Leita í fréttum mbl.is

Vangaveltur um skráningu Facebook á NASDAQ

Nýskráning Facebook á NASDAQ hefur vægast sagt farið vandræðalega af stað.  Mér finnst þó engin ástæða fyrir fjárfesta að örvænta.  Þetta eru bara fyrstu dagarnir.

Frá mínum bæjardyrum séð, þá er græðgin að drepa menn.  Fyrst það græðgin hjá stjórnendum Facebook að verðleggja bréfin upp úr öllu sem skynsamlegt er, þá er það græðgi hjá kaupendum sem vildu taka þátt í einhverju ævintýri, þ.e. enginn vildi missa af stóra vinningnum ef hann skyldi falla á þeirra tölu, og loks græðgi í þessum sömu kaupendum að hafa ekki á fjórum dögum (raunar innan við það þegar þetta er skrifað) fengið megagróða, þó búið hafi verið að vara þá við að þetta gæti farið í öfuga átt.

Ég spyr í fyrirsögn hvort dot com (.com) bólan sé að endurtaka sig.  Á vissan hátt er hún að gera það, en sá er munurinn, að þá fóru fyrirtæki almennt á markað á lágu gengi, ruku upp án innistæðu og lognuðust út af.  Núna er genginu stillt mun ofar en innistæða er fyrir og síðan lekur heilmikið loft úr blöðrunni, kannski frekar hægt að segja að menn hafi pumpað meira í dekkið en ventillinn þoldi og hann því byrjað að leka.  Annar munur er að Facebook er búið að vera til í fjölda mörg ár og verðmæti fyrirtækisins hefur því stöðugt verið að aukast.  Ég skil að vísu ekki alltaf hvers vegna verðmætið er að aukast, en ég er ekki með innsýn í viðskiptaáætlanir stjórnenda.  Hef þó alltaf álitið að fjármagn frá rekstri sýndi heilbrigði rekstrarins og síðan hlutfall vaxtagreiðslna og afborgana af þessari tölu, en ekki hagnaður eftir afskriftir og alls konar bókhaldslegar krúsidúllur.  Þessar tölur hefur mér sýnst ekki gefa tilefni til að halda að Facebook sé yfir 1.000 milljarða kr. virði a.m.k. um þessar mundir.  Þriðji munurinn, er að .com bólan byggði oft á hugmyndum fyrirtækja sem ekki voru komnar í framkvæmd.  Voru á teikniborðinu.  Facebook er þarna og ef fyrirtækið myndi krefjast 5 USD í árskriftagjald á ári, þá myndu líklegast flestir borga án umhugsunar.  Hver þolmörkin eru á þessu gjaldi eru, veit ég ekki, en ég held að jafnvel 5 USD á mánuði myndu ekki fækka mikið í hópnum.  Síðan gæti fyrirtækið verið með ókeypis þjónustu með lágmarksþjónustustigi og síðan áskriftarþjónustu með auknu þjónustustigi.

En hvað telja menn að hafi farið úrskeiðis?

Hroki er eiginlega það orð sem maður sér og heyrir oftast.  Hroki hjá stjórnendum Facebook, hroki hjá stjórnendum Morgan Stanley, hroki hjá stórum fjárfestum sem töldu sig eiga áskrift að IPO hagnaði.  En það var margt fleira.  Raunar segja menn að flest hafi farið úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis.

Fyrst má nefna að hækka útboðsverðið bara degi fyrir útboð, en það var gert til að freista fleiri eigenda til selja.  Ekki eru verðbréfamiðlarar á einu máli hvort það hafi verið nóg til að anna eftirspurn, en flestir eru á þeirri skoðun að um yfirskot hafi verið að ræða á báðum þáttum.

Næst er að tölvukerfi NASDAQ hökkti á fyrstu mínútunum eftir að sala á hlutabréfum Facebook hófst og vissu menn ekki hvort sölur höfðu gengið í gegn eða ekki.  Ástæðan mun hafa verið mikill fjöldi fjárfesta dró kauptilboð sín til baka í upphafi útboðsins.  Svo mikill að tölvukerfið réð hreinlega ekki við álagið.  Tók þvi talsverðan tíma að greiða úr þessu.  Er þetta enn ein vísbendingin um að menn hafi ætlað sér um of.

Þegar salan komst á skrið, þá rauk verðið fyrst upp um ýmist 4 eða 5 USD, en féll svo fljótlega aftur nánast niður í útboðsgengið.  Það varð til þess, samkvæmt erlendum fjölmiðlum, að Morgan Stanley greip inn í með kauptilboð á hærra gengi.  Það ýtti gengi tímabundið aftur upp, en jafnvel Morgan Stanley er ekki nógu öflugt til að halda uppi genginu, svo það endaði á "unch" eða á útboðsgenginu.

Fjórða klúðrið er að gefa mönnum of langan tíma til að hugsa sinn gang.  Útboðið var á föstudegi og því höfðu menn helgina til að hugsa málin.  Niðurstaðan var fall bæði mánudag og þriðjudag, þó eitthvað hafi bréfin rétt úr kútnum í dag.

Ekki má líta framhjá misvísandi upplýsingum um afkomu og framtíðartekjur.  Að slíkar upplýsingar séu á sveimi á útboðsdegi getur ekki annað en valdið óróa og ótta.  Hverju á að trúa?

Margir verðbréfaráðgjafar höfðu mælt gegn því að fjárfestar keyptu bréf á því útboðsgengi sem búist var við, þannig að hærra útboðsgengi var þessum aðilum enn síður þóknanlegt.  Það gæti hafa ýtt af stað skriðu kauptilboða sem dregin voru til baka á fyrstu mínútum útboðsins.

Loks verður að nefna að GM tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækið ætlaði að hætta að auglýsa á Facebook.  Þessi tilkynning gat ekki komið á verri tíma.  Þarna var einn af stærstu auglýsendum í heimi að segja að Facebook væri lélegur auglýsingamiðill, en Facebook ætlar einmitt að ná í drjúgan hluta tekna sinna í gegn um persónumiðaðar auglýsingar.  Talandi um anticlimax, þá var þetta major.

Merkilegt er í þessari umræðu, að menn vilja draga stjórnendur Facebook og Morgan Stanley til ábyrgðar vegna lækkunar gengis hlutabréfanna.  Þetta er nú svo ótrúlegur barnaskapur, að ég átta mig ekki á svona kjánagangi.  Flestir sem keyptu í Facebook vissu af því að verðið var talið í hærri kantinn.  Menn áttu líka að vita að Facebook hefur ekki verið að sýna hagnað sem stendur undir þessu verði.  Margir kaupendur voru að versla til að bæta skrautfjöður í hattinn sinn, þ.e. geta sgat að þeir hafi keypt á útboðsdegi.  Einnig voru menn að kaupa í þeirri von að ná í skjótfenginn gróða.  Ætluðu að kaupa snemma áður en gengið ryki upp, þó ekki væri nema í stuttan tíma, og þá ætluðu menn að raka inn hagnaði.  Örlögin léku á þá og nú verða menn að sýna þolinmæði sé á annað borð rými fyrir slíkt.

Gleymum ekki hinni hliðinni á málinu.  Hvað ef gengið hefði rokið upp um 50% á útboðsdegi?  Þá hefðu þeir sömu og núna kvarta barið sér á brjósti og hrósað Morgan Stanley og Facebook fyrir velheppnað útboð.  Þeir hefðu náð því markmiði sínu að kaupa ódýrt og selja dýrt.  Eftir hefðu setið gríðarlegur fjöldi, sem hefði keypti í seinni bylgjunum (þegar þeir hefðu fengið glýju í augun yfir hækkun verðsins), með 10, 20 eða 30 USD tap.  Þá hefðu sem sagt fagmennirnir grætt og leikmennirnir tapað og allt verið í lagi.  En þegar fagmennirnir tapa, þá er maðkur í mysunni, þó í raun hafi bara hrokinn og græðgin haft menn undir.

Er eitthvað að óttast?

Ég er sannfærður um að verð hlutabréfa í Facebook á eftir að fara upp fyrir útboðsgengi.  Raunar langt upp fyrir.  Spurningin er ekki hvort heldur hvenær.  Þegar þetta er skrifað kl. 18.15 23.5.2012, þá er gengið 31,7493 USD og hefur hækkað um 2.47% frá opnum í dag.  NASDAQ segir að lægsta gengi dagsins hafi verið 30 USD og það hæsta 32,5 USD.  Svona á þetta eftir að sveiflast og kæmi mér ekki á óvart, að á einhverri stundu fari gengið niður í 20 - 25 USD, jafnvel neðar, en síðan endurheimti það smátt og smátt fyrri styrk.

Hvert er virði Facebook?  Ef miðað er við markaðsverð annarra tæknifyrirtækja, þá gæti gengið alveg farið niður í 6 - 7 USD.  Er þá miðað við tífaldan ætlaðan hagnað á hlut fyrir árið 2013.  Sé miðað við hærra hlutfall, þá hækkar verðið í samræmi við það.

Hlutabréfaviðskipti snúast mikið um að geta beðið.  Þurfa ekki að selja þegar gengið er lágt.  Þreyja Þorrann, eins og við myndum segja.  Og náttúrulega vona að fyrirtækið geri það líka.  Það var nefnilega ekki það sem gerðist í .com bólunni, þ.e. fyrirtæki hurfu af markaði.  Svo merkilegt sem það er, þá eru mörg þeirra enn á lífi.  Sum sem sjálfstæð fyrirtæki, en flest sem deildir/einingar innan öflugri fyrirtækja.

En aftur af hlutabréfaviðskiptum.  Ég var staddur í Bandaríkjunum mánudaginn 19. október 1987.  Sá dagur er oft kallaður "the Black Monday".  Þann dag gerðist það sem öllum þótti óhugsandi.  Tölvurnar tóku völdin og felldu Dow Jones hlutabréfavísitöluna um 500 stig.  Já, Dow Jones fór úr rúmum 2.700 stigum niður í rúmlega 2.200 stig á einum degi.  Enn þann dag í dag er þetta mesta hlutfallslega lækkun á einum degi.  (Kerfinu var breytt til að koma í veg fyrir að það endurtæki sig.)  Fjöldinn allur af hlutabréfaeigendum töpuðu háum fjárhæðum og sérstaklega man ég eftir umræðunni um eftirlaunasjóðina og síðan þá sem frömdu sjálfsmorð.

Hvar er Dow Jones núna?  Hvert er gengi fyrirtækjanna sem féll eins og steinn 19. október 1987?  Ég ætla svo sem ekki að skoða einstök fyrirtæki, en Dow Jones (DJIA) stendur í 12.400 stigum, þ.e. 460% hækkun frá lokagenginu 19. október 1987.  Ekki hafa öll fyrirtækin hækkað jafn mikið og ný fyrirtæki hafa komið inn í vísitöluna sem eiga þátt í risi hennar.

Málið er að í hlutabréfaviðskiptum er þolinmæði dyggð.  Raunar svo mikil að orðið hefur til nokkuð sem heitir "forever stock" eða eilífðarbréf.  Þetta eru hlutabréf fólk, sjóðir og fyrirtæki kaupa til að eiga og hafa tekjur af í gegn um arð.  Þá skiptir ekki máli hvers virði lutabréfin eru heldur hve mikinn arð þau gefa.  Upphafleg fjárfesting upp á 100 USD geta gefið í arðgreiðslur á löngum tíma margfalda þá upphæð og svo til viðbótar hækka bréfin yfirleitt í virði.  Ég hef trú á því að Facebook-bréfin gætu orðið að svona "eilífðarbréfum".  Þó svo að arðgreiðslur verði líklega ekki miklar til að byrja með, þá muni þær sækja í sig veðrið miðað við útboðsgengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband