Leita í fréttum mbl.is

Endurskipulagning fjármála einstaklinga, heimila og fyrirtækja þarf að miðað við ársbyrjun 2008

Hlustaði aðeins á óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi áðan.  Forsætisráðherra er enn að berja hausinn upp við steininn.  Hún segir að mikið sé búið að gera, en gleymir því, að allt er meira og minna gert á forsendum fjármálafyrirtækjanna.

Ég veit ekki hve margir átta sig á, að verðbólga frá janúar byrjun 2008 til dagsins í dag er 37,4%, en frá hruni til dagsins í dag 22,7%.  Munar þarna 14,7%, sem er verðbólga frá byrjun janúar til hruns með uppsöfnunaráhrifum af síðari verðbólgu.  Ríflega 1/3 af tjóninu varð fyrir hrun. 

Myndin er ennþá verri, ef skoðuð er sveiflan á krónunni. Í töflunni hér fyrir neðan er gengi nokkurra gjaldmiðla í ársbyrjun 2008, 6. október 2008 og í dag.

DagsetningEURUSDCHFJPYGVT
1.1.200891,6562,3256,460,5687120,5
6.10.2008172,355127,455111,281,2585230,025
2.2.2012161,795123,19134,1951,6178221,15
Breyting frá 1.1.0876,5%97,7%137,7%184,5%83,5%
Breyting frá 6.10.08-6,1%-3,3%20,6%28,5%-3,9%

Taflan sýnir að hækkunin á gengi varð að langmestu leiti frá áramótum fram að hruni.  Eftir hrun eru það bara jen og frankar sem eru að halda áfram að kvelja menn og hækkun frankans nær ekki einu sinni breytingum á vísitölu neysluverðs.

Meðan ekki er búið að lagfæra afleiðingarnar á efnahagshruninu, sem átti sér stað frá áramótum 2008 fram að því þegar neyðarlögin voru sett, þá er ekki búið að koma hlutunum í samt lag.  Að fjármálafyrirtæki (þó þau séu ný) fái að stinga í vasann bara einhverri af þeirri hækkun skulda sem varð á þessu tímabili er staðfesting á því, að fjármálafyrirtæki eru hafin yfir lög.  Þau mega setja heilt hagkerfi á hausinn og stinga afrakstrinum í eigin vasa!  Þau mega stunda vafasöm viðskipti, sem líklegast stangast á við lög, en samt stinga hagnaðinum í vasann.  Þau mega fella krónuna og skapa verðbólgu til að hækka kröfur sínar á saklausa lántaka og þannig stefna öllu í voða, en samt stinga hagnaðinum í vasann.  Þau mega hunsa alla varúð, sýna gróft vanhæfi, svíkja, svindla, beita blekkingum og bjóða ólöglega þjónustu, en samt stinga hagnaðinum í vasann.

Meðan stjórnvöld líta svo á, að fjármálafyrirtækin séu löglegir eigendur þess fjár sem haft var af viðskiptavinum með þeim aðferðum sem lýst er að ofan, þá verður ekki friður í þjóðfélaginu.  Traustið er farið og það mun taka mörg ár að byggja það upp aftur.  Eitt skref í þá átt, er að unnið verði út frá skuldastöðu í upphafi árs 2008 og fundin út aðferð til að leiðrétta skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja í samræmi við það.  Hvort að lagt er 2,5% eða 4,0% árlega ofan á skuldastöðuna þá eða einhver önnur aðferð notuð, skiptir kannski ekki megin máli.  Hins vegar er út í hött að fara í leiðréttingar sem miða við að tjónið frá áramótum fram að hruni verið ekki bætt.  Það er út í hött að fjármálafyrirtæki sem voru þátttakendur í ruglinu (hvort heldur beint eða bara þáðu tekjurnar) eða voru stofnuð á rústum þeirra sem voru stærstu gerendurnir, fái að ráða hvernig leiðréttingin fari fram, hafi úrskurðarvald um líf og dauða fyrirtækja eða hvort fólk tapi eigum sínum, að ég tali nú ekki um, fái að hagnast um geðveikislegar háar upphæðir. 

Í mínum huga er þetta ekki ólíkt því að þjófagengi hafi brotist inn á heimili landsmanna og stolið þaðan öllu steini léttara.  Það sem þau hirtu ekki tóku minni gengi.  Nú þegar lögreglan nappaði gengin, stór og smá, þá fá þau að velja hverju er skilað og hverju þau eða þýfiskaupendur þeirra fá að halda eftir.  Síðan þurfa heimilin að greiða fyrir allar viðgerðir að auki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt Marínó. Hér mun aldrei nást sátt nema óréttlætið verði leiðrétt.

Arinbjörn Kúld, 2.2.2012 kl. 14:52

2 identicon

Við HRUNIÐ varð algör FORSENDUBRESTUR:

Mestu efnahagsmisstök Íslandssögunnar, eru þau að víxitalan var ekki tekin úr sambandi, allavega tímabundið strax eftir HRUN. Þessi mistök eru búin að valda landsmönnum, þvílíkum hörmungum og skaða, að engin fordæmi eru fyrir því í Íslandssögunni, nema ef móðurharðindin eru undanskilin.

Verðtryggð lán sem tekin voru á síðasta áratug, eru tekin þegar verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2.5-4% verðbólga, og almenningur gat ekki annað en trúað þessu.

Þannig að það væri hægt að sættast á þjóðarsátt, þar sem fallist væri á að fara bil beggja, og víxitalan færð til 1. jan 2008 með 3.25% verðbólgu á ári til 1. jan 2012 og 2.25% til 1. jan 2013, og þá afnumin.

Lagður verði 90% skattur á 170 miljarða hagnað Bankanna, og allar inneignir yfir 50 miljónir skattlagðar einusinni, fyrir þessum mistökum í Efnahagsstjórn, sem misvitrir stjórnmálamenn leiddu þjóðina út í, og ef norræna (velferðarstjórnin) fer ekki að skilja það að við hrunið varð algjör Fosendubrestur, þá verður að fara og boða alsherjar verkfall tímabundið um allt land, til að neiða ríkisvaldið út á Bessastaði, og yrðu margir tilbúnir að labba síðasta spölinn með þeim.

Síðan þarf að taka upp fjölmyntakerfi, sem viðurkendur lögeyrir hér á landi, t.d. króna, dollar, evra, og Norsk króna, og tengja gengi krónunnar við þessa myntkörfu, þar til krónan, hverfur.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 15:01

3 Smámynd: Jón Sævar Jónsson

Er í aðalatriðum sammála skrifum þínum um verðtrygginguna en hvernig á þá að tryggja að hæfir einstaklingar sitji við störnvölinn á komandi árum?

Ef landanum hefði borið gæfa til að hafa hæfa stjórnendur efnahagsmála skipti verðtrygging engu máli og væri þessvegna óþörf.

Þú skrifar líka um framferði bankanna en það er engu líkara en að fólk vilji hreinlega hafa það svona. Allavega halda þeir viðskiptamönnum sínum.

Ég skipti um banka eftir hrun en hef nánast ekki hitt einn einasta einstakling sem hefur gert það. Steininn finnst mér taka úr með að fólk sé enn í viðskiptum við Arion og Glitni sem við vitum ekki einu sinni hver á!

Einhverjir erlendir vogunarsjóðir sem kannski eru í eigu íslenskra bankaræningja. Fólki virðist slétt sama og á meðan svo er kemur ekkert til með að breytast. Enda af hverju ættu menn að vera að breyta þegar fólkið sýnir ekki klærnar?

Jón Sævar Jónsson, 2.2.2012 kl. 17:54

4 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

'A meðan Ríkið fær tekjur af verðhækkunum í formi hækkunar á lánum landsmanna mun skriðað halda áfram og þeir munu halda henni við. Er það ekki mAkalaust að einhver kaupheðinn flytur inn vörur og getur hækkað verðið að geðþótta sínum - sem kemur til með að sprengja upp verð fasteigna ? Hvað er fólk að pæla !!! er ekki nokkur leið að stoppa þessa örvita áður en öll þjóðin nema útrásarliðið og sjálftökuliðið er orðið eignalaust ? HVERJIR EIGA ÞÁ AÐ BORGA SKATTA SVO BRUSSEL GENGIÐ KOMIST ÚT TIL AÐ KAUPA FÖT ?

Erla Magna Alexandersdóttir, 2.2.2012 kl. 21:36

5 identicon

Það er algert forgangsatriði að leggja af verðtrygginguna, það bara verður að ske ef ekki með góðu þá með valdi.

Af hverju má fé ekki rýrna? Verðbólga er bara útþynning á verðmætum, með verðtryggingu er verið að stinga hausnum í sandin og neita að horfast í augu við raunveruleikann.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 22:35

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það á að byrja á því að fá uppgefið á hvað "nýju bankarnir" fengu sínar innheimtukröfur. Þá er ég að ræða um "verðtryggð lán og ólögleg gengisbundin  lán"

Það hefur komið fram að lán voru færð yfir á 50 % af höfuðstól. 

Út frá þessum yfirfærslum er hægt að reikna sig fram á stöðu fram til dagsins í dag. ÞAð greinir á aðferðir.

Það er sjálfsagt að fylgja verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands í þeim útreikningum, því það voru forsendur lántakenda í hverju tilfelli er varðar verðbólgu. Þessi verðbólgumarkmið  voru  bundin í lög, og allar áætlanir miðaðar við þau.

Það er búið að fella dóm hjá ESA um að breytilegir vextir séu ólöglegir á neytandalánum hér á Íslandi og í Evrópu (ESB).  (ekki birtur, veit ekki hvers vegna ! )

Vextir skuldabréfa (löglegra og ólöglegra) skulu gilda í útreikingum á lánum frá okt 2009.

Engar verðbætur skulu  reiknast í þeim útreikningum, enda eur þær ólöglegar skv. ESA.

Þetta skulu vera kröfur og ekkert annað til handa lántakendum íbúðarlána frá íslenskum lánastofnunum.



Eggert Guðmundsson, 3.2.2012 kl. 00:02

7 identicon

Enn er nægt svigrúm til að afskrifa skuldir af miljarðamæringum, án þess að ganga að veðum.

http://www.dv.is/frettir/2012/2/3/finnur-heldur-frumherja-thratt-fyrir-milljarda-afskriftir/

Finnur Ingófsson enn að fá miljarða afskrifaða ofan á fyrri miljarða afskriftir.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 08:38

8 identicon

Sæll Marínó  Ég tek undir með þér.  Það gengur ekki að einn hópur þjóðfélagsins taki sig út úr og neiti að axla sömu birgðar af hruninu. Það eru fjármagnseigendur með verðtryggingunni.   Ég get ekki ímyndað mér að þetta yrðið liðið annars staðar á byggðu bóli en á Íslandi.

Johann G. Asgrimsson (IP-tala skráð) 3.2.2012 kl. 08:43

9 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Ein tillaga um hvernig haga mætti endurskipulagningu fjármála skuldugra heimila:

http://thorsteinnhelgi.blog.is/blog/thorsteinnhelgi/entry/1220407/

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 3.2.2012 kl. 09:52

10 Smámynd: josira

Marínó, takk fyrir þennan góða og raunsanna bloggpistil ... Víða er pottur brotinn, í heimi banka-og fjársýslufyrirtækja, sem og í heimi ráðamanna þjóðarinnar.

josira, 3.2.2012 kl. 10:21

11 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Eggert: Til hvaða máls ertu að vitna um ólögmæti breytilegra vaxta á neytendalánum?

Erlingur Alfreð Jónsson, 4.2.2012 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1681299

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband