22.5.2012 | 00:28
Bannað að skerða, en samt hefur verið skert! - Hver á að borga það sem upp á vantar?
Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, segir samkvæmt frétt mbl.is að "engan vafa leika á að lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar". Vísar hún til dóma Hæstaréttar, úrskurði umboðsmanns Alþingis og hjá mannréttindadómstóli Evrópu.
Ástæða ummæla Þóreyjar er beiðni stjórnvalda um að lífeyrissjóðirnir komi meira til móts við skuldsettar fjölskyldur í landinu. Þórey fullyrðir líkt og aðrir framámenn í lífeyrissjóðunum, að sjóðunum sé óheimilt að gefa eftir innheimtanlegar kröfur. Vil ég leyfa mér að setja spurningamerki við þessa fullyrðingu, þar sem ég er þess nokkuð viss, að lífeyrissjóðirnir hafi einmitt verið á fullu í slíku gagnvart hinum og þessum lögaðilum. Er ég nokkuð viss um, að sjóðirnir hafi tapað að óþörfum milljörðum, ef ekki milljarða tugum, á því einu að hafa gengið of snemma til samninga, hafa gefið eftir í samningaviðræðum og hafa ekki skilyrt samninga við að fá eignarhlut í þeim fyrirtækjum sem samið hefur verið við.
Hvenær er skerðing brot á stjórnarskrá og hvenær ekki?
Nú ætla ég ekki að deila við dómara Hæstaréttar, en vil samt velta því upp, hvernig standi á því að lífeyrissjóðir hafi gegn um tíðina ýmist aukið eða skert réttindi í samræmi við tryggingafræðilega stöðu sjóðanna. Er þetta í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Einnig er tekið á þessu í 8. tl. 2. mgr. 27. gr. sömu laga. Eina skilyrðið sem sett er varðandi slíkar skerðingar er að upplýsingar um þær "komi fram í samþykktum lífeyrissjóða og hljóti sem slíkar staðfestingu fjármálaráðuneytis í samræmi við 28. gr. laganna", eins og kemur fram í túlkun Fjármálaeftirlitsins frá 20.2.2007. Í túlkun FME segir í 1. mgr.:
Nokkuð er um að áunnin réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóða séu aukin eða skert um tiltekið hlutfall í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og að slíkar breytingar á réttindum komi ekki fram í samþykktum sjóðanna.
Hér er FME að setja ofan í við sjóðina að hafa ekki gert breytingar á samþykktum um leið og réttindi eru aukin eða skert, en ekki ekki að setja ofan í við þá að hafa brotið stjórnarskrána með því að skerða réttindi. Ekki er minnst einu orði á stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Nei, það þykir sjálfsagt og eðlilegt að skerða réttindi, þegar lífeyrissjóðirnir hafa ekki náð að ávaxta eignir sínar, þannig að þær standi undir skuldbindingum.
Hvort er það, Þórey, mega lífeyrissjóðirnir skerða réttindi sjóðfélaga eða ekki? Ef þeir mega ekki skerða réttindin, hvar í lögum nr. 129/1997 er það nákvæmlega tiltekið að það megi ekki og hvernig fer það saman við 39. gr. laganna? Megi ekki skerða réttindin, hvernig stendur þá á því, Þórey, að lífeyrissjóðirnir hafa verið að skerða réttindi hægri vinstri nánast frá stofnun þeirra? Hér eru nokkur dæmi frá síðustu árum:
- Stafir lífeyrissjóður: Frétt af ársfundi fyrir starfsárið 2009
- Gildi lífeyrissjóður: Afkoma kynnt á ársfundi (2010)
- Stapi lífeyrissjóður: Tillögur til breytinga á samþykktum (lagt fyrir ársfund 2012) og Réttindi lækka um 6%
- Lífeyrissjóður verzlunarmanna: Lífeyrisgreiðslur lækka
Hægt væri að fara nokkur ár aftur í tímann og taka t.d. skerðinguna sem ýmsir lífeyrisþegar og sjóðfélagar þurftu að þola við sameiningu sjóðanna á síðasta áratug.
Spurningin sem vaknar við þetta er: Hvers vegna eru þær skerðingar sem minnst er á í ofangreindum fréttum sjóðanna löglegar, en þær sem fælu í sér að koma til móts við skuldug heimili eru það ekki? Ef réttindi eru varin af stjórnarskránni, af hverju má stundum skerða þau og stundum ekki?
Hver borgar brúsann?
Næsta atriði í ummælum Þóreyjar sem ég vil fjalla um, er sú fullyrðing (sem ég efast ekki um að sé rétt) að um 652 milljarða vanti inn í lífeyrissjóðakerfið til að sjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar. Eignir sjóðanna eru eitthvað í kringum 2.200 ma.kr., þannig að 652 ma.kr. nema því rétt um 30% af þeirri tölu. Eins og staðan er um þessar mundir vantar lífeyrissjóðin 3 krónur af hverjum 13 sem þeim er ætlað að greiða út eða tæp 23%. Þetta er ekkert smáræði.
Í færslunni Kynslóðatilfærsla lífeyriskerfisins er frá þeim YNGRI til þeirra ELDRI! fjalla ég um það sem ég tel vera mesta vanda lífeyrissjóðakerfisins og jafnframt hvernig er verið að svína á framtíðarlífeyrisþegum. Þórey Þórðardóttir tók fram í dag, að almenna lífeyrissjóðakerfið vantar 159 ma.kr. til að standa við skuldbindingar sínar. Hvaðan eiga þessir 159 ma.kr. að koma?
Forkólfar lífeyrissjóðakerfisins eru búnir að teikna upp björgunaráætlun. Launþegar og launagreiðendur framtíðarinnar eiga að borga. Til þess að Ásmundur Stefánsson geti fengið lífeyrinn sinn (hann varð 67 ára í mars 2012), ef hann kýs að byrja töku 67 ára, þá þarf að taka pening sem greitt var inn fyrir einhvern annan. Í tilfelli Ásmundar er erfitt að átta sig á því hver borgar brúsann, en af lífeyrinum sem hann fær frá árum sínum á almennum vinnumarkaði (m.a. starfsmaður og forseti ASÍ), þá þurfa aðrir sjóðfélagar að standa undir 10% af lífeyrinum hans, hann kom í stutta stund við á Alþingi (varaþingmaður) og fyrir það borga skattgreiðendur, þá vann hann talsvert í bankakerfinu, en lífeyrissjóður bankamanna er í góðum málum, þannig að hann stendur undir útgjöldum vegna Ásmundar.
Sé viðkomandi lífeyrisþegi ríkisstarfsmaður og hefur greitt í LSR alla sína starfsævi, þá vantar aftur mun meira. Eignir opinberu sjóðanna (þ.e. sjóðanna sem eru með ríki eða sveitarfélög sem bakhjarla) eru um 1/4 hluti af öllum eignum lífeyrissjóðanna, þ.e. um 550 ma.kr. Samkvæmt tölum Þóreyjar vantar opinberu sjóðina um 490 ma.kr. til að standa við skuldbindingar eða um 47%. Það þýðir að þegar fyrrverandi opinber starfsmaður er að fá greiddan út lífeyrinn sinn kemur nærri því önnur hver króna frá einhverjum öðrum. Vissulega skuldar ríkið LSR háar upphæðir, en kerfið er þannig að ekki er á hverju ári greidd endanleg upphæð fyrir alla inn í sjóðinn, heldur breytist talan ár frá ári vegna launaþróunar eftirmanna.
Eitt er samt alveg á hreinu:
Fæstir sem eru að taka út lífeyri í dag eiga fulla innistæðu fyrir honum í sjóðnum sínum!
Þetta vita forkólfar lífeyriskerfisins mæta vel, en hafa ekki viljað tala of mikið um það opinberlega. Menn hnýta í að tekjutengingarnar séu miklar, en fólk um þrítugt í dag mun ekki fá neitt af viti út úr lífeyrissjóðnum sínum, þegar þar að kemur, verði ekki mikil breyting á.
Lausn forkólfa lífeyriskerfisins er ekki að viðurkenna, að eldri kynslóðirnar eigi ekki fyrir þeim lífeyri sem þeim er ætlaður. Nei, í staðinn eiga þeir sem eru á vinnumarkaði að greiða aukalega í sjóðina svo hinir sem eru að fá meira en sjóðirnir hafa efni á, geti fengið það sem þeim var lofað. Málið er bara að menn gleymdu nokkrum mikilvægum hlutum þegar þessi loforð voru gefin. Eitt var að hér gæti komið eitt stykki efnahagshrun, annað að fjárfestingastjórar lífeyrissjóðanna eru misgóðir í að ávaxta fé þeirra, þriðja að launaþróun hafi verið á þann hátt, að launþegar ávinni sér meiri rétt samkvæmt kerfinu, en samkvæmt inngreiðslum.
Já, lausn "gamlingjanna" í forystusveit lífeyriskerfisins undanfarin ár (Þórey er svo ný í starfi að hún telst ekki til þessa liðs) var að búa til gríðarlega kynslóðatilfærslu frá yngri sjóðfélögum til hinna eldri. Þessi tilfærsla byrjaði fyrir rúmum 7 árum, en fram að þeim tíma greiddi launþegi á almennum markaði og launagreiðandi hans jafnvirði 10% launanna í iðgjald. Á tveimur árum var þetta hlutfall hækkað um 20% án þess að réttindaávinningur breyttist nokkuð. Nei, þessu 20% viðbótarframlagi var fyrst og fremst ætlað að leiðrétta skekkjuna sem komin var í kerfið. Lesa má nánar um þetta í skýrslu sem Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2006 og fjallar um lífeyriskerfið frá ýmsum hliðum.
Of langt mál er að fara í gegn um allt sem gert hefur verið eða ætlunin er að gera til að "laga" lífeyriskerfið. Sanngjarnast og eðlilegast er að gera leiðréttingu sem virkar þannig að allir taki á sig högg, en þó mismikið. Þannig lögðu Hagsmunasamtök heimilanna til, þegar verið var að ræða um þátttöku lífeyrissjóðanna í björgun skuldsettra heimila, að þeim sem væru byrjaðir töku lífeyris væri hlíft við skerðingu. Vandi sjóðanna sem við stöndum frammi fyrir vegna framtíðarskuldbindinga er miklu stærra verkefni og aldrei verður hjá því komist að láta þá sem byrjaðir eru töku lífeyris taka þátt í því. Það má aftur gera þannig, að skerðingin verði enginn við ákveðinn aldur, en aukist síðan stig af stigi eftir því sem sjóðfélaginn á lengra eftir í lífeyrisaldurinn. Í staðinn væri hægt að láta launþegana njóta þess, sem átti að fara í hærri iðgjöld, eða skipta því á milli launþega og launagreiðenda.
Spurningin var: Hver borgar brúsann? Svarið við því er kannski annað en lesa má úr umfjölluninni að ofan. Verði kerfið leiðrétt framvirkt með hærri iðgjaldagreiðslum, þá borga launagreiðendur framtíðarinnar brúsann. Slíkt mun gera íslenskt atvinnulíf verr búið til samkeppni við erlend fyrirtæki. Slíkt mun líka draga úr hæfi atvinnulífsins til að greiða hærra kaup. Ætlunin er nefnilega að fara með iðgjöldin upp í 15,5% frá og með 1. janúar 2020 og ekki er víst að það verði endastöðin. Þetta þýðir nánast að hækki laun um 6.000 kr. þá renna 1.000 kr. (sem launþeginn og launagreiðandinn skipta á milli sín) til lífeyrissjóðsins í formi iðgjalds. Þessi ákvörðun um hækkun iðgjaldsins í 15,5% var tekin fyrir hrun, þannig að nú þarf að bæta fyrir það líka, líklegast með ennþá hærra iðgjaldi. Og hvað ef það verður annað hrun?
Verði kerfiðhins vegar leiðrétt "afturvirkt", þá mun sjóðfélaginn/lífeyrisþeginn borga brúsann og síðan að einhverju/talsverðu leiti skattgreiðendur. Sem sjóðfélagi í nokkrum sjóðum, m.a. LSR, þá tel ég það vera sanngjarnari lausn. Vissulega þarf að finna einhverja lausn á stöðu fólks í opinberu sjóðunum, þannig að hreinlega yrði reiknað afturvirkt hver réttindi sjóðfélaga hefðu verið, ef um eðlilegan réttindaávinning hefði verið að ræða og síðan vega á einhvern hátt upp launamun. Ekki er víst að þetta kosti neitt að ráði, svo merkilegt sem það er, a.m.k. ekki við þessar ótrúlega ósvífnu tekjutengingar sem eru í almannatryggingakerfinu í dag.
Hvernig sem á allt er litið, þá borga annað hvort launagreiðendur framtíðarinnar eða skattgreiðendur framtíðarinnar brúsann að mestu leiti. Kannski er lausnin að skipta reikningum í þrennt, þ.e. hækka iðgjöld eitthvað, skerða áunnin réttindi að hluta og síðan láta skattgreiðendur (sem eru í báðum hópum) taka á sig restina með ýmist hækkun skatta eða sparnaði í ríkisrekstri.
Lífeyrisréttindi varin í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Lífeyrissjóðir | Breytt 6.12.2013 kl. 00:17 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 2
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 277
- Frá upphafi: 1680565
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
ég bíð eftir því að það verði stofnaður lífeyrissjóður þar sem ungt fólk fái réttindi sín í samræmi við inngreiðslur.
þá fellur þessi spilaborg um sjáft sig.
Jón Þór Helgason, 22.5.2012 kl. 01:23
Eru ekki áhöld um hvort þessir 2.200 M seu þarna í raun?
GB (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 07:02
Takk f. góða pistla, Marinó.
Hver er kostnaðurinn/gróðinn við að leggja lífeyrissjóðina inní seðlabankann/fjármálaráðuneytið og hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla. Sömu úthluturnarreglur fyrir alla, eitthvert ákveðið hlutfall af innbörguðum iðgjöldum. Ef einhverjir helv.pólítíkusar færu að hræra í þessu þá væru þeir einnig að taka af sinni köku (allavega virkar það þannig í öðrum löndum, það á kannski ekki við á Íslandi ;)
Larus Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 07:09
Framtíðarlausnin er einhver útgáfa af því að leggja lífeyrissjóðina undir ríkið og bræða þá saman við almannatryggingakerfið en afnema í leiðinni öll svokölluð "réttindi" einstakra sjóðfélaga,því eins og þú bendir á Marínó þá er ekki innistæða til fyrir öllum þessum "réttindum"en augljóst að reikningurinn verður sendur til ríkis og annara en þeirra sem telja sig hafa unnið sér inn þessi "réttindi".
Svo bætir ekki úr skák ef hluti af því sem eftir stendur af eignum sjóðanna eru blóðpeningar vegna stökkbreytinga lána í arfavitlausu fjármagnskerfi, þannig að siðferðislega eru þeir ekki á vetur setjandi.
Enn má nefna að sjóðirnir eru eins og krabbamein í þjóðarlíkamanum, fjármagn sem í krafti stærðarinnar hefur einokunaraðstöðu og getur í gegn um lánastofnanir jafnvel komið skellinum af arfavitlausum stórframkvæmdum á aðra. Þ.e. með útgáfu rafkróna vegna uppskrúfaðra væntinga um framtíðarhagnað af framkvæmd sem þó borgar sig ekki í raun. Þetta veldur tapi samkeppnisaðila og neytenda svo og verðbólgu þar sem allir handhafar peninga tapa og allir skuldarar vegna hækkunar vaxta. Eftir stendur einhvert ráðstefnuhúsið,verslunarkjarninn,eða eitthvert annað sem stækkar eignasafnið, enn þjóðinni blæðir.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 08:03
Marinó ég vil þakka þér fyrir hversu iðinn þú ert við að halda á lofti málstað almennings í landinu. Að mínu viti er eina rökrétta lausnin í lífeyrismálum sú að öllum sjóðunum verði lokað með einu pennastriki og frá þeim degi verði öll lífeyrisfiðgjöld greidd inn í séreignarsjóð viðkomandi, sem hann velur sjálfur. Það sem vinnst með því er að lífeyrisiðgjöld verða ekki lengur skattur. Engar stjórnir til að sitja í fyrir ASÍ og vinnuveitendur. Enginn möguleiki á að stjórnvöld geti skipt sér af þessum inneignum. Sem sagt að lífeyrissjóðirnir verði raunverulegir eftilaunasjóðir en ekki bara framlenging af velferðarkerfinu.
Theodór Magnússon (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 10:46
Góð grein að vanda, Marinó - hér eru tveir punktar sem málið varða.
1. Er það ekki eignaupptaka hjá lífeyrissjóðsmeðlimum að hækka hlutfall launa sem þeim er gert að greiða í lífeyrissjóði til að fjármagna UMFRAM útgjöld sjóðanna vegna eldri sjóðsmeðlima - og því stjórnarskrárbrot skv. túlkun talsmanna lífeyrissjóðanna?
2. Tryggingarfræðileg staða lífeyrissjóðs starfsmanna AGS er reiknuð út reglulega. Ef staðan er neikvæð, þá greiðir atvinnuveitandinn (AGS) þá upphæð í sjóðinn með jöfnum árlegum innborgunum yfir 15 ára tímabil.
Er það ekki eðlilegra en (a) að láta það sem upp á vantar safnast upp sem skuld vinnuveitanda eins og tíðkast hjá hinu opinbera á Íslandi, eða (b) að hækka hlutfall innborgaðra launa eins og tíðkast hjá öðrum lífeyrssjóðum á Íslandi?
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 13:52
Jón Þór, það á eftir að gerast. Hvenær en ekki hvort.
GB, 2.200 ma.kr. eru að einhverju leiti fuglar í skógi og síðan veit maður ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
Lárus, ekki hef ég það á takteinunum.
Bjarni Gunnlaugur, þegar ég ræddi þessi mál einhverju sinni við Árna Pál sem þá var félagsmálaráðherra, þá sagði hann það sína draumsýn. Almannatryggingarnar og lífeyrissjóðakerfið væri hvort eð er bæði með sama markmið.
Gunnar, (1) menn kalla það að leiðrétta réttindaávinninginn, en auðvitað er það furðulegt, að maður ávinni sér jafn mikil réttindi fyrir 12% innborgun og maður gerði fyrir 10% áður. Hér á sér stað eignatilfærsla, en í þessu tilfelli taka launagreiðendur hana á sig. (2) Ríkið er í þessu ferli, en það greiðir bara ekki nóg inn. Hér á árum áður, þá kom þessi skuld ekki einu sinni fram í bókhaldi LSR og hvað þá ríkisins, en núna fylgjast menn þó grant með.
Marinó G. Njálsson, 22.5.2012 kl. 14:20
Í raun þarf ekki að leggja sjóðina undir ríkið heldur afleggja þá og láta ríkið taka við hlutverki þeirra í gegn um almannatryggingakerfið. Hugsanlega væri hægt að greiða núverandi sjóðsfélögum út þeirra inneign eða skilgreina hana sem séreignasjóð án annara réttinda en sem inneigninni nemur. Enda ætti það að vera hið eðlilegasta mál í framtíðinni að fólk leggi til hliðar fyrir ellinni, á einn eða annan máta. En það yrði þá sparnaðarform sem fólk kýs sjálft og þá með fótunum ef því líkar ekki ávöxtunin. Öryggisnet allra ætti á hinn bóginn að vera almannatryggingakerfið með hóflegum tekjutengingum.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 15:26
Það skiptir engu máli þó svo þú stofnir nýja lífeyrissjóði. Þessi villa í útreikningi lífeyrisréttinda er lögbundin svo þetta mun eiga við um alla sjóði, gamla og nýja.
Það er lögbundið að lágmarksávöxtun lífeyrissjóða er 3,5%. Þegar reiknað er út hver réttindi sjóðsfélaga eru til framtíðar, þá er gengið út frá því að þessi 3,5% raunávöxtun muni nást, alltaf. Lífeyrir er síðan greiddur miðað við þennan útreikning. Gallinn er, að þessi ávöxtun er ekki að nást og því þarf að ganga á höfuðstólinn til að greiða út lífeyri. Síðan eru réttindi leiðrétt. Sama villa er síðan gerð á næst ári (og á hverju ári), réttindi reiknuð m.v. 3,5% ávöxtun, lífeyrir greiddur út, ávöxtun næst ekki og réttindi eru skert.
Þetta þýðir einfaldlega að þeir sem eru að taka lífeyri núna eru kerfisbundið að fá of háan lífeyri, byggt á því að framtíðarávöxtun verði alltaf minnst 3,5% í stað þess að líta til þess að hver söguleg ávöxtun hafi verið.
Lausnin á þessu er auðvitað ákaflega einföld og kostar ekki 1 krónu (núna). Það á að fella niður lög um lágmarksávöxtun lífeyrissjóða og lögbinda þess í stað að lífeyrir skuli reiknaður m.v. sögulega ávöxtun, en þó aldrei hærra en 3,5%. Það þýðir að sjóðirnir munu greiða út lífeyri í samræmi við raunverulega ávöxtun en ekki einhverja óskhyggju. Ef það koma inn eitt og eitt ár með frábærri ávöxtun, þá eru áunnin réttindi leiðrétt (hækkuð) þegar tryggingarstaðan er reiknuð út. Sjóður sem alltaf nær 15% ávöxtun, þarf því árlega að hækka áunnin réttindi handvirkt, en mætti samt bara gera ráð fyrir 3,5% framtíðarávöxtun við útreikning réttinda. Annar sjóður sem nær alltaf 1% ávöxtun þarf að gera ráð fyrir 1% ávöxtun við útreikning réttinda (en ekki 3,5% eins og gert er núna).
Maelstrom, 29.5.2012 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.