5.3.2008 | 13:11
Samúð Reynis Traustasonar
Reynir Traustason vottar á DV.is Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni samúð sína vegna þess að Jón Ólafsson vill verja mannorð sitt. Samúð Reynis nær fyrst og fremst til þess að Jón er svo ríkur, en Hannes Hólmsteinn er launamaður og þar með ekki ríkur. Af þessum rökum Reynis má draga þá ályktun að sé maður fátækur þá má maður segja hvað sem er um hina ríku og sé maður ríkur, þá má maður þurfa að þola hvað sem er af þeim fátæku. Mér finnst þetta furðulegur rökstuðningur hjá Reyni og er raunar stórhættulegur.
Það mætti kannski rifja það upp fyrir Reyni, að Jón Ólafsson gerði ekkert í málinu meðan Hannes hafði grein sína bara á íslensku á vefsíðu sinni. Það var ekki fyrr en Hannes þýddi hana og birti hana á ensku að Jón gerði eitthvað, þar sem erlendir viðskiptavinir Jóns spurðu hann út í efni greinarinnar. Raunar hefur komið fram, að Hannes var ítrekað beðinn um að fjarlægja þýðinguna af vefsíðu sinni, en hann hafnaði því.
Það getur vel verið að eitthvað í fortíð Jóns Ólafssonar hafi ekki komið upp á yfirborðið, en hver maður er saklaus uns sekt er sönnuð. Gróusögur á borð við það sem minn gamli kennari var að nefna í grein sinni, eiga ekkert heima í siðfágaðri umræðu og er erfitt að sjá annan tilgang með slíkum skrifum en að kasta rýrð á mannorð viðkomandi. Mögulega var þetta þáttur í ófrægingarherferð gegn Jóni, en flestir sem fylgdust með umræðu um Jón og fyrirtæki hans fyrir 5 - 10 árum muna að verulega var vegið að honum, að því virtist fyrir það eitt að hann kunni með peninga að fara og var snjall í viðskiptum.
Þetta mál er, að mínu áliti, af sama toga og nýlegur dómur um meiðyrði bloggara. Það sem birt er opinberlega, þ.m.t. á vefsíðum, þarf að vera þannig sett fram að það standist lagagreinar um meiðyrði. Þar sem greinin var augljóslega ætluð fyrir aðila sem ekki skilja íslensku, þá er eðlilegt að sækja málið þar sem efni greinarinnar veldur mestum skaða. Jón mat sem svo að tjón sitt væri mest í Englandi og nýtti ákvæði breskra laga til að fara með málið fyrir dómstóla þar. Með réttum viðbrögðum hefði Hannes hugsanlega komist hjá því að tapa málinu, en það er alltaf óskynsamlegt að grípa ekki til varna á einhvern hátt. Dómurinn varð síðan harðari en þekkt er frá sambærilegum málum hér á landi. Niðurstaðan er orðin hörð lexía fyrir Hannes og óska ég engum manni að þola slíkt. Lærdómurinn af þessu máli og nýlegum dómi yfir bloggara er sá að betra er að vera orðvar í skrifum sem birtast opinberlega og gæta þess að segja ekki meira en maður hefur efni á að borga fyrir.
Þeir sem birta efni opinberlega verða að taka mið af þessu og stjórnendur vefsvæða, eins og t.d. blog.is, þurfa að gæta þess að efni sem sett er inn á slík svæði brjóti ekki í bága við lög. Vissulega geta þeir ekki fylgst með öllum sem sett er inn af notendum, en verði þeir varir við að vefsvæði þeirra eru notuð til ólöglegra hluta, þá ber þeim að tilkynna slíkt til lögreglu. Þá er ekki vitlaust á svæði eins og blog.is að á stjórnborðssíðu sé tengill yfir í reglur svæðisins.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Góð grein, Hannes fór mikinn á þessum tíma. Hann var duglegur við það að koma sér í fjölmiðla með þessar Gróusögur og þegar hann var spurður um sannanir að þá sagði hann að hann væri að hafa eftir sögur sem hefðu gengið lengi. Nú vill svo til að um Hannes hafa gengið sögur lengi og með sömu rökum og hann notar mætti þá setja þessar sögur fram hérna. En þær eru náttúrulega, eins og alþjóð veit, að Hannes sé hommi ! og að stuttbuxnadrengirnir hafi verið honum hugfangnir. Þetta hljómar kannski rætið hjá mér að setja þetta svona fram, en nú nota ég meðulin hans Hannesar. Kannski bragðast þau ekki eins vel í hans eigin munni !
Kv Ellert G
Ellert Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 13:24
Sammála þér ! þetta er fáránleg grein. Hannesi stóð til boða í upphafi að leiðrétta og biðja afsökunar á greininni sem hann setti inn. Það má vel vera að Jón hafi hagnast á einhverju ólöglegu, en ef það liggja ekki neinar sannanir fyrir því þá er afar eðlilegt að fara í mál við greinarhöfund og þá sér í lagi þar sem Jón er í miklum viðskiptum erlendis og greinin til þess fallin að reyna að koma höggi á hann. Mér finnst gott hjá Jóni að fara með málið alla leið og breytir engu hvort um er að ræða vesælan launþega eða mann með peninga.
Kristberg Snjólfsson, 5.3.2008 kl. 13:41
Það er svosem ekkert að því að Jón Ólafsson fari í mál við Hannes Hólmstein - ég trúi því vel að þetta hafi skaðað hann og góður grundvöllur fyrir meiðyrðamáli.
Það sem er hins vegar athugavert er að Jón skuli fara í mál í Bretlandi en ekki á Íslandi. Nú vill svo til að Hannes er búsettur á Íslandi og síðan hans var vistuð á íslenskum vefþjóni. Afhverju á Hannes þá að verjast fyrir breskum dómstóli?
Það er til dæmis grundvallarregla í íslensku réttarfari að ef þú ætlar í mál við einhvern þá gerirðu það í hans umdæmi svo viðkomandi þurfi ekki að kosta miklum peningum í ferðalög til þess eins að verja sig. Sama á auðvitað að gilda hér. Ég sé bara ekki að þetta mál komi breskum dómstólum neitt við frekar en að það ætti að koma dómstól í Sádí-Arabíu við ef íslendingur fer með meiðyrði um Sádí-arabískan þegn (sem gerist líklega æði oft).
Það mætti kannski segja sem svo að það sé breska meiðyrðalöggjöfin sem sé vandamálið enda hafa dómstólar í ýmsum löndum hætt að taka mark á niðurstöðum í breskum meiðyrðamálum - hunsað beiðnir um aðfarargerðir og þessháttar. Það gengur enda ekki að eitt land sé á eigin spýtur að flytja út sína löggjöf til annara landa.
Annars finnst mér hálf lúalegt hjá Jóni að fara í mál við Hannes í Bretlandi því það er augljóslega tilgangur hans að skaða Hannes fjárhagslega frekar en að fá ummælin dæmd dauð og ómerk enda er óhemju dýrt að halda uppi í vörnum í Bretlandi (eða hvar sem er í útlöndum ef út í það er farið) og æði líklegt að hann hefði hvort eð er unnið málið fyrir íslenskum dómstólum.
Sama mætti svo segja um það þegar Kaupþing fór í mál við Ekstra Bladet. Kaupþing fór augljóslega í mál í Bretlandi til þess eins að skaða blaðið fjárhagslega - enda samdi það eingöngu um sátt í málinu vegna þess að áframhald málssóknarinnar hefði kostað það háar fjárhæðir alveg óháð því hver niðurstaðan hefði verið.
En þetta atriði virðist alveg hafa gleymst í íslenskum fjölmiðlum - kannski vegna þess að litlir kærleikar virðast vera á milli flestra íslenskra fjölmiðlamanna annars vegar og Hannesar Hólmsteins og danskra fjölmiðla hins vegar?
Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 13:53
ég held að ef Hannes hefði ekki skrifað greinina á ensku hefði Jón ekki farið í þetta málavafstur. ástæðan er klárlega sú að þegar greinin kom á ensku fór hún að skaða viðskipti Jóns meira en þegar greinin var á íslensku.
Að fara í mál í Bretlandi finnst mér afar eðlilegt þar sem´Hannes valdi að skrifa greinina á ensku og þar með búinn að opna fyrir meiri skaða hjá Jóni en ef greinin hefði bara verið á Íslensku.
Kristberg Snjólfsson, 5.3.2008 kl. 14:12
Andri, þú mátt ekki gleyma því að Jón var búsettur í Englandi á þeim tíma sem hann fór í mál við Hannes. Hitt er annað mál að grein Reynis snýst ekki um að Jón hafi farið í mál við Hannes í Englandi, heldur að auðmaður sé að fara í mál við fátækling vegna meiðyrða. Það er atriðið sem ég er að fjalla um. Ég get svo sem tekið undir að ef málaferlin hefðu verið hér á landi, þá hefði Hannes ekki vikist undan því að grípa til varna, en skaðinn varð í Englandi og það er ekki neitt óeðlilegt við að sækja málið þar sem skaðinn varð.
Ellert, það er ákaflega óskynsamlegt að svara einni Gróusögu með annarri.
Marinó G. Njálsson, 5.3.2008 kl. 17:30
Hannes fór mikinn á þessum tíma. Of mikinn?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.3.2008 kl. 22:08
Marinó
Ég verð að vera ósammála þér hvað varðar málsóknina í Englandi. Ef það væri ekki hægt fyrir Jón að fara í mál á Íslandi eða ólíklegt að hann fengi hlutalausa meðferð þá gæti ég skilið þetta. Leyf mér að benda á annað dæmi. Ef skráðar persónuupplýsingar um mig frá búsetutíma mínum á Íslandi, segjum niðurstöður úr blóðrannsóknum eða lyf sem mér voru ávísuð færu á vergang og nú væri ég búsettur í BNA, væri sjálfsagt að ég gæti farið í mál á hendur einstaklingnum sem kom þessum upplýsingum á framfæri fyrir bandarískum dómstólum á grundvelli svokallaðra HIPAA laga þar sem refsingin eru himinháar sektir, brottrekstur og jafnvel fangelsisvist í stað þess að fara fram með málið á Íslandi þar sem refsingin er líklega mun vægari. Þessar upplýsingar eru auðskiljanlegar á svo til flestum tungumálum.
Ég tel þetta slæmt fordæmi og sú skoðun hefur ekkert með Hannes að gera.
Hvað varðar bloggið frá Ellert þá vonast ég til þess að ef hann hugsar sig um í smá tíma þá sjái hann hversu lágkúrulegt hans komment er. Ég skil að hann er reyna að vera sniðugur og að snúa dæminu við en fordómar í garð samkynhneigðra skína því miður í gegn.
Kveðjur,
Anton
anton (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 22:39
Á fólk sem hefur snúið við blaðinu fá ekki frið til að halda því áfram? Td. Hannes getur núna snúið við blaðinu sínu og skrifað stórum stöfum aftan á það,, ég biðst afsökunnar á þessu Jón!
Það dræpi engann.
Peningur kemur, peningur fer, sama er mér.
Jónas Jónasson, 5.3.2008 kl. 23:14
Þetta er þó alltjent ærleg hugsun hjá mínum gamla skipsfélaga Reyni Traustasyni að hafa samúð með þeim venjulega launamanni sem verður hugsanlega að lúta því að láta af hendi nánast allar eigur sínar, á annan tug milljónar, til vellríks manns sem þarf naumast á meiri peningum að halda. Marinó, þú hlýtur að sjá þetta sjálfur og virða, hversu mjög sem þú ert annars sammála mér, að menn eigi að bera vissa ábyrgð á orðum sínum – og þó ekki nánast óendanlega mikla, af því að þeim ríku hugnist það.
Jón Valur Jensson, 6.3.2008 kl. 02:52
Það er þetta með Gróusögurnar ..."sjaldan lýgur almannarómur"!
Reynir Traustason er ekkert heilagri en aðrir, honum helst stundum vel á pennanum og stundum illa. En hann kann ekkert að vera með hatt því hann situr alltaf með kúfinn á hausnum innandyra í viðtölum eins og t.d. Kastljósinu ofl. Það er kurteisi að taka hattinn ofan þegar dvalið er innandyra! Það heitir að kunna sig! Að þumbast með hattkúfinn á hausnum innandyra er háttur illa upp alinna götustráka og viðlíka aula sem enga mannasiði kunna.
corvus corax, 6.3.2008 kl. 11:30
Eitt er víst, að þeir sem hafa farið hamförum yfir nýlegum dómi gegn Gauki þar sem hann var dæmdur fyrir meiðyrði í garðs Ómars Valdimarssonar, og lýst yfir samúð með Gauki, munu ekki gera það sama ef Hannes tapar málinu gegn Jóni Ólafssyni.
Ástæðan er einföld: Gaukur mun teljast vera vinstrameginn við miðju í stjórnmálum, en Hannes er eins og alkunna er, Sjálfstæðismaður. Svo einfalt er þetta.
Þeir sem skrifað hafa um málið sem Gaukur tapaði, og lýst hneysklan sinni og foráttu við því, eru langflestir á vinstirvæng stjórnmálanna.
Kolbeinn Höskuldsson (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 11:47
Marinó, málið snýst ekki um hvar Jón hafi búið (ég veit samt að hann bjó í London á þessum tíma) eða hvar skaðinn varð (augljóslega mestur utan Íslands). Málið snýst um að einstaklingur sem býr í landi X og skrifar á vefsíðu sem er vistuð í landi X þurfi ekki að verja sig í landi Y. Ef það væri reglan ættu dönsku skopmyndateiknararnir að verjast fyrir dómstól í Riyahd eða Salman Rushdie í Teheran, ekki satt?
Á Íslandi höfum við eitthvað sem heitir heimaþing og ef þú ætlar í mál við einhvern þá verður þú að sækja það fyrir hans heimaþingi. Það er ekki þannig að sá sem er lögsóttur þurfi að verjast þar sem sækjanda hentar. Allavega ekki á Íslandi.
En ég skil Jón vel, ég held að flestir hefðu farið með málið fyrir dóm í hans sporum og hans æra er alls ekki minna virði en annara þótt hann sé efnaður og þekktur.
Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 14:04
Mér finnst ansi margir misskilja það sem bæði ég og Reynir Traustason erum að segja. Ég er ekki að fjalla um hvar málsóknin er og Reynir ekki heldur. Reynir er að segja að sé maður fátækur, þá megi maður níða skóinn af þeim ríku, og sé maður ríkur, þá á maður að sætta sig við að fátækir einstaklingar reyni að ræna mann ærunni. Ég er að fjalla um þennan hluta og finnst þessi málflutningur Reynis fáránlegur. Það eiga allir að gæta sín í orðræðu og forðast ærumeiðingar, hvort sem þeir eru ríkir eða ekki. Þeir sem ekki geta það, verða að sætta sig við að taka afleiðingunum (ríkir eða ekki).
En varðandi þessi rök að Hannes hafi skrifað á íslenska vefsíðu, þá er vefurinn alþjóðlegur og þetta mál er viss prófsteinn fyrir íslenska vefara um það hvar landamæri vefheima liggja. Í þessu tilfelli er það tungumálið sem ræður landamærunum ekki staðsetning vefþjónsins. Það sést t.d. á því að Jón amaðist ekki við skrifum Hannesar með þau voru á íslensku. Enska útgáfa greinarinnar var ekki sett á netið fyrir Íslendinga. Henni var ætlað að ná til útlendinga og líklegast hugsuð til að koma höggi á Jón gagnvart þeim aðilum. Það má því segja að Hannes hafi valið vettvanginn um leið og hann birti þýðinguna.
Marinó G. Njálsson, 6.3.2008 kl. 19:15
Hugsanlega er Jóni jafnilla við Hannes, eins og Hannesi er við Jón. Birti Hannes ekki greinina til þess að útlendingar gætu lesið hana og skaðinn fyrir Jón yrði þannig sem mestur? Jón varð ekki fyrir neinum skaða í útlöndum af íslensku útgáfu greinarinnar. Ég fæ ekki betur séð, en að Jón sé að láta Hannes finna fyrir sínum eigin meðulum. Í mínum huga valdi Hannes vettvanginn. Sér grefur gröf sem grefur, segir máltækið og þannig virðist hafa farið fyrir Hannesi. Því miður.
Ég vil aftur taka það fram, að grein mín er um viðhorf Reynis, ekki gjörðir Hannesar. Ég gleðst ekkert yfir því að Hannes verði rúinn inn að skinni vegna einhverrar sérvisku í sér. Hann taldi sig hafa skotleyfi, en svo kemur bara í ljós að breskir dómstólar eru ósammála. Við megum síðan ekki gleyma því, að málinu er ekki lokið. Það á eftir að dæma í því að nýju og það er ekkert víst að Jóni vinni í þessari umferð, þegar Hannes heldur uppi vörnum. Þannig gæti Hannes fengið stóran hluta kostnaðar síns endurgreiddan, en hann gæti líka verið dæmdur til greiðslu bóta.
Marinó G. Njálsson, 7.3.2008 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.