíl. Gefum okkur að maður þurfi að komast á milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir ákveðinn tíma, segjum kl 18.00. Við getum í grófum dráttum farið 2 leiðir að þessu. 1. Lagt tímanlega af stað og ekið á 70 - 90 km/klst. allan tímann (eða þess vegna hægar) og komið tímanlega, segjum milli 5 og 6. Ef eitthvað fer úrskeiðis, svo sem bilun, dekk springur eða við verðum bensínlaus, þá er tæpt að við náum á tilsettum tíma. Lítil hætta er á slysum, þar sem við ökum tiltölulega rólega, og bensíneyðsla er hófleg. Ef við lendum í slysi, þá verður tjón og meiðsl lítil. 2. Lagt af stað eftir hádegi og allt gefið í botn. Ekkert svigrúm fyrir áföll, slysahætta eykst og einnig bensíneyðslan. Ef við lendum í slysi er tjón mikið og löng sjúkrahúslega framunda, ef ekki bara banaslys.
Ef við segjum að hraðinn sé ávöxtunin, aksturstíminn sé tíminn sem það tekur okkur að ná ákveðinni ávöxtun og slysahættan og bensíneyðslan lýsi áhættunni okkar, þá sjáum við að aukinn hraði á peningamyndun eykur áhættu. Það er alveg sama hvað einhver þjónustufulltrúi segir, peningasjóðir eru ekki tryggðir í bak og fyrir. Þeir standa af sér flesta storma, en aldrei hamfaraveður, 100 ára storma. Það getur orðið banaslys. Spurningin er: Áttu þjónustufulltrúarnir að vara við 100 ára stormi eftir að Glitnir var þjóðnýttur? Átti að vara viðskiptavini strax við að í peningasjóðunum fælist meiri áhætta en í innlánsreikningunum? Svo getum við spurt þá sem lögðu inn á Icesave hvort hafi verið öruggara, að leggja inn á Icesave í Englandi eða eiga inni í peningasjóði á Íslandi.
Sagan segir okkur (þ.e. fram til 6. október 2008) að peningasjóðir hafi verið gulltryggð ávöxtunarleið. Tölfræði síðustu mánuði og ár segir okkur það. Alveg eins og tölfræði síðustu ára sagði stórum bönkum úti í heimi að áhættan af undirmálslánunum var ásættanleg. Fyrst að stóru aðilarnir með alla sína sérfræðiþekkingu klikkuðu, af hverju áttu einhverjir eyjaskeggir í norðri að vita betur?
Ég tek það fram að ég átti ekkert inni í peningasjóðum, en það er af þeirri einföldu ástæðu að allt mitt eigið fé er bundið í steinsteypu og meiri steinsteypu en ég kæri mig um, þar sem ég get ekki selt núverandi húsnæði og næ ekki að gera íbúðarhæft húsið sem ég er að byggja. Þannig hefur eigið fé mitt brunnið hratt upp síðustu mánuði, en næstu 8 ár á undan hafði það líka byggst upp með ævintýralegum hætti. Hver er nettó hagnaður minn af þeim peningi sem ég átti 1999 og fór í steinsteypu það ár? Líklega fimmföldun, ef ekki meira. Fer eftir genginu. Hvað á það við um marga aðra? Alveg örugglega fjölmarga.
Líklegt er að fjöldi fólks fari illa út úr peningasjóðum bankanna, en hve margt af þeim var áður búið að græða helling á því að veðja á vogunarsjóðinn Ísland? Ég geri mér grein fyrir að margir fara með neikvæðan höfuðstól út úr falli bankanna og stefna í gjaldþrot vegna þess. Þeim þarf að hjálpa. En hve margir eru í plús miðað við stöðuna 2002, hafa lifað góðu lífi undanfarin ár vegna betri tekna, en þurfa núna að draga saman seglin án þess að þrot blasi við? Áttu nokkur hundruð þúsund í upphafi og eiga nokkrar milljónir núna eftir að hafa fengið 65% út úr peningasjóðum. Keyptu kannski fyrir kr. 200.000 í Búnaðabankanum á genginu kr. 1,69 og seldu svo hluta á genginu 450 þegar bankinn hét KB banki eða 1150 á síðasta ári.
Þetta fólk kvartaði ekki þegar áræðnin skilaði sér í hagnaði, en það verður að skilja að til að auka möguleika á miklum hagnaði, þá eykur maður um leið líkurnar á miklu tapi. Þetta er grundvallarregla áhættustjórnunar. Og önnur grundvallarregla: 100% öryggi er ekki til. Við getum nálgast það út í það óendanlega, en við munum aldrei ná því. Spurningin er að finna jafnvægið á milli vænts taps, þ.e. ásættanlegrar áhættu, og kostnaðarins við að auka öryggið frekar. Hvenær er öryggið orðið nógu mikið til þess að það borgar sig ekki að auka það.
Við höfum fjórar leiðir til að fást við áhættu: 1. Grípa til ráðstafana til að draga úr henni eða eyða alveg. 2. Sætta okkur við hana. 3. Forðast hana með breyttum aðferðum/atferli. 4. Færa hana til annars aðila (sbr. tryggingar). Áhættan af vogunarsjóðinum Íslandi er hægt að meðhöndla eftir öllum þessum leiðum, en ef hún er óbærileg, þá getum við forðast hana með því að flytja úr landi. Við þurfum bara að muna, að önnur áhætta kemur í staðinn. Áhættuna varðandi peningasjóðina var best að meðhöndla með því að forðast þá eða dreifa á fleiri en einn sjóð. Raunar er málið þannig, að enginn ráðgjafi hefði átt að ráðleggja viðskiptavini sínum að setja alla peninga sína á einn stað. Hafi það verið gert, þá er nauðsynlegt að breyta þessu í verklagsreglum bankanna.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 1680091
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 32
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Góður að vanda
Einar Vilhjálmsson, 31.10.2008 kl. 03:17
Skynsamlegt grein. það er ef laust sniðugast í dag að meta fjárfestingar eftir hvað fólk tapaði miklu. Engin fjárfesting skilaði arði í svona hamfaraveðri, það var bara mismikið skjól.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.10.2008 kl. 05:22
Loksins skynsamleg orð í hafsjó sleggjudóma og fordóma. Takk fyrir. Verulega upplífgandi.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 10:06
Yfirvöld hafa þá skyldu að vernda borgarana og setja hraðatakmörk og fylgja þeim eftir. Það gerðu þau ekki og afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Margir byrjuðu að keyra eins og vitleysingar sem endaði með einu allsherjar stórslysi.
Guðmundur Karlsson, 31.10.2008 kl. 12:29
Takk annars fyrir góðan pistil.
Guðmundur Karlsson, 31.10.2008 kl. 12:37
Góð færsla hjá Marinó sem oft áður.
Ég hef oft velt þessu háa vaxtastigi fyrir mér og þar með hærri ávöxtunarkröfu sparifjáreigenda, en ávöxtun innláns hefur að ég held alltaf verið undir útlánavöxtum.
Til að fá hærri ávöxtun á innlánsfé verður einhvers staðar að taka þá peninga. Þeir vaxa ekki á töfratrjám í bönkunum.
Eina leiðin til að tryggja háa ávöxtun er að pína lántakendur nógu mikið. Þetta er vítahringur.
Lífeyrissjóðirnir, sem upphaflega voru stofnaðir til að tryggja hag launþega, harðneita t.d. að leggja niður verðtryggingu, sem er að ganga að flestum launþegum dauðum. Þeir myndu tapa svo miklu af útlánum sínum og verðbréfaeign.
Raunar finnst mér það með ólíkindum hvað lífeyrissjóðirnir eru komnir langt út fyrir verksvið sitt, orðnir að útlánastofnunum og verðbréfabröskurum, en það er önnur saga.
Theódór Norðkvist, 31.10.2008 kl. 13:30
Nú geta allir sameinast í söng
Gæinn sem geymir aurinn minn
Ég finn það gegnum netið
að ég kemst ekki inn
á bankareikninginn,
en ég veit að það er gæi
sem geymir aurinn minn,
sem gætir alls míns fjár,
og er svo fjandi klár,
kann fjármál upp á hár,
býður hæstu vextina,
og jólagjöf hvert ár.
Ég veit hann axlar ábyrgð,
en vælir ekki neitt,
fær þess vegna vel greitt,
hendur hans svo hvítþvegnar
og hárið aftursleikt.
Þó segi’ í blöðunum
frá bankagjaldþrotum
hann fullvissar mig um:
Það er engin áhætta
í markaðssjóðunum.
Ég veit að þessi gæi
er vel að sér og vís;
í skattaparadís
á hann eflaust fúlgur fjár,
ef hann kemst á hálan ís.
Því oftast er það sá,
sem minnstan pening á,
sem skuldin endar hjá. –
Fáir slökkva eldana,
sem fyrstir kveikja þá.
Guðrún (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 15:32
Takk fyrir góða grein. Það er einmitt mikilvægt að minna á að allir tapa bara mismunandi eftir þeim leiðum sem þeir völdu til að geyma peningana sína. Íbúðin mín var kannske 20, 30 eða 40 milljóna virði í vor þegar ávöxtunin á sjóðunum var góð. Nú hefur hún rýrnað í verði alveg eins og peningamarkaðssjóðirnir. Og nákvæmlega rétt hjá þér að hærri ávöxtun þýðir meiri áhætta. Þetta ættu einkum stórir aðilar eins og sveitarfélög að vita sem nú tapa stórum fjárhæðum.
Erna Bjarnadóttir, 31.10.2008 kl. 15:50
Það er samt voða erfitt að dæma einstaklinga, stofnanir, sveitarfélög eða fyrirtæki fyrir að freistast í peningamarkaðssjóðina til að fá 15% þegar þessir aðilar eru með allar sínar skuldir á 20-25% vöxtum.
Sérstaklega þegar haft er í huga að venjulegar sparisjóðsbækur eru (voru) aðeins með 7-10% ávöxtun í 12-15% (=þjófnaður af hálfu bankanna.)
Theódór Norðkvist, 31.10.2008 kl. 16:13
12-15% verðbólgu, afsakið.
Theódór Norðkvist, 31.10.2008 kl. 16:13
Takk fyrir verulega góðan pistil, að vanda laus við upphrópanir.
Það sem hins vegar líklega hefur gleymst í þessu ferli, var að gera fólki grein fyrir áhættunni. Líklega hefur enginn hvorki þjónustufulltrúarnir né viðskiptavinirnir viljað vita af henni.
Kristjana Bjarnadóttir, 31.10.2008 kl. 20:38
Það er alltaf gríðarleg áhætta að taka lán í erlendri mynt með laun í annarri mynt. Sérstaklega áhættusamt þegar talað er um íslenska krónu, minnsta gjaldmiðil heims og uppblásna hágengismynt á þeim tíma sem fólk tók lán. Þetta er gríðarleg áhætta sem fólk hefur tekið. Fólk hefði þurft að vera gríðarlega greindarskert og illa upplýst sem ekki hefur gert sér grein fyrir þessu. Þessi barna/glannaskapur kemur til með að kosta marga einstaklinga, stofnanir fyrirtæki gríðarlega mikið. Margir koma til með að verða gjaldþrota á næstu mánuðum. Ég hef heyrt sömu aðla í nokkur ár monta sig á sinni kænsku og allt í einu eru þeir farnir að tapa gríðarlega og þá er það orðið öðrum að kenna.... þjónustufulltrúum, og væntir þess að það komi einhver aðili og borgi þetta upp..... Hálf fáránlegt að mínu viti. Fólk tók þessi lán og situr sjálft í súpunn. Það kemur enginn björgunarbátur/hringur. Fólk verður að synda sjálft ... eða sökkva.
Klárlega var Seðlabankinn að reyna að minnka þenslu með að hækka vexti síðustu árin og fólk og fyrirtæki fóru framhjá þessu með að taka myntkörfulán í gegnum "íslensku" bankanna. Ef farið hefði verið eftir þessum ráðleggingum Seðlabankans á þeim tíma hefði ekki komið til þessarar þenslu og væntanlega værum við í betri aðstöðu núna. Fyrir þetta var seðlabankinn gagnrýndur.
Það sem er skuggalegt núna er þessi viti firrta umræða núna um hvað ríkið/hið opinbera gæti gert. Ríkið getur ekkert gert. Halli á fjárlögum 2009 er núna metinn á 130-140 miljarða sem er gríðarlega hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu og heildarfjárlögum. Það er hlutverk alþingis og ríkisstjórnar að gera eitthvað með þetta. Þetta dregur niður íslensku krónuna. Hinn hlutinn er að hafa vexti hærri en verðbólgu þannig að það er hagkvæmt að leggja inn og spara. Það að fá niður verðbólgu og styrkja grundvöll krónunnar er mikilvægt annars kemur hún gjörsamlega til með að sökkva og það bitnar á öllum. Stóra málið er fjárlagahallinn, sem enginn talar um. Hvað á hér að gerast?
Gunn (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.