Leita í fréttum mbl.is

Ótrúlegur veruleiki Seðlabankans

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Hringbraut 31. ágúst sl. (sjá hér klippu Láru Hönnu Einarsdóttur af viðtalinu). Mig eiginlega hryllir við því sem hann segir í viðtalinu.

Víðast í heiminum, þá gengur efnahagstefna stjórnvalda út á að styrkja útflutningsatvinnugreinar og tryggja samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart innflutningi. Stjórnvöldum þykir eftirsóknarvert að vegur þessara atvinnugreina sé góður, að góður gangur í atvinnulífinu almennt og eftirspurn eftir útflutningsvörum og -þjónustu. Ísland hefur þá sérstöðu, að þær þrjár atvinnugreinar sem mestar gjaldeyristekjur skapa, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og stóriðja, eru ekki í mikilli samkeppni við innfluttar vörur, en búa hins vegar við það, að tekjur þeirra eru að lang mestu leiti í erlendri mynt meðan töluverður hluti kostnaðar er að í íslenskum krónum. Fyrir þessar atvinnugreinar skiptir því miklu máli að eins mikið jafnvægi sé í gengi krónunnar og frekast er hægt gagnvart helstu myntum. Auðvitað verður aldrei algjört jafnvægi, þar sem allar myntir hafa sínar sveiflur.

Seðlabankinn vill skerða gjaldeyristekjur

Í viðtalinu lýsir Þórarinn því yfir, að Seðlabankinn stefni að því að gera gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum erfiðara fyrir og draga úr gjaldeyrisöflun þeirra! Það sem meira er, að Seðlabankinn vill auka innflutning til að skapa samkeppni. Vá, ég nánast svitnaði við að hlusta á þessi orð hans. Flestir innlendir framleiðendur, sem framleiða á innanlandsmarkað, eru lítið að græða á styrkingu gengisins. Jú, vissulega lækka einhver aðföng í verði, en innlendir kostnaðarliðir, sem flestir vega mjög þungt, þeir hækka jafnt og stöðugt. Innfluttar vörur, sem keppa við innlenda framleiðslu, njóta hins vegar að fullu gengisstyrkingarinnar. Hún leiðir því til þess að innlendir framleiðendur búa ekki bara við óhagstæða launaþróun (borið saman við erlenda samkeppnisaðila) og borga allt of háa vexti, heldur er innflutningur á útsöluverði í boði Seðlabanka Íslands. (Ef einhver heldur að á Íslandi sé fljótandi gengi, þá vil ég minna á að það eru gjaldeyrishöft í landinu og hafa verð í tæp 8 ár.)

Útflutningur án samkeppni við innflutning

Á meðan þessu fer fram, þá versnar rekstur stóriðjufyrirtækjanna sem hafa ákveðinn hluta kostnaðar síns í íslenskum krónum, samkeppnisstaða flugfélaganna (sem skapa um og yfir 200 ma.kr. í tekjur) versnar af sömu ástæðum, ferðaþjónustan verður fyrir tekjusamdrætti og útflytjendur sjávarfangs missa af miklum tekjum. Það getur verið að það sé einhver útópísk hugmyndafræði, að búa til hið fullkomna jafnvægi, en menn verða að hugsa. Nær allur útflutningur frá Íslandi er ekki í neinni samkeppni við innflutning eða erlenda aðila sem eiga í viðskiptum við eða á Íslandi. Flugfélögin eru þau einu sem þannig er statt um. Ferðaþjónustan er í uppsveiflu vegna þess að Ísland er í tísku, það er öruggt að sækja landið heim og það vekur forvitni fólks vegna náttúrufegurðar. Fiskútflytjendur eru heldur ekki í samkeppni við innflytjendur, vegna þess að engum dettur í hug að flytja fisk til landsins til að keppa við þann sem er veiddur við strendur landsins.

Útópían gengur ekki upp

Hugmyndafræði Seðlabankans er greinilega tekin upp úr einhverjum kennslubókum, þar sem mikið flæði vöru fer um opin landamæri og flutningskostnaður er lítill. Þar sem mikil og jöfn samkeppni er milli fjölbreytts iðnaðar í mörgum löndum. Þar sem flæði milli margra ólíkra markaðssvæða er mikið og skiptir auðveldlega um stefnu frá einu svæði til annars án þess að hafa áhrif á önnur flæði sömu markaðsvæða við það þriðja, fjórða eða fimmta.

Þessi útópía er ekki á Íslandi. Að fiskur hækkar í verði, verður ekki til þess að fiskur frá Noregi fer að flæða til Íslands. Nei, það verður til þess að fiskur frá Noregi kemur í staðinn fyrir íslenskan fisk í verslunum í Englandi. Markaðssvæði tapast og það tekur mörg ár að laga þá stöðu aftur. Á meðan hrúgast fiskurinn upp í íslenskum frystigeymslum, nema að fiskútflytjandi ákveði að lækka verðið (í íslenskum krónum), draga úr veiðunum eða minnka verðmætasköpunina með því að setja fiskinn í ódýrari pakkningar. Staða Icelandair og WOW gæti leitt til þess, að þau verði undir í verðsamkeppni, þurfi að draga saman seglin eða hreinlega detti út af markaði. Þessi tvö félög fara ekki að taka upp á því að fljúga á milli Ástralíu og Nýja Sjálands eða Chile og Mexíkó. Nei, þau eru bundin af leyfum til að fljúga frá Íslandi til hinna ólíku áfangastaða erlendis.  Þau geta heldur ekki ráðið erlendar áhafnir, þar sem þær þurfa að taka laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Og samkeppnisstaða stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi versnar gagnvart systurfyrirtækjum innan sömu samstæðu, sem gæti leitt til lokunar þeirra hér á landi.

Og svo hlakkaði í Þórarni, þegar hann var að lýsa þessari útópísku draumsýn sinni.

Opnið augun!

Ég hvet stjórnendur Seðlabankans til að koma niður úr fílabeinsturninum sínum og kynnast veruleikanum. Taka hausinn upp úr fræðibókunum og skoða raunhagkerfið. Hagfræði er ekki vísindi á neinum skynsamlegum mælikvarða. Hagfræðikenningar eru bara kenningar, sem sjaldnast eru yfirfæranlegar milli þjóðfélaga, hvað þá að þær virki fullkomlega í nokkru þeirra. Þær gefa okkur vísbendingar um fræðilega niðurstöðu, en ekki raunverulega niðurstöðu. Ég skora á stjórnendur Seðlabankans að opna augun og áður en þið rústið gjaldeyrisskapandi greinunum, leyfið þeim að safna korni í hlöður farósins sem hægt verður að grípa til næst þegar herðir að. Það er ekki víst að við höfum sjö ár til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

 Mjög gott.

Egilsstaðir, 03.09.2016  Jónas Gunnlaugsson

http://jonasg-egi.blog.is/

http://jonasg-eg.blog.is/

Jónas Gunnlaugsson, 3.9.2016 kl. 01:45

2 identicon

ágæt grein en hvernig eru menn að draga ú gjaldeyrisinnflæði ef bankar eru að taka lán í erlendum myntum ekki fá þeir svo mikla innkomu frá almeníngi í erlendum myntum hver var ástæða hrunsins það voru ekki krónuvandræði heldur skortur á elendum gjaldeyri vandamálinn byrja ekki þegar láninn eru tekinn heldur þegar menn þurfa að borga til baka. held a bankarnir hafi ekki lært neit á hruninu

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband