Leita í fréttum mbl.is

Upplýsingar í skjali Vigdísar og Guðlaugs og afleiðingar bankasamninganna

Umdeildasta skjal á Íslandi þessa daganna er "Skýrsla formanns og varaformanns fjárlaganefndar"/"Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar"/"Skýrsla Vigdísar Hauksdóttur"  allt eftir því hvaða titil fólk notar.  Hún hefur verð úthrópuð að sumum sem algjört bull og af öðrum sem ærumeiðingar.  Mig langar að fjalla um það sem er  umfram þessar upphrópanir.

Traustar heimildir

Fyrir það fyrsta er skjalið alfarið byggt á opinberum gögnum, en þau eru:

1. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skilaði til Alþingis 31. mars 2011.  Í skýrslunni er lýst því ferli sem haft var við endurreisn viðskiptabankanna, en fyrst og fremst hvernig tveimur þeirra var komið í hendur þrotabúanna og þar með kröfuhafa.  Ekki er hægt að segja að þeim hafi aftur verið komið í hendur á þessum aðilum, því ríkið átti þá frá stofnun.

2. Skýrslu Ríkisendurskoðunar, Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahruns, en í henni er nokkuð greinargóð lýsing á hvernig Ríkisendurskoðun metur að ríkissjóður hafi verið notaður til að styðja við viðskiptabankana þegar þeir voru endurreistir (þ.e. nýir stofnaðir í stað þeirra sem lögðust á hliðina).

3. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins vegna stofnunar nýju bankanna

4. Ársreikningar bankanna

Ég fann engin tilfelli, þar sem heimilda var ekki getið nema hvað hvorki kemur fram nafn skýrsluhöfundar né löggilts skjalaþýðanda.

Skjalið er því vel stutt heimildum um uppruna upplýsinga og allar eru þessar heimildir traustar og virtar.

Svo vill til, að í nokkur ár hef ég verið að dunda mér við að greina ýmislegt sem fór úrskeiðis í undanfara og eftirmála hrunsins.  Er það von mín að þessi vinna mín endi að lokum í bókarform, þó bókaflokk þyrfti nú til að gera öllu þessu góð skil.  Er ég af þeim sökum búinn að viða að mér óteljandi skjölum, m.a. öllum sem nefnd eru hér að ofan, og krufið inn að beini þær upplýsingar sem þar er að finna.  Efni skjals Vigdísar og Guðlaugs er mér því nokkuð vel kunnugt og hef ég auk þess oft fjallað um ýmsa anga þess opinberlega.  (Tek fram að ég veit ekki hvort eða hvenær þetta grúsk mitt endar á prenti.)

Það sem snýr að ríkinu

Það sem kemur fram í skjalinu umdeilda, er í stórum dráttum mjög svipað mínum ályktunum.  Ríkið gaf frá sér háar upphæðir til að ljúka samningum við kröfuhafa sem létu aðeins skína í tennurnar.  Vissulega vissu menn ekki allt sem þeir vita í dag, en samningar ganga ekki út á að annar aðili samnings taki á sig alla áhættuna meðan hinn hirðir allan hagnaðinn.  (Úps, var búinn að gleyma verðtryggðu lánunum.)

Ég hef lesið skýrslu fjármálaráðherra oftar en ég kæri mig um að rifja upp.  Í hvert einasta skipti sé ég eitthvað sem fær mig til að velta fyrir mér hvað menn voru að hugsa.

Ég ætla ekki að tjá mig um einstök efnisatriði í skýrslu fjármálaráðherra, en hvet alla, sem hafa áhuga á öðruvísi hryllingssögum, að lesa hana.  Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki alveg hvað mönnum gekk til í samningaviðræðunum.  Jú, ég veit það alveg: Að koma eignarhaldi á bönkunum undan ríkinu.  Það var málið, en rökin ganga ekki upp.

Höfundi "skýrslunnar", þ.e. sá sem ritar kafla 2 til 9, tekst mjög vel upp að lýsa furðulegum vinnubrögðum, útreikningum sem ekki ganga upp (nema átt hafi að gefa þrotabúunum peninga), hvernig hagsmunir lántaka gleymdust og brunaútsöluna sem var í gangi.  Ég fæ ekki séð að í köflum 2 til 9 sé á neinum stað farið með rangt mál.  Framsetning efnisins mætti hins vegar vera skýrari, útreikningar sýndir og rökleiðslan ítarlegri.

Kaldhæðnin í þessu er að stór hluti af eftirgjöfinni árið 2009 endaði í ríkissjóði núna í upphafi árs.  Gallinn er að fyriræki og einstaklingar hafa verið blóðmjólkaðir í millitíðinni og verða um nokkur komandi ár, vegna mistaka (að mínu mati) sem gerð voru í samningaviðræðunum árið 2009.  Hafi það hins vegar verið uppleggið, að fyrirtæki og einstaklingar ættu að borga kröfuhöfum til baka eins mikið af tapi þeirra og hægt var, þá var gerð heiðarleg tilraun.  Ég hef varað við þeirri aðferð í mörg ár, en talaði fyrir daufum eyrum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Ef vilji Steingríms og Árna Páls Árnasonar hefði náð fram að ganga, þá væri "olíusjóðurinn" (gjaldeyrir frá ferðamönnum) tómur og mikill halli á viðskiptajöfnuði.  Svo kvörtuðu VG og Samfylking yfir því að stöðugleikaframlagið hafi ekki verið nógu hátt!

Raunverulegar afleiðingar

Voru menn að vinna að heilindum?  Því verður hver að svara fyrir sig, en þeir létu a.m.k. fara illa með sig.  Ég efast ekkert um að Þorsteinn Þorsteinsson og Guðmundur Árnason eru grandvarir menn.  Ég hef hins vegar í mörg ár verið ósáttur við niðurstöðu þeirra samninga sem þeir leiddu fyrir hönd ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í umboði Steingríms J. Sigfússonar.  Ég þurfti ekki skýrslu Steingríms, Ríkisendurskoðunar eða meints meirihluta fjárlaganefndar til þess.  Ég sá það strax haustið 2009 í "úrræðum" bankanna þriggja, lögum nr. 107/2009, vinnu minni í sérfræðingahópnum svo kallaða, "úrræðum" fjármálafyrirtækjanna sem komu út úr vinnu sérfræðingahópsins, málum sem hrönnuðust upp hjá Umboðsmanni skuldara, viðbrögðum kerfisins við sigri neytenda um ólögmæti gengistryggingar, þeirra tugþúsunda sem hrökklast hafa af heimilum sínum og svona mætti lengi telja.  Ljóst var að samningarnir við um bankana árið 2009 voru ekki um að bjarga íslensku efnahagslífi, fyrirtækjum og heimilum.  Þeir voru um það hvernig mætti sækja eins mikið og hægt væri til fyrirtækja og heimila, hvernig halda ætti efnahagslífinu í spennitreyju til langs tíma, hvernig kröfuhafar þyrftu ekki að taka ábyrgð á sinni hegðun.

Ég hljóma kannski bitur, en þetta eru vonbrigði.  Ég gerði mér vonir um að "norræna velferðarstjórnin" væri vinstri jafnaðarmanna stjórn, en ekki stjórn sem beygði sig undir kúgun auðvaldsins.  Ég hélt að þeim færist betur úr hendi, að skilja tjónið sem heimili og fyrirtæki urðu fyrir.  Í staðinn var ruglað um stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa í þrotabú fjármálafyrirtækja með fljótandi virði eigna!  Tap heimila og fyrirtækja á þessum gjafagjörningi "norrænu velferðarstjórnarinnar" er þegar komið hátt í 400 ma.kr. bara vegna hærri vaxta og afborgana lána á árunum 2009-2016. Þá eru öll hin árin eftir, þar til lánin greiðast upp og allt hitt sem þetta leiddi af sér.  Maður verðleggur ekki brotin heimili, húsnæðismissi, gjaldþrot og hvað það var annað sem hlaust af því, að úlfum kröfuhafa var hleypt á fyrirtæki og almenning.

Fólk heldur kannski að núna sé allt í lukkunnar vel standi.  Ríkissjóður fékk stöðugleikaframlagið greitt. Vei!  Hagkerfið er komið í blússandi uppsveiflu. Vei!  Sumir eru dottnir í 2007 ástand aftur. Vei!  En svo er bara ekki. Þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru persona non grata í bankakerfinu.  Þurfa að nota alls konar trix til að fá lán.  Fá ekki nema fyrirframgreidd greiðslukort, ef þeir fá þá nokkur.  Geta ekki fengið tryggingu í banka vegna leiguhúsnæðis.  Geta ekki keypt sér húsnæði, vegna þess að þeir fá ekki lán.  Eru utanveltu í samfélaginu og leita því inn í svartahagkerfið.  Eru fastagestir hjá hjálparstofnunum.  Ég ætla ekki að kenna samningum um bankana um allt þetta, en örugglega 50%, kannski jafnvel 80%.  Allt vegna þess að samningarnir gengu ekki út á að bjarga fjárhagsstöðu viðskiptavina bankanna, heldur að sýna meðvirkni með kröfuhöfum (sem ansi margir höfðu keypt kröfur sínar á skít á priki eða voru þegar búnir að innheimta tryggingar vegna þeirra hjá AIG).

Næst þegar samið verður um mikla hagsmuni almennings, þá er nauðsynlegt að einhver sem skilur hagsmuni almennings sé hafður með í ráðum.

PS.  Það er mín skoðun að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekið við MJÖG erfiðu búi.  Margt var gert vel, annað alveg þokkalega og svo voru það stóru mistökin.  Skuldamál fyrirtækja og heimila voru þessum tveimur ríkisstjórnum gjörsamlega ofviða og samningarnir um bankana eru stór ástæða fyrir því.  Það er líka skoðun mín, að menn hafi talið sig verið að gera góða samninga um bankana.  Þeir voru því miður afleitir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Upplýsandi pistill hjá þér Marinó. Kærar þakkir.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.9.2016 kl. 20:14

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Kærar þakkir fyrir þessa yfirferð Marinó. Að vanda rökviss og réttsýnn.  Ég er líka mikið búinn að gramsa í þessum málum og eins og þú lesa allar þessar skýrslur. Ég get því heilshugar tekið undir allt sem þú segir þarna. Áþekkir þættir eru í tölvunni hjá mér í mörgum hugrenningum, þegar mér fannst vitleysan vera að flæða yfir allt. Ég er búinn að lesa yfir skýrslu „Vigdísar“ eins og hún heitir í dag og er líka að lesa fundargerðirnar í fylgiskjölunum.  Ég fæ ekki séð að þetta blessaða fólk sem rótar eins og naut í flagi og úttúðar Vigdísi, hafi í raun nokkurn skapaðan hlut til að byggja óánægju sína á. Þeir geta varla búist við því að Vigdís verði hrædd við þá? Það væri ótrúleg grunnhyggni að halda það.  Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.  Með kærri þökk Marinó fyrir alla þín úrvalsgóðu pistla.

Guðbjörn Jónsson, 21.9.2016 kl. 21:36

3 Smámynd: Halldór Þormar Halldórsson

Takk fyrir Þetta. Mjög góð umfjöllun í skýru máli.

Halldór Þormar Halldórsson, 21.9.2016 kl. 22:45

4 identicon

Ég er ekki vel inni í þessum málum og því engan veginn dómbær en þar sem ég sé að þú ert það Marinó og að þú hefur sýnt það í gegnum árinþá langar mig að spyrja þig:

Telur þú að einhver(jir) sem kom(u) að gerð allra þessara samninga hefi gerst sekur/sekir um eitthvað, þ.e. telurðu rétt að einhvern gjörning í þessu ætti að kæra og að einhvr(jir) ættu að fara fyrir dóm?

Eric (IP-tala skráð) 21.9.2016 kl. 23:23

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk fyrir góðan pistil og gerðu alvöru úr þessu með bækurnar.

Nær allar bækur um hrunið, aðdraganda þess og eftirmála hafa ýmist verið skrifaðar í pólitískum tilgangi, af höfundum sem eru að reyna að græða peninga á útgáfunni eða höfundarnir haft takmarkaðan skilning og innsýns á því sem gerðist. 

Ég held þú gætir komin með raunsanna greiningu á þessum málum. Taktu þér bara þann tíma sem þú þarft. Hrunið er ekkert að hlaupa í burtu frá okkur. Ég held þú gætir skrifað um þetta bækur sem vísað yrði til um ókomin ár. 

Góðar kveðjur

Friðrik Hansen Guðmundsson, 22.9.2016 kl. 00:42

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir góðan pistil

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2016 kl. 00:53

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Takk fyrir Marinó,þessi pistill er mjög greinar góður! En ég ætla ekki að lesa hryllingssögu Fv.fjármálaráðherra en grúskið þitt,já ef kemur út á prenti. 

Helga Kristjánsdóttir, 22.9.2016 kl. 03:54

8 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Fín samantekt. Þeir sem fylgst hafa með skrifum þínum vita að þú ert heill í þínum skrifum.

Ragnhildur Kolka, 22.9.2016 kl. 07:05

9 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Upplýsandi pistill hjá þér, Marinó. Fjölmiðlar virðast ekki mega ræða um efni þessarar skýrslu, aðeins form og viðbrögð.

Jón Baldur Lorange, 22.9.2016 kl. 07:33

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eric, ég vil ekki setjast í það dómarasæti að ákveða hvort efni sé í að stefna mönnum.  Hef sagt að ekki sé hægt að sakast við menn fyrir að gera sitt besta og hafi þessi einstaklingar litið svo á (sem ég býst við) að þeir hafi verið að gera sitt besta, þá er staðreyndin að það var ekki nóg.  Er það glæpsamlegt, að þeirra besta var ekki nóg?  Hugsanlega í augum laganna, en ekki í augum skynseminnar.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2016 kl. 07:46

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það sorglegasta við þetta allt er að óvitarnir hald bara áfram að vera með derring, vilja vera áfram á þingi og kasta skít í alla þá sem benda á fílinn í postulínshrúgunni.

þetta er raunsönn samantekt að mínu mati og endilega gerðu bókina ég mun lesa hanna.

Guðmundur Jónsson, 22.9.2016 kl. 09:48

12 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Takk fyrir góðan pistil og samantekt.

Það er nokkuð ljóst að Steingrímur Joð berst gegn þessari skýrslu alla leið. Það sem gaf sig hjá Steingrímu voru hnén, þegar hann lyppaðist niður...

Birgir Viðar Halldórsson, 22.9.2016 kl. 13:14

13 identicon

Marinó, þú kemur ekki með nein efnisleg rök í þessum pistli, um hvað hefði átt að gera öðruvísi og þá hvernig. Til dæmis hvernig færð þú út eftirfarandi. "Tap heimila og fyrirtækja á þessum gjafagjörningi "norrænu velferðarstjórnarinnar" er þegar komið hátt í 400 ma.kr. bara vegna hærri vaxta og afborgana lána á árunum 2009-2016."

Jónas Kr. (IP-tala skráð) 22.9.2016 kl. 13:23

14 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Já kerfið vill grafa þessa skýrslu og allt og alla aðra sem gagnrýna kerfið og þá stjórnmálamenn sem ekki lúta kerfinu. 
Við munum nú vel sem höfum starfað inna Hagsmunasamtaka heimilanna eftir því að Jóhönnustjórnin notaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að reyna að þagga niður í okkur á sýnum tíma. 
Ráðuneytisstjórinn, Össur, Gylfi og allt of margir innan kerfisins og stjórnmálanna eru málsvarar kerfisins og ónýtrar pólitíkur sem búinn er að gera ísland nánast óbyggilegt fyrir venjulegar fjölskyldur.
Hvers vegna gera þeir þetta, þ.e. embættismennirnir, kerfiskallarnir og konurnar og þessir fyrrverandi og núverandi stjórnmálamenn ? 
Er það ekki augljóst að þessir aðilar vita sem er að það fer að komast upp um þá og hvað þeir hafa gert og ekki gert. Auðveldasta leiðin fyrir þessa aðila var að flýja með þjóðina inn í Evrópusambandið þannig að enginn fari að velta við steinum og þeir og allir vinir þeirra og ættingjar fái skattlausa vinnu innan Evrópusambandsins í staðinn fyrir að laga það sem þarf að laga í okkar frábæra landi til að ALLIR geti lifað hér mannsæmandi lífi.
Ef kerfinu og vanhæfum stjórnmálamönnum tekst eina ferðina enn að þyrla upp það miklu moldvirði að efni skýrslunnar, sama hver samdi hana, verður ekki rætt af alvöru og skynsemi og verður jarðað verður ritað á legsteininn: 

Ríkis og kerfisleyndarmál, opnist eftir eina öld.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 22.9.2016 kl. 14:21

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Frábær pistill Marinó.

Ágúst H Bjarnason, 22.9.2016 kl. 15:53

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir góðan pistil Marinó.

Umræða um þetta mál væri þeim mun gagnlegri ef hún snerist aðallega um staðreyndir málsins, fremur en formhlið þess.

Það er eitt rosalega mikilvægt atriði sem er gott að þú skulir árétta í 1. tölulið upptalingarinnar í byrjun pistilsins. Það er sú staðreynd að (nýju) bankarnir voru aldrei "teknir af" kröfuhöfum gömlu bankanna eða neinum öðrum. Þeir voru stofnaðir af ríkinu á grundvelli neyðarlaganna, og voru því ríkisfyrirtæki frá upphafi tilveru sinnar. Það var ekki fyrr en um ári eftir stofnun þeirra sem eignarhlutar í þeim, þar á meðal meirihluti í tveimur þeirra, voru afhentir slitastjórnum föllnu bankanna sem fóru þá með stjórn slitabúa þeirra fyrir hönd hinna margumtöluðu kröfuhafa.

Það er því beinlínis rangt og mjög villandi þegar sumir tala um þetta í opinberri umræðu eins og ríkið hafi "þjóðnýtt" bankana eða einhvernveginn sölsað þá undir sig. Hið rétta er að bankarnir þrír (þeir nýju sem nú eru starfandi) voru stofnaðir á kostnað almennings sem ríkisfyrirtæki. Þegar eignarhlutir í þeim voru síðar framseldir til slitabúanna var engin heimild fyrir því á fjárlögum, og sú afhending eða "sala" ríkiseigna, var því fullkomlega löglaus aðgerð.

Gagnrýni í skýrslu Vigdísar um þetta snýr mikið til að því endurgjaldi sem var greitt (og jafnvel ekki greitt) fyrir þessa eignarhluti. Svo dæmi sé tekið í tilviki Arion banka þá voru yfirteknar meiri skuldir en eignir úr slitabúi Kaupþings, þannig að Kaupþing hefði í raun átt að borga Arion banka fyrir það en ekki öfugt. Þetta var aldrei gert heldur "fiffað" með einhverri pappírsvinnu og "fjármálaverkfræði" æfingum.

Fyrst það er (samkvæmt Landsdómi) brot á stjórnarskrá sem varðar ráðherraábyrgð, að boða ekki til ráðherrafundar þegar tilefni var til þess. Þá má velta því fyrir sér hvort það sé léttvægara eða alvarlegra að afhenda ríkiseignir sem nema hundruðum milljarða króna, án lagaheimildar? Ég ætla ekki að gerast dómari yfir því, en þetta er eitthvað sem er alveg eðlilegt að velta fyrir sér og jafnvel hafa skoðun á.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.9.2016 kl. 16:00

17 identicon

Takk fyrir mjög góðan og gagnmerkan pistil.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.9.2016 kl. 16:39

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jónas Kr., nei, ég geri það ekki í þessum pistli, en gæti bent á nokkra aðra, þar sem ég skoða þessa tölu.  En bara fyrir þig, þá má benda á að hagnaður bankanna er orðinn hátt í 470 ma.kr.  Sá hagnaður varð ekki til úr engu.  Ég tel hann ekki allan hafa orðið til vegna samninganna, en nokkuð góður hluti.  92 ma.kr. sem innheimtust aukalega til að greiða skilyrt skuldabréf eru allir komnir til vegna samningsins við kröfuhafa Landsbanka Íslands.  Kannski er einhver tvítalning í þessum tölum, en ekki nema að hluta.

En, svo ég vitni í skýrslu Steingríms, þá hreinlega gerðu samningarnir ráð fyrir þessari tölu, en hún er mismunurinn á lægra mati og hærra mati Deloitte og greitt yrði til kröfuhafa allt sem innheimtist þar á milli (auk arð vegna hagnaðar).  Aðferð FME gerði bara ráð fyrir einu mati.

Mat Deloitte átti að miða uppgjör við endurheimtur í eðlilegu efnahagsástandi.  Það þýðir að skila átti öllu umfram það til viðskiptavina bankanna i lækkun krafna.

Svo er hægt að vitna í skýrslu AGS haustið 2009.

Þá má ekki gleyma, að tjón lánsþega sem hafa misst allt sitt er ekki bara bundið við það sem bankarnir höfðu af þeim

Hugsanlega er þessi tala "hátt í 400 ma.kr." ofmat, en mér finnst raunar talsverðar líkur á að um vanmat sé að ræða.  Helgast það á því, að hvergi í samningunum er gert ráð fyrir að þrotabúin skuldi nýju bönkunum, vegna þess að aðstæður breyttust til hins verra.  Það gerðist hins vegar, þegar Hæstiréttur dæmdi gengistrygginguna ólöglega.  Þá stóðu bankarnir skyndilega uppi með ranga kröfuupphæð á 40-60% af lánum sínum.  Í staðinn fyrir að geta velt þessu yfir á þrotabúin, þá fór kerfið í gang og maður lagðist við manns hönd að sannfæra Hæstarétt um að allt færi fjandans til, ef samningsvextir giltu áfram, eins og samningalög segja (og neytendalög gagnvart neytendur og dómar Dómstóls Evrópusambandsins í sambærilegum málum).

Ég gæti alveg haldið áfram upptalningunni, en læt þetta duga.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2016 kl. 17:56

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gleymdi að segja hvað ég vildi gera á annan hátt.

1. Viðurkenna að öll skuldaaukning frá ársbyrjun 2008 hafi hreinlega verið illa fengin.

2. Viðurkenna að bankarnir þrír skulduðu þjóðinni háar bætur vegna tjónsins, sem þjóðin varð fyrir.

Að þessum skilyrðum uppfylltum, hefði mátt semja um framhaldið.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2016 kl. 18:06

20 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Kærar þakkir fyrir þína miklu vinnu sem þú hefur lagt í að upplýsa okkur um stöðu mála Marinó G. Njálsson. Enn fyrst þetta er ljóst af hverju þorði Guðlaugur Þór að standa með Vigdísi.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 23.9.2016 kl. 09:57

21 identicon

Við, landsmenn þurfum að sýna Vigdísi að við stöndum með henni og viljum að hún haldi áfram að halda sannleikanum á lofti..

Hún þorir og vill að hið rétta komi fram. Þar er einmitt það sem allur almenningur vill líka. Guðlaugur Þór er líka hugrakkur og það ætti að sæma þau bæði íslenska riddarakrossinum fyrir að vera til.

Bjarney Kristín Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 23.9.2016 kl. 15:44

22 Smámynd: Halldór Jónsson

 Er ekki veigamikið í þessu máli það sem Guðmundur Ásgeirsson bendir á:

"Hið rétta er að bankarnir þrír (þeir nýju sem nú eru starfandi) voru stofnaðir á kostnað almennings sem ríkisfyrirtæki. Þegar eignarhlutir í þeim voru síðar framseldir til slitabúanna var engin heimild fyrir því á fjárlögum, og sú afhending eða "sala" ríkiseigna, var því fullkomlega löglaus aðgerð."

Ekki frekar en þegar fjármálaráðuneytið seldi landið undir neyðarbrautinni á Reykjavíurflugvelli án heimildar í fjárlögum.

Halldór Jónsson, 23.9.2016 kl. 17:17

23 identicon

Baksýnisspegil er alltaf gaman að horfa í Marínó. Skýrslan (þessi upprunalega, skýrsla breytist víst daglega) er uppfull af dylgjum og þessar heimildir sem eiga að vera svo ágætar koma oft sem samhengislaust ,,klipp og  lím" inn í textann. Alger rusllesning.

Sigmar Þormar (IP-tala skráð) 24.9.2016 kl. 09:18

24 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég er ekki sammála því að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekið við þungu búi. Fyrir hrun þá var ríkissjóður nánast skuldlaus, þannig að það þarf ekkert að þakka fláráðnum Steingrími lukku okkar í dag.  

Hrólfur Þ Hraundal, 24.9.2016 kl. 16:56

25 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Sigmar Þormar. Mér finnst að þú ættir að birta mynd af þér þó það væri ekki annað enn að vekja upp traust og virðingu. Marinó G. Njálsson er traustur maður sem fólk tekur mark á. Fyrst þessi skýrsla er uppfull af dylgjum. Þá spyr ég þig af hverju má ekki birta og leyfa fólki að skoða hvað er um að vera?

Eitt er víst að skrif Marinó pirra þig vel og spurning hvern ert þú að verja? Það er öllum frjálst að hafa skoðanir án þess að spyrja þig um leyfi á þeim.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 25.9.2016 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband