Leita í fréttum mbl.is

Er gos að byrja?

Skjálftarnir við Upptyppinga færast sífellt ofar í jarðskorpuna.  Samkvæmt vef Veðurstofunnar eru grynnstu skjálftar á um 1100 m dýpi, sem getur ekki þýtt neitt annað en að jörðin er að gliðna þar.  Kannski er hraunkvikan bara að troða sér inn í sprungur í jarðskorpunni, en að þetta sé að gerast rétt um 1100 m undir yfirborðinu eykur líkurnar á gosi allverulega.

Ef þarna er að fara að gjósa, þá er talið líklegt að það verði dyngjugos, en slík gos standa gjarnan mjög lengi.  Kannski ætlar móðir náttúra að leggjast á sveif með okkur, því svona gos gæti dregið að ferðamenn í stórum stíl.


mbl.is Skjálftahrina við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

Túristagos getur verið mjög gott en ég verð að segja að ég er uggandi svo ekki sé meira sagt eftir að ég sá þáttinn í sjónvarpinu sem sýnir eldkeiluna frá Íslandi niður í ..... ja, hvað skal segja ... bara alla leið! :-)

Gunnar Þór Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 15:37

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér skilst (er í jarðfræði í Leiðsöguskólanum um þessar mundir) að slikar eldkeilur myndist i mörgum gosum á löngum tíma, þannig að Hekla gæti sprungið í slíku hamfaragosi eftir þúsundir ára.  Öræfajökull sprakk í slíku gosi 1362 og Mýrdalsjökull fyrir um 12.000 árum.  Talið er að gos við Upptyppinga verði meira eins og gosin á Hawaii, þ.e. standa yfir af og á í 100 ár eða meira með litlu af loftkenndum gosefnum (ösku, gjósku o.s.frv.).  Ég hef komið að gosstöðvunum á Hawaii og þar var búið að setja upp útsýnispalla, þjónustumiðstöð og ég veit ekki hvað allt i kringum gíginn þar sem hraunið rann.  Vissulega opnast nýjar sprungur við og við, en fyrir utan gossvæðið, þá hefur gosið lítil áhrif á eyjarskeggja.

Marinó G. Njálsson, 22.10.2008 kl. 16:02

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kennir Jóhann Ísak þér jarðfræðina, Marinó?

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.10.2008 kl. 19:22

4 identicon

Upptyppingar,,og fjallgarðurinn þaðan í norðurátt er dyngjufjallgarður,,Stöðugt landris er á svæðinu,,spáð hefur verið gosi í þessum mánuði , hið fyrsta , fyrir ári síðan,,Slík gos geta staðið í tugi ára,, eitt stærsta staka fjallið á svæðinu er Trölladyngja,,mælingar í sumar bentu til hvikuhlaups til norður,, Hvikuhlaup er eldvirkni sem ekki nær yfirborði jarðar,, Askja er í vesturátt,, mikil hamfaraeldstöð,,hún hefur gosið a.m.k sjö sinnum síðustu hundrað ár,, Ég veðja frekar á svæðið umhverfis Kistufell ,,og þar suður af,sem næsta gossvæði,,svo má setja bláfjallahringinn í annað sæti,,

Bimbó (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 19:43

5 Smámynd: Steinmar Gunnarsson

Flest, ef ekki öll, dyngjugos sem hafa orðið á Íslandi, voru af völdum landriss eftir lok síðstu ísaldar. Þar á ég við gos eins og skópu Skjaldbreið, Trölladyngju og fleiri dyngjur af þeim meiði.

Hekla er allt önnur gerð eldfjalls og hagar sér á allt annan hátt en dyngja. Undir landinu er risastór eldkeila sem nær...... alla leið niður og það er þrýstingurinn frá henni sem heldur landinu fyrir ofan sjávarmál og er nokkurskonar fæðidæla fyrir eldfjöllin okkar.

Jarðfræði er spennandi fræðigrein og Ísland er að sumu leiti alveg kjörinn staður til að stúdera hana, hvort sem það er til gamans eða sem sérgrein.

Mörg eldgos á landinu hafa vakið heimsathygli vegna þess hve auðvelt er að fylgjast með þeim, en gleymum ekki að eldgos getur verið dauðans alvara.

Steinmar Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 20:57

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Lára, já, Jóhann Ísak kennir mér.  Hann er alveg hafsjór fróðleiks.  Annars finnst mér fróðlegast að sjá hvað sýn manna á jarðfræði hefur breyst frá því ég var í jarðfærði í MR veturinn 1977-78.  Og hvað við höfum bara lært miklu meira um jarðfræði landsins.

Marinó G. Njálsson, 22.10.2008 kl. 21:58

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef ekki heyrt að orðið eldkeila sé notað yfir eitthvað sem er neðanjarðar. Orðið eldkeila er notað yfir eldfjöll eins og Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul og Heklu (að hluta) sem myndast í mörgum gosum, eins og Marínó segir og undir þeim er kvikuþró, enda eru þetta um leið megineldstöðvar. Ef kvikuþróin tæmist snögglega getur eldfjallið fallið niður og myndað öskju eins og oft hefur gerst.

Svo er hins vegar svokallaður heitur reitur undir landinu, eða möttulstrókur (ekki eldkeila) sem veldur aukinni gosvirkni og þar með því að Atlantshafshryggurinn nær hér upp fyrir sjávarmál. Á Hawai-eyjum er líka svona heitur reitur og gosin þar eru dyngjugos en þar er hinsvegar enginn goshryggur eins og er á Íslandi.

Gosið sem verið er að tala um að geti komið upp núna er sennilega tengt beint þessum heita reit en kemur ekki úr kvikuhólfi megineldstöðvar. Kvikan er sem sagt komin úr miklu dýpi og því má eiga von á dyngjugosi.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.10.2008 kl. 23:52

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Nýleg grein í New Scientist dregur í efa tilvist kvikuhólfa undir jarðskorpunni, sem menn hafa lengi ímyndað sér að séu til staðar í eldfjöllum einkum þar sem er að finna "heita reiti" (e:hot spots) eins og á Íslandi og á Havaíeyjum.  Eins og kunnugt er, hefur Ísland þá sérstöðu að þar fer saman heitur reitur og landrek. Er þetta einstakt í heiminum.  Vitnar tímaritið í niðurstöður jarðskjálftamælinga á Íslandi (seismic imaging), sem bendi til þess, að kvikan geti stigið á mjög óreglulegan hátt upp á yfirborð jarðar og þurfi alls ekki að fylgja neinu þekktu mynstri eða safnast í kvikuhólf a.m.k ekki í því formi sem áður var talið.  Í þessu skyni hafa þeir búið til líkan úr misþykku sýrópi, sem hitað er upp til að líkja eftir kvikuhreyfingum í iðrum jarðar og í gegn um jarðskorpuna. Skv. þessari kenningu á kvikan að geta sullað og bullað í jarðskorpunni líkt og heitt síróp í potti. Slíkar hreyfingar (kvikukraum?) geta eflaust verið orsök jarðskjálfta í vissum tilvikum.

Júlíus Valsson, 23.10.2008 kl. 09:16

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, það hefur mikið breyst síðan '77 þegar brúna bók Þorleifs var eina kennslugagnið - tyrfinn texti með fáum skýringarmyndum og jafnvel kennarar sem voru ekki í stakk búnir til að kenna jarðfræðina almennilega.

Ég minntist á Jóhann Ísak og kennslu hans hér. Berðu honum kveðju mína.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.10.2008 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1680022

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband