14.7.2007 | 01:31
Þórustaðanáman - Ljótasta sár í náttúru landsins
Ég var að koma úr nokkurra daga ferð í kringum landið. Ferðin hófst á fjögurra daga fótboltamóti á Akureyri, en síðan var farið austur um land og suður og börnunum sýndar í fyrsta sinn nokkrar fegurstu náttúruperlur landsins. Ekið var suður fyrir Mývatn, farið í Ásbyrgi, tjaldað í Atlavík, farið upp að Kárahnjúkum og Snæfelli, farið um suður firði Austfjarða og svona mætti lengi telja.
Það er óhætt að segja að náttúra landsins er stórbrotin og fögur. Yfirleitt hefur okkur tekist að ganga vel um landið, þó svo að haugar vegagerðarmanna stingi óneitanlega illa í stúf á víð og dreif um landið. Eitt mannanna verk skar þó augu mín verr en nokkuð annað. Það voru ekki framkvæmdirnar við Kárahnjúka, sem ég er vissulega ekki sáttur við, en við komu á staðinn, þá fór einhvern veginn mun minna fyrir þessari framkvæmd, en ég hafði búist við. Og það voru ekki hinar stórfurðulegu háspennulínur sem liggja frá Fljótdalsvirkjun niður á Reyðarfjörð og auðveldlega hefði verið hægt að leggja í jörð. Nei, það sár í náttúru landsins, sem mér fannst ljótast (og ég furða mig sífellt meira á hvers vegna þetta er yfirhöfuð leyft), er Þórustaðanáman í Ingólfsfjalli. Það er með ólíkindum hvað þetta sár er hræðilegt. Af hverju hafa ekki umhverfisverndarsinnar hafið upp raust sína og reynt að hindra að þessi eyðilegging haldi áfram? Af hverju þarf náttúrueyðing að eiga sér stað uppi á hálendinu til að menn láti í sér heyra? Hvað þarf eyðileggingin að ganga langt þar til hægt verður að stöðva hana? Hvar er Ómar eða öllu heldur hvar var Ómar þegar sú ósvinna átti sér stað að menn fóru upp úr gömlu námunni? Er ekki hægt að stoppa náttúrueyðinguna áður hún verður algjör? Til að glöggva sig betur á breytingunni sem orðið hefur á Ingólfsfjalli undanfarin ár má skoða grein af vefnum Suðurland.net. Þó ég hafi ekki verið fylgjandi eignaupptökuúrskurðum í tengslum við þjóðlendumálin, þá bíð ég spenntur og vona innilega að Ingólfsfjall verði í heild gert að þjóðlendu til að bjarga því sem bjargað verður af fjallinu.
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt 14.12.2007 kl. 14:05 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 22
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
þetta er ekkert smá sorglegt, vonandi taka einhverjir þetta málefni upp.
halkatla, 14.7.2007 kl. 10:05
Þú spyrð hvar ég hafi verið. Á tímabili var ég einn um það að sýna í fjölmiðlum hvað var að gerast í Ingólfsfjalli og birti ítrekað loftmyndir af þessu raski ofan frá og niður og frá ýmsum sjónarhornum.
Ég fjallaði á svipaðan hátt um námurnar í Vífilsfelli og á sínum tíma um Seyðishóla, tvíburagígana á Hellisheiði, Eldborgina sunnan við Svínahraun, efnistökuspjöll í og við Berserkjahraun, rannsóknarborholuspjöll við Trölladyngju og margt slíkt.
Með þessu fannst mér ég vera að reyna að sinna sjálfsagðri skyldu fjölmiðla um að upplýsa um mál og var oftast einn um það.
Ég fjallað líka oft um efnistökumál í heild og sýndi dæmi.
Í 50 þáttum um umhverfismál sem sýndir voru vikulega í heilt á á Stöð tvö var þetta tekið fyrir.
Mér skilst að nú sé búið að þurrka út þessa einu umhverfisþáttaröð, sem gerð verið hér á landi.
Sem fjölmiðlamaður var þetta aðeins fólgið í upplýsingagjöf en ekki ætlað sem áróður enda breytti þessi umfjöllun ekki nokkrum sköpuðum hlut, heldur hafa allir annaðhvort ekki séð þetta eða gleymt því og spyrja svo eftir á: "Hvar var Ómar?"
Ómar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 22:52
Ein viðbót.
Þegar þú hefur skoðað allt það sem er verið á gera á Hraunasvæðinu svonefnda sem tilheyrir Kárahnjúkavirkjun og kemur að Hálslóni í júníbyrjun næsta sumar sérðu hluta af langmestu og óafturkræfustu umhverfisspjöllum sem hægt er að fremja á Íslandi.
Þú segist hafa "komið á staðinn." Ef það hefur falist í því að fara á framkvæmdatímanum Landsvirkjunarleiðina þar sem aðeins sást lítill hluti af svæðinu sem raska átti, hafðirðu í raun ekki séð svæðið að neinu gagni.
Ef þú hefur aðeins komið á svæðið eftir að lónið hefur drekkt dalnum ertu eins og strúturinn, sem stingur höfðinu í sandinn, hefur ekki séð neitt af því sem fór undir vatn.
Ómar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 22:58
Ég bý á Selfossi og vissulega er þetta ljótt sár, en flestir á Selfossi eru fylgjandi námunni þar sem mölin er mun ódýrari þaðan en ofan af heiði. Ef einhver annar kostur er í stöðunni þá myndu flestir hinsvegar taka undir það að loka námunni og þyrma fjallinu.
Elfa D. Þórðardóttir (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 00:21
Þú hefur ekki fylgst mikið með umræðunni um Ingólfsfjall það hefur líklega bara ekki orðið á vegi þínum yfirleytt áður, bæði Ómar Ragnarsson og Bjarni Harðarson á Selfossi hafa haldið umræðu um efnistökuna í Ingólfsfjalli á lofti um árabil, en svo kemurðu inná að þú hafðir gert þér hugmynd um að raskið við Kárahnjúka væri mun meiri en það svo reyndist vera þegar þú sást það sjálfur, sem er jú auðvitað af því að Ómar og fleiri eru búin að vera að hammra á því í fjölmiðlum að þar eigi sér stað "eyðilegging" eða óafturkræf (enn einu sinni þetta mjög svo ofnotaða orð) aðgerð, sem auðvitað eru alveg jafn afturkræfar og flest öll mannanna verk, en líka sástu að nú gastu með svo auðveldum hætti keyrt um og sýnt, um leið og þú sást sjálfur, börnunum þennan hluta hálendisins sem þú hefðir ekki getað hvorki í ár né næsta ár ef ekki hefðu verið þessar framkvæmdir þarna, staður þar sem enginn hafði yfirleitt komið að eða var yfirleitt á leiðnni að.
Aftur að Ingólfsfjalli, þá er það nú bara svo að á Suðurlandi er enn til fólk sem þorir að framkvæma svo sem eins og að byggja sér hús og það eiga ófæddir Sunnlendingar eftir að gera um ókomin ár og þá er nú, eins og Elfa Þórðardóttir segir hér áður, alveg ágætt að eiga nú ekki lengra í malarefni en þetta, nóg er nú samt dýrt að byggja og ein og ein malarnáma er nú bara til vitnis um líf og athafnasemi og malarnámið í Ingólfsfjalli truflar okkur Sunnlendinga yfirleytt ekki nema einn og einn sem gerir sér ekki grein fyrir að athafnasemi mannsins fylgja spor og er það yfirleytt sama fólk sem heldur að göturnar hafi alltaf verið til staðar, malarefni í húsgrunna orðið til á vörubílspalli og veit ekki betur en að kjötið og mjólkin verði til í búðinni. Það er nú bara þannig að það hafa ekki allir áhuga fyrir að flytjast á höfuðborgarsvæðið til að sýsla með pappíra og eða klippa hvert annað og við sem að höfum ákveðið að búa utan höfuðborgarsvæðisins þolum það bara mjög vel að sjá götur og hús verða til. Ég er sammála þér(svo ég reyni nú að vera jákvæður líka) með þessar fjandans rafmagnslínur, en ég held að línur sem að flytja þessa spennu séu ekki til, nema þá mjög svo dýrar, sem hægt er að jarða.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 15.7.2007 kl. 01:06
Ég biðst afsökunar, Ómar, ef ég hef gert litið úr hlut þínum, en þættir á Stöð 2 ná bara því miður ekki til nema lítils hluta landsmanna.
Högni, ég tók það líka fram að ég hef verið og er á móti framkvæmdunum við Kárahnjúka. Það kom mér samt á óvart hvað fór lítið fyrir þeim í landslaginu fyrir austan. Andstaða mín við virkjanaframkvæmdirnar á hálendinu hefur birst bæði í greinum í Morgunblaðinu í gegnum tíðina og í umræðu hér á blogginu. Í desember 2000 skrifaði ég grein, Af hagkvæmni Flótdalsvirkjunar, sem hægt er að finna á vef mínum www.betriakvordun.is. Ég og Sigurður Jóhannesson höfum gantast með það að skrif okkar á þeim tíma hafi orðið til þess að Eyjabökkunum var bjargað, a.m.k. leið ekki langur tími frá því að greinar okkar birtust þar til Landsvirkjun hætti við stíflugerð við Eyjabakka. Það má svo sem segja að því miður hafi verra óhæfuverk fylgt á eftir. En varðandi Þórustaðanámuna, þá hef ég kynnt mér skrif Bjarna Harðarsonar, a.m.k. þau sem er að finna á netinu, þannig að ég veit hvað hann hefur verið að segja. Vandamálið er að Selfyssingar, sem sjá þróunina dag frá degi, eru greinilega orðnir of vanir skemmdunum, en við sem förum þarna framhjá á tveggja mánaðafresti eða svo verðum meira vör við hversu ljótt sárið er. Og það er ljótt. Ég trúi því ekki að Selfyssingar vilji frekar hafa þennan óskapnað yfir sér á hverjum degi, en að borga nokkrum þúsund köllum meira fyrir hlassið af möl.
Elfa, það eru aðrir kostir í stöðunni, eins og Bjarni Harðarson hefur bent á. Undir öllum túnum í Flóa er að finna góða möl til efnistöku. Ég er að byggja og mölin sem sótt er í grunninn minn er sótt upp að Vífilsfelli, aðrir á Reykjavíkursvæðinu sækja hana upp í Þrengslin. Það er styttra í námurnar í Þrengslum frá Selfossi, en frá Reykjavík, þannig að svona fyrirsláttur er ekki marktækur. Það getur verið að kosti eitthvað meira að fara út í Þrengslin, en það er lítið gjald að greiða fyrir að bjarga því sem bjargað verður af Ingólfsfjalli.
Marinó G. Njálsson, 15.7.2007 kl. 11:45
Skemmtilegt grínið hjá ykkur félögum það er að segja það getur verið skemmtilegt á góðum stundum að gantast með það að hafa valdið því að svo stórri ákvörðunn var breytt.
Já venjast einhverju eða verða samdauna einhverju af því að maður er í hringiðunni er jú tilhneiging en málið er að þessi umræða er búin að vera á suðurlandi og við erum flest sátt við efnistökuna þarna. Meiri akstur vörubíla um suðurland en þörf er á er afþökkuð bæði vegna slysahættu og ekki síður "minni akstur, minni mengun" reynum bara að líta svo á að þarna fari fram starfsemi sem ber vott um líf og athafnasemi í sýslunni og líka að þarna er að byrtast upprunalegur klettur hinn fallegasti á að líta og ekki síst að auðlind er ekki auðlind nema vera nýtt og af því að Kárahnjúkar eru svona aðeins í þessari ágætu umræðu þá hefði ekki staðið til að nýta það svæði á annan hátt til að mynda þá hefði svæðið ekki þolað það að þarna hefðu þrammað um þúsundir útlendinga, sem reyndar hafa aldrei verið þarna og voru alls ekkert á leiðinni þangað.
Aftur þá er ég sammála þér með línurnar og er á því að við eigum að hætta að velta okkur uppúr Kárhnjúkukm (er ekki að segja að þú sért neitt sérstaklega að því) heldur að sjá til þess með öllum ráðum að eftirleiðis verði staðhættir og umhverfi, afleiðingar og hagur metinn betur, s.s. beina þeirri orku, sem er verið að eyða í þegar samþyktar framkvædir og nánast búnar, í að skoða og meta og tjá okkur um fyrirhugaðar framkvæmdir, en þá megum við suðvestlendingar ekki gleyma því að sveitastjórnarmenn eru oftar en ekki í hinum mestu vandamálum með atvinnumöguleika til að halda í sitt fólk og eins og við sjáum í dag þá hafa lífsgæði Austfirðinga aukist. Ég hef hvorki verið með eða á móti Kárahnjúkaframkvæmdum leit svo á að úrþví að Austfirðingar vilja fá þetta í "túnfótinn" hjá sér þá væri mér sama.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 16.7.2007 kl. 00:02
Högni, ég hef fullan skilning á vanda sveitarstjórnarmanna. Þeir lenda oft í því að taka óvinsælar ákvarðanir vegna þess að þeir telja sig bera hag íbúanna í huga (sem ég efast ekki um að þeir geri).
Þetta eru skemmtileg rök að verið sé að færa fjallið í upprunalegt horf, en ég veit ekki hvað þau halda lengi. Eigum við þá ekki að hreinsa allan gróður af hraununum í sumarhúsabyggðunum við Sogið, þar sem hann er ekki upprunalegur? Eða fylla farveg Ölfusár og leyfa henni að flæða um Flóann, eins og hún gerði örugglega fyrir langa löngu? A.m.k. ef þetta eiga að vera rökin, þá er nú þörf á að ,,hreinsa" víðar í fjallinu.
Ég held að vandi okkar í dag sé, að það er engin nýtingarstefna. Jarðeigendur utan þéttbýlis geta gert svo til hvað sem er við jarðir sínar, nema byggja til þess þurfa þeir leyfi. Menn geta mokað burtu heilu fjöllunum, ef svo ber undir (og hafi þeir byrja nógu snemma) eða búið til hæðir og hóla. Mat á umhverfisáhrifum nær eingöngu til stærri framkvæmda og jafnvel þegar menn koma með jafn mergjaða lýsingu og finna má á vef Bjarna Harðarsonar:
hefur ekki áhrif á niðurstöðuna og framkvæmdaleyfi er veitt án hiks.
Bara svo það sé fært til bókar, þá til ég að ákvarðanir um byggðaþróun í þéttbýli þurfi einnig að sæta mati á umhverfisáhrifum og að þessi árátta að byggja upp á allar hæðir og fylla upp í alla voga og víkur verði stöðvuð. Ég held að það sé skömminni skárri að byggja upp í loftið á völdum stöðum, en að rífa byggðina úr tengslum við náttúruna. Í Kópavogi, þar sem ég bý, er ríkjandi sú stefna að hvergi megi upprunalegur gróður vera til og byggja eigi á öllum grænum blettum sem fyrir finnast. Þetta finnst mér skelfileg þróun, sem er engu skárri en virkjanir á hálendinu eða námur á víð og dreif um landið. Ég held að fólk megi alveg líta sér nær þegar verja á náttúru landsins. Á sama hátt og jafnréttisbaráttan þarf að byrja inni á heimilunum, þá þarf náttúruverndin að byrja í nánasta umhverfi okkar.
Marinó G. Njálsson, 16.7.2007 kl. 12:41
Ég er ammála þér núna eiginlega bara upp á staf, bæði með nýtingastefnuna og byggingarreitina en er ekki að segja að við séum að taka malarefni á þeim forsendum að verið sé að hreinsa hinn fallegasta klett, heldur er það kletturinn sem kemur í ljós eftir aldalanga gíslingu malar og eins það sem áður er sagt varðandi akstur malabíla um Suðurland.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 16.7.2007 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.