Leita í fréttum mbl.is

Af "húmorsleysi" hinna - Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Upp á síðkastið hafa komið upp atvik og fram ummæli sem ég verð nú bara að segja, að valda óhug hjá mér.  Þegar háttsemin eða ummæli eru borin upp á viðkomandi, þá er svarið "Djók, ég var bara að fíflast" eða eitthvað í þessa áttina.  Ef það er ekki húmor, þá er sagt að umræðan hafi átt sér stað á lokaðri vefsíðu, viðkomandi hafi verið sofandi, klassískt er "hún vildi þetta, en vissi það bara ekki" og nú síðast sá ég afsökunina "þú verður að skilja í hvaða samhengi þetta var sagt".

Með þessu eru menn (og konur) að réttlæta nauðganir, tilraunir til nauðgana, ósmekklegar vefsíður, tilraunir til mannráns og hugsanlega hópnauðgun, ósmekkleg ummæli, morðhótanir og hvað það nú var sem fólki datt í hug.  Þessi svarti húmor sem virðist tröllríða samfélaginu er greinilega farinn að ganga lengra en í gamla daga.  Þá var svarta húmornum beint gegn einhverjum sem maður þekkti.  Í dag snýst þetta um ókunnuga einstaklinga.  Ung stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi, þeir sem lesa upp Passíusálma, femínistar eða ekki femínistar.

Svartur húmor er ekki húmor nema gagnvart einstaklingi sem maður þekkir og veit að getur tekið gríninu.  Um leið og honum er beint gegn ókunnugum án þess að viðkomandi skilji samhengið, þá er það ekki húmor.  Það heitir meinfýsni, árás, ærumeiðin, hótun, siðbrot eða eitthvað í þá áttina.  Þeir sem ekki skilja þess línuna milli svarts húmors í hópi vina og svarts húmos sem beint er gegn ókunnugum eru í vondum málum.

Tilefni skrifa minna eru tvær fréttir í vefmiðlum í dag og í gær.  Fyrri er um fávita sem töldu það saklaust grín að þykjast ætla að draga með valdi unga stúlku inn í bíl fullan af ungum karlmönnum.  Þessi stúlka var svipt öryggi sínu í mjög langan tíma.  Hún mun líklegast aldrei aftur þora að ganga ein um miðbæ Reykjavíkur að kvöldi til.  Ég er ekki einu sinni viss um að ég myndi vilja að eldri dóttir mín gerði það og er ég viss um að fleiri hugsa eins.  Sagt er að þetta hafi hugsanlega verið gert í gríni.  Er það víst?  A.m.k. eru viðkomandi svo miklir heiglar að þeir þora ekki að gefa sig fram við lögreglu og hvað þá að biðja stúlkuna afsökunar á athæfi sínu.  Bjó kannski eitthvað annað að baki?

Hin er umfjöllun Eiríks Jónssonar um ummæli Egils Ólafssonar, formanns Vantrúar, á vef félagsins fyrir fjórum vikum, þar sem Egill segir:  "Til að taka af öll tvímæli þá vill ég láta banna Passíusálmana. Og ekki bara það, ég vil taka alla þá sem hafa tekið þátt í flutningi þeirra af lífi."  Þessi orð sem dæma sig sjálf hafa leitt til viðbragða frá konu sem hefur lesið Passíusálm í útvarpi, en hún segir að kannski sé best að leita eftir "pólitísku hæli í Kaupmannahöfn", eins og Eiríkur setur það fram.  Viðbrögðin láta ekki á sér standa og Eiríkur og hugsanlega viðkomandi kona eru sökuð um húmorsleysi.  

Hann er orðinn merkilegur þessi "húmor" í dag, þar sem bara "innvígðir og innmúraðir" skilja brandarana en þó er þeim beint gegn einstaklingum sem ekki eru "innvígðir og innmúraðir".  Málið er að þó þetta séu brandarar í huga þess sem lætur vitleysuna út úr sér eða framkvæmir hlutinn, þá er þetta langt frá því að vera fyndið í huga þess, sem vitleysunni er beint að.  Það vill svo til að hópnauðganir eru allt of algengar hér á landi.  Stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi sem reynt er að draga af bláókunnugum inn í bifreið á ferð getur ekki búist við neinu öðru en að tilgangurinn hafi verið að nauðga henni.  Morðhótanir settar fram í "gríni" eru ekki grín fyrir þann sem "gríninu" er beint að, ef ekkert bendir til þess að um grín sé að ræða.  Einn broskarl hefði dugað til að breyta skilaboðunum á augabragði.

Nú hef ég ekkert upp á Vantrú að klaga annað en einhliða málflutning, en hann er þeirra réttur.  Ég veit ekki betur en að innan Vantrúar sé þverskurður af þjóðfélaginu, þ.e. fólk í alls konar stöðu.  Það þýðir að "grínhótun" frá Vantrú er jafnmikið "grín" og frá einstaklingum í kristnum söfnuði, múslima, hindúa eða búddista.

Áður en hér hellist yfir fólk haldið heilagri reiði, þá er punktur minn í þessu öll: 

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Lestu ummæli Egils í samhengi. Fer eitthvað á milli mála að þetta er kaldhæðni?

Nei, það er afskaplega augljóst að svo er.

Til útskýringar: Umræðan fjallar um það hvort vonda fólkið í Vantrú vilji virkilega *banna* Passíusálmana. Útskýrt er að svo sé ekki, það megi alveg ræða og gangrýna án þess að vilja banna.

Eiríkur klippir athugasemd Egils meira að segja í sundur, svo hún misskiljist örugglega.

Þetta var engin hótun, ekki einu sinni "grínhótun".

Er fólk allt í einu farið að taka mark á Eiríki Jónssyni?

Matthías Ásgeirsson, 24.3.2012 kl. 13:20

2 identicon

"Er fólk allt í einu farið að taka mark á Eiríki Jónssyni?" ... segir Matthias Ásgeirsson af sínum dæmigerða Vantrúarhroka. Þetta svipar til þess þegar fyrrverandi formaður Vantrúar, Reynir Harðarson, hvatti félagsmenn til að leggja ákveðna einstaklinga í einelti. Það var víst líka bara grín og ekkert mark takandi á gagnrýni á þau orð.

Eru þið í Vantrú með lista yfir fólk sem bæði þið og við hin eigum að vita að ekki er mark takandi á?

Eða þurfið þið kannski að fara að endurskoða "húmorinn"?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 16:01

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Bergur, hættu að leggja mig í einelti. Ég má ekki skrifa athugasemd á bloggsíðu án þess að þú sért mættur á svæðið með eitthvað skítkast.

Matthías Ásgeirsson, 24.3.2012 kl. 16:04

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hélt að það væri búið að banna Berg Ísleifsson aka Grefilinn á MBL. ÞAð hefur verið lokað á hann í nokkur skipti og alltaf treður hann sér inn með sorann og gebilunina sína. 

Þetta er annars rétt sem Mattías segir hér, en hinni heilögu hneyksla klígjar ekki við að skálda og ljúga, taka úr samhengi og leggja mönnum orð í munn ef menn sjá safaríkan möguleika á píslarvætti á milli línanna.

Mér finnst þú leggjast lágt hér Marinó.  Þú ert þekktur af að kanna heimildir þínar og leitast við að fara með rétt mál. Af hverju gerir þú undantekningu hér?

Jón Steinar Ragnarsson, 24.3.2012 kl. 17:10

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Aðgát skal höfð í nærveru sumra sál, þegar það hentar. " væri kannski réttari útgáfa af mottóinu hér, Marinó.

Ef þú hefur lært einræður Starkaðar eftir Einar Ben, þá segir í sama erindi: "Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast við biturt andsvar GEFIÐ ÁN SAKA...

Kannski þú ættir að lesa kvæðið (sem er talsvert langt), svo þú náir innihladinu og getir með sjáfstrausti vitnað í það í réttu samhengi í stað þess að beita því í aandhverfu sinni, þegar það hentar.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.3.2012 kl. 17:18

6 identicon

Legg ég þig í einelti? Þetta hljómar einkennilgea frá manni sem tileinkar mér sérstakan þráð á sínu bloggi, eltir uppi það sem ég segi á öðrum bloggum og klippir það inn hjá sér án þess að geta hvaðan ummælin koma eða í hvaða samhengi þau eru.

Væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt Matthías.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 17:19

7 identicon

"ÞAð hefur verið lokað á hann í nokkur skipti og alltaf treður hann sér inn með sorann og gebilunina sína."

... Segir Jón Steinar Ragnarsson sem myndi helst vilja að þaggað yrði niður í öllum sem eru ekki sammála hans skoðunum og skilgreiningum því þeir eru að hans mati ekkert annað en geðbilaðir sorakjaftar, annað en hann sjálfur sem allt veit og ljómar af réttsýni.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 17:29

8 identicon

Takk fyrir góða og þarfa hug-vekju Marinó.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 17:38

9 identicon

höpp og slys bera dularlíki - er uppáhaldið mitt. Má til með að troða því hér að.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 18:07

10 identicon

Góðar athugasemdir hjá þér Marinó. Það er hvimleitt að svona hlutir séu afsakaðir og afgreiddir sem húmor og húmorsleysi þeirra sem gangrýna ósmekklega og/eða óviðunandi umræðu.

Inga Harðardóttir (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 18:11

11 identicon

Nýjasta nýtt.  Grefillinn hatar konur og þá sérstaklega femínista.

Enda erfitt að sjá einhvern húmor úr hans skrifum, þá allra síst þeir sem húmorinn beinist að.  Sjálfur er ég femínisti og sé akkúrat ekkert fyndið við þetta kvenhatur hans Bergs Ísleifssonar sem nú er orðinn yfirlýstur kvenhatari, karlremba og allherjar hatursmaður kvenna, sem sér ekkert að því að gera lítið úr mörghundruð ára baráttu til handa kvenfrelsi hér á landi sem og annarsstaðar.

Hvað næst, ætlar hann sér að nauðga til að svala hatri sínu?

http://grefillinn.com/islenskir-feministar-haettir-ad-bursta-tennurnar

Björn I (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 18:59

12 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> "þetta hljómar einkennilgea frá manni sem tileinkar mér sérstakan þráð á sínu bloggi, eltir uppi það sem ég segi á öðrum bloggum og klippir það inn "

Svo lesendur fái rétta mynd af þessu, þá er umræddur þráður samansafn ummæla Bergs um mig á öðrum síðum. M.ö.o. þá er þráðurinn staðfesting á eineltinu sem þessi blessaði maður leggur mig í. Ekki eltist ég við það sem Bergur Ísleifsson skrifar um aðra.

Matthías Ásgeirsson, 24.3.2012 kl. 19:29

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er ekki viss um að Marinó hafi verið að óska eftir að fá þennan dýragarð inn á sig.

Theódór Norðkvist, 24.3.2012 kl. 19:37

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Steinar, ég hef margoft lesið kvæðið og þarf ekki yfirlestur frá þér.  Ég fékk Kvæðasafn Einars Benediktssonar í fermingagjöf og hef lesið margt gott í því.

Er fólk ekki á átta sig á því sem ég er að segja?  Mér er alveg sama hvað var meint.  Það sem skiptir máli er hvernig menn koma meiningu sinni á framfæri og hvernig sá sem fær "grínið" eða "kaldhæðnina" á sig upplifir hlutina.

Matthías, ég las að sjálfsögðu athugasemd Egils og eins og ég segi, þá hefði broskarl breytt miklu.  Lestu allt sem ég skrifa áður en þú gagnrýnir mig fyrir að lesa ekki það sem aðrir skrifa.

Marinó G. Njálsson, 24.3.2012 kl. 20:29

15 identicon

Í grein þeirri sem ég bendi á, notar Bergur Ísleifsson aldrei broskarl.

Ég, sem femínisti og faðir þriggja dætra, tel því augljóst að óttast beri þann einstakling sem svona skrifar gagnvart femísinstum hér á landi og kvenfólki yfir höfuð.

Vonandi nauðgar Bergur Ísleifsson ekki konum líkt og skrif hans bera með sér í mínum augum að hann vilji gera, en þannig upplifi ég skrif hans.

Björn I (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 20:53

16 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> "Matthías, ég las að sjálfsögðu athugasemd Egils og eins og ég segi, þá hefði broskarl breytt miklu. Lestu allt sem ég skrifa áður en þú gagnrýnir mig fyrir að lesa ekki það sem aðrir skrifa."

1. Gagnrýndi ég þig fyrir það?

2. Broskarl hefði engu breytt. Við höfum reynsluna!

3. Ég las allt sem þú skrifaðir

Matthías Ásgeirsson, 24.3.2012 kl. 21:52

17 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég er innilega sammála þér.  Manni blöskrar að lesa sumt ruglið sem er sett fram og það virðist sem að fólk geti ekki hugsað áður en það skrifar og sést sú árátta ágætlega á því sem hefur verið póstað hérna.  Mér sýnist að menn skilja ekki "Aðgát skal höfði í nærveru sálar"  Eins og þú hef ég lesið Einræður Skarkaðar eftir Einar Ben þó nokkrum sinnum og er alltaf jafn hrifinn af því.  Það er djúp speki í orðum Einars og það mættu fleiri taka þau sér til fyrirmyndar:)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 24.3.2012 kl. 22:17

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hélt að þú hefðir nóg af alvöru réttlætismálum að berjast í og skrifa um Marinó þótt þú bætir ekki á þig feisbúkksyndróminu og leitir uppi ummæli og túlkir þau máli þínu til stuðniongs. Máli sem er svo dæmigert fyrir þessa þrasáráttu og væl, sem einkennir íslenska orðræðu.

Þú getur nært í þér ergelsið endalaust ef þú hefur bara viljann til. Liggðu á feisbúkk og eltu uppi athugasemdakerfið á vef Vantrúar, lestu Eirík Jónsson og náðu þér í áskrift á DV. Þá ertu vel settur. Gangi þér vel í þrasinu og heilagri hneykslaninni. Ekki ætla ég að stoppa þig. Ég er annars furðu lostinn á að sjá þig á þessu lága plani og hélt þig meiri mann en svo.

Með fullri virðingu annars.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.3.2012 kl. 23:25

19 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Jón Steinar,

Er ekki rétt að þú lesir aftur yfir færsluna hjá Marinó?  Mér sýnist þú hafa alveg sleppt að lesa innihaldið:)  Stundum verður maður bara einfaldlega kjaftstopp yfir að sjá það sem vellur út á bloggsíður íslendinga.  Hvort sem mönnum líkar það betur eða ver, þá eru bloggin orðin að rödd þjóðarinnar og þau er það sem fólk les.  Þar eru oft höfð uppi stór orð og skotfærin ekki spöruð.  Mér dettur í hug frægt Lúkasarmál sem gekk hér fyrir nokkrum árum þar sem mannorðsmorðin út af nákvæmlega engu gengu á báða bóga!  Eins og Marinó sagði, hvert svo sem tilefnið er og hver svo sem meiningin er, þá ættu menn að hafa í huga orð Einars, "Aðgát skal höfð í nærveru sálar" 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 24.3.2012 kl. 23:39

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Steinar, ég skil ekki innlegg þitt.  Ég hef aldrei elt uppi athugasemdir á Vantrú.  Ég ákvað að fletta upp þessari tilteknu umræðu svo ég sæi hvað það væri sem Eiríkur var að tala um.  Svo ekki væri hægt að segja að ég hefði ekki kynnt mér umræðuna. Ég hef oft átt í góðum skoðanaskiptum við Vantrúarmenn, sem Matthías getur vitnað um.  Við höfum ekki verið sammála um alla hluti, en fyrr má nú vera að menn væru sammála um allt.

Annars er ég að tala um þróun sem gengur út á að vera með svartan húmor í opinberri umræðu eða athöfnum á almennafæri sem er óskiljanlegur öllum öðrum en í besta lagi þröngum hópi.  Ég er að benda á, að mikilvægt sé að menn átti sig á að ekki sé hægt að nota svartan húmor ef sá sem "gríninu" er beint að hefur engan möguleika á að skilja "húmorinn" eða að um grín hafi verið að ræða.

Orð Egils voru hugsanlega "djók", en ekki er nokkur leið að skilja það við lestur þeirra.  Einn broskarl hefði gert það kleift.

Varðandi það að ég eigi bara að halda mig við einn vettvang, eða þannig skil ég orð þín, þá er það merkileg af manni sem tekur þátt í alls konar umræðu.  Ég er ekki að þrasa við einn eða neinn og neita að ég sé á lágu plani að fjalla um misheppnað "grín" manna sem hræddu líftóruna úr ungri stúlku um síðustu helgi með því að reyna að toga hana inn í bíl í miðborg Reykjavíkur.  Ég hefði líka getað nefnt orðaskak femínista og anti-femínista, meinta nauðgun sem er búinn að vera til rannsóknar hjá lögreglu, Eirík Jónsson sjálfan sem er stundum með ólíkindum í skrifum sínum o.s.frv.  Fyrr má nú samt vera viðkvæmni að ekki megi gagnrýna einn "innvígðan og innmúraðan" án þess að stórskotaliðið sé kallað til að svara fyrir.  Af hverju segja menn ekki í staðinn:  "Jú, það hefði skilist betur að um grín var að ræða, ef Egill hefði bætt broskarli við textann sinn."

Marinó G. Njálsson, 25.3.2012 kl. 00:05

21 identicon

Sæll Marínó.

Umræða um svipuð efni og þú tekur fyrir hér að ofan, Marínó, hefur verið víðar í gangi síðustu daga og hverfist að nokkru um tilvitnuð ummæli Egils Óskarssonar (sjá t.d. blogg Valgarðar Guðjónssonar og Hörpu Hreinsdóttur).

Hins vegar vil ég vekja athygli á innleggjum nafnleysingjans og (að eigin sögn) þriggja barna föðurins "Björns I" í þessum athugasemdahala. Er ég einn um að finnast hann rætinn úr hófi, reyna að ata aur á Berg Ísleifsson og gera honum upp skoðanir án nokkurrar sýnilegrar ástæðu eða samhengis við umræðuefnið? Hver er þín skoðun á því, Marínó? Finnast þér ummæli "Björns I" innan siðamarka?

Helgi Ingólfsson (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 01:35

22 identicon

Hér er allt við það sama, Matthías Ásgeirsson kominn í fórnarlambsgírinn sem hann hrekkur í með reglulegu millibili (þar sem hann mun vafalaust spóla næstu vikurnar ef ég þekki hann rétt) ... Jón Steinar Ragnarsson sem eitt sinn var bara nokkuð skemmtilegur bloggari hefur breytt sjálfum sér í nettröll sem nú situr við að útdeila rétthugsun sinni og vandlætingu í garð þeirra sem hann telur á lægra plani en hann er á sjálfur ... og svo þessi "Björn I" ... ég veit ekki hvað skal segja við hans makalausu rætni í minn garð hér fyrir ofan. Sennilega best að segja sem minnst, enda dæma svona rógberar sig sjálfir með orðum sínum.

"Björn I" virðist reyndar nærast á persónuárásum og skuldar t.d. að mínu mati Halla gamla, bloggara hér á blog.is, enn afsökunarbeiðni fyrir árás sína á hann í desember síðastliðum sem enn má lesa hér í athugasemdum #3 og #6.

Hvað það er sem hrjáir svona sálir eins og "Björn I" er fyrir ofan minn skilning á mannlegri breyskni. En ég er svo sem orðinn vanur svona árásum frá Vantrúarfélögum og þeim sem fylgja þeim félagsskap að málum.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 07:26

23 identicon

Afhverju var lokað ítrekað á blogg þín hér á moggablogginu Bergur?

Hve grófur þarf málflutningur manns að vera til að ábyrgðarmenn síðunnar fari út í svona aðgerðir?

Og Helgi, þetta er bara orðið sorglegt að sjá þráhyggju þína gagnvart þessu félagi?

Hvað er að frétta að umsókn þinni í Vantrú?

Einar (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 11:27

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Á þessari síðu hefur verið í gildi sú regla að ræða skal um efnið, en ekki manninn.  Nú gef ég öllum síðasta sjéns að halda sig við umræðuefnið, en það er hvernig hugsanlegur svartur húmor er notað í auknu mæli á ókunnuga eða persónulegar árásir af ýmsum toga eru sagðar vera "djók" þegar í ljós kemur að hann fellur ekki í kramið. 

Tilefnið var hjá mér tvær færslur á vefmiðlum, en er langt frá því að ég sé að einskorða mig við þær.  Átti ég svo sem vona á því að annað tilefnið félli í grýttan jarðveg, en hinu yrði ekki svarað og jafnvel ekki fjallað um það.  Svo hefur orðið.  Ég spyr samt aftur þá sem verja ummæli Egils: "Hefði "grínið" ekki skilist betur, ef því hefði fylgt broskarl?"  Það er nefnilega þannig að án hans er allt önnur merking í setningunni.

Varðandi einstaka nafngreinda einstaklinga í færslum, þá þekki ég nokkra þeirra ekki neitt, aðra lítillega, svo eru tveir sem ég hef átti í samskiptum við hér á blogginu af og til frá haustinu 2007 um "trú" og "trúleysi" og loks einn sem hefur oft rætt hér um mál líðandi stundar.  Alla bið ég um að halda sig við umræðu efnið og láta persónulegan ágreining eiga sig.  Athugasemdum, sem ekki uppfylla þessi skilyrði, verður einfaldlega eytt.

Marinó G. Njálsson, 25.3.2012 kl. 12:46

25 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> Ég spyr samt aftur þá sem verja ummæli Egils: "Hefði "grínið" ekki skilist betur, ef því hefði fylgt broskarl?" Það er nefnilega þannig að án hans er allt önnur merking í setningunni.

Svarið er: nei, það hefði engu breytt. Vísa ég þar til ummæla um "heilagt stríð" og hlæjandi broskarl sem þeim fylgdi. Ef fólk vill hneykslast, þá finnur það sér tilefni til þess. Það ættir þú að vera farinn að þekkja sjálfur eftir umræður síðustu ára.

Það hefði átt að duga að Egill skrifaði: "Mikið ofboðslega er það hvimleitt hvað fólk er fljótt að fara að röfla um ritskoðun og bannhyggju þegar einhver vogar sér að hafa skoðun á hlutunum." í sömu athugasemd og sýndi þar með að hann var að sjálfsögðu að reyna að sýna hvað umræðan væri galin með orðum sínum á undan. Það hefur að mínu mati miklu meira vægi en broskarl.

Matthías Ásgeirsson, 25.3.2012 kl. 15:14

26 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Og þér (Marinó) finnst væntanlega líka alvarlegt mál þegar ritstjóri býðst til að taka ómakið af Vestmannaeyingum ef þeir fremji ekki sjálfsmorð og að fólk á Facebook "hóti" þeim "dauða" sem senda leikjabeiðnir.

Eða er kannski einfaldara að gera kröfu um að fólk hafi lágmarks skilning á að því umhverfi og tilefni sem ummæli eru látin falla?

Valgarður Guðjónsson, 25.3.2012 kl. 18:08

27 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Valgarður, mér finnst allur svona svartur húmor sem beint er gegn aðilum utan þess hóps sem skilur út á hvað hinn svarti húmor gengur vera óviðeigandi sé ekki gert neitt til að benda á að um "grín" sé að ræða.  Ég geri mun á góðlátlegu gríni og svörtum húmor í þessum efnum.  Færslan er að mörgu leiti uppsafnaður pirringur út af torskyldum húmor.

Matthías, ég þakka þér fyrir að taka undir þennan punkt minn um að nauðsynlegt geti verið að aðgreina dauðans alvöru frá því sem ekki er meint.  Ég tók bara broskarl sem dæmi, en ýmislegt annað skilar sama árangri.

Marinó G. Njálsson, 25.3.2012 kl. 18:31

28 identicon

Marinó:

Þetta er ekkert spurning um húmor innan einhverra hópa og torskylinn fyrir aðra þar fyrir utan.

Í tilviki Egils er nóg bara að lesa ummælin í því samhengi sem þau eru sett fram í.

Að rífa svona eina setningu sem sett fram í hæðni, úr umræðu og setja fram eins og um alvöru hefði verið að ræða eins og Eiríkur gerir... er mjög auðvelt.

En ég hefði þó ekki trúað því að þú myndir láta plata þig svona og dreyfa ruglinu síðan áfram. Hélt að þú værir vandaðari í málflutningi en það og kynntir þér málin áður en þú tjáir þig um þau. :/

Einar (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 21:43

29 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, ég las ummæli Egilsí því samhengi sem þau voru sögð.  Ekkert í því sem aðrir sögðu réttlættu þann "brandara" að leggja það til að allir sem lesið hafi Passíusálmana skuli teknir af lífi.  Ég er síðan ekkert að draga mig inn í umræðu um ummæli Egils, heldur er ég að nota þau sem dæmi um svartan húmor sem getur gengið í þröngum hópi, en er illskiljanlegur fyrir þá sem eru utan hópsins.

Mikið væri annrs gott ef menn hættu að pikka út þeta eina atriði og fjölluðu um inntakið, þ.e. furðulegan svartan húmor.

Marinó G. Njálsson, 25.3.2012 kl. 21:56

30 identicon

Það verður seint hægt að skilgreina húmor, hvort sem hann telst svartur eða ekki, svo vel að allir geti fellt sig á sama hátt við þá skilgreiningu. Það sem einum finnst fyndið finnst öðrum ekki fyndið og ræður þar auðvitað smekkur hvers og eins fyrir fyndni og húmor yfirleitt.

En þegar þegar einhver eða einhverjir skilgreina sinn eigin smekk fyrir fyndni þannig að allir sem "fatta ekki djókið" séu heimskingjar þá held ég að þeir hinir sömu séu komnir á villigötur í "húmornum".

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 26.3.2012 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1680022

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband