Leita í fréttum mbl.is

Hvernig er hægt að vera í vanskilum, þegar maður fékk aldrei rétta greiðslukröfu?

Fjármálaeftirlitið er að greina "vanskil" fólks og fyrirtækja. Ætli Fjármálaeftirlitið tali um vanskil, þegar neitað er að greiða af rangt reiknuðum lánum?  Ég veit um ansi marga sem hafa ekki fengið rétta greiðsluseðla frá ársbyrjun 2008.  Ég reikna með að þeir sem hafa nýtt rétt sinn og neitað að greiða ólöglega reiknaðar kröfur, teljist í bókum fjármálafyrirtækjanna og Fjármálaeftirlitsins hafa verið í vanskilum.  Í mínum huga getur viðskiptavinur aðeins verið í vanskilum hafi hann neitað að greiða löglega kröfu.

Ég hef séð kröfur frá fjármálafyrirtæki til einstaklings, sem ég endurreiknaði lán fyrir, þar sem eftirstöðvar á 20 milljóna króna láni, þ.e. upphaflegur höfuðstóll, voru reiknaðar vera 52 m.kr.  Viðkomandi neitaði að greiða afborganir nema að hann fengi rétt reiknaðan greiðsluseðil í hendur.  Fyrir mér er þetta algjörlega eðlileg ósk af hendi viðskiptavinarins.  Nei, engu tauti var við fjármálafyrirtækið komandi og það vildi margfalda höfuðstólsafborgun þrátt fyrir Hæstaréttardóma um hið gagnstæða.  Miðað við niðurstöðu Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012, þá eru eftirstöðvar lánsins innan við 18 m.kr. og sé síðan tekið tillit til úrskurðar Evrópudómstólsins í máli C-618/10, þá lækka eftirstöðvarnar enn frekar.

Hrægammastofnanir

Svo má við þetta bæta, að Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, eins og þessar stofnanir heita í dag, hafa hagað sér eins og ósvifnustu hrægammasjóðir, keypt kröfur á miklu undirverði og ætlast til að fá fullt verð fyrir eða að minnsta kosti gott álag á kaupveðið.  Þetta heitir víst á Íslandi að vera heiðvirð fjármálaviðskipti, en ég kann önnur orð yfir svona háttsemi.  Á þessari háttsemi er mörg hundruð milljarða hagnaður bankanna byggður.  Að mergsjúga fólk og fyrirtæki sem var nánast hrint fram af bjargbrúninni af lögbrotum bankanna í undanfara hrunsins og vegna afleiðinga þess.  Og í staðinn fyrir að leiðrétta misgjörðir fyrirrennara sinna, þá ákváðu þeir að græða á þeim!  Huggulegir viðskiptabankar eða hitt þó heldur sem fólk er neytt til að eiga viðskipti við.  Svo er starfsfólki þeirra greiddur bónus fyrir að ganga lengra að fyrirtækjum en ástæða var til bara svo þjóðarbúið skuldi kröfuhöfum aðeins meiri gjaldeyri.

Því miður hefur endurreisn bankakerfisins verið á kostnað viðskiptavina sem lentu í svikamyllu þeirra aumkunarverðu fyrirtækja, sem hétu Landsbanki Íslands, Kaupþing og Glitnir.  Fyrirtækja sem almenningur á Íslandi treysti að væru að vinna að hagsmunum allra viðskiptavina sinna, en ekki bara eigenda og valinna eftirlætisviðskiptavina og að ógleymdum sérvöldum starfsmönnum sem áttu, að því virðist greiðan aðgang að fjárhirslum bankanna.

Blóðsjúgandi vampírur

Dæmi um hvers konar blóðsjúgandi vampírum fjármálafyrirtækin eru orðin, sést best í þeim fjölda íbúða sem þær hafa séð sig "tilneydda" að leysa til sín eftir að hafa krafist nauðungarsölu.  Hátt í 10% þjóðarinnar hefur þannig misst húsnæðið sitt til hrægammanna.  Flest málin eru tilkomin vegna lögbrota aumkunarverðra fyrirrennara bankanna þriggja.  Ég held að bankarnir þrír og fleiri endurreistar og yfirteknar fjármálastofnanir hafi gleymt, að þegar lánin viðskiptavinanna voru færð yfir til nýrra fjármálafyrirtækja, þá fylgdu ekki bara réttindi heldur líka skyldur. 

Hrunið var ekki óheppni

Ef menn halda að hrunið hafi bara orðið af ansans óheppni, þá held ég að rétt sé að menn hugsi sig um.  Nei, það varð vegna þess, að þeir sem stjórnuðu hrunbönkunum virtust uppteknari við að græða en að reka banka.  Það varð vegna þess að menn sniðgengu lög, áhættustýringu og heilbrigða skynsemi.  Um þetta er fjallað ítarlega á um 1.400 blaðsíðu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þannig að þetta er ekki bara mín ályktun.

Lágmark að skila því sem ekki var greitt fyrir

Ég hef sagt það áður og endurtek það núna.  Mér finnst alveg lágmark, að bankarnir þrír skili til viðskiptavina sinna þeim afslætti sem þeir fengu af lánasöfnum við yfirtöku þeirra frá hrunbönkunum og öðrum aumum fjármálastofnunum.  Þá er ég að tala um að viðskiptavinir bankanna þriggja fái, sem leiðréttingu á skuldum sínum, bróðurpartinn af hagnaði bankanna vegna endurmats á yfirteknum eignasöfnum.  Verði það ekki gert, þá krefst ég þess að settur verði hvalrekaskattur á þessi fyrirtæki, þannig að hagnaður af vogunarsjóðsstarfsemi bankanna verði látinn standa undir þó ekki væri nema hluta af kostnaði ríkissjóðs vegna hrunsins.  Mér finnst það gjörsamlega fáránlegt, að viðskiptabankarnir þrír eigi taka til sín nokkur hundruð milljarða hagnað, hirða húsnæði af fólki í stórum stíl og síðan eiga almennir skattgreiðendur að standa undir kostnaðinum af því tjóni sem fyrirrennarar þeirra ollu.

Að gera upp hrunið kallar á sanngirni

Ef menn halda að hrunið verði gert upp með því að bankarnir fái sitt, þá er það mikill misskilningur.  Það verður heldur ekki gert upp með því að valdir viðskiptavinir og starfsmenn fái hundruð milljóna, milljarða eða jafnvel tugi milljarða fellda niður af skuldum sínum meðan almennir viðskiptavinir eru meðhöndlaðir eins mjólkandi kýr sem í lagi er að blóðmjólk og svo senda í sláturhúsið, þegar nytin fellur.  Þetta er því miður sú aðferð sem mér virðist helst notuð.

Vilji menn gera upp hrunið, þá verður að gera það af sanngirni.  Sú sanngirni felur í sér að nýju bankarnir þrír taki ekki til sín krónu í endurmati á yfirteknum lánasöfnun, heldur fari það allt í að leiðrétt lánin. Að almennir viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna taki allir á sig sama hlutfall af skaðanum, sem þá verður eftir.  Þetta á líka við um innstæðueigendur og litla hluthafa, enda var þetta sparnaðarleið, en ekki fjárfesting.  Fyrir marga var það þjóðrækni að eiga hlutabréf í Landsbanka Íslands (sjálfur var ég ekki það þjóðrækinn).  Það felur í sér að fólki verði gert kleift að halda húsnæði sínu með því að færa skuldir að greiðslugetu, en ekki 110% af eignarstöðu, og að sjálfsögðu að leiðrétta forsendubrest lánanna.

Mesta sanngirnin felst í því, að viðskiptavinir bankanna þriggja fái njóta hagnaðarins með eigendum þeirra eða að hagnaðurinn verði notaður í að greiða hluta þess tjóns sem skattgreiðendur hafa þurft að standa undir. Ég skil vel þörf fyrir gott eigið fé hjá þessum stofnunum, en það eru fleiri en þeir sem þurfa eigið fé.


mbl.is Minni vanskil fólks og fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Frábær grein hjá þér.Það hefur verið margoft spurt af andstæðingum afnáms verðtryggingar hver eigi að borga og imprað á því að ríkið(þ.e.skattgreiðendur) hafi ekki peninga til að borga það.Með öðrum orðum er því haldið fram að það sé þjóðinni að greiða þetta.Þetta er náttúrulega firra.Þeir eiga að sjálfsögðu að borga til baka sem græddu á þessu,þ.e. bankarnir og fjárfestarnir.Icesave málið (lyktir þess)skar úr um það að almenningur á ekki að greiða skuldir banka og fjármálageirans.

Jósef Smári Ásmundsson, 17.3.2013 kl. 13:57

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Má mynna á Frönsku byltinguna.

Eyjólfur Jónsson, 17.3.2013 kl. 15:23

3 identicon

Styð þetta með "frönsku byltinguna" mér er orðið löngu ljóst að engu verður skilað nema því sem sótt verður með valdi(dómstólum)

Siðbresturinn í fjármálakerfinu er slíkur að þeir þurfa að fá sína lexíu.

Það á ekki að líða kennitöluflakk, þetta er sama fólkið í sömu störfunum.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 21:49

4 identicon

Sæll Marinó.

Góð grein frá þér um bankana 3. Ég vil endilega minna á Dróma, Frjálsa og SPRON sem hafa komist upp með hreint alveg ótrúlega framkomu gagnvart þeim sem voru svo óheppnir að taka lán hjá þeim. Eftir því sem ég hef komist næst þá er það Seðlabankinn, FME og ríksistjórnin sem eru á bakvið þá og í skjóli þessarra aðila geta þeir haga sér að vild. Það er með ólíkindum að fjármálaöflin virðast stjórna ÖLLUM hér á landi. Nú eru kostningar í nánd- Ég spyr eiga lántakendur að kjósa þá sem hafa ekki haft manndóm í sér til að standa með almenningi í landinu?

Sólveig Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2013 kl. 20:15

5 identicon

Það er erfitt að ímynda sér hverja skal kjósa.  Þetta er allt sama f´´olkið á bakvið, ótt nokkur ný andlít  séu komin þarna, þá vitum við öll hvaða uppeldi þau hafa fengið, nema kannski í litlu flokkunum.  Íslendingar eru fastir í stokkhólsheilkenninnu.  Almenningur er svo niðurbarin og hræddur við að brjóta af sér hlekkina að hann kýs alltaf það sama aftur og aftur vegna þess að hann annaðhvort þorir ekki eða nennir ekki að kynna sér að aðrar leiðir eru í boði. Mér varð það ljóst fyrir nokkru að íslenskur lmenningur er í stríði við stjórnvöld og fjármálakerfið um yfirráð og eignarhald á Íslandi.  Og við erum að tapa.... 

Sigurður Kristinsson (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband