2.2.2017 | 22:29
Jákvætt og neikvætt við stjórnarsáttmálann
Ný ríkisstjórn tók við völdum fyrir nokkrum vikum. Er hún hægri sinnaðasta ríkisstjórn sem ríkt hefur á Íslandi. Ber þess nokkur merki í stjórnarsáttmálanum og kannski helst í því sem vantar í hann. Nokkrum sinnum er minnst á fjölbreytileika rekstrarforms, sem getur ekki þýtt neitt annað en meiri einkarekstur, meðan kaflinn um velferðarmál er heldur rýr. Raunar án nokkurrar tilvísunar um félagsleg réttlæti.
Nokkrir efnilegir punktar
Byrjum á því sem er í sáttmálanum:
Kjarninn í stjórnarsáttmálanum er eftirfarandi málsgrein:
Treysta þarf samkeppnishæfni Íslands. Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt. Forsenda þess að sótt verði fram í átt að bættum lífskjörum er að stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þannig að landsins gæði og núverandi efnahagsbati komi næstu kynslóðum einnig til góða.
Að uppfylla hana er verðugt verkefni og vil ég óska nýrri ríkisstjórn góðs gengis við að ná þeim markmiðum sem þarna eru mótuð. Þeim er síðan fylgt eftir með fjölmörgum atriðum og hef ég tínt nokkur þeirra út:
1. Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu - minnka á greiðsluþátttöku einstaklinga - styrkja stöðu heilsugæslunnar - aukinn þungi settur í uppbyggingu öldrunarþjónustu.
2. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld - styðja háskóla í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni - endurskoða reiknilíkön skólakerfisins - gera skólum kleift að nýta tækninýjungar - tekið upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd (en samt á að halda í lánveitingar LÍN).
3. SDG á hér setningu: Hlúa þarf vel að menningararfleifð Íslendinga
4. Vinna skal að uppbyggingju löggæslu
5. Innflytjendum auðveldað að vera fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi - hafa mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd - einfalda veitingu atvinnuleyfa - meta menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum.
6. Opið og gagnsætt söluferli (ríkis)eigna (líka bankanna).
7. Breyta búvörusamningi (en samt ekki því styðja á áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er)
8. Myndarlega verður stutt við rannsóknir og þróun
9. Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ - rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verður lögð fyrir Alþingi til samþykktar sem framsýn og fagleg sáttargjörð milli ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd - unnin verður sérstök áætlun um vernd miðhálendisins - aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamulagið - ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju
10. Kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum - beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar
11. Leggja áherslu á markvissar aðgerðir til að treysta byggð í landinu
12. Draga á úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar - forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar
13. Unnið verður að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár.
Svo allt hitt
Félagsleg atriði
Svo sem sjá má, hef ég ekki tekið eitt einasta atriði sem kalla má félagsleg réttindi núverandi landsmanna. Þau félagslegu réttindi, sem nefnd eru, eru fyrir þá sem leita til Íslands sem nýs heimalands. Atriði sem ég tel ákaflega mikilvægt og verður áhugavert að sjá hvernig til tekst. Ekki er hins vegar minnst neitt á félagslega stöðu þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu, eins og sá hópur tilheyri skítugu börnum Evu og sé því ekki vert að eyða orðum í þessa hópa.
Einhver mun mótmæla þessu og vísa til textans:
Tryggt verði að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið með það að markmiði að auka lífsgæði og samfélagslega virkni.
Málið er, að þegar er búið að hrinda þessu í framkvæmd. Fyrir langa löngu. Starfsendurhæfingarsjóður (VIRK) hefur haft þetta verkefni á sinni könnu í 8 ár eða svo. Það er þokkalegt að setja í stjórnarsáttmála eitthvað sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um fyrir um 10 árum og tryggðu í framkvæmd fyrir heilum 8 árum.
Einnig mun fólk vilja vísa á innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Um það vil ég nú bara segja, að menn eiga ekki að þurfa að lofa að standa við orð sín. Ísland skrifaði undir þennan samning fyrir nokkuð löngu og það er einfaldlega skandall, að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn lofi að standa við skuldbindingar sínar.
Þriðja atriði er notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA). Muna ekki allir eftir því að það atriði var tekið út úr fjárlagafrumvarpinu. Líklegast til þess að ný ríkisstjórn gæti lofað einhverju.
Þessi þrjú atriði eru því öll stolnar fjaðrir.
Ég hefði viljað sjá metnaðarfull markmið um aðgerðir gegn fátækt, uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, hækkun lífeyris til samræmis við hækkanir launa, stuðning við barnafjölskyldur, afnám virðisaukaskatts á barnavörum og lækkun virðisaukaskatts á matvöru. Ekkert af þessu er þarna inni. Vissulega er ákvæði um hækkun greiðslna í fæðingarorlofi.
Námsstyrkir
Ég er ekki viss um að formenn flokkanna hafi skilið eftirfarandi texta, a.m.k. er mikil mótsögn í honum:
Tekið verði upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og lánveitingar LÍN miðaðar við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu.
Námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd (a.m.k. danskri) gerir það að verkum, að nemendur eiga ekki að þurfa lán. Það hefur líka innbyggt (a.m.k. það danska) ákveðinn sveigjanleika varðandi námsframvindu. Nemendum er sem sagt ekki refsað fyrir að fylgja ekki tímaáætlun eða að skipta um skoðun. Þeir fá einfaldlega ekki sama styrkinn tvisvar, ef svo má segja. Ég vona hins vegar, að þarna hafi átt að standa (a.m.k. líka) að námsstyrkir skuli miðaðir við fulla framfærslu.
Innflytjendur
Meiri víðsýni vantar að mínu mati inn í kaflann um innflytjendur og útlendingamál. Það er nefnilega þannig, að maður aðlagst best nýju samfélagi með því að vera virkur þátttakandi í því. Viljum við taka við fleiri aðfluttum, þá verðum við að aðstoða þá við að aðlagast samfélaginu eins hratt og mögulegt er. Svo ég taki nú Danmörku aftur sem dæmi, þá standa kommúnurnar fyrir dönskunámi fyrir útlendinga. Síðan má taka þetta skrefinu lengra og tengja saman tungumálanámið og vinnu, þó sú vinna sé einhvers konar atvinnubótavinna.
Efnahagsmál
Leggja á áherslu á opið söluferli eigna. Flott, en þá hefði ég skilið það eftir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, því núverandi forsætisráðherra er of tengdur þeim blokkum innan samfélagsins sem fengið hafa að mata krókinn. Vissulega er nýr fjármála- og efnahagsráðherra það líka, en hann er samt einni armslengd lengra í burtu og hann er ekki í Panamaskjölunum. (Tekið skal fram að við Bjarni erum fjórmenningar og bræður Bjarna og Benedikts eru samstúdentar mínir úr MR frá 1981.) En kannski einmitt þess vegna vil ég koma með þau ráð til núverandi forsætisráðherra, að hann á ekki að koma nálægt eingnarhaldsfyrirtækinu Lindarhvoli.
Það er arfavitlaus hugmynd að ríkissjóður eigi að vera skuldlaus, a.m.k. í íslenskum krónum. Endilega greiða upp erlendar skuldir ríkissjóðs, en ríkið verður að halda áfram að skulda innanlands. Svo ég vitni í Ólaf Margeirsson, doktor í hagfræði, þá eru nettó skuldir ríkissjóðs í krónum nettó sparnaður einkageirans. Ef ríkið skuldar ekkert, þá er það einfaldlega þannig, að allur sparnaður einkageirans er á kostnað annarra innan einkageirans. Sé ríkissjóður skuldlaus, þá er nettósparnaður einkageirans 0 kr.
Annað sem er röng hugsun, þó hún sé ákaflega útbreidd, er að ekki megi reka ríkissjóð með halla. Meðan útgjöld ríkissjóðs eru í krónum (sem þau eru), þá á að nota ríkissjóð sem sveiflujöfnunartæki. Versta sem gert var eftir hrun, var að skera niður útgjöld ríkissjóðs til innlendra málefna. Einmitt þá átti að keyra upp halla ríkissjóðs því hann er hvort eð er bara skuld við Seðlabankann og þar sem ríkissjóður á Seðlabankann, þá er hann að taka lán hjá sjálfum sér. Svo er þetta snilldarfyrirkomulag, að hagnaður Seðlabankans yfir ákveðinni upphæð, rennur í ríkissjóð. Þannig að skuldi ríkissjóður Seðlabankanum 1.000 ma.kr. og greiði 100 ma.kr. í vexti, þá rennur sú vaxtagreiðsla nær öll aftur í ríkissjóð sem arðgreiðsla.
Stöðugleikasjóður í íslenskum krónum er gagnslaust fyrirbæri. Hann þarf því að vera í erlendri mynt. Kannski verður slíkur afgangur á viðskiptum (jákvæður viðskiptajöfnuður) að stöðugleikasjóðurinn geti fengið aðgang að erlendum gjaldeyri. Verði eignir sjóðsins hins vegar í krónum, þá er alveg eins gott að nýta hann til að hækka lífeyri eða senda öllum landsmönnum ávísun einu sinni á ári. Gæti verið jólabónus landsmanna.
Flott að stefna að stöðugleika á vinnumarkaði, en ætli menn að taka upp norrænt vinnumarkaðslíkan, þá verður að styðja það með norrænu velferðarkerfi, norrænu húsnæðislánakerfi, norrænu vaxtaumhverfi, norrænu heilbrigðiskerfi, norrænu menntakerfi (þ.e. ókeypis nám), o.s.frv. Menn taka ekki eitt atriði út úr og segja núna er allt í lukkunnar velstandi. Þetta er einn pakki eða eigum við að segja að SALEK er bara einn legó-kubbur í heildarmyndinni og við byggjum ekki hús með einum kubbi.
Skattamál
Enn einu sinni er gefið loforð um að lækka tryggingagjald. Trúir nokkur maður því, að það verði gert? Sem sagt endurnýtt loforð, sem núverandi forsætisráðherra hefur náð að svíkja nokkur ár í röð sem fjármálaráðherra.
Bankamál
Ekki er minnst einu orði á að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Það er orðið verulega aðkallandi, því það er fjárfestingabankastarfsemi nýburanna sem er að halda uppi vaxtastigi til almennings. (Og auðvitað sjálfseyðingar vaxtastefna Seðlabanka Íslands.) Með tvo komma eitthvað af bönkunum í eigu ríkisins, þá er gullið tækifæri til að gera víðtækar breytingar. Er ekki viss um að öllum líki þær, en mínar hugmyndir eru þessar:
A. Fjárfestingabankastarfsemi ríkisbankanna verði klofin frá viðskiptabankastarfsemi og seld einkaaðilum. Ríkið á ekki að eiga fjárfestingabanka.
B. Ríkisbankarnir verði sameinaðir, en líka sundrað. Í nafni samkeppni og fjölbreytni, þá verði ákveðnar einingar bankanna sameinaðar (þ.e. höfðustöðvar), en síðan verði öðrum bankanum breytt í sparisjóði sem hafi það hlutverk að þjónusta sitt nærumhverfi. Landsmönnum verði afhentur eignahlutur í sparisjóðunum (stofnskírteini) sem megi eiga í viðskiptum með í mjög takmörkuðu mæli. Engum aðila verður heimilt að eiga meira en 1% hlut í hverjum sparisjóði og óheimilt verður að sameina þá nema með samþykki löggjafans (og þá með mjög ströngum skilyrðum). Það er mín skoðun, að Samkeppniseftirlitið gerði illa í buxurnar, þegar það leyfði bönkunum að taka yfir hina og þessa sparisjóði á undanförnum árum. Samkeppniseftirlit á að vera eins og náttúruverndarsamtök, þ.e. að vernda fjölbreytileika, nema bara viðskiptalífsins. Nú þarf að auka við fjölbreytileikann í fjármálakerfinu, því fákeppni er ekki samkeppni og hún kemur í veg fyrir einhver ruggi bátnum. Sá banki sem eftir stendur (ásamt höfðustöðvum hins) verði á einhverjum árum gerður að almenningshlutafélagi með takmörkunum á hve mikið stærstu eigendur mega eiga stóran hlut (og þá er ég að tala um 10-15% sem hámark). Svo þarf að setja lög sem koma í veg fyrir að bankinn verði að sparibauk eigenda sinna.
Sjávarútvegur
Samkvæmt sáttmálanum, þá á að breyta en samt er bannað að breyta. Algjör snilld. Sást líka á Kastljósviðtalinu við formennina, að Bjarni átti í miklum vandræðum með að segja sannleikann sem felst í texta stjórnarsáttmálans. Annars vissi ég ekki, að kvóta væri úthlutað ótímabundið. Ég hélt að honum væri úthlutað árlega, þó svo að nánast væri kominn hefðarréttur á hve mikið hver fær. Þetta þarf augljóslega að brjóta upp og það þarf líka að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn búi til ótímabundna úthlutun kvótans.
Landbúnaður
Aftur á að breyta, en samt ekki breyta neinu. Það á bara að kalla það nýju nafni. Brúnegg fá alveg sérstakan texta sér til höfuðs, sem sýnir að einhverjir eru með samviskubit. Neytendavernd er síðan nefnd í þessum kafla, en ekki í bankakaflanum eða raunar hvergi annars staðar í sáttmálanum. Ef ekki væri fyrir Brúnegg, þá hefðu neytendur ekki komist á blað.
Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval.
Eru menn að halda því fram, að fyrri búvörusamningar hafi ekki haft þetta markmið. Hvernig væri að menn sem skrifa svona texta hefðu lesið núverandi samning?
Annars er innflutningur á landbúnaðarvörum sleginn af í næstu setningum:
Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.
Hreinleiki í landbúnaði er líklega óvíða jafnmikill og á Íslandi. Ætli menn að hafa jafna stöðu, þá verða menn annað hvort að láta af hreinleika kröfunni (m.a. í formi lyfjanotkunar) eða eingöngu leyfa innflutning landbúnaðarvöru sem uppfyllir hreinleikakröfurnar. En við erum svo sem vön að taka við vöru sem framleidd er af börnum, við mannskemmandi skilyrði og nánast af þrælahöldurum, að okkur munar ekkert um að bæta við landbúnaðarvöru sem framleidd er undir sömu aðstæðum. Það er nefnilega eina leiðin til að fá þetta lága heimsmarkaðsverð sem sést í skýrslum OECD eða gerast þiggjendur útflutningsstyrkja frá ESB löndum.
Ég vil svo spyrja hvað ætla menn að græða á því að breyta stuðningi við bændur úr framleiðslustyrkjum í jarðrækarstyrki? Eru menn að halda því fram, að bændur gangi illa um landið sitt? Það væri nú lélegur búmaður, sem lætur landið sitt grotna niður. Ég veit að fyrirmyndin er komin frá ESB, því ESB leggur áherslu á jarðræktarstyrki. Málið er hins vegar, að einblíni menn á jarðræktarstyrki, þá munu menn fórna fjölbreytileika framleiðslunnar og búa til héruð með einsleitum landbúnaði. Fyrir utan að jarðræktarstyrkir hafa sína galla og munu leiða til þess að menn fara út í tilgangslausa ræktun bara til að fá styrki.
Ferðaþjónusta
Verð að viðurkenna að innihaldslausara markmið er ekki að finna í stjórnarsáttmálanum. Ég býð þó spenntur eftir að sjá eitt svið íslensks þjóðfélags fara í langtímastefnumótun. Ef vel tekst til, þá gæti það orðið fyrirmynd fyrir öll hin sviðin, sem hefðu átt að hafa lokið sinni langtímastefnumótun fyrir góðum 50 árum. Þarna er hins vegar, ólíkt öðrum markmiðum, lögð til lausn (þ.e. bílastæðagjöld). Hvað er lausn að gera í svona skjali?
Umhverfis- og auðlindamál
Hér er talað um ráðstöfun "nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu". Ég hefði áhuga á að vita hvað er átt við með "í opinberri eigu". Er verið að skipta út hugtakinu þjóðareign? Er verið að flytja eitthvað undir ríkið, sem hingað til hefur verið túlkað sem almenningseign eða þjóðareign? Munu auðlindir hafsins þá hér eftir verða í opinberri eign?
Eigendastefna verður gerð fyrir Landsvirkjun þar sem meðal annars verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn.
Er sem sgat ekki til eigendastefna fyrir Landsvikjun? Ef hún er ekki til, hvers konar viðvaningar hafa verið að stjórna landinu undanfarna áratugi! Sé hún til, þá ætla menn að endurskoða hana.
Samgöngumál
Hér er nánast endurtekið efni, líklegast alveg frá 1967. Synd að ekki skuli vera hægt að gera vegakerfið öruggara. Ég skil samt ekki þetta markmið:
Áhersla verður lögð á að bæta öryggi á vegum og stuðla að hagkvæmum og greiðum samgöngum um landið með því að nýta fjölbreytni og möguleika samgöngukerfisins í heild.
Hvað er átt við með orðunum "í heild"? Á að fara að beina umferð frá Suðausturlandi og láta fólk fara Gæsavatnaleið eða Sprengisand? Eða ætla menn að gera innanlandsflug að samkeppnishæfum kosti? Ég skil samt ekki hvernig þetta á að nýtast til að dreifa ferðamönnum betur. Það er bara einn vegur í kringum landið sem er fýsilegt að aka. Aðrir vegir þola ekki vel aukna umferð, eru að hluta einbreiðir, án bundins slitlags, með einbreiðum brúm og jafnvel notaðir af búfénaði til hvíldar.
Glæsilegasti textinn í þessu er að ríkið, sem getur fjármagnað sig ókeypis (eins og ég lýsti áður) vill fara í einkaframkvæmdir. Fatta menn ekki að það verður alveg jafnmikil þensla af einkaframkvæmd og þegar ríkið stendur fyrir framkvæmdunum. Endi einkaframkvæmdin illa, þá fær ríkið verkið hvort eð er í fangið og því ekki að fá hagnaðinn líka.
Gengis- og peningamál
Allt í einu er komið með hagfræðiskýringu inn í stjórnarsáttmálann:
Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis.
Það er góður siður að vitna í heimildir, þegar svona fullyrðing er sett fram. Sérstaklega þegar hún er röng. Undanfarin 16 ár eða svo, þá er það nú einmitt vaxtastefna Seðlabanka Íslands sem hefur skapað óstöðugleika gengis. Þar á bæ er þríeyki sem er alveg blint fyrir ágæti sínu og neitar að hugleiða þann möguleika, að þeir hafi rangt fyrir sér. Það er sama hversu oft þeir hafa rangt fyrir sér, þeir nota sömu aðferðina aftur og aftur og undrast að niðurstaðan breytist ekkert.
Ég fagna því að endurmeta eigi forsendur peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands, en þá verður að kalla til einhverja aðra en þríeykið úr Seðlabankanum. Það verður að fá inn í vinnuna aðila sem eru ósammála Seðlabankanum, sækja sínar hugmyndir í aðrar hagfræðikenningar en hafa verið ríkjandi á Íslandi. Menn verða að geta vitnað í fræðigreinar (sem ekki eru allar neitt sérstaklega fræðilegar) eftir aðra en sjálfan sig. (Mér sýnist nefnilega peningastefna Seðlabankans nánast eingöngu vera studd skrifum þríeykisins, sem síðan hafði aldrei farið í rannsóknir á stýritækjum sem hægt væri að nota. Það er líka vandræðalegt að sjá Seðlabankastjóra vísa í grein eftir sjálfan sig til að styðja ákvarðanir sínar.)
Stjórnarskrá
Stjórnarsáttmálinn endar svo á margtuggnu loforði um endurskoðun stjórnarskrárinnar, en hún virðist þó aðallega eiga að snúast um að tryggja réttum flokkum réttan þingmannafjölda í næstu/þar næstu kosningum. Hvernig væri að þingið færi að drullast til að fara að vilja þjóðarinnar? Hver gaf Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Samfylkingunni leyfi til að hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni?
Lokaorð
Þó ég sé nokkuð gagnrýninn á margt í stjórnarsáttmálanum, þá held ég að vel gæti ræst úr. Hann er hins vegar allt of oft opinn í báða enda og ákaflega óskýr. Oft er eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið að skrifa eina setningu, Viðreisn þá næstu og Björt framtíð þá þriðju. Ekki er samfelldni á milli texta og síðan eru mótsagnir nokkrar.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.