Leita í fréttum mbl.is

Áhyggjur af stöðu Landsbankans

Ég verð að viðurkenna, að ég tek undir áhyggjur ýmissa manna af stöðu Landsbankans.  Og í staðinn fyrir að þegja um áhyggjur mínar, eins og maður gerði fyrir hrun, þá vil ég koma þeim á framfæri og styðja þannig við málflutning þessara mætu manna í þá veru.  Vonandi hef ég rangt fyrir mér og áhyggjurnar eru að ástæðulausu. 

Áhyggjurnar koma m.a. frá því að hafa lesið ársskýrslu og ársreikning bankans fyrir 2012, sem finna má á vef hans, og síðan tölur úr nokkrum eldri ársreikningum.  Ekki síður af upplýsingum sem ég hef viðað að mér og/eða birst hafa opinberlega um stöðu bankans, í ræðu og riti.  Þær beinast að getu hans til að standa við skuldbindingar sínar og þá aðallega í formi tveggja skuldabréfa til gamla bankans.  Annað er kallað í efnahagsreikningi bankans veðtryggð skuldabréf og stóð um áramót í 221,8 milljörðum króna og hitt kallast skilyrt skuldabréf og stóð um áramót í 87,5 milljörðum króna, en mun núna vera upp á 92 milljarða króna.  Samtals gerir þetta 313,8 milljarða króna að frádregnu því sem bankinn kann að hafa greitt á árinu.  Þetta þarf Landsbankinn að greiða upp á næstu 5 árum, um 18 milljarða kr. 2014, 62 ma.kr. árið 2015 og 77 ma.kr. árlega fyrir 2016, 2017 og 2018.

Til að standa undir greiðslum á þessum bréfum hefur bankinn afborganir viðskiptavina af lánum, sölu eigna, lausafjáreignir og síðan hagnað bankans.  Á móti kemur að bankinn er með aðrar skuldir sem hann gæti þurft að standa skil á, þ.m.t. innlán viðskiptavina.

Afkomutölur Landsbankans

Í VI. kafla ársskýrslu fyrir 2012 eru birtar ýmsar áhugaverðar tölur um afkomu bankans fyrir 2012 og 2011.  Þessar tölur segja heilmikið um möguleika bankans á að standa undir skuldbindingum sínum.  Langar mig að tína til þær sem mér finnst markverðastar.

Kennitölur

2012

2011

Hagnaður eftir skatta

25,5 ma.kr.

17,0 ma.kr.

Hreinar rekstrartekjur

49,1 ma.kr.

30,7 ma.kr.

Hreinar vaxtatekjur

35.6 ma.kr.

32,6 ma.kr.

Eiginfjárhlutfall (CAR)

25,1%

21,4%

Útlán í hlutfalli við innlán

158,2%

144,1%

Útlán til viðskiptavina

666,1 ma.kr.

639,1 ma.kr.

Lausafjáreignir

249,0 ma.kr.

240,1 ma.kr.

Veðtryggð skuldabréf

221,8 ma.kr.

277,1 ma.kr.

Skilyrt skuldabréf

87,5 ma.kr.

60,8 ma.kr.

Innlán viðskiptavina

421,1 ma.kr.

443,6 ma.kr.

-          Þar af bundin

111,0 ma.kr.

98,6 ma.kr.

-          Þar af óbundin

310,1 ma.kr.

345,0 ma.kr.

Eigið fé

225,2 ma.kr.

200,2 ma.kr.

Eiginfjárhlutfall

25,1%

21,4%

Samkvæmt skilmálum skuldabréfa við gamla bankann skal byrja að greiða af skilyrta skuldabréfinu strax á næsta ári og eru árlegar greiðslur um 18 ma.kr. á ári í 5 ár auk vaxta, alls 92 ma.kr. + vexti.  Af hinu bréfinu er byrjað að greiða 2015 og þarf þá að greiða um 44 ma.kr. auk vaxta, en um 59 milljarða auk vaxta á ári næstu þrjú ár á eftir eða alls 221,8 ma.kr. + vexti (stóð í 206,5 ma.kr. í lok 1. ársfj. 2013).  Samtals er greiðslubyrði Landsbankans vegna þessara skulda við gamla bankann því 313,8 ma.kr. + vextir á þessum fimm árum.  Á móti þessu á Landsbankinn lausafjáreignir upp á 249 ma.kr., afborganir viðskiptavina af útlánum og síðan rekstrarhagnað hvers árs fyrir sig.  Málið er að þessi peningur þarf einnig að duga fyrir úttektum viðskiptavina af innlánsreikningum og því getur Landsbankinn ekki gengið að fullu á þetta fé til að greiða gamla bankanum.  Það sem verra er, að hagnaður bankans síðustu fjögur ár er ekki byggður á flæði peninga inn í bankann heldur allt öðru.  (Tekið skal fram að Landsbankinn greiddi inn á veðtryggða bréfið á síðasta ári "að jafnvirði rúmlega 72 milljörðum króna", eins og segir í nýjustu ársskýrslu bankans.)

Hagnaður Landsbankans 2009-2012

Ástæðan fyrir áhyggjum mínum af afkomu Landsbankans koma best fram, þegar skoðaðar eru valdar tölu úr ársreikningi bankans fyrir árin 2009 til 2012.  Koma þær fram í töflunni fyrir neðan og eru allar í milljörðum króna.

Liður

2009

2010

2011

2012

Alls

Hreinar vaxtatekjur

14,6

24,7

32,7

35,6

107,6

Virðisbreyting útlána

23,8

49,7

58,5

37,3

169,3

Tap af gengistr. og kröfum á viðskiptavini

0

-18,2

-40,7

-2,1

-61,0

Virðisrýrnun útlána og krafna

-6,6

-14,6

-7,0

-12,3

-40,5

Gangvirðisbreyting skilyrts skuldabréfs

-10,2

-16,3

-34,3

-27,3

-88,1

Hagnaður ársins

14,3

27,2

17,0

25,5

84,0

Hér verður að hafa nokkra hluti í huga:

  • virðisbreyting útlána getur ekki aukist á jákvæðan hátt mikið meira en orðið er (lækka um ríflega helming milil 1. ársfjórðungs 2012 og 2013);
  • gangvirðisbreyting skilyrta skuldabréfsins er að mestu um garð gengin, þ.e. 4 ma.kr. bættust við á þessu ári og síðan ekki sögunni meir;
  • virðisrýrnun útlána og krafna mun halda áfram, þar til endurskipulagningu skulda er lokið;
  • tap af gengistryggingu og kröfum á viðskiptavini er ekki loki, t.d. er greint frá því í ársskýrslu bankans, að gert sé ráð fyrir 12,5 ma.kr. tapi af útlánum einstaklinga vegna dóma sem gengu á síðasta ári, en af þeirri upphæð er bara búið að gjaldfæra 2,1 ma.kr. og alveg á eftir að taka tillit til taps vegna útlána til fyrirtækja.

Ef þetta er allt tekið saman, þá lækkar tekjuhliðin verulega, þar sem lán verða ekki virðisbreytt mikið frekar upp á við, á móti dettur út á gjaldahliðinni frekari kostnaður vegna hækkunar höfuðstóls skilyrta skuldabréfsins (í staðinn koma vextir af bréfinu, en þeir eru mun lægri).  Ef tölur síðustu fjögurra ára eru notuð til að sýna áhrifin, þá falla því út tekjur upp á 169 ma.kr. og gjöld upp á 88 ma.kr.  Mismunurinn er 81 ma.kr. sem tekjur lækka umfram gjöld, en sú tala er nánast samanlagður hagnaður áranna.  Vissulega yrðu skattgreiðslur lægri, en mergur málsins er að bankinn gæti hæglega lent í því að vera í mínus eitt eða fleiri af næstu árum.  Hann hefði mjög líklega lent í mínus fyrir síðasta ár, ef menn hefðu ekki ákveðið að bíða eftir fleiri dómum frá Hæstarétti vegna gengistryggðra lána og virðisaukning verið þó ekki nema helmingur þess sem hún var.

Aðrir þættir

Þá komum við að öðrum þáttum. 

Eigið fé:  Eigið fé bankans er 225 ma.kr. og hefur hækkað um 82 ma.kr. frá árslokum 2008.  Þessi hækkun eiginfjár er byggð á virðisaukningu á bókfærðu verði lána sem fengin voru með miklum afslætti.  Höfum í huga að dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hefðu haft neikvæð áhrif á efnahag bankans, hvort heldur menn hefðu getað beitt þessum reiknikúnstum að hækka virði lánanna eða ekki. Framtíðarþróun eiginfjár bankans mun því vera í óvissu út af fleiri neikvæðum dómum fyrir bankann og hvernig honum tekst að vinna úr vanskilum lántaka, en þau eru ennþá umtalsverð.

Staða útlána:  Samkvæmt ársreikningi námu útlán bankans til viðskiptavina um síðustu áramót 666,1 ma.kr. og höfðu hækkað um tæpa 47 ma.kr. frá árinu á undan.  Það sem meira er að þau höfðu aðeins hækkað um rúma 10 ma.kr. frá þeirri tölu sem bókfærð var við stofnun bankans.  Skoðum þetta nánar.  Í stofnefnahagsreikningi voru lán bókfærð á 655,7 ma.kr.  Í árslok 2008 var þessi tala komin upp í 705,2 ma.kr.  Frá 1.1.2009 hafa útlán verið virðismetin til hækkunar um 169,3 ma.kr., lækkuð vegna gengisdóma og fleira um 61 ma.kr. og lækkuð vegna virðisrýrnunar um 40,5 ma.kr.  Án þessara breytinga stæðu útlánasöfn Landsbankans í 637,4 ma.kr. eða um 5% undir núverandi stöðu.  Vissulega hafa viðskiptavinir greitt af lánum sínum, en ný útlán hafa, leyfi ég mér að fullyrða, alltaf frá stofnun Landsbanka Íslands vegið þyngra en afborganir eldri lána.  Þetta er augljóst hættumerki fyrir Landsbankann.  Bankinn er ekki að koma peningunum sínum í vinnu!  Rétt er að benda á, að um helmingur útlána Landsbankans er settur að veði gegn greiðslu skulda við gamla bankann eða 319 ma. kr. af 666 ma.kr. eins og staðan var í 31.3.2013.

Sala eigna:  Hér er enn einn liðurinn sem gæti fært bankanum tekjur.  Mikið hefur gengið á seljanlegar eignir bankans, en þó er hlutur hans í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum eftir. Þó bókfært verð hlutar Landsbankans í þessum félögum sé aðeins um 15,5 ma.kr., þá má búast við að meira fáist fyrir þau, þurfi bankinn að selja.

Lausafjáreignir: Um áramót voru lausafjáreignir Landsbankans 249,0 ma.kr.  Á móti lausafjáreignum þarf að skoða stöðu innlána og hlutfall milli innlána og grunnlausfjár.  Þetta hlutfall er gott og veitir bankanum því nokkuð svigrúm. Það þýðir samt ekki að hægt sé að ganga ótæpilega á lausafjáreignir til að mæta afborgunum.

Kalt stöðumat

Nokkrir aðilar hafa stigið fram og fullyrt að greiðsluhæfi Landsbankans gæti verið skert.  Einhverjir ganga svo langt að segja bankann vera hreinlega gjaldþrota.  Mín skoðun er að bankinn þurfi að minnsta kosti að endursemja um skuldir sínar við gamla bankann eða að endurfjármagna þær.  Ekki veit ég hvort bankanum standi til boða endurfjármögnun upp á um 300 milljarða króna.  Eins og staða á millibankamörkuðum er, þá væri það ekki auðvelt.  Leið bankans væri því að endursemja um skuldabréfin við gamla bankann.

Einhver mun spyrja hvort bankinn geti ekki notað afborganir viðskiptavina til að greiða upp þessi lán.  Eins og áður segir eru afborganir áranna 2014-2018 um 313 ma.kr. auk vaxta.  Þetta er 47% af útlánum bankans til viðskiptavina miðað við stöðu um áramót.

Líklegast þarf bankinn að fara blandaða leið til að standa undir afborgunum af skuldabréfum gamla bankans.  Treysta á afborganir lána viðskiptavina, ganga á lausafjáreignir, selja eignir sem bankinn getur losnað við, selja frá sér einhver hlutdeildarfélög/dótturfélög, endurfjármagna sig á markaði og síðast en ekki síst endursemja um skuldina við gamla bankann með niðurfellingu hluta þeirra í huga. 

Skuldabréfið við gamla bankann mistök

Ljóst er að einhver mistök voru gerð, þegar samið var um bæði veðtryggðra skuldabréfið og skilyrta skuldabréfið. Hvort menn áttuðu sig ekki á hve háar afborganirnar yrðu þessi fimm ár, 2014-2018, áttu von á annarri og betri stöðu lántaka, meðtóku ekki ábendingar um hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána eða voru einfaldlega bjartsýnni um endurreisn íslensks efnahagslífs, veit ég ekki.  Mér finnst aftur nokkuð bratt að ætla bankanum að greiða til baka allt að 40% af andvirði eigna í stofnaefnahagsreikningi til gamla bankans á fyrstu 10 árum frá stofnun bankans.  Þó svo að menn hafi ætlað bankanum tekjur í gegn um mikla afslætti af lánasöfnum, þá benda allar tölur til þess, að lítil sem engin innistæða hafi verið fyrir slíku.  Ef eitthvað er, þá virðist gæði yfirtekinna lánasafna jafnvel hafa verið lakari, en gert var ráð fyrir í mati Deloitte og afslátturinn verið minni en þörf hefði verið á.  Skiptir þar mestu áhrif af dómum vegna gengistryggðra lána og að froðan í íslensku viðskiptalífi var einfaldlega mun meiri en menn höfðu gert sér í hugarlund.

Fyrir þjóðarbúið eru skuldir Landsbankans við gamla bankann síðan grafalvarlegar.  Útilokað er að tiltækur verði nægur gjaldeyri á markaði sem stendur nýja bankanum til boða nema að aðrir kaupendur gjaldeyris verði sveltir.  Slíkt getur ekki leitt til neins annars en gegndarlauss kapphlaups um allan lausan erlendan gjaldeyri sem ætti að hafa verulega veikingu krónunnar í för með sér.  Staðan í dag er einfaldlega sú, að þjóðarbúið býr ekki til nægar erlendar tekjur til að standa undir greiðslu þessara skuldabréfa, þó svo að Landsbankanum gæti tekist að öngla fyrir aurnum úr rekstri sínum.

Skuldabréf nýja Landsbankans við þann gamla er enn ein snjóhengjan sem þarf að losa um án tjóns fyrir þjóðarbúið.  Hana verður að leysa á sama hátt og hinar með því að kröfuhafinn, LBI hf. (gamli Landsbanki Íslands), þarf að gefa eftir hluta kröfunnar eða sætta sig við að hún verði ekki til útgreiðslu fyrr en eftir nokkur ár og þá verði hún greidd til baka á mun lengri tíma en gert var ráð fyrir.  Að mönnum hafi síðan dottið í hug að bæta við þessa snjóhengju skilyrta skuldabréfinu er mér síðan gjörsamlega óskiljanlegt.  Skrifaði ég m.a. athugasemd um þetta við facebook færslu hjá Friðriki Jónssyni hin 11. apríl þar sem ég segi um þetta:  "..verið að tilkynna að Landsbankinn ætlar að borga gömlu kennitölunni sinni og nafna meira af gjaldeyri sem ekki er til í landinu..".

Lokaorð

Skuldir Landsbankans við gamla bankann eru þungur baggi hvernig sem á það er litið.  Þær eru þungur baggi á bankann, þar sem afkomutölur og efnahagur benda ekki til þess að hann hafi greiðslugetu til að standa undir skuldunum nema ganga verulega á eignir sínar og skerða þar með rekstrarhæfi bankans.  Þær eru þungur baggi á gjaldeyrisforða landsins. Meðan erlendar skuldir þjóðarbúsins eru því óviðráðanlegar, þá bætir ekki stöðuna að útistandandi eru að hluta til gjörsamlega fáránlegar skuldir Landsbankans við þrotabú gamla bankans.  Þær eru þungur baggi á hóp lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem gjalda fyrir það að egnt hafi verið með gullrót fyrir framan starfsmenn í þeirri von að hægt væri innheimta hlutfallslega meira af þessu fyrirtækjum en stóru fyrirtækjunum og vildarvinunum. Höfum í huga að Landsbankinn tók yfir útlán að nafnverði 1.240 ma.kr. frá gamla bankanum.  Þessi lán voru færð niður um 585 ma.kr.  Að það skuli koma í hlut lítilla og meðalstórra fyrirtækja að greiða fyrir skilyrta skuldabréfið, en ekki þeirra stærri, er í raun stórmerkileg aðferðafræði, því ljóst er að stærsti hluti niðurfærslunnar er vegna þeirra stóru.

(Tekið skal fram að þessi færsla er búin að vera lengi í ritun og er því ekki viðbrögð við nýju fréttum frá bankanum.  Þær breyta heldur ekki þeim viðhorfum sem koma fram í henni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Getur verið að stjórn Landsbankans sé að brjóta lög um Hlutafélög, lög nr. 2/1995 og þá sérstaklega 76.gr. þegar verið er að afhenda starfsfólki bankans 2% í bankanum, að verðmæti ca. 4.7 miljarðar,því í 76.gr. segir að félagsstjórn megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annara hluthafa, svo sannarlega er nýi Landbankinn ríkisbanki og hluthafar ca. 330 þúsund.

Björn Sig. (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 18:36

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, það held ég ekki, þar sem það er fyrrverandi eigandi bréfanna, þ.e. þrotabú gamla bankans, sem bjó til þennan (að mínu mati ótilhlýðilega) gerning.

Marinó G. Njálsson, 25.5.2013 kl. 19:14

3 Smámynd: Benedikt Helgason

Það eru nokkrir hlutir í þessu eins og ég skil þetta.

1) Þú ert í raun að segja að bankinn geti auðveldlega komist í þá stöðu að eiga ekki fyrir skuldum sínum og gildir þá einu í hvað gjaldmiðli hann þarf að greiða þær.

2) Ég sé ekki að það sé neitt sem réttlætir að skuldabréfin hafi verið gefin út í erlendri mynt. Til þess að réttlæta slíka ráðstöfun þá hefði bankinn þurft að taka við hreinum erlendum lánasöfnum þar sem lántakarnir eru skyldugir til þess að greiða af lánunum með gjaldeyri.  Í því samhengi þá skiptir engu máli hvort gengistryggð krónulán eru lögleg eða ekki því lántökum þeirra ber ekki skylda til þess að greiða af þeim með gjaldeyri.

3) Gleymum því svo ekki að þegar gengið var frá þessu kom tilkynning frá fjármálaráðuneytinu um að með þessu mixi hefði nýji Landsbankinn náð að tryggja sér fjármögnun í erlendri mynt sem væri mikið fagnaðarefni.

Það svarar í raun til þess að maður kæmi heim til sín og segði frúnni að maður hefði samið við bankann um að greiða af íslenska húsnæðisláni fjölskyldunnar í gjaldeyri og með því tryggt sér fjármögnun í erlendri mynt.

Ég er voða smeykur um að það myndi kosta nokkrar nætur á sófanum eftir að frúin væri búin að átta sig á því að búið væri að leggja allan efnahag heimilisins undir án nokkurs mögulegs ávinnings.

4) Þetta lítur óneitanlega út eins og að velferðarstjórnin hafi sett þessa fléttu á svið til þess að koma gjaldeyri til Hollendinga og Breta umfram skyldur og gegn vilja þjóðarinnar.  

Benedikt Helgason, 25.5.2013 kl. 21:10

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, Benedikt, ég er ekki að segja að bankinn eigi ekki fyrir skuldum sínum.  Ég er að segja, að svo bankinn eigi fyrir skuldum sínum án endurfjármögnunar þurfi hann að ganga hraðar að eignum sínum, en væri æskilegt.  Ég er líka að benda á, eins og þú segir, að skuldir bankans eru í annarri mynt en tekjur.

Eigum við a segja að staðan sé ekki efnileg.

Marinó G. Njálsson, 25.5.2013 kl. 21:44

5 identicon

Sæll Marinó.

Ég þakka þér þessa frábæru úttekt á stöðu Landsbankans.

Í bréfi til Alþingismanna dags. 12. september 2009 vék ég að fyrirhuguðu uppgjöri stjórnvalda við kröfuhafa Landsbankans og taldi það vera "glapræði" að ganga frá uppgjöri án þess að taka með í reikninginn væntanlegt ofmat á eignum bankans vegna ólöglegra gengistryggðra krónulána.

Stjórnvöld létu þá aðvörun sem vind um eyru þjóta, en síðar lögðust SÍ og FME á eitt til að koma í veg fyrir að stærð ofmatsins væri viðurkennd, en svo hefði orðið er Hæstiréttur hefði ekki farið eftir "ráðgjöf" þeirra með afturvirkri breytingu á samningsvöxtum.

"Ráðgjöfin" byggði á hagfræðilegri rökleysu en forðaði (væntalega) virðisrýrnun lánasafnsins sem var að baki stóra skuldabréfinu. Ef ég hef skilið málið rétt, þá hefði slík virðisrýrnun sett uppgjörið í uppnám.

Úttekt þín undirstrikar að það þarf ekki einkaaðila til að koma Landsbankanum í klandur.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 23:14

6 Smámynd: Sigurður Antonsson

Hagnaður bankans er um 8 milljarða á fyrstu 4 mánuðunum ársins. Meðalhagnaður um 20 ma. síðustu 4 ár. Ef bankinn gætti meira aðhalds og væri eingöngu í bankastarfsemi gæti hagur hans batnað enn. Vextir af erlendum lánum eru ekki háir miðað við þá sem bankinn krefst af íslenskum fyrirtækjum.

Fyrirtæki sem eru þokkalega rekin eru með skuldir eftir Hrun sem þau ætla að borga á 20 árum. Bankinn er mun betur staddur en þau. Annars næ ég ekki alveg upp í þessa umræðu, einfaldur ársreikningur væri betri.

Ef sparnaður væri metinn að verðleikum í þessu landi þyrfti ekki erlend lán til að bjarga Landsbankanum eða byggja upp nýjan. Óöryggi í fjármálum og verðlaus króna eru ekki til þess að bæta ástandið. Engin breyting þar á meðan aðrar Evrópuþjóðir búa við langa reynslu af sjálfstæðum bönkum.

Er ekki betra að viðurkenna vanmátt okkar í bankamálum. Tengjast annari mynt og öðrum seðlabanka. Mikill þekking og mannauðsflótti flyst á hverju ári úr landi vegna smæðar markaðarins og krónunnar. Fyrirtæki eru seld erlendum eða yfirtekin í hverjum mánuði. Menntun er í lagi en mannauðsflótti vegna bágs ástands fjármála, hárra vaxta og verðbólgu. Sama vandamál og í mörgum þróunarlöndum.

Sigurður Antonsson, 25.5.2013 kl. 23:20

7 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó, langt síðan ég hef sent inn athugasemd, en þakkir fyrir þessa áhugaverðu úttekt - - mín skoðun er að allt sem þurfi að vita komi fram í Fjármálastöðugleika.

---------------------------------

Sbr:  Áætlaðar afborganir af erlendum lánum innlendra aðila, annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans, fram til ársins 2018 eru þungar. Áætlaðar afborganir fara úr 87 ma.kr. árið 2014 í 128 ma.kr. árið 2015 þegar afborganir af skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans hefjast af fullum þunga. Til samanburðar er áætlað að undirliggjandi viðskiptaafgangur ársins 2012 hafi verið 52 ma.kr. Verði viðskiptaafgangur á næstu árum svipaður og hann hefur verið á sl. árum, um 3-3,5% af landsframleiðslu, þurfa aðrir aðilar en ríkis - sjóður og Seðlabanki að endurfjármagna sem nemur um 265 ma.kr. fram til ársins 2018. Afborgunarferill skuldabréfa Landsbankans er of þungur fyrir hagkerfið í heild. Lengja verður í bréfunum eða endurfjármagna þau. Án lengingar eða umtalsverðrar endurfjármögnunar er ljóst að ekkert svigrúm er til þess að nýta viðskiptaafgang í því skyni að hleypa út krónueignum erlendra aðila á næstu árum. Samspil los - unar hafta og endurgreiðslna á erlendum lánum er helsta áhættan í kerfinu.

--------------------------------- 

Seðlabankinn er búinn að segja okkur að landið eigi ekki nægan gjaldeyri - - þó svo að fræðilega geti LB nurlað saman nægu fé ef það væri nægur gjaldeyrir; þá virðist mér um ekkert annað að ræða.

En að LB hefji nauðasamninga sem fyrst, ekki síðar en þegar á nk. ári, best að hefja undirbúning á þessu ári.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 26.5.2013 kl. 00:15

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Eftir þennan lestur er maður feginn að eiga ekkert í landsbankanum nema kannski í gegnum lífeyrissjóðinn minn.

Restin er hjá ALLIANZ í þessum handónýtu evrum og síðan í steinsteypu, sem hlýtur núna að fara hækka, þar sem húsið er Njarðvík en þar á víst að fara að virkja og byggja álver og kísilverksmiðju.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.5.2013 kl. 23:28

9 Smámynd: Maelstrom

Afhending hlutabréfanna til starfsmanna verður kannski "vafasöm" þegar starfsmenn gera sér grein fyrir að þeir þurfa að greiða tekjuskatt af þessum 4,7 milljörðum strax.  Ætli bankinn kaupi ekki bréfin til baka samdægurs svo starfsmenn geti greitt skattinn.  Í raun verður þetta því bara bónusgreiðsla upp á 3-4 milljónir á haus, misskipt auðvitað.

Maelstrom, 28.5.2013 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband