Leita í fréttum mbl.is

Vantar almenning og atvinnulíf lánveitanda til þrautavara?

Það er mikið nefnt um þessar mundir að viðskiptabankana, Seðlabankann og þess vegna ríkið vanti lánveitendur til þrautavara.  Þetta er talin ein helsta ástæða fyrir lækkandi lánshæfismati og hækkandi skuldatryggingaálagi (þó það hafi lækkað síðustu daga) bankanna og ríkisins.  En mig langar bara að benda á, að mjög er farið að þrengja að lánamöguleikum almennings og fyrirtækja í landinu.  Eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag, er eingöngu hægt að fá lán á slíkum ofurkjörum að ein lántakan kallar á aðra innan fárra vikna.  Mjög margir aðilar eru í þeim sporum, að þeim dugir ekkert að draga seglin saman eða þeir geta ekki dregið þau nema mjög takmarkað saman.

Fyrirtæki eru mörg í þeim sporum að þau þurfa að leggja út fyrir miklum kostnaði við þróun, framleiðslu, sölu, markaðssetningu og þjónustu, en fá síðan tekjurnar af þessu mörgum mánuðum síðar.  Skýrasta dæmið um þetta eru ferðaþjónustufyrirtæki á borð við bílaleigur.  Þær endurnýja bílaflota sinn á hverju vori og nú standa þeim til boða lán og lánfyrirgreiðsla sem verður einfaldlega til þess að þær munu fara yfir um í hrönnum á haustmánuðum.  Byggingarverktakar eru kannski hálfnaðir eða rúmlega það með stóra byggingu og þá kippir viðskiptabankinn að sér hendinni.  Verktakinn gæti ekki einu sinni selt íbúðir í byggingunni á hálfvirði, þar sem hann fær ekki fjármagn til að ljúka byggingunni.  Sama gildir um einstakling, sem stendur í byggingaframkvæmdum.  Eina sem býðst eru yfirdráttarlán á himin háum vöxtum.  Þó svo að fólk vildi losa sig við eignir, þá er það ekki hægt, þar sem kaupendum bjóðast ekki lán.  Og ekki dugir framkvæmdastopp, þar sem vextina þarf að greiða um hver mánaðarmót og þá ekki litla.

Það virðist því liggja beinast við að fyrirtæki og almenning bráðvanti lánveitendur til þrautavara.

Eins og fram kom í viðtali við mig á Rás 2 um daginn, þá þekki ég þessa stöðu mjög vel, þar sem við hjónin erum að byggja og með núverandi húsnæði á sölu.  Okkur vantar herslumuninn upp á að geta flutt inn í nýja húsnæðið, en þann herslumun gengur alveg bölvanlega að brúa.  Þar sem við erum með tvöföld lán í gangi, þá komum við illa út úr greiðslumati.  Fasteignamarkaðurinn er nálægt alkuli (um +2° Kelvin) og því sjáum við ekki fram á að núverandi húsnæði seljist fyrr en í haust eða jafnvel síðar.  Ég hef ekki áhyggjur af stöðunni eftir ár eða tvö, þar sem jafnvægi kemst örugglega á fljótlega í framhaldi af því að gengið styrkist og laun hækka.  Ég kýs að líta á núverandi ástand sem ansi bratta brekku í maraþonhlaupi.  Spurningin er bara hversu fljótt við komust upp brekkuna, hvaða fórnir þurfum við að færa til komast upp og hvað tekur við þegar upp er komið.  Draumurinn er náttúrulega að gengið styrkist verulega á næstu vikum, verðbólgan gangi hratt niður, húsið seljist fljótlega á því sem næst uppsettu verði og að lán fáist á hagstæðum kjörum svo við getum flutt inn.  Það sakar ekkert að láta sig dreyma Smile 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband