5.7.2013 | 23:45
Hvað er orðið að rökhugsun landans?
Við hrun bankakerfisins haustið 2008 þá glataðist ýmislegt. Við viðurkennum líklegast öll að traustið hvarf og tortryggni kom í staðinn. Mannúð vék fyrir hörku. Mannorðsmorð voru framin hægri vinstri. En ekki síst þá varð til ný tegund misréttis, þ.e. þeirra sem fengu skuldir lækkaðar og þeirra sem fengu þær ekki lækkaðar.
Eitt sýnist mér hafa líka farið í glatkistuna. Rökhugsun og færni mann til að tengja saman orsök og afleiðingu. Finnst mér svo langt ganga í sumum málum, að fólk sé ekki með fullum sönsum, þegar það ryðst fram á ritvöllinn og lýsir yfir hneykslan sinni á hinu og þessu.
Skýrslan um Íbúðalánasjóð hefur t.d. truflað rökhugsun manna meira en nokkuð sem ég hef séð nema þegar rætt er um ýmsa útrásarvíking. Bæði virðist samhengi hluta ruglast hjá skýrsluhöfundum og síðan ekki síður hjá hinum óteljandi álitsgjöfum. Margir þeirra ættu t.d. að vita betur, en af einhverri ástæðu finnst þeim sannleikurinn ekki eins bitastæður og rökleysan.
Q.E.D.
Ég hef alltaf viljað geta sett q.e.d. á eftir rökfærslum, þ.e. quod erat demonstrandum, sem yfirfæra má sem og staðfestist þar með. Kenning er sett fram, fyrir henni færð rök og síðan sannreynt að rökin staðfesti/sanni að kenningin sé rétt. Um hornsummu þríhyrnings gildir a + b + c = 180, þar a, b og c lýsa stærð hornanna. Lengd langhliðar í rétthyrndum þríhyrningi má finna út frá jöfnunni a² + b² = c² þar sem a og b eru skammhliðarnar og c langhliðin. (Ætla ekki að fara í gegn um sannanirnar.)
Þetta þykir ekki parfínt hjá helstu álitsgjöfum þjóðarinnar, hvort heldur þeir eru blaðamenn, fræðimenn, þingmenn eða bara á facebook. Hjá flestum tíðkast hin breiðu spjót og sannleikurinn eða rökhyggja er bara eitthvað sem þvælist fyrir.
Ég hef reynt, eins og mér er framast unnt, að virða sannleikann framar öllu. Ef mér hefur orðið á í messunni, þá er ég óhræddur við að viðurkenna það, koma leiðréttingu á framfæri og biðjast afsökunar, ef ég tel efni til. Þegar ég fjalla um málefni, þá legg ég mig fram við að segja sannleikann hver sem á í hlut. Þannig hef ég á einhverjum tímapunkti varði alla stjórnmálaflokka sem átt hafa mann á þingi undanfarin ár, nema ég held að Björt framtíð hafi ekki enn gefið mér slíkt tilefni. Fyrir þetta hef ég oft uppskorið skeytadrífu þeirra sem ekki sætta sig við að ég verji Jóhönnu, Sigmund Davíð, Bjarna Ben, Steingrím eða hverjir það hafa nú verið sem ég tók upp hanskann fyrir í það sinnið og það er alveg bannað að taka upp hanskann fyrir útrásarvíkinga eða stóreignarfólk. Þegar ég setti inn pistil um afstöðu mína til Icesave, þá var ég sakaður um að vera "þjóðhættulegur" og átti greinilega að hafa svo mikil áhrif í samfélaginu að skoðun mín hafi snúið þjóðinni. Ef ég tek upp hanskann fyrir einhvern af útrásarvíkingunum, þá hef ég verið úthúðaður sem landráðamaður. Ekki má svo gleyma persónulegum árásum á mig vegna umfjöllunar um skuldamálin. Allt þetta hefur maður mátt þola bara vegna þess, að ég tel sannleikann vera ofar öllu og að sannleikanum megi ekki víkja til hliðar sama hvað.
Rökleiðsla - Rökyrðingar
Í mínu námi, þá lærði ég stærðfræðilega rökleiðslu og yrðingareikning. Kom þetta bæði fyrir í stærðfræðihluta náms míns og í tölvuhluta námsins við Háskóla Íslands og Stanford háskóla. Yrðingar eru nefnilega mikilvægur þáttur í röklægri forritun (logical programming). Einnig eru þær mikið notaðar í verkfræðiútreikningum og fjármálaútreikningum og þeim fræðum sem ég sérmenntaði mig í, þ.e. aðgerðarannsóknum. If-setningar í töflureiknum eru gott dæmi um rökyrðingar.
Einföl yrðing er A -> B (lesist A þá B). Þ.e. sé atriði A til staðar, þá leiðir það af sér að atriði B er líka til staðar. Aftur á móti gildir ekki, ef B þá A. Yrðinguna er bara hægt að lesa í eina átt. Ef allir íbúar Breiðholts eru Reykvíkingar, þá gildir ekki að allir íbúar Reykjavíkur búi í Breiðholti.
Flóknari yrðing er, ef A -> B og B -> C, þá gildir A -> C, þ.e. er fyrir öll A þá gildir B og fyrir öll B þá gildir C, þá þýðir það jafnframt að fyrir öll A gildir C. Ef allir íbúar Breiðholts eru búsettir í Reykjavík og allir íbúar Reykjavíkur eru búsettir á Íslandi, þá leiðir það af sé að allir íbúar Breiðholts búa á Íslandi.
Önnur svona yrðing með ólíka merkingu er A -> B og A -> C, en um hana gildir ekki B -> C. Allir sjómenn á Bátnum búa á Grenivík og allir sjómenn á bátnum eru Íslendingar, þá er ekki hægt að draga þá ályktun að allir Grenvíkingar séu Íslendingar.
Síðan er hægt að nota "ekki" táknið ¬ til að gefa neikvæða merkingu A -> ¬B eða ¬A -> B og raunar er listi yfir þau tákn sem hægt er að nota nokkuð langur. Hægt er að nálgast dæmi um slíka lista hér og hér.
Frjálslegar rökleiðslur
Tilefni þessa pistils núna eru ansi frjálslega með farnar rökleiðslur í tilefni skýrslu um ÍLS, en ég hef lengi gengið með hann í maganum.
Ein er sú fullyrðing að 90% lán ÍLS hafi orðið þjóðinni dýrkeypt í þeirri merkingu að þau hafi hreinlega orsakað efnahagshrunið. Nú veit ég ekkert hvort það hafi verið ætlun skýrsluhöfunda að þetta kæmi svona út, en þannig hafa bloggheimar og facebook notendur því miður skilið sneiðina.
Ef við setjum þetta upp í rökyrðingu, þá skulum við skilgreina þessa tvo viðburði sem hér segir:
A - ÍLS ákveður að bjóða 90% lán
B - Hagkerfið hrundi
og staðhæfingin er:
A -> B (þ.e. A orsakaði B og ekki bara það, heldur að með því að halda áfram að bjóða 90% lán, þá mun hagkerfið fara aftur á hliðina).
Vandinn við þessa yrðingu er að hana er ekki hægt að sanna með neinu móti. Ástæðan er sú að óteljandi önnur atriði höfðu áhrif og leiddu til efnahagshrunsins. Réttara er að segja:
A -> C þar sem C er ótilgreindur hlutur, en líklegast eitthvað í þá áttina að fjármálafyrirtækin sáu tækifæri til að fara út á húsnæðislánamarkaðinn. C getur líka verið að fleiri höfðu möguleika á hærri lánsfjárhæð, að stífla hafi rofnað sem var á húsnæðismarkaði og margt, margt fleira. En hvorki A né C leiddu beint, ein og óstudd til B. Því er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að þessi rökyrðing, hvort sem hún er skrifuð A->B eða C->B, er röng. A.m.k. eru engar sannanir fyrir því að hagkerfið hefði hrunið, hefði ekki allt hitt gerst líka. Þá er ég að tala um atriði eins og lága vexti bankanna á húsnæðislánum (D), ótakmörkuð lánsfjárhæð (E), 100% lán bankanna (F), breytingar á bindiskyldu (G), breyting á áhættustuðli og þar með eiginfjárkröfu (H), útrás bankanna (I), aðgangur bankanna að ódýru lánsfé (J), áhættusækni bankanna (K), aukin útlánageta fjármálafyrirtækja (L), sveiflur á gengi krónunnar (M) vegna m.a. Kárahnjúka (N), vaxtaskiptasamningar (O) o.s.frv.
Líklegri yrðingin er því: A -> C og síðan A (eða C) ∧ D ∧ E ∧ F ∧ G ∧ H ∧ I ∧ J ∧ K ∧ L ∧ M ∧ N ∧ O ∧.. -> B (∧ þýðir "og" meðan + þýðir "eða"). Vissulega er það svo að í einhverjum tilfellum gæti verið "eða" á milli ólíkra atriða, þannig að G eða H (G + H) hefði dugað en ekki þurft bæði. Við vitum að G og H var hvorutveggja komið í framkvæmd áður en A kom til framkvæmdar. Þannig væri hægt að brjóta yrðinguna upp og segja G -> L (lægri bindiskylda jók útlánagetu) og H -> L (lægri áhættustuðull varð til þess að hægt var að lána meira út fyrir sama eigið fé). Hvort yrðingin er G∧H -> L eða G+H-> veit ég ekki og skiptir ekki öllu. Höfum í huga að ÍLS telst til fjármálafyrirtækja, en er ekki háð þáttum G og H á sama hátt og bankarnir. Svo er líka rétt að benda á að atvik L, þ.e. lækkun eiginfjárkröfunnar gerðist bæði 2003 og 2007.
Þá lítur yrðingin allt í einu svona út:
(H+G)-> L og
A ∧ L -> X þar sem X er áhugi fjármálafyrirtækja til að auka markaðshlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði.
Til þess að auka hlutdeildina, sem má kalla Y, þá þarf X ∧ (D ∧/+ E ∧/+ F) -> Y. (Veit ekki hvort eitt af D, E og F hefði dugað eða fleiri saman.)
Til að halda úti vegferðinni, Y1, þá þarf J: J->Y1; Y1->Y
Ég get alveg haldið áfram með þessa rökleiðslu, en hún leiðir okkur langt frá upprunalegu yrðingunni A->B. Við vitum ekki hvað C hefði orðið, þar sem það módel var aldrei keyrt. Ég er hins vegar fullviss um að það hefði ekki tekið okkur neins staðar nálægt B, hruni hagkerfisins.
Þá er það menntun og reynsla
Önnur frjálsleg rökleiðsla er að menntun stjórnarmanna hafi skipt öllu máli. Munurinn á þessari staðhæfingu og þeirri fyrri er að hún getur verið sönn, en þarf ekki að vera.
Hér gildir að menntun (A) leiðir til þekkingar (B1), en einnig gildir að ekki þurfa að vera tengsl á milli menntunar (A) og hagnýtingar þekkingar (C) eða þekkingar og hagnýtingar hennar. Við getum sem sagt ekki fullyrt að A->C eða að B1->C. Hér gildir líka að aldur og reynsla (D) leiðir til þekkingar (B2), þ.e. annars konar þekkingar en menntun gefur. Aftur tryggja hvorki D né B2 að við fáum C. Við erum því einfaldlega í þeirri aðstöðu að geta hvorki sannað né hrakið fullyrðinguna um að stig prófgráðu viðkomandi hafi gert viðkomandi hæfan eða vanhæfan til stjórnarsetu. Ástæðan er einfaldlega sú að engin óyggjandi rökræn tenging er milli A, B1, B2 og D annars vegar og D hins vegar. Við getum ekki einu sinni fullyrt að B1 sé betri og hagnýtari þekking en B2 vegna þess að við vitum ekki hvað lífið hefur kennt mönnum. Vel menntaður einstaklingur getur verið gjörsamlega ófær um að sitja í stjórn, meðan flugfreyjan getur verið mjög góður félagsmálaráðherra.
Eina sem við getum dregið af þessu eru líkur, en þær hljóta að vera einstaklingsbundnar. Svo má ekki gleyma að bankarnir fóru á hliðina með allt þetta sprenglærða fólk innanborðs.
Mergur málsins við þessar ráðningar er, að ekki var verið að velja einstaklinga til stjórnarstarfa hjá ÍLS til að vera snillingar í málefnum ÍLS. Nei, það var verið að ráða þá til að fylgja stefnu stjórnvalda hverju sinni. Við það er ekkert að athuga. Því er rangt að einblína á stjórnarmennina heldur á að einblína á ráðgjafana sem stjórnvöld notuðu fyrir ákvarðanir varðandi málefni ÍLS, fólkið innan ráðuneytisins sem mótaði stefnuna í samráði við stjórnendur ÍLS og síðan ráðherrana sem höfðu forgöngu um að móta stefnuna. Það er mikil einfeldni að halda, að stjórn ÍLS hafi haft raunverulegt vald, þó vissulega hafi hún haft tillögurétt.
Lokaorð
Ég er alveg sannfærður um, að við værum lengra komin með uppgjörið við hrunið, ef upphrópanir og breið spjót væru ekki það fyrsta sem gripið væri til, þegar eitthvað kemur upp. Stjórnarandstaða á þingi (hvort heldur núverandi eða fyrrverandi) hafa gert það að skyldu að eða listgrein að tapa rökhyggjunni, þegar ráðherrar segja eitthvað. Helmingur tíma fyrri ríkisstjórnar fór í súginn vegna þess að óteljandi hagsmunaaðilar heltu yfir hana stórlega menguðu talnaflóði. Grátkór útgerðamanna er búið að festa sig í sessi sem hugtak í íslenska tungu og nú er nánast sama hvað kemur frá þeim mikilvæga hópi. Það er allt stimplað sem grátur og barlómur.
Núverandi ríkisstjórn hefnist fyrir framkomu sína síðustu árin og fæst við sama svæsna útúrsnúninginn og þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks notuðu áður. Fjölmiðlar eru síðan engu skárri. Þeir láta mata sig af gögnum og fréttum sem standast ekki rökhugsun. Eitt er sagt í dag og annað á morgun og menn láta það engu skipta þó mótsagnirnar séu hrópandi. Ef ekki væri fyrir hana Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er líklegast vandaðasti fjölmiðlamaður landsins, þá kæmust fjölmiðlar og stjórnmálamenn upp með þetta rugl.
Mikið væri gott, ef fjölmiðlar og stjórnmálamenn temdu sér vandaðri vinnubrögð. Mikið væri gott, ef sannleikurinn fengi að ráða för en ekki furðulegur hráskinnaleikur. Eina sem hefst upp úr því að hrópa 270 ma.kr. tap ÍLS er að hann mun ekki líta eins illa út þegar í ljós kemur að talan er 41 ma..kr. eða 64 ma.kr. Búið er að gengisfella skaðann með því að fara rangt með tölur. Að kenna síðan 90% lánu ÍLS um hrun efnahagskerfisins er síðan bara til að skemmta skrattanum.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ef að blaðamenn gæfu sér jafn mikinn tíma of þú Marinó að þá væru valdamálin mun færri enda rök-og staðreyndavillur í fjölmiðlum sjaldgæfar... öfugt miðað við hvað er nú í "SUN-blaðamennsku" og sölu innihaldslausra fyrirsagna.
Óskar Guðmundsson, 6.7.2013 kl. 07:44
Það reynir á þolrifin að hlusta á hvernig sumir vilja kenna 90% lánunum um vanda ILS, þegar staðreyndin er sú að 90% lánin urðu aldrei að veruleika nema að nafninu til eins og þú hefur rakið. Hvort það er einhver illvilji í garð almennings eða einfaldlega gamla „góða“ heimskan sem ræður för í þessu átta ég mig ekki alveg á. Ég vil nefna sem dæmi; Ólaf Þ. Stephensen í útvarpsþættinum Í Bítið í gærmorgun þar sem rætt er um skýrsluna margnefndu, en þar býsnast hann þessi ósköp yfir 90% lánum ILS. Ég hef reyndar lengi haft grun um að hann sé leigupenni þeirra sem hafa efni á slíku- og vilja ILS feigan.
Síðan er það umhugsunarvert hvers vegna við getum ekki (eða viljum ekki) boðið upp á lánakjör sem gera öllu venjulegu fólki fært að kaupa sér húsnæði við hæfi án þess að lenda í stórkostlegri eignaupptöku með reglulegu millibili eða ævilöngum skuldaþrældómi.
Þetta innlegg mitt á frekar við pistil þinn frá því í fyrradag, en ég læt þetta engu að síður flakka.
Toni (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 09:13
Magnaður að vanda Marinó - takk fyrir pistilinn. Aðeins þetta með breiðu spjótin. Mér er til efs að menn séu að grípa til þeirra í aðför sinni að mönnum og málefnum. Er nær að halda að menn styðjist mest við gaffal. Það að beina spjóti rétt er þrautin þyngri í ýmsum skilningi eins og þú fjallar um með ýtrekuðum og ýtarlegum hætti. Og yfir höfuð að beina því eitthvað virðist mörgum um megn. Gaffallinn er að verða það verkfæri flóknasta sem menn beita helst en kynni reyndar að vera á undanhaldi líka það sem gaffalfrjáls skyndibitinn er orðinn valkostur í stórauknum mæli. Já, skyndi þetta og skyndi hitt og brúkleg verkfæri engin. Liggur rót okkar vanda m.a. í því ?
Einar Vilhjálmsson, 6.7.2013 kl. 12:10
Hjartanleg sammála þér Marínó
"Fréttaflutningur" virðist bara vera fyrirsagnir og það er ekki bara við um Ísland t.d. leitaði ég um daginn að hvað hefði komið uppá með flugvél Bólivíu forseta en var engu nær, en ekki vantaði fyrirsagnirnar og alskonar vangaveltur hér á landi.
Niðurstaða mín var því miður: Wikileaks is in the spotlight again - please donate
Grímur (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 15:07
Það er himinn og hafa milli þessarar skýrslu og skýrslunnar um bankahrunið. Þar er nóg að vitna til kynningarinnar og efnistaka á kynningarefninu. Var skýrslan ekki lesin yfir af löggildum endurskoðendum? En það virðist ekki vera vanþörf á því þar sem strax er farið að rífast um skilgreiningu á "tapi" ÍLS.
Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 15:20
Mikið er nú hressandi að lesa vel ígrundaða vangaveltu um þetta mál. Hef oft bent á það að lánshlutfall lána Íbúðalánasjóðs hafi verið lítil sem engin prósenta í hrunjöfnuninni og fengið bágt fyrir frá ýmsum. En ég ekki farið jafn vandlega í gegnum það og þú gerir í þessum pistli..
Eiður Ragnarsson, 6.7.2013 kl. 15:24
Er ekki einfalt að vita hvað hefur orðið um rökhugsun landans í þessu máli? Bankar (og þeirra talsmenn) vilja ÍLS út af markaðnum. Með því að dæla 90% áróðri í 'ekki svo klára' álitsgjafa sem fara svo með það í fjölmiðla verður það að sannleika hjá þjóðinni, og áður en við vitum af vill meirihlutinn losna við ÍLS, sama í hvaða formi ÍLS ætti að vera í framtíðinni.
Þó það samræmist ekki strangri rökhugsun, þá finnst mér alltaf gott að hugsa 'hvað vilja fjármálaöflin í þessu tilviki' þegar einhver stór mál eru til umræðu, og rekja mig svo áfram (eða tilbaka). Því þegar allt kemur til alls, þá ráða fjármálaöflin.
Flowell (IP-tala skráð) 6.7.2013 kl. 19:25
Margt er það í samfélaginu sem þarf ekki að setja upp í formúlu til þess að skilja það.
Það er alveg sama á hvaða stofnun eða samfélag við horfum á þar er alltaf einhver dynamik til staðar sem má rekja til þekkingar. Þekkingin er einfaldlega það sem við höfum af leiðarljósi við framkvæmdir og því getur atburðarrás skýrt þá þekkingu sem er til staðar í viðkomandi samfelagskima.
Það er ekki hægt að slíta í sundur hugtök eins og menntun-reynsla-þekking. Menntun er reynsla. Menntun hefur áhrif á þekkingu og þekking hefur áhrif á það hvernig við nýtum reynsluna til að afla okkur þekkingar og hefur einnig áhrif á það hvernig við lærum.
Þeir sem fara ómenntaðir af stað og fara fljótt inn í umhverfi þar sem þeir eru annað hvort barðir til hlýðni eða þurfa ekki að bera ábyrgð tileinka sér aðra þekkingu og öðruvísi sýn en aðrir sem fara inn i annarskonar umhverfi sem mótar þá á annan hátt.
Klíkuráðningar og ábyrgðarleysi er vondur skóli og elur af sér heimska og forpokaða einstaklinga. Utanbókarfrasar og grunnur skilningur er algengur í þessum heimi og það þarf engar formúlur til þess að sjál það.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 20:16
Marino. Það er rétt hjá þér, að réttlát og rökstudd gagnrýni er á svívirðilegan hátt skotin niður, af þjónum falda valdsins.
Það falda vald fremur sín mannorðsmorð á samviskulausan múgæsings-hátt. Meðal annars með aðstoð frá sviknum og illa stæðum einstaklingum, sjúklingum í undirheimum, og þeirra sem auðvelt er að blekkja með herteknum ríkisfjölmiðlum.
Þ.e.a.s. þeir stærstu og hvít-flibbuðustu, kúga eiturlyfjasjúklinga og aðra illa stæða og varnarlausa, til að fremja skítverkin, bæði í undirheimum og embættisverka-skrifstofum með "góðkenningu" frá bankaræningjum heimsins.
Það er ekki reiknað með að hægt sé að rekja slóðina til höfuðpauranna: hvít-flibbuðu (flippuðu).
Hvort er manndómlegra: múgæsinga-mannorðsmorð ríkisfjölmiðla, til að verja falskan málstað, eða almannahagsmuna-gæsluverka-sjálfsmorð einstaklinga, sem þora að gera það sem gera þarf?
Ísland þorir ekki, ef einstaklingar á Íslandi þora ekki!
Heiðursmaðurinn Vilmundur Gylfason heitinn er þarna einhverstaðar, og hjálpar heiðarlegum, sem þora. Það er svo afskaplega stutt á milli vídda.
Enda er ekki vanþörf á alvöru englavakt og almáttugum stuðningi, við þá sem vilja fórna sér til að afhjúpa spillinguna, svo hægt sé að vernda réttindi almennings.
Það ættu þeir að skilja best, sem segjast vilja vernda Snowden, sem óska eftir að hann fái pólitískt hæli í landi, (Íslandi), sem fær loftrýmisgæslu frá Svíþjóð.
Ég minni á að Svíþjóðar-stjórnvöld eru stærsta ógn Wikileaks-fangans Assange, í einu af ESB-löndunum! Og samtímist eru stjórnvöld Svíþjóðar að sinna loftrýmisgæslu-umferð yfir Íslandi?
Og á sama tíma vilja einhverjir bjóða honum pólitískt hæli á Íslandi, undir loftrýmisgæslu-eftirliti Svía-stjórnar?
Hvað ætli Julian Assange finnist um svona rökleysu-rugl? Assange og Snowden eru varla í sama liði? Eða hvað?
Hér er margt sem ekki stenst eðlilega rökhugsun.
Ég er komin út fyrir bókstaflega íbúðalánasjóðs-málið, og biðst afsökunar á því.
Ég er ekki að verja íbúðalánasjóð, heldur að benda á rökleysur og mótsagnir.
Ég veit ekkert um íbúðalánasjóð, enda á það að vera vandað fjármálaeftirlit, sem á að tjá sig um það mál af einhverri raunverulega vandaðri og trúverðugri þekkingu. Og ef fjármálaeftirlitið getur ekki sinnt því verki á löglegan hátt, þá er betra að leggja það falska eftirlits-öryggi bara niður í ríkisrekstrar-sparnaðarskyni.
Þeir bera ábyrgðina, sem vinna hjá fjármálaeftirlitinu!
Það er ekki gæfulegt að hengja bakara fyrir smið. Enda er sagt að "siðmenntuð" samfélög hafi hætt hengingum?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.7.2013 kl. 20:32
Jakobína, hvað er það við menntun sem tryggir þekkingu? Ekkert. Menntun eykur líkur á þekkingu, en tryggir hana ekki. Dæmi: Stór hluti lögfræðinga fjármálafyrirtækjanna héldu því fram að gengistrygging væri lögleg. Þetta álit sitt byggðu þeir á menntun sinni sem lögfræðingar. Hæstiréttur hafnaði þessu. Hann komst að því að menntun lögfræðinganna hefði ekki tryggt þeim þekkingu á lögunum.
Annað dæmi: Tveir aðilar mennta sig sem íslenskufræðingar og báðir fara í kennslu. Annar á ómögulegt með að koma námsefninu á framfæri við nemendurnar þar sem hann býr ekki yfir þeirri færni að yfirfæra menntun sína í þekkingu sem hann leggur fyrir nemendurna. Nemendur hans ná engum árangri á prófum. Hinn er aftur afbragðskennari og nemendur hans ná framúrskarandi árangri á prófum.
Ég gæti tekið óteljandi svona dæmi, þar sem ekki fer saman menntun og þekking. Í grunninn er það, að tveir aðilar með sömu menntun geta búið yfir gjörólíkri þekkingu á efninu.
Síðan getur ómenntaður einstaklingur einfaldlega hafa kynnt sér tiltekið efni það vel, að hann býr yfir afburðarþekkingu. Um það eru óteljandi dæmi.
Menntun er bara stimpill á rassinn meðan þekking fylgir ekki og þekking þarf ekki að vera tilkomin vegna þess að viðkomandi hefur gengið menntaveginn. Ég benti um daginn í orðræðu við þig á Bill Gates. Snillingur sem hætti í námi. Ég get bent á Steve Jobs líka og örugglega óteljandi aðra.
Ég er ekki að gera lítið úr menntun með þessu, bara benda á að ekki er beint orsakasamband á milli menntunar og þekkingar. Við getum ekki sagt að allir lögfræðingar hafi góða þekkingu á lögum og á sama hátt getum við ekki fullyrt að allir sem hafa góða þekkingu á lögum séu lögfræðingar.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2013 kl. 21:29
Marinó þú hreikir þér hér að ofan af því að fara allta með sannleikann a.m.k eftir bestu vitund.
Útskýrðu þá fyrir mér hvar ég segi að menntun tryggi þekkingu.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 21:47
þegar ég var í háskólanámi erlendis var talað um að um 10% næðu því að verða sérfræðingar eða experts í faginu. Það kemur síðan í hlut ráðningastofa og þeirra sem eru að leita eftir þekkingu inn í fyritækin að finna þetta fólk. Eða hefur þú heyrt hugtakið hausaveiðarar (e. head hunters)?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 21:51
Jakobína, ég er að leggja út af innleggi mínu og ég túlkaði orð þín eins og þú værir ekki sammála þeim. Í því fellst engin umfjöllun um sannleika. Þetta eru rökræður um efni.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2013 kl. 21:57
Ef við snúum okkur að ÍLS þá er lýsir atburðarrásin dæmigerðri vanþekkingu. Menn höfðu takamarkaða þekkingu og bjuggu til vandamál sem hentuðu þessari takmörkuðu þekkingu og hunsuðu þætti sem þeir höfðu ekki þekkingu til þess að takast á við. Þetta er kallað "problem setting" og er eitt af grundvelli þess hvernig maður skilgreinir "professionalism".
Þeir sem ekki hafa menntað sig eru ekki professionals þótt að margir sem hafa menntað sig séu það ekki heldur.
Það sem einkennið spillingarferlið í kringum Íbúðalánasjóð er vanþekking á gildi þekkingar og gríðarleg áhrif af bæði "hubris" og "cognitive dissonance".
Gildi þess að velja rétta fólkið í réttu verkin.
Talandi um rökræðu þá hefur þú sjálfur lent í "fallacy" ef þú trúir því að fyrirbærirð "menntun tryggir ekki þekkingu" dragi eitthvað úr ábyrgð þeirra að velja einstaklinga með þekkingu.
Þar er menntun fyrsta skrefið en ekki allt ferlið heldur þarf að huga að því að einstaklingurinn geti tileinkað sér þá þekkingu til þess að vinna eins og "professional".
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 22:10
Jakobína, ég hef hvergi sagt að viðkomandi eigi ekki að bera ábyrgð og tel hvorki menntun eða menntunarleysi breyta þar nokkru. Ég bendi að vísu á, að almennt á þessum tíma og hugsanlega enn, þá voru menn valdir í svona stöðu til að framfylgja vilja ráðherra og ríkisstjórnar. Tel ég því að menn eigi ekki síður að skoða embættismennina innan ráðuneytanna, ráðherrana og ráðgjafana sem komu að verkinu fyrir ráðuneytið. Höfum eitt alveg á hreinu að stjórnvöld bera ábyrgð á stefnumótun í húsnæðismálum á Íslandi, ekki stjórn ÍLS. Boltinn hlýtur því að enda hjá ráðherrum félagsmála á þessum árum. Það þýðir ekki að aðrir sleppi.
Ég hef aldrei vikið frá því að standa eigi faglega að vali einstaklinga, þegar það á við. En það á fyrst og fremst við, þegar verið er að ráða í stöður, sem eru ópólitískar. Ég vil að við ráðningu skipstjóra á Herjólfi sem valinn hæfasti einstaklingurinn. Ég vil að þegar ráðinn er yfirmaður áhættustýringar hjá ÍLS se valinn einstaklingur sem uppfyllir hæfiskröfur. Uppfylli enginn umsækjenda kröfurnar, þá skal auglýsa stöðuna aftur. Hæfiskröfur geta síðan verið mismunandi. Í þessu tilviki (líkt og með RÚV núna), þá var ekki verið að leita að fagþekkingu, heldur einstaklingum sem áttu að framfylgja pólitískri stefnumörkun. Við getum alveg notað faglegar aðferðir við það, en ef tilgangurinn er pólitískur, þá má búast við að pólitískir þættir vegi þungt í því "faglega" mati. Ég er ekki að mæla þessu bót, bara benda á staðreyndir málsins. Ég er sannfærður um að sama niðurstaða hefði fengist um breytingarnar hjá ÍLS þó hagfræðiprófessor hefði verið stjórnarformaður, þar sem að breytingar hjá ÍLS voru pólitísk ákvörðun.
Ég vil leyfa mér að fullyrða að stærsti hluti stjórna fyrirtækja í landinu eru ekki skipaðar á faglegum grunni heldur valdar með hagsmuni í huga. Því var þannig farið með stjórn ÍLS og er enn að ég best veit. Ég er sannfærður um, að taki ríkisstjórnin pólitíska ákvörðun um að breyta sjóðnum, þá annað hvort fylgja stjórnarmenn sjóðsins þeirri ákvörðun eftir eða víkja.
Spillingarferlið hjá ÍLS er ekki fólgið í því hvernig stjórnir eru skipaðar, heldur hvernig vikið var frá samþykktum ferlum án skiljanlegra ástæðna, ákvarðanir voru teknar sem gengu gegn hagsmunum sjóðsins. Ég vinn við það í mínu núverandi starfi að kljást við frávik frá reglum. Öll slík frávik þarf að réttlæta og fá samþykki æðsta yfirmanns öryggismála hjá viðskiptavininum. Spilling felst í því að slíkt samþykki fáist ekki og að frávikið sé ekki réttlætanlegt.
Pólitískt vald getur falið í sér spillingu, en að velja aðila í stjórn sem viðkomandi ráðherra vissi að mundu vinna tillögum hans brautargengi er ekki spilling. Það er pólitík. Mundu að kjósendur veittu Framsókn brautargengi í kosningunum 2003 m.a. vegna hugmynda flokksins um breytingar á ÍLS. Voru kjósendur þá spilltir?
Marinó G. Njálsson, 6.7.2013 kl. 22:43
Þú talar dálítið Marinó eins og að annað hvort sé valið pólitískt eða faglegt. Þegar að valið er í stjórn stofnana á borð við ÍLS þarf valið að vera bæði pólitíkt og faglegt því að stjórnin þarf að vera þess umkomin að meta afleiðingar ákvarðanna innan þess ramma sem pólitísk stefna segir til um.
Kjósendur eru ekki hagfræðingar það hefur marg sýnt sig. það er siðferðisleg skilda stjórnmálaflokka að tiltaka ekki einungis kosti ákveðinnar stefnu heldur einnig áhættu og ókosti. Ef þeir gera það ekki þá verða þeir að taka því að þeir séu gagnrýndir og jafnvel ásökunum um að hafa villuleitt kjósendur en það gerir Framsók ítrekað.
Það verður t.d. áhugavert að skoða klúðrir sem kemur út úr síðustu kosningaloforðum.
Auðvitað er það algjört kæruleysi gagnvart skjólstæðingum stofnunarinnar og skattgreiðendum að velja ekki hæft fólk í stjórn sjóðsins.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 23:06
Jakobína, ég hef aldrei orðið vitni að faglegu, pólitísku vali. Þessi orð geta aldrei farið saman í mínum huga. Pólitísk ákvörðun er ákvörðun þar sem ekki hefur verið hægt að komast að faglegri niðurstöðu sem allir fagaðilar sem leitað var til gátu skrifað undir. Hún er ákvörðun, þar sem hugsanlega andstæðir pólar í pólitík hafa andstæða skoðun og ekki eru hreinar línur um hvað er rétt.
Breyting á rammaáætlun er pólitísk ákvörðun, þar sem ólíkir faglegir hópar eru ósammála um hina faglegu niðurstöðu. Kárahnjúkavirkjun var pólitísk ákvörðun þar sem ekki var hægt að komast að faglegri ákvörðun sem allir samþykktu. Að veita ekki Snowden hæli hér á landi var pólitísk ákvörðun.
Póltískar ákvarðanir þurfa ekki að vera neikvæðar. Þær geta verið nauðsynlegar og mikilvægar, en þær eru pólitískar, þar sem þeim er ætlað að höggva á faglegan ágreining og mjög oft án málamiðlana. Þær geta verið studdar faglegum rökum, en þá er nánast alltaf mikill ágreiningur um hin faglegu rök.
Marinó G. Njálsson, 6.7.2013 kl. 23:26
Marinó ég var að vísa til þess að það er hægt að velja hæft fólk þó að það sé innan þess ramma að velja á pólitískum forsendum, þ.e. að velja einstaklinga sem eru tilbúinir að starfa eftir pólitískri stefnu. Það er t.d. lágmarkskrafa að stjórnarliðar séu læsir á hagtölur og fjármál.
Ég er ekki að tala um pólitískar niðurstöður sem er frekar loðið hugtak.
Þótt það sé unnið eftir pólitískri stefnu er það engin afsökun fyrir því að velja ekki hæft fólk í stjórnir, embætti eða stöður. Það er engin afsökun fyrir því að hunsa eða skilja ekki skýrslur. Þeir sem hafa ekki vitsmuni til þess að skilja skýrslur eða nenna ekki að lesa þær eiga að snúa sér að öðru.
Margt af því sem fór miður í ÍLS hafði ekkert með pólitíka að gera heldur var bara hreinræktuð spilling.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 23:43
...og sinnuleysi
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 23:44
Svo að ég leyfi mér að vitna í Wikipedia þá er pólitísk spilling skýrð þar sem:
Political corruption is the use of legislated powers by government officials for illegitimate private gain.
...en það er nákvæmlega þetta sem Framsókn hefur gert í miklum mæli og ráðherrar flokksins t.d. Páll Pétursson.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.7.2013 kl. 23:50
Það er líklegast rétt hjá þér, þetta varðandi spillinguna, en mér finnst ekki hafa verið sýnt nægilega fram á hlutina og ég hef hvergi séð að einstaklingar innan ÍLS hafi haft hag af áhættusömum lánum. Of mikið er af upphrópunum og jafnvel bulli. Síðan skoða menn ekki allar hliðar mála heldur bara þær sem henta. Benedikt Sigurðarson er með grein á blogginu sínu, þar sem hann fer yfir nokkur atriði. Hann fellur svo sem í nokkrar sömu gildrur og skýrsluhöfundar, þ.e. er með upphrópanir og staðhæfingar án raka. Áhugaverðast er þó í efni hans umfjöllun um lánin á Austurlandi. Lestu bara hvað hann segir.
En þessi færsla er um rökhugsun og rökleiðslu og reynum að halda okkur við það.
Marinó G. Njálsson, 7.7.2013 kl. 00:00
það voru alls konar framsóknartengs og pólitísk spilling eða allavega atriði sem vekja upp hugleiðingar um pólitíska spillingu.
Þar má nefna eignarhald Finns Ingólfssonar á einum bankanum og lán ÍSL til bankanna sem eru talin vera ólögleg en auk þess mjög hættuleg sjóðnum og ég held að þessi lán hafi ekki verið veitt til þess að uppfylla pólitíska stefnu heldur til þess að auka viðskipti og umsvif einkabanka og þetta vann gegn hagsmunum ÍLS.
Þá eru mál sem tengjast kaupfélagsstjóranum af svipuðum meiði.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.7.2013 kl. 01:19
Því miður held ég ekki að rökhugsun hafi tapast fyrir hrunið, skortur á henni var ein afleiðing fjármálahrunsins.
Til viðbótar ákveðin veruleikafyrring. Verðtrygging er ekki orsök heldur afleiðing af smáum og sveiflukenndum gjaldmiðli. Forsendubresturinn meinti er í raun sú forsenda að örmynntin islensk króna hegði sér sem alvöru myntir en fyrir 3 áratugum þegar "nýkrónan" kom og 2 núll voru skorin af jafngilti 1 dönsk króna 1 íslenskri og núna er gengi dönsku 22 sinnum hærri miðað við Seðlabankagengi og væntanlega meira en 30 sinnum hærri á raungengi. Klárlega þegar menn loksins afnema verðtrygginguna og 40 ára lánin og koma á "lyklalögum" mun minna en 1/3 landsmannaí raun hafa efni á húsnæði og það mun augljóslega valda hruni á húseignum. Það er hvergi í heiminum að ríki hafi garanti á gengi gjaldmiðlisins og á húsnæðisverði, það er lítið annað en óskhyggja.
Ragnar (IP-tala skráð) 7.7.2013 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.