16.2.2012 | 17:45
Þýðing dóms Hæstaréttar fyrir lántaka
Það rigna yfir mig fyrirspurnir um hvað niðurstaða Hæstaréttar í gær þýðir í raun og veru fyrir lántaka. Eins og alltaf er til einföld og ónákvæm skýring og síðan flókin og ítarleg skýring.
Einföld skýring
Endurreikna skal öll lán, þannig að miðað sé við íslenskan höfuðstól og samningsvexti frá lántöludegi til gildistöku laga nr. 151/2010. Dómar Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 hafa bara dagsetningarlegt gildi fyrir þau mál sem þar var fjallað um. Frá og með gildisdegi laganna, 29. desember 2010, gilda vextir í samræmi við ákvæði laganna. Ofgreiðslur og vangreiðslur eru dagvaxtareiknaðar og það sem eftir stendur á greiðandi á hverjum tíma annað hvort að greiða (ef um vangreiðslu að ræða) eða fá greitt (ef um ofgreiðslu er að ræða).
Hér er skautað framhjá mörgum atriðum, en aðferðin er einföld og gegnsæ.
Flókna skýringin
Svo er það hin leiðin og hun er endalaust flókin, þar sem álitamálin eru mörg. Mig langar að telja upp nokkur:
1. Fram að gildistöku laga nr. 151/2010 var innihald 18. gr. laga nr. 38/2001 annað en það er í dag. Spurning hvaða áhrif það hefur, þar sem þar datt mönnum ekki í hug að kröfuhafi gæti krafið skuldara um greiðslu, heldur bara að skuldari gæti krafið kröfuhafa um greiðslu.
2. Hæstiréttur segir að varnaraðili eigi að bera vaxtamuninn. Þýðir það hafi verið greitt á veikara gengi en á lántökudegi, þá megi ekki rukka hærri vexti fyrir þann gjalddaga, þó staðan uppreiknaðs höfuðstóls íslenskum krónum sé hærri en upprunalega höfuðstólsins umreiknuðum í krónur.
3. Hvert á lántaki að sækja ofgreiðslur?
4. Má kröfuhafi reikna vangreiðslur? Hvaða kröfuhafi á vangreiðslurnar séu þær til staðar?
5. Hvað á að gera varðandi samninga, þar sem lántaki mótmælti útreikningum kröfuhafa, þar sem dráttur hafið orðið á uppgjöri, þar sem eignir hafa verið teknar o.s.frv.
Margt af þessu er af sama meiði, þ.e. hver er réttur kröfuhafa til að rukka fyrir vangreiðslu.
Sátt Sjómannafélagsins
Nú mun sú staðreynd að um mál Sjómannafélags Íslands gegn Arion banka náðist sátt utan dómstóla líklegast verða til þess að hægt er að deila um hvert lántaki á að sækja leiðréttingu sína. Hafi lán, t.d., verið tekið hjá Kaupþingi, farið þaðan inn til Seðlabanka Íslands og svo til Arion banka, þá er ekki á hreinu hvert lántaki á að snúa sér til að fá leiðréttingu. Auðvitað væri best, ef Arion banki tæki að sér að gera upp og myndi síðan sækja þann hluta endurgreiðslunnar, sem nær til gjalddaga áður en hann eignaðist lánin, til fyrri kröfuhafa.
Vangreiddir vextir
Hæstiréttur talar um að kröfuhafi eigi að bera vaxtamuninn. Spurningin er hvort það eigi bara við varðandi það að vaxtaprósenta samningsvaxta er lægri en seðlabankavaxta. Önnur hlið er nefnilega á þessu máli, þ.e. þegar endurreiknaður höfuðstóll er með hærri stöðu en upprunalegur höfuðstóll á tilteknum gjalddaga. Slíkt á sér að jafnaði stað þegar gengi á gjalddaga var lægra en gengi á lántökudegi. Þó þetta muni almennt ekki háum upphæðum, þá eru tilvik, þar sem munurinn er mikill. Ef túlka skal dóm Hæstaréttar þannig að ekki má rukka hærri vexti fyrir gefið tímabil en þá sem komu fram á tilkynningu eða greiðsluseðli, þá er óheimilt að hækka vaxtakröfuna þó þróun höfuðstólsins hefði átt að vera önnur. Hæstiréttur talar nefnilega ekki um vaxtaprósentuna heldur um vextina.
Stóra málið er samt ekki vangreiddir vextir.
Ofgreiðslur og hvert á að sækja þær
Langflestir lántakar hafa lent í því að ofgreiða, þ.e. bæði vextir og afborganir sem greitt var voru mun hærri en dómar Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010 og 600/2011 segja til um. Kjarninn í þessum dómum, svo það sé á hreinu:
a) Bannað er að nota gengistryggingu sem verðtryggingu og því skal höfuðstóll lánsins ekki breytast í samræmi við breytingar á gengi.
b) Samningsvextir skulu gilda á þegar greiddar gjalddagagreiðslur.
Fyrir þann sem hefur alltaf greitt af láni sínu, þá getur þetta haft í för með sér verulegar ofgreiðslur. Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að vinna sýnidæmi, en um leið og næði gefst, þá mun ég búa til nokkur dæmi byggð á raunverulegum tölu.
Spurningarnar sem vakna eru:
1) Hvert sæki ég ofgreiðsluna?
2) Hvernig get ég notað hana?
3) Má búast við töfum eða vankvæðum?
Þó svo að eitt ákvæði laga 151/2010 hafi verið dæmt ógilt, þ.e. afturvirknin, þá gilda önnur áfram. Lög nr. 151/2010 eru nefnilega ekki bara ólög. Margar greinar laganna voru mjög nauðsynlegar til að greiða úr þeirri óreiðu sem ógilding gengistryggingarákvæða lánssamninga hafði í för með sér. Því er eðlilegast að leita í lögin eftir leiðbeiningum um ofangreindar spurningar:
1. Lántaki snýr sér til kröfuhafa, þ.e. núverandi eiganda kröfunnar. Ef ekki er á hreinu hver á kröfuna, þá skal snúa sér til þess fjármálafyrirtækis sem sér um innheimtu kröfunnar. Í lögunum segir:
..Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar..
..Ef útreikningur á uppgjöri skv. 5. mgr. leiðir til þess að krafa sé að fullu greidd skal lánveitandi gefa út fullnaðarkvittun, hlutast til um afléttingu veðbanda og gefa út þær yfirlýsingar sem nauðsyn krefur. Ef skuldari á að loknum útreikningi skv. 5. mgr. kröfu á lánveitanda skal lánveitandi greiða þá fjárhæð sem upp á vantar eigi síðar en 30 dögum frá því að krafa er gerð um endurgreiðslu..
..Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings..
Hægt væri að tína til fleiri atriði, en þetta eru þau helstu. Niðurstaðan er að snúa sér til núverandi kröfuhafa og hann á að framkvæma uppgjör innan 30 daga frá því að gerð er krafa um endurgreiðslu.
Eiga einhverjir ekki rétt á endurútreikningi
Ég hef tekið eftir því að menn voru strax farnir að snúa út úr niðurstöðu Hæstaréttar og segja að úrskurðurinn tæki bara til þeirra sem eru í skilum. Það er rangt! Úrskurðurinn nær til allra greiddra gjalddaga áður gengistryggðra lána og kaupleigusamninga sem falla undir fordæmisgildi annarra dóma og úrskurða Hæstaréttar, þar sem gengisbinding hefur verið talin ólögmæt verðtrygging. Vissulega hefur rétturinn ekki fjallað um hvort nákvæmlega öll tilvik falli undir úrskurð hans, en allir sjö dómarar voru sammála um að lög nr. 151/2010 fælu í sér, hvað varðar afturvirkni vaxta, ákvæði sem ekki gæti gilt afturvirkt. Þannig að hvort sem viðkomandi hefur greitt af láninu eða ekki, þá er ekki hægt að..
..breyta með afturvirkum hætti reglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá þeim sem teljast hafa gilt þegar til þeirra var stofnað eða af þeim greitt..
Allir sjö dómararnir nota þetta orðalag, en meirihlutinn bætir um betur og segir til viðbótar:
Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeim sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.
Hvernig sem menn snúa þessu, þá er ekki hægt að breyta skuldbindingu afturvirkt, þannig að þeir sem ekki greiddu af lánum sínum, af hvaða ástæðu sem er, verða ekki krafðir um hærri vexti en samningsvexti. Að sjálfsögðu gilda ákvæði um dráttarvexti, en þá komum við aftur að lögum nr. 151/2010.
Í 5. mgr. 1. gr. segir m.a.:
Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar.
Sé verið að krefja um vanskilagjöld, þá dragast þau einfaldlega strax af.
Nær ákvörðun Hæstaréttar til fyrirtækja
Ég fæ ekki annað séð en svo sé. Vissulega er ég ekki lögfræðingur, en hef bæði rætt við lögfræðinga um málið og hlustað á þá tjá sig um málið í fjölmiðlum.
Úrskurður Hæstaréttar fellur á reglum kröfuréttar og þær gilda jafnt fyrir fyrirtæki sem einstaklinga. Raunar fellur á þeirri grundvallarreglu kröfuréttar að hinn eðlilegi dauðdagi kröfu sé greiðsla hennar, enda sé sú upphæð greidd sem skuldari er krafinn um, hún sé greidd á réttum tíma, á réttum stað og kröfuhafi hafi full afnot af greiðslunni. Hæstiréttur lítur svo á að greiðslutilkynningar verði hér lagðar að jöfnu við "fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni". Ekki verður séð að þetta atriði sé eingöngu tengt greiðslu einstaklings, enda breytist eðli greiðslutilkynningar eða fullnaðarkvittunar ekkert við það hvort handhafinn sé einstaklingur eða lögaðili.
--
Meira síðar.
Fallin fyrirtæki gætu látið reyna á stöðu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó,
Ég vona að mér leyfist að halda áfram pælingum mínum frá fyrri færslu hér.
Ég nefninlega er ekki að skilja hvaðan þessi hugmynd kemur að samningsvextir gildi fram að dómi um nýja vexti.
Í dómnum í gær (viðurkenni að ég var bara nákvæmlega núna að lesa hann í fyrsta sinn) segir í kafla III
"Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð."
Svo mörg eru þau orð, og svo segir:
" Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti. Var komist að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001."
Þessar greinar eru ss seðlabankavextirnir.
Ég get ekki betur séð en dómurinn segi það enn og aftur að samningsvextir falli niður með gengistryggingunni, þar sem þar á milli séu órjúfanleg tengsl.
Dómurinn staðfestir svo seðlabankavextina, en tekur fram að nýjir vextir geti aðeins tekið gildi EFTIR að dómur féll um seðlabankavexti.
Þess vegna spyr ég enn og aftur, hvaðan kemur þessi hugmynd að Libor vextir standi frá lántökudegi til dóms um nýja vexti þrátt fyrir að ítrekað sé búið að dæma að þeir geti ekki staðið án gengistryggingar.
Ég get ómögulega séð annað en að lánin séu vaxtalaus frá lántökudegi ti þess dags sem Hæstiréttur dæmir Seðlabankavextina og sannfærist meir og meir eftir því sem ég skoða þetta betur.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 18:49
Sælir.
Mjög áhugaverð túlkun Sigurðar #1, sé ekki betur en hann hafi rétt fyrir sér.
Annars er undarlegt að Seðlabankin og FME séu spurðir um túlkun dómsins, þetta eru þær stofnanir sem gáfu tilmælin sem síðar voru dæmd að ekki stæðust stjórnarskrá.
Það er órökkrétt að frá þeim komi hlutlaus túlkun. Þessar stofnanir þarf að hreinsa út.
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 20:35
Það er kannski rétt að benda á það að í einkamálum getur dómurinn aðeins tekið tillit til þeirra krafna sem eru lagðar fyrir dóminn af aðilum máls.
Það er hvergi í málinu að finna kröfu þess efnis að tímabilið frá lántökudegi og til dagsins sem Hæstiréttur dæmir nýja vexti skuli vera án vaxta.
Þannig að dómurinn getur í þessu tilfelli ekki tekið afstöðu, eða komið því að, að lánin skulu vera vaxtalaus á þessu tímabili og að allar afborganir tímabilsins renni óskiptar til lækkunar höfuðstóls.
Dómurinn ítrekar þó afstöðu sína að samningsvextir geti ekki staðið án gengistryggingar, og að Seðlabankavextir geti ekki gilt aftur í tímann.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 20:47
Mér sýnist þessi dómur vera afskaplega skýr. Hann snýst einvörðungu um fullnaðargildi kvittana.
Í fyrsta lagi er berum orðum sagt að vegna viðbótar vaxtakröfu þá gildi seðlabankavextir frá upphafi samnings en í dómnum segir m.a.(til viðbótar því sem Sigurður #1 tekur upp úr dómnum):
"Með þessu var fallist á með varnaraðila að skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 712986 skyldi bera allt frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001."
Ég les því það út úr dómnum að hafi fullnaðarkvittun verið gefin út þá gildir hún um það tímabil, bæði hvað varðar vexti og afborgun og það tímabil megi því ekki taka upp aftur, hvort heldur er fyrir eða eftir lög nr. 151/2010 eða eins og segir í dómnum.:
" Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar."
Takið eftir að þarna er dagsetningin 14. febrúar 2011 en ekki 29. desember 2010 sem er gildisdagur laga nr. 151/2010. Lögin skipta því engu í þessu sambandi.
Ég get því ekki betur séð en að endurútreikningurinn eigi að verða eftirfarandi:
Upphaflegur höfuðstóll að frádregnum höfuðstólsafborgunum samkvæmt kvittunum. Þannig ákvörðurð skuld miðaðað við síðasta greidda greiðsluseðil er vaxtareiknuð með vöxtum seðlabankans til framtíðar. Hafi greiddir vextir fyrri tímabila verið hærri en endurreiknaðir vextir skv. 4. gr. vaxtalaga þá er um oftekna vexti að ræða og ber fjármálastofnun að endurgreiða þá annars ekki. Sama á við ef búið er að greiða upp höfuðstól skv. kvittunum. Slíkar ofgreiðslur ber að vaxtareikna skv. 4. gr. vöxtum eftir því sem við á.
Grundvöllur dómsins er því "Greiddar kröfur dauðar kröfur"
Gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 22:12
Sæll
Í ljósi alls þess sem hér hefur gerst, þá er það óhjákvæmleg krafa að óháðir erlendir aðilar endurreikni lánin fyrir alla lánþega.
Við verðum að krefja þessa aumu ríkisstjórn um taka þetta mál á næsta level.
Ágúst (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 01:41
Merkilega athugað Sigurður #1
Sjáum hvað lögin segja (undirstrikanir eru mínar):
1936 nr. 7 1. febrúar/ Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga
36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
Með öðrum orðum: sé uppi vafi um merkingu samnings, eins og á einmitt núna við um þúsundir samninga að sögn yfirvalda, skal skilyrðislaust túlka þá neytendum í hag. Þar sem hugtakið "skýrt og skiljanlegt mál" er ekki skilgreint frekar vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort verðtryggingarákvæði lánasamninga uppfylli þá skilgreiningu yfir höfuð, en eitt í einu og klárum fyrst vextina:
[36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Hér segir að við mat á því hvort samningur teljist ósanngjarn skuli líta til atvika sem síðar komu til, svosem lagasetningu sem hækkar vextina. Þó skuli eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til neytanda í óhag. Með því að grípa inn í það og kröfu neytanda um túlkun samningsins sér í hag kunna stjórnvöld þannig að hafa gengið á eignarrétt neytenda og skapað ríkissjóði bótaskyldu. Þó er sagt að eigi skuli taka tillit til atvika sem síðar komu til neytanda í óhag, svo sem dómur eða lagasetning um hærri vexti, svo kannski getur ríkið enn komist hjá bótaskyldu án þess að breyta lögum, með því að framfylgja þeim eins og hér er lýst.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Ólögmætum og þar með ósanngjörnum samningsskilmála má þannig víkja til hliðar eins og hæstiréttur hefur áður skapað fordæmi fyrir, og um leið hinu "órjúfanlega sambandi" milli verðtryggingar og vaxta sem þýðir að bæði falla brott. Eftir stendur samningur sem að kröfu neytanda skal gilda að öðru leyti án breytinga, verði hann efndur öðru leyti. Telja má líklegt að flestir neytendur muni fallast á að slíkur lánasamningur verði efndur án vaxta. Um samninginn gilda þá að auki:
1994 nr. 121 21. september/ Lög um neytendalán
14. gr. Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
Með öðrum orðum: þar sem samningurinn er nú vaxtalaus er lánveitanda eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu vaxta. Að öðru leyti en þessu er ekkert fleira í samningnum varðandi vexti. Lög um neytendalán eru sérlög sem taka á neytendalánum sérstaklega, en lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með breytingum nr. 151/2010 eru almenn lög sem gilda um vaxtaberandi fjárskuldbindingar hvort sem þær eru neytendalán eða ekki. Samkvæmt almennri réttarfarsreglu um að sértæk lög í þeim tilfellum sem falla undir þau víki til hliðar almennari ákvæðum, fæst ekki séð að í tilvikum sem þessum komi ákvæði vaxtalaga yfir höfuð nokkurntíma til álita ef rétt er á tekið.
Árni Páll hefði átt að framfylgja réttum lögum en hljóp á sig og breytti röngum lögum á vitlausan hátt. Það myndi aldrei skapa ríkinu neina skaðabótaskyldu að framfylgja réttum lögum, heldur getur það þvert á móti gerst ef stjórnvöld vanrækja þá augljósu skyldu sína.
Þessari bannsettu ríkisstjórn verður allt að seyru.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.2.2012 kl. 10:23
Það er hvergi í dómnum sagt að samningsvextir eigi að gilda á þessum lánum til þess dags sem nýjir vextir dæmast á lánin.
Það er bara hvergi sagt.
Það er aðeins samþykkt krafa stefnanda að greiddir gjalddagar séu dauð krafa og verði ekki tekin upp aftur.
Sem sagt að afturvirkir vextir koma ekki til greina.
Af því leiðir í þessu tilfelli (og aðeins í þessu tilfelli) að greiddir gjalddagar standa óhaggaðir.
Það er engin krafa gerð í þessu máli að greiddir "samningsvextir" gangi óskiptir upp höfuðstólinn þar sem lánið á þeim tíma hafi verið vaxtalaust.
Ég ítreka, það er hvergi í dómnum að finna niðurstöðu að samningsvextir gildi þar til nýjir vextir dæmast á lánin, heldur er það aðeins afleiðing af þeirri kröfu stefnanda að greiddir gjalddagar standi óhaggaðir og sú krafa var samþykkt.
Að mínu mati bendir allt til þess að þessi lán séu vaxtalaus frá lántökudegi til þess dags sem nýjir vextir dæmast á lánið ef sú krafa yrði sett fram í nýju máli.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 17:53
Nei, eins og ég skil þetta er gengistengingin aftengt með fyrri dómi. Þá fóru menn í seðlabankavexti og allt það afturvirkt sem núna er verið að banna með þessum dómi. Í stað þessa gjörnings skal nota upphaflegu vexti. Frá lántöku og til 29 des 2010. Þannig að fyrri endurútreikningur fellur niður og lán skulu endurreiknuð aftur með hliðsjón af þessu vaxtastigi í íslenskum krónum. Það er það sem lánveitandi fór fram á og má ekki þá sækja meira en það. Óháð öllu öðru, en er ekki alveg vaxtalaust eins og Sigurður vill meina.
Með því móti ætti að greiðast inn á höfuðstólin eða ekki eftir því hvernig greiðsluflæðið verður á lánstíma og flest allir hafa þá ofgreitt lánin sem kemur þá til frádráttar höfuðstól eins og ég skil þetta.
Sá aðili sem heldur svo kröfunni lifandi með innheimtu, ber skaðan af því sem orðið er, hvaðan svo sem hann hefur keypt kröfuna og ef hann telur sig hlunnfarinn þá hlýtur hann að sækja sinn rétt til þeirra sem hann keypti kröfuna af, ellegar þá kaupir hann köttinn í sekknum.
Hinsvegar, ég er þess nokkuð viss að þetta ferli muni taka um 4-8 vikur í besta lagi á meðan lögin verða endurskoðuð og breytt, lán endurreiknuð með hliðsjón af nýjum aðferðum og botn kemst í málið. Þessi dómur er klárlega fordæmisgefandi og núna þarf þá að samræma það á öll gengislánaform sem til eru svo þau njóti þess öll en ekki bara sum, en það mun söngur kröfuhafa sem og afgreiðslustofnun kröfuhafa (a.k.a. Ríkisstjórnin) jarma um á næstu vikum.
Ergó: Við verðum að láta þau heyra það að það verður ekkert múður hér. Þegar ég fæ svo bréfið frá Lýsingu um að ég eigi inni hjá þeim tæplega hálfa milljón skal ég fara í ríkið og ná mér í góða wisky flösku. Fyrr ekki.
Árni Jón (IP-tala skráð) 17.2.2012 kl. 22:56
Árni Jón.
Hvar í dómnum lest þú það að það skuli gilda upphaflegir vextir frá lántöku til 29. des?
Í þessum dómi segir aðeins að ekki komi til greina að nota seðlabankavexti afturvirkt til að mynda hærri höfuðstól sem mætti nota til að skuldajafna við stefnanda.
Það er aðeins samþykkt krafa stefnanda að greiddir gjalddagar verði ekki teknir upp aftur.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 10:23
Þessi dómur snérist ekki um neitt annað en hvort það væri einhver hækkaður höfuðstóll til staðar sem mætti skuldajafna á móti málskostnaðarkröfu.
Krafa stefnanda var að greiddir gjalddagar yrðu ekki teknir upp og sú krafa var samþykkt.
Það segir einnig í dómstextanum að samningsvextir falli út með gengistryggingunni, og að seðlabankavextir gildi ekki aftur í tímann.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 10:36
Til þess að fá út vaxtaleysi verður að samlesa dómana þrjá sem hér hafa verið nefndir, 36. gr. samningalaga um rétt neytanda, og svo lög um neytendalán.
Í dómi hæstréttar á miðvikudaginn var aðeins dæmt eftir vaxtalögum, kröfurétti og stjórnarskrá. Enn hefur ekki verið tekið á neytendalöggjöf í hæstarétti, hvorki varðandi gengistryggingu né verðtryggingu.
Það sem er mikilvægt að athuga er að neytendalög veita lántaka ríkari rétt en önnur lög, og fyrirskipa beinlínis að kröfuhafi sé sviptur rétti sínum að hluta brjóti hann á neytanda. Neytendalöggjöfin leiðir meðal annars af EES-samningnum sem hefur gilt frá 1992 og væri því merkilegt ef hæstiréttur teldi hana stangast á við stjórnarskrárákvæði!
Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2012 kl. 05:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.