Leita í fréttum mbl.is

Bankarnir bjóði upp á frystingu lána

Í síðustu viku hóf Íbúðalánasjóður að bjóða þeim, sem hafa keypt húsnæði eða eru að byggja og eiga í vandræðum með að selja, upp á að frysta afborganir lána.  Samkvæmt fréttum, þá hafa hrúgast inn umsóknir hjá sjóðnum.  Nú er spurningin hvort bankarnir eigi ekki að bjóða upp á þetta líka.

Eins og staðan er á fasteignamarkaðnum, þá gengur mjög illa að selja.  Ég veit ekki hvort það er vegna þess að kaupendur átta sig ekki á þeim lánamöguleikum sem eru á markaðnum, sé að bíða af sér verðbólgustorminn eða eftir því að verð lækki.  Ég á ekki von á því að nafnverð lækki mikið, í mesta lagi um fáeinar prósentur, þannig að lækkunin verður líklegast í gegnum raunlækkun vegna verðbólgu.  Það er ákveðin skynsemi í því að bíða þar til verðbólgukúfurinn er genginn hjá, en hafa verður í huga að lán eru uppreiknuð miðað við afhendingardag, þannig að verðbólga næstu mánaða mun að öllum líkindum lenda á seljendum.  Þá er það með lánamöguleikana.

Í hverjum mánuði renna 12% af andvirði launa landsmanna til lífeyrissjóðanna í formi iðgjalda.  Þetta eru gríðarlega háar tölur. Lífeyrissjóðunum er í mun að koma þessum peningum í vinnu fyrir sjóðfélaga sína.  Það er eins og fólk hafi yfirsést það undanfarna mánuði, að lífeyrissjóðirnir eiga ekki bara fullt af peningum heldur eru vaxtakjör þeirra mjög vel viðunandi.  Vissulega er þeir með lægri mörk en bankarnir, en 65% veðhlutfall er nú nokkuð þokkalegt.

En aftur að bönkunum.  Vanskil eru farin að aukast.  Það sést m.a. á því að fjármálafyrirtæki eru farin að leggja fyrir á afskriftarreikninga.  Samkvæmt uppgjöri VBS, þá er hægt að rekja allt tap fyrirtækisins og rúmlega það til fyrirbyggjandi aðgerða m.a. vegna hugsanlegra afskrifta (varúðarfærsla vegna hugsanlegrar virðisrýrnunar útlána).  Það er sem sagt ekki byrjað að afskrifa neitt að ráði, heldur er verið að færa á reikning það sem hugsanlega þarf að afskrifa eða fer í vanskil á næstu mánuðum.  Eins og staðan er í þjóðfélaginu, þá mun þetta bara aukast. 

Fjölmargir einstaklingar eru með gengisbundin bílalán sem hafa hækkað langt umfram verðmæti bílanna.  Sum þessara lána eru orðin það þung í greiðslu, að fólk á í erfiðleikum með að standa í skilum.  Aðrir eru með húsnæðislán þar sem greiðslubyrðin hefur einnig aukist mjög mikið.  Í báðum tilfellum er ég nokkuð viss um að fólk vill standa í skilum, en það er við ramman reip að draga.  Það stefnir allt í að með krónuna jafn lágt skráða og raun ber vitni, að þessi lán fari í vanskil.  Ein leið út úr þess er að taka ný lán, en sú leið virðist heldur torsótt.  Önnur er að reyna að selja, en hvort heldur að það eru bílar eða fasteignir, þá er nærri því frost á markaðnum.  Þá er það þriðji kosturinn, en hann er að bankarnir bjóði sama kost og Íbúðalánasjóður, þ.e. bjóði fólki að frysta afborganir í 6 - 12 mánuði.  Þetta er hugsanlega ekki hægt, en hver er hinn kosturinn.  Að innkalla lánin og ganga að veðunum.  Eru bankarnir eitthvað betur settir með að eiga 50, 100, 200 eða þess vegna 500 eðalvagna og einbýlishús úti um hvippinn og hvappinn sem þeir koma ekki í verð.  Er ekki betra að koma til móts við lántakendur og gefa þeim svigrúm með því að fresta afborgunum á svipaðan hátt og Íbúðalánasjóður gerir.  Ég geri mér grein fyrir að bankarnir reikna með þessum peningum inn í veltuna, en komi til mikilla vanskila, þá gæti það litið illa út í efnahagsreikningi þeirra.


mbl.is Hremmingar ekki yfirstaðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband