11.10.2008 | 23:34
Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana
Mér finnst mjög sérkennilegt að sjá hvernig allir hella sig yfir stjórnendur og þá sérstaklega eigendur bankanna, eins og þeir séu landráðamenn. Það er eins og fólk haldi að þeir hafi gert það að gamni sínu að fella bankana og láta íslensku þjóðina sitja uppi með alla reikningana. Ég held að fólk ætti aðeins að draga andann og slaka á, áður en eitthvað gerist sem það sér eftir.
Vissulega má rekja fall bankanna til alls konar ákvarðana sem stjórnendur þeirra og eigendur tóku, en það sem varð þeim þó endanlega að falli var ekki rekstur þeirra heldur greiðsluhæfi. Skilanefnd hefur t.d. úrskurðað að Glitnir sé tækur í Kauphöllina! Það þýðir að hann stenst kröfur um eiginfjárhlutfall og að eigna- og skuldastaða uppfylli alþjóðlegar viðmiðanir. Bankinn er EKKI gjaldþrota. Mér kæmi ekkert á óvart þó niðurstaða hinna skilanefndanna verði eins, þ.e. að hvorki Landsbankinn né Kaupþing séu gjaldþrota.
Ólíkt venjulegum fyrirtækjum, þá ber bönkum að kalla inn fjármálaeftirlit strax og í ljós kemur að þeir eru komnir í greiðsluþrot. Það er enginn umþóttunartími eða samningar við lánadrottna. Ef þeir hefðu haft slíkt tækifæri, þá væru þeir í slíku ferli, þar sem þeir gætu verið að selja eignir og gefa eigendum kost á að auka við eigið fé. Hugsanlega var það röng ákvörðun hjá Seðlabanka Íslands að veita Glitni ekki lán. Ef hann hefði samhliða því nýtt sér lánalínur til seðlabanka á Norðurlöndum, þá hefði lánið til Glitnis ekki skert getu hans til frekari lánveitinga. Það hefði sýnt styrk Seðlabankans, en við vitum svo sem ekkert hvernig matsfyrirtækin hefðu metið hlutina. Staðreyndin er nefnilega sú, að matsfyrirtækin eru í reynd mestu örlagavaldarnir í þessu máli (sjá Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?).
Þegar Lehman Brothers var settur í gjaldþrot fyrir 3 vikum, þá hófst atburðarás sem varð til þess að Glitnir missti lánasamning. Það var ekki Glitni að kenna, hvorki eigendum né stjórnendum. Það var heldur ekki ríkisstjórn Íslands að kenna né Seðlabankanum. Þetta voru óheppilegar ytri aðstæður. Það sem gerðist hér á landi var líklegast vegna rangra ákvarðana hjá þessum aðilum. Hvort það var vegna þess að Glitnir áttaði sig ekki á því að Seðlabankinn myndi grípa til jafn harkalegra aðgerða og raun ber vitni eða að Seðlabankinn áttaði sig ekki á því hvaða áhrif aðgerðir hans hefðu skiptir ekki máli lengur. Þetta er búið og gert.
En ég vil benda fólki á og búa sig undir, að verði ekki gripið til verulega umfangsmikilla aðgerða á alþjóðavísu á næstu dögum til að styrkja fjármálakerfi heimsins og taka úr umferð eiturpillur frá Bandaríkjunum, þá mun flóðbylgja skella á fjármálakerfi heimsins. Þessi flóðbylgja er af völdum afleiða frá Lehman Brothers. Samkvæmt frétt á vef The Guardian er byrjað að vefjast ofan af afleiðum að virði $200 - $440 milljarða. Það eru fjölmargir bankar flæktir í þennan afleiðuvef, þar á meðal tveir af stærstu bönkum Bretlands, Royal Bank of Scotland og Barclays.
Málið snýst að mikluleiti um hve mikið fjármálafyrirtæki munu geta endurheimt af þeim skuldum sem þau eiga inni hjá þrotabúi Lehman Brothers og hve mikið þau þurfa að innheimta hjá tryggingarfélögum sem seldu þeim skuldatryggingarálag. Þurfi þau að treysta á skuldatryggingarnar, þá er þeim aðeins tryggt 91,4% af skuldinni. Það þýðir í fyrsta lagi gríðarlegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjunum og ógnvænleg útgjöld tryggingafélaganna. Það er ekkert grín að þurfa að greiða út $400 milljarða í tryggingabætur (þó líklegast verði upphæðin ekki nærri því svo há). Vissulega hafa fyrirtækin líka tryggt sig eftir öðrum leiðum, en spurning er hversu öruggar þær aðgerðir eru.
Vandamálið er að þetta er bara ein bylgja! Eins og máltækið segir er sjaldan ein báran stök og sagt er að þetta sé þegar sú sjöunda. Fyrir hvern stóran banka (og smáan) sem fellur í valinn kemur ný bylgja. Og við skulum hafa það í huga, að það var einmitt ein svona bylgja sem hreif með sér íslensku bankana.
Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita. Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits. Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög. Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur. Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.
Viðbót 12.10. kl. 13:20
Bara svo fólk misskilji mig ekki, þá tel ég alveg ljóst að sá skellur sem við erum að fá er mun stærri en hann hefði þurft að vera og þar er við eigendur og stjórnendur bankanna að sakast, en einnig ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit. Auðvitað áttu bankarnir ekki að fá að vaxa jafnmikið og raun ber vitni á lánsfé en ekki eigin fé. Málshátturinn segir að sígandi lukka sé best og það eru orð með sönnu. Taka þarf lítil skref í einu og ná jafnvægi í hverju skrefi. Það sem bankarnir gerðu var eins og maður að labba upp stiga, þar sem hann færir bara hægri fótinn ofar og ofar, en heldur vinstra fæti alltaf á sama stað. Auðvitað raskast jafnvægi slíks einstaklngs og það þarf minna til að fella hann.
Viðbót 12.10 kl. 21:20
Var að lesa Independent á netinu. Þar er áhugaverð grein um afleiðumarkaðinn. Hann er metinn á $516.000 milljarða (eða $516.000.000.000.000) eða tíföld ársheimsframleiðsla. Menn á þessum markaði eru farnir að skjálfa og óttast hrun hans. Ástandið er orðið svo slæmt að laun yfirmanna hafa verið lækkuð í 100.000 pund Aumingja þeir. Hér er linkur á greinina A £516 trillion derivatives 'time-bomb'
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta er ágæt samantekt hjá þér Marinó.
Ég er næstum kominn á þá skoðun að við hefðum getað komið íslenska fjármálakerfinu upp á sker áður en fyrsta flóðbylgjan skall á. Það var stjórnunarvandi í seðlabankanum okkar og fáránleg atvikaröð í framhaldinu sem varð okkur allt að tjóni.
Eins og þú segir erum við íslendingar eiginlega bara úr leik áður en stóri hrunadansinn hefst. Mér finnst þetta eiginlega líkjast því að vera bara með í einhvers konar forkeppni. Stærri númer en við muni nú taka við athyglinni.
Ég er eiginlega þér þakklátur fyrir að vera ekki einn um þessar efnahagspælingar sem flestum öðrum þykir trúlega bara daður við þunglyndi.
Haukur Nikulásson, 12.10.2008 kl. 00:03
Takk fyrir það, Haukur. Við höfum nú áður verið á sömu síðu, eins og þú manst, þá varð það bara að tölvuvæða þjóðina.
Marinó G. Njálsson, 12.10.2008 kl. 00:11
Mín skoðun er sú að allir séu að gera sitt besta alltaf! Það er bara svo misjafnt hvað menn telja best. Færustu sérfræðingar voru marg búnir að reikna út að rekstur bankanna stæðist ekki, miðað við þær forsendur sem þeir gáfu sér.
Þorvaldur Gylfason benti á, að aðstæðurnar í fjármálaheiminum hefðu einungis flýtt fyrir! Seðlabankastjóri staðhæfði að lánið sem Glitnir óskuði eftir hefði dugað í tvo til þrjá mánuði. Á að lána bönkunum í hvert skipti sem þeir þurfa að greiða af lánum sínum? Hvernig heldur þú að það endi?
Nú þegar okkur opnast veruleikinn í þessu máli, sjáum við að bankarnir hafa verið vægast sagt, glannalega reknir. Þeir hafa stækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist miðað stærð hagkerfisins. Auðvitað bera stjórnendur bankanna ábyrgð þar!
En ábyrgðin er fyrst og fremst stjórnvalda! Ekki seðlabankastjóra! Ég fer ekki fleiri orðum um þá skoðun mína. Ég er ekki sammála þér um eftirmála þessara hörmnga, málið liggur einfaldlega of ljóst fyrir.
Mér fynnst samt einkennilegt hvernig meintir sakborningar (mín skoðun) geta gengið um í þessu máli og spillt sönnunargögnum og hagrætt atburðarrásinn sér í hag. Burt með krumlu ríkisvaldsins af bankakreppu málinu! Látum sérfræðinga í málið og fáum sanngjarna málsmeðferð!
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 12.10.2008 kl. 01:09
Marinó, góð samantekt hjá þér og það sama á við um fyrri færslu þína um matsfyrirtækin. Alltaf gaman að lesa það sem þú hefur fram að færa. Er alveg sammála að það er alveg undarlegt að það sé ekki búið að leysa þessi matsfyrirtæki upp og réttarhöld séu hafin yfir þeim sem þar unnu.
Ég er ekki viss um að Gordon Brown vilji hugsa það til enda að það komi í ljós að aðgerðir gegn Kaupþingi hafi verið ólögmætar, óréttmætar og óþarfar. Og til að komast hjá þeirri hugsun hafa örugglega stafsmenn Bresku Leyniþjónustunnar (enda Kaupþing hryðjuverkasamtök) unnið sleitulaust í því að laga til pappíra til að sanna mál Breta. Þeim er ekki teystandi eins og staðan er núna.
Þessi hugmynd um sáttasemd er ekki alveg vitlaus enda erfitt að sanna að eitthvað hafi verið glæpsamlegt á seyði (tel ekki að svo hafi verið) en kannski voru menn ekki nógu og gætnir. Það er svo annað ef það reynist rétt að fjárfest hafi verið öðruvísi en auglýsingar Peningamarkaðs-sjóðanna benti til.
Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 09:30
Góð samantekt Marinó. En það gleymist kanski eitt. Ef maður getur ekki borgað reikningana hér og nú þá er maður kominn í gjaldþrot - manni þrýtur gjaldið - og er því tækilega gjaldþrota þó svo að maður sé vel stæður og eigi fyrir öllu ef einungis manni gefst tími til að losa bundnar eignir. Þetta er það sorglega við þessa lausafjárkreppu. Laust fé þrýtur og góðir bankar eru sendir í gjaldþrotastopp. Allir þeir bankar sem hafa rúllað síðan þessi kreppa hófst hafa verið góðir bankar.
Það hræðilega við allt þetta mál er sú (núna) staðreynd að það virðist vera almenn viðhorf í Evrópu og víðar að ekki sé hægt að stunda bankastarfsemi án þess að skattgreiðendur séu notaðir sem gíslar til að styðja við bakið á fjármálastofnunum sem eru að fara á hausinn. Aðeins Bandaríkin og Ísland virðast ætla að leyfa lögmálum markaðarins að ráða, þ.e. að leyfa fjármálastofnunum að fara á hausinn eins og þær eiga að fá að gera. Hér í Evrópu verða það skattgreiðendur sem verða látnir greiða allar skuldbindingar bankakerfisins, ef á þarf að halda: a) lán á millibankamarkaði b) önnur lán c) og allar aðrar skuldbindingar banka við alla banka og svo d) ótakmarkaðar innistæður sparifjáreigenda.
Þetta munu ríkissjóðir Evrópulanda ekki ráða við því þetta myndi þýða gjaldþrot þjóðanna, það vita allir, svo auðvitað verður stór hluti bankakerfisins bara þjóðnýttur í staðinn og öllu þurrkað af á hluthafa og skattgreiðendur
Þetta vita fjárfestar. Þessvegna selja þeir alla bankapappíra sem hægt er að selja og eins hratt og hægt er að selja þá, því hver vill eiga hlut í fármálastofnun sem verður þjóðnýtt? ENGINN!
Mig grunar að tími risa-banka sé liðinn.
Við munum komast út úr þessu, en það þarf að standa saman og standa FAST á meðan á þessu stendur. En svo mun birta til á ný.
Lesson: Mér finnst að Ísland ætti að hætta að einblína svona gersamlega til Evrópu. Vestur er einnig gott ásamt fleiri áttum.
Kveðja
Gunnar Rögnvaldsson, 12.10.2008 kl. 11:03
Gunnar, ég kannski orðaði þetta ónákvæmlega. Munurinn á fyrirtækjum og bönkum hér á landi a.m.k. er að þegar þeir fara til skilanefndar og við það missa eigendurnir eign sína í bönkunum, fyrirtæki geta óskað eftir því að fara í greiðslustöðvun og samið við lánadrottna án þess að eigendur missi fyrirtækin úr höndunum.
Steingrímur, gaman að heyra frá þér aftur. Ég rakst á greiningu á FT.com í gær sem ég held að sé mjög holl lesning fyrir alla (A cruel wind). Þar kemur fram að mér sýnist hlutlaus greining á þróun mála. Vissulega einfölduð, en hlutlaus. Þar er lýst m.a. hvernig Kaupþing fór í mjög mikla uppstokkun sem hafi breytt gjörvöllu eigna og skuldasafni bankans, dróg úr útlánavexti og tekið var til í rekstri.
Hitt er annað mál, ef Bear Sterns, Lehman Brothers, Washington Mutual, Freddie Mac og Fannie May lifðu þetta ekki af þrátt fyrir ótrúlegar tilraunir Bandaríkjastjórnar til að koma markaðinum vestan hafs til bjargar, hvaða möguleika áttu íslensku bankarnir sem fengu nánast enga hjálp? Við erum veikasta hagkerfið og það fyrst og fremst felldi bankana, en ekki eigna- eða skuldastaða þeirra. Umheimurinn hafði ekki trú á þessu hagkerfi, sem m.a. endurspeglaðist í mati matsfyrirtækjanna á Íslandi sem töldu lánamöguleika hins skuldlausa ríkissjóðs slæma. Kannski voru að mistök ríkisstjórnarinnar að hafa ríkissjóð skuldlausan og það hefi verið betra að skulda 200 milljarða og eiga þá peninga inni á reikningi hjá Bank of England?
Marinó G. Njálsson, 12.10.2008 kl. 11:50
Ég var að horfa á Silfrið og viðtalið vði Jón Ásgeir. Það var sláandi hvað Egill var æstur meðan Jón Ásgeir sat sallarólegur. Mér fannst þjóðin missa af gullnu tækifæri til að heyra skýringar Jóns Ásgeirs. Því miður fórst Agli illa á stjórnun viðtalsins og í hvert sinn sem Jón Ásgeir var að komast að einhverju sem mætti kalla kjarna málsins, tók Egill af honum orðið og beindi umræðunni að einhverju slúðri sem hann hafði heyrt. Af hverju komu ekki spurningar um stöðu Glitnis áður en Seðlabankinn ákvað að þjóðnýting væri eini kosturinn? Af hverju var ekki spurt út í rekstur bankanna og hvað fór úrskeiðis þar í staðinn fyrir að éta upp slúður? Niðurstaðan af þessu viðtali var að engar nýjar upplýsingar komu fram. Sorry, Egill, min gamle ven, þetta var ekki gott viðtal.
Marinó G. Njálsson, 12.10.2008 kl. 13:55
Fín grein. það þarf að halda því á lofti hvað matsfyrirtækin gerðu hrikalega mistök. Það er ekki gott að fá lán sem alveg útilokað er að bankar eða fjármálastofnanir geti borgað af.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.10.2008 kl. 14:27
Af hverju tala menn um að þessu hafi verið hægt að afstýra í október 2008 þegar menn hefðu átt aðgera sér það ljóst að afstýring gat orðið í síðasta lagi fyrir ári síðan en sennilega miklu fyrr. Stjórnendur bankanna vissu þetta örugglega. Ríkisstjórnin var ónæm fyrir vísbendingum um að breyta þyrfti glæsilegri ímynd sinni sem ríkisstjórn framfara og frjálsræðis í bankaviðskiptum. Seðlabankinn hefur verið óstarfhæfur vegna skorts á trúverðugleika frá því Davíð sté þar inn fyrir dyr. Mér dettur ekki í hug að þessir mætu menn sem þykjast stýra þjóðinni í þessum vanda núna séu vandanum vaxnir til að leysa nein mál nú fremur en endranær.Ég ætla ekki að standa að baki þeim ég er bara þvingaður í þá stöðu núna að vera áhorfandi. Svo maður ljúki máli sínu á myndlíkingu. íslenska þjóðarskútan er sokkin með mýs og menn og það er verið að reyna að breyta henni í kafbát og á meðan eigum við að halda niðrí okkur andanum þangað til rússar eða jólasveinar alþjóða gjaldeyrissjóðsins koma fyrir súrefnistönkum.
Gísli Ingvarsson, 12.10.2008 kl. 16:18
Ég er ekki viss um að neinn sé að segja það hafi endanlega verið hægt að afstýra þessu. Ef breska bankakerfi er að hrynja og það bandaríska er verulega skaddað, þá er ólíklegt að það íslenska gæti staðið slíkt af sér. Ég held aftur, að það að kerfið hrundi svona núna sé ekki eigendum eða stjórnendum að kenna. Að við sitjum uppi með alls konar skuldir er aftur þeim að kenna, þar sem það var þeirra stofnun sem fór á hausinn hvort sem það var réttlátt eða ekki. Á þessu er mikill munur.
Marinó G. Njálsson, 12.10.2008 kl. 16:26
Bankarnir voru vel reknir. Þeir sem hafa staðið í vegi fyrir ESB aðild íslendinga eiga sökina. Ef við hefðum haft aðgang að evrópska seðlabankanum þá hefði þetta aldrei gerst.
Jón Gunnar Bjarkan, 12.10.2008 kl. 18:27
Gunnar, mér yfirsást þetta hjá þér:
Ég held að þetta sé ennþá alvarlegra (eða betra eftir því hvernig er á þetta litið). Ég held að þessi kreppa muni marka endalok risa fyrirtækja og mjög líklega yfirráða fárra fyrirtækja samsteypa á náttúruauðlindum ríkja um allan heim. Ríkisstjórnir um allan heim munu skilja mikilvægi þess að hafa stjórn á sínum auðlindum, sem risafyrirtæki hafa sópað til sín í krafti nýlendustefnu og auðs. Þegar fjármálakerfi þessara þjóða hrynja (eins og byrjað að gerast víðar en á Íslandi), þá munu menn fara í að þjóðnýta auðlindirnar. Ef það gerist mun náttúrulega markaðsvirði auðhringana hrynja með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir bandarískt hagkerfi. Þetta er bara spá og ég hef ekkert fyrir mér annað en hugboð.
Marinó G. Njálsson, 12.10.2008 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.