Leita í fréttum mbl.is

Það er verr fyrir okkur komið en ég hélt

Var að horfa á viðtalið sem "elsku drengurinn" hann Sigmar tók við Davíð Oddsson.  Ég er eiginlega orðlaus.  Hann Davíð er í svo ótrúlegri afneitun að það er hættulegt fyrir þjóðina.  Fyrir utan kjaftaganginn í honum.  Hann er verri en versta slúðurkerling.  Það eru nokkrir punktar sem vöktu sérstaklega hjá mér spurningar:

1.  Af hverju varpar hann sökinni á "slöku" eftirliti á Fjármálaeftirlitið?  Ég hélt að FME ynni eftir reglum sem Seðlabankinn ekki bara samþykkir heldur er hann aðili að þeim samtökum sem hreinlega semur þær.  Þá er ég að tala um Bank of International Settlements.

2.  Ég hélt að lánshæfismat Landsbanka og Kaupþings hefði lækkað vegna þess að matsfyrirtækin efuðust um getu ríkisins og Seðlabanka til að koma þeim til bjargar.  Ég hélt að lánshæfismat ríkisins hefði lækkað vegna þess að það hafði samþykkt að þjóðnýta Glitni með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgdi.  Og ég hélt að lánshæfismat Glitnis hefði lækkað vegna þess að Seðlabankinn hafði úrskurðað veðin sem bankinn vildi leggja fram handónýt og bankinn ætti því litla möguleika á fjármögnun.

3.  Ég vissi ekki að það væri neitt hættulegt við það, að bankar sem eiga eignir upp á hátt í 10.000 milljarða þyrftu að endurfjármagna sig á 3 - 4 árum upp á góðan hluta af þeirri tölu.  Það er það sem bankar gera.  Þeir taka lán til skammstíma og lána til langstíma. 

4.  Mér finnst nokkuð glannaleg sú afstaða Seðlabankastjóra að líkja því að bjóða lánadrottnum íslensku bankanna 5 - 15% af kröfum sínum við það sem Seðlabanki Bandaríkjanna gerði gagnvart Washington Mutual.  Kröfurnar sem þurfti að afskrifa vegna Washington Mutual eru sáralítill hluti af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Seðlabanki Bandaríkjanna hafi þegar ausið ómældum fjármunum inn í fjármálakerfið vestan hafs.  Seðlabanki Íslands hafði varla lagt fram krónu til að liðka fyrir íslensku bönkunum og stóð gjörsamlega máttvana gagnvart lækkun krónunnar.  Ef Seðlabankinn hefði verið búinn að sýna getu sína áður með stórum aðgerðum, þá hefði kannski verið hægt að réttlæta þetta viðhorf, en að koma fram í sjónvarpi og skella þessu svona fram er í besta falli ósvífni.

5.  Mér fannst líka ótrúleg lýsing Davíðs á skilyrðum þess að veita lán til þrautavara.  Ég hefði talið að til að hægt sé uppfylla þessi skilyrði, þá væru menn í svo góðum málum að þeir væru vaðandi í lánsloforðum.

Maður fyllist bara vonleysi, þegar maður horfir á manninn þarna sjálfumglaðan eins og það sem er á undan gengið hafi bara verið eðlilegasti hlutur.


mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég þér ósammála þarna. Davíð hefur nú aldrei verið á vinsældarlistanum mínum en þetta er með þeim betri viðtölum sem ég hef séð við hann lengi. Og myndi einmitt segja að þetta viðtali lýsi upp þessa tíma frekar en hitt.

Hafþór (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 23:01

2 identicon

Þetta var alveg skelfilegt viðtal  þar sem Davíð opinberaði yfirgripsmikla vanþekkingu sína á peningamálum,  bankastarfsemi og á fjármálamörkuðum yfir höfuð.

Það broslegasta við þetta viðtal var hinsvegar að hann eignaði sjálfum sér allt  þar sem hann taldi að vel hafi tekist til með , en kenndi öðrum um það sem miður hafði farið.

Allir sem gagnrýna störf hans eru hluti af stærri áróðursmaskínu gegn honum (professorar við LSE og LBS sem dæmi) 

Annars fór Sigmar um hann of mjúkum höndum og leyfði honum að stjórna viðtalinu um of.

Þetta var pínlegt dæmi um að  tími pólitískt ráðinna seðlabankastjóra ætti að heyra sögunni til.  Seðlabankinn hefur staðið sig illa síðasta árið með almennu aðgerðar- og ráðaleysi, vitlausri vaxtastefnu og svo þetta klúður í kringum Glitni sem gerði það að verkum að  við erum komin í þá aðstöðu sem við erum í núna. 

Fannar (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 00:13

3 Smámynd: Stefanía

Hvað er að...!!!!!  Þolir enginn að maðurinn tali tæpitungulaust ? !!!

Þvílík pólitík.

Stefanía, 8.10.2008 kl. 01:47

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Mér fannst þetta viðtal upplýsandi.  Davíð taldi upp kallana sem bera ábyrgð á þessari fjármálavitleysu með nafni ásamt honum.  Ég missti reyndar af byrjunni og veit ekki hvernig hann ætlar að redda þessum erlendu netreikningum sem eru með íslenskri ríkisábyrgð.  Hann tönnlaðist bara á því að þjóðin ætti ekki skilið að sökkva með bönkunum. 

Reyndar fannast mér góð líkingin með slökkvuliðið.  Hann klikaði bara á því að hann er bæði slökkviliðið og aðal brennuvargurinn.   

Björn Heiðdal, 8.10.2008 kl. 07:42

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, varðandi slökkviliðið, þá vissulega reyndi það að slökkva eldana í húsi Glitnis (en nú er komið í ljós að það mistókst), en tókst ekki betur til en svo að eldurinn breiddist til nærliggjandi húsa án þess að það áttaði sig á því.  Og nú brennur allur bærinn.

Ég átta mig alveg á því að hann sagði margt sem hefði mátt orða hvassar fyrr, en í allt of mörgum tilfellum var hann í slæmri afneitun.

Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 07:48

6 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Hvaða hávaði er þetta.........þola menn ekki sannleikann

Jón Snæbjörnsson, 8.10.2008 kl. 07:53

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón, það er fínt að heyra sannleikann, en hann kom ekki frá Davíð í gærkvöldi.  Það þarf ekki annað en að lesa yfirlýsingu fyrrverandi stjórnarformanns Glitni og hlusta á það sem bankastjórar Landsbanka og Kaupþings hafa sagt.  Hrun bankakerfisins á Íslandi hófst vegna þess að lánshæfismat Íslands og bankanna var fellt í kjölfar þjóðnýtingar Glitnis.  Við lækkun lánshæfismatsins lokuðust lánalínur og aðrar voru innkallaðar.  Þar með komst Landsbankinn í greiðsluþrot og vandi Glitnis jókst stórlega. Við þekkjum öll framhaldið.  Stórfelld eignaupptaka og eignatap tugþúsunda einstaklinga.  Ekki ræddi Davíð það.  Skerðing lífeyrisréttinda.  ekki ræddi Davíð það.  Fjármálalegu trausti umheimsins á Íslandi kastað fyrir róðann.  Það fannst honum hið besta mál.  Það myndi koma aftur eftir nokkur ár!

Síðan fannst mér merkilegt, að allt þetta gerist á hans vakt og það hvarflar ekki að honum og hann eigi sök.  Að háir stýrivextir Seðlabankans spili stórt hlutverk í þessu öllu. Að getuleysi Seðlabankans við að halda gengi hér stöðugu spili stórt hlutverk í þessu.  Að hugmyndaleysi Seðlabanka og ríkisstjórnar við að halda verðlagi stöðugu skipti hér miklu máli.  Að Seðlabankinn hafi rekið peningamálastefnu sem steypti þjóðinni nærri því í gjaldþrot.

Marinó G. Njálsson, 8.10.2008 kl. 09:09

8 identicon

Vil nefna punkt 5 hjá þér Marínó. Það sem lítur að þrautavarahugtakinu og hvernig það er skilgreint.  
Ef banki í lausafjárskreppu hefur í raun engin veð sem hald er í sem hann getur lagt fram er honum í raun allar bjargir bannaðar.  Ég hef ekki heyrt um að seðlabankar annarra landa hafa tekið slík veð gild og yfirtöku hefur þá verið beitt. Ef staða Glitnis hefur værið sú sem nú flest bendir til eru þeir eftir öllum skilgreiningum gjaldþrota og þá er aðgerð SÍ rétt.
Ef Glitnir hefur haft góð veð en vegna þrenginga á alþjóða lánamörkuðum enginn vill lána honum er það hlutverk Seðlabankans að hlaupa undir sem þrautavari og láni.  Þ.e. að vera banki bankanna. Það er ekki hlutverk SÍ að vera í hlutverki jólasveinsins á kostnað skattborgara það held ég að flestir taka vonandi undir.

Að lokum snýst þetta allt um traust.  Þegar þessi stormur er yfir gengin vildi ég sjá að óháðir aðilar gengu í genum þetta mál og fá sannleikan skýrt á borðið.  Ljóst er að hér hafa hagsmunaaðilar, þeas eigendur og hluthafar Glitnis og aðrir óvildarmenn DÓ, einnig farið offari í sínum yfirlýsingum.
 
Ég er þér sammála því að DÓ er mjög óvarlegur í yfirlýsingum sínum sem seðlabankastjóri enda hagar hann sér ennþá eins og stjórnmálamaður. Hins ber ekki að neita að gagnrýnendur hans, sem hafa gagnrýnt hann að sumu með réttu hafa að mínu mati farið offari og grafið þannig undan SÍ í þessari erfiðu stöðu og þannig ennþá aukið á þennan vanda.  

Í engu landi  sem ég hef búið í eru aðgerðir seðlabanka ekki ræddar og eru háværar raddir eru stöðugt uppi. í USA, í UK og á norðurlöndum þar sem er stöðug gagnrýni á aðgerðir og aðgerðarleysi seðlabanka en hvergi hef ég kynnst annarri eins persónugervingu, þessi umræða er sérstaklega óæskileg núna og því er ég sammála því að DÓ ætti að draga sig í hlé.
Undirritaður telur að ástæða vandamála okkar sé fyrst og fremst sök aðila í viðskiptalífi okkar: Stærst er sök eigenda og stjórnanda Fl-goup, Existu, fyrrum eigenda  Eimskips og aðaleigenda og stjónenda Glitnis, Landsbankans og ekki minnst Kaupþings. 
Ríkisstjórn, Seðlabanki og fjármálaeftirlit hafi brugðist á mörgum sviðum. Að mínu viti er einnig stór hlutur fjölmiðla hér sem hafa verið í raun og veru í eign þessara aðila og það hefur stýrt flestri umræðu. Og stuðlað að þessu. 

Gunn (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:45

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það stóð á endum að Kastljóssviðtal Davíð gerði út af við lánstraust þjóðarinnar.  Alveg eins og ég óttaðist.  Framvegis verður að koma í veg fyrir að Seðlabankastjórar fái að fara í drottnignarvitöl.  Það er ekki þeirra hlutverk að koma með pólitískar yfirlýsingar.  Það er ekki þeirra hlutverk að segja hvað ríkisstjórn landsins ætlar að gera.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2008 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 1681325

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband