Leita í fréttum mbl.is

Ekki á að bjarga þeim sem "fóru of geyst", en hvað með hina?

Fjármálaráðherra lýsir því yfir í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 að ekki eigi að bjarga þeim sem "fóru of geyst".  Það er svo sem alveg rétt að ekki á að bjarga þeim sem fóru út í kaupa á hlutabréfum og fyrirtækjum með mikilli skuldsetningu, en gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans snýst ekki bara um það.  Hann snýst líka um það að verja krónuna og auka trúverðugleika Seðlabankans sem þrautavaralánveitanda bankanna.  Þar sem verðbólgan núna er að mestu innflutt í gegnum veikingu krónunnar, þá er besta vopnið í baráttu við verðbólguna að styrkja krónuna. 

Raunar snýst málið, fyrir flesta Íslendinga, um það, að Seðlabankanum hefur mistekist að viðhalda stöðugu gengi krónunnar.  Frá því að krónan var sett á flot 1. apríl 2001, þá hefur gengisvísitalan verið eins og öldugangur í ofviðri sem sífellt hefur færst í aukana.  Hún byrjaði í 125, fór upp í 141, niður í 134, upp í 150 og allt þetta á fyrstu 7 mánuðunum.  Þá tók við styrkingartími, þar til nokkur stöðugleiki náðist um mitt ár 2002.  Sá stöðugleiki hélst í rúm 2 ár, en síðan höfum við séð gengisvísitöluna fara niður í 107, upp í 116, niður í 100, upp í 135 (6 mánuðum síðar), niður í 110, upp í 157, niður í 144, upp í 169, niður í 152, upp í 166 og núna er hún í 158.  Það er þetta rugl sem þarf að stoppa, vegna þess að þetta rugl er að setja allt á annan endann.  Það er þetta rugl sem hefur reglulega orsakað verðbólguskot sem Seðlabankinn kann ekki önnur ráð við en að hækka stýrivexti.  Verðbólgan orsakar síðan að verðtryggðu lánin hækka.

Kannski er fjármálaráðherra alveg sama um þennan óstöðugleika í íslenska hagkerfinu.  Kannski er honum alveg sama um að krónan sé eins og korktappi í stórsjó.  Rekald sem hendist fram og til baka og hafi enga viðstöðu.

Já, það var fullt af fólki sem tók áhættusamar ákvarðanir.  En flestir voru bara að gera það sem allir gera á einhverjum tímapunkti, þ.e. fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir sjálfan sig.  Lán voru tekin ýmist verðtryggð í íslenskum krónum eða gengistryggð í erlendum gjaldeyri.  Þetta fólk gerði ráð fyrir að Seðlabankinn og ríkisstjórn væru starfi sínu vaxin og hefðu hemil á verðbólgunni og tryggði stöðugleika krónunnar.  En þessir aðilar hafa öðrum fremur klikkað og ríkisstjórnin þarf að gera eitthvað til að bæta fólki þann skaða sem af þessu hefur hlotist. Óverðtryggðir vextir sem áttu að vera 10-12% eru komnir í 20 - 25%. Verðtrygging hefur hækkað höfuðstól lána um nærri 15% á einu ári.  Lækkun krónunnar hefur hækkað höfuð stól erlendu lánanna á bilinu 23 - 35% á þessu ári einu og 17 - 37% á einu ári. 

Er til of mikils ætlast að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi það góða stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar, að við þurfum ekki að þola svona rússíbanareið ár eftir ár?  Er til of mikils ætlast að þeir sem ákveða peningamálastefnu landsins skilji afleiðingar ákvarðanna sinna?  Er til of mikils ætlast að ríkisstjórn og Seðlabanki skilji þann vanda sem allt of stór hluti landsmanna er að lenda í og geri eitthvað í málinu?  Auðvitað er leiðinlegt að einhverjir tapi á fjárfestingum sínum, en það er verra ef fólk og fyrirtæki verða gjaldþrota vegna þess hve vextir eru háir og gengi krónunnar lágt.  Þetta eru þeir hlutir sem ríkisstjórn og Seðlabanki eiga að verja og stjórna.  Það er því ekki til of mikils mælst að ríkisstjórnin geri eitthvað og það fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta eru mjög áhugaverðir punktar hjá þér. Þú ert búinn að lýsa vandanum. Ertu með einhverjar tillögur um hvað þarf að gera til þess að losa okkur undan ábyrgðarleysi seðlabankans og ríkisstjórnarinnar?

Þegar evran varð að veruleika fannst mér það vera nauðsynlegt að taka hana upp því þá væri hægt að miðað við einhverja fasta einingu í viðskiptum (sbr. metrakerfið). Nú erum við hins vegar búin að mála okkur út í horn og ekki eins auðvelt að taka upp evruna. Samt er ég á því að hún sé nauðsynleg fyrir okkar spillta þjóðfélag svo auðveldara verði að fletta ofan af okrinu. Kannski yrði hægt að stofna og reka fyrirtæki hér á Íslandi án þess vera í stjórnmálaflokki.

Sumarliði Einar Daðason, 13.8.2008 kl. 19:44

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Ekki veit ég hvernig ESB hjálpar okkur að losna við klíkuskap og vinagreiða.  Síðan er það Jón Ásgeir sem fulltrúi húsmæðra í Vesturbænum sem vill ganga í ESB.  Ekki heldur hann að sá gjörningur skemmi fyrir hans mjólkurkúm.

Björn Heiðdal, 13.8.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 1679976

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband