Leita í fréttum mbl.is

Slagur SVÞ við íslenskan landbúnað

Ég er einn af þeim sem skil ekki slag Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) við íslenskan landbúnað.  Þessi slagur gengur út á að bera kostnað neytenda í örsamfélagi saman við kostnað neytenda í milljóna samfélögum. Mér finnst sá samanburður rangur og nær væri að skoðað verð á kjúklingabringum á Borgundarhólmi, norður Jótlandi og í Færeyjum.  En látum það liggja á milli hluta.

Hefur afnám innflutningshafta skilað lægra vöruverði?

Án þess að ég sé einhver talsmaður innflutningshafta, vörugjalda eða tolla, þá tel ég rétt að við veltum fyrir okkur hver ávinningurinn hefur verið af afnámi slíkra innflutningsheftandi aðgerða í gegn um tíðina.

Ég man þá tíð, þegar hér voru framleiddar eldavélar í samkeppni við innflutning.  Mér vitanlega er það ekki gert lengur.  Ég man þá tíð, þegar skór voru framleiddir á Íslandi í samkeppni við innflutning.  Mér vitanlega er það ekki gert lengur.  Ég man þá tíð, þegar á Íslandi var mjög blómleg fataframleiðsla.  Nú fer langmest framleiðsla á íslenskri fatahönnun fram í Kína, meira að segja af "íslenskri" ullarvöru.

Ég veit ekki til, að skóverð sé sambærilegt á Íslandi og í öðrum löndum, þó skóframleiðsla hafi lagst innanlands, þegar tollar og vörugjöld voru afnumin.  Ef eitthvað er, þá er skóverð mun hærra.  Þess vegna kaupa íslenskir neytendur sér nýja skó, þegar þeir ferðast til útlanda.  Sama á við um fatnað.  Ekki kannast ég heldur við að eldavélar séu ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.  Rökin fyrir því að afnám hafta leiði til lægra vöruverðs virðast ekki standast.  Hugsanlega gerðist það tímabundið, en íslenskir neytendur (a.m.k. þeir sem eru á aldri við mig) ættu flestir að hafa áttað sig á því, að verð vöru ræðst ekki af kostnaðarverði eða tollverði.  Það ræðst fyrst og fremst að því hvað seljandi kemst upp með.

Íslenskur fataiðnaður nærri horfinn

Ég er meira og minna alinn upp í íslenskum iðnaði, Prjónastofunni Iðunni hf. á Seltjarnarnesi.  Þegar það fyrirtæki lagði upp laupana vorið 1988, þá töpuðust um 30 störf í íslenskum iðnaði.  30 heimili misstu tekjur.  Ríkissjóður og sveitafélög misstu af skatttekjum 30 einstaklinga.  Vissulega fengu margir af þessu einstaklingum fljótlega störf, en í staðinn fengu aðrir ekki þau störf. 

Ein höfuðástæða fyrir því að fyrirtækið hætti framleiðslu var hrun í innlendri eftirspurn.  Það þótti nefnilega ekki fínt að kaupa íslenskt.  Kaldhæðnin í þessu var að erlend eftirspurn var fín.  Peysurnar fengust í Kaupmannahöfn og London, en ekki á Húsavík eða Akureyri!  Og ef ætlunin var að selja þær "fínni" verslunum Reykjavíkur, þá mátti ekki sjást að þær væru framleiddar á Íslandi.  Eigandi einnar slíkrar verslunar, sagði einu sinni við móður mína, að hún hefði keypt flottustu peysuna sem hún fann í London.  Þegar hún kom inn á hótelið sitt, fór hún að skoða nánar þessa flottu peysu og komst að því, að hún var framleidd á Seltjarnarnesi!

Iðnaðardeild Sambandsins var lögð niður nánast eins og hendi væri veifað.  Mörg hundruð störf glötuðust á Akureyri og stór hluti þeirra fór á atvinnuleysisskrá.  Sama gerðist þegar framleiðsla hinna og þessara iðnhönnunar var flutt úr landi og eldavélaframleiðslunni var hætt.  Það koma ekki önnur störf í staðinn fyrir þau sem eru lögð niður.  Fólkið sem missir vinnuna sækir í störf sem hefðu nýst fólki í atvinnuleit.  Það er því tap fyrir samfélagið, þegar störf eru lögð niður.  Störfunum sem standa undir rekstri samfélagsins fækkar.  Höfum í huga, að hefði þessi starfssemi ekki lagst af á Íslandi, ýmist með því að fyrirtækjunum var lokað, framleiðslunni hætt eða framleiðslan flutt úr landi, þá væru kannski 2-3000 fleiri störf í iðnaði í landinu en raunin er.

Það munar um 2-3000 störf.  Munurinn á því að hafa þau og hafa þau ekki, gæti, svo dæmið sé tekið, birst í 2-3% muni á virðisaukaskatti (án þess að ég hafi reiknað það neitt sérstaklega). 2-3000 manns á atvinnuleysisskrá kosta 340-510 m.kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði.  (Setti hér í fljótfærni "á ári".)

Er SVÞ treystandi?

Einhverra hluta vegna hafa SVÞ ákveðið að taka slaginn um tvær vörur, þ.e. kjúklingakjöt og svínakjöt. En mér segir svo hugur að þetta sé bara fyrsta átakalínan.  Næsta verður um annan innflutning landbúnaðarvöru.  Samtökin ráða því alveg hvar er slegist, en út frá sjónarhorni neytenda, þá væri gott að sjá hvatningu til lækkunar álagningar.  Er það eðlilegt að raftæki kosti 10-40% meira á Íslandi en í Danmörku?  Gilda einhver önnur lögmál um verðlagningu raftækja en kjúklinga- og svínakjöts?

Síðan er það þetta með verðsveiflur úr takt við sveiflur á gengi.  Mér virðist sem allar veikingar á gengi komi strax fram í vöruverði, þó engar vörur hafi verið fluttar inn, en styrkingin lætur bíða eftir sér, þó um sé að ræða vöru sem kemur til landsins oft í viku.

Loks er þetta spurningin um hvort lágt innkaupsverð skili sér í verði til neytenda.  Ég hef séð vörureikning fyrir bæði skóm og buxum, þar sem innkaupsverð var í kringum 50 USD.  Þetta var meðan USD var í kringum 60 kr., þannig að innkaupsverðið var um 3.000 kr.  Og hvað ætli verð vörunnar hafi verið út úr búð? 20-24.000 kr.!  Þetta var 7-8 falt innkaupsverð vörunnar.  Sumar verslanir eru svottan aular að fjarlægja ekki erlendar verðmerkingar af vörunni sem seld er.  Í einni verslun stóð kyrfilega merkt að buxur kostuðu 25 GBP eða tæpar 4.400 kr. á þeim tíma.  Viðkomandi verslun vildi fá 12.200 kr.  Í hillum stórverslana má finna pakkningar þar sem segir að 30% viðbót hafi verið bætt í pakkninguna og viðbótin sé ókeypis.  Ekki man ég eftir einu tilfelli, þar sem það reyndist rétt.  Stundum stóð "litla" pakkningin við hlið þeirrar "stóru" og ekki var annað að sjá, en að rukkað væri fyrir 30% viðbótina fullu verði.  Ef spurt var um hvernig á því stæði, þá komu heldur aumingjaleg svör um að þetta væri bara svona.

Hvað er best fyrir Ísland?

Afleiðingarnar af því að framleiðsla hefur færst úr landi er að færri hafa tekjur af framleiðslunni.  Tekjurnar hafa færst til útlanda og til farmflytjenda.  Fjölbreytnin í störfum hefur kannski ekki minnkað, en úrvalið af fjölbreyttum störfum er ekki eins mikið.

Augljóslega er best fyrir Ísland, að í landinu sé sem fjölbreyttust framleiðsla afurða sem annað hvort eru fluttar úr landi og skapa þannig gjaldeyristekjur eða eru nýttar innanlands og spara þannig gjaldeyrisútgjöld.  Innflutt vara sem er ódýrari en sambærileg innlend framleiðsla, þarf ekki að vera hagkvæmari fyrir þjóðarbúið.  Ástæðurnar eru nokkrar, en tvær eru veigamestar.  Sú fyrri er að innflutt vara setur þrýsting á krónuna til veikingar.  Svo lengi sem ég hef munað eftir hefur of mikill innflutningur líklegast verið helsta ástæða fyrir veikingu krónunnar og leitt af sér gengisfellingar á gengisfellingar ofan.  Hin síðari er hve mikið af vöruverðinu myndast innanlands.  Þetta skiptir miklu máli, þar sem þetta er sá peningur sem verður eftir í hagkerfinu vegna vörunnar.  Þetta er sá peningur sem fer út í veltuna og skapar störfin.  Þetta er loks sá peningur sem ríki og sveitafélög fá tekjur sínar af.  Þannig er auðvelt að færa rök fyrir því að forðast eigi innflutning á vörum sem innanlandsframleiðsla getur annað, þó svo að verð innlendu framleiðslunnar sé eitthvað óhagstæðara en þeirrar innfluttu. 

Þessi þrjú atriðin eiga við um margt fleira en landbúnaðarframleiðslu.  Þau eiga við um allar vörur sem hægt er að framleiða með hagkvæmum hætti hér á landi.  Þau eiga líka við um skipasmíðar svo dæmi sé tekið.  Hvað ætli hefði verið hægt að skapa mörg störf hér á landi, ef varðskipið Þór hefði verið smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri?  Hvað ætli ríkissjóður hefði haft miklar skatttekjur af launum starfsmannanna?  Hvað ætli hefði sparast mikið af verðmætum gjaldeyri?  (Nú veit ég ekkert um það hvort þetta hefði verið mögulegt.)

Mjög auðvelt er að reikna út kostnað fyrir samfélagið af "ódýrum" innflutningi.  Læt ég það þó hagfræðingum eftir.  Hitt veit ég, að 10-15% lækkun á verði einnar vörutegundar (eins og mér sýnist eiga við um kjúklingakjöt) gæti auðveldlega komið í bakið á neytendum í formi hækkunar annarra vörutegunda (vegna veikingar krónunnar) eða vegna hækkunar skatta, t.d. til að mæta kostnaði vegna tapaðra starfa.

Með fullri virðingu fyrir Samtökum verslunar og þjónustu, þá held ég að fólk þar verði að horfa aðeins lengra en á naflann sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef þessum fulltrúum SVÞ er svo umhugað að lækka vöruverðið, sem þeir láta, ættu þeir að líta sér nær.

Allt það verslunarhúsnæði sem er á höfuðborgarsvæðinu myndi sóma sér þokkalega í milljónaborg. Þarna væri hægt að spara verulega fjármuni og með því lækka vöruverðið.

Fáir og stórir aðilar sem hafa tögl og haldir á matvörumarkaðnum leiða til fákeppni. Það má færa rök fyrir því að samkeppni á þeim markaði sé einungis að nafninu til. Þarna gætu stjórnvöld og opinberir eftirlitsaðilar tekið til hendi, ef vilji og kjarkur væri til staðar.

Að það skuli vera haldið opnum verslunum allann sólahringinn er óskyljanlegt. Það var ekki af kröfu neytenda sem opnunartíminn var lengdur í 24 tíma á sólahring, heldur gróðavon verslunareigenda. Það mætti alveg hugsa sér að einhverjar örfáar verslanir hefðu opið örlítið lengur en aðrar, en engin ástæða til að halda neinni verslun opinni allann sólahringinn. Kostnaður við þetta í launum er margfallt meiri en ef opnunartíminn væri einungis að degi til, virka daga. Þann kostnað greiða neytendur og þar sem sama verð er á vörum þessara verslana á nóttu sem degi, eru allir neytendur að greiða þann kostnað, hvort sem þeir nýta sér þennan opnunartíma eða ekki.

Því ættu samtök verslunar og þjónustu að byrja á að taka til í eiginn garði, áður en ráðist er í garð annara. Nægur er skíturinn hjá þeim!

10% lækkun á matarkörfunni lofa SVÞ, bara ef kjúklingabændum og svínabændum verði útrýmt úr landinu. Þessi 10% lækkun byggir á að hingað væri hægt að flytja inn kjúklinga og svínakjöt sem væri 40% ódýrara en hér. Þetta eru sterkar fullyrðingar, þar sem verð á þessum vörum innan þeirra ríkja sem næst okkur liggja innan ESB, er varla svo lágt og í sumum tilfellum hærra en hér. Þá virðast þessir útreikningar byggja á að neysla þessara tveggja vara muni aukast verulega frá því sem nú er, sem aftur mun þrengja enn frekar að þeim bændum sem þessi samtök skilgreina sem hefðbundna bændur. Þessar fullyrðingar eru því verulega hæpnar.

Hitt má fullyrða að auðveldlega mætti lækka matarkörfuna um þessi 10% með því einu að fækka verslunum, virkja samkeppnina og stytta opnunartíma verslana!

Gunnar Heiðarsson, 20.5.2013 kl. 03:12

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Nákvæmlega rétt greining hjá þér Marínó, eins og svo oft áður. Þetta tal þeirra hjá SVÞ er ekki af umhyggju fyrir íslenskum neytendum heldur af ást þeirra á eigin buddu.  En það eru svo óskaplega margir, sem gera engan greinarmun á verðmætaskapandi framleiðslugreinum og því hvort menn eru  bara allir í því að ,,klippa hver annan".  

Þórir Kjartansson, 20.5.2013 kl. 09:28

3 Smámynd: Reynir Ragnarsson

Tek heilshugar undir þær skoðanir sem hér hafa birst. Get bætt við að fyrir allmörgum árum var fóðurbætir orðinn mjög dýr. Bændur fóru þá að  framleiða grasköggla og fóðurköggla og spara með því fóðurbætisgjöf.  Þegar innflutningsfyrirtæki sáu að þeir voru komnir í samkeppnisaðstöðu var allt í einu hægt að lækka verulega verð á innfluttum fóðurbæti svo og tilbúnum áburði. Núna er búið að drepa niður báðar þessar framleiðslugreinar í landinu og verð á áburði og fóðurbætir komið í hæstu hæðir. Var að kaupa hér 40 kg poka af túnáburði á 7000 kr eða 175 kr. kílóið án vsk. Varð hugsað til bænda sem margir þurfa að kaupa tugi tonna af tilbúnum áburði

Reynir Ragnarsson, 20.5.2013 kl. 12:22

4 identicon

Takk fyrir fróðlegan pistil.  Þessi krafa sem hinir og þessir setja fram í nafni neytenda um sífellt lægra vöruverð finnst mér oft á tíðum sett fram af skammsýni.  Nú eru fluttar eru inn vörur frá löndum þar sem vinnulaun eru nokkrar krónur á mánuði og starfsskilyrði allsendis óviðunandi.  Er það hlutur sem við erum stolt af?  Þá er enn fremur ekki verið að huga að umhverfisáhrifum við að flytja varning um hálfan hnöttinn sem framleiða mætti hér heima á sjálfbæran hátt.  Vill fólk að við endum eins og lýðurinn í Róm sem heimtaði meira korn en framleiddi ekki neitt sjálfur?  Athugasemd: 2000-3000 manns á atvinnuleysisskrá kosta væntanlega milljarða króna á ári en ekki nokkur hundruð m.kr.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 20.5.2013 kl. 13:24

5 identicon

Það er ótrúlegt að annars gott og greint fólk tapar eiginlega allri skynsemi þegar kemur að íslenskum landbúnaði og missir sig í einhverju ótrúlegu sveitarrómantíkurrunki og hættir að gera greinarmun á góðum rökum og slæmum.

Í grunninn er þetta ósköð einfalt. ÖLLUM landsmönnum er haldið í gíslingu innflutningshafta og sóun á skattfé í formi niðurgreiðslna til að vernda störf þar sem framleiðsluverðmætið er bara helmingur á við það sem aðrir íslendingar framleiða.

M.ö.o...ef við öll snerum við blaðinu og gerðumst bændur þá myndi landsframleiðsla Íslands vera helmingur á við það sem hún er í dag. Að sama skapi..ef við færum fólk úr þessari framleiðslugrein í einhverja aðra EYKST landsframleiðslan. Og það þarf ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi...sóunin á peningum og framleiðslukröftum sem á sér stað í íslenskum landbúnaði eyðir störfum en skapar þau ekki. Hún eyðir gjaldeyri en sparar hann ekki því kröftunum er hægt að beina í aðrar gjaldeyrisskapandi greinar.

Þau rök að íslenskur landbúnaður sé svo mikilvægur vegna atvinnu bænda eru svona svipuð þeim að það þurfi að vernda sjúkdóma til að passa uppá störf lækna og hjúkrunarfólks.

"Verðmætaskapandi framleiðslugreinar" eru þær sem geta staðið á eigin fótum en þurfa ekki bæði belti og axlabönd til þess að lifa og millifærslur frá þeim atvinnugreinum sem raunverulega skapa verðmæti. Peningunum er betur veitt í þær áttir sem skapa meiri arð.

Íslenskur landbúnaður er verðmætaeyðandi atvinnugrein því fórnarkostnaðurinn við framleiðsluna er meiri en framleiðsluvirði hennar...

Það verður gaman að lesa kommentin núna þegar þið missið ykkur í vandlætingunni. Munið bara að sannleikanum verður hver....

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 20.5.2013 kl. 14:03

6 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Þakka þér fyrir þessa góðu greiningu Marinó. Svona nákvæmlega eins og ég hef verið að hugsa þetta.  Það þarf að skapa fullt af störfum á Íslandi.

Þessi fer beint í Bókamerkið mitt þar sem ótal greinar og færzlur eru komnar inn.

Guðni Karl Harðarson, 20.5.2013 kl. 14:10

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek algjörlega undir þetta Marínó og ykkur öllum.  Hér þarf að stinga niður fæti og fara ofan í saumana á þessum samtökum frekar en hlusta á bullið í þeim.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.5.2013 kl. 14:22

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús Birgisson, ég held að þú sért að misskilja þetta innlegg herfilega.  Það snýst ekki um landbúnað.  Hún fjallar um árangur af afnámi hafta, hvers vegna við eigum að stíga hægt til jarðar í þessu máli og síðast en ekki síst hvað er gott fyrir íslenskt þjóðfélag í þeirri stöðu það sem er í.

En viljir þú ræða um kostnað af landbúnaði og niðurgreiðslur, þá má búast við að styrkir til landbúnaðar myndu hækka við inngöngu í ESB.  Þar á bæ átta menn sig nefnilega á, að landbúnaður fyrir norðan 60. breiddargráðu býr við önnur skilyrði en sá sem er sunnar.  Annað sem ætti að skipta miklu máli, er að nær allar innfluttar landbúnaðarvörur eru niðurgreiddar í útflutningslöndunum.  Ef ekki væri fyrir þessar niðurgreiðslur þar, þá hefði enginn neytandi á Íslandi efni á að kaupa þær.  Ef þær eru ekki niðurgreiddar, þá eru þær framleiddar af alþjóðlegum auðhringum sem sérhæfa sig í því að komast hjá skattgreiðslum.  Þriðja atriðið er, að niðurgreiðslur/beingreiðslur til landbúnaðar á Íslandi hófst á sínum tíma til að koma í staðinn fyrir launahækkanir.  Enn þá er það helsti tilgangurinn með þessum greiðslum.  Tökum þessa 11 milljarða sem fara í greiðslur til landbúnaðarins.  Sé þeim sleppt, þá hækkar verð frá bændum um 11 milljarða kr.  Vinnsluaðilinn myndi því þurfa viðbótarálagningu, sem ég gef mér að sé aðrir 11 milljarðar.  Síðan kemur að smásalanum og hann þarf líka viðbótar 11 milljarða.  Ofan á þessa 33 milljarða bætist síðan 7% virðisaukaskattur, þannig að hækkun vöruverðsins er 35,3 milljarðar króna.   Neytandinn hann fær á móti 11 milljarða skattalækkun, en þarf að fá kauphækkun upp á afganginn, þ.e. 24,3 ma.kr.  Til að fá 24,3 ma.kr. útborgað, þá þarf líklegast að hækka laun um 40 ma.kr., ef ekki meira.  Og hvert fer þessi 40.ma.kr. hækkun launa?  Jú, beint út í verðlagið.

Öfugt við það sem margir halda fram, þá er það mín skoðun að beingreiðslur til landbúnaðar sé ákaflega góð aðferð til að draga úr kostnaði heimilanna.  Hægt væri aðauka kaupmátt almennings með því að auka þessar beingreiðslur.

Svo vil ég taka fram, að vilji menn fara þá leið að afnema þessar beingreiðslur, þá þarf að gera líkt við innfluttar, niðurgreiddar vörur, þ.e. þær verður að flytja inn á óstyrktu verði.  Er ég ekki viss um að neytendur myndu taka því fagnandi.  Nánast allar landbúnaðarafurðir innan ESB og USA eru niðurgreiddar um allt að 90%.  Jafnvel rauðvín, sem hér fást í búðum, eru niðurgreidd eða framleiðendur fá framleiðslustyrki með framleiðslu sinni.

Ég held að þegar menn skoða alla þá styrki sem veittir eru til landbúnaðarframleiðslu í vestrænum löndum, þá komi nú í ljós, að beingreiðslur til íslenskra bænda eru hóflegar.  Þegar menn skoða síðan hvað þessar beingreiðslur spara atvinnulífinu, þá held ég að flestir komist að þeirri niðurstöðu að afnám þeirra væri hrein geggjun.

Marinó G. Njálsson, 20.5.2013 kl. 16:12

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

En, Magnús, færsla mín var um allt annað en landbúnað.  Það vill bara svo til að umræðan snerist um kjúklinga- og svínakjöt.  Tek það fram að ég tel verksmiðjubúin, þar sem sú framleiðsla fer fram, vera á mörkum þess að teljast landbúnaður.  Þau gera það hins vegar samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.

Nei, færslan var um reynslu okkar af því að drepa íslenska framleiðslu í nafni þess að allt sé betra sem komi frá útlöndum, vegna þess að þá geti aðilar innan SVÞ (heildsalar/innflytjendur) stjórnað verðlagningunni (eins og dæmin að ofan sýna).  Og menn ganga langt í að stjórna verðlagningunni.  Hér gilda nefnilega ekki lögmmálin um framboð og eftirspurn.  Ef ekki er næg eftirspurn eftir vörunni og rýma þarf fyrir nýrri vöru, þá væri í flestum löndum farin sú leið að lækka verðið á gömlu vörunni í formi tilboða eða setja hana á útsölu.  Margir kaupmenn gera það, en aðrir ýmist endursenda vöruna með miklum afföllum eða hreinlega keyra hana á haugana.  Dæmi er um að eðalfínn varningur er sendur í brotajárn, endurvinnslustöð eða sorpbrennslur í staðinn fyrir að lækka álagningu og þar með verðið þannig að fleiri hafi efni á að kaupa vöruna.

Marinó G. Njálsson, 20.5.2013 kl. 16:26

10 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Góð greining hjá þér að vanda Marinó og óður til íslenskrar framleiðslu. 

Jón Baldur Lorange, 20.5.2013 kl. 17:26

11 identicon

Mjög góð greining og þörf umræða sem þarf að fara fram...sérstaklega um þessar mundir þegar gjaldeyris er þörf sem aldrei fyrr..  Við þurfum virkilega á því að halda að sem mest sé framleitt innanlands og tækifærin eru svo sannarlega til staðar.  vona að heilbrigð umræða fari af stað um þessa hluti og allir fletir skoðaðir til enda eins og Marínó hvetur til.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.5.2013 kl. 21:30

12 identicon

Marínó

Það eru góðar ástæður fyrir því að við Íslendingar höfum séð eftir ákveðnum atvinnutækifærum á Íslandi á síðustu áratugum

Þetta á við um prjónastofur, skóframleiðslu, eldavélaframleiðslu, skipasmíðar, teppaframleiðslu, sementframleiðslu, álpönnuframleiðslu og svo mætti lengi telja.

Fyrirtæki í þessum greinum hafa lagt upp laupanna og hætt starfsemi.

Ástæðan er sú að í þessum atvinnugreinum hefur okkur ekki tekist að byggja "hlutfallslega yfirburði" miðað við aðrar þjóðir. Okkur hefur einfaldlega ekki tekist að virðisauka þessar framleiðslur með nýjungum, vörumerkjum og markaðssetningu, stærðarhagkvæmni, kunnáttu eða öðru. Lífsmarkið hefur smámsaman fjarað út úr þessum fyrirtækjum.

Lögmálið um hlutfallslega yfirburði var fyrst sett í samhengi af David Ricardo 1817 í "Principles of Political Economy and Taxation"

Frægasta dæmi Ricardo er um Portúgal og England:

"I Portúgal er hægt að framleiða bæði vín og föt ódýrara og með minna vinnuafli en hægt er að gera í Englandi. Samt er hlutfallslegur kostnaður af framleiðslu þessara vara mismunandi í löndunum. Í Englandi er erfitt að framleiða vín, en aðeins auðveldari að framleiða föt. Í Portúgal er auðvelt að framleiða bæði. Þó að það sé ódýrara að framleiða föt í Portúgal en Englandi, er betra fyrir Portúgal að framleiða ofgnótt víns, og versla fyrir það föt frá Englandi. England hagnast einnig á þessari verslun vegna þess að kostnaður þeirra við fataframleiðslu hefur ekki aukist en þeir geta nú fengið vín ódýrara, og nær kostnaði þess að framleiða föt. Þetta er ástæðan fyrir því að hvert land hagnast á því að framleiða þær vörur þar sem þeir hafa hlutfallslega yfirburði og versla þær fyrir aðrar vörur."

Þetta er einfalt en samt flókið.

Þegar við skiljum þetta lögmál er auðveldara að taka ákvarðanir um að vernda ekki atvinnugreinar þar sem við höfum enga "hlutfallslega yfirburði" og snúa okkur að þeim atvinnugreinum þar sem við höfum þá eða getum búið þá til. Þetta á við um sjávarútveg, orkuframleiðslu, hugmyndaiðnaði (Össur, Marel, CCP, Marorka) og margt sem okkur hefur enn ekki dottið í hug. Í framtíðinni gæti þetta líka átt við íslenskan landbúnað, en gerir það því miður ekki ídag. Íslensk matvælaframleiðsla á öðrum sviðum en fiski gæti átt sér mikla framtíð. En það krefst sérhæfingar og þróunarvinnu.

Við komumst ekkert áfram með því að loka landið og ofvernda iðnaðinn með tollum og vörugjöldum. Þetta verður gert með því að markvisst auka samkeppni, með menntun, með langtíma og fyrirsjánlegum breytingum á styrkjakerfum, nýjungum og markaðsstarfi og jákvæðu hugarfari.

Ég sé alveg fyrir mér að Prjónastofan Iðunn væri til ídag og dafnaði sem sterkt útflutningsfyrirtæki með stórkostlega íslenska hönnun, í eigin buðum og framleitt út um allan heim. Er líklegra að sá draumur hefði getað ræst ef við hefðum verndað fyrirtækið með 40% tolli á innfluttum prjónapeysum 1988? Ég held ekki. Kannski væri fyrirtækið til, en við hefðum öll verið í fokdýrum peysum síðustu 25 árin hvort sem þær væru íslenskar eða útlenskar.

Þríhöfði (IP-tala skráð) 21.5.2013 kl. 10:29

13 identicon

og íslensku rennilásarnir hurfu

Guðríður M (IP-tala skráð) 21.5.2013 kl. 10:44

14 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það er náttúrulega hjákátlegt fyrir SVÞ að mjálma yfir verslunarferðum landans til Boston eða annara staða, þar sem þú færð alltaf 2 fyrir 1 og jafnvel 3 fyrir einn, alveg burt séð frá um hvaða vöru er að ræða.

Þetta er það sem Marínó er að benda á og hann eins og ég er þeirrar skoðunar að þetta breytist ekki fyrr en búið er að hagræða verulega í rekstri þessara fyrirtækja, þá með fækkun og sérhæfingu.

Afnám tolla og vörugjalda mun ekki skila sér í buddu neytenda, það er gömul saga og ný. 

Sindri Karl Sigurðsson, 21.5.2013 kl. 10:58

15 identicon

Þetta voru gagnleg orð.

En ef innflutningur landbúnaðarvara verði gefin frjáls , dettur einhverjum í hug að það

verði flutt til landsins einhver hágæða matvæli?

Ekki aldeilis í stað þess munu aðilar kappkosta að finna í Asíu ódýran og jafnvel

etitraðan óþverra til að gæða okkur á og til að geta hámarkað gróða sinn.

Þessu liði er ekki treystandi frekar en fjárglæframönnunum.

Með kveðu PLG

Páll Kaj Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 08:02

16 Smámynd: Sigurður Antonsson

Mjúku Gefjunarkápurnar úr sútuðu lampaskinnunum áttu sitt tímabil. Frábærar flíkur fyrir íslenska veðráttu. Ef hönnun og traust verðlag færi saman væri þessi framleiðsla enn á Íslandi. Ítalskir hönnuðir og framleiðendur hafa náð nýjum hæðum í þessari framleiðslu. Hef líka séð fallega íslenska framleiðslu þar sem flíkin kostar á milli 2oo til 400 þúsund.

Sveiflur á gengi hafa flýtt fyrir niðurbroti iðnaðar. Áburðarverksmiðjan er dæmigerð. Vöntun á metnaði, framleiðslunýjungum og trú á eigin afurðum hefur flýtt fyrir og skapað höft eins og nú eru á gjaldmiðli.

Sigurður Antonsson, 25.5.2013 kl. 21:23

17 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Þríhöfði og Magnús, "Að sama skapi..ef við færum fólk úr þessari framleiðslugrein í einhverja aðra EYKST landsframleiðslan" Magnús ef við færðum bændur úr þeim störfum og "eitthvað annað" væri þetta eitthvað annað væri það yfir í atvinnuleysi, og atvinnuleysi skapar ekkert, heldur kostar og það miklu meira en flestir myndu óra fyrir. Í Raun svo mikið að ef okkur tækist að koma öðrum hverjum atvinnuleysingjanum í að gerast bændur væri búið að loka fjárlagagatinu í ríkisrekstrinum og borga fyrir megnið af skattalækkunarloforðum XB og XD án niðurskurðar.

"og margt sem okkur hefur enn ekki dottið í hug." Þríhöfði, þannig að lausnin við að auka framleiðni er þá að þrefalda atvinnuleysið? Og hvernig virkar það?

"Við komumst ekkert áfram með því að loka landið og ofvernda iðnaðinn með tollum og vörugjöldum. Þetta verður gert með því að markvisst auka samkeppni," Atvinnuleysi kemur okkur ekkert áfram heldur frekar skapar hringekju dauðans fyrir atvinnulífið, verstu nokkuð hvernig við borgum fyrir atvinnuleysið og Ríkisstarfsmenn?

Brynjar Þór Guðmundsson, 26.5.2013 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband