Leita í fréttum mbl.is

Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna?

Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér um leið og maður fylgist með atganginum fyrir vestan haf, hvort innviðir bandaríska hagkerfisins séu að molna.  Fjármálafyrirtækin falla eitt af öðru, stærsta tryggingafyrirtæki heims er bjargað úr snörunni, Ford og General Motors hafa óskað eftir ríkisaðstoð og stóru flugfélögin standa á brauðfótum.  Sama hvert litið er, alls staðar virðast stór og áður stöndug fyrirtæki vera í miklum vanda.  Allt er þetta afleiðing af fjármálakreppunni sem er að ganga yfir samhliða hinni miklu hækkun olíuverðs sem varð á fyrri hluta þessa árs. 

Fallið hefur verið hátt, en að mínu mati, hefur það ekki verið óvænt.  Ég hef lengi haldið því á lofti að þetta væri fyrirsjáanlegt.  Raunar skrifaði ég færslu um málið fyrir rúmu ári (sjá Láglaunalandið Bandaríkin), þar sem ég benti á nokkur atriði sem ég taldi bera vott um veika stöðu Bandaríkjanna:

  1. Lág laun
  2. Lágt vöruverð
  3. Lágt gengi bandaríska dalsins
  4. Mikill viðskiptahalli
  5. Mikill fjárlagahalli
  6. Vaxandi atvinnuleysi
  7. Getuleysi þeirra til að takast á við afleiðingar fellibylsins Katrínar

Af þessum atriðum hefur aðeins eitt þeirra lagast, þ.e. gengi USD hefur styrkst mikið síðustu vikurnar. 

Í færslunni minni taldi ég, eins og fyrirsögn færslunnar gaf til kynna, að lág laun væru stærsti vandinn.  Lág laun gerðu það að verkum að fólk gæti ekki greitt af lánum og hefði ekki efni á neinu umfram brýnustu nauðsynjar.  Ég er svo sem ekki einn um að halda því fram að efnalítið fólk sé ógn við stöðugleika.  En að þetta skyldi snúast upp í þann óskapnað, sem nú ríður yfir, var kannski meira en búast mátti við.

Auðvitað snýst þetta ekki bara um að fullmargir Bandaríkjamenn geti ekki staðið í skilum á lánum sínum.  Flækjan er meiri en svo.  Í fyrsta lagi átti stór hluti húsnæðiskaupenda aldrei að fá þau lán, sem síðar lentu í vanskilum.  Þar má beina spjótunum að gráðugum sölumönnum fasteigna og slakri útlánastefnu húsnæðislánafyrirtækja.  Síðan áttu fjármálafyrirtæki aldrei að geta selt fjármálavafninga með þessum lánum sem AAA pappíra.  Þar liggur sökin að stórum hluta hjá matsfyrirtækjunum sem brugðust gjörsamlega í hlutverki sínu, en ekki má líta framhjá því, að þau voru undir miklum þrýstingi í kjölfar breyttra reglna um áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum, svo kallaðar BASEL II reglur. Loks áttu önnur fjármálafyrirtæki aldrei að treysta þessum pappírum í blindni vitandi hvað stóð að baki þeim, þar sem sagan hafði sýnt að stærra hlutfall undirmálslána lenti í vanskilum en hefðbundinna húsnæðislána.  Þar brást áhættustýring þessara fyrirtækja, en þau treystu gagnrýnilaust á einkunnir matsfyrirtækjanna.  Ofan á þetta bættist síðan gríðarleg hækkun olíuverðs, sem jók rekstrarkostnað flugfélaga um tugi prósenta og varð til þess að stöðutákn Bandaríkjamanna, SUV bílinn eða pick-upinn, hætti að seljast.

Líklegast er eitt atriði í viðbót, sem rétt er að tala um.  Hér á landi hefur kross-eignarhald fyrirtækja verið mikið gagnrýnt með réttu.  Við lestur frétta og fréttaskýringa um vanda stóru fyrirtækjanna í Bandaríkjunum, hefur ítrekað komið fram að menn óttast að fall ákveðinna lykilaðila gæti komið af stað keðjuverkun.  Ástæðan er að þessi fyrirtæki eiga verðbréf hvert hjá öðru.  Það hefur verið búið til kross-eignarhald í verðbréfum, skuldabréfum, afleiðum og öðrum fjármálavafningum.  Rofni einn hlekkur í keðjunni, þá eru miklar líkur á að allt falli. Þess vegna varð að bjarga Bear Sterns, þess vegna varð að bjarga Fannie May og Freddie Mac og þess vegna varð að bjarga AIG.  Vissulega var Lehman Brothers leyft að fara í greiðslustöðvun, en það var líklega bara gert til að auðvelda Barclays yfirtöku á rekstrarvæna hluta fyrirtækisins.  Annað í rekstri fyrirtækisins var (að mati fréttaskýrenda) meira og minna verðlaust.  Sama á við um Merryl Lynch.  Bank of America keypti fyrirtækið fyrir slikk og þar með var hægt að núllstilla rekstur þess með lágmarks tapi og án þess að rugga bátnum of mikið.  Hvort allar þessar aðgerðir komi í veg fyrir að keðjuverkunin fari í gang mun koma í ljós á næstu dögum eða vikum.  Vonandi munu menn læra það af þessu, að einfaldara er betra.  Vonandi mun Bank of International Settlements byggja það inn í nýja útgáfu af BASEL reglunum, að fjármálavafningar í dúr við þá sem sett hafa allt á annan endann í fjármálaheiminum undanfarið ár, geta aldrei aftur fengið AAA einkunn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Og eitt í viðbót varðandi krosstengslin.  Öll lán og allir vafningar eru meira og minna tryggt hjá AIG. Áhrifin af gjaldþroti AIG hefðu því orðið að fyrst hefði verulega dregið úr millibankalánum, síðan lánum til fyrirtækja og loks lánum til einstaklinga.  Hjól útlánakerfisins hefði líklegast stoppað hjá þeim hluta markaðarins sem treyst hefur á AIG.

Marinó G. Njálsson, 18.9.2008 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1681304

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband