24.2.2012 | 21:52
Mjök erum tregt tungu at hræra
- Mjök erum tregt
- tungu at hræra
- eða loptvætt
- ljóðpundara;
- esa nú vænligt
- of Viðurs þýfi
- né hógdrægt
- ór hugar fylgsni.
Svo hefur Egill Skallagrímsson Sonatorrek sitt. Ekki þarf ég líkt og Egill að syrgja syni mína, en mjög er mér samt tregt tungu að hræra og orð mín eru ekki hógdræg úr hugarfylgsni.
Í gærdag skrifaði kona athugasemd inn á færslu hjá mér. Hún kallar sig Hönnu. Vil ég vekja athygli á skrifum hennar vegna þess að þetta er enn ein sendingin sem ég mér berst, þar sem fólk sér ekki aðra leið út úr vandræðum sínum en að taka líf sitt.
Hanna setti inn tvær athugsemdir. Sú fyrri hljómar svona:
Blessaður
ég er 60 ára fráskilin með 4 uppkomin börn og keypti mér íbúð við skilnaðinn 2005, sem ég átti tæp 50% í. Greiðslur á mánuði áttu að vera um 40 þúsund krónur. Lánið var tekið hjá spron með föstum 4,15% vöxtum í 40 ár. Upphæðin var 10 milljónir. Í dag þarf ég að borga rétt rúmlega 80 þúsund og lánið er komið í 18 milljónir. Ég missti vinnuna 2010 og nú get ég bara ekki meir. Drómi leyfði mér að frysta lánið í heilt ár en afborganir hafa nú lagst á mig að fullum þunga.
Ég sé fram á að eina atvinnan sem ég fæ sökum aldurs er væntanlega skúringar eða sjoppuvinna. Launin fyrir það munu aldrei duga fyrir öllum nauðsynlegum útgöldum, hvað þá að reka bíl eða fara í frí. Nú nenni ég ekki meiru. Búin að vinna alla mína hundstíð og algerlega fyrirsjánlegt að tíminn sem ég á ólifað fer í peningaáhyggjur og skrimmt. Ég þarf nauðsynlega að komast til tannlæknis en kostnaðarmat hans er um 800 þúsund. Aldrei skal ég leggjast uppá börnin mín enda hafa þau sko meir en nóg með sitt.
Enda kannski fer best á því í þessu "jafnaðar þjóðfélagi" hennar Jóhönnu að maður klári þetta bara sjálfur frekar en að fara í biðröð á elliheimili eða líknadeild þegar þar að kemur.
Og síðari færslan er:
Ég þakka hughreystingarorð en hvað von hef ég er mér spurn? Lottovinning? held ekki. Allt sem ég hef nurlað saman á langri æfi hefur verið tekið af mér og satt best að segja má ég bara þakka fyrir að þurfa ekki á heilbrigðiskerfinu að halda. Tennurnar missi ég eflaust og eftir að hafa verið í þokkaleg vel launuðum störfum allt mitt líf og aldrei skuldað neinum neitt er ég bara búin að fá nóg. Ég skulda ekki bíl, yfirdrátt, vísa eða neitt. Fallast hreinlega hendur við ellinni og sé ekki fram á neitt gleðilegt. Auðvitað á ég yndisleg börn og barnabörn en sé bara fram á að verða baggi á þeim og ég veit nú þegar hafa þau áhyggjur af mér. Ég hef akkúrat ekki ráð á neinu. Ég hef stolt og mér finnst það bara hreinlega alveg óbærileg hugsun að geta ekki tekið þátt í lífun vegna fátæktar. Ég er nú þegar einangruð vegna féleysis og skammar yfir að vera atvinnulaus svona lengi.
Nú þarf ég bara að safna kjarki til að ganga þannig frá málum að það valdi sem minnstri sorg meðal minna nánustu og að það sé borin virðing fyrir ákvörðun minni.
Fyrirgefðu mér, Hanna, ég sá ekki skrifin þín fyrr en lögreglan hringdi í mig í morgun. Já, þeir góðu menn hjá Lögreglu höfðuborgarsvæðisins hringdu í mig til að fá upplýsingar um þig. Eftir að hafa lesið færsluna, sem ég vegna annríkis hafði ekki lesið, þá gaf ég þeim þær upplýsingar sem ég hafði. Ég gerði það vegna þess að þeir báðu um það. Ég vona að þeir hafi fundið þig og taktu þeim sem verndarenglum. Það er a.m.k. einhver sem vakir yfir þér.
Í allan dag er ég búinn að vera að velta fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við þessu. Skrif mín hafa ekki verið hógdræg úr hugarfylgsni. Ég sendi þér fyrst kveðju í morgun og vona ég að þú hafir séð hana. Ef ekki þá birti ég hana til vonar og vara:
Hanna, ég er búinn að vera á kafi og sá ekki færsluna fyrr en vakinn var athygli mín á henni.
Ég hvet þig til að leita aðstoðar fagfólks. Hringdu í Rauðkross línuna og talaðu við fólk þar. Talaðu við börnin þín og barnabörn. Fagnaðu því fallega í lífinu og reyndu að gleyma því slæma. Stígðu frekar fram og fjallaðu um mál þitt svo hægt sé að nota þína reynslu til að bæta kerfið. Svo hægt sé að minnsta kosti fækka þeim sem eru í þínum sporum. Skömmin er ekki þín. Mundu það. Skömmin er kerfisins sem kom þér í þessa stöðu.
Safnaðu kjarki til að tala um mál þitt við alla í kringum þig, til að vinna þig út úr stöðunni. Börnin þín og barnabörn munu lifa við það um aldur og ævi að hafa ekki getað hjálpað mömmu og ömmu. Ekki missa trúna á að þau geti það. Aldrei missa trúna á hið góða í manninum. Mundu að ekki þarf nema eina eldspýtu til að lýsa upp myrkrið í kringum þig og meðan eldspýtan logar hefur myrkrið engin ráð. Notaðu eldspýtuna til að kveikja á kerti og fyrsta kertið til að kveikja á öðru og því þriðja og fjórða o.s.frv.
Fyrst og fremst mundu að skömmin er ekki þín.
--
Ég veit ekki hvað þær eru orðnar margar svona sendingarnar sem ég hef fengið. Fyrsta barst í febrúar 2009. Sú kona er enn á lífi, en baráttan við bankann sinn hefur hún háð þindarlaust þessi þrjú ár. Er þetta eitthvað líf? Eru peningar fjármálafyrirtækjum svo mikils virði, að þau gleyma að viðskiptavinirnir eru af holdi og blóði.
Nú skora ég á Dróma (þar sem Hanna segist í viðskiptum við fyrirtækið) að fara í gegn um bækur sínar og finna hana Hönnu sem tók lán hjá SPRON árið 2005 og koma til móts við hana. Aldrei ætla ég að voga mér að segja fjármálafyrirtækin bera ábyrgð þegar fólk tekur líf sitt, en þau eru hluti af því umhverfi sem margt örvæntingarfullt fólk er í. Ekki bara það, viðbrögð fjármálafyrirtækjanna eykur oft á örvæntingu fólks.
Til allra fjármálafyrirtækja: Sýnið manngæsku, sýnið skilning, sýnið auðmýkt! Þið munið hagnast á þessu þegar fram líða stundir.
Af allri þeirri auðmýkt sem ég á og virðingu.
Marinó G. Njálsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 46
- Sl. sólarhring: 69
- Sl. viku: 354
- Frá upphafi: 1680492
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta er dapurlegt. Ég óska þessari góðu konu alls hins besta og hugsa hlýlega til hennar. Ég er í starfi þar sem fólk í svipaðri stöðu og hún kemur þegar allar aðrar virðast lokaðar. Suma er hægt að aðstoða, aðra ekki.
Það tekur alltaf jafnmikið í hjartað að horfa upp á fólk reyna að halda reisn sinni í vonleysinu. Stolt margra leyfir þeim ekki að leita til sinna nánustu, hvað þá til vandalausra. Frekar situr fólk eitt í vanlíðan sinni og reynir að þrauka dag frá degi.
Skömmin er ekki Hönnu.
Skömmin er þjóðfélagsins sem leyfir slíkum hlutum að gerast.
Skömmin er þeirra sem hafa á valdi sínu að koma fólki til bjargar en gera það ekki.
Skömmin er fyrirtækjanna sem setja hagnaðarvonina ofar mannúð og réttlæti.
Mesta skömmin er þó kannski okkar. Við gleymum því stundum í okkar eigin daglega þrasi að rétta út hendur og bjóða fram aðstoð okkar við þá sem erfiðara eiga en við.
Ég vona að Hanna lesi bloggið þitt Marinó og sjái skilaboðin frá þér. Ef svo er vil ég segja við hana:
Þú ert ekki ein. Langt í frá. Við erum mörg. Mér þykir vænt um þig þó ég þekki þig ekkert. Ég tek á með þér og reyni, svipað og Marinó, að rétta hlut þeirra sem eru í svipaðri stöðu og þú þó á öðru sviði sé.
Trúðu mér. Réttlætið mun ná fram að ganga. Haltu höfðinu hátt og mundu: Það eru margir sem hugsa fallega til þín og óska þer alls góðs.
Hjalti Tómasson, 24.2.2012 kl. 22:41
Takk fyrir þetta, Hjalti.
Marinó G. Njálsson, 24.2.2012 kl. 22:43
Sæll Marinó. Það er mikið á þig lagt. Þessi saga er dæmi um þá angist sem heiðarlegt fólk berst við á hverjum degi.
Skömmin um að geta ekki staðið í skilum við sínar skuldbindingar er að fara með margan manninn í gröfina.
Fólk hefur mætt skilningsleysi stjórnvalda, bankastofnanna, Alþingis og eftirlitsstofnanna sem eiga að vinna í þágu okkar.
Ég vil einnig meina að Hæstiréttur okkar íslendinga sé að hafa okkur að fíflum og setja okkur niður. Að geta ekki talað skýrt í sínum dómum, þannig að það sé gefið færi á að hagsmunafélög, stéttafélög og Alþingi okkar, gefist tækifæri á að fara túlka þeirra dóma. Er ekki talað eitt tundumál hérna á Íslandi í yfir 2000 ár?
Ég vakti athygli á í útvarp sögu í samtali við Margréti Tryggvadóttur þann 22.feb.sl, um að þessi gengislán væru mögulega ekki inn í efnhagsreikningum bankanna, því þau væru ekki daglegri keyrslu hjá Reikningsstofnun Bankanna (RB). Ég ræddi um að þett gætu verið tilhæfulausar kröfur bankanna. Það hefur ekki verið gerð úttekt á lánagrunni þessara lána, og undir það tók hún Margrét. (ég skora ykkur á að hlusta- spurningar mínar og svör Margrétar í síðdegisþættinu, eða lok þáttarins eða síðustu 10 mín.
Það er sorglegt að fólk kjósi að kveðja þennan heim með þeirri lýsingu sem þú skrifar hér og vitnar til í þinni færslu. Mér finnst kominn tími til að sannleikurinn komi fram í öllum þessum málum.
Eru lánin raunveruleg skv. lánareglum bankanna eða einungis tilbúningur í kerfi utan við RB.
Þetta er grundvallarspurning til að fá svar við, áður en við förum að eyða meiri tíma Hæstaréttar í að fella dóma um þessi lán.
Eggert Guðmundsson, 24.2.2012 kl. 23:11
Eggert, tökum umræðuna um lánin annars staðar. Þessi færsla er um angist og örvæntingu fólks sem komið er með bakið upp við vegginn.
Ein ábending til Dróma: Þið gætuð gert heilmikið fyrir ímynd fyrirtækisins með því að skoða stöðu þessarar konu.
Marinó G. Njálsson, 24.2.2012 kl. 23:35
Það er satt að þessi færsla er áminning um þá ángist og örviljan fólks vegna athafna og gjörða- Dróma-LÍ-Íslandsbanka og Arion. Ég skil þetta fólk mæta vel, og þess vegna skrifaði ég inn til þín.
Fólk sem er að berjast fyrir tilveru sinni þarf að fá vissu sína fyrir réttlætinu. Hvar réttlætið liggur er spurning sem fólk í þrautum þarf að fá svarað.
Það er rétt að umræðan um lánin þurfa að fara fram annars staðar- en umræðan þarf að gefa fólkinu von.
Eggert Guðmundsson, 24.2.2012 kl. 23:54
Hanna þarf einskis að óttast.
Lántakendur munu allir sem einn takast saman höndum í 2012 - Krefjast leiðréttingu á höfuðstóli sínum.
Höfuðstóll Hönnu verður 10 milj. á ný, mínus afborganir síðustu ára en auðvitað á höfuðstóll láns ekki að hækka ef greitt er af láninu.
Auðvitað mun réttlætið sigra að lokum, gengislántakendur hafa þurft að bíða í rúm 3 ár og verðtryggðu lántakendur þurfa að bíða aðeins lengur.
Verðtrygging á íbúðarlán er ólöglegur gerningur ! Það á eftir að falla dómur um það og allir fá leiðréttingu og fólk mun endurheimta sitt.
Marta Dís (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 00:13
Beittasta vopn lánþegans í sömu stöðu og Hanna, er einfaldlega sú að hætta greiða af lánum sem ekki er greiðslugeta fyrir. Taka síðan því sem að höndum ber. Fara í gjaldþrot sem tekur 2 ár að fyrnast og eignast ráðstöfunarrétt yfir innkomu sinni hver sem hún er. Veita sér og sínum það sem hugurinn girnist. Njóta lífsins meðan tök eru á.
Ég vona að það verði sú ákvörðun sem Hanna tekur og njóti samvista við sína nánustu um ókomin ár. Ég veit það auðveldara að segja þetta en að framkvæma en fyrir marga er þetta eina lausnin að mínu mati.
Hanna: Hoppaðu af hlaupahjólinu og brostu framan í börn og barnabörn! Það er sú ákvörðun sem allir munu bera virðingu fyrir! En ekki skilja þau eftir í sorginni! Aldrei!
Erlingur Alfreð Jónsson, 25.2.2012 kl. 01:41
Erlingur, ég og Hanna verðum að hætta þessu píslarvættahlutverki...
Við verðum að muna eitt MIKILVÆGT
Það er búið að brjóta á okkur, fjármálastofnanir hafa séð til þess að festa íbúðarlán "ólöglega"
Með verðtrygginguna að vopni að gera fólk eignarlaust.
= Við erum fórnarlömb fjármálastofnanna.
= Það er búið að ræna okkur !
Eigum við þá að lúta höfði og segja ; gjörið svo vel, þið fjármálastofnanir fáið hér eignir okkar með ævilöngumm sparnaði ?
Eigum við að verðlauna fjármálastofnunum þannig ?
Fyrir það að hafa brotið á okkur.
Og hvað ætti Hanna að gera í þessi 2 ár, atvinnulaus
frú sem getur ekki hugsað sér að vera upp á börn sín kominn ?
Ekki er leigumarkaður til sem virkar hér á ÍS.
2ja herbergja íbúð í RVK kostar 140 þ. á mánuði.
Verðtryggðir lántakendur mega aldrei gefast upp !
Mætti óska þess að gengislántakendur sumir hefðu lifað þennan dag að sjá þetta klúður leysast í hæstarétti.
Og má óska að fórnarlömb verðtryggingar munu sjá réttlætið sigra.
Elsku Hanna , Erlingur og öll fórnarlömb verð og gengistryggingar.
Berjist fyrir rétt ykkar - Aldrei gefast upp !
Og láta glæpastofnanir landsins stela af ykkur aleigu og stolt ykkar, þessar fjármálastofnanir eru ekki þess virði.
Heil þjóð er fórnarlömb þeirra og við getum og munum taka saman höndum.
Saga Hönnu er með til að skvetta bensín á eldinn.
Innra eldfjall almennings mun brátt gjósa !
Marta DÍs (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 09:32
Til Hönnu og Mörtu Dísar
við munum fá uppreisn æru
þanngað til verðum við að halda áfram, halda ljósinu ílífi okkar logandi og hafa óbilandi trú á réttlætið
Ef við eigum erfitt þá eru allir í kringum okkur tilbúnir að aðstoða okkur og hlusta. og það er ótrúlegt hvað margir eru tilbúnir að gefa af sér. Við þurfum bara að láta vita af okkur.
Hanna haltu í ljósið, það birtir upp um síðir
Elísabet Maack Petursdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 09:46
Engin spurning - allir þeir sem gefast ekki upp og leyfa fjármálastofnunum að sigra munu fá uppreisnar æru.
Uppgjöf almennings er sigur fjármálastofnana !
Þess vegna má engin gefast upp svo einfallt er það barátta Hönnu og annarra er fyrir heildina.
Saga Hönnu er ein af mörgum myndum af því óréttlæti sem hefur átt sér stað..
Og ágætt ef hún hoppar út úr píslarvætta hlutverk í hlutverk baráttukonunar sem hún augljóslega er !
Það þarf fleirra baráttufólk eins og hana sem útskýrir hverskonar vonlausa stöðu fjármálastofnanir geta komið fólki í, allt byggt á ólöglegum gerningi.
Þetta á auðvitað ekki að vera hægt !
Marta Dís (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 11:11
Það er erfitt að játa sig sigraðan. Það er erfitt að horfa upp á það að allt sem maður hefur lagt á sig er unnið fyrir gíg. Ég ákvað samt fyrir nokkru að sleppa takinu. Leyfa þessu bara að fara. Hætti að borga og neitaði að semja. Því hvað getur einhver sem lifir á atvinnuleysisbótum einum saman svo sem samið um?
Og hvernig líður mér? Ég hef sjaldan fundið annan eins létti. Í fyrsta skipti í langan tíma finn ég fyrir frelsi. Þyngslunum hefur verið létt af brjóstinu. Ég sef aftur á nóttunni. Það er eins og allt sé að opnast, allt er að verða eðlilegt aftur.
Ég hef rætt mínar ákvarðanir við vini og vandamenn. Leitað ráða hjá fagfólki. Allir eru sammála um að það sem ég er að gera er það eina rétta í stöðunni.
Ég var samt lengi vel ekki viss. Kannski gæti ég sparað meira, samið um lengri afborganir og vonast til að fá vel launaða vinnu, varpað vandamálinu aðeins lengra inn í framtíðina. Eftir því sem á leið áttaði ég mig á að mínar væntingar voru óraunsæjar. Ég hefði þurft að hafa minnst þrefalt hærri tekjur en ég hafði fyrir hrun, bara til að rétta af þennan persónulega fjárlagahalla sem hafði skyndilega hlaðist upp vegna tekjuleysis. Ekki miklar líkur á að það væri að fara að gerast.
Íbúðin mín verður boðin upp eftir rúma viku. Það skelfilegasta sem ég hafði getað ímyndað mér er raunverulega að gerast. Og það skrítna við þetta allt er að ég finn fyrir tilhlökkun. Þetta er svo mikill léttir. Því þegar ég er laus þá verð ég aftur sú sem ég var áður en þetta byrjaði allt saman.
Auðvitað þekki ég ekki framtíðina og veit ekkert hvað verður. En ég tek einn dag í einu og leysi vandamálin bara um leið og þau koma upp. Það skrítna sem gerist að lausnirnar virðast birtast jafnóðum og þeirra er þörf, allt gengur allt í einu bara eins og það gerði hérna einu sinni.
Ég vil að þú vitir Hanna, þú ert alls ekki ein. Ég vil óska þér alls hins besta og vona að þú hafir gæfu til að finna leiðina út sem hjálpar þér við að endurheimta þína lífsgleði. Peningar eða eignir eru ekki þess virði að fórna andlegu og líkamlegu heilbrigði fyrir. Lífið hefur upp á svo margt miklu dýrmætara að bjóða.
Gangi þér sem best.
HA (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 11:16
Marta Dís: Ég er ekki í neinu píslarvættarhlutverki. Hvet bara fólk til að hætta greiða áður en það grípur til örþrifaráða.
Erlingur Alfreð Jónsson, 25.2.2012 kl. 11:48
Sæll Marino ,langar að hitta Hönnu sem skrifar til þín nr mitt er 8977309 með bestu kveðju Ólöf
Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 12:27
Erlingur ég meina að allir lánþegar með verðtryggð lán koma fram eins og píslavættir.
Auðvitað eiga allir sem einn með ólöglegt lán að vera löngu hættur að taka þátt í vitleysunni, að borga af ólöglegu láni.
Ég vona eins og þú að Hanna sé löngu hætt að greiða af ólöglegur láni sínu enda ef hún er að greiða af einhverju sem hún veit er ólöglegt, væri hún óbeint að brjóta lög með því einu að viðurkenna kröfu og greiða.
Lánþegar hafa bara því miður farið í píslarvottahlutverk og ekki séð annað en að halda þrældómnum áfram eða fara í þrot ?
Engin hefur krafist leiðréttingu, Íslendingar svo vanir verðtryggingu að þeir trúa að hún sé lögleg ?
ATH. Það hefur engin þorað að fara í mál, þó að það sé mjög augljóst samkvæmt alþjóððlegum stölum að einmitt húsnæðislán mega ekki vera verðtryggð.
Verðtrygging er einfaldlega talin of áhættusöm og of flókið fyrirbæri fyrir venjulegt fólk.
___________________________________________________
Gjaldþrot getur verið neyðarlausn fyrir suma en sorgleg lausn ef það eru ólögleg lán sem hafa hrakið fólk út í þau örlög.
Auðvitað þegar fjármálastofnanir komast upp með að brjóta á fólki og brjóta það niður.
Ég er að vonast til að sjá lánþega rísa upp úr lömun sinni og berjast fyrir rétti sínum.
Þá er ég svona vongóð um að lánþegar munu sigra því verið er að safna í þúsund manna her sem munu fara í hópmál við banka, og fá við það aðstoð að utan.
Það mál mun sigrast og lánþegar landsins munu endurheimt líf sitt.
Vona að sem flestir tóri þangað til, og verjist að láta birta fyrir sér.
Því án þess að húseigandi taki við bréf frá sýslumanni er ekki hægt að selja eignina á nauðungaruppboði.
Þannig að ef Hanna vil frekar nota peningin í leikhús en til að borga af ólöglegum lánum skil ég hana vel,
hún þá bara að verjast sýslumann þangað til að lánþegar hafa unnið mál sitt og verðtryggð lán verða leiðrétt.
Mitt ráð :)
Marta Dís (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 13:30
Til gamans má nefna, að áróður um að lánþegar þurfa óbeint sjálf að greiða leiðréttingu á verðtryggingu, er auðvitað bara áróður komin frá fjármálastofnunum sem brjóta á fólki. Þeir eiga vel efni á leiðréttingu eins og eignastaðan er í dag.
Grein
Eignir bankanna komnar yfir 3.000 milljarða ;
http://www.visir.is/eignir-bankanna-komnar-yfir-3.000-milljarda/article/2012120229317
ættu þess vegna að geta notað nokkra miljarða í að komast á mót við þá sem þeir hafa brotið á,
Marta Dís (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 13:58
Ég óska Hönnu og fólki í sömu stöðu alls góðs í baráttunni og alls ekki mega þau gefast upp. Það er með ólíkindum að vinnusamt fólk sem einfaldlega er að kaupa sér íbúð skuli lenda í þessum óförum. Vísitalan sem notuð er til grundvallar verðtryggingunni, og hefur oftar en einu sinni verið breytt, eru reikniskúnstir sem munu ekki standast úrskurð dómstóla kæmu þær fyrir sem dómsmál. En hún dugði ágætlega til að þenja út banka- og sparisjóðakerfið og halda uppi launaspillingunni þar fyrir hrun.
Sigurður Ingólfsson, 25.2.2012 kl. 14:03
Marinó. Skuggahliðar ólöglegra rána eru því miður þaggaðar niður, og látið sem þetta sé óþarfa væl í þeim rændu og sviknu. Svívirðileg siðblindan er ráðandi afl á Íslandi. Því miður eru margir nú þegar búnir að gefast upp og svifta sig lífi. Þetta er sannleikur sem er ekki hægt að loka augunum fyrir. Manneskjur með samvisku þola ekki endalaust óréttlæti.
Það er mikilvægt að muna að líf hvers og eins er númer eitt, og ómetanlegt. Svikult ránskerfi er einskis virði. Gjaldþrot er ekki endir alls lífs, að mínu mati. En það er gríðarlega erfitt að stíga það skref að fara á vanskilaskrá, vegna svika stjórnsýslunnar og rána fjármálastofnana, en það er ekki endir alls.
Ég bið alla góða vætti gefa þessari góðu konu og öðrum í svipaðri stöðu, þann styrk, kjark og von sem þarf, til að þola og takast á við svona óréttlæti.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.2.2012 kl. 15:33
Takk enn og aftur Marinó fyrir alla þína ötulu og drengilegu baráttu fyrir hönd okkar venjulega fólksins.
Það er skelfilegt þegar óbilgirni endurreistra fjármálastofnana og makkera þeirra til ríkis-verðtryggðs lífeyris innan laga- og framkvæmdavaldsins er orðin þeirra eina og sameiginlega stökkbreytta krafa okrarans um pund af holdi.
Tek svo undir góð orð Önnu Sigríðar:
"Ég bið alla góða vætti gefa þessari góðu konu og öðrum í svipaðri stöðu, þann styrk, kjark og von sem þarf, til að þola og takast á við svona óréttlæti."
Látum okrarana ekki skera úr okkur hjörtun!
Stöndum saman og veitum hvort öðru styrk og þolgæði gegn viðurstyggðinni, því innst inn í tikkandi hjörtum okkar vitum við að réttlætið og sanngirnin hafa alltaf sigur ... miklu fyrr en síðar. Einungis blindir og steinrunnir valdherrar halda annað í sinni sturluðu valda- og fégræðgi.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 16:37
Ég vil bara láta vita af því að búið er að hafa upp á "Hönnu". Hringt var í mig frá lögreglunni mér sagt af því. Fjölskylda hennar er mjög þakklát fyrir þau viðbrögð sem voru sýnd. Ég er það líka.
Marinó G. Njálsson, 25.2.2012 kl. 16:43
Ég er búin að lesa bloggið og allar athugasemdirnar. Ég sé að það er fullt af yndislegu fólki þarna "úti"
Og kannski á ég mér von, líka.
Ég þarf að fara að læra að lifa fyrir einn dag í einu. en ekki að hafa áhyggjur af hvað gerist næsta vetur. það fer með mig.
Takk Marínó, fyrir að skrifa þessa sögu-eða sögur. Og ég er fegin að "Hanna" er fundin.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 25.2.2012 kl. 18:16
Það er gott að "Hanna" er fundin. Það er hins vegar umhugsunarefni hvað margir standa í sporum þessarar konu. Eiga ekkert líf framundan og standa örvingluð og hrædd við framtíðina sem ber lítið annað en basl fyrir hverjum degi í einu.
Mikið hefur Ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á samviskkunni, ásamt Steingrími J Sigfússyni sem gengið hefur fram og sagt að nú verði ekkert gert meir. Gerir þetta fólk sér grein fyrir þeim mannfórnum sem þau raunverulega bera ábyrgð á. Tölur um afskriftir auðmanna og stórfyrirtækja segja sitt. Örlítið brot er ætlað venjulegu fólki, og þau úrræði sem í boði eru og ekki passa fyrir suma, mega éta það sem úti frýs.
Vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar og forvígismanna hennar í garð almennings, má segja að ríkisstjórnin og bankarnir hafi mörg hundruð mannslíf á samviskunni, mannslíf sem gefist hafa upp fyrir einurð og mannhatri bankanna og óbilgirni Jóhönnu og Steingríms.
Ég vil skora á fólk að reyna að þrauka, það kemur að því að þetta gamla fólk sem stjórnar núna fer sína leið og vonandi kemur í staðinn fólk sem vill raunverulega gera eitthvað til þess að það öryggisnet sem á að virka fyrir fólk í nauðum virki.
Að lokum, Guð blessi ykkur öll og standið keyk gagnvart bönkum og fjármálafyrirtækjum, skuldirnar verða gerðar upp við þessa fugla fyrr en síðar með einum eða öðrum hætti.
Helgi Jónsson, 26.2.2012 kl. 07:30
Helgi Jónsson
Fjármálastofnanir eru búnir að vera æfir út í ríkisstjórn. Þeir vildu helst vera búnir að hirða eignir af fólki og leigja þeim aftur eign sína á uppsprengdu verði. Það var ósk þeirra ?
Það hafa fjármálastofnanir gert við fólk sem ekki hefur nýtt sér úrræði ríkisstjórnar.
Nú er svo komið að lánþegar eru farnir að sofa vel á nóttinni á meðan fjármálastofnanir titra !
Allt er þetta í rétta átt fyrir lánþega sem brotið hefur verið á.
Marta Dís (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 10:09
Sæl verið þið hér og gott að lesa þessi frábæru innlegg hérna. Það sést á skrifum ykkar að enn ríkir samstaða og samhugur á meðal Íslendinga og fólk vill ekki láta kúga sig til eilífðarnóns. Þessi samstaða verður til þess að leiðrétting til hins almenna borgara mun verða, það er ekki lengur hægt að loka augunum fyrir því óráði sem búið er að vera á fjármálamarkaði Íslendinga.
Ég og eiginmaður minn tókum nú bara svona "venjulegt" íbúðalánasjóðslán vorið 2006, við áttum blokkaríbúð og seldum hana og fengum okkur lítið raðhús. Lánið var 18 miljónir og við borguðum með okkar eigin fé tæplega 9 miljónir, svo við vorum ánægð með okkur sem gefur að skilja.
Í dag er lánið komið í rúmlega 27 miljónir og það fé sem við áttum í eigninni er uppurið. Þetta er auðvitað staða sem gríðarlega margir eru í og þarf að stoppa, þarf að leiðrétta, láta fólk fá aftur það sem það átti fyrir hrun, það er mjög einfalt að það að það sem þarf að gerast!!!!
Baráttukveðjur vil ég senda ykkur samborgurum mínum, kveðju til allra þeirra sem ég veit að eru þarna úti og eru að gefast upp eða búnir að gefast upp. EKKI GEFAST UPP GOTT FÓLK. Komum fram, segjum okkar sögur, verum stolt, látum ekki buga okkar, við báðum ekki um þessa tilveru, við fengum hana í andlitið á einni nóttu, aldrei gleyma því!!!!
bestu kveðjur.
Anna Steinunn Þengilsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 14:32
Eg er mjog midur minn vegna Honnu. Eg bara skil ekki hvernig Isklenska rikisttjornir geta mokad ut fulgu fjar, i alls kyns haefileikalausa falska listamenn, gefa peim marga miljonir i Listamanna laun.alls kyns styrki,kaupa verdlaunir fyrir marga miljonir,bara til pess ad synast fyrir odrum pjodum,ad Island er staerri og sterkari en adrir.
Hvilik Soun a Rikispurfalinga svo pau geta leikid ser i dopleikjum,brennivin og friium til utlanda osv.
Ef eg vaeri Stodd a Islandi, eg mundi reyna ad halda stora tonleika, fyrir Honnu,og gefa peim sumu af tonleika peningum minum, i stadinn fyrir ad lata veitingahussin hirda 80% af minni hard vinnu. Hvers vegna er sumt folk so gradugt ad vera Rik a kostnad annara, eg skil pad ekki.
Skomm a Island I dag. Pvi er thetta sama land sem er eilifdar ad GORTA,um eitt eda annad, medan margir islendingar eins og Hanna eru orvaentingarfullir,vegna peningaleysis.
Eg hef ekki sofid igaer sidan eg las,pessa grein i Pressunni. Island hefur nog pening fyrirlistamanna fuskarar,sem verda ad lita eftir sjalfum ser, eins og Eg geri, sem Tonlistarkona og tonskald. Thetta er bara Politiska Greidslur fyrir vin og vandamenn. Hver einasta rikistjorn sem eg mann eftir er fullt af er Gjorspilltir djoflar.
Kveiktu a kertum og biddu til Guds .Eg skal lika bidja fyrir per.
Bestu Kvedjur
Indverska Prinsessan Leoncie.
LEONCIE (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.